Fjarkönnun bókmenntasögunnar

Jón Karl Helgason, 25/11/2022

Fjarkönnun íslenskrar bókmenntasögu: Verkefni, innsýn og áskoranir“ er titill viðburðar þar sem við Benedikt Hjartarson,  Magnús Þór Þorbergsson og Steingrímur Páll Kárason kynnum niðurstöður rannsókna sem byggja á upplýsingum úr gagnagrunni Landskerfis íslenskra bókasafna. Hann verður haldinn á vegum Bókmennta- og listfræðastofnunar í stofu HT101 á Háskólatorgi 24. nóvember kl. 12-13. Við fjórmenningar erum að hætta okkur inn á rannsóknarsvið sem má kenna við fjarkönnun, fjarrýni eða fjarlestur (e. distant reading) en þar er unnið á skapandi hátt með stafrænar upplýsingar af vettvangi bókmenntanna. Markmiðið slíkra rannsókna er í og með að ögra hefðbundinni áherslu fræðimanna á túlkun einstakra texta og fáeina viðurkennda höfunda eða bókmenntagreinar og beina athyglinni þess í stað að almennari og óhlutbundnari þáttum bókmenntakerfisins.

Gleymska, minni og þjóðardýrlingar

Jón Karl Helgason, 09/11/2022

"Gleymska er náttúrulegt ferli, ódauðleiki er flókið menningarlegt gangvirki" er titill á viðtali sem Irena Samide tók við okkur Marijan Dović í tilefni af því að bókin Great Immortality, sem við ritstýrðum saman 2019, hlaut nýlega verðlaun hjá samtökum evrópskra samanburðarbókmenntafræðinga (ESCL Excellence Award for Collaborative Research). Viðtalið birtist upphaflega á slóvensku í tímaritinu Primerjalna književnost en hefur nú verið endurbirt í endurskoðaðri gerð á ensku í CompLit. Journal of European Literature, Arts and Society

 

Lykilgrein í þýðingafræðum

Jón Karl Helgason, 01/11/2022

"Staða þýddra bókmennta innan fjölkerfis bókmenntanna" eftir Itamar Even-Zohar er ein af áhrifamestu fræðigreinum sem birst hafa um þýðingar á liðnum áratugum. Hún var samin upphaflega 1978 og birt í nýrri útgáfu 1990 og er nú aðgengileg á íslensku í þýðingu minni í nýútkomnu hefti af Ritinu. Þýðingin er "utan þema" en þema Ritsins að þessu sinni eru rannsóknir á femínisma. Ásdís Helga Ólafsdóttir, Guðrún Steinþórsdóttir, Unnur Birna Karlsdóttir, Alda Björk Valdimarsdóttir, Hólmfríður Garðarsdóttir, Arnfríður Guðmundsdóttir og Helga Kress skrifa fjölbreyttar greinar um efnið. Ritstjórar Ritsins eru þær Guðrún og Sigríður Margrét Guðmundsdóttir.

Hvar skarast skáldskapurinn og lögfræðin?

Jón Karl Helgason, 18/10/2022

Lög og bókmenntir er yfirskrift málstofu sem er hluti af Þjóðarspeglinum, ráðstefnu um félagsvísindi við Háskóla Íslands föstudaginn 28. október næstkomandi. Þar munum við Guðrún Steinþórsdóttir, Hafsteinn Þór Hauksson og Ástráður Eysteinsson kanna ýmsa áhugaverða snertifleti bókmenntafræði og lögfræði. Guðrún fjallar um Ég heiti Ísbjörg, ég er ljón eftir Vigdísi Grímsdóttur og Ástráður um Réttarhöldin eftir Kafka en í báðum þessum skáldsögum er dregin upp mynd af samskiptum sakborninga og dómsstóla. Erindi mitt kallast "Hvar skarast heimsbókmenntirnar og lögfræðin?" en þar verður sjónum beint að verkum eftir William Shakespeare, Albert Camus og Steen Steensen Blicher sem lögfræðingar hafa sýnt fræðilegan áhuga. Þá mun Hafsteinn Þór velta vöngum yfir því hvaða íslensk skáldverk gætu átt erindi við lögfræðinema hér á landi. Málstofan fer fram í Lögbergi, stofu 101 og hefst klukkan 11.00. Hægt er að skoða ágrip erinda á s. 64-66 í ráðstefnuriti Þjóðarspegilsins.

Brot úr höfundarverki

Jón Karl Helgason, 09/10/2022

Heildarritsafn verka Sjóns er komið út á vegum Forlagsins. Alls telur það níu bindi og fylgir hverju bindi eftirmáli, Meðal höfunda þeirra eru Ásta Kristín Benediktsdóttir, Sverrir Norland, Ástráður Eysteinsson og Anne Carson.  "Brot úr höfundarverki" er titill eftirmála sem ég skrifa um fyrstu skáldsögu Sjóns, Stálnótt, en hún kom út árið 1987. Niðurlagsorðin eru svohljóðandi: "Skáldið hélt áfram að þróa þessa fagurfræði í seinni verkum sínum, þar með talið hinum marglaga þríleiks CoDex 1962 sem inniheldur skáldsögurnar Augu þín sáu mig (1994), Með titrandi tár (2001) og Ég er sofandi hurð (2016). Um leið brúar Stálnótt bilið milli forms ljóðabókarinnar og nóvellunnar og vísar að því leyti fram á veginn til hinna hnitmiðuðu frásagna Skugga-Baldurs (2003) og Mánasteins (2013). Þessi fyrsta skáldsaga Sjóns frá haustinu 1987 er því eitthvert brot af höfundarverkinu einsog það er í þann veginn að verða …"

