Meistaraverkefni í þýðingafræði við Iowa-háskóla

Jón Karl Helgason, 12/04/2023

Valgerður Þóroddsdóttir varði meistararitgerð sína í þýðingafræðum við Iowa-háskólann 11. apríl en hún samanstóð af greinargerð og enskri þýðingu á skáldverkinu Við tilheyrum sama myrkrinu -- af vináttu Marilyn Monroe og Greta Garbo eftir Kristínu Ómarsdóttur. Valgerður hefur áður þýtt ljóð og prósaverk eftir Kristínu - ljóðaúrvalið Waitress in Fall og skáldsöguna Swanfolk (Svanafólkið). Sú fyrrnefnda kom út hjá forlagi Valgerðar, Partus Press og fékk afar góða dóma og merkar viðurkenningar. Sú síðarnefnda kom út hjá Penguin á liðnu ári.  Við Aron Aji og Inara Verzemnieks vorum í meistaraprófsnefnd Valgerðar og tók ég þátt í vörninni í gegnum fjarfundabúnað. Óskandi er að þessi nýja þýðing kom út á bók fyrr eða síðar.

Styrkur úr Áslaugarsjóði

Jón Karl Helgason, 30/03/2023

Við Daisy L. Neijmann fengum ásamt Silviu Cosimini styrk úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur nýlega til að vinna tvær námsbækur í íslensku fyrir ítalska nemendur. Áhersla er lögð á alla færniþætti tungumálanáms: skilning (lestur og hlustun), talmál og ritun. Viðfangsefni eru fjölbreytt og tengjast íslensku samfélagi og daglegu lífi. Gerð þessara námsbóka verður í samræmi við áherslur í annarsmálsfræðum, kennslufræði erlendra tungumála og evrópska sjálfsmatsrammann, sem gerir ráð fyrir auknu sjálfstæði nemandans, sjálfsnámi og notkun fjölbreyttra miðla við tungumálanám. Styrkurinn var afhentur í hátíðarsal Aðalbyggingar síðastliðinn miðvikudag.

Skáldskaparfræði Eiríks Laxdals

Jón Karl Helgason, 12/03/2023

Í framhaldi af fyrirlestri mínum á Hugvísindaþingi tek ég þátt í ráðstefnu í Zurich 23.til 24. mars um frásagnarbókmenntir átjándu aldar. Ráðstefnan er hluti af viðamiklu rannsóknarverkefni sem Lena Rohrbach og fleiri fræðimenn við háskóla í Zurich og Basel hafa staðið að undanfarin ár og beinist þar athyglin að þróun skáldsögunnar sem bókmenntagreinar á Norðurlöndum á viðkomandi tímabili. Ég hyggst fjalla um tengsl Ólafssögu við sígildar frásagnarbókmenntir fyrri alda, einkum Odysseifskviðu, Þúsund og eina nótt og Leitina að hinum helga gral. Sæki ég í þessari umfjöllun mjög til skrifa búlgarsk-franska fræðimannsins Tzvetans Todorov í verkinu The Poetics of Prose. Nefnist fyrirlesturinn "Saga Ólafs Þórhallasonar and the Literary Tradition" og er á dagskrá föstudaignn 24. mars kl. 11.30.

Er unnt að lesa Ólafssögu eins og leynilögreglusögu?

Jón Karl Helgason, 12/03/2023

Í annað sinn á sjö árum held ég fyrirlestur um Sögu Ólafs Þórhallasonar eftir Eirík Laxdal á Hugvísindaþingi Háskóla Íslands laugardaginn 11. mars. Árið 2016 ræddi ég um tengsl verksins við þjóðsöguna "Selmatseljan" en að þessu sinni hyggst ég skoða réttarhöld sem fara fram í sögunni. Þau eru dæmi um þá tilhneygingu höfundar að lýsa sömu viðburðum oftar en einu sinni og varpa stöðugt nýju ljósi á þá. Sagan er að þessu leyti lík hefðbundinni leynilögreglusögu. Fyrirlesturinn er hluti af málstofu um lög og rétt sem er á dagskrá kl. 15-16.30 í stofu 304 í Árnagarði. Ps. Í framhaldi af fyrirlestrinum var ég í viðtali við Gunnar Smára Egilsson á Rauða borðinu um þetta efni.

Fjarkönnun bókmenntasögunnar

Jón Karl Helgason, 25/11/2022

Fjarkönnun íslenskrar bókmenntasögu: Verkefni, innsýn og áskoranir“ er titill viðburðar þar sem við Benedikt Hjartarson,  Magnús Þór Þorbergsson og Steingrímur Páll Kárason kynnum niðurstöður rannsókna sem byggja á upplýsingum úr gagnagrunni Landskerfis íslenskra bókasafna. Hann verður haldinn á vegum Bókmennta- og listfræðastofnunar í stofu HT101 á Háskólatorgi 24. nóvember kl. 12-13. Við fjórmenningar erum að hætta okkur inn á rannsóknarsvið sem má kenna við fjarkönnun, fjarrýni eða fjarlestur (e. distant reading) en þar er unnið á skapandi hátt með stafrænar upplýsingar af vettvangi bókmenntanna. Markmiðið slíkra rannsókna er í og með að ögra hefðbundinni áherslu fræðimanna á túlkun einstakra texta og fáeina viðurkennda höfunda eða bókmenntagreinar og beina athyglinni þess í stað að almennari og óhlutbundnari þáttum bókmenntakerfisins.

