Posted on Færðu inn athugasemd

Dýr og ódýr fargjöld

Í Málvöndunarþættinum var vakin athygli á því að orðalagið „Verð á fargjöldum“ hefði komið fyrir í fréttum Ríkisútvarpsins í dag. Þótt það væri ekki sagt berum orðum má gera því skóna að málshefjanda hafi þótt þetta orðalag óeðlilegt, og er ekki einn um það – þetta er algengt umkvörtunarefni í málfarsumræðu. Í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 segir: „Sagt var: Fargjaldið kostar sjö þúsund. Rétt væri: Farið kostar sjö þúsund krónur. Eða: Fargjaldið er sjö þúsund krónur.“ Í sama kveri segir einnig: „Sagt var: Fargjöld eru mismunandi dýr. Rétt væri: Fargjöld eru mismunandi . Eða: Far er misjafnlega dýrt.“ Málfarsbankinn er ekki eins afdráttarlaus en segir: „Betra er að tala um eða lág (far)gjöld en „dýr eða ódýr (far)gjöld“.“

Gísli Jónsson skýrði þetta svo í þætti sínum í Morgunblaðinu 1982: „Er hægt að selja eða kaupa fargjöld? […] Ég svara þessu neitandi. Við kaupum ekki fargjald. Við kaupum far eða farmiða og gjöldum svo og svo mikið fyrir. Það gjald er fargjald, sem við þannig látum af hendi rakna, en við seljum það hvorki né kaupum.“ Þetta má auðvitað til sanns vegar færa, og rímar við skýringu orðsins fargjald í Íslenskri nútímamálsorðabók: 'verð sem farþegi greiðir fyrir far (og flutning á farangri sínum)'. Það er samt athyglisvert að í þætti frá 1989 birti Gísli – athugasemdalaust – texta frá Íslenskri málstöð þar sem segir „eiga kost á ódýrara fargjaldi en hinn almenni farþegi“ og að „farþegi geti fengið ódýrara fargjald með vissum skilyrðum“.

Á tímarit.is eru um 50 dæmi um selja fargjald, elst í Lögréttu 1914: „því eru þeir neyddir til að selja fargjald tvöfalt eða jafnvel fjórfalt hærri“; hátt í 40 dæmi um kaupa fargjald, elst í Heimskringlu 1941: „hann fékk mér fé til að kaupa fargjald fyrir til Argentínu“; um 120 dæmi um verð á fargjöldum, elst í Lögbergi 1941: „sama verð á fargjöldum og átti sér stað fyrir stríðið“; um 170 dæmi um fargjald kostar, elst í Heimskringlu 1886: „Fargjald hjeðan frá bænum […] kostar 75 cents“; rúm 150 dæmi um dýrt fargjald, elst í Fréttum frá Íslandi 1877: „Fargjald og fararbeini hefur og þótt óþarflega dýr“; hátt í 1400 dæmi um ódýrt fargjald, elst í Lögbergi 1897: „Sýningarstjórnin hefur samið […] um frámunalega ódýrt fargjald hingað“.

Skýringin á þessu orðalagi er ósköp einföld – orðið fargjald hefur bætt við sig merkingu og merkir það sama og orðið far, þ.e. 'flutningur', til viðbótar merkingunni sem gefin er í Íslenskri nútímamálsorðabók. Eins og oft hefur verið skrifað um hér gerist það iðulega að merking samsettra orða breytist með tímanum og verður „órökrétt“ – hættir að vera summa eða fall af merkingu samsetningarliðanna. Elsta dæmi um orðið fargjald er frá 1873 þannig að orðið hefur getað haft merkinguna 'flutningur' næstum því frá upphafi – elsta dæmið frá 1877 eins og nefnt er hér að framan. Það er því rétt mál og í fullu samræmi við málhefð að tala um að kaupa og selja fargjöld, verð á fargjöldum, að fargjöld kosti svo og svo mikið, eða dýr og ódýr fargjöld.

Posted on Færðu inn athugasemd

Það var beðið mig að vaska upp

Í gær heyrði ég setninguna „Það var beðið mig að vaska upp“ í viðtalsþætti í Ríkisútvarpinu. Þetta er hin svokallaða „nýja þolmynd“ sem Sigríður Sigurjónsdóttir og Joan Maling greindu fyrstar ítarlega kringum aldamótin. Síðan hefur mikið og oft verið fjallað um þessa setningagerð, bæði fræðilega og í almennri málfarsumræðu, og ég hef áður skrifað um hana hér. Elstu þekktu dæmi um hana eru meira en 80 ára gömul en hún hefur einkum breiðst út á síðustu þremur áratugum eða svo. Augljóst er að börn tileinka sér þessa setningagerð á máltökuskeiði og rannsóknir benda til að þegar börnin fullorðnast dragi úr notkun a.m.k. sumra þeirra á henni og sum leggi hana jafnvel alveg af, en hún virðist haldast að einhverju leyti í máli margra.

