Gagnrýnin hugsun og orðræðugreining

Undanfarinn aldarfjórðung hefur ótalmargt í umhverfi okkar breyst, en fátt hefur þó breyst eins mikið og uppsprettur upplýsinga. Fram á tíunda áratug síðustu aldar fengum við mikið af upplýsingum okkar úr dagblöðum sem voru fimm, þar af þrjú opinber og yfirlýst flokksblöð og eitt óopinbert. Þessi blöð drógu að meira eða minna leyti taum flokkanna í fréttaflutningi sínum – en við vissum það og lásum fréttirnar með það í huga. Nú fáum við megnið af upplýsingum okkar á netinu – bæði frá innlendum og erlendum fréttamiðlum, en ekki síður frá samfélagsmiðlum. Þetta gerir allt aðrar kröfur til okkar um fréttamat.

Við erum að drukkna í upplýsingum og vitum að þær eru mistraustar. En við höfum ekki fengið mikla þjálfun í heimildarýni – í því að meta trúverðugleik upplýsinga sem við fáum. Ég hef áður sagt að ekkert sé brýnna að kenna í skólum landsins en orðræðugreiningu. Það hellist yfir okkur svo mikið af falsfréttum að það er lífsnauðsyn að fólk læri að greina sannleikann, hverju verið er að lauma að okkur, hverju á að láta okkur trúa, hvaða viðhorfum á að koma inn hjá okkur. Við megum ekki gleypa athugasemda- og gagnrýnislaust við hverju sem að okkur er rétt, undir yfirskini frétta eða fróðleiks.

Nú á dögum eru flest stærri fyrirtæki, félagasamtök, stofnanir og ráðuneyti með á sínum snærum kynningarstjóra, fjölmiðlafulltrúa, almannatengla, samskiptaráðgjafa og hvað það heitir. Fólkið sem velst í þessi störf hefur oftast fjölbreytta menntun og reynslu sem nýtist því – hefur oft starfað á fjölmiðlum um lengri eða skemmri tíma og er vant því að skrifa upplýsandi texta sem ná til fólks. Hlutverk þeirra er margvíslegt – að hafa samskipti við fjölmiðla og almenning, útbúa kynningarefni, svara fyrirspurnum o.s.frv. Síðast en ekki síst: Að skapa jákvæða ímynd af vinnuveitandanum.

Við þessa ímyndarsköpun er beitt fjölbreyttum aðferðum, en það sem okkur varðar er sú hlið sem snýr að tungumálinu. Það skiptir máli hvaða orð eru notuð og hver setningagerðin er. Vitaskuld er ekkert við þetta að athuga. Það er eðlilegt og sjálfsagt að vilja skapa sér jákvæða ímynd, og svo framarlega sem ekki er beinlínis farið rangt með er eðlilegt að tungumálinu sé beitt af kunnáttu í þeim tilgangi. Það er hins vegar hlutverk okkar, almennra málnotenda, að rýna í textann – skoða hann með gagnrýnu hugarfari, velta fyrir okkur hvað sé raunverulega verið að segja, hvað liggi á bak við, og hvað kunni að vera ósagt.

Þetta verkefni okkar er ekki einfalt en mikilvægt að þjálfa sig í því. Dæmi um orðræðugreiningu af þessu tagi má sjá í þremur pistlum sem ég skrifaði í fyrra um þrjár fréttatilkynningar útgerðarfyrirtækja – „Misnotkun tungumálsins“, „Orðræðugreining fyrir byrjendur“ og „Orðræðugreining fyrir lengra komna“. En eftir á að hyggja er titillinn „Misnotkun tungumálsins“ ekki sanngjarn. Það er ekki endilega um misnotkun að ræða þótt stjórnendur fyrirtækis beiti tungumálinu á þann hátt að þeirra hlutur verði sem bestur. Það er eðlileg málnotkun – frá þeirra sjónarmiði. Það er hins vegar okkar að sjá í gegnum hana.

Að banna frá þátttöku

Orðasambandið banna frá í merkingunni 'útiloka frá, meina aðgöngu / þátttöku' er orðið nokkuð algengt. Það virðist vera upprunnið í íþróttamáli og hefur verið langmest notað þar en kemur þó einnig fyrir í öðru samhengi. Elsta dæmi sem ég hef rekist á er í NT 1985: „Það hefur ekki gerst síðan 1919, þegar átta leikmenn voru bannaðir frá keppni ævilangt fyrir mútuþægni.“ En eftir það finn ég ekki dæmi fyrr en árið 2000. Þá segir í Morgunblaðinu: „Þar af leiðandi eiga lið sem eru í mikilli skuld á hættu að verða bönnuð frá slíkri keppni og einnig keppni í meistaradeild Evrópu og Evrópubikarkeppninni.“

Fleiri dæmi má finna frá sama ári, m.a. „Bílar voru þá bannaðir frá brautarsvæðinu á laugardegi vegna aurbleytu á bílastæðum“ og „Sam­tök sem berj­ast gegn kynþátta­for­dóm­um hafa kraf­ist að Jonathan Wood­ga­te og Lee Bowyer, leik­menn enska úrvalsdeildarliðsins Leeds, verði bannaðir frá öll­um leikj­um í Englandi þar til mann­orð þeirra verði hreinsað“ á mbl.is. Á vefnum fótbolti.net sem var opnaður 2002 hefur þetta samband verið mjög algengt alla tíð og á seinustu árum hefur það breiðst út til helstu fjölmiðla – elsta dæmið sem ég fann á vef Ríkisútvarpsins er frá 2015 og elsta dæmið úr Fréttablaðinu frá 2018.

