Posted on Færðu inn athugasemd

Förufólk

Í gær var sett hér inn frétt af mbl.is með fyrirsögninni „Svíar að skipta um skoðun á förufólki“ – með þeim ummælum að förufólk væri „prýðilegt orð í þessu samhengi“. En um það má deila. Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru tvær skýringar á orðinu förufólk – sú fyrri er 'fólk sem flakkar um sveitir í leit að mat og húsaskjóli' og sú seinni 'fólk sem yfirgefur heimkynni sín í leit að betri framtíð'. Orðið förumaður er skýrt 'sá eða sú sem flakkar um sveitir í leit að mat og húsaskjóli, flakkari'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er förumaður skýrt 'Tigger' ('betlari') og Íslenskri orðabók sem 'flakkari, beiningamaður' en förufólk er í hvorugri bókinni. Það er aftur á móti í Íslenskri samheitaorðabók með samheitinu 'vergangsfólk'.

Eins og ég hef oft nefnt er tungumálið valdatæki og fólk í áhrifastöðum, t.d. stjórnmálafólk og fjölmiðlafólk, nýtir það oft á meðvitaðan og markvissan hátt til að reyna að hafa áhrif á skoðanir okkar. Við það er að sjálfsögðu ekkert að athuga – en við þurfum að gera okkur grein fyrir því og skoða það sem frá þessu fólki kemur á gagnrýninn hátt, reyna að átta okkur á því hvernig orðavali og orðanotkun er beitt til að koma ákveðnum viðhorfum á framfæri. Í þessu tilvik má spyrja hvers vegna orðið förufólk sé valið. Í fréttinni er vitnað til nýrrar skýrslu sænska jafnaðarmannaflokksins og sagt: „Fáir hafa verið jafneindregnir talsmenn viðtöku förufólks frá framandi löndum og dásemda fjölmenningarsamfélagsins og sænskir jafnaðarmenn.“

Í sænsku skýrslunni sem vísað er til er talað um invandrare, invandring og migration. Á íslensku er venja að nota orðið innflytjandi um fólk sem flyst til landsins frá öðrum löndum – orðið innflutningur er auðvitað til líka en það er frekar notað um vörur en fólk þótt sambandið innflutningur fólks komi vissulega fyrir. Merkingin í migration er svo einfaldlega 'fólksflutningar'. Í frétt mbl.is er hins vegar valið að nota orðið förufólk í staðinn fyrir hið venjulega orð innflytjendur. Það skiptir máli fyrir andann í fréttinni, því að enginn vafi er á því að orðin förufólk og förumaður hafa á sér neikvæðan blæ í huga margra eins og orðabókarskýringarnar benda til, sem og dæmi í Ritmálssafni Árnastofnunar og á tímarit.is.

Nú er ég hlynntur því að endurnýta gömul orð sem hafa lokið hlutverki sínu í upphaflegri merkingu, og vissulega er förufólk lipurt orð og hefur stundum í seinni tíð verið notað um fólk sem fer milli landa eins og seinni skýring Íslenskrar nútímamálsorðabókar bendir til. En þótt förufólk í eldri merkingu sé blessunarlega horfið hér á landi er svo sannarlega ekki alls staðar. Þess vegna er full þörf fyrir orðið í sinni upphaflegu merkingu, og jafnvel þótt svo væri ekki er ljóst að a.m.k. verulegur hluti málnotenda þekkir hina neikvæðu merkingu orðsins. Það er óheppilegt að taka gömul orð sem hafa haft neikvæða eða niðrandi merkingu og ætla sér að nota þau í hlutlausri eða jákvæðri merkingu – hætt við að uppruninn þvoist ekki af þeim.

Þetta á sérstaklega við um orð sem notuð eru um jaðarsetta hópa og fólk sem á undir högg að sækja af einhverjum ástæðum. Ef fjölmiðlar nota orð sem hafa á sér neikvæðan eða niðrandi blæ um þessa hópa er það til þess fallið að ýta undir neikvætt almenningsálit gagnvart þeim. Ef orðið innflytjandi þykir af einhverjum ástæðum óheppilegt er vel hægt að bregðast við á annan hátt en með því að grípa til orðs sem hefur neikvæða merkingu í huga margra. Það mætti t.d. nota orðið farandfólk sem notað er sem þýðing á migrants í Hugtakasafni þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins eða farfólk sem einnig er dæmi um að hafi verið notað í sömu merkingu. En með því að tala um förufólk er tekin skýr pólitísk afstaða – sem sjálfsagt hugnast sumum.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hristu þau höfuðið – eða höfuðin?

