Að senda póst á – eða til

Fyrirsögnin „Skólameistari senti frá sér póst á alla“ var nýlega sett inn í Facebook-hópinn Málspjall til að vekja athygli á því að þar er notuð hin óhefðbundna þátíð senti sem ég hef skrifað um og engin ástæða er til að amast við. En ekki hefði verið minni ástæða til að vekja athygli á því að sögnin senda tekur þarna með sér forsetninguna á. Það er svo algengt að við tökum ekki eftir því en í raun má kalla það nýjung. Á tímarit.is eru nánast engin dæmi um senda póst á fyrr en um aldamót og sárafá dæmi um senda bréf á. Á síðustu tveim áratugum eru aftur á móti fleiri hundruð dæmi um þessi sambönd á hverju ári.

Sögnin senda er ein svonefndra tveggja andlaga sagna – sagna sem taka, eða geta tekið með sér, tvö andlög, tvo nafnliði eins og senda sýslumanninum ábyrgðarbréf og gefa safninu bækur. Oft er hægt að nota forsetningarlið með til í stað annars andlagsins – segja senda ábyrgðarbréf til sýslumannsins. Sagnir eru þó ólíkar hvað þetta varðar og með sögnum eins og gefa er þetta sjaldnast hægt – við getum ekki sagt *gefa bókina til hennar heldur aðeins gefa henni bókina. Þegar viðtakandinn er ekki mannvera heldur félag eða stofnun er þó stundum hægt að nota forsetningarlið – gefa peninga til fátækra.

Í nýlegri BA-ritgerð Iðunnar Kristínardóttur er sýnt fram á að „því bókstaflegri flutning sem tveggja andlaga sögn felur í sér því algengari er til-formgerðin með henni“ auk þess sem „til-formgerðin er algengari þegar andlag til táknar ekki ótvíræða viðtakendur eins og tiltekna einstaklinga eða hópa“ – sbr. gefa peninga til fátækra hér að framan. Með sögnum eins og senda er vitaskuld oft um bókstaflegan flutning að ræða og því gengur oftast að nota til með þeim. En eins og sést í fyrirsögninni sem vitnað var til í upphafi er forsetningin sem senda tekur með sér ekki alltaf til í seinni tíð.

Í þeim sárafáu dæmum um senda á sem eru eldri en aldarfjórðungs gömul eða svo er yfirleitt ekki verið að senda til ákveðins viðtakanda. Í Austra 1887 segir t.d.: „ef leiðin er viss, geta menn sent bréf á bæi í veg fyrir póstinn“. Í Austra 1971 segir: „Hannibal sendi bréf á stofnfundinn og bað þá er þar sætu aldrei þrífast.“ Í Dagblaðinu 1976 segir: „Það eina sem Barnaverndarnefnd gerði var að senda bréf á dvalarstað barnsins um kyrrsetningu þess.“ Í Vikunni 1983 segir: „Ef þig langar til að hafa samband við Bubba eða Magnús skaltu senda bréf á eftirfarandi heimilisfang.“

En um aldamót verður sprenging í notkun á með senda eins og áður segir. Fljótlegt er að ganga úr skugga um hvað veldur því: Tilkoma tölvupósts. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Tölvumálum 1995 þar sem segir: „Áskrift að póstlistanum er hægt að panta með því að senda tölvupóst á netfangið list-proc@ismennt.is.“ Alla tíð síðan vísa langflest dæmi um senda póst á og senda bréf á– og vitanlega öll um senda tölvupóst á – til tölvupósts, og á er margfalt algengari en til í þessari merkingu. Það sem sent er á er oftast netfang, en einnig hópar eins og í fyrirsögninni sem vísað var til í upphafi – sjaldnast einstaklingar.

En hvers vegna er forsetningin á notuð frekar en til þegar um tölvupóst er að ræða? Það hlýtur að sýna einhverja tilfinningu málnotenda fyrir því að sendingin sé annars eðlis en þegar til er notuð. Í tölvupósti er auðvitað ekki um að ræða bókstaflegan flutning á einhverju efnislegu, en líklega skiptir ekki minna máli að viðtakandinn sem tilgreindur er með sögninni er sjaldnast einstaklingur heldur netfang eða hópur eins og áður segir – sem er hliðstætt hinum örfáu eldri dæmum sem finnast um senda á. Líklega má því segja að þessi notkun senda á sé ekki nýjung en ytri aðstæður valdi því að tíðnin hefur margfaldast. Vissulega má tengja þetta enskum áhrifum eins og Jón G. Friðjónsson hefur gert en rótin er samt íslensk.

Mér sýnist sá merkingarmunur vera á á og til í þessu samhengi að á vísi til stefnu en til til ákvörðunarstaðar eða viðtakanda. Þegar ég sendi póst á er ég fremur að tilgreina stefnuna en viðtakandann. Þetta á sér hliðstæðu í íþróttamáli – svipaður munur er á senda bolta á og senda bolta til. Með sögninni gefa, sem venjulega tekur ekki með sér forsetningarlið eins og áður segir, er líka hægt að tala um gefa bolta á og gefa bolta til. Ég held að í öllum þessum tilvikum sé merkingarmunur á á og til, þótt hann sé vissulega ekki mikill og oftast sé hægt að setja annað sambandið í stað hins.

Þetta er skemmtilegt dæmi um það hvernig tæknibreytingar valda stórfelldri aukningu á notkun tiltekinnar setningagerðar sem hefur lengi verið til í málinu.