Orðasambandið er langoftast notað um fólk og það virðist einkum þrennt sem fólk er bannað frá. Það eru í fyrsta lagi ýmiss konar störf eða athafnir – fólk er bannað frá að spila, afskiptum af knattspyrnu, dómgæslu, fótbolta, knattspyrnuiðkun, því að leika í skosku úrvalsdeildinni o.s.frv. Í öðru lagi eru viðburðir – fólk er bannað frá keppnisleikjum, æfingum, meistaradeildinni o.s.frv. Í þriðja lagi eru staðir – fólk er bannað frá búningsherbergi, hliðarlínunni, hótelinu, Kazakstan, nektardansstöðum, spilavítum, Old Trafford o.s.frv. Skilin milli þessara þriggja flokka eru reyndar ekki alltaf skýr.

Sjálfsagt má halda því fram að á bak við þetta liggi upphaflega einhver ensk áhrif en það er þó ekki svo að þetta sé bein þýðing á einhverju tilteknu ensku orðasambandi. Að banna frá getur samsvarað a.m.k. þremur enskum sögnum, eftir aðstæðum og samhengi – ban, exclude og suspend. Væntanlega er einnig um að ræða áhrif frá hliðstæðu sambandi með nafnorði í stað sagnar, bann frá, sem á sér mun lengri sögu í málinu. Í Morgunblaðinu 1970 segir: „Þjálfari liðsins, Marco, var dæmdur í bann frá allri þjálfun til ársloka 1972.“ Í Tímanum 1973 segir: „Þeir voru þá settir í ævilangt bann frá enskum úrvals- og landsliðum.“

Vitanlega væri hægt að orða þessa merkingu öðruvísi á íslensku – segja t.d. honum var meinað að spila, honum var bannað að mæta á æfingar, hann var útilokaður frá þátttöku í keppnisleikjum, hann var gerður brottrækur frá hótelinu, o.s.frv. En það þýðir ekki að ástæða sé til að amast við banna frá. Það samband fullnægir öllum skilyrðum til að teljast málvenja, og þar með rétt mál – það er meira en 20 ára gamalt, er algengt á prenti, er eðlilegt mál fjölda fólks, og ekkert bendir til annars en börn sem tileinka sér það á máltökuskeiði haldi því í máli sínu á fullorðinsárum. Mér finnst sjálfsagt að bjóða þetta samband velkomið í málið en ástæðulaust að láta það útrýma öðrum.

Að axla ábyrgð – eða ekki

Ein algengasta klisja sem notuð hefur verið í íslenskri umræðuhefð undanfarna áratugi er að axla ábyrgð. Elsta dæmi um það á tímarit.is er frá 1957 og fram til 1970 eru aðeins tíu dæmi um sambandið. Þeim fer að fjölga um miðjan áttunda áratuginn og hefur síðan fjölgað jafnt og þétt – voru t.d. meira en þrisvar sinnum fleiri á árunum 2000-2009 (2542) en tuttugu árum áður, 1980-1989 (783). Hæpið er að það sýni að ábyrgðartilfinning Íslendinga hafi aukist svo mjög í seinni tíð – augljóslega er þetta klisja sem hefur komist í tísku og er notuð í tíma og ótíma. Þegar árið 1998 var þetta orðið áberandi og þá skrifaði Ásgeir Sverrisson í Morgunblaðinu:

„Orðasambandið „að axla ábyrgð“ hefur svo gjörsamlega tröllriðið fjölmiðlum í landinu á síðustu vikum að meira að segja skólabörn eru tekin „að axla þá ábyrgð“ að fylgja settum reglum um útivistartíma. Foreldrum er gert „að axla þá ábyrgð“ að tryggja að afkvæmi þeirra noti reiðhjólahjálma […]. Fréttamenn spyrja hvort tilteknum gæfumönnum beri ekki „að axla ábyrgð“, almenningur krefst þess að ráðamenn „axli ábyrgð“ og sjálfir segja stjórnvitringarnir og skósveinar þeirra að réttum aðilum beri „að axla ábyrgð“. Öllum ber „að axla ábyrgð“ nema vitanlega þeim sem úthellt hefur speki sinni í hvert eitt skiptið.“

En hvað felst í því að axla ábyrgð? Árið 2007 birti Jón G. Friðjónsson bréf frá Sigurði Karlssyni í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu. Þar sagði: „Að lokum langar mig að minnast á orðasambandið axla ábyrgð. Það virðist ekki lengur notað nema í merkingunni ‘að segja af sér’. […] Minn málskilningur segir mér að það að axla ábyrgð hafi einkum tvenns konar merkingu. Annars vegar að maður taki á sig tiltekna ábyrgð, t.d. formennsku í stjórnmálaflokki, og hins vegar að maður taki ábyrgð á gerðum sínum hafi hann brotið eitthvað af sér.“ Jón sagði að orðasambandið virtist vera nýtt af nálinni, og því gagnlegt að velta merkingunni fyrir sér.