Í Málfarsbankanum segir: „Það fer betur á að segja þeir hristu höfuðið en „þeir hristu höfuðin“. Sömu athugasemd má finna víðar. Í dálknum „Málið“ í Morgunblaðinu 2012 segir: „Sumir útlendingar hrista höfuðin þegar við hristum höfuðið. Höldum endilega áfram að hrista það“, og í sama dálki árið 2014 segir: „Gaman væri ef sú venja lifði að segja frekar: […] Þau hristu höfuðið en „hristu höfuðin“.“ Trúlegt er að þetta boðorð eigi rætur að rekja til kversins Gætum tungunnar frá 1984 þar sem segir: „Sagt var: Þeir hristu höfuðin. Þetta er erlend setningargerð. Rétt væri: Þeir hristu höfuðið. (Hið fyrra gæti átt við þríhöfða þursa.)“ Rökin fyrir því að nota eintölu eru sem sé þau að við erum óumdeilanlega bara með eitt höfuð hvert og eitt.

En ef Jón hristir höfuðið og Gunna hristir líka höfuðið er ljóst að það er ekki sama höfuðið sem þau eru að hrista, heldur hrista þau hvort sitt höfuð. Það eru því óumdeilanlega tvö höfuð sem eru hrist og því hlýtur fleirtalan að teljast „rökrétt“ þarna. En málið er ekki endilega alltaf rökrétt svo að það dugir ekki til að réttlæta fleirtöluna ef annað mælir gegn henni. Það gæti t.d. verið að um væri að ræða erlenda setningagerð, eins og haldið er fram í Gætum tungunnar, sem stríddi gegn íslenskri málhefð. En þótt notuð sé fleirtala í ensku og sagt they shook their heads eru það engin rök gegn því að nota fleirtölu í íslensku, nema hægt sé að sýna fram á að engin hefð sé fyrir fleirtölunni í þessu sambandi í málinu heldur sé verið að apa hana upp eftir ensku.

En því fer fjarri að svo sé. Fleirtalan hefur verið notuð í þessu samhengi í margar aldir og m.a. eru dæmi um hana í elstu prentuðu bók á íslensku, Nýja testamentinu í þýðingu Odds Gottskálkssonar frá 1540. Í Mattheusarguðspjalli segir „Og þeir sem þar gengu hjá hæddu hann, skakandi höfuð sín“ og í samsvarandi setningu í Markúsarguðspjalli segir „skóku höfuð sín“. Í Guðbrandsbiblíu frá 1584 eru svo nokkur dæmi í viðbót. Einnig má nefna að í greininni „Frá Thaddæus Kosciuszko“ sem birtist í Fjölni 1838 og sögð er eftir ekki minni málsmekksmenn en Jónas Hallgrímsson og Konráð Gíslason segir: „Enn þeir, sem næstir honum voru, snurtu knje hans hinni hægri hendi, tóku ofan, og dreifðu dupti á höfuð sín til iðrunarmerkjis.“

Mikinn fjölda dæma um fleirtöluna hrista höfuðin og önnur sambærileg sambönd má finna allt frá 19. öld til samtímans. Það er ljóst að notkun bæði eintölu og fleirtölu í þessu sambandi er í samræmi við íslenska málhefð og þótt elstu fleirtöludæmin séu úr þýðingu Nýja testamentisins dugir það varla sem rök fyrir því að kalla þetta erlenda setningagerð sem beri að forðast. En það þýðir ekki að hægt sé að nota fleirtölu í *þau voru með hjörtun í buxunum eða *þau voru að bora í nefin á sér þótt það geti virst rökrétt og hliðstætt við þau hristu höfuðin. Fyrir því er engin hefð og málið er fullt af alls konar óútskýrðu og tilviljanakenndu ósamræmi – sem er einn af töfrum þess. Hér hlýtur málhefð að ráða en ekki tilbúin regla sem hver étur upp eftir öðrum.

Posted on Færðu inn athugasemd

Aðgerðaáætlun lögð fram

Ég var áðan á kynningarfundi ráðherranefndar um íslenska tungu á þingsályktunartillögu sem menningar- og viðskiptaráðherra lagði fram á Alþingi í morgun um „aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026“. Fimm ráðherrar sitja í ráðherranefndinni og í fréttatilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir: „Unnið hefur verið að mótun aðgerðanna í samstarfi ráðuneytanna fimm en þær snerta flest svið samfélagsins.“ Þessi tillaga hefur verið lengi á döfinni og fyrirsögnin eiginlega þegar orðin úrelt því að lítið er eftir af árinu 2023, en upphaflega átti að leggja tillöguna fram í mars sl. Í tillögunni er að finna lýsingu á „alls 19 aðgerðum sem miða að því að styrkja stöðu tungumálsins til framtíðar“ segir í áðurnefndri fréttatilkynningu.