Bréf til fjölmiðla um auglýsingar á ensku

Frá aldamótum, og einkum síðasta áratug, hefur enska og enskunotkun orðið sífellt meira áberandi í íslensku málumhverfi. Þessu valda einkum ýmsar samfélagsbreytingar – mikil fjölgun innflytjenda, sprenging í ferðamennsku, alþjóðavæðing og fleira. En einnig koma til tæknibreytingar, ekki síst sítenging við enskan menningarheim með tilkomu snjallsíma, áhorf á erlendar efnis- og streymisveitur, og margt fleira.

Allt þetta er í sjálfu sér eðlilegt og engin ástæða til að amast við því, en það veldur auknum þrýstingi á íslenskuna. Hættan er sú að við verðum ónæm fyrir enskunni, tökum ekki eftir því að enska er notuð við einhverjar aðstæður í stað íslensku, og enskan yfirtaki því sífellt stærri og stærri hlut af umráðasvæði íslenskunnar. Haldi sú þróun áfram endar það óhjákvæmilega með því að íslenskan hrynur, hættir að geta gegnt burðarhlutverki í samfélaginu.

Það er hins vegar vel hægt að stöðva þessa þróun. Vænlegast er að gera það með almennri vitundarvakningu – með því að við öll, íslenskir málnotendur, hugsum út í þetta. Við þurfum að nota íslensku alls staðar þar sem þess er kostur, stuðla að því að annað fólk geri hið sama, og vekja athygli á því þegar misbrestur verður á. Hlutverk fjölmiðla á þessu sviði er stórt og ábyrgð þeirra mikil. Þess vegna skrifa ég ykkur til að hvetja ykkur til að íhuga hvað í þessari ábyrgð felst.

Undanfarið hefur færst í vöxt að fjölmiðlar birti auglýsingar sem eru að verulegu eða öllu leyti á ensku, þrátt fyrir að í lögum sé skýrt tekið fram að auglýsingar sem eiga að höfða til íslenskra neytenda skuli vera á íslensku. Ég held, eða vil a.m.k. trúa því, að á bak við það búi sjaldnast einbeittur vilji auglýsenda til að sniðganga íslenskuna og brjóta lög, heldur sé oftast um hugsunarleysi að ræða – eða verið að spara með því að nýta erlendar auglýsingar. En hver sem ástæðan kann að vera er tvennt ljóst: Þetta er óheimilt samkvæmt lögum, og þetta vinnur gegn íslenskunni.

Þótt auglýsendur beri að sjálfsögðu ábyrgð á auglýsingum sínum nær auglýsing ekki tilgangi sínum nema hún komi fyrir augu neytenda og þar koma fjölmiðlarnir til sögu – þeir bera ábyrgð á því sem þeir birta. Nýleg dæmi sýna að auglýsendur eru fáanlegir til að breyta auglýsingum sínum ef vakin er athygli á því að þær samrýmist ekki lögum. Ég skora á ykkur að hafna því að birta auglýsingar sem eru að verulegu leyti á ensku – bæði vegna þess að það er ólöglegt, en ekki síður vegna þess að slíkar auglýsingar vinna gegn íslenskunni og veikja varnir hennar gegn enskum áhrifum.

Ég legg áherslu á að það er ekki mögulegt, og ekki heldur æskilegt eða skynsamlegt, að reyna að útrýma ensku úr íslensku málsamfélagi – hún er svo stór þáttur af veruleika okkar. Við verðum líka að taka tillit til þess mikla fjölda fólks sem býr hér og kann ekki íslensku, sem og til allra þeirra sem sækja landið heim. Enskan er hluti af íslensku málsamfélagi og hún er komin til að vera. Hún verður notuð hér áfram, samhliða íslenskunni, og það er allt í lagi. En hún má ekki koma í stað íslenskunnar. Það er ekkert óeðlilegt, og í sumum tilvikum æskilegt, að texti auglýsinga sé á ensku auk íslenskunnar. En ekki aðallega eða eingöngu á ensku.

Já, málfræði er raunverulega skemmtileg!

Í bráðskemmtilegu Kastljósviðtali áðan við Sólveigu H. Hilmarsdóttur doktorsnema sagði hún að það sem hefði heillað hana mest við latínu og grísku hefði verið málfræðin. Þetta kom flatt upp á stjórnandann sem sagði: „Það er bara gaman að heyra setninguna „það sem heillaði mig mest var málfræðin“. Það er ekki setning sem maður heyrir oft. Hvað er það við málfræði sem heillar? Er hún raunverulega skemmtileg?“

Eins og ráða mátti af orðum stjórnandans hefur málfræði vissulega illt orð á sér. Aðalástæðan er sú að hún er svo oft kennd sem forskriftarmálfræði – reglur sem nemendur þurfa að læra en tengja ekki við tungumálið sem þau kunna og tala, og ganga oft þvert á það málkerfi sem þau hafa byggt upp. Nemendur eru látnir greina í orðflokka án þess að skilja tilganginn í því – orðflokkarnir eru kenndir sem merkimiðar til að hengja á orð í stað þess að skoða setningafræðilegt hlutverk þeirra. Og svo framvegis.