Nýja þolmyndin – sem reyndar eru skiptar skoðanir um hvort sé þolmynd eða ekki – er mörgum þyrnir í augum, enda talsvert ólík hefðbundinni þolmynd. Germynd áðurnefndrar setningar er (einhver ónefndur) bað mig að vaska upp, og í hefðbundinni þolmynd er hjálparsögnin vera sett inn í setninguna, aðalsögnin biðja sett í lýsingarhátt þátíðar, beðin(n), og þolandinn, mig, tekinn úr andlagssæti næst á eftir sögninni og færður í dæmigert frumlagssæti fremst í setningunni. Við það fá þolfallsandlög jafnframt dæmigert fall frumlagsins, nefnifall – útkoman verður ég var beðin(n) að vaska upp. Þágufallsandlög halda aftur á móti falli sínu þótt þau færist í frumlagssæti – germyndin (einhver ónefndur) bjargaði mér verður mér var bjargað í þolmynd.

Í nýju þolmyndinni fær þolandinn aftur á móti að vera kyrr í andlagssætinu á eftir sögninni og heldur falli sínu. Í stað þolandans er frumlagssætið í upphafi setningarinnar fyllt með merkingarsnauðu það, en einnig er hægt að hafa atviksorð eða forsetningarlið fremst í setningunni, t.d. áðan var beðið mig að vaska upp eða í morgun var beðið mig að vaska upp. Þótt ég sé ekki alinn upp við nýju þolmyndina og hún sé ekki mitt mál hef ég heyrt hana svo oft og lesið svo mikið um hana að ég er löngu hættur að kippa mér upp við hana og farinn að fá dálitla tilfinningu fyrir henni, finnst mér. Og ég áttaði mig á því í gær að mér fannst setningin það var beðið mig að vaska upp fullkomlega eðlileg í því samhengi sem hún var sögð.

En ekki bara það: Mér fannst hún eiga betur við þarna en hin hefðbundna þolmynd, ég var beðinn að vaska upp. Ég held að ástæðan sé sú að með því að þolandinn sé kyrr í sínu sæti á eftir sögninni komi meiri áhersla á þolandahlutverk andlagsins en ef það færðist í frumlagssætið (og fengi þar nefnifall ef um þolfallsandlag er að ræða). Frumlagssætið er hið dæmigerða sæti gerandans og nefnifall hið dæmigerða fall gerandans, og ég held að með því að þolandanum séu gefin þessi tvö dæmigerðu einkenni gerandans breytist viðhorf okkar til hans – við skynjum hann ekki sem eins mikinn þolanda, eða fórnarlamb, og ef hann er í germyndarstöðu sinni. En ef hann fær að vera kyrr á eftir sögninni heldur hann þolandahlutverkinu úr germyndinni alveg.

Í ljósi þessa er eðlilegt að nýja þolmyndin komi upp og sé algeng í máli barna. Börn upplifa sig örugglega oft sem þolendur sem hafi litla stjórn á eigin lífi – það er alltaf verið að ráðskast eitthvað með þau. Dæmigerðar setningar eins og það var látið mig fara að sofa, það var beðið mig að fara, það var barið mig, það var skilið mig útundan, það var hrint mér, það var sagt mér að þegja o.s.frv. lýsa þessu áhrifa- og varnarleysi miklu betur en ég var látin(n) fara að sofa, ég var beðin(n) að fara, ég var barin(n), ég var skilin(n) útundan, mér var hrint, mér var sagt að þegja o.s.frv. Þessi börn halda síðan áfram að nota nýju þolmyndina við svipaðar aðstæður þegar þau fullorðnast – en sjaldnar, því að þá hafa þau meiri stjórn á eigin lífi.

Á Bland.is rakst ég á mjög áhugaverða setningu: „Ég gerði það þannig við minn pjakk að hann var látinn í rúmið sitt og svo var látið hann grenja í 5 mín fyrst.“ Þarna er fyrst hefðbundin þolmynd, hann var látinn í rúmið, og svo ný þolmynd með sömu sögn, svo var látið hann grenja. Seinna dæmið sýnir þolanda- og fórnarlambshlutverkið vel og það hefði hljómað mun óeðlilegar að víxla þessu og segja það var látið hann í rúmið og svo var hann látinn grenja. Ég áttaði mig meira að segja á því að ég nota nýju þolmyndina stundum svona sjálfur. Ef mér finnst vera ráðskast með mig segi ég stundum það var látið mig ryksuga eða eitthvað slíkt – vissulega í gríni, en mér finnst ég miklu meira fórnarlamb svona en ef ég segði ég var látinn ryksuga.

Ég hef borið þessa tilfinningu undir fleira fullorðið fólk, sem ekki er heldur alið upp við nýju þolmyndina, og sumt af því kannast við hana líka þannig að ég held að þetta sé ekki ímyndun í mér. En ef þetta er rétt þýðir það að nýja þolmyndin gegnir eilítið öðru merkingarlegu hlutverki en hin hefðbundna þolmynd og þess vegna er engin ástæða til að ætla annað en báðar setningagerðirnar geti lifað hlið við hlið um langa framtíð. Ég veit að mörgum finnst nýja þolmyndin ljót en hún er hluti af máli yngri kynslóðanna og ekkert á förum. Í stað þess að ergja sig yfir henni ættum við að bjóða hana velkomna og fagna því að þarna er komin inn í íslenskuna ný setningagerð sem gegnir ákveðnu hlutverki og auðgar því málið en spillir því ekki.

