Posted on Færðu inn athugasemd

Öskrum við meira eftir hrun?

Í gær bar hér á góma nokkrar sagnir sem hafa öskur- að fyrri lið – öskursyngja, öskurhlæja, öskurgráta og öskurgrenja eru þær helstu en mun sjaldgæfari eru öskurhnerra, öskuræla, öskurgubba, öskurmjálma o.fl. Eins og ég hef áður skrifað hér um eru samsettar sagnir ekki ýkja margar í íslensku en á síðustu árum hefur það þó færst mjög í vöxt að nota samsettar sagnir í stað orðasambands með sögn og nafnorði eða sögn og forsetningu eða atviksorði. Þetta eru sagnir eins og haldleggja í stað leggja hald áfrelsissvipta í stað svipta frelsinafnbirta í stað birta nafnökuleyfissvipta í stað svipta ökuleyfi, fjárafla í stað afla fjár, brottvísa í stað vísa brott, o.s.frv. Nýlega hafa svo áðurnefndar öskur-sagnir bæst í þennan hóp.

Elsta dæmi sem ég finn um slíka samsetningu er í ljóði eftir Nínu Björk Árnadóttur í Leikhúsmálum 1997: „hún heyrir hafið öskra og hlæja, heyrir það öskurhlæja.“  Á Hugi.is segir 2003: „heheh deatha er að öskursyngja.“ Örfá dæmi eru á Bland.is. Dæmi frá 2009: „Í versta falli losna þau við helluna við það að öskurgrenja.“ Frá 2010: „þá öskurgrenjaði ég inni á baði því mamma lenti ekki að skutla mér í ræktina.“ Frá 2011: „Ég var um daginn í kolaportinu og þá var kona búin að týna syni sínum og var öskurgrátandi yfir því.“ Frá 2013: „Ég mindi öskurgrenja og æla.“ Á Twitter eru tvö dæmi frá 2013: „Heil röð af unglingsstúlkum með teina öskurgrét fyrir aftan mig“ og „og öskurgrét yfir UP myndinni með Kára í dag“.

Þetta eru einu dæmin um öskur-sagnir sem ég finn fyrir 2014, en þá er eins og einhver stífla bresti og áðurnefndar fjórar sagnir verða skyndilega algengar á samfélagsmiðlum en fara skömmu síðar einnig að sjást á vefmiðlum og prentmiðlum. Í Risamálheildinni er vel á annað þúsund dæma um þessar sagnir – hátt á þriðja hundrað um öskurhlæja og öskurgráta, á fjórða hundrað um öskurgrenja og á sjöunda hundrað um öskursyngja – og örfá um aðrar öskur-sagnir. Meginhluti dæmanna er vissulega af samfélagsmiðlum, en þó er slæðingur af dæmum úr vefmiðlum eins og Vísi og DV og prentmiðlum eins og Fréttablaðinu, Fréttatímanum, Morgunblaðinu og Stundinni. Slíkum dæmum hefur fjölgað verulega allra síðustu ár.

Í umræðum í gær var því haldið fram að öskur-sagnir hefðu komið í staðinn fyrir sagnir eins og skellihlæja og hágráta / hágrenja sem heyrðust varla lengur. Það er þó ekki rétt – þær sagnir eru enn margfalt algengari en öskur-sagnirnar, líka á samfélagsmiðlum. En svo er spurning hvort merkingin er sú sama. Vegna þess að öskur-sagnirnar eru ekki í mínum orðaforða átta ég mig ekki alveg á því en dreg þó í efa að svo sé – mér finnst merkingin í öskur-sögnunum yfirleitt ofsafengnari en í skellihlæja og hágráta / hágrenja. Nær væri að bera hágráta / hágrenja saman við orga en hún er líka algeng. Ég man ekki eftir neinni sögn sem gæti samsvarað öskursyngja   – ég myndi væntanlega segja syngja hástöfum eða eitthvað slíkt, en það merkir samt annað.