En þetta er ekki sú málfræði sem ætti að kenna. Málfræði á ekki að vera fyrirmæli – hún á að vera lýsing og skýring á tungumálinu. Tungumálið er sameiginlegt öllu mannkyni – tungumálin eiga svo margt sameiginlegt en eru samt svo fjölbreytt og áhugaverð. Að skoða eðli þeirra og uppbyggingu, orðaforða og orðsifjar, hljóðkerfi, beygingar, orðmyndun, setningagerð og merkingu, og ekki síst máltöku barna, er heillandi viðfangsefni sem býður upp á ótal möguleika í kennslu á ýmsum skólastigum. Sú málfræði er raunverulega skemmtileg – hvernig ætti hún að geta verið annað?

Auglýsingar á ensku eru oftast ólöglegar

Í sjöttu grein laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005 segir: „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.“ Þetta er skýrt og ótvírætt ákvæði, og frá því eru engar undantekningar. Það eru helst fyrirtæki eins og lundabúðir og örfá önnur sem geta leyft sér að auglýsa eingöngu á ensku en auglýsingar flestra annarra fyrirtækja eiga að vera á íslensku, þótt oft geti verið eðlilegt eða æskilegt að enska fylgi með.

Við vitum samt öll að þetta lagaákvæði er þverbrotið. Við sjáum mörg dæmi um það á hverjum degi, allt í kringum okkur. Ég hef enga ástæðu til að ætla að einbeittur brotavilji liggi alltaf að baki – ég held að þetta sé miklu oftar hugsunarleysi. Hugsunarleysi auglýsendanna, en ekki síður hugsunarleysi okkar, almennra málnotenda. Við erum orðin ónæm fyrir enskunni, tökum ekki eftir henni, kippum okkur ekki upp við hana – hún er svo stór hluti af daglegu umhverfi okkar.

En við eigum auðvitað ekki að láta bjóða okkur þetta. Við eigum að kvarta. Ef við sjáum auglýsingu á ensku sem augljóslega er beint til íslenskra neytenda eigum við að hafa samband við auglýsandann og benda á að þetta samrýmist ekki lögum. Einnig má skrifa Neytendastofu sem á að hafa eftirlit með því að lögunum sé framfylgt. Fyrir sléttum fimm árum skrifaði ég einmitt Neytendastofu vegna áberandi auglýsingar á ensku frá H&M á Lækjartorgi og fékk svar þar sem sagði m.a.:

„Neytendastofa hefur í gegnum tíðina fengið ábendingar vegna auglýsinga á öðrum tungumálum en íslensku. Algengast er að bent sé á atvinnuauglýsingar á öðrum tungumálum. Stofnunin hefur hingað til ekki talið tilefni til aðgerða vegna slíkra auglýsinga. Ástæður þess að Neytendastofa ákveður að grípa ekki til aðgerða geta verið af ýmsum toga. […] Þá getur ástæðan einfaldlega verið sú að stofnunin hefur ekki orðið vör við viðskiptahættina. Allar ábendingar eru því gagnlegar starfi stofnunarinnar.“

Ég hef engan áhuga á að skipta við fyrirtæki sem bjóða mér vöru sína eða þjónustu á ensku. Skerum upp herör gegn auglýsingum á ensku!

Yfirfærsla enskra orða og orðasambanda

Sigurbjörg Þrastardóttir skrifaði ágætan pistil í Morgunblaðið um helgina þar sem hún benti á hversu algengt er að ýmis orð og orðasambönd séu yfirfærð beint úr ensku, svo sem taka með saltbroti (e. with a grain of salt), blessun í dulargervi (e. blessing in disguise) o.fl. Dæmum um slíka yfirfærslu fer líklega ört fjölgandi – bæði vegna þess hve enskan er yfirþyrmandi í umhverfi okkar, og vegna þess að sennilega hefur dregið úr almennri þekkingu á málhefðinni vegna minnkandi bóklesturs og örra samfélagsbreytinga. En þótt þetta sé áberandi um þessar mundir er það engin ný bóla.

Mikill fjöldi orða og orðasambanda hefur komið inn í íslensku úr öðrum málum á undanförnum öldum – lengi framan af einkum úr dönsku og þýsku en á síðustu áratugum nær eingöngu úr ensku. Mörg þessara orða og orðasambanda falla fullkomlega að málinu þannig að okkur dettur ekki annað í hug en þau séu annaðhvort norrænn arfur eða heimasmíðuð – önnur bera erlendan uppruna með sér á einhvern hátt en eru samt löngu orðin góð og gild íslenska. Málið yrði miklu fátækara ef við ætluðum að útrýma öllum þessum orðum og orðasamböndum enda dettur engum það í hug.

Þegar um er að ræða orð og orðasambönd sem eru smíðuð úr íslensku hráefni, samkvæmt íslenskum reglum um orðmyndun og setningagerð, er engin ástæða til að amast við þeim enda þótt þau eigi sér erlendar fyrirmyndir. Það er að segja – það er engin ástæða til að amast við því að þessi orð eða orðasambönd séu smíðuð, og notuð þegar við á. Það eru í sjálfu sér ekki rök gegn slíkum nýjungum að þær séu iðulega óþarfar vegna þess að fyrir séu í málinu orð eða orðasambönd sem gegni sama hlutverki. Fjölmörg orð í málinu eru óþörf, sé þessi mælikvarði notaður, en það auðgar málið að geta tjáð sömu hugsun á fleiri en einn hátt.