Posted on Færðu inn athugasemd

Glatað skilríki

Í Málvöndunarþættinum var nýlega vakin athygli á skjali á heimasíðu banka nokkurs þar sem orðið skilríki er notað í eintölu – „skannað skilríki sitt“ og „afrit af […] vottuðu skilríki“. Vissulega er orðið skilríki eingöngu gefið upp sem fleirtöluorð bæði í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók, og engin eintala gefin af því í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. En í fornu máli var orðið ekki síður haft í eintölu en fleirtölu, í merkingunni „Bevislighed som nogen har at fremføre til Godtgjørelse af sin Paastand, til Hævdelse af sin Ret“  eða 'vitnisburður sem maður færir fram til að staðfesta orð sín, til að krefjast réttar síns' eins og segir í Ordbog over det gamle norske Sprog eftir Johan Fritzner.

Þannig segir t.d. í Guðmundar sögu biskups: „Þessir nefndarmenn skulu dæma í lögréttu öll þau mál, er þangat bjóðast, með prófuðu skilríki, ok ei verða samin í héraði.“ Mörg eldri dæmi um orðið í Ritmálssafni Árnastofnunar eru í eintölu, en vissulega er orðið oft notað í dálítið annarri merkingu en þeirri sem það hefur í nútímamáli, 'skírteini (vegabréf e.þ.h.) til að sanna hver viðkomandi einstaklingur er'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er orðið sagt merkja 'Bevis, Bevismiddel, Bevislighed; Dokument'. Þar er „sönnunargagn“ sett í sviga og sú merking á t.d. við í Þjóðólfi 1886: „það er blóðugt að sjá lönd eða hlunnindi hafa gengið undan jörð sinni af þeirri ástæðu einni, að skilríkið kemur einum deginum of seint.“

Þetta er þó vitanlega náskylt, og nútímamerkingin kemur t.d. fram í Vísi 1916: „Þér verðið fyrst að sjá skilríki mitt“, og enn skýrar í Vísi 1945: „Hann hélt á skilríki, sem sannaði hver hann var, en skilríkið var sérstakt spjald, með mynd hlutaðeiganda, nauðsynlegum áritunum og stimplum o. s. frv..“ Allmörg dæmi má finna um eintöluna í þessari merkingu, t.d. „Þetta skilríki fæst fyrir lítinn pening, er handhægt í meðförum og fer vel í vasa“ í Alþýðublaðinu 1959, „Hann afhenti honum skilríki sitt“ í Vísi 1959, „þá getur verslunarstjóri eða staðgengill hans gefið út inneignarnótu á nafn viðskiptavinarins gegn framvísun skilríkis með mynd“ í Neytendablaðinu 1992, „Ljósmyndin á skilríkinu þarf að vera skýr“ í Morgunblaðinu 2014, o.s.frv.

Við eigum flest margs konar skilríki – ökuskírteini, vegabréf o.fl., og því er ekkert skrítið að fólki finnist eðlilegt að hafa orðið í eintölu þegar það vísar til einnar tegundar skilríkja. Það ýtir svo undir þetta að eintölu- og fleirtölumyndir orðsins falla saman í nefnifalli og þolfalli. Á seinustu árum hefur notkun eintölunnar stóraukist – í Risamálheildinni er a.m.k. á annað þúsund dæma um hana, en vegna áðurnefnds samfalls er oft útilokað að sjá um hvora töluna er að ræða. Eintalan er m.a.s. komin inn í lög – í Lögum um fjármálafyrirtæki er talað um „Glatað skilríki“. Eintalan er fullkomlega eðlileg og rökrétt og á sér langa hefð í málinu og ég legg til að skilríki verði notað – og viðurkennt – í eintölu og fleirtölu eftir því sem við á, rétt eins og skírteini.

Posted on Færðu inn athugasemd

Grunur leikur á um

Nýlega sá ég sambandið grunur leikur á um að notað í Heimildinni: „Laxeldisfyrirtækið Arnarlax telur sig ekki þurfa að tilkynna Matvælastofnun (MAST) um öll göt sem finnast á sjókvíum fyrirtækisins nema þegar grunur leikur á um að fiskur hafi sloppið út um þau.“ Ég hef svo sem séð þetta áður en er samt vanur orðalaginu grunur leikur á að, án um, eins og t.d. á vef Ríkisútvarpsins nýlega: „Grunur leikur á að strokulaxar sem sloppið hafa úr kvíum séu að synda upp ár á Vestfjörðum og Norðvesturlandi.“ Í Íslenskri orðabók er sambandið grunur leikur á einhverju gefið upp í merkingunni ‚menn grunar e-ð‘, og í Íslenskri nútímamálsorðabók er sambandið grunur leikur á að gefið upp, en hvorug bókin hefur grunur leikur á um að.

