Íslensk málrækt
Til að efla íslensku og tryggja framtíð hennar er mikilvægt að
- hafa í huga að í hverju tungumáli felast menningarverðmæti og við berum ábyrgð á framtíð íslenskunnar;
- gæta þess að umhyggja fyrir íslenskunni snúist ekki upp í þjóðrembu og andstöðu við önnur tungumál;
- skilja að íslenska er ekki merkilegri eða dýrmætari en önnur tungumál – nema fyrir notendur hennar;
- rækta með sér jákvætt viðhorf til málsins og skilning á gildi þess fyrir okkur sjálf og málsamfélagið;
- leitast við að orða hugsun sína skýrt og skipulega og vanda framsetningu bæði talaðs máls og ritaðs;
- velja máli sínu búning sem hæfir aðstæðum og viðmælendum eða lesendum – nota viðeigandi málsnið;
- kynna sér hefðir málsins sem best og taka mið af þeim, án þess að láta þær hefta eðlilega tjáningu;
- átta sig á að málið verður að henta málsamfélaginu á hverjum tíma og stöðnun í máli er ávísun á hnignun;
- hika ekki við að beita nýsköpun í máli – setja orð í nýstárlegt samhengi og búa til ný orð ef þeirra er þörf;
- sýna viðmælendum sínum virðingu og umburðarlyndi og leggja málnotkun þeirra alltaf út á besta veg;
- sneiða hjá orðum og málnotkun sem getur verið særandi eða útilokandi fyrir ákveðna þjóðfélagshópa;
- gera sér grein fyrir því að íslenska er alls konar og ýmis tilbrigði í máli auðga það en spilla því ekki;
- hneykslast ekki á málnotkun annarra eða vera sífellt að leiðrétta fólk og gera athugasemdir við málfar þess;
- forðast að fordæma tilbrigði í máli sem fólk hefur tileinkað sér á máltökuskeiði og eru hluti af málkerfi þess;
- líta ekki niður á fólk sem talar ekki „rétta“ íslensku og hreykja sér ekki af eigin málfari og málkunnáttu;
- skipta ekki yfir í ensku heldur nota íslensku í samskiptum við fólk sem vill og reynir að tala málið;
- láta aldrei skort á íslenskukunnáttu bitna á fólki eða nota hann til að mismuna því á ómálefnalegan hátt;
- tala sem mest við börn á máltökuskeiði, lesa fyrir þau og með þeim, og vera þeim góð málfyrirmynd;
- gera kröfu um og stuðla að því eftir mætti að unnt sé að nota íslensku á öllum sviðum, til allra þarfa;
- hlusta á íslensku, tala íslensku, lesa íslensku, skrifa íslensku – nota íslensku sem allra mest, á allan hátt.