Vandinn er hins vegar sá að þessi nýju orð og orðasambönd eru iðulega búin til af ókunnugleika eða áhugaleysi um málhefð. Fólk veit ekki eða hugsar ekki út í að til eru í íslensku orð eða orðasambönd sem hafa þá merkingu sem leitað er að, og notar því enskuna sem fyrirmynd. Ef við lítum eingöngu á tungumálið sem samskiptatæki er auðvitað ekkert að þessu. Væntanlega gera höfundar nýjunganna ráð fyrir að lesendur eða áheyrendur kannist við ensku fyrirmyndina og skilji því nýjungina fyrirhafnarlaust – margir jafnvel frekar en ef notuð væru orð sem fyrir eru í málinu.

En öðru máli gegnir ef við lítum svo á að hlutverk tungumálsins sé einnig að vera menningarmiðlari milli kynslóða. Þá er óheppilegt að virða málhefð að vettugi, hvort sem það er viljandi gert eða af þekkingarleysi. Það eykur á kynslóðabil í máli og heggur skörð í samhengi málsins. Nýjum orðum og orðasamböndum ber að fagna, en notkun þeirra á ekki að vera sprottin af þekkingarskorti eða hirðuleysi. Ef við notum þau á annað borð á það annaðhvort að vera vegna þess að íslensku skorti aðferð til að tjá viðkomandi merkingu, eða vegna þess að við veljum meðvitað að nota nýjungina þótt við vitum af öðrum kostum.

Daglegt mál, 1984

Fyrir 38 árum, sumarið 1984, annaðist ég útvarpsþáttinn „Daglegt mál" um tveggja mánaða skeið – fimm mínútna þætti tvisvar í viku. Í seinustu tveimur þáttunum ræddi ég um orsakir breytinga á málinu og viðbrögð við þeim. Þessir tveir þættir birtast hér, óbreyttir að öðru leyti en því að sleppt er framan af fyrri þættinum og kveðjuorðum í þeim seinni, og á einum stað er vikið við orði. Mér sýnist flest sem hér er sagt vera í fullu gildi, og stefnumótunin sem kallað er eftir í lokin hefur ekki enn farið fram.

Það er augljóst að málið flyst nú frá kynslóð til kynslóðar með allt öðrum hætti en fyrir svo sem fimmtíu árum. Þar ber margt til. Fyrst er það að nefna að börn læra nú mál sitt að talsverðu leyti af öðrum börnum, en áður lærðu þau málið mest af fullorðnu fólki; foreldrum sínum, og jafnvel öfum og ömmum. Þar munar strax einni kynslóð, og er augljóst hver áhrif það hlýtur að hafa á hraða málbreytinga.

Annað atriði er það að áður fyrr var reynsluheimur barnanna að miklu leyti sá sami og fullorðna fólksins. Þegar þjóðin bjó nær öll í sveitum voru börnin með fullorðnu fólki við allt sem það tók sér fyrir hendur. Þau lærðu því strax að tala um flesta þá hluti sem fullorðna fólkið talaði um. Nú er þetta allt öðruvísi, eins og allir vita; börnin eru í skóla, leikskóla, eða að leika sér með félögum sínum innan húss og utan; foreldrarnir eru á vinnustöðum, skemmtunum o.s.frv.

Börnin þurfa því að tala um ýmislegt sem foreldrarnir taka lítinn sem engan þátt í, en á hinn bóginn fást foreldrarnir við sitthvað sem börnin koma ekki nálægt og læra því lítið að tala um. Það er væntanlega öllum ljóst hvernig þetta hlýtur að ýta undir örari málbreytingar. Þar er auðvitað einkum um að ræða breytingar á orðaforða, en þær draga auðvitað dilk á eftir sér; ef menn vantar orð yfir það sem þeir ætla að tala um, kostar það oft vandræðalegt hik, kauðalegar umorðanir, margorðar útskýringar o.s.frv.

Í þriðja lagi er það svo að málið er að ýmsu leyti ekki eins þýðingarmikið og það var; myndin hefur komið í stað þess að nokkru leyti. Í stað þess að lesa eða hlusta á sögur skoða börnin nú myndasögur, horfa á sjónvarp eða vídeó. Þessum myndum fylgir oft erlent mál; og þótt íslenskur texti sé með, er það oft vafasamur ávinningur, því að þar er oft um að ræða slæmar þýðingar. Þetta leiðir til þess að myndin verður aðalatriði, málið í besta falli eins konar hækja með henni.

Í fjórða og síðasta lagi skal ég svo nefna erlend áhrif. Það er augljóst að þau eru þónokkur, en ég held þó að oft sé gert of mikið úr þeim. Við megum ekki gleyma því að þau mál sem oftast er talað um í þessu sambandi, danska og nú einkum enska, eru skyld íslensku; þótt sama þróun verði í þeim, þarf ekki endilega að vera um að ræða áhrif eins þeirra á annað, heldur getur verið um að ræða sams konar aðstæður í þeim öllum, sem kalli á sams konar þróun.

Það er ljóst að ekkert þeirra atriða sem ég nefndi er hægt að rekja til þess að það fólk sem nú er að alast upp sé heimskara eða latara eða hirðulausara um mál sitt en feður þess og mæður, afar og ömmur; heldur stafa þau öll af breytingum sem hafa orðið á þjóðfélaginu. Við getum haft mismunandi skoðanir á því hvort allar þessar breytingar hafi orðið til góðs eða ekki, en sjálfsagt má sýna fram á að þær hafi flestar eða allar verið óhjákvæmilegar.