Ég stóð í þeirri meiningu að grunur leikur á um að væri nýlegt samband, líklega blöndun milli grunur leikur á að og grunur er um að. En þegar ég fór að skoða þetta reyndist sambandið alls ekki nýtt. Elsta dæmi sem ég fann um það er í Tíðindum um stjórnarmálefni Íslands 1870: „grunur lék á um, að séra Hjálmar sálugi Guðmundsson hefði farið ólöglega með skóga prestssetursins Hallormstaðar.“ Annað dæmi er í Fjallkonunni 1899: „Í 9. gr. er fyrirskipað að engan, sem grunur leikur á um, að hafi næman sjúkdóm, megi bólusetja eða endurbólusetja öðruvísi enn með bóluefni úr pípum.“ Í Templar 1913 segir: „Það mætti reyna að tala við þá menn sem grunur leikur á um að áfengi selji ólöglega og reyna að fá þá til að hætta því.“

Alls eru rúm fjögur hundruð dæmi um grunur leikur á um að á tímarit.is, en hátt á ellefta þúsund um grunur leikur á að og tæp ellefu hundruð um grunur er um að. Í Risamálheildinni eru tæp þúsund dæmi um grunur leikur á um að en tæp þrettán þúsund um grunur leikur á að en rúm 2300 um grunur er um að. Það er því enginn vafi á að grunur leikur á að, án um, er aðalmynd sambandsins en myndin grunur leikur á um að hefur greinilega verið að sækja í sig veðrið á þessari öld. Þótt sú mynd sambandsins hafi ekki komist í orðabækur er hún bæði svo gömul og svo algeng að ekki er hægt að líta fram hjá henni og engin ástæða til að amast við henni. Mér finnst sjálfsagt að líta svo á að bæði þessi sambönd séu rétt og eðlileg íslenska.

Annað svipað samband er vafi leikur á () og vafi leikur á um (). Hér gildir það sama, að samböndin með um eru ekki í orðabókum. Þau eru þó gömul – „Nokkur vafi leikur á um kjörgengi Sigurðar búfræðings“ segir í Þjóðólfi 1900 en elsta dæmi án um er litlu eldra: „þjóðin lýsti vilja sínum svo skýrt á fundinum, að enginn vafi leikur á því“ segir í Þjóðviljanum 1889. Elsta dæmi með á að er „Enginn vafi leikur á, að sá herra verði úr flokki demokrata“ í Lögbergi 1897, en elsta dæmi með á um að er „Útsölumönnum er skylt að heimta skilríki af kaupanda, ef vafi leikur á um, að honum megi afhenda áfengi“ í Íslendingi 1938. Samböndin með um eru 10-20 sinnum sjaldgæfari en hin, en engin ástæða er samt til annars en telja þau góð og gild.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hvað skellur á?

Í morgun var hér vakin athygli á því að í fréttum Ríkisútvarpsins hefði verið notað orðalagið skall á um verkfall flugumferðarstjóra – í fréttum klukkan átta var sagt „Verkfall flugumferðarstjóra skall á nú klukkan fjögur í nótt“. Í fréttum klukkan níu var hins vegar sagt „Verkfall flugumferðarstjóra sem hófst klukkan fjögur í nótt stendur enn.“ Málshefjandi sagðist „vanari því að stórhríð skelli á!“ og það væri „stórpólitískt hvernig tungumálið er notað“. Þarna er væntanlega átt við að orðalagið sé ekki hlutlaust, en í umræðum var bent á að það væri löng hefð fyrir því að tala um að verkfall skelli á, og það hefði t.d. iðulega verið notað í Þjóðviljanum sáluga sem gera má ráð fyrir að hafi oftast fremur verið hlynntur verkföllum en andvígur.

Í Íslensk-danskri orðabók 1920-1924 er sambandið skella á skýrt 'om n-t, der paakommer pludseligt, is. om Vejret', þ.e. 'um eitthvað sem gerist skyndilega, einkum um veðrið' og í Íslenskri orðabók er það skýrt 'e-ð dynur skyndilega yfir' og tekin dæmin „bylurinn skall skyndilega á“ og „á miðnætti skellur verkfallið á“. Sambandið hefur alla tíð verið mjög algengt – um 60 þúsund dæmi eru um það á tímarit.is og um 38 þúsund dæmi í Risamálheildinni. Óeiginleg merking þess er gömul – elsta dæmi sem ég finn um hana er í Skírni 1855: „nú mundi þess ekki langt að bíða, að óveður umbyltinganna skylli á.“ Elsta dæmi um verkfall í þessu sambandi er í Morgunblaðinu 1919: „En um sömu mundir var verkfallið skollið á.“

Það sem skellur á er langoftast veður – bylur, hríð, stormur, rok, rigning, úrhelli, frosthörkur, óveður o.s.frv. Ýmis önnur náttúrufyrirbæri skella einnig áþruma, skriða, snjóflóð, vatnsflóð, jarðskjálfti, og einnig myrkur og nótt. Við þetta bætast hörmungar af ýmsu tagi, ýmist af manna völdum eða náttúrunnar – vandræði, átök, stríð, styrjöld, ófriður, hungursneyð, og í seinni tíð bankahrun, fjármálakreppa, covid, samkomubann o.fl. Það er sameiginlegt öllum þessum dæmum að það sem skellur á er óvelkomið og óæskilegt og því mjög neikvætt. Aðeins sárafá dæmi eru um annað, eins og „áður en keppni skellur á í deildunum“ í Morgunblaðinu 2017 og „Hann segir að fundað hafi verið um málið áður en EM skall á“ í Fréttablaðinu 2020.

