Sögur af Ragnari í Smára

Jón Karl Helgason, 06/02/2024

Miðvikudaginn 7. febrúar verða 120 ár liðinn frá fæðingu Einars Ragnars Jónssonar, sem er þó betur þekktur undir nafninu Ragnar í Smára. Hann var goðsögn í lifanda lífi; kraftmikill sveitastrákur úr Flóanum sem gerðist iðnrekandi, bókaútgefandi, málverkasafnari og lífið og sálin í íslensku tónlistarlífi um áratugaskeið. Af þessu tilefni efnum við Marteinn Sindri Jónsson til viðburðar í Hannesarholti undir yfirskriftinni Sögur af Ragnari í Smára. Formleg dagskrá hefst klukkan 17.00 í Hljóðbergi, sal Hannesarholts, en kaffihúsið á jarðhæðinni er opið á undan fyrir þá sem vilja koma fyrr og skála fyrir afmælisbarninu. ps. Viðtal við mig var flutt í Mannlega þættinum á Rás 1 á sjálfan afmælisdaginn.

Leshringur um bókmenntir og lögfræði

Jón Karl Helgason, 01/01/2024

Í júní 2020 fékk ég styrk frá HÍ vegna stuðnings við samfélagsvirkni akademísks starfsfólks. Verkefnið, „Lög og bókmenntir“, miðaði að því að efla samræðu milli sviða lögfræði og bókmenntafræði um lög og bókmenntir, m.a. með námskeiðahaldi. Vegna COVID frestaðist upphaf verkefnis um rúmt ár en í millitíðinni hóf Ég samstarf við Hafstein Þór Hauksson, dósent við Lagadeild, um þetta verkefni og hafa allir viðburðir verið skipulagðir af okkur í sameiningu. Alls hafa verið skipulögð þrjú tengd námskeið, hið fyrsta með þátttöku starfsfólks Héraðsdóms Reykjavíkur, og síðari tvö með félögum í Lögfræðingafélagi Íslands, og tvær málstofur, sú fyrri á Hugvísindaþingi og sú síðari á Þjóðarspegli. Einnig hefur verkefnið tengst ferð Lögfræðingafélagsins á söguslóðir Sjöundármála, þátttöku Jóns Karls á öðru Hugvísindaþingi og umfjöllun í Lögmannablaðinu. Annáll starfsins er aðgengilegur hér á vefnum.

Fjarkönnun bókmenntasögunnar

Jón Karl Helgason, 18/12/2023

Í nýju hefti Skírnis birtum við Benedikt Hjartarson. Magnús Þór Þorbergsson og Steingrímur Páll Kárason grein sem ber titilinn "Fjarkönnun íslenskrar bókmenntasögu". Á síðari hluta liðins áratugar fengu Benedikt og Magnús Þór takmarkaðan aðgang að gagnagrunni Landskerfis bókasafna (LB) um útgefin íslensk rit til að vinna afmarkaða rannsókn á útgáfu bókmenntaþýðinga á íslensku á fullveldistímabilinu. Vorið 2022 fengum við Steingrímur almennari aðgang að þessum sömu gögnum í þeim tilgangi að miðla með myndrænum hætti vissum lykiltölum íslenskrar bókaútgáfu. Í þessari grein eru teknar saman helstu niðurstöður beggja rannsókna en jafnframt rætt um fáein áhugaverð framtíðarverkefni á þessu sviði.

Skáldskaparfræði Eiríks Laxdals

Jón Karl Helgason, 18/12/2023

Í nýútkominni Griplu birti ég fræðigrein um frásagnarfræðileg einkenni Sögu Ólafs Þórhallasonar eftir Eirík Laxdal. Greinin er skrifuð á ensku og ber titilinn "“Should she tell a story …” In Quest of Eiríkur Laxdal’s Poetics". Á það er bent að sagan eigi ýmislegt sameiginlegt með frásagnarbókmenntum fyrri alda og í því sambandi gerður samanburður á henni og hinni forngrísku Ódysseifskviðu, arabíska  sagnasafninu  Þúsund  og  einni  nótt  og  franska  miðaldatextanum  Leitin að  hinum  helga  gral.  Þegar  tekið  er  tillit  til  efniviðar,  uppbyggingar  og  jafnvel  persónusköpunar  Ólafssögu  má  líta  á  hana sem skilgetið afkvæmi aldalangrar bókmenntahefðar lagskiptra frásagna þar sem ekki er aðeins unnið úr munnlegri sagnahefð heldur er sú hefð beinlínis sett á svið.

Þýðing á fyrstu leynilögreglusögunni

Jón Karl Helgason, 05/11/2023

"Morðin í Líkhúsgötu" eftir Edgar Allan Poe er jafnan talin marka upphaf leynilögreglusögunnar sem sérstakrar bókmenntagreinar. Hún er sú fyrsta af þremur smásögum höfundar þar sem rannsakandinn C. Auguste Dupin leysir snúið sakamál. Ónefndur vinur hans er sögumaður í öllum þessum þremur sögum og er hann áhugaverður forveri Watsons læknis í sögunum A.C. Doyle um Sherlock Holmes. Þegar ég kenndi námskeið í glæpasögum fyrir fáum árum komst ég að því, mér til furðu, að sagan "Morðin í Líkhúsgötu" væri ekki til í íslenskri þýðingu. Ég ákvað að bæta úr því og uppgötvaði skömmu síðar að bókaforlagið Dimma, undir stjórn Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar, hefði í hyggju að gefa út úrval þýðinga á verkum Poes á íslensku. Bókin er nýkomin út, í ritstjórn Aðalsteins og Ástráðs Eysteinssonar. Ber verkið hinn látlausa titil Kvæði og sögur. Þar er, auk þýðingar minnar, að finna hinar tvær leynilögreglusögurnar um Dupin og einnig fjöldan allan af öðrum sígildum verkum þessa merka höfundar.

