Hinn (al)þjóðlegi peningaleikur

Jón Karl Helgason, 07/12/2021

Nýútkomið hausthefti Skírnis hefur meðal annars að geyma grein okkar Ásgeirs Brynjars Torfasonar, "Hinn alþjóðlegi peningaleikur" sem fjallar um einkavæðingu ríkisbanka í ljósi glæpasagna Þráins Bertelssonar. Höfuðáhersla er lögð á verkin Tungumál fuglanna (1987) sem Þráinn gaf út undir dulnefninu Tómas Davíðsson og Dauðans óvissi tími (2004) en þar er gefið með skýrum hætti til kynna að einkavæðing bankanna hafi verið feigðarflan. Greinin er hluti af víðtækari þverfaglegri rannsókn okkar Ásgeirs á snertiflötum íslensks viðskiptalífs og íslenskra bókmennta á fyrsta áratug þessarar aldar en tengist einnig gagnabankanum Hrunið, þið munið sem ég vann að ásamt Markúsi Þórhallssyni og fleirum fyrir fáeinum árum.

Hundur í óskilum setur Njálu á svið

Jón Karl Helgason, 08/11/2021

Í vetur setur Borgarleikhúsið upp sýninguna Njála – á hundavaði þar sem þeir félagar í hljómsveitinni Hundur í óskilum, Hjörleifur Hjartarson og Eiríkur Stephensen fara höndum um þetta höfuðvígi íslenskrar bókmenntasögu, sjálfa Brennu-Njálssögu. Á námskeiði sem Endurmenntun HÍ stóð fyrir um mánaðarmótin október/nóvember fengu þátttakendur innsýn í Njálu og uppsetninguna á verkinu. Við Hjörleifur Hjartarson hittum hópinn eitt kvöld og ræddi ég þar um erlendar sviðsetningar Njáls sögu. Viku síðar sóttu nemendur  forsýningu í leikhúsinu og ræddu við aðstandendur sýningarinnar um æfingaferli, vinnuaðferðir og markmið.

Great Immortality fékk viðurkenningu ESCL

Jón Karl Helgason, 20/09/2021

Greinasafnið Great Immortality: Studies on European Cultural Sainthood (Brill 2019), sem við Marijan Dović ritstýrðum, hlaut á dögunum evrópskra samanburðarbókmenntafræðinga (ESCL Excellence Award for Collaborative Research). Auk bókar okkar Marijans voru tilnefnd af sérstakri dómnefnd greinasöfnin Literary Second Cities (Palgrave 2017), Prismatic Translation (MHRA, 2019) og Reconfiguring Human, Nonhuman and Posthuman in Literature and Culture (Routledge, 2020). Í umsögn dómnefndar kom fram að öll tilnefndu verkin geymdu heildstæða umfjöllun fræðimanna frá ýmsum þjóðlöndum um þverfagleg viðfangsefni. Í Great Immortality væru bókmenntarannsóknir fléttaðar með áhugaverðum hætti saman við minnisfræði, auk þess sem sérstaklega var tekið til þess hve víðfeðm umfjöllunin væri en hún nær frá Úkraínu í austri, Katalóníu í suðri, Íslands í norðri til Hollands í vestri. Sjá nánar frétt á vef HÍ.

 

Helgir dómar Jóns Arasonar

Jón Karl Helgason, 31/08/2021

"Helgir dómar Jóns biskups" er titill á fyrirlestri sem ég flyt á málþingi um Jón og Helgu konu hans í Kakalaskála laugardaginn 28. ágúst. Ég mun þar rifja upp fyrri skrif mín um þetta efni, meðal annars í bók minni Ódáinsakur, en einnig reyna að komast nær um það með hvaða hætti meintar jarðneskar leifar hins kaþólska kennimanns röðuðu í turninn á Hólum um miðja síðustu öld. Útlit er fyrir að beinin, sem Guðbrandur Jónsson gróf upp að Hólum 1918 og hafði með sér til Reykjavíkur, hafi verið tekin úr Kristskirkju á Landakotstúni árið 1950 og grafin í jörðu utan við Hóladómkirkju. Þau voru síðan flutt, á næstu misserum, í turninn. Árið 1953 lýsir Björn Egilsson aðstæðum þar svo: "Gengið er inn í turninn að sunnan og liggja tröppurnar upp til vinstri handar þegar komið er inn, en til hægri litla útbyggingu, sem er einskonar grafhýsi. Þar er litil líkkista og íslenzki fáninn er breiddur yfir. ... Siðar um daginn spurði ég Vigfús Helgason, hvort það væri satt, sem ég hefði heyrt, að hann hefði aðstoðað doktor Guðbrand við uppgröft á beinum Jóns biskups Arasonar. Hann sagði að svo væri ekki. … Síðan bætti hann við: Beinin eru þarna í turninum geymd undir gleri og hægt að fá að sjá þau. Þar með leiddist ég í allan sannleika um hina leyndardómsfullu kistu." Þess má geta að nú er í umræddri útbyggingu aðeins legsteinn með nafni biskups en líklegt er að beinaleifarnar hvíli undir honum.