En svo er það verkfall. Á tímarit.is eru um 1950 dæmi um verkfall með skella á – til samanburðar eru um 2050 dæmi um verkfall með hefjast. Hátt í 800 dæmi eru svo um verkfall með skella á í Risamálheildinni. Sérstaða verkfalla felst í því að viðhorf fólks til þeirra getur verið misjafnt. Þau skapa vissulega vandræði, og eiga að gera það, og eru að því leyti óvelkomin og óæskileg í augum margra eins og þau náttúrufyrirbæri og hörmungar sem nefnd voru að framan – en jafnframt eru þau mikilvæg baráttutæki launafólks og jákvæð að því leyti. En vegna þess hvernig skella á er notað að öðru leyti má halda því fram að í notkun þess um verkföll felist dulin en líklega oftast ómeðvituð afstaða – sambandið hefur augljóslega á sér blæ neikvæðni.

Það þýðir auðvitað ekki að fólk sem talar um að verkfall skelli á sé þar með að lýsa andstöðu sinni við verkfallið. Þannig hefur það a.m.k. örugglega sjaldnast verið þegar þetta samband var notað í Þjóðviljanum áður fyrr. Þetta er fast orðasamband, rótgróið í málinu, sem við grípum til umhugsunarlaust. Það breytir því ekki að tenging þess við óæskileg fyrirbæri og atburði getur haft ómeðvituð áhrif á viðhorf okkar til verkfalla. Ég er samt alls ekki að hvetja til þess að við forðumst þetta samband – því fer fjarri. En þetta er hins vegar gott dæmi um mikilvægi þess fyrir okkur, bæði sem sendendur og viðtakendur, að við gerum okkur grein fyrir þeim duldu og ómeðvituðu skilaboðum sem felast oft í orðanotkun sem í fljótu bragði virðist hlutlaus.

Posted on Færðu inn athugasemd

Eru skammstafanir og styttingar orð?

Út frá umræðu um ChatGPT fór ég að velta fyrir mér hvernig við förum með ýmis heiti sem eru skammstöfuð eða stytt, bæði þau sem koma af íslenskum orðum og þau sem eru fengin erlendis frá. Oft eru heitin stöfuð, t.d. ká-err (KR, Knattspyrnufélag Reykjavíkur), bé-ess-err-bé (BSRB, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja), emm-ess (MS, Mjólkursamsalan eða Menntaskólinn við Sund), ess-eff-ess (SFS, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi), ká-eff-sé (KFC, Kentucky Fried Chicken) o.s.frv. Þessar skammstafanir innihalda engin sérhljóð og eru því óframberanlegar sem orð – eff-ess-u (FSu, Fjölbrautaskóli Suðurlands) inniheldur að vísu sérhljóð en fs í upphaf orðs samræmist ekki hljóðskipunarreglum og er því líka óframberanlegt.

En skammstafanir sem hafa að geyma sérhljóð og falla að hljóðskipunarreglum íslensku eru stundum bornar fram sem orð, t.d. KRON (Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis), SÍS (Samband íslenskra samvinnufélaga), BYKO (Byggingarvöruverslun Kópavogs), VÍS (Vátryggingafélag Íslands), SPRON (Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis) o.fl. Þetta er þó ekki algilt. Ég held t.d. að SA (Samtök atvinnulífsins) sé yfirleitt borið fram ess-a, ekki sa, ASÍ (Alþýðusamband Íslands) er borið fram a-ess-í, ekki así, UMFÍ (Ungmennafélag Íslands) er borið fram u-emm-eff-í, ekki umfí, (Fjölbrautaskólinn við Ármúla) er borið fram eff-á, ekki , o.fl. Stundum er þessu blandað saman – FMOS (Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ) er borið fram eff-mos.

En jafnvel þær skammstafanir og styttingar sem eru bornar fram sem orð haga sér yfirleitt öðruvísi en venjuleg orð – þær fallbeygjast nefnilega sjaldan eða aldrei. Það var aldrei talað um *kaupfélagsstjóra KRONS eða *sparisjóðsstjóra SPRONS, og aldrei sagt *ég keypti þetta í KRONI eða *ég fékk lán hjá SPRONI. Oft er reynt að forðast aðstæður þar sem þarf að vísa til kyns skammstafananna, en ef nauðsynlegt er að gefa þeim eitthvert kyn fer það líklega oftast eftir aðalorði sambandsins sem skammstöfunin vísar til. Þótt KRON og SPRON virðist hliðstæð orð held ég að við myndum segja KRON er farið á hausinn (af því að aðalorðið er kaupfélag) en aftur á móti SPRON er farinn á hausinn (af því að aðalorðið er sparisjóður).