Lagagreinar og bókmenntagreinar

Jón Karl Helgason, 04/10/2022

"Hvers er sæmdin?" er titill málsþings sem Hagþenkir og Rithöfundasambandið standa fyrir í Þjóðminjasafni kl. 15.00 miðvikudaginn 5. október. Þar verður fjallað um höfundarétt og sæmdarrétt á sviði bókmenntasköpunar. Fyrirlesarar eru auk mín þau Sigríður Ingibjörg Gísladóttir lögmaður, Jón Ólafsson prófessor og Oddný Eir Ævarsdóttir rithöfundur. Erindi mitt nefnist "Lagagreinar og bókmenntagreinar" og beinist annars vegar að þeim ólíku væntingum sem lesendur gera til verka og höfunda innan ólíkra bókmenntagreina og hins vegar þeirri staðreynd að í höfundalögum er ekki gerður skýr greinarmunur á því sviði.

Málstofa um nýtt rit um norræna textafræði

Jón Karl Helgason, 19/05/2022

Nýlega kom greinasafnið Old Norse-Icelandic Philology and National Identity in the Long Nineteenth Century út hjá hollenska forlaginu Brill í ritröð um menningarlega þjóðernisstefnu. Gylfi Gunnlaugsson og Clarence E. Glad ritstýrðu safninu og skrifa drjúgan hluta textans. Þriðjudaginn 17. maí tökum við Guðmundur og Hálfdánarson og Bragi Þorgrímur Ólafsson þátt í málstofu um bókina. Ég hef hugsað mér að setja verkið í samhengi við önnur rit í umræddri ritröð og hið merkilega starf sem Joep Leerssen hefur staðið fyrir á umliðnum árum undir merkjum SPIN. En ég mun einnig setja þessar rannsóknir í samband við strauma og stefnur meðal fræðimanna innan Reykjavíkur Akademíunnar. Þeir Gylfi og Clarence hafa lengi starfað innan vébanda hennar og axlað margháttaða ábyrgð á starfseminni.

Tengsl Svartfugls Gunnars við Vaðlaklerk Blichers

Jón Karl Helgason, 11/03/2022

"Svartfugl: Vannýtt kennsluefni í lögfræði" er titill málstofu sem við Ingibjörg Þorsteinsdóttir og Hafsteinn Þór Hafsteinsson stöndum að á Hugvísindaþingi 12. mars. Erindi Hafsteins, sem er dósent í lögfræði við Háskóla Íslands, nefnist "Til þess eru allt of margir afskekktir bæir á óru landi Íslandi“ – Þankar um réttarríki á strjálbýlli eyju við ysta haf" og erindi Ingibjargar, sem er dómsstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur ber titilinn "Þar sem er efi þar er von. Hugleiðingar um sekt og sönnunargögn í Svartfugli". Sjálfur mun ég leggja áherslu á líkindi Svartfugls og skáldsögunnar Vaðlaklerks eftir danska skáldið Blicher en verkið hefur með góðum árangri verið notað í kennslu í námskeiðum um bókmenntir og lög við Kaupmannahafnarháskóla. Málstofan er í stofu 202 í Odda og stendur frá kl. 13.00-14.30.

Doktorsrit um Ameríku í íslenskum bókmenntum

Jón Karl Helgason, 05/01/2022

Jodie Childers varði doktorsritgerð sína, "Transnational Political and Literary Encounters: The Idea of Ameríka in Icelandic Fiction, 1920–1990" við enskudeild The University of Massachusetts um miðjan desember síðastliðinn.Ritgerðin er unnin á sviði Ameríkufræða (American Studies) en athygli beinist einkum að margbrotnu sambandi Halldórs Laxness við Ameríku, allt frá því að honum var synjað um landgöngu þar í byrjun þriðja áratugar 20. aldar til þess að skáldsaga hans, Atómstöðin, vakti úlfúð meðal íslenskra og bandarískra ráðamanna á sjötta áratugnum. Í lokakafla ritgerðarinnar kannar Childers síðan ímynd Ameríku í skáldverkum eftir yngri skáld, þar á meðal Ástu Sigurðardóttur og Einar Kárason. Leiðbeinandi ritgerðarinnar var Ron Welburn en að auki sátum við Frank Hugus og Asha Nadkarni í doktorsnefndinni.

Fleiri fingraför fornsagnahöfunda

Jón Karl Helgason, 14/12/2021

"Stylometry and the Faded Fingerprints of Saga Authors" er titill greinar sem við Steingrímur Páll Kárason og Sigurður Ingibergur Björnsson birtum í nýútkomnu fræðiriti, In Search of the Culprit. Aspects of Medieval Authorship. Ritstjórar þess eru Rösli og Stefanie Gropper en útgefandi De Gruyter. Um er að ræða kynningu á aðferðarfræði svonefndra stílmælinga (e. stylometry) og er henni beitt á stórt safn íslenskra miðaldatexta. Greinin skarast við grein sem við birtum í Skírni árið 2017 en hér eru þó kynntar spánýjar niðurstöður sem byggjast á stærra textasafni og þróaðri aðferðum en áður. Greinin er í opnum aðgangi en einnig má nú nálgast niðurstöður yngri og eldri stílmælinga þeirra Steingríms og Sigurðar á vefslóðinni fingrafor.ullur.net. Stuttlega var fjallað um þessa rannsókn á Stöð 2 og vefmiðlinum Vísi.