Í tillögunni „er meðal annars lögð áhersla á málefni íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur og aukið samstarf við atvinnulífið og þriðja geirann. Leiðarstef í aðgerðunum er að bæta aðgengi og gæði íslenskukennslu, stuðla að auknum sýni- og heyranleika tungumálsins og aukinni samvinnu um það langtímaverkefni að tryggja verndun og þróun íslenskrar tungu. Sumar aðgerðanna fela í sér umfangsmiklar kerfisbreytingar en áætlunin hefur tengsl við mörg önnur áhersluverkefni stjórnvalda sem unnið er að í samstarfi ráðuneyta og stofnana, þar á meðal stefnumótun í málefnum innflytjenda og flóttafólks, menntastefnu 2030, heildarendurskoðun framhaldsfræðslukerfisins og aðgerðaáætlun ferðaþjónustu til 2030.“

Tillagan var upphaflega kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í byrjun júní sl. og „bárust 36 umsagnir um tillöguna og ýmsar gagnlegar athugasemdir og ábendingar sem horft var til við nánari mótun aðgerðanna“ segir í áðurnefndri fréttatilkynningu. Ég hef borið upphafleg drög saman við framlagða tillögu og sýnist sáralítið hafa breyst. Einni aðgerð hefur verið bætt við, orðalagi hnikað til á stöku stað og samstarfsaðilum víða bætt í upptalningu, en efnislega er þetta nokkurn veginn sama tillagan. Þess vegna eru athugasemdir mínar um það sem vantar í tillöguna að mestu leyti enn í fullu gildi. Meginathugasemd mín laut að fjármögnun aðgerðanna sem ekki var nefnd í drögunum. Ég taldi mikilvægt að einstökum aðgerðum fylgdi kostnaðarmat.

Í athugasemdum mínum í sumar sagði ég: „Aðgerðaáætlunin er metnaðarfull á margan hátt og í henni er að finna fjölda góðra áforma um aðgerðir sem örugglega munu efla íslenskuna verulega ef þeim verður hrint í framkvæmd.“ Þetta er í fullu gildi, en við það má bæta því að mér finnst orðalag almennt of loðið í tillögunni. Hún er skrifuð í viðtengingarhætti – orðið verði kemur t.d. 43 sinnum fyrir í henni („leitað verði leiða“, „lögð verði áhersla“, „hvatt verði til“, „samráð verði“ o.s.frv.). Hér hefði ég kosið ákveðnara og afdráttarlausara orðalag. Í flestum liðum eru nefnd dæmi um hugsanlega samstarfsaðila – sem er gott – en ekki kemur fram hvort rætt hafi verið við þessa aðila eða hvort vitað sé um hug þeirra til samstarfs.

Kostnaðarmat einstakra aðgerða er ekki að finna í endanlegri tillögu fremur en í drögunum, en í áðurnefndri fréttatilkynningu segir þó: „Ráðgert er að framlög vegna aðgerðanna muni nema um 1.365 milljónum kr. en í áætluninni eru einnig aðgerðir sem ekki hafa verið kostnaðarmetnar að fullu og því má gera ráð fyrir að heildarkostnaður verði hærri.“ Þetta gengur eiginlega ekki upp – inni í áætluninni eru aðgerðir í máltækni og þegar hefur því verið lýst yfir að 360 milljónum á ári verði varið í máltækni út árið 2026. Eins og ég hef áður nefnt sé ég engin merki um aukin framlög til íslenskunnar í fjármálaáætlun næstu fimm ára eða í fjárlagafrumvarpi næsta árs. En þar fyrir utan er þetta allt, allt, alltof lítið fé. Íslenskan má alveg kosta meira.

Posted on Færðu inn athugasemd

Aukum íslenskuna í málumhverfinu!

Það sem Freyja Birgisdóttir segir í frétt Morgunblaðsins í dag er hárrétt og samræmist algerlega því sem ég hef oft skrifað um. „Lestr­aráhugi er ekk­ert sér­stak­lega mik­ill á meðal ungs fólks í dag. Þetta er bara sam­keppni um tíma og þau velja lang­flest að gera eitt­hvað annað í frí­tíma sín­um en að lesa [...] Orðaforði ís­lenskra nem­enda er að minnka ein­fald­lega af því að þau lesa minna og það er svo mikið af ensku í um­hverfi þeirra. Þannig að ef við ber­um okk­ur sam­an við önn­ur lönd, þar sem finna má stærri mál­sam­fé­lög, þá er þeirra móður­mál miklu meira í þeirra umhverfi en hjá okk­ar börn­um, þetta er bara staðreynd.“ Vegna smæðar málsamfélagsins hefur utanaðkomandi þrýstingur, aðallega frá ensku, meiri áhrif á íslensku en tungumál stærri málsamfélaga.

En það sem er ástæða til að hafa áhyggjur af er samt ekki of mikil enska í málumhverfi barna og unglinga, heldur of lítil íslenska. Auðvitað má segja að það komi út á eitt hvernig þetta er sett fram – því meiri sem enskan er, þeim mun minna rúm er fyrir íslenskuna. En þetta skiptir máli fyrir það hvernig brugðist er við vandanum. Við eigum ekki að hugsa um hvernig við getum dregið úr enskunni í málumhverfinu, heldur hvernig við getum aukið íslenskuna – og þá minnka áhrif enskunnar sjálfkrafa. Meginatriðið er að átta sig á því að þetta er samkeppni um tíma eins og Freyja segir. Við þurfum að komast að því í hvað börn og unglingar verja tíma sínum, og finna svo uppbyggjandi leiðir til að fylla þann tíma af íslensku. Strax.

