Ritlistarnemar lesa ljóð út um hvippinn og hvappinn
Ritlistarnemar hafa ekki legið á liði sínu það sem af er misserinu. Síðastliðinn sunnudag lásu þau upp á Gljúfrasteini og munu gera það síðasta sunnudag í hverjum mánuði til vors. Hér til hliðar má sjá mynd sem tekin var á Gljúfrasteini á sunnudaginn og ef smellt er á hana má sjá hana stærri.
Að kvöldi 11. febrúar, á safnanótt, munu ritlistarnemar svo taka þátt í ljóðadagskrá á vegum Borgarbókasafnsins en áður en að henni kemur munu nokkrir „stórglæsilegir kvenmenn“ (bein tilvitnun í fréttatilkynningu) úr hópi ritlistarnema efna til svokallaðs stofulesturs og hvar annars staðar en í Stofunni Aðalstræti 7. „Ætlunin með kvöldinu er að skapa þægilegt og afslappað umhverfi svo það verður lítið um formlegheit.“ Dagskráin hefst kl. 20 föstudaginn 4. febrúar
Hinn 19. febrúar munu ritlistarnemar svo taka þátt í kynningardegi Háskóla Íslands. Bæði munu þau hengja upp ljóð eftir sig og taka þátt í dagskrá í Hátíðarsalnum.