Mythology and Nation Building komin út

Jón Karl Helgason, 02/07/2021

Mythology and Nation Building in the Nineteenth Century Europe. N.F.S. Grundtvig and His European Contemporaries er titill nýrrar bókar sem komin er út hjá Aarhus University Press. Ritstjórar eru Sophie Bønding, Lone Kølle Martinsen og Pierre-Brice Stahl. Meðal efnis í ritinu er grein mín "“Snorri’s Old Site is a Sheep Pen”: Remarks on Jónas Hallgrímsson Poem “Ísland” and Iceland’s Nation Building". Þar bendi ég á að kvæði Jónasar Hallgrímssonar "Ísland", sem birtist fremst í fyrsta hefti Fjölnis árið 1835, sé hluti af athyglisverðri hefð þjóðernislegra skrifa um Þingvelli sem rekja megi m.a. til breskra breskra ferðabóka frá öðrum áratug nítjándu aldar. Meðal annarra höfunda sem eiga greinar í bókinni eru Joep Leerssen, Thomas Mohnike, Katrine F. Baunvig, Heather O’Donoghue og Simon Halink.

MA ritgerð Julie Summers

Jón Karl Helgason, 02/07/2021

Julie Rose Summers lauk MA prófi í þýðingafræðum nú í júnímánuði og leiðbeindi ég MA ritgerð hennar "A Brief Introduction to Sjón: A Case Study in Author-Translator Collaboration". Um er að ræða enska þýðingu, ásamt greinargerð, á annarri MA ritgerð sem ég leiðbeindi, "ÞJÓÐ(AR)SAGA SJÓNS: Pólitísk ummyndun á sameiginlegum minningum Íslendinga í sögulegum skáldverkum Sjóns" eftir Einar Kára Jóhannson, en til stendur að þýðingin komi út á næstunni. Í greinargerð með þýðingu sinni lýsir Julie samstarfi þeirra Einars Kára sem snerist um að laga íslenska textann að nýjum lesendahópi og breyta honum úr nemendaritgerð í handhæga inngangsbók um höfundarferil Sjóns.

Andlit á glugga komin út

Jón Karl Helgason, 31/03/2021

Andlit á glugga er safn íslenskra þjóðsagna og ævintýra með nútímastafsetningu og ítarlegum orðskýringum, sem við Romina Werth höfum annast útgáfu á. Bókin hefur að geyma sextíu sögur þar sem lýst er ástum og grimmum örlögum, heimsku og útsjónarsemi, hugrekki og hryllingi. Sögunum er fylgt úr hlaði með fróðlegum inngangi og milliköflum Rominu þar sem varpað er ljósi á munnlega geymd efnisins, alþjóðlegt samhengi þess og gildi þessara bókmennta í menningarsögulegu samhengi. Myndirnar í bókinni eru eftir Halldór Baldursson.

Glæpasögur og einkavæðing

Jón Karl Helgason, 01/03/2021

"Glæpasagnahöfundurinn Þráinn Bertelsson og einkavæðing bankanna" er titill á fyrirlestri sem við Ásgeir Brynjar Torfason fluttum í fyrirlestraröð á vegum Vigdísarstofnunnar 23. mars. Spennusagan Dauðans óvissi tími (2004) eftir Þráinn kom út tæpum fjórum árum fyrir gjaldþrot íslensku bankanna 2008 en er samt sem áður eitt af brautryðjendaverkum íslenskra hrunbókmennta. Þarna fléttast tvær frásagnir saman. Annars vegar segir af kaupsýslumanninum Haraldi Rúrikssyni sem kaupir Þjóðbanka Íslands eftir að hafa auðgast af rekstri og sölu bruggverksmiðju í Rússlandi. Hins vegar segir af æskuvinunum Þorgeiri Hákonarsyni og Þormóði Bjarnasyni sem ræna útibú Þjóðbankans við Vesturgötu og skjóta til bana aldraðan sjónarvott að ráninu. Í fyrirlestrinum verður sagan sett í samband við önnur verk Þráins og sögulega viðburði útrásartímans. Ljóst er tilgangur Þráins með því að skrifa söguna var pólitískur og beindist m.a. að þeirri einkavæðingu ríkiseigna sem er einn af hornsteinunum í stefnu nýfrjálshyggjunnar.

Lokabindi Smásagna heimsins

Jón Karl Helgason, 15/10/2020

Smásögur heimsins: Evrópa er komið út. Um er að ræða fimmta og síðasta bindi útgáfuraðar sem hóf göngu sína árið 2016. Við Rúnar Helgi Vignisson og Kristín Guðrún Jónsdóttir höfum ritstýrt öllum bindunum en frumkvæðið átti Rúnar Helgi um og eftir síðustu aldamót. Hann er enda aðalritstjóri verksins og hefur meðal annars ferðast víða um lönd í tengslum við útgáfuna, auk þess sem nemendur hans í ritlist hafa lagt verkefninu lið. Meðal höfunda sem eiga sögur í þessu lokabindi eru James Joyce, Virginia Wolf, Italo Calvino og Tove Jansson. Ég þýði tvær smásagnanna sem þarna birtast, þar á meðal sögu eftir Karen Blixen.

Sögusagnir og sjálflýsandi bókmenntir

Jón Karl Helgason, 15/10/2020

Sögusagnir: Þrjú tímamótaverk og einu betur er titill á nýrri fræðibók minni sem Dimma gefur út. Verkið fjallar um skáldverk sem varpa ljósi á eigið eðli, tilurð sína eða viðtökur. Hefð er fyrir því að kalla þessi verk metafiction á ensku og sjálfsögur á íslensku en í bókinni eru kynnt fleiri hugtök til leiks, svo sem sögusagnir og sjálflýsandi bókmenntir. Meðal þekktra erlendra verka sem tilheyra þessari hefð eru leikritið Sex persónur leita höfundar (1921) eftir Luigi Pirandello og skáldsagan Ástkona franska lautinantsins (1969) eftir John Fowles en í Sögusögnum er sjónum einkum beint að þeim þremur skáldum sem marka sjálfsöguleg tímamót hér á landi, strax um miðja síðustu öld.