Posted on Færðu inn athugasemd

Ég er að labba labba labba

Í fyrradag var hér spurt hvenær það hefði verið „þegar Íslendingar hættu að ganga og byrjuðu að labba“. Ég eyddi raunar þeirri færslu vegna þess að hún er ekki í anda hópsins (gefur sér rangar forsendur og er til þess fallin að kalla fram vandlætingu). En vegna þess að athugasemdir hafa iðulega verið gerðar við notkun sagnarinnar labba, bæði hér og þó einkum í Málvöndunarþættinum, fannst mér ástæða til að líta betur á hana. Athugasemdirnar eru einkum af þrennum toga: Í fyrsta lagi að sögnin sé ofnotuð á kostnað ganga og annarra sagna svipaðrar merkingar, í öðru lagi að sögnin sé oft notuð í formlegu máli þar sem hún eigi ekki við, og í þriðja lagi að labba eigi eingöngu að nota um dýr en ekki um fólk. Allt er þetta umdeilanlegt.

Í Íslenskri orðsifjabók er sögnin skýrð 'rölta, ganga', í Íslenskri orðabók er sögnin skýrð 'ganga' og 'ganga hægt, rölta', og í Íslenskri nútímamálsorðabók er skýringin 'ganga rólega'. Hvergi er minnst á að hún eigi frekar við um dýr en fólk og í öllum elstu dæmunum er vísað til fólks en ekki til dýra. Ég held að þetta hljóti að vera misskilningur sem stafar sennilega af því að labba er oft talin frekar óformleg sögn – í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er skýringin ekki bara 'ganga hægt' heldur einnig 'fara fótgangandi' sem merkt er „(pop.), þ.e. 'alþýðumál' eða 'talmál'“. Fólk virðist tengja sögnina við önnur óformleg orð sem oft eru sögð eiga einkum við um dýr, eins og nafnorðin löpp og haus og sögnin éta.

Elsta dæmi Ritmálssafns Árnastofnunar um sögnina er í Íslenskum fornkvæðum frá seinni hluta 17. aldar. Hún kemur fyrir í kvæðinu „Flösku-kveðjur“ eftir Eggert Ólafsson frá miðri 18. öld: „Makinn labbar lotinn / landa sína hvetr.“ Elsta dæmið á tímarit.is er í Þjóðólfi 1849: „það væri miklu skynsamlegra fyrir oss bændur, að drepa hesta vora heima, heldur en að fara með þá suður í Reykjavík […] og eiga svo að labba austur yfir fjall í þokkabót.“ Einnig kemur sögnin fyrir í Pilti og stúlku eftir Jón Thoroddsen frá 1850: „Sigríður litla varð í fyrsta sinni að labba eptir fjenu fram fjár götur.“ Þrjú dæmi eru um hana í Íslenzkum þjóðsögum og æfintýrum frá 1862 og á seinustu áratugum 19. aldar verður hún algeng og er enn að sækja í sig veðrið.

Í dæmum frá 19. öld virðist merkingin yfirleitt vera 'ganga hægt, rölta' en ekki vera sérstaklega óformleg. E.t.v. hefur hægur gangur þó þótt eitthvað kæruleysislegur og það leitt til þess að sögnin fékk á sig óformlegan blæ, sbr. „pop.“ í Íslensk-danskri orðabók. En önnur ástæða fyrir þeirri tilfinningu margra að sögnin sé óformleg gæti verið hljóðafarið. Orð með löngu bb eru mörg hver gælunöfn, gæluorð eða annars konar styttingar og því í eðli sínu óformleg – Sibba, Tobba, Kobbi, Stebbi; pabbi, nebbi, rebbi; abbó, vibbi; o.s.frv. Önnur hafa á sér einhvers konar neikvæðan eða kæruleysislegan blæ – gubba, rubba, gabba, skrúbba, subba, gribba, lubbi, nabbi o.s.frv. Líklegt er að þessi orð og önnur slík hafi áhrif á tilfinningu margra fyrir labba.

Kringum 1890 fór sögnin að koma fram í afturbeygðri notkun – labba sig. Ekki er alltaf að sjá skýran merkingarmun á labba og labba sig, en því síðarnefnda virðist alltaf fylgja einhver staðar- eða stefnuákvörðun – labba sig burt, labba sig til hennar, labba sig norður, labba sig ofan í bæinn o.s.frv. Ekki er hægt að segja t.d. *ég fór út að labba mig eða *ég labbaði mig lengi. Um 1930 fara svo að sjást dæmi um þágufall í stað þolfallsins – labba sér. Enginn merkingarmunur virðist vera á þolfalli og þágufalli í þessu sambandi. Afturbeygð notkun sambandsins virðist hafa náð hámarki kringum 1970 og farið smátt og smátt minnkandi síðan. Þolfallið hefur alla tíð verið mun algengara en þágufallið hefur þó mjög sótt á í seinni tíð.