Skýringin á axla í Íslenskri nútímamálsorðabók er 'taka á sig (ábyrgð, verkefni)' og það stemmir við minn skilning á þessu sambandi. Fólk sem axlar ábyrgð tekur á sig ábyrgð á einhverju, orðum eða gerðum, sem það hefur ekki endilega komið nálægt. Ráðherra getur t.d. axlað ábyrgð á verkum einhvers undirmanns síns þótt honum hafi verið alls ókunnugt um þau og þau jafnvel verið í blóra við vilja hans. En að axla ábyrgð felur líka í sér afleiðingar. Ráðherrann í dæminu á undan gæti þurft að segja af sér (þótt það gerist aldrei á Íslandi) eða mátt þola hrakfarir í næsta prófkjöri eða kosningum.

Það ber hins vegar við að orðasambandið sé notað á annan hátt – notað í sömu merkingu og bera ábyrgð. En á þessu tvennu er – eða var – grundvallarmunur. Fólk ber ábyrgð á tilteknum hlutum, samkvæmt lögum, siðareglum eða almennum venjum í mannlegum samskiptum, og undan þeirri ábyrgð verður ekki vikist, hún er ekki valkvæð – en hún hefur ekki endilega neinar afleiðingar. Fólk getur hins vegar hafnað því að axla ábyrgð, sem felur þá í sér að það neitar að taka afleiðingum sinna eigin gerða – eða eftir atvikum fjölskyldumeðlima, undirmanna eða annarra sem fólk hefur með einhverjum hætti í umsjá sinni.

Þetta höfum við stundum séð í pólitískri umræðu. Stjórnmálafólk kemur í viðtöl og segist með ábúðarfullum svip munu axla ábyrgð á umdeildum verkum sínum. Eins og það hafi eitthvert val. Við kinkum kolli og hrósum því fyrir ábyrga afstöðu. En svo gerist ekki neitt. Þarna er nefnilega bara verið að segja það sem augljóst er og óumdeilt, að fólkið ber ábyrgð á þessum verkum. En það hefur engar afleiðingar fyrir það. Öðru máli gegnir hins vegar þegar stjórnmálafólkið segir við okkur að við verðum öll að axla ábyrgð á þessu. Þá vitum við hvað til okkar friðar heyrir. Þá hefur ábyrgðin afleiðingar – fyrir okkur, venjulegt fólk.

Íslenska kostar – ætlum við að borga?

Í þessum hópi hefur verið lögð mikil áhersla á að íslenska sé notuð á öllum sviðum á Íslandi, og það sé mikilvægt að fólk sem býr hér og starfar læri íslensku. Það er mikilvægt fyrir fólkið sjálft til að auðvelda því virka þátttöku í samfélaginu, það er mikilvægt fyrir okkur sem eigum íslensku að móðurmáli til að samskipti okkar við fólk sem hingað flyst verði sem greiðust, það er mikilvægt fyrir lýðræðislegt þjóðfélag til að koma í veg fyrir einangrun stórra hópa og tvískiptingu samfélagsins, og það er mikilvægt fyrir íslenskuna til að hún geti verið burðarás þess fjölmenningarlega samfélags sem við búum í – og viljum vonandi flest hver búa í.

En þetta er viðkvæmt og vandmeðfarið mál. Það verður að gæta þess vel að gera ekki óbilgjarnar kröfur um íslenskukunnáttu. Það tekur tíma að læra nýtt mál og geta verið ýmsar gildar ástæður fyrir því að fólk á erfitt með að læra íslensku eða lærir hana ekki. Það er sjálfsagt að hvetja fólk til að læra íslensku en við megum ekki undir neinum kringumstæðum sýna fólki ókurteisi vegna þess eins að það kunni ekki málið eða láta ófullkomna íslenskukunnáttu fólks hafa áhrif á framkomu okkar við það. Skortur á íslenskukunnáttu má ekki valda því að fólki finnist það vera óvelkomið. Við vitum að það er því miður stutt í rasisma og útlendingaandúð hjá sumum.

Það er hins vegar sjálfsagt og eðlilegt að gera miklar kröfur til fyrirtækja um að nota íslensku í auglýsingum, vefsíðum og hvers kyns markaðsstarfi, og til atvinnurekenda um að auðvelda starfsfólki sínu að læra íslensku og styðja það til þess – bjóða upp á íslenskukennslu í vinnutíma, greiða fyrir íslenskunámskeið o.s.frv. Vitanlega eykur þetta kostnað við að ráða erlent starfsfólk og ýmis fyrirtæki, t.d. í ferðaþjónustu þar sem erlent starfsfólk er yfirgnæfandi, munu auðvitað segja að Ísland sé nógu dýrt nú þegar og kostnaður við íslenskukennslu muni velta út í verðlagið og fæla fólk frá. Það er sjálfsagt satt og rétt.

En það liggur alveg fyrir að það fylgir því kostnaður að halda uppi sjálfstæðu tungumáli. Við höfum hingað til verið nokkuð sammála um að það sé þess virði – enda hefur ekkert kallað á annað og við höfum vart átt annan kost. En alþjóðavæðing og breytt samfélagsgerð veldur því að nú er komið að því að taka afstöðu: Teljum við mikilvægt að íslenska sé áfram aðaltungumál samfélagsins? Ef við neitum því, eða ypptum öxlum, getum við verið róleg og þurfum ekkert að gera – þá heldur enskan áfram hægt og bítandi að leggja samfélagið undir sig. En ef við svörum játandi þurfum við að vera tilbúin til að greiða þann kostnað sem því fylgir og grípa til aðgerða – strax.

