Heimur smásögunnar kortlagður

Jón Karl Helgason, 28/09/2023

"Heimur smásögunnar" er titill á viðamikilli ráðstefnu sem Bókmennta- og listfræðastofnun, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og STUTT, rannsóknastofa í smásögum og styttri textum standa að 30. september og 1. október í Veröld, húsi Vigdísar. Á þriðja tug bókmenntafræðinga sem flestir starfa við Háskóla Íslands fjalla þar um smásögur frá ýmsum hliðum. Í mínu erindi, sem er á dagskrá síðari daginn kl. 13.30, hyggst ég fjalla um smásögurnar „Vor í Fíalta“ eftir Vladimir Nabokov og „Konan með hundinn“ eftir Anton Tsjekhov og íslenskar þýðingar þeirra. Fyrirlesturinn ber titilinn: "Í fjólunni endurómar altraddarlegt heiti á fallegum bæ“ en það er tilvitnun í snilldarþýðingu Rúnars Helga Vignissonar á fyrrnefndu sögunni.