Því er stundum haldið fram að labba sé að teygja sig inn á svið annarra sagna, einkum ganga, og vel má vera að labba sé nú notuð í samböndum þar sem sumum fyndist eðlilegra að nota ganga. Ég hef t.d. séð vísað til þess að nú sé meira að segja talað um að labba á fjöll. Það er alveg rétt – en það merkir ekki alveg sama og ganga á fjöll, heldur er frekar notað um tómstundagaman: „margir í þessari stétt gera það sér til gamans að setja saman lausavísur, líta í bók, labba á fjöll og renna fyrir fisk“ segir t.d. í DV 1987. Tæpast er talað umlabba á Everest. En dæmum um labba á tímarit.is hefur vissulega fjölgað verulega á þessari öld og það er auðvitað smekksatriði hvort hún sé ofnotuð. Notkun hennar truflar mig a.m.k. ekki.

Posted on Færðu inn athugasemd

Frosið typpi

Ein helsta hættan sem þýðendur þurfa að varast eru svokallaðir falsvinir (false friends á ensku, faux amis á frönsku) – falsvinur er „orð sem hefur aðra merkingu í erlendu máli en búast má við miðað við merkingu sams konar orðs í öðru máli“ eins og segir í Íslenskri orðabók. Þýðingarvillur sem rekja má til falsvina sjást stundum í erlendum fréttum fjölmiðla – þar er fólk sem er ekki endilega vanir þýðendur að vinna undir tímapressu og þá er hætta á að gripið sé til orða sem svipar til orðanna í frumtextanum án þess að hugað sé að því að merkingin gæti verið önnur. Eitt slíkt dæmi sá ég á vefmiðli í dag: „Typpið á mér er frosið […]. Ég þurfti að liggja inni í hitakompunni í tíu mínútur til þess að hita það. Þetta er ótrúlega vont.“

Í fréttinni er vitnað í sænska blaðið Expressen þar sem segir: „Den svenske skidstjärnan förfrös sitt könsorgan.“ Þetta dæmi er ekki það fyrsta af þessu tagi – í fyrra sá ég fyrirsögnina „Typpi skíðagarps fraus í annað sinn á einu ári“. Þar er vitnað í færslu á Twitter þar sem segir: „Finnish skier's penis froze in the middle of the competition.“ En í báðum tilvikum eru það falsvinir sem hafa leitt þýðendur fréttanna á villigötur. Orðið frosið er hvorugkyn lýsingarháttar þátíðar af sögninni frjósa sem merkir 'kólna niður fyrir frostmark' – 'harðna af völdum frosts og kulda, breytast í ís' segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. Ef einhver líkamshluti frýs dugir ekki að hita hann upp – honum verður ekki bjargað, hann er kalinn og stórskemmdur eða dauður.

Falsvinirnir sem um ræðir eru sænska sögnin förfrysa og enski lýsingarhátturinn frozen sem vissulega eru af sama uppruna og frjósa og frosinn á íslensku. En sögnin förfrysa merkir þó ekki 'frjósa' í þessu samhengi, heldur „om person l. djur (äv. om kroppsdel): i högre grad förlora kroppsvärmen på grund av kyla, bliva fördärvad l. skadad av köld“ – þ.e. 'um fólk eða dýr (einnig um líkamshluta): að glata líkamshitanum að verulegu leyti vegna kælingar, eyðileggjast eða skaðast af kulda'. Enski lýsingarhátturinn frozen merkir ekki heldur sama og frosinn þegar hann er notaður um fólk: „If a person, or a part of their body is frozen, they are, or it is, very cold“ – þ.e., ‚'ef mannvera eða hluti líkama hennar er frozen er hún eða hann mjög köld'.

Ég hef talað hér eins og það séu ótvíræðar villur að þýða förfrysa sem frjósa og frozen sem frosinn – mistök sem þýðendur fréttanna hafi gert vegna þess að þeir hafi ekki kynnt sér merkingu erlendu orðanna heldur gefið sér að þau merktu það sama og samsvarandi íslensk orð. En annar möguleiki er reyndar sá að merking orðanna í íslensku sé að breytast (væntanlega þá fyrir áhrif frá ensku) – að frjósa og frosinn hafi ekki endilega þá merkingu núorðið að 'kólna niður fyrir frostmark', heldur geti merkt 'verða mjög kalt' í máli sumra. Í því tilviki gætu þýðendurnir hafa verið að nota orðin í samræmi við eigin skilning á þeim. Það er annars konar frávik frá hefðbundnu máli en beinar þýðingarvillur – en kannski ekki endilega betra.

