Gerður Kristný talar um Blóðhófni

Fyrirlestraröðin „Hvernig verður bók til?“ er ennþá á fullu blússi. Næsti fyrirlesari er hinn nýbakaði verðlaunahafi Gerður Kristný. Ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum þá hlaut hún á dögunum Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir ljóðabókina Blóðhófni.

Gerður var „ung gefin máli…og menningu“, að eigin sögn, og hefur gengið flest að sólu á ritvellinum. Hún er fjölhæf og hefur unnið til margra verðlauna fyrir skrif sín. Ljóðabálkurinn Blóðhófnir kallast á við eitt þekktasta ljóð Eddukvæða, Skírnismál, sem eru um stúlkuna Gerði.

Fyrir utan Íslensku bókmenntaverðlaunin hefur Gerður m.a. fengið Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness fyrir skáldsöguna Bátur með segli og allt, Blaðamannaverðlaun Íslands fyrir bókina Myndin af pabba: Saga Thelmu, sem vakti þjóðarathygli, og fyrir unglingasöguna Garðurinn hlaut hún Vestnorrænu barnabókaverðlaunin árið 2010.

Fyrirlesturinn fer fram í stofu 105 á Háskólatorgi og hefst kl. 12 fimmtudaginn 24. febrúar.