Gleymska, minni og þjóðardýrlingar

Jón Karl Helgason, 09/11/2022

"Gleymska er náttúrulegt ferli, ódauðleiki er flókið menningarlegt gangvirki" er titill á viðtali sem Irena Samide tók við okkur Marijan Dović í tilefni af því að bókin Great Immortality, sem við ritstýrðum saman 2019, hlaut nýlega verðlaun hjá samtökum evrópskra samanburðarbókmenntafræðinga (ESCL Excellence Award for Collaborative Research). Viðtalið birtist upphaflega á slóvensku í tímaritinu Primerjalna književnost en hefur nú verið endurbirt í endurskoðaðri gerð á ensku í CompLit. Journal of European Literature, Arts and Society

 

Lykilgrein í þýðingafræðum

Jón Karl Helgason, 01/11/2022

"Staða þýddra bókmennta innan fjölkerfis bókmenntanna" eftir Itamar Even-Zohar er ein af áhrifamestu fræðigreinum sem birst hafa um þýðingar á liðnum áratugum. Hún var samin upphaflega 1978 og birt í nýrri útgáfu 1990 og er nú aðgengileg á íslensku í þýðingu minni í nýútkomnu hefti af Ritinu. Þýðingin er "utan þema" en þema Ritsins að þessu sinni eru rannsóknir á femínisma. Ásdís Helga Ólafsdóttir, Guðrún Steinþórsdóttir, Unnur Birna Karlsdóttir, Alda Björk Valdimarsdóttir, Hólmfríður Garðarsdóttir, Arnfríður Guðmundsdóttir og Helga Kress skrifa fjölbreyttar greinar um efnið. Ritstjórar Ritsins eru þær Guðrún og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir.

Hvar skarast skáldskapurinn og lögfræðin?

Jón Karl Helgason, 18/10/2022

Lög og bókmenntir er yfirskrift málstofu sem er hluti af Þjóðarspeglinum, ráðstefnu um félagsvísindi við Háskóla Íslands föstudaginn 28. október næstkomandi. Þar munum við Guðrún Steinþórsdóttir, Hafsteinn Þór Hauksson og Ástráður Eysteinsson kanna ýmsa áhugaverða snertifleti bókmenntafræði og lögfræði. Guðrún fjallar um Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón eftir Vigdísi Grímsdóttur og Ástráður um Réttarhöldin eftir Kafka en í báðum þessum skáldsögum er dregin upp mynd af samskiptum sakborninga og dómsstóla. Erindi mitt kallast "Hvar skarast heimsbókmenntirnar og lögfræðin?" en þar verður sjónum beint að verkum eftir William Shakespeare, Albert Camus og Steen Steensen Blicher sem lögfræðingar hafa sýnt fræðilegan áhuga. Þá mun Hafsteinn Þór velta vöngum yfir því hvaða íslensk skáldverk gætu átt erindi við lögfræðinema hér á landi. Málstofan fer fram í Lögbergi, stofu 101 og hefst klukkan 11.00. Hægt er að skoða ágrip erinda á s. 64-66 í ráðstefnuriti Þjóðarspegilsins.

Brot úr höfundarverki

Jón Karl Helgason, 09/10/2022

Heildarritsafn verka Sjóns er komið út á vegum Forlagsins. Alls telur það níu bindi og fylgir hverju bindi eftirmáli, Meðal höfunda þeirra eru Ásta Kristín Benediktsdóttir, Sverrir Norland, Ástráður Eysteinsson og Anne Carson.  "Brot úr höfundarverki" er titill eftirmála sem ég skrifa um fyrstu skáldsögu Sjóns, Stálnótt, en hún kom út árið 1987. Niðurlagsorðin eru svohljóðandi: "Skáldið hélt áfram að þróa þessa fagurfræði í seinni verkum sínum, þar með talið hinum marglaga þríleiks CoDex 1962 sem inniheldur skáldsögurnar Augu þín sáu mig (1994), Með titrandi tár (2001) og Ég er sofandi hurð (2016). Um leið brúar Stálnótt bilið milli forms ljóðabókarinnar og nóvellunnar og vísar að því leyti fram á veginn til hinna hnitmiðuðu frásagna Skugga-Baldurs (2003) og Mánasteins (2013). Þessi fyrsta skáldsaga Sjóns frá haustinu 1987 er því eitthvert brot af höfundarverkinu einsog það er í þann veginn að verða …"

Lagagreinar og bókmenntagreinar

Jón Karl Helgason, 04/10/2022

"Hvers er sæmdin?" er titill málsþings sem Hagþenkir og Rithöfundasambandið standa fyrir í Þjóðminjasafni kl. 15.00 miðvikudaginn 5. október. Þar verður fjallað um höfundarétt og sæmdarrétt á sviði bókmenntasköpunar. Fyrirlesarar eru auk mín þau Sigríður Ingibjörg Gísladóttir lögmaður, Jón Ólafsson prófessor og Oddný Eir Ævarsdóttir rithöfundur. Erindi mitt nefnist "Lagagreinar og bókmenntagreinar" og beinist annars vegar að þeim ólíku væntingum sem lesendur gera til verka og höfunda innan ólíkra bókmenntagreina og hins vegar þeirri staðreynd að í höfundalögum er ekki gerður skýr greinarmunur á því sviði.