Ég óttast hins vegar að þarna muni hljóð og mynd ekki fara saman, eins og nú er sagt. Bæði stjórnvöld og almenningur muni segja: Auðvitað viljum við halda áfram að tala íslensku, og gera það sem þarf til þess. En svo gerist ekkert. Við þurfum að átta okkur á því að ábyrgðin er okkar allra. Stjórnvalda, atvinnulífsins, og okkar, almennra málnotenda.

Þetta er pottþétt atviksorð

Orðið pottþétt hefur verið hálfgert tískuorð undanfarin ár. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið pottþéttur sagt lýsingarorð og skýrt 'alveg traustur', og sambandið þetta er pottþétt er skýrt 'þetta er alveg öruggt'. Í Íslenskri orðabók eru skýringarnar þær sömu en auk þess er þar skýringin 'pottheldur' og það orð er aftur skýrt 'alveg vatnsheldur'. Í elstu dæmum um orðið hefur það alltaf þessa bókstaflegu merkingu. „Stígvélin pottþéttu“ eru auglýst í Austra 1907, og í auglýsingu í Mána 1917 segir: „Og bændur lands og búalýður blessar þvílíkt verk, / að búa til svona vatnsföt, bæði pottþétt, mjúk og sterk.“ Orðið var sjaldgæft lengi framan af og er t.d. ekki að finna í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924.

En upp úr 1940 er farið að nota orðið í líkingum. Í Vísi 1943 segir: „En aðrir hafa reynst svo „pottþéttir“ að þátttaka þeirra í miðilsfundum hefir engan árangur borið.“ Í Austurlandi sama ár segir: „allt samstarf við „vinstri“ mennina var hégómi einn, nema með pottþéttum málefnasamningi um stjórnarstörf.“ Í Þjóðviljanum 1950 segir: „Hin sameiginlega blökk ríkisstjórnarafturhaldsins reyndist þannig pottþétt gegn öllum tilraunum til að umbóta á þessu sviði.“ Í Mjölni sama ár segir: „Svikamyllan er þannig pottþétt.“ Í Tímanum 1951 segir: „Fjögurra hjarta sögnin, sem þú tapaðir um daginn, var alveg pottþétt.“ Í þessum dæmum hefur orðið þá merkingu sem lýst er í orðabókum, þ.e. 'alveg traustur, öruggur'.

Eftir 1950 er orðið fyrst og fremst notað í þessari yfirfærðu merkingu þótt stöku dæmi séu einnig um bókstaflegu merkinguna. Það er samt athyglisvert að allt fram um 1980 er orðið iðulega haft innan gæsalappa – svo virðist sem yfirfærða merkingin hafi þótt óformleg og ástæða til að afsaka notkun hennar á prenti. Þannig segir í Vísi 1958: „En þótt samvizka Bretans kunni að vera „pottþétt“, eru þeir fleiri, sem heyra en þeir einir.“ Í Alþýðublaðinu 1961 segir: „Vörn FH sýndi mjög góðan leik í síðari hálfleik og virtist allt að „pottþétt“. Í Þjóðviljanum 1978 segir: „Persónulýsingar sjúklinganna eru allar „pottþéttar“ frá geðlæknisfræðilegu sjónarmiði, að þvi er ég best veit.“

Notkun orðsins eykst mjög á áttunda áratugnum og sérstaklega eftir 1980. Þá fara líka að koma fram ný tilbrigði í notkuninni, t.d. sambandið pottþéttur á. Elsta dæmi sem ég hef fundið um það er í Vísi 1973: „Russ Kunkel er alveg pottþéttur á því sem hann er að gera.“ Þarna merkir sambandið 'öruggur á, fær í' en svolítið annað tilbrigði er í „En ég er alveg pottþéttur á að við gætum það“ í Þjóðviljanum 1976. Þar merkir sambandið 'handviss um'. Í samböndum eins og pottþétt skemmtun, pottþétt stuð og fleiri hliðstæðum sem algeng eru í auglýsingum merkir orðið 'öruggt, sem klikkar ekki', en undirliggjandi er einnig gæðamat – pottþétt stuð merkir ekki bara 'öruggt stuð' heldur líka 'mikið stuð'.

En orðið er ekki bara lýsingarorð. Í seinni tíð er myndin pottþétt mun oftar notuð sem atviksorð í merkingunni 'örugglega' eða 'vel‘. Elsta dæmi sem ég hef fundið um það er í Þjóðviljanum 1978: „Að mínu áliti hefði Hrafn átt að endurskoða handrit sitt og leysa sumar senurnar, því margar hverjar voru of pottþétt skrifaðar.“ Í Helgarpóstinum 1979 segir: „Þetta var pottþétt vitrun.“ Í Morgunblaðinu 1981 segir: „Nei, þetta er pottþétt fiðrildi.“ Í tveimur seinni dæmunum er setningarstaðan þannig að pottþétt gæti verið lýsingarorð, en samhengið sýnir að merkingin er þarna 'örugglega' og því um atviksorð að ræða. Trúlegt er að dæmi á við þessi, þar sem setningarstaðan passar bæði við atviksorð og lýsingarorð, séu undirrót breytingarinnar.