Ég held að það sé ástæðulaust að hugsa sér að fyrri kynslóðir hafi verið svo miklu hirðusamari um mál sitt en við; þjóðfélagshættir voru á hinn bóginn þannig að þeir stuðluða að varðveislu málsins án mikilla breytinga. Um ýmis þau atriði sem þar koma við sögu hefur Helgi Guðmundsson skrifað fróðlega grein, „Um ytri aðstæður íslenskrar málþróunar“, sem birtist í bókinni Sjötíu ritgerðir helgaðar Jakobi Benediktssyni, sem Stofnun Árna Magnússonar gaf út árið 1977.

Ef við ásökum Íslendinga nútímans fyrir hirðuleysi um málfar sitt, erum við því að beina spjótum okkar í vitlausa átt – við eigum að snúast gegn þeim þjóðfélagsbreytingum sem verða þess valdandi að málfarslegt uppeldi breytist. Það kann að vera hægt að snúast gegn myndablöðum, vídeói og ýmiss konar erlendum áhrifum, þótt örugglega yrði það þungur róður. En erfiðara yrði að snúa aftur til bændaþjóðfélagsins, og dettur væntanlega engum í hug í alvöru. Ég leyfi mér þess vegna að álykta sem svo að þessi leið sé nánast ófær.

En er þá engin leið til að draga úr hraða þeirra breytinga, sem óhjákvæmilega verða á málinu? Jú, auðvitað er hægt að stórauka móðurmálskennsluna í skólunum. Það ætti enginn að þurfa að undrast að íslenskukunnáttu unglinga hraki, þegar þjóðfélagsbreytingar draga stórlega úr málfarslegu uppeldi án þess að aukin kennsla komi á móti. Á undanförnum áratugum hefur fjölgað að mun þeim námsgreinum sem kenndar eru í grunnskólum, og byrjað er fyrr á öðrum en áður var; og þetta þýðir auðvitað að móðurmálskennslan fær ekki aukinn tíma, eins og hún hefði þurft til að vega upp á móti því sem tapast utan skólans.

Ef menn vilja í raun og veru hægja á málbreytingum, halda málinu u.þ.b. á því stigi sem það er á nú, þýðir ekki annað en gera móðurmálskennslunni mun hærra undir höfði en gert hefur verið á undanförnum árum, og verja til hennar stórauknum tíma. Það er út í hött að ætlast til að nemendur meðtaki fyrirmyndarmálið jafnauðveldlega nú, þegar þeir þurfa að læra það meira og minna í skólum, og á tímum kvöldvöku, rímnakveðskapar og húslestra. En það er eins og menn berji hausnum við steininn, og átti sig ekki á þeim breyttu aðstæðum sem eru fyrir hendi í þjóðfélaginu.

Að ætlast til að nemendur nú á tímum læri sömu íslensku og afar þeirra og ömmur töluðu án meiri kennslu er óraunhæf krafa og ósanngjörn bæði gagnvart kennurum og nemendum. Við þurfum að gera okkur þetta ljóst, og gera síðan upp við okkur hvort við erum reiðubúin til að veita íslenskukennslunni þennan aukna tíma, eða hvort við ætlum að slá af kröfum gullaldarmálsins. Þarna verður ekki bæði sleppt og haldið, og þörf á ákveðinni stefnumótun í þessum málum verður sífellt brýnni.

Til styrktar eignarfallsins

Undanfarið hef ég oft séð amast við setningum eins og fyrirsögn þessa pistils þar sem nafnorð í eignarfalli sem stýrist af forsetningunni til tekur með sér annað fallorð í eignarfalli. Sem dæmi má nefna „Sigurgeir synti til styrktar Barnaheilla“ og „Flest loforð ríkisstjórnarinnar til stuðnings lífskjarasamningsins voru uppfyllt á tímabilinu“ úr nýlegum fréttum. Í slíkum dæmum á þágufall á seinna nafnorðinu sér ríka hefð, þ.e. til styrktar Barnaheillum og til stuðnings lífskjarasamningnum. Sama máli gegnir um nokkur önnur nafnorð – til aðstoðar þeim, til hjálpar þeim, til liðsinnis þeim, til verndar þeim o.fl. Vissulega má finna einstöku eldri dæmi um eignarfall í þessum samböndum, t.d. „láta gróðann ganga til hjálpar þeirra, sem eru í nauðum staddir eftir síðustu jarðskjálfta“ í Tímanum 1966, en slíkum dæmum virðist hafa fjölgað talsvert á síðustu árum.

Þegar nafnorð tekur með sér annað fallorð stendur það seinna venjulega í eignarfalli (nema í forsetningarliðum í samböndum með „órjúfanlegri eign“, s.s. fara á bak hestinum, hafa hendur í hári honum o.s.frv.). Það sama gildir um framantalin nafnorð þegar þau standa ekki í forsetningarlið með til – við segjum aðstoð þeirra, hjálp þeirra, liðsinni þeirra, stuðningur þeirra, vernd þeirra – orðið styrkt er eiginlega aldrei notað nema í sambandinu til styrktar. Ef eitthvert þessara orða stendur með annarri forsetningu en til tekur það líka með sér eignarfall – við segjum með aðstoð þeirra, án liðsinnis þeirra, vegna stuðnings þeirra o.s.frv. Forsetningarnar án og vegna taka með sér eignarfall, eins og til. Sennilegast er að breytingin úr þágufalli í eignarfall í umræddum dæmum stafi af því að málnotendur alhæfi þá reglu að nafnorð taki með sér eignarfall.