Hvernig stendur á því að þessar fjórar sagnir (og raunar fleiri þótt sjaldgæfar séu) koma upp og breiðast út á svipuðum – og mjög stuttum – tíma? Ég átta mig ekki á því – ég finn t.d. enga beina enska samsvörun þótt nefnt hafi verið að öskurgrenja svipi til ugly cry á ensku. Einnig var nefnt í umræðunni að í sænsku væru til sagnirnar skrikgråta, skrikskratta og skriksjunga sem samsvara íslensku sögnunum en mér finnst einhvern veginn ólíklegt að sænska hafi haft svona mikil og skyndileg áhrif – nema þau stafi frá einhverri bíómynd eða sjónvarpsþáttum sem ég þekki ekki. En svo má líka spyrja hvort andlegt ástand þjóðarinnar hafi orðið óstöðugra og ofsafengnara eftir hrun sem kalli á öskur-sagnir eða hvetji til tilþrifameiri tjáningar.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að ópa

Í dag var spurt hér hvort fólk hefði séð ópa notað sem sögn, en í frétt í DV í dag segir: „Ópaði hann svo yfir mannskapinn að eigandi bílsins skyldi færa bílinn.“ DV tekur þetta upp af vef Hrímfaxa en þar stendur reyndar núna „Hrópaði hann svo yfir mannskapinn að eigandi bílsins skyldi færa bílinn“ – trúlegt er að því hafi verið breytt eftir athugasemdir. Ég kannaðist ekki við sögnina ópa og hélt fyrst að þetta væri villa, en eftir að ég fór að skoða málið nánar skipti ég um skoðun. Það kom nefnilega í ljós að þótt þessi sögn hafi ekki komist í orðabækur á hún sér langa sögu og nokkra tugi dæma má finna um hana á tímarit.is, allt frá 19. öld til síðustu ára. Í Risamálheildinni er á fjórða tug dæma um sögnina, flest af samfélagsmiðlum.

Elsta dæmi sem ég finn um ópa er í Skírni 1889: „Lengi og hátt ópað heyr.“ Þetta kemur fyrir tvisvar í sömu grein þannig að það er greinilega ekki prentvilla. Annað dæmi er í Dagskrá 1898: „Simpson og jeg gengum sitt við hvora hlið hans, ópuðum og orguðum í eyru honum til þess að halda honum vakandi.“ Í Íslendingi 1925 segir (í kvæði eftir Jochum M. Eggertsson): „En útburðir við heljar-hurðu / hrópa, biðja, væla, ópa.“ Í Fálkanum 1931 segir: „Drottinn minn! heyrði hann ópað og um leið datt maðurinn kylliflatur á gólfið og lá þar.“ Í Viljanum 1939 segir: „Þeir koma langar leiðir að og ópa, dansa og syngja í marga daga.“ Í Munin 1977 segir (í ljóði eftir Tryggva Hákonarson): „Haf hljótt / hlusta / heyr þú hrópa / væla og ópa.“

Aðalnotkun ópa eftir miðja 20. öld er þó í krossgátum – sögnin er stutt og sjaldgæf og hentar því einkar vel til þeirra nota. Ég fann vel á annan tug dæma um þessa notkun sagnarinnar í ýmsum blöðum, einkum á sjötta áratugnum en einnig síðar – nýjasta dæmið er frá 2022. Sögnin er ýmist höfð sem lausn á hrópa, kalla, orga eða veina. En sögninni bregður einnig fyrir í annarri notkun. Í myndatexta í DV 2001 segir: „Á litlu myndinni sést hlauparinn Jon Drummond ópa af angist.“ Í DV 2004 segir: „persónur ópa „Heilagur Kiljan“ í gríð og erg.“ Í Morgunblaðinu 2011 segir: „þegar almenningur ópar og veinar í örvæntingu.“ Á mbl.is 2020 segir: „Lögregla skaut og særði mann sem veifaði hnífi og ópaði „Guð er máttugastur“.“