Heimur smásögunnar kortlagður

Jón Karl Helgason, 28/09/2023

"Heimur smásögunnar" er titill á viðamikilli ráðstefnu sem Bókmennta- og listfræðastofnun, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og STUTT, rannsóknastofa í smásögum og styttri textum standa að 30. september og 1. október í Veröld, húsi Vigdísar. Á þriðja tug bókmenntafræðinga sem flestir starfa við Háskóla Íslands fjalla þar um smásögur frá ýmsum hliðum. Í mínu erindi, sem er á dagskrá síðari daginn kl. 13.30, hyggst ég fjalla um smásögurnar „Vor í Fíalta“ eftir Vladimir Nabokov og „Konan með hundinn“ eftir Anton Tsjekhov og íslenskar þýðingar þeirra. Fyrirlesturinn ber titilinn: "Í fjólunni endurómar altraddarlegt heiti á fallegum bæ“ en það er tilvitnun í snilldarþýðingu Rúnars Helga Vignissonar á fyrrnefndu sögunni.

Icelandic Online 5 opnað að nýju

Jón Karl Helgason, 28/06/2023

Icelandic On­line eru sex vefnám­skeið í ís­lensku fyr­ir full­orðna. Unnið hef­ur verið að því að gera nám­skeiðin aðgengi­leg fyr­ir snjall­tæki og er loka­hluti þeirra, Icelandic On­line 5, nú kom­inn í hið nýja um­hverfi. Í ný­upp­færðum hluta ís­lensku­nám­skeiðsins er höfuðáhersla lögð á flókn­ari orðaforða og menn­ing­ar­læsi. Við Olga Holownia og Daisy L. Neijmann og erum höfundar upprunalega efnisins en yfirfærsluna í nýja umhverfið önnuðust Úlfur Alexander Einarsson, Lovísa Helga Jónsdóttir og María-Carmela Raso, undir stjórn okkar Daisyar. Vinnan við yfirfærsluna var kostuð af Aldarafmælissjóði Háskóla Íslands.

Á slóðum Erlendar í Unuhúsi

Jón Karl Helgason, 17/05/2023

Á þessu vori hef ég kennt hjá Endurmenntun HÍ námskeið um Unuhús og hefur Erlendur Guðmundsson verið þar í brennidepli. Laugardaginn 3. júní næstkomandi mun síðan opna á Gljúfrasteini sýning helguð Erlendi og í tengslum við hana verða fluttir þrír útvarpsþættir Sunnevu Krist­ínar Sig­urð­ar­dótt­ur um þennan merka mann á Rás 1. Og þar með er ekki allt upp talið. Miðvikudaginn 31. maí leiðum við Sunneva síðan bókmenntagöngu um slóðir Erlendar, Þórbergs Þórðarsonar og Halldórs Laxness í miðbænum. Gangan hefst kl. 20.00 við austari enda Þingholtsstrætis en mun enda í Garðastræti og Gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu. Þess má geta að umræddur dagur er afmælisdagur Erlendar en hann fæddist árið 1892.

Eftirlýst: Fyrsta íslenska myndasagan

Jón Karl Helgason, 08/05/2023

Í anddyri Landsbókasafns er nú sýning í tilefni af aldarafmæli Gísla J. Ástþórssonar, höfundar Siggu Viggu, en á fimmtudag kl. 16.00 opnar önnur og almennari sýning helguð íslenskum myndasögum. Ég mun segja fáein orð þar um fyrstu skopmyndirnar og myndasögurnar sem birtust á íslensku, bæði frumsamdar og þýddar, þar með talið merka skopmynd sem Páll Melsteð (Paul M.) Clemens gerði af Skúa Thoroddsen árið 1908. Einnig hyggst ég draga fram nokkrar myndasögur Tryggva Magnússonar teiknara en færa má rök fyrir því að "Ökuhraði bifreiða" sé elst þeirra en hún birtist í Lesbók Morgunblaðsins 1925. Um er að ræða tvær tengdar myndir sem draga með skoplegum hætti fram muninn á ákvæðum lögreglusamþykktar um hámarkshraða farartækja og hinn lífshættulega veruleika hraðaksturs.

 

Gestkvæmt í Eddu, húsi íslenskra fræða

Jón Karl Helgason, 21/04/2023

Á sumardaginn fyrsta var opið húsi í Eddu, húsi íslenskra fræða, sem fengið hafði nafn sitt síðasta vetrardag. Frá klukkan 10 til 16 flæddi fjöldi gesta um hinar þrjár efri hæðir hússins en einnig var dagskrá með fyrirlestrum, skáldskap, tónlist og myndasögum í boði. Ég var meðal fjórtán fræðimanna Íslensku- og menningardeildar og Árnastofnunnar sem hélt örfyrirlestra milli klukkan 13 og 14 og rakti á fimm mínútum rannsóknarsamstarf mitt við Steingrím Kárason, Sigurð Ingiberg Björnsson, Benedikt Hjartarson og Magnús Þór Þorbergsson á sviði fjarkönnunar (e. distant reading) bókmenntasögunnar. Fyrirlesturinn nefndist "Er hægt að segja íslenska bókmenntasögu með línu- og súluritum?" Við Steingrímur, Benedikt og Magnús vinnum að grein um okkar rannsóknir en nánar er rætt um rannsóknir okkar Steingríms og Sigurðar á stílmælingum fornsagna hér.