Í umræddum samböndum getur þágufallsorðið líka komið á undan forsetningarliðnum – sagt er þeim til aðstoðar / hjálpar / liðsinnis / stuðnings / styrktar / verndar. Ég þekki hins vegar engin dæmi þess að eignarfallsorð færist fram fyrir forsetningarliðinn á þennan hátt. Það er aldrei sagt *þeirra til aðstoðar / hjálpar / liðsinnis / stuðnings / styrktar / verndar eða neitt slíkt. Þótt ég noti ekki sjálfur eignarfall í samböndum eins og til styrktar þeim finnst mér til styrktar þeirra ekki hljóma sérlega óeðlilega, en *þeirra til styrktar finnst mér alveg fráleitt. Þetta styrkir þá tilgátu að tilhneiging til að hafa eignarfall í umræddum samböndum stafi af því að málnotendum finnist eðlilegt að eignarfall komi á eftir nafnorði. En þegar orðið sem um er að ræða kemur ekki á eftir nafnorðinu heldur á undan forsetningarliðnum kemur þessi tilfinning ekki fram.

Á þessu er þó önnur hlið sem gaman er að velta fyrir sér. Það er oft sagt að eignarfall standi höllum fæti í málinu og oft hefur verið skrifað um svonefndan „eignarfallsflótta“ þar sem önnur föll eða aðrar fallmyndir eru notuð í stað hefðbundinna eignarfallsmynda. Eignarfall er líka langsjaldgæfast fallanna fjögurra. Í venjulegum texta má búast við því að u.þ.b. 30% nafnorðanna standi í nefnifalli, önnur 30% í þolfalli og þriðju 30% í þágufalli – en aðeins 10% í eignarfalli. Eignarfall er líka nánast horfið úr færeysku en stundum er sagt að færeyska gefi vísbendingar um breytingar sem vænta megi á íslensku í framtíðinni. En e.t.v. má líta á breytinguna yfir í eignarfall í þeim samböndum sem hér eru til umræðu sem e.k. varnarviðbrögð málsins – tilraun til að auka notkun eignarfallsins og styrkja það í sessi. Þágufallið stendur sterkt og munar ekkert um þetta.

Yfirleitt finnst mér eðlilegt að virða málhefð og mæla með því að hún sé virt, og hún er alveg skýr í þessu tilviki. Þágufall hefur verið notað í umræddum samböndum allt frá fornu máli þótt frá því séu vissulega undantekningar – „til styrktar og vitnisburðar þessarar gjörðar“ segir í bréfi frá 1341. Eignarfallið er nýjung og ekki óeðlilegt að reyna að stugga við því. En það væri samt enginn stórkostlegur skaði þótt eignarfallið leysti þágufallið af hólmi í þessum samböndum, og meira að segja hugsanlegt að það kæmi málinu til góða þegar á allt er litið.

Nauðsyn breytinga á málstaðli og íslenskukennslu

Í dag flutti ég erindi um málstaðal, málbrigði, „rétt“ mál og „rangt“ á námskeiði Samtaka móðurmálskennara fyrir grunnskólakennara. Það var skemmtilegt, nemendur áhugasamir, önnur erindi áhugaverð, og umræður mjög gagnlegar. En ég sannfærist alltaf betur og betur um að það er mjög brýnt að endurskoða íslenskan málstaðal og færa hann nær því máli sem raunverulega er talað í landinu. Málstaðallinn miðast við það sem þótti vandað ritmál á fyrri hluta 20. aldar. Síðan hefur þjóðfélagið breyst gífurlega og almenn málnotkun líka, enda hlýtur tungumálið að verða að þjóna samfélaginu á hverjum tíma.

En málstaðallinn hefur ekki breyst – hann tekur ekki tillit til breytinga sem eru áratuga eða jafnvel alda gamlar og ná til verulegs hluta þjóðarinnar, breytinga sem verða því að teljast „rétt mál“ samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu. Bilið milli hans og raunverulegrar málnotkunar fer því sífellt breikkandi og það kom fram á námskeiðinu í dag að mörg atriði málstaðalsins eru fjarri máli flestra grunnskólanema. Það þjónar engum tilgangi og er beinlínis skaðlegt fyrir íslenskuna að streitast við að halda slíkum atriðum að nemendum. Breytingar á málstaðlinum þola enga bið.

En ég styrkist líka sífellt í þeirri trú að við þurfum að endurskoða íslenskukennslu og kennsluefni í grunnskólum. Það kom fram á námskeiðinu að Menntamálastofnun hefur verið að gefa út nýtt kennsluefni í samræmi við aðalnámskrá en sér sig einnig tilneydda til að endurprenta eldri bækur með forskriftarmálfræði og æfingahefti með eyðufyllingum til að koma til móts við eindregnar óskir margra kennara. Í málfræðibókunum er ofuráhersla lögð á „rétt“ mál og „rangt“, og á málfræðilega greiningu án tengsla við raunverulega málnotkun nemenda. Það er ekki áhugavekjandi eða vænlegt til árangurs.

Eyðufyllingarnar eru þó verstar. Sumir nemendur kunna það sem verið er að þjálfa en neyðast samt til að vinna verkefnin og hlýtur að finnast það hundleiðinlegt. Aðrir nemendur eru óvissir á því sem verkefnin eiga að þjálfa en ég hef enga trú á því að þeir læri mikið á því að gera fjöldann allan af sams konar andlausum æfingum. Þetta þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að halda nemendum uppteknum. Á hinn bóginn er ég hræddur um að æfingar af þessu tagi eigi stóran þátt í að gera íslensku að frekar óvinsælli námsgrein eins og rannsóknir hafa sýnt fram á að hún er.

