Ritlist kennd á meistarastigi frá og með haustinu 2011
Í gær samþykkti háskólaráð tillögu okkar í Íslensku- og menningardeild um að færa nám í ritlist upp á meistarastig frá og með haustinu 2011. Þar með fetum við í fótspor margra af helstu rithöfundasmiðjum heims. Fólk með BA-, BS- eða BEd-gráðu getur sótt um inngöngu strax í vor. Teknir verða inn allt að 25 nemendur og ekki er skilyrði að hafa BA-próf í ritlist, íslensku eða almennri bókmenntafræði heldur geta allir sótt sem áhuga hafa og eiga eitthvert efni í fórum sínum því valið verður inn á grundvelli innsends efnis.
Einn af kostum þess að færa námið upp á meistarastig er sá að þar verður hægt að efna til samstarfs við skyldar greinar á borð við fréttamennsku, hagnýta menningarmiðlun, þýðingafræði og hagnýta ritstjórn og útgáfu. Ritlistarnemar geta sem sagt fengið þjálfun í að skrifa fréttir og þýða bækur, svo dæmi séu tekin. Námið verður byggt upp af smiðjum og lesáföngum í bland og lokaverkefnið getur orðið lítil bók.
Það er von mín að þeir sem áhuga og hæfileika hafa skrái sig í ritlist til meistaraprófs. Þar gefst þeim kostur á að þroska hæfileika sína undir handleiðslu reyndra rithöfunda. Í þessu sem öðru gildir að æfingin skapar meistarann.