Í fljótu bragði sýnist mér að í allt að tveimur þriðju nýlegra dæma um orðmyndina pottþétt á tímarit.is sé um atviksorð að ræða frekar en lýsingarorð. Nokkur nýleg dæmi: „Nú er kórónaveiran pottþétt að koma til Íslands“, „Þannig að á næsta ári geti ég pottþétt komist í keppnir og tryggi mér sæti á leikunum“, „Atvinnumennska í fótbolta hefði pottþétt hentað mér vel“, „Jón Sigurðsson var pottþétt með sárasótt eftir danskar vændiskonur“, „Hann er pottþétt lasinn, hugsar hún“. Þetta er þó líklega enn frekar óformlegt mál.

„Heldur þann versta en þann næstbesta“

Þið hélduð kannski að það væri búið að afgreiða Oatly-auglýsinguna? Ég held nú síður. Áðan sá ég mynd á Facebook með þeim ummælum „að skárra væri að hafa textann á ensku en að ráða ekki við að snara honum á íslensku skammlaust“, og í umræðum sagðist sá sem setti þetta inn telja „ensku skárri en ambögur“. Þetta virðist vera viðhorf margra, ef marka má þær undirtektir sem þess færsla fékk. Þetta felur í sér þá hugmynd að íslenska sé einhver ósnertanleg helgimynd sem enginn blettur megi falla á. Betra að hafa ensku en þá íslensku er stórum hluta þjóðarinnar eðlileg, þótt hún sé ekki í samræmi við málstaðalinn.

En þetta er stórhættulegt viðhorf og í raun tilræði við íslenskuna. Það er þetta viðhorf sem fælir marga útlendinga frá því að læra íslensku. Þeir verða fyrir því hvað eftir annað að viðmælendur skipta yfir í ensku af því að íslenska þeirra er ekki fullkomin. En það er líka þetta viðhorf sem á stóran þátt í áhugaleysi ungs fólks um viðgang íslenskunnar. Það er sífellt verið að leiðrétta það og segja því að það tali ekki íslensku. Þegar það sér því svo haldið fram að skárra sé að nota ensku en það mál sem því er eiginlegt eigum við á hættu að það taki okkur á orðinu og skipti einfaldlega yfir í ensku. Er þá ekki verr af stað farið en heima setið?

„Heldur þann versta en þann næstbesta“ sagði Snæfríður Íslandssól. Heldur ensku en íslensku venjulegs fólks.

Kallað eftir nýju kennsluefni í íslensku

Í gær skrifaði ég í Facebook-hópinn Málspjall um fækkun nýnema í íslensku við Háskóla Íslands. Þetta vakti nokkra athygli og Morgunblaðið skrifaði um það frétt. Mörg ágæt ummæli voru skrifuð við þessa færslu mína en ein fundust mér sérstaklega áhugaverð:

„Ég starfa sem framhaldsskólakennari á öðru ári og það kom mér á óvart hversu lítill áhugi nemenda er á greininni. Hluti ástæðunnar gæti verið hversu lítið námsefnið hefur breyst að undanförnu. Nemendur í dag alast upp í allt öðru samfélagi og eru vanari mun meiri hraða en ýmsar íslenskar bókmenntir bjóða uppá. Mín upplifun er að þeim finnst menningararfurinn okkar almennt mjög áhugaverður en að mörgu leyti „óaðgengilegur“ fyrir þessa kynslóð. Langir textar og langdregnir, sem eru oft á tungumáli sem þau skilja ekki nægilega vel til að njóta, eru ekki að grípa áhuga þeirra. Ég myndi vilja stórátak í að gera þessa texta aðgengilegri fyrir bæði ungmenni og fólk af erlendum uppruna.“

Ég held að þarna sé komið að kjarna málsins. Nemendur hafa alist upp í allt annars konar þjóðfélagi en við flest í þessum hópi, og annars konar þjóðfélagi en flestir kennarar þeirra. Við áttum okkur ekki endilega á því hvað þetta þýðir. Og jafnvel þótt við áttum okkur á því vitum við ekki endilega hvernig á að bregðast við. Og jafnvel þótt við teljum okkur vita það er óvíst að við höfum eða kunnum á þau tól og tæki, í þessu tilviki kennsluefni og kennsluaðferðir, sem þarf til að bregðast við. Gerbreytt þjóðfélag kallar auðvitað á gerbreytt kennsluefni og gerbreyttar kennsluaðferðir. Ég efast ekkert um að fjöldi kennara átti sig á því, og reyni að koma til móts við nemendur á þeirra forsendum. En það er hægara sagt en gert.

Hér er nefnilega komið að öðru efni sem rætt var um hér fyrr í vikunni – tilfinnanlegum skorti á góðu kennsluefni. Vegna þess að nemendur – eða foreldrar – þurfa að kaupa kennslubækur framhaldsskóla, öfugt við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum, leita þau eðlilega allra leiða til að lækka bókakostnaðinn. Þótt skiptibókamarkaðir séu hagstæðir fyrir nemendur eru þeir rothögg fyrir bókaútgáfu og draga stórkostlega úr endurnýjun kennsluefnis á íslensku og áhuga útgefenda á útgáfu nýs kennsluefnis. Þess vegna sitjum við uppi með gamalt og úrelt kennsluefni sem nemendur lesa í snjáðum og misvel förnum bókum. Í sumum greinum er gripið til þess ráðs að nota erlendar kennslubækur – en þar er ekki hægt í íslensku.