Posted on Færðu inn athugasemd

Munuð atriði og vitaðir hlutir

Í gær var hér spurt hvernig ætti að nota sögnina muna í þolmynd – „ef munað er eftir einhverjum atriðum, eru þau þá munuð atriði, mund atriði … eða hvað eru þau?“. Þetta er ágæt spurning og skiljanleg – í þolmynd er notaður lýsingarháttur þátíðar en sú beygingarmynd er ekki gefin upp fyrir muna í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Stundum er því haldið fram að ekki sé hægt að mynda þolmynd af núþálegum sögnum, en muna er ein af þeim ásamt eiga, mega, unna, kunna, munu, skulu, vilja, vita og þurfa, og Beygingarlýsingin gefur ekki upp lýsingarhátt þátíðar af neinni þessara sagna en viljaður og vitaður eru þar sem lýsingarorð. Samt er ljóst að sumar þeirra eru notaðar í lýsingarhætti þátíðar og geta staðið í þolmynd, a.m.k. muna og vita.

Dæmið sem spurt var um, munuð atriði, kemur einmitt fyrir í Menntamálum 1955, og slæðingur er af öðrum dæmum um lýsingarháttinn í ýmsum myndum. „Þau verk hans verða lengi munuð og verða metin honum til lofs“ sagði Bjarni Benediktsson og „Þessi málflutningur verður munaður“ sagði Gylfi Þ. Gíslason, báðir í ræðum á Alþingi 1949. Í Alþýðublaðinu 1949 segir: „Sú gjöf mun lengi munuð verða.“ Í Verkamanninum 1960 segir: „Sögurnar í Góðu fólki og fleiri sögur Einars Kristjánssonar verða lengi munaðar og lesnar.“ Í Morgunblaðinu 1965 segir: „Hann er einn þeirra manna, sem verða munaðir.“ Í Morgunblaðinu 1985 segir: „Á grundvelli þessa, skiptir Freud hverjum draumi í tvo þætti: í fyrsta lagi er um að ræða hinn munaða draum.“

Lýsingarhátturinn vitaður er gefinn í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og Íslenskri orðabók í merkingunni 'kunnur'. Um hann er töluvert af dæmum frá ýmsum tímum. Í Vísi 1912 segir: „Það er vitaður hlutur, að þeir menn, sem nefndir eru í 11. gr., hafa eigi fjármagn til að reka slíkt fyrirtæki.“ Í Alþýðumanninum 1934 segir: „Sé verklýðsfélagið ekki í Alþýðusambandinu, er ósigur þess vitaður fyrirfram.“ Í NT 1984 segir: „Þegar maður deyr fer forgörðum brot vísdóms sem var aldrei áður vitaður og verður aldrei vitaður aftur.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Nánari upplýsingar um tildrög slyssins eru ekki vitaðar.“ Í Fréttablaðinu 2019 segir: „Hún segir uppruna svetts ekki vitaðan með vissu.“

Í mörgum dæmanna hefur lýsingarhátturinn líklega setningarhlutverk lýsingarorðs en þó eru nokkur dæmi um ótvíræða þolmynd með af-lið. Í Fálkanum 1932 segir: „Lögin, sem mest ber á í myndinni eru einkar skemtileg og verða sjálfsagt munuð af þeim, sem heyra hana.“ Í Austurlandi 1967 segir: „Afstaða Jónasar Péturssonar til þessa máls verður ábyggilega munuð af Norðfirðingum og fleiri Austfirðingum.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1970 segir: „En þessi hrottaskapur var vitaður af mörgum sjófarendum.“ Í Skírni 1955 segir: „Hlutveruleikinn er […] veruleiki, sem á sér tilvist einnig þar, sem hann er ekki „vitaður“ af neinum.“ Í Morgunblaðinu 1975 segir: „Þessi þáttur æfingarinnar var ekki vitaður af björgunarsveitarmönnum.“

Það er því enginn vafi á að sagnirnar muna og vita eru til í lýsingarhætti þátíðar og af setningum með þeim er stundum hægt að mynda þolmynd. Öðru máli gegnir um aðrar núþálegar sagnir – þær er yfirleitt ekki hægt að nota í þolmynd og Höskuldur Þráinsson hefur t.d. bent á að ekki sé hægt að segja *Bíllinn var áttur af forstjóra ríkisfyrirtækis. Þótt einstöku gömul dæmi um lýsingarhætti megi reyndar finna eins og „í hrepp hverjum voru áttar 3 lögsamkomur“ í Skýrslum um landshagi á Íslandi 1861, „Hinn fyrsti safnaðarfundur í höfuðstað landsins var áttur 31. júlí um hádegi“ í Norðanfara 1880 og „viljaður hverjum manni betur til að verða þjóð sinni til nytsemdar“ í Ísafold 1894 má fullyrða að þau séu fjarri málkennd fólks nú á tímum.