Einnig má nefna erlendar skammstafanir sem við vitum ekki endilega – eða hugsum ekki út í –  að eru skammstafanir, eins og IKEA (Ingvar Kamprad Elmtaryd Agunnaryd), og styttingar sem gætu eins verið sjálfstæð orð, s.s. Eimskip (Eimskipafélag Íslands), Brunabót (Brunabótafélag Íslands), Eymundsson (Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar) o.fl. Þessar styttingar beygjast ekki heldur, eða a.m.k. minna en venjuleg orð. Eimskip er oft endingarlaust í eignarfalli þótt það fái oft endingu eignarfalls eintölu eða fleirtölu, Eimskips eða Eimskipa, og þótt skip eitt og sér sé alltaf skipi í þágufalli er langoftast sagt hjá Eimskip. Einnig er alltaf sagt hjá Eymundsson en ekki *Eymundssyni í þágufalli og bókabúð Eymundsson en ekki *Eymundssonar í eignarfalli.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að fasa út

Í Málvöndunarþættinum sá ég amast við sambandinu fasa út sem er algengt í fréttum og annarri opinberri umræðu og skýrslum þessa dagana. Forsætisráðherra sagði t.d. nýlega í viðtali: „Við tölum mjög skýrt fyrir þeirri afstöðu að fasa út jarðefnaeldsneyti og að hætta opinberum niðurgreiðslum á því.“ Í skýrslunni Vindorka: Valkostir og greining sem Stjórnarráðið gaf út í apríl sl. segir: „Ljóst er að ef markmið ríkisstjórnarinnar um að fasa jarðefnaeldsneyti að fullu út á næstu 17 árum á að nást þarf að huga heildstætt að nýtingu orkukerfisins.“ Í Skýrslu starfshóps um eflingu samfélagsins á Vestfjörðum frá því í júní sl. segir: „Markmið: Að fasa út notkun jarðefnaeldsneyti[s] til húshitunar á Vestfjörðum fyrir árið 2030.“

Ljóst er af samhengi að fasa út er þarna notað í sömu merkingu og enska sambandið phase out sem það er komið af og skýrt er 'to remove or stop using something gradually or in stages', þ.e. 'fjarlægja eða hætta að nota eitthvað smátt og smátt eða í skrefum'. Þetta er mjög nýlegt orðalag í íslensku – elsta dæmi sem ég finn er í héraðsdómi frá 2011 þar sem segir: „í því er gert ráð fyrir að SPRON geti fasað út þjónustuþætti.“ Í Vísi 2016 segir: „Heimasíminn lifir enn góðu lífi og það lítur út fyrir að honum verði fasað út hægt og rólega.“ Í Morgunblaðinu 2016 segir: „Ákváðu stjórnvöld þá að fasa út kjarnorku og loka kjarnorkuverum.“ Í Fréttablaðinu 2019 segir: „Þar verður m.a. rætt samnorrænt átak að fasa út plasti í forhlöðum haglaskota.“

Þegar nýjar áhrifssagnir koma inn í málið getur verið spurning hvaða falli þær stýra, og eins og dæmin hér að framan sýna virðist fallstjórn fasa vera á reiki. Þolfall er notað í „fasa út þjónustuþætti“ en þágufall í „honum verði fasað út“ og „fasa út plasti“. Dæmi eru um ýmist þolfall eða þágufall með sama orði: Í Bændablaðinu 2020 er sagt að „fyrsti áfangi Símans við að fasa út PSTN koparkerfið, heimasíma, hefjist 1. október næstkomandi“ en í Morgunblaðinu sama ár segir: „Danir fóru þá leið að fasa út ákveðnum grunnkerfum.“ Í algengustu notkun orðsins, dæmum eins og „fasa út jarðefnaeldsneyti“, „fasa út notkun jarðefnaeldsneytis“ „fasa út olíu“ o.fl., er hins vegar ekki hægt að sjá hvort um þolfall eða þágufall er að ræða.

Þar eð sambandið er mjög nýlegt finnst sögnin fasa ekki í orðabókum en hún fellur ágætlega að málinu, sbr. nasa, rasa, þrasa o.fl. Aðeins 14 dæmi er um fasa út á tímarit.is, flest frá síðustu þremur árum, og innan við tíu í Risamálheildinni. Aftur á móti eru tíu dæmi um nafnorðið útfösun á tímarit.is, það elsta frá 2002 en flest frá síðustu fimm árum, og yfir 50 dæmi í Risamálheildinni. Notkun fasa út hefur margfaldast á síðustu mánuðum, einkum í tengslum við loftslagsumræðu en einnig í öðru samhengi. Einnig hefur sambandið fasa niður heyrst í svipuðu samhengi en í ensku er til phase down í sömu merkingu og phase out. Sambandið fasa út er gagnlegt í íslensku – merkir annað en bæði draga úr og hætta. Ég sé ekkert mæla gegn því.

Posted on Færðu inn athugasemd

Gæti ChatGPT verið íslenskt orð?

Eins og áður hefur verið nefnt hér stendur nú yfir val á orði ársins 2023 á Rás tvö og Árnastofnun hefur einnig valið orð ársins undanfarin ár út frá Risamálheildinni. Sambærilegt val fer fram víða erlendis en á mismunandi forsendum eftir löndum – sums staðar kjósa málnotendur orðið, annars staðar eru það opinberar málræktarstofnanir sem sjá um valið og enn annars staðar fyrirtæki á sviði orðabókagerðar. Hér var nýlega nefnt að Oxford-orðabókin valdi rizz sem orð ársins í Bretlandi en Bandaríkjunum valdi Merriam-Webster orðabókin aftur á móti authentic þótt rizz væri einnig ofarlega á blaði þar. Í Danmörku er valið úr tillögum málnotenda í samvinnu dönsku málnefndarinnar, Dansk Sprognævn, og útvarpsþáttarins „Klog på Sprog“.