Til að bæta úr skorti á hentugu kennsluefni eru kennarar oft að útbúa fjölrit með efni sem þau telja að henti nemendum. Það er út af fyrir sig góðra gjalda vert, en getur þó reynst tvíbent þegar að er gáð. Hvað varðar allan frágang og útlit standast myndalaus fjölrit auðvitað engan samanburð við myndskreyttar erlendar kennslubækur prentaðar í lit á glanspappír. Fjölritað íslenskukennsluefni á ekki séns í fjölbreytt enskukennsluefni á bók eða margmiðlunarformi. Gamalt eða ósjálegt kennsluefni hefur vitaskuld áhrif á viðhorf nemenda til kennslugreinarinnar. Íslenska er í sauðalitunum – enska er í öllum regnbogans litum. Íslenska er gamaldags – enska er nútímaleg. Íslenska er dauf – enska er fjör.

Eins og segir í ummælunum sem ég vitnaði í hér að framan skortir ekki áhuga nemenda á íslenskum menningararfi og ég er sannfærður um að það er hægt að vekja áhuga þeirra á íslensku máli líka. En okkur vantar hentugt efni til að miðla þessu til þeirra. Það er ekki við því að búast að hinn frjálsi markaður framleiði slíkt efni. Ríkið verður að koma til – standa fyrir og styrkja myndarlega útgáfu hentugs kennsluefnis sem nær til nemenda. Og þetta má ekki verða dæmigert íslenskt „átaksverkefni“ sem lýkur um leið og einhver árangur fer að koma í ljós. Þetta þarf stöðugt að vera í gangi. Það er að segja, ef við viljum halda áfram að tala íslensku. Ef við viljum það ekki skulum við bara segja það.

Stórátak í íslenskukennslu – núna!

Í gær kom fram á Morgunvaktinni á Rás eitt í Ríkisútvarpinu að um fjórðungur fólks á íslenskum vinnumarkaði væri nú af erlendum uppruna, og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, spáði því að eftir 20-30 ár yrði sú tala komin í 40-50%. Vitanlega mun erlent vinnuafl ekki dreifast jafnt á öll störf. Við vitum að fólk af erlendum uppruna er helst að finna í ákveðnum starfsgreinum og þannig verður það væntanlega í meginatriðum áfram. Það er ljóst að þessi þróun felur í sér grundvallarbreytingar á íslensku þjóðfélagi og við þurfum að hugsa fyrir því hvernig við tökumst á við þær.

Þótt fólk sem hingað kemur að vinna í framtíðinni muni væntanlega í auknum mæli koma frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, eins og fram kom í þættinum, er nokkuð öruggt að enska verður, í byrjun a.m.k., samskiptamál þess á vinnumarkaði – við íslenska yfirmenn og samstarfsfólk, en einnig milli fólks sem hefur ólík móðurmál, önnur en íslensku. En spurningin er hvað gerist í framhaldinu – heldur fólkið áfram að nota ensku sem samskiptamál, ekki bara í vinnunni heldur einnig á öðrum sviðum, og lærir ekki íslensku nema þá að mjög takmörkuðu leyti? Til hvers gæti það leitt?

Ef það gerist verðum við komin í mjög alvarlega stöðu eftir 20-30 ár. Þá verðum við með tvískiptan vinnumarkað – láglaunastörf þar sem yfirgnæfandi fólks verður af erlendum uppruna og samskipti fara að mestu leyti fram á ensku, og svo betur launuð störf mönnuð Íslendingum, sem samt munu nota ensku mikið í samskiptum við fólk af erlendum uppruna, til viðbótar annarri enskunotkun sem er mikil nú þegar. Það þarf ekki að hugsa mikið um þetta til að átta sig á því hvaða áhrif slík staða gæti haft á íslenskuna. Staða hennar sem burðarás samfélagsins og viðnámsþróttur gegn erlendum áhrifum myndi veikjast verulega.

Viðbrögð okkar eiga ekki að vera að berjast gegn þessari þróun og loka landinu – það er hvorki skynsamlegt né mögulegt. Okkur vantar fleira fólk. En ef við viljum að íslenska verði áfram aðaltungumál landsins verður að gera kröfur um íslenskukunnáttu fólks sem kemur hingað til að vinna, a.m.k. þeirra sem dveljast hér meira en einhvern stuttan tíma. Það er hins vegar bæði ósanngjarnt og óframkvæmanlegt að gera slíkar kröfur án þess að gera um leið stórátak í því að auðvelda fólki íslenskunámið – auka framboð á góðu kennsluefni og námskeiðum, gera fólki kleift að stunda íslenskunám á vinnutíma, o.s.frv.