Posted on Færðu inn athugasemd

Rýing, rúning og rúningur

Á föstudagskvöld birtist á vef mbl.is frétt undir fyrirsögninni „Ráðherra rúði íslenska rollu“. Þessi frétt var sett inn í Málvöndunarþáttinn sama kvöld með umsögninni „Rýingin. Vonandi eru rollurnar vel rúnar.“ Út frá þessu má ætla að orðið rýing hafi komið fyrir í fréttinni en það er þar ekki núna, heldur stendur „Ráðherrann birti myndskeið af rúningunni“ og  „þrátt fyrir það gekk rúningin vel“. Vissulega er kvenkynsorðið rúning hið venjulega verknaðarheiti af sögninni rýja – reyndar er orðið einnig notað í karlkyni, rúningur. Fréttinni var breytt morguninn eftir og gera má ráð fyrir að þá hafi verið skipt um orð, e.t.v. vegna athugasemda. En þótt orðið rýing sé vissulega sjaldgæft er það þó til í málinu og á sér langa sögu.

Í Ritmálssafni Árnastofnunar eru nokkur dæmi um orðið rýing, það elsta frá 1840: „Geldfjársafn til rýingar í 4. og 5. viku sumars.“ Orðið kemur fyrir í Íslenzkum rjettritunarreglum þess mikla málhreinsunarmanns Halldórs Kr. Friðrikssonar frá 1859. Á tímarit.is eru um 30 dæmi um orðið, það elsta í Fjallkonunni 1888: „Það var 5. júní, að fé á Sjöundá var rekið heim til rýingar.“ Í Norðurljósinu 1891 segir: „Vorverk (túnvinna, hirðing eldiviðar, rýing o. fl.) voru búin víðast hvar fyrri hluta þessa mánaðar.“ Í Náttúrufræðingnum 1935 segir: „Undanfarin ár hafa rússneskir vísindamenn gert tilraunir með nýjar aðferðir með rýingu á sauðfé.“ Í Tímanum 1968 segir: „En þessi rýing var og mun vera lögvernduð, og jafn árvís og rýing sauðfjár.“

Orðið rýing er flettiorð í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, merkt „ASkaft“. Nokkur dæmi frá fyrsta hluta 20. aldar eru um orðið í Íslenzkum þjóðsögum og sögnum Sigfúsar Sigfússonar en hann var Austfirðingur. Þetta bendir hvort tveggja til þess að orðið hafi einkum tíðkast austanlands, og meðal yngstu dæma um það á tímarit.is eru tvö dæmi úr austfirska ritinu Múlaþingi frá 2008 og 2011. Orðið er einnig talið upp með orðum mynduðum með viðskeytinu -ing í Die Suffixe im Isländischen eftir Alexander Jóhannesson frá 1927, og það er flettiorð í Íslenskri orðabók og nefnt undir rýja í Íslenskri orðsifjabók. Það er því enginn vafi á að þótt orðið rýing sé sjaldgæft er það fullgilt íslenskt orð sem vel hefði mátt standa áfram í frétt mbl.is.

Posted on Færðu inn athugasemd

Þjálfarinn hvíldi þær – þær hvíldu

Á vef Ríkisútvarpsins rakst ég áðan á fyrirsögnina „Sunna og Hildigunnur hvíla gegn Angóla“. Þetta orðalag er alþekkt í íþróttamáli en merking og notkun sagnarinnar hvíla víkur þarna nokkuð frá því sem venja er í almennu máli. Sögnin hefur reyndar tvær meginmerkingar – annars vegar merkir hún 'liggja', annaðhvort í rúmi eða í gröf, og tekur þá venjulega með sér forsetningarlið eða atvikslið – þau hvíldu saman, þau hvíla í Hólavallagarði. En sú merking sem okkur varðar hér er 'láta þreytu líða úr sér/e-m' þar sem sögnin tekur með sér andlag í þolfalli, hvíla sig, hvíla hestinn. Í dæminu sem vitnað var til í upphafi er sögnin hins vegar áhrifslaus – tekur ekki með sér neitt andlag, og ekki heldur forsetningarlið eða atvikslið.

Elsta dæmi sem ég finn um þessa notkun hvíla er í Alþýðublaðinu 1970: „Jón Hjaltalín og Sigurður Einarsson, sem báðir hvíldu í leiknum á móti Japönum voru báðir sendir til að njósna í leik Rússa og Frakka.“ Annars fer þetta ekki að sjást á prenti fyrr en undir 1980: „Fjórir leikmenn hvíla gegn Ísrael“ segir í Dagblaðinu 1979. Í Morgunblaðinu sama ár segir: „Þeir sem hvíldu í leiknum voru Þorbjörn Guðmundsson og Þorbjörn Jensson, Erlendur Hermannsson og Jens Einarsson“ og í sama blaði sama ár segir: „Kom það nokkuð á óvart að þeir skyldu látnir hvíla í leiknum.“ Á níunda áratugnum verður þessi notkun svo algeng eins og hún er enn – hundruð dæma frá þessari öld eru um hana í Risamálheildinni.