Dæmi eru um að gerðar hafi verið athugasemdir við sögnina ópa í málfarsskrifum. Í grein eftir nemendur í hagnýtri fjölmiðlun um málfar í útvarpsstöðvum í Málfregnum 1998 segir: „Eftirfarandi setning heyrðist á einni stöðinni: Hún ópaði upp yfir sig, þ.e. sögnin(!) „ópa“. Líklegt má telja að útvarpsmaðurinn haft ætlað að segja hún æpti upp yfir sig eða hún hrópaði upp yfir sig en ruglað saman sögnunum að æpa og hrópa svo að úr varð þessi meinlega en kostulega málvilla.“ Í pistli Eiðs Guðnasonar frá 2014 er vakin athygli á setningunni „Ein hérna var að stíga niður fæti, þegar önnur sem starfar með mér sá köngulóna og ópaði“ í frétt á Vísi – þar stendur reyndar núna æpti í staðinn. Eiður segir: „Það var og. Konan ópaði, hún æpti ekki.“

Að leiða sögn af nafnorði með því að bæta nafnháttarendingunni -a við nafnorðsstofninn er vitaskuld góð og gild orðmyndunaraðferð, og ekki undarlegt þótt málnotendum finnist eðlilegt að leiða ópa af óp, með hliðsjón af t.d. hrópa hróp. Í þessu tilviki vill samt svo til að fyrir er í málinu sögn leidd af óp á örlítið annan hátt, þ.e. með i-hljóðvarpi – sögnin æpa. Tilvist hennar veldur því að mörgum finnst ópa hljóma óeðlilega, og vissulega er hún mjög sjaldgæf þótt dæmum virðist fara fjölgandi í óformlegu málsniði a.m.k. En í ljósi þess að ópa er rétt mynduð, á sér langa og óslitna sögu í málinu, og hefur lengi verið notuð athugasemdalaust í krossgátum tel ég eðlilegt að viðurkenna hana sem rétt mál, þótt ég mæli ekki sérstaklega með henni.

Posted on Færðu inn athugasemd

Fyrir bakvið hús

Fyrir tveimur og hálfu ári skrifaði ég hér pistil um samsettu forsetninguna fyrir bakvið (eða fyrir bak við) sem ég hafði þá nýlega fengið spurnir af en vissi lítið um og hafði ekki mörg dæmi um. En þegar ný útgáfa Risamálheildarinnar kom með efni af samfélagsmiðlum bættist við fjöldi dæma og nú er hægt að skoða þessa forsetningu nánar. Hún virðist vera einhvers konar samsteypa úr (á) bak við og fyrir aftan og oft er hægt að segja hvort sambandið sem er í staðinn, t.d. í dæmi af Huga.is 2004: „Án þess að hann sýni minnstu viðbrögð flýgur ör í trévegginn fyrir bakvið hann.“ Þarna væri bæði hægt að segja trévegginn (á) bak við hann og trévegginn fyrir aftan hann í sömu merkingu. En ekki er alltaf hægt að skipta á (á) bak við og fyrir aftan.

Mér sýnist að í stað fyrir bakvið sé ævinlega hægt að setja bak við, en ekki nærri alltaf fyrir aftan. Það eru m.a. dæmi um fyrir bak við tjöldin, fyrir bak við eyrað, fyrir bak við tölvuna, fyrir bakvið luktar dyr o.fl. þar sem ekki gengur að segja fyrir aftan. Sama gildir um yfirfærða merkingu eins og fara fyrir bakvið foreldra sína, önnur meining fyrir bakvið þetta, maðurinn fyrir bakvið sigurinn o.fl. – þar gengur fyrir aftan ekki heldur. Ég hef hins vegar ekki fundið nein dæmi um að fyrir bakvið sé notað í stöðu þar sem aðeins er hægt að nota fyrir aftan en ekki bak við, í dæmum eins og næst fyrir aftan mig eða eitthvað slíkt. Merkingarlega séð er fyrir bak við því afbrigði af (á) bak við þótt formið hafi orðið fyrir áhrifum frá fyrir aftan.