Ef þetta verður ekki gert eigum við á hættu að íslenska verði ekki aðaltungumál landsins um miðja öldina. Ef allt að helmingur fólks á vinnumarkaði verður af erlendum uppruna, og verulegur hluti þess fólks talar ekki íslensku, verður hún alltaf víkjandi í samskiptum fólks á ýmsum sviðum – ekki bara á mörgum veitingastöðum eins og er orðið nú þegar, heldur í flestum verslunum, margvíslegri annarri þjónustu og víðar. Þegar svo er komið er skammt í að ungt fólk sjái ekki tilganginn í að tileinka sér þetta tungumál sem hefur svona takmarkað notkunarmöguleika og skipti alveg yfir í ensku.

Þetta hljómar bölsýnislega en góðu fréttirnar eru þær að þetta þarf ekki að fara svona – alls ekki. Ég hef fulla trú á því að íslenskan geti haldið stöðu sinni sem aðaltungumál samfélagsins og burðarás þess. En til þess þurfum við að styðja hana af öllum mætti og gera stórátak í kennslu íslensku sem annars máls – núna. Því lengur sem við bíðum, þeim mun erfiðara verður að snúa af þeirri braut sem við erum á. Þeim mun vanari verðum við orðin enskunni allt í kringum okkur, þeim mun hraðar mun hún flæða yfir okkur og yfirtaka fleiri svið. Þetta þolir enga bið.

Íslenska þarf að vera samkeppnishæf

Mér brá þegar ég frétti að nýnemar í minni gömlu kennslugrein, íslensku á Hugvísindasviði Háskóla Íslands, væru aðeins ellefu þetta árið. Nýnemar í greininni hafa ekki verið færri síðan einhvern tíma á sjöunda áratugnum eða jafnvel fyrr. Þá var fjöldi nýstúdenta við Háskólann bara brot af því sem nú er þannig að hlutfall íslenskunema af nýnemum er ekki nema brotabrot af því sem það var fyrir meira en hálfri öld. Fjöldinn náði hæstu hæðum kringum 1990 þegar nærri 90 nemendur hófu nám í íslensku tvö ár í röð en hefur farið jafnt og þétt fækkandi síðan.

Þarna er örugglega margt sem spilar saman. Fleiri en ein rannsókn benda til þess að íslenskukennsla, sérstaklega í grunnskólum en að einhverju leyti í framhaldsskólum líka, höfði ekki alltaf nógu vel til nemenda og samræmdu prófin voru skaðræði að mínu mati eins og ég hef oft skrifað um. Við í Háskólanum (ég ber þar þar fulla ábyrgð því að það er ekki svo langt síðan ég hætti störfum) höfum kannski ekki heldur staðið okkur nógu vel í markaðssetningu. Okkur hefur ekki tekist að vekja áhuga á greininni meðal framhaldsskólanema.

En fleira kemur til. Ég hef heyrt að eftir að hafa verið með íslensku á stundaskránni alla sína skólatíð þyki ekki spennandi að fara í háskóla til að læra grein sem heitir íslenska – er það ekki bara meira af því sama? Alþjóðavæðingin hefur líka áhrif – nemendur óttast að lenda í blindgötu ef þau fara í íslensku, vilja eiga þess kost að búa og starfa erlendis og telja að námið nýtist þeim ekki þar, o.s.frv. Neikvæð umræða um mál ungs fólks hefur líka áhrif – það er alltaf verið að segja unglingum að þau kunni ekki íslensku, skamma þau fyrir að sletta ensku of mikið, o.s.frv.

Nú má vissulega segja að við þurfum ekki á því að halda að mennta meira en tug fólks á ári í í íslensku. Ég er reyndar ósammála – það hefur sýnt sig að íslenskunám nýtist fólki í fjölmörgum og fjölbreyttum störfum og okkur veitir ekkert af því að útskrifa fleiri með háskólamenntun í íslensku. En það er í sjálfu sér aukaatriði. Aðalatriðið er það að þessi fækkun nemenda ber skýrt vitni um stöðu íslenskunnar í huga ungs fólks. Hún er ekki spennandi. Hún er ekki kúl. Hún er ekki grein sem unga fólkið hefur áhuga á að læra í háskóla. Hún höfðar ekki til ungs fólks. Það er verulega alvarlegt.

Þótt hugsanlega megi rekja minnkaðan áhuga á íslenskunámi að einhverju leyti til kennslunnar í grunn- og framhaldsskólum, og til þess að háskólakennarar í greininni hafi ekki staðið sig í markaðssetningu, er það ekki frumástæðan heldur birtingarmynd miklu stærra máls – stöðu íslenskunnar í samfélaginu. Staðreyndin er sú að við höfum ekki sinnt íslenskunni nógu vel, ekki hugsað nógu vel um að sýna málnotendum fram á gildi hennar fyrir okkur og fyrir samfélagið. Móðurmálið er hluti af sjálfsmynd okkar, hluti af okkur sjálfum. Við þurfum að rækta þann hluta á jákvæðan og uppbyggjandi hátt – ekki sem skyldu.

Það þýðir ekkert að reka áróður fyrir íslenskunni á einhverjum þjóðernisforsendum. Það virkaði ágætlega í upphafi síðustu aldar en ekki lengur. Með því er ég ekki að segja að íslenskan skipti ekki máli fyrir okkur. Auðvitað gerir hún það. En við verðum samt að átta okkur á því að til þess að unga fólkið hafi áhuga á henni, vilji nota hana á flestum sviðum, rækta hana og varðveita, verður hún að vera samkeppnishæf. Við þurfum að geta boðið unga fólkinu áhugaverða afþreyingu og fræðslu á íslensku, nútímalegt og smekklegt kennsluefni – og nýjan málstaðal sem stendur nær því máli sem þau hafa tileinkað sér og tala.