Þessi notkun er ekki nefnd í Íslenskri nútímamálsorðabók en í Íslenskri orðabók segir að hún sé óformleg og merki 'bíða á varamannabekk' (í knattleikjum) eða 'sitja hjá eina umferð' (um lið á íþróttamóti). En 'bíða á varamannabekk' er ófullnægjandi skýring þótt hún geti stundum átt við, eins og í „Ólafur Stefánsson fær einnig að hvíla síðustu þrettán mínútur leiksins“ í Vísi 2008 og „Ingimundur hvíldi í seinni hálfleik en segist vera algerlega heill heilsu“ í Vísi 2012. Langoftast vísar hvíla nefnilega til þeirra sem taka engan þátt í leiknum, eru ekki á leikskýrslu. Ef hvíla er notuð um lið vísar hún oftast til þess að liðið fái hlé frá keppni frekar en það sitji hjá – „Íslenska liðið hvílir í dag en mætir Dönum á morgun“ segir í Þjóðviljanum 1985.

Þarna er bæði verið að hliðra til merkingu og setningafræðilegum eiginleikum sagnarinnar. Tilgangurinn með því að hvíla leikmenn er ekki fyrst og fremst að 'láta þreytu líða úr' þeim, heldur að gefa þeim hlé og hleypa öðrum að. En sú merking getur líka komið fram þótt sögnin taki andlag, eins og í „Vegna meiðsla hafi hins vegar verið ákveðið að hvíla hann gegn Noregi“ í Fréttablaðinu 2018. Við höfum því pör eins og þjálfarinn hvíldi leikmanninn leikmaðurinn hvíldi. Sögnin hvíla hagar sér þarna eins og t.d. stækka og minnka, í dæmum eins og hún stækkaði íbúðina íbúðin stækkaði, hann minnkaði drykkjuna drykkjan minnkaði. Þetta er skemmtileg nýjung í málinu sem engin ástæða er til annars en viðurkenna í formlegu máli.

Posted on Færðu inn athugasemd

Tilhæfulaus árás

Í sjónvarpsfréttum í gær var sagt frá „tilhæfulausri árás“ á fólk í Dublin. Þetta var tekið upp í Málvöndunarþættinum og sagt: „Meiningin átti sjálfsagt að vera að árásin hefði verið tilefnislaus.“ Það er alveg rétt að venja er að nota lýsingarorðið tilefnislaus fremur en tilhæfulaus í þessu samhengi. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er fyrrnefnda orðið skýrt 'án tilefnis' en það síðarnefnda 'sem byggir ekki á staðreyndum, á ekki við rök að styðjast'. Í raun og veru má því segja að merkingarkjarni beggja orðanna sé sá sami, þ.e. það eru ekki forsendur fyrir því sem um er rætt. Munurinn er sá að tilhæfulaus vísar einungis til mállegra forsendna – orðróms, frásagna, fullyrðinga o.s.frv. – en merkingin í tilefnislaus er mun víðari.

Það er ekki nýtt að þessum orðum sé blandað saman, einkum þannig að tilhæfulaus sé notað í stað tilefnislaus. Elsta dæmi sem ég finn um tilhæfulausa árás er í Austra árið 1900: „þá er mér skylt að benda þér á, að slík tilhæfulaus árás á trúarbrögð manna er algjör óhæfa.“ Alls eru um 60 dæmi um tilhæfulausa árás á tímarit.is, flest frá því eftir 1970 og einkum eftir 1990. Í Risamálheildinni eru dæmin um 70, bæði úr formlegu og óformlegu málsniði. Þessi notkun orðsins fer því greinilega í vöxt. Aftur á móti er sjaldgæft að tilefnislaus sé notað þar sem hefð er fyrir tilhæfulaus þótt finna megi fáein dæmi eins og „Við skiljum ekki hvað liggur að baki svona fréttamennsku, þar sem um algerlega tilefnislausa sögu er að ræða“ í Mjölni 1983.

Auk merkingarlíkindanna sem áður eru nefnd eru vitaskuld mikil orðfræðileg og hljóðfræðileg líkindi með orðunum tilhæfulaus og tilefnislaus og því þarf þessi blöndun ekki að koma á óvart, enda hefur þótt ástæða til að vara við henni í Málfarsbankanum þar sem segir: „Orðið tilhæfulaus merkir: alveg loginn, sem enginn sannleikskjarni er í (Íslensk orðabók). Athuga að rugla ekki saman við orðið tilefnislaus sem merkir: ástæðulaus.“ Eins og hér hefur komið fram er notkun tilhæfulaus í stað tilefnislaus gömul í málinu þótt hún hafi aldrei verið algeng. Hún virðist þó fara vaxandi en er varla orðin svo algeng að rétt sé að líta á hana sem málvenju. Þess vegna er rétt að mæla með því að málnotendur haldi sig við hefðbundinn greinarmun orðanna.