Þýðing á fyrstu leynilögreglusögunni

Jón Karl Helgason, 05/11/2023

"Morðin í Líkhúsgötu" eftir Edgar Allan Poe er jafnan talin marka upphaf leynilögreglusögunnar sem sérstakrar bókmenntagreinar. Hún er sú fyrsta af þremur smásögum höfundar þar sem rannsakandinn C. Auguste Dupin leysir snúið sakamál. Ónefndur vinur hans er sögumaður í öllum þessum þremur sögum og er hann áhugaverður forveri Watsons læknis í sögunum A.C. Doyle um Sherlock Holmes. Þegar ég kenndi námskeið í glæpasögum fyrir fáum árum komst ég að því, mér til furðu, að sagan "Morðin í Líkhúsgötu" væri ekki til í íslenskri þýðingu. Ég ákvað að bæta úr því og uppgötvaði skömmu síðar að bókaforlagið Dimma, undir stjórn Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar, hefði í hyggju að gefa út úrval þýðinga á verkum Poes á íslensku. Bókin er nýkomin út, í ritstjórn Aðalsteins og Ástráðs Eysteinssonar. Ber verkið hinn látlausa titil Kvæði og sögur. Þar er, auk þýðingar minnar, að finna hinar tvær leynilögreglusögurnar um Dupin og einnig fjöldan allan af öðrum sígildum verkum þessa merka höfundar.

Heimur smásögunnar kortlagður

Jón Karl Helgason, 28/09/2023

"Heimur smásögunnar" er titill á viðamikilli ráðstefnu sem Bókmennta- og listfræðastofnun, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og STUTT, rannsóknastofa í smásögum og styttri textum standa að 30. september og 1. október í Veröld, húsi Vigdísar. Á þriðja tug bókmenntafræðinga sem flestir starfa við Háskóla Íslands fjalla þar um smásögur frá ýmsum hliðum. Í mínu erindi, sem er á dagskrá síðari daginn kl. 13.30, hyggst ég fjalla um smásögurnar „Vor í Fíalta“ eftir Vladimir Nabokov og „Konan með hundinn“ eftir Anton Tsjekhov og íslenskar þýðingar þeirra. Fyrirlesturinn ber titilinn: "Í fjólunni endurómar altraddarlegt heiti á fallegum bæ“ en það er tilvitnun í snilldarþýðingu Rúnars Helga Vignissonar á fyrrnefndu sögunni.

Icelandic Online 5 opnað að nýju

Jón Karl Helgason, 28/06/2023

Icelandic On­line eru sex vefnám­skeið í ís­lensku fyr­ir full­orðna. Unnið hef­ur verið að því að gera nám­skeiðin aðgengi­leg fyr­ir snjall­tæki og er loka­hluti þeirra, Icelandic On­line 5, nú kom­inn í hið nýja um­hverfi. Í ný­upp­færðum hluta ís­lensku­nám­skeiðsins er höfuðáhersla lögð á flókn­ari orðaforða og menn­ing­ar­læsi. Við Olga Holownia og Daisy L. Neijmann og erum höfundar upprunalega efnisins en yfirfærsluna í nýja umhverfið önnuðust Úlfur Alexander Einarsson, Lovísa Helga Jónsdóttir og María-Carmela Raso, undir stjórn okkar Daisyar. Vinnan við yfirfærsluna var kostuð af Aldarafmælissjóði Háskóla Íslands.

Á slóðum Erlendar í Unuhúsi

Jón Karl Helgason, 17/05/2023

Á þessu vori hef ég kennt hjá Endurmenntun HÍ námskeið um Unuhús og hefur Erlendur Guðmundsson verið þar í brennidepli. Laugardaginn 3. júní næstkomandi mun síðan opna á Gljúfrasteini sýning helguð Erlendi og í tengslum við hana verða fluttir þrír útvarpsþættir Sunnevu Krist­ínar Sig­urð­ar­dótt­ur um þennan merka mann á Rás 1. Og þar með er ekki allt upp talið. Miðvikudaginn 31. maí leiðum við Sunneva síðan bókmenntagöngu um slóðir Erlendar, Þórbergs Þórðarsonar og Halldórs Laxness í miðbænum. Gangan hefst kl. 20.00 við austari enda Þingholtsstrætis en mun enda í Garðastræti og Gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu. Þess má geta að umræddur dagur er afmælisdagur Erlendar en hann fæddist árið 1892.

Eftirlýst: Fyrsta íslenska myndasagan

Jón Karl Helgason, 08/05/2023

Í anddyri Landsbókasafns er nú sýning í tilefni af aldarafmæli Gísla J. Ástþórssonar, höfundar Siggu Viggu, en á fimmtudag kl. 16.00 opnar önnur og almennari sýning helguð íslenskum myndasögum. Ég mun segja fáein orð þar um fyrstu skopmyndirnar og myndasögurnar sem birtust á íslensku, bæði frumsamdar og þýddar, þar með talið merka skopmynd sem Páll Melsteð (Paul M.) Clemens gerði af Skúa Thoroddsen árið 1908. Einnig hyggst ég draga fram nokkrar myndasögur Tryggva Magnússonar teiknara en færa má rök fyrir því að "Ökuhraði bifreiða" sé elst þeirra en hún birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1925. Um er að ræða tvær tengdar myndir sem draga með skoplegum hætti fram muninn á ákvæðum lögreglusamþykktar um hámarkshraða farartækja og hinn lífshættulega veruleika hraðaksturs.

