Af jarðarinnar hálfu

af-jardarinnar-halfuAf jarðarinnar hálfu. Ritgerðir í tilefni af sextugsafmæli Péturs Gunnarssonar. Ritstjórar: Jón Karl Helgason og Torfi Tulinius. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2008.

Pétur Gunnarsson er einn af virtustu og vinsælustu rithöfundum Íslendinga. Fyrsta skáldsaga hans, Punktur punktur komma strik, kom út árið 1976 og vakti verðskuldaða athygli. Þar túlkaði Pétur á nýstárlegan hátt sýn og reynslu nýrrar kynslóðar Íslendinga sem höfðu alist upp á mölinni eftir seinni heimstyrjöldina. Ríflega þremur áratugum síðar eru skáldsögurnar orðnar tíu en auk þess hefur Pétur gefið út ljóðabækur, ritgerðasöfn og söfn styttri texta, eins konar ljóðrænna hugleiðinga um lífið og tilveruna. Jafnframt hefur Pétur þýtt öndvegisverk franskra bókmennta á íslensku.

Pétur varð sextugur um mitt ár 2007. Af því tilefni efndu Hugvísindastofnun og Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands til Pétursþings, ráðstefnu þar sem hópur fræðimanna og rithöfunda leit yfir höfundarverk Péturs, velti einstökum verkum fyrir sér og ræddi inntak og stöðu þeirra í íslenskum samtímabókmenntum. Stærstur hluti þeirra ritgerða sem birtast í þessari bók eru að stofni til erindi frá ráðstefnunni, þótt flest þeirra hafi verið endurskrifuð með birtingu í huga. Lokaorð bókarinnar, líkt og ráðstefnunnar, á skáldið sjálft.