Kate Chopin

chopinKate Chopin. Sálin vaknar. Þýð. Jón Karl Helgason. Reykjavík: Bjartur, 1997.

"Því er gjarnan haldið fram að The Awakening (Sálin vaknar) hafi markað tvenn þáttaskil fyrir bandarísku skáldkonunna Kate Chopin. Annars vegar hafi þeir neikvæðu dómar sem sagan fékk þegar hún kom út árið 1899 gert út um feril hennar sem rithöfundar, hins vegar er það þessu verki að þakka að hún féll ekki í varanlega gleymsku.

Þegar sagan birtist upphaflega var Kate Chopin vel þekkt sem smásagnahöfundur, einkum í Suðurríkjum Bandaríkjanna þar sem flestar sögur hennar gerast. Margar sagnanna fjalla um samskipti enskumælandi og  frönskumælandi íbúa New Orleans og nágrennis og lýsa breisku mannlífinu á mörkum þessara tveggja menningarheima. The Awakening var að þessu leyti óbeint framhald af fyrri skrifum skáldkonunnar en hún var einnig nýr áfangi í átökum hennar við eldfiman efnivið, stöðu og reynslu kvenna í hinu formfasta aldamótasamfélagi. Söguhetjan, Edna Pontellier, uppgötvar að tilvistin hefur upp á fleira að bjóða en hefðbundið hjónaband og barnauppeldi. Hún leitar útrásar fyrir tjáningaþörf sína og tilfinningar og hirðir lítt um þær margvíslegu skorður sem henni eru settar sem konu, eiginkonu og móður. Og það var af  þessum sökum sem sagan fór fyrir brjóstið á mörgum lesendum. Þeir gátu ekki fellt sig við hina óstýrilátu frú Pontellier og þótti ófyrirgefanlegt að sögumaður verksins skyldi a.m.k. ekki fordæma hjúskaparbrot hennar og draumóra. „Þetta er ekki uppbyggilegt verk,“ varð einum gagnrýenda að orði, annar fullyrti að Edna „gerði sér enga grein fyrir því að skylda móður við börnin sín væri langtum mikilvægari en fullnæging fýsna sem reynslan hefði kennt henni að væri í eðli sínu hverful.“

Þegar The Awakening var enduruppgötvuð á sjöunda áratugnum fylgdi það sögunni að í kjölfar þessara viðbragða hefði bókin verið fjarlægð úr hillum bókabúða og bókasafna í Suðurríkjunum og skáldkonan útskúfuð úr samfélagi betri borgara í St. Louis. Í nýrri ævisögu hennar eru þessar sögur að nokkru leyti hraktar en eftir stendur að þetta var síðasta bók Kate Chopin, hún tók neikvæða dóma um söguna nærri sér, auðnaðist ekki að finna útgefanda fyrir næsta smásagnasafn sitt og sendi lítið frá sér á þeim fimm árum sem hún átti eftir ólifuð. Þegar hún lést árið 1904, rúmlega fimmtug að aldri, grunaði hana síst að saga Ednu Pontellier ætti eftir að verða þýdd á fjölda tungumála, kvikmynduð og talin til sígildra verka bandarískra bókmennta.

Skírnarnafn Kate Chopin var Katherine O’Flaherty. Hún fæddist árið 1851 í St. Louis í Mississippi, dóttir írsks innflytjanda sem gifst hafði inn í franska hástéttarfjölskyldu þar í borginni. Hún virðist hafa átt hamingjuríka æsku nema hvað faðir hennar dó sviplega í járnbrautarslysi þegar hún var aðeins fjögurra ára gömul. Hún varð snemma mikilli lestrarhestur, naut góðrar menntunar og útskrifaðist úr virtum skóla í St. Louis sautján ára gömul. Árið 1870 giftist hún Oscari Chopin, tuttugu og fimm ára gömlum bankamanni frá New Orleans, þangað sem þau hjónin fluttu og hóf Oscar þar sjálfstæðan atvinnurekstur.

Það fer góðum sögum af hjónabandi þeirra Chopin-hjóna. Oscar var kreóli, afkomandi franskra innflytjenda í Louisiana sem töluðu ennþá frönsku og héldu í ýmsa franska siði, en af The Awakening að dæma voru kreólar skilningsríkari eiginmenn en karlmenn af enskum uppruna í Suðurríkjunum. Konur þeirra höfðu til dæmis töluvert frelsi til að þroska listræna hæfileika sína. Annars átti Kate snemma fullt í fangi með að hugsa um börn þeirra hjóna sem fæddust hvert af öðru á næstu árum, fimm drengir og ein stúlka. Það skyggði á barnalánið að atvinnurekstur Oscars gekk illa og neyddist fjölskyldan til að flytja frá New Orleans út í sveit, í þorpið Cloutierville í Natchitoches-héraði, þar sem Oscar hóf nú verslun og baðmullarrækt.