Það er oft kallað eftir aukinni íslenskukennslu í grunnskólum, og fyrir tveimur árum lagði mennta- og menningarmálaráðuneytið fram tillögu að breytingu á viðmiðunarstundaskrá grunnskóla, þar sem gert var ráð fyrir að íslenskukennsla í 1.-7. bekk yrði aukin, um samtals 460 mínútur á viku. Fjöldi athugasemda barst við þessa tillögu og henni hefur ekki verið hrint í framkvæmd. Mín skoðun er sú að óþarft sé að auka þann tíma sem varið er í íslenskukennslu – hins vegar sé mjög mikilvægt að nýta tímann betur og draga úr ófrjórri greiningarvinnu, kennslu um „rétt“ mál og „rangt“ og eyðufyllingum.

En hvað á að koma í staðinn? Það er vissulega hægara um að tala en í að komast og ég hef ekki forsendur til að koma með ítarlegar tillögur um það. Ég legg samt áherslu á að mér finnst sjálfsagt að kenna einhverja málfræði en ekki sem sjálfstætt viðfangsefni, heldur í tengslum við málnotkun. Á námskeiðinu í dag talaði Hanna Óladóttir um nemendamiðaða kennslu – kennslu sem tæki mið af nemendunum sjálfum, máli þeirra og áhugasviðum. Ég held að það skipti miklu máli, og meginatriði að sýna máli nemendanna virðingu í stað þess að tala það niður – láta börn og unglinga finna að þau eigi sjálf hlutdeild í málinu.

Að undirbúa sig undir eftirspurn eftir einhverju

Í Facebook-hópnum Málspjall voru í gær til umræðu orðasambönd þar sem sama myndanið er bæði fyrri hluti samsetningar og sjálfstætt orð (atviksorð eða forsetning) sem fylgir samsetningunni. Samsetta orðið getur bæði verið sögn, eins og undirbúa sig undir eitthvað, og nafnorð, eins og undirbúningur undir eitthvað og eftirspurn eftir einhverju. Sumum finnst fara illa á slíkum tvítekningum og Gísli Jónsson amaðist t.d. ótal sinnum við þeim í þáttum sínum í Morgunblaðinu – kallaði þær „Fróðársel“ með vísun til þess „að í Fróðárundrum, sem lýst er í Eyrbyggju, lyftist selshausinn fyrst í stað þeim mun ofar sem hann var oftar barinn niður“. Gísla var sérstaklega í nöp við sambandið eftirspurn eftir og vildi þess í stað tala um spurn eftir.

Ekki var þetta þó skoðun allra. Í einum þætti sínum birti Gísli bréf frá Veturliða Óskarssyni málfræðingi sem taldi Gísla stundum ganga fulllangt í þessari baráttu og benti á ýmis dæmi þar sem ekki er hægt að komast hjá tvítekningu með því að sleppa fyrri lið samsetningarinnar því að þá kemur annaðhvort út önnur merking eða merkingarleysa. Þannig er t.d. með samböndin yfirlit yfir eitthvað og aðgangur að einhverju – ekki er hægt að segja *lit yfir eitthvað eða *gangur að einhverju. Veturliði benti á að „spurn í merkingunni 'eftirspurn' er varla til í mæltu máli“. Gísli tók þessu vel og kvaðst viðurkenna „að hafa gengið út á ystu þremi með því að andæfa „aðgangur að“, „eftirspurn eftir“ og „tilefni til“. Hann hélt þó áfram að hrósa fréttafólki fyrir notkun síðarnefnda orðalagsins.

En það var ekki bara í mæltu máli sem spurn eftir var varla til. Áður en Gísli fór að tala um þetta virðist sambandið tæpast hafa verið til í ritmáli heldur – á tímarit.is er fjöldi dæma um spurn eftir u.þ.b. 0,2% af fjölda dæma um eftirspurn eftir fram til 1990. Það má því í raun halda því fram að spurn eftir einhverju hafi verið rangt mál a.m.k. fram á tíunda áratug síðustu aldar. Í Risamálheildinni sem hefur að geyma texta frá síðustu 20 árum er hlutfall dæma um spurn eftir hins vegar 6,6%. Hlutfallið í Morgunblaðinu (að meðtöldu mbl.is) er þó nokkru hærra, eða 10,5%, sem bendir til þess að áhrifa Gísla gæti helst þar. Það er ljóst að nokkur fjöldi fólks hefur tileinkað sér sambandið spurn eftir í riti, en ég er samt nokkuð viss um að þetta er lítið sem ekkert notað í talmáli.

Fleiri dæmi má nefna um að hæpið sé að sleppa fyrri lið samsetningarinnar. Arftaki Gísla Jónssonar í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu, sonur hans Hjörtur Gíslason, amaðist einu sinni við sambandinu ummerki um og sagði: „Þegar forsetningin um hefur orðið að forskeyti í orðinu ummerki er óþarfi að láta hana fylgja með.“ En annar málvöndunarmaður, Jón Aðalsteinn Jónsson orðabókarritstjóri andmælti þessu og sagði „ekkert athugavert við að segja ummerki um íkveikju“. Það er hægt að tala um merki um yfirvofandi eldsumbrot en ekki *ummerki um yfirvofandi eldsumbrot því að merki getur merkt 'vísbendingar um eitthvað sem gæti gerst' en ummerki eru 'vísbendingar um eitthvað sem hefur gerst'.