Sambandið fyrir bak við er a.m.k. 20 ára gamalt. Elsta dæmi sem ég finn um það er á Huga.is 2002: „vinur minn sá hvað allt gerðist, þetta gerðist fyrir bakvið hann.“ Á Bland.is 2004 segir: „Ég held að það búi nú eitthvað meira að baki – þær eru allavega ekki sjálfar fyrir bakvið linsuna.“ Frá árinu 2005 eru allmörg dæmi af samfélagsmiðlum þar sem fólk er að gera athugasemdir við þetta samband – „Haha, minn segir alltaf fyrir bakvið þig“  og „Ég er búin að vera að pæla í því að dætur mínar tala báðar um fyrir bakvið!“ segir t.d. á Bland.is þetta ár. Svipuðum athugasemdum fór fækkandi eftir þetta en bregður fyrir enn – „Ég er enn að vinna í að sætta mig við þegar kæró segir „fyrir bakvið“ segir t.d. á Twitter 2020.

Ég hef aðeins fundið tvö dæmi um sambandið í prentmiðlum, það eldra úr Fjarðarpóstinum 2013: „því undir niðri eru að gerast magnaðir hlutir sem fæstir skilja nema þeir sem hafa fengið að sjá hvað er fyrir bakvið grímuna.“ Annað dæmi er í Fréttablaðinu 2020: „Fallegur garður er fyrir bakvið hús.“ Fimm dæmi finnast á vefmiðlum, það elsta í Vísi 2014: „Hér beint fyrir bakvið mig er handboltaleikur í gangi.“ Í DV 2019 segir: „Ole Gunnar Solskjær er tekinn við liðinu og vill hann hrista vel upp í mannskapnum og einnig fyrir bakvið tjöldin.“ Langflest dæmin í Risamálheildinni eru af samfélagsmiðlum, alls rúm 120, þannig að ljóst er að það tíðkast nokkuð í óformlegu málsniði og gæti vitanlega farið að sjást meira í formlegu máli.

Sambandið fyrir bak við er tæpast orðið svo útbreitt enn að ástæða sé til að telja það rétt mál. Þó má hafa í huga að sambandið (á) bak við kemur ekki fyrir í fornu máli, heldur var þar notaður forsetningarliðurinn á bak með þágufalli – „Þorkell ríður nú á brott og snýr svo leið sinni að hann kemur á bak þeim Berki“ segir í Gísla sögu Súrssonar. „Í orðasambandinu á bak við e-ð hefur stofnorðið bak misst eigin merkingu og fengið það sem kalla má hlutverksmerkingu. Þetta má m.a. sjá af því að fs. á er oft felld brott og þá stendur einungis bak við e-ð eftir“ segir Jón G. Friðjónsson. Forsetningin á hefur því enga merkingu þarna – er þá ekki eins hægt að nota fyrir, eins og í fyrir aftan? Ég er ekki að mæla með því, en sé ekki að það væru mikil málspjöll.

Posted on Færðu inn athugasemd

Vanræksla sveitarfélaga við setningu málstefnu

Í 130. grein Sveitarstjórnarlaga nr. 138 frá 2011 segir: „Sveitarstjórn mótar sveitarfélaginu málstefnu í samráði við Íslenska málnefnd og eftir atvikum málnefnd um íslenskt táknmál. Þar skal koma fram að öll gögn liggi fyrir á íslensku svo sem kostur er og gerð grein fyrir heimilum undantekningum á þeirri reglu. Þar skulu settar reglur um notkun íslensks táknmáls og íslensks punktaleturs í gögnum og starfsemi sveitarfélagsins. Enn fremur skal koma fram hvaða gögn liggja að jafnaði fyrir í erlendum málbúningi og hvaða tungumál þar er um að ræða. Þá skal þar setja reglur um rétt íbúa af erlendum uppruna til samskipta við stofnanir sveitarfélagsins á annarri tungu en íslensku.“ Feitletranir eru mínar.