Orðið sem varð fyrir valinu í Danmörku þetta árið er ChatGPT. Það er vitanlega mjög sérstakt orð, ef orð skyldi kalla – fyrri hlutinn er enska orðið chat og borinn fram eins og það orð, en seinni hlutinn er skammstöfunin GPT sem stendur fyrir Generative Pre-trained Transformer, og sá hluti er ekki borinn fram sem heild heldur hver bókstafur fyrir sig. Þessi samsetning er vitanlega orðin mjög algeng í íslensku samhengi líka en ég býst þó varla við því að hún komi til álita sem orð ársins í íslensku. Þótt tökuorð úr ensku eigi tiltölulega greiða leið inn í málið og falli oft ágætlega að því er mér til efs að við myndum nokkurn tíma kalla þetta íslenskt orð – eða orð yfirleitt – til þess er bæði orðhlutagerð þess og hljóðafar of framandi.

Orð með skammstöfun sem seinni lið á sér ekki fordæmi í íslensku og kemur í veg fyrir að hægt sé að taka ChatGPT inn í málið í óbreyttri mynd. En við það bætist hljóðafarið. Orðið chat er í ensku borið fram [tʃæt] og hvorki [tʃ] né [æ] eru venjuleg íslensk málhljóð. Við setjum a í stað [æ] og getum sett tsj í stað [tʃ] en engin íslensk orð byrja á tsj- þótt vissulega séu tökuorð eins og tsjilla algeng í óformlegu máli. Svo er spurning hvernig lesum úr seinni hlutanum, GPT, sem ekki hefur að geyma nein sérhljóð og er því ekki hægt að bera fram sem orð. Notum við þá ensk heiti bókstafanna (aðlöguð íslenskum framburði) og segjum tsjattdsjípítí eða eitthvað í þá átt, eða notum við íslensku heitin og segjum tsjattgépété? Tíminn verður að leiða það í ljós.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hvers konar frávik er vegna ofbeldi?

Ég rakst á fyrirsögnina „Óttast að missa barnið frá sér vegna ofbeldi fyrrverandi“ á mbl.is í dag. Nú stjórnar forsetningin vegna eignarfalli og ofbeldi er hvorugkynsorð sem ætti að fá endinguna -s í eignarfalli eins og önnur nafnorð í því kyni (önnur en þau sem enda á -a) – þarna ætti sem sé að standa vegna ofbeldis ef málhefð væri fylgt. Auðvitað gæti þetta verið einhvers konar frágangs- eða fljótfærnisvilla og þá er svo sem ekki meira um það að segja, en einnig gæti þetta verið vitnisburður um byrjandi málbreytingu. Undanfarin rúm 40 ár hefur því oft verið haldið fram að eignarfall stæði höllum fæti í málinu og stundum verið talað um „eignarfallsflótta“ í því sambandi, allt frá því að Helgi Skúli Kjartansson skrifaði grein með því heiti 1979.

Slík breyting gæti verið af mismunandi toga. Einn möguleiki er sá að fallstjórn forsetningarinnar vegna sé að breytast – hún taki ekki lengur alltaf með sér eignarfall heldur geti stundum tekið þolfall eða þágufall. Í sumar skrifaði ég um dæmi eins og vegna hlýnun sem eru nokkuð algeng og taldi að þau væru „frekar til marks um að kvenkyns -un-orð séu farin að missa eignarfallsendinguna en að fallstjórn forsetningarinnar vegna sé að breytast“ en bætti við: „Þetta þarf þó að kanna miklu nánar, og vel má vera að einhver merki séu líka um breytta fallstjórn.“ Það væri óheppilegt ef fallstjórn vegna væri að breytast – fyrir utan til er hún aðalforsetningin sem stjórnar eignarfalli og breytt fallstjórn hennar myndi því veikja stöðu þess.

Annar möguleiki er að beyging orðsins ofbeldi sé að breytast – það fái ekki lengur endilega -s-endingu í eignarfalli heldur geti verið endingarlaust. Það væri eiginlega mun alvarlegra en breytt fallstjórn vegna – sterk hvorugkynsorð eru mjög stór flokkur orða og breyting á beygingu þeirra, sem kæmi þannig út að þau hvorugkynsorð sem enda á -i hættu að beygjast vegna þess að öll föll þeirra í eintölu yrðu þá eins, væri því veruleg breyting á kerfinu og í raun veiking þess. En þriðji möguleikinn er sá að þetta snúist hvorki um fallstjórn né beygingarmynd, heldur um kyn – orðið ofbeldi sé sem sagt notað þarna í kvenkyni í stað hvorugkyns. Kvenkynsorð sem enda á -i geta nefnilega verið endingarlaus í eignarfalli, svo sem gleði, reiði, athygli, illgirni o.m.fl.