Þetta eru dæmi um sambönd með samsettum nafnorð, en öðru máli gegnir um sambönd með sögnum. Þau eru reyndar margfalt færri enda samsettar sagnir ekki ýkja margar í málinu. Þannig er t.d. bæði *eftirspyrja eitthvað/einhverju og *eftirspyrja eftir einhverju alveg fráleitt. En þegar samsett sögn er til á annað borð er miklu frekar hægt að sleppa fyrri lið hennar en samsvarandi nafnorðs. Þótt útilokað sé að segja *búningur undir í stað undirbúningur undir er vel hægt að segja búa sig undir í stað undirbúa sig undir – merkingin er sú sama. Í því tilviki má vel halda því fram að betur fari á að forðast tvítekninguna, en dæmi um undirbúa undir á tímarit.is eru samt a.m.k. vel á þriðja þúsund, þau elstu frá 1856.

Niðurstaðan er sú að útilokað er að setja öll dæmi af þessu tagi undir sama hatt. Ég held reyndar að það sé undantekning frekar en regla að hægt sé að sleppa fyrri lið samsetta orðsins í nafnorðssamböndum af þessu tagi og halda sömu merkingu. Um þetta er best að halda sig við málvenju og búa ekki til sambönd sem engin hefð er fyrir, jafnvel þótt þau kunni að virðast „rökrétt“. Eins og ég hef margsinnis sagt fer því fjarri að tungumálið sé alltaf „rökrétt“ – eða eigi að vera það.

Smáatriðin skipta líka máli

Í gær setti ég inn í hópinn Málspjall mynd af skilti sem hefur verið komið upp við íþróttamiðstöð Garðabæjar. Þar stóð með stórum stöfum „NO DRIVING“ og fyrir neðan með margfalt minni stöfum „ALLUR AKSTUR BANNAÐUR“. Ég sagði að þetta væri „bæjaryfirvöldum í Garðabæ til háborinnar skammar“. Bæjarstjóri Garðabæjar kom fljótlega inn í þráðinn og sagði: „Að sjálfsögðu munum við lagfæra þetta og setja íslensku í öndvegi, þar sem hún á heima.“ Þessi skjótu viðbrögð eru að sjálfsögðu hrósverð, og ég treysti því að við þetta loforð verði staðið og nýtt skilti sett upp hið fyrsta.

En auðvitað á ekki að þurfa að vekja athygli á slíkum tilvikum vegna þess að þau ættu ekki að koma upp. Hvernig í ósköpunum stendur á því að skilti af þessu tagi er sett upp á vegum íslensks sveitarfélags, þótt íslenska sé opinbert tungumál? Í 5. grein laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls segir: „Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skulu sjá til þess að hún sé notuð.“ Hér hefur ótal sinnum verið bent á að víðast hvar í grannlöndum okkar er opinbert tungumál landsins haft efst á hvers kyns skiltum á opinberum stöðum.

Í umræðum í gær var nefnt að þetta væri örugglega „ekkert samsæri“ og ég er alveg sammála því – þótt þetta tilvik sé í Garðabæ dettur mér ekki í hug að það sveitarfélag sé öðrum verra að þessu leyti. Þess var líka getið til að lengd setninganna réði leturstærðinni – enski textinn er mun styttri en sá íslenski og því hægt að hafa hann með stærra letri. Það er alveg hugsanlegt, en þótt svo væri er það engin afsökun. Það hvarflar ekki að mér að á bak við þetta búi sú hugsun að hampa enskunni sérstaklega umfram íslensku – þetta er einfaldlega hugsunarleysi.

Eins og ég hef margsagt er ljóst að enska er og verður hluti af íslensku málsamfélagi. Hér býr fjöldi fólks sem skilur ekki íslensku auk þess sem fjöldi ferðamanna eykst sífellt. Það er ekki bara sjálfsögð kurteisi, heldur bráðnauðsynlegt af öryggissjónarmiðum að koma til móts við þetta fólk með því að hafa upplýsingar á ensku sem víðast, m.a. á hvers kyns skiltum. En íslenskan á alltaf að koma fyrst. Kannski finnst einhverjum það ekki skipta máli. Kannski finnst einhverjum gerður úlfaldi úr mýflugu með því að vekja máls á þessu og kvarta yfir því. En ég ítreka það sem ég hef áður skrifað:

„Auðvitað drepur það ekki íslenskuna þótt hún sé höfð á eftir ensku á skiltum í Leifsstöð. Auðvitað drepur það ekki íslenskuna þótt auglýsingar í búðargluggum séu ein­göngu á ensku. Auðvitað drepur það ekki íslenskuna þótt einhver fyrirtæki sendi starfsfólki tölvupóst sem er ein­göngu á ensku. Auðvitað drepur það ekki ís­lenskuna þótt fjöldi verslana auglýsi „Black Friday“, „Cy­ber Mon­day“ og „Singles Day“. En það sýnir, meðvitað eða ómeð­vit­að, ákveðið viðhorf til íslenskunnar – viðhorf sem smitar út frá sér og gerir til lengri tíma meiri skaða en við áttum okkur á í fljótu bragði.“