Á þessu slóðum kynntist Kate nýjum hópi frönskumælandi Bandaríkjamanna, svonefndum Akadíumönnum. Þeir höfðu upphaflega flutt frá Frakklandi til fylkisins Akadíu á austurströnd Kanada sem nú er nefnt Nova Scotia. Þegar Bretar náðu þar völdum árið 1755 héldu margir þessara frönskuættuðu íbúa til Louisiana og héldu sérkennum sínum gagnvart kreólum og enskumælandi fólki. Akadíumönnum bregður fyrir í The Awakening; þeir eru sjómenn og bændur sem rækta ennfremur sérstæða þjóðsagnahefð.

Árið 1882 lést Oscar Chopin úr hitasótt. Kate hélt kyrru fyrir í Cloutierville um nokkra ára skeið og hélt búskapnum gangandi en ákvað síðan að flytja aftur til St. Louis þar sem móðir hennar bjó. Frú O’Flaherty lést hins vegar skömmu síðar þannig að Kate var skyndilega orðin einstæð sex barna móðir án náinna aðstandenda. En hún lét ekki bugast. Fyrir hvatningu heimilislæknisins byrjaði hún að skrifa smásögur og brot sem byggð voru á reynslu hennar í Louisiana. Hún þótti lýsa lífinu í Suðurríkjunum á raunsannan og þokkafullan hátt og tókst að fá smásögur sínar birtar í flestum virtustu tímaritum Bandaríkjanna á næstu árum. Fyrsta bók hennar var hins vegar skáldsaga, At Fault (1890), en í kjölfarið fylgdu tvö smásagnasöfn, Bayou Folk (1894) og A Night in Acadia (1897).

Það eina sem fór fyrir brjóstið á sumum lesendum þessara verka voru viljasterkar kvenhetjur sem skutu af og til upp kollinum. Smásagan „The Story of  an Hour“ segir þannig frá einni klukkustund í lífi eiginkonu sem fréttir að maður hennar hafi látist í járnbrautarslysi. Fyrst er hún felmtri slegin en þegar frá líður áttar hún sig á að lífið bíður hennar með ótal tækifærum. Hún fyllist nýjum þrótti. Við lok þessarar stundar vindur eiginmaður hennar sér inn um útidyrnar og í ljós kemur að andlátsfregnin var á misskilningi byggð. Eiginkonunni verður svo mikið um að hún deyr úr hjartaslagi, eða eins og læknarnir orða það, „úr banvænni gleði“.

Kate Chopin átti í nokkrum vandræðum með að finna útgefanda að þessari kaldhæðnu smásögu og sama máli gegndi um handrit hennar að The Awakening, sem var að endingu gefin út hjá forlagi í Chicago. Ekki er gott að segja hvort viðbrögðin hefðu orðið önnur ef Kate hefði verið karlmaður eða búið utan Suðurríkjanna. Á þessum árum drógu bandarískir karlhöfundar á borð við Theodore Dreiser og Stephen Crane upp myndir af „ósiðsömum“ kvenhetjum án þess að ferill þeirra biði alvarlega hnekki. Helstu áhrifavaldar skáldkonunnar voru hins vegar franskir raunsæishöfundur, þeirra á meðal Gustave Flaubert og Guy de Maupassant. Forvitnilegt er að bera frú Pontellier saman við frú Bovary Flauberts en sjálf sagði Kate að hún hefði lært hvað mest af Maupassant, sem að hennar mati var óhræddur við að hunsa hefðir samfélagsins og lýsti lífinu af hreinskilni, eins og það kom honum fyrir sjónir.

Enda þótt The Awakening hafi á síðari árum verið lýst sem brautryðjendaverki bandarískra kvennabókmennta eru nútímalesendur ekki á einu máli um hvernig túlka beri söguna. Í stað þess að þræta um það hvort Edna hagi sé ósæmilega greinir gagnrýnendur nú á um hvort hún geti talist góður og gegn feministi. Ráðast gjörðir hennar af meðvitaðri frelsisþrá eða rómantískum hvötum? Er sund hennar undir lok sögunnar sigurferð eða tákn um endanlega uppgjöf?"

(Úr eftirmála þýðanda)

Umfjöllun