Það eru dæmi um að orð af þessari gerð fari milli kynja. Orðið athygli sem nú er alltaf haft í kvenkyni var t.d. ekki síður hvorugkynsorð áður fyrr og -s- í lýsingarorðinu athyglisverður er því alveg eðlilegt. Þótt ofbeldi sé nær alltaf hvorugkynsorð má finna einstöku dæmi á netinu um að það sé haft í kvenkyni. Á Bland.is 2005 segir: „ég varð fyrir mikilli líkamlegri og andlegri ofbeldi af barnsföður mínum.“ Á Blog.is 2009 segir: „Á mótmælafundinum í dag var engin ofbeldi.“ Í DV 2018 segir: „Mikil ofbeldi hefur átt sér stað undanfarna daga í borginni Ghazipur í Uttar Pradesh héraðinu í Indlandi.“ Í Vísi 2021 segir: „Það er alveg jafn mikil ofbeldi.“ Dæmi af þessu tagi eru þó vissulega mjög fá og ekki hægt að draga miklar ályktanir af þeim.

Það eru sem sé fjórar hugsanlegar skýringar á því fráviki frá málhefð sem kemur fram í fyrirsögninni sem nefnd var í upphafi. Fyrir utan að vera frágangsvilla getur þetta sýnt breytta fallstjórn forsetningarinnar vegna, breytta fallbeygingu nafnorðsins ofbeldi, eða breytt kyn orðsins. Af hinum þremur hugsanlegu málfræðilegum skýringum er sú síðastnefnda „æskilegust“, ef svo má segja, frá sjónarhorni tungumálsins. Hinar tvær eru nefnilega röskun á kerfinu en breyting á kyni einstaks orðs, sem formsins vegna gæti verið af tveimur mismunadi kynjum, hefur engin víðtækari áhrif. Í stað þess að afgreiða frávik frá málhefð einfaldlega sem „villur“ er miklu gagnlegra að velta fyrir sér í hverju þau felast – og hvaða áhrif þau gætu haft.

Posted on Færðu inn athugasemd

Fatafellur og stripparar

Í Málvöndunarþættinum var vísað í frétt um kaup starfskvenna Lögreglustjóraembættisins í Reykjavík á „karlkyns fatafellu“ og spurt: „Karlkyns fatafella – er hann ekki bara fatafellir.“ Þarna koma skýrt fram þau tengsl sem mörgum finnst vera milli málfræðilegra kynja starfsheita og kyns þeirra sem störfunum gegna. Það er alkunna að meginhluti hvers kyns starfs- og hlutverksheita í íslensku er karlkyns og mörgum þykir fullkomlega eðlilegt að þau séu ekki bara notuð um karla, heldur líka um konur og kvár og bregðast ókvæða við ef reynt er að breyta því. Öðru máli gegnir hins vegar þegar karlar sinna störfum sem konur hafa einkum gegnt og hafa kvenkyns starfsheiti – þá þykir oft sjálfsagt eða nauðsynlegt að búa til karlkynsorð.

Elstu dæmi um orðið fatafella á tímarit.is eru frá 1967 – í Tímanum það ár segir að „fatafellan Zicki Wang“ hafi nýlega haldið „af landi brott eftir að hafa skemmt í Lídó um nokkurra vikna skeið“. Þessi tegund „skemmtunar“ virðist þá hafa verið ný á Íslandi en blómstraði á áttunda áratugnum, ekki síst með hinni dönsku Susan sem baðaði sig á dansgólfinu við mikinn fögnuð margra. Vinsældir slíkra „skemmtana“ má marka af tíðni orðsins fatafella sem dalaði nokkuð á níunda áratugnum en rauk upp aftur á þeim tíunda með tilkomu ýmissa nektardansstaða. Framan af voru það nær eingöngu konur sem fækkuðu fötum, og skýring orðsins fatafella í Íslenskri nútímamálsorðabók er í samræmi við það: 'kona sem sýnir nektardans á skemmtistað'.

Á tíunda áratugnum fór þó að bera á karlmönnum sem stunduðu sambærilega iðju. Þeir fengu hins vegar sjaldnast starfsheitið fatafella, nema þá að karlkyns fylgdi með. Þess í stað var tekið upp karlkynsorðið strippari. Það sést fyrst í Mánudagsblaðinu 1971 og vísar þá til kvenna, en sést næst í blöðum 1990 – í auglýsingu um „Kvennahátíð“ í Morgunblaðinu það ár segir: „Einnig ætla velvaxnir „STRIPPARAR“ að sýna listir sínar.“ Þetta orð verður svo algengt á tíunda áratugnum og það sem af er þessari öld eru orðin fatafella og strippari álíka algeng á tímarit.is. Sama gildir um Risamálheildina að undanskildum samfélagsmiðlahlutanum þar sem strippari er mun algengara enda þykir það væntanlega óformlegra orð vegna ensks uppruna.

En þrátt fyrir enskan uppruna er strippari ekkert óíslenskulegt orð og auðvitað skylt sögninni striplast sem á sér langa sögu í málinu. Í óformlegu máli virðist algengara en annars staðar að strippari vísi til kvenna en það kann að stafa af áhrifum frá ensku þar sem stripper er notað bæði um karla og konur. Þrátt fyrir það er verkaskipting orðanna fatafella og strippari, sem skýrt er 'nektardansari eða nektardansmær' í Íslenskri nútímamálsorðabók, nokkuð skýr –langoftast er karlkynsorðið notað um karla, kvenkynsorðið um konur. Þótt vissulega séu ýmis dæmi um að strippari vísi til kvenna er mun sjaldgæfara að fatafella vísi til karla. Þetta er því skýrt dæmi um að í málvitund margra eiga kvenkyns starfsheiti ekki við um karla.