Góðu fréttirnar eru þær að þetta er hægt. Það er engin ástæða til svartsýni um íslenskuna og framtíð hennar – ef við sinnum henni, hvert og eitt. Stjórnvöld hafa gert vel í að byggja upp íslenska máltækni en þurfa að stórauka annan stuðning við íslenskuna – við útgáfu kennslu- og fræðsluefnis, við bókaútgáfu, kvikmyndagerð og hvers kyns afþreyingu á íslensku. Framar öllu þarf að gera stórátak í kennslu íslensku sem annars máls, með sameinuðu átaki stjórnvalda og atvinnurekenda. En þetta hrekkur skammt ef við, almennir málnotendur, leggjumst ekki líka á árarnar við að gera íslensku sjálfsagða á öllum sviðum.

Flíkin klæjar mig

Í Facebook-hópnum Málspjall var í gær spurt um nýstárlega notkun sagnarinnar klæja. Hún er venjulega notuð með aukafallsfrumlagi, án andlags – mig (eða mér) klæjar. Ef ástæðu eða staðsetningar kláðans er getið er það í forsetningarlið, ekki andlagi, t.d. mig klæjar undan peysunni, mig klæjar í nefið / á nefinu. En fyrirspyrjandi hafði séð dæmi um að ástæða kláðans væri höfð sem frumlag í nefnifalli – flíkin klæjar. Þessa notkun hef ég ekki séð áður og hún hefur ekki tíðkast, þótt einhverjir sem tóku þátt í umræðunni hafi kannast við slík dæmi og örfá finnist á netinu, svo sem „Það er reyndar ullargarn en það klæjar ekki“ og „Túristarnir sjúkir í íslensku ullina, hef og mun ekki skilja það, því hún klæjar“.

En sögnin klæja hefur ekki alltaf verið notuð á sama hátt og nú. Staðsetning kláðans var áður stundum tjáð með þolfallsandlagi. „Ef mann klæar hökuna, á hann að smakka nýnæmi“ segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar. „Klæjaði mann lófann, fékk maður gjöf“ segir í Ritsafni Ólafar frá Hlöðum. Staðsetningin var líka oft tjáð með nefnifalli en þolandi kláðans hafður í þolfalli eða þágufalli. „Klæjar mér túngan“ segir í þulu frá 17. öld í safni Ólafs Davíðssonar. „Kyrrir, knapar mínir, og klæja mig nú lófar“ segir í leikriti eftir Matthías Jochumsson. Öll þessi dæmi er að finna í Ritmálssafni Árnastofnunar. Það er athyglisvert að í mörgum elstu dæmanna er frumlagið í þágufalli þótt nú sé kennt að það eigi að vera í þolfalli.

Í öllum þessum dæmum vísaði andlagið til staðsetningar kláðans en ástæða hans hefur yfirleitt ekki verið tjáð með andlagi, og dæmin sem nefnd voru í upphafi virðast því vera nýjung í málinu. En kannski ættu þau ekki að koma á óvart. Í umræðunni var bent á hliðstæðu í sögninni kitla sem er merkingarlega ekki ýkja langt frá klæja. Vissulega er kitla oftast notuð með þolfallsfrumlagi, mig kitlar, en einnig er hægt að hafa hana með nefnifallsfrumlagi sem vísar til ástæðunnar og þolandinn kemur þá fram sem þolfallsandlag – flíkin kitlar mig. Með hliðsjón af þessu er ekkert undarlegt að málnotendur dragi þá ályktun að til dæma eins og mig klæjar (undan flíkinni) svari flíkin klæjar mig.

Sögnin klæja er venjulega áhrifslaus (tekur ekki með sér andlag) en væri með þessu breytt í áhrifssögn með þolfallsandlagi. Það er vissulega nýjung, en á sér ýmis fordæmi. Nýlega hefur sögnin streyma t.d. breyst á þennan hátt. Hún var til skamms tíma áhrifslaus – áin streymir, en það er enginn sem *streymir ánni. En nú tölum við hiklaust um að streyma viðburðum og segjum við streymum tónleikunum á netinu. Eldra dæmi er hægt að taka af sögninni fljúga. Þar til fyrir einni öld var hún áhrifslaus – fuglar flugu, og örvar flugu, en enginn *flaug fuglum eða *flaug örvum eða neinu öðru. En með tilkomu flugvéla skapaðist þörf fyrir geranda með þessari sögn og þá var farið að segja Lindbergh flaug flugvélinni og annað slíkt.

Ég ætla ekki að mæla sérstaklega með nýjunginni flíkin klæjar (mig) og vissulega er hægt að amast við henni á þeirri forsendu að hún sé ekki (orðin) málvenja og hljóti því að teljast „rangt mál“ samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu. En þessi hegðun klæja á sér samt skýra fyrirmynd í kitla og breytingin á sér augljósar hliðstæður í sögnum eins og streyma og fljúga. Það má þess vegna líka líta á þetta sem skemmtilega og frjóa nýsköpun sem engin ástæða sé til að ergja sig yfir.