 

Gestkvæmt í Eddu, húsi íslenskra fræða

Jón Karl Helgason, 21/04/2023

Á sumardaginn fyrsta var opið húsi í Eddu, húsi íslenskra fræða, sem fengið hafði nafn sitt síðasta vetrardag. Frá klukkan 10 til 16 flæddi fjöldi gesta um hinar þrjár efri hæðir hússins en einnig var dagskrá með fyrirlestrum, skáldskap, tónlist og myndasögum í boði. Ég var meðal fjórtán fræðimanna Íslensku- og menningardeildar og Árnastofnunnar sem hélt örfyrirlestra milli klukkan 13 og 14 og rakti á fimm mínútum rannsóknarsamstarf mitt við Steingrím Kárason, Sigurð Ingiberg Björnsson, Benedikt Hjartarson og Magnús Þór Þorbergsson á sviði fjarkönnunar (e. distant reading) bókmenntasögunnar. Fyrirlesturinn nefndist "Er hægt að segja íslenska bókmenntasögu með línu- og súluritum?" Við Steingrímur, Benedikt og Magnús vinnum að grein um okkar rannsóknir en nánar er rætt um rannsóknir okkar Steingríms og Sigurðar á stílmælingum fornsagna hér. 

Meistaraverkefni í þýðingafræði við Iowa-háskóla

Jón Karl Helgason, 12/04/2023

Valgerður Þóroddsdóttir varði meistararitgerð sína í þýðingafræðum við Iowa-háskólann 11. apríl en hún samanstóð af greinargerð og enskri þýðingu á skáldverkinu Við tilheyrum sama myrkrinu -- af vináttu Marilyn Monroe og Greta Garbo eftir Kristínu Ómarsdóttur. Valgerður hefur áður þýtt ljóð og prósaverk eftir Kristínu - ljóðaúrvalið Waitress in Fall og skáldsöguna Swanfolk (Svanafólkið). Sú fyrrnefnda kom út hjá forlagi Valgerðar, Partus Press og fékk afar góða dóma og merkar viðurkenningar. Sú síðarnefnda kom út hjá Penguin á liðnu ári.  Við Aron Aji og Inara Verzemnieks vorum í meistaraprófsnefnd Valgerðar og tók ég þátt í vörninni í gegnum fjarfundabúnað. Óskandi er að þessi nýja þýðing kom út á bók fyrr eða síðar.

Styrkur úr Áslaugarsjóði

Jón Karl Helgason, 30/03/2023

Við Daisy L. Neijmann fengum ásamt Silviu Cosimini styrk úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur nýlega til að vinna tvær námsbækur í íslensku fyrir ítalska nemendur. Áhersla er lögð á alla færniþætti tungumálanáms: skilning (lestur og hlustun), talmál og ritun. Viðfangsefni eru fjölbreytt og tengjast íslensku samfélagi og daglegu lífi. Gerð þessara námsbóka verður í samræmi við áherslur í annarsmálsfræðum, kennslufræði erlendra tungumála og evrópska sjálfsmatsrammann, sem gerir ráð fyrir auknu sjálfstæði nemandans, sjálfsnámi og notkun fjölbreyttra miðla við tungumálanám. Styrkurinn var afhentur í hátíðarsal Aðalbyggingar síðastliðinn miðvikudag.

Skáldskaparfræði Eiríks Laxdals

Jón Karl Helgason, 12/03/2023

Í framhaldi af fyrirlestri mínum á Hugvísindaþingi tek ég þátt í ráðstefnu í Zurich 23.til 24. mars um frásagnarbókmenntir átjándu aldar. Ráðstefnan er hluti af viðamiklu rannsóknarverkefni sem Lena Rohrbach og fleiri fræðimenn við háskóla í Zurich og Basel hafa staðið að undanfarin ár og beinist þar athyglin að þróun skáldsögunnar sem bókmenntagreinar á Norðurlöndum á viðkomandi tímabili. Ég hyggst fjalla um tengsl Ólafssögu við sígildar frásagnarbókmenntir fyrri alda, einkum Odysseifskviðu, Þúsund og eina nótt og Leitina að hinum helga gral. Sæki ég í þessari umfjöllun mjög til skrifa búlgarsk-franska fræðimannsins Tzvetans Todorov í verkinu The Poetics of Prose. Nefnist fyrirlesturinn "Saga Ólafs Þórhallasonar and the Literary Tradition" og er á dagskrá föstudaignn 24. mars kl. 11.30.

Er unnt að lesa Ólafssögu eins og leynilögreglusögu?

Jón Karl Helgason, 12/03/2023

Í annað sinn á sjö árum held ég fyrirlestur um Sögu Ólafs Þórhallasonar eftir Eirík Laxdal á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands laugardaginn 11. mars. Árið 2016 ræddi ég um tengsl verksins við þjóðsöguna "Selmatseljan" en að þessu sinni hyggst ég skoða réttarhöld sem fara fram í sögunni. Þau eru dæmi um þá tilhneygingu höfundar að lýsa sömu viðburðum oftar en einu sinni og varpa stöðugt nýju ljósi á þá. Sagan er að þessu leyti lík hefðbundinni leynilögreglusögu. Fyrirlesturinn er hluti af málstofu um lög og rétt sem er á dagskrá kl. 15-16.30 í stofu 304 í Árnagarði. Ps. Í framhaldi af fyrirlestrinum var ég í viðtali við Gunnar Smára Egilsson á Rauða borðinu um þetta efni.