Þetta er afdráttarlaus grein sem felur í sér skýlausa skyldu sveitarfélaga til að setja sér málstefnu, og kveður á um tiltekin atriðið sem þar skulu koma fram. Það eru tólf ár síðan þessi lög tóku gildi en þrátt fyrir það er það alger undantekning að sveitarfélög hafi farið eftir henni og sett sér málstefnu. Ég leitaði á vefnum að málstefnum 25 fjölmennustu sveitarfélaga landsins og fann aðeins tværmálstefnu Reykjavíkurborgar frá 2017 og málstefnu Dalvíkurbyggðar frá 2019. Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti fyrir tveimur árum „að hefja undirbúning við gerð málstefnu“ en ekki er að sjá að stefnan liggi fyrir. Tillaga um mótun málstefnu var lögð fram í bæjarstjórn Garðabæjar fyrir ári og vísað til bæjarstjóra en meira virðist ekki hafa gerst.

Haustið 2012 lagði Mörður Árnason fram á Alþingi fyrirspurn til innanríkisráðherra: „Hvaða sveitarfélög hafa nú þegar sett sér málstefnu, sbr. 130. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011?“ Í svari ráðherra sagði að öllum sveitarfélögum hefði verið send fyrirspurn þessa efnis. „Alls bárust svör frá 24 af 75 sveitarfélögum. Ekkert þeirra sveitarfélaga sem svöruðu erindi ráðuneytisins hefur sett sér málstefnu í samræmi við 1. mgr. 130 gr. laganna en í nokkrum tilvikum kom fram að framkvæmdastjóra sveitarfélags hefði verið falið að vinna að málstefnu fyrir sveitarfélagið. […] Innleiðing laganna mun óhjákvæmilega taka nokkurn tíma. Þau hafa sem sagt ekki gengið frá málstefnu en í einhverjum tilvikum er sú vinna hafin sem betur fer.“

Í skýrslunni Staða málstefnu í stoðkerfi ferðaþjónustunnar. Skiptir hún máli? sem var gefin út í fyrra kemur einmitt fram að árið 2012 hafi verið fjallað um málstefnu í fundargerðum ýmissa sveitarstjórna í framhaldi af fyrirspurn Innanríkisráðuneytisins þar um, en á þeim tíu árum sem liðu fram að gerð skýrslunnar var aðeins í örfáum tilvikum drepið á málstefnu í fundargerðum. Í nýlegum samþykktum ýmissa sveitarstjórna um stjórn viðkomandi sveitarfélags er liðinn „Að setja sveitarfélaginu málstefnu skv. 130. gr. sveitarstjórnarlaga“ að finna í upptalningu á verkefnum sveitarfélagsins, en ég hef ekki fundið nein merki þess að í öðrum sveitarfélögum en nefnd eru að framan sé vinna við gerð málstefnu hafin, þótt svo kunni vitaskuld að vera.

Það kom fram í svörum sumra sveitarfélaga við fyrirspurn Innanríkisráðuneytisins fyrir ellefu árum að gerð málstefnu væri ekki forgangsverkefni í innleiðingu sveitarstjórnarlaga og ráðuneytið sýndi því skilning eins og áður segir. En nú eru tólf ár liðin frá gildistöku laganna og aðstæður í þjóðfélaginu hafa gerbreyst, ekki síst vegna mikils fjölda fólks með annað móðurmál en íslensku sem býr og starfar í flestum sveitarfélögum, sem og vegna fjölda ferðafólks. Þess vegna er margfalt brýnna nú en áður að sveitarfélögin móti málstefnu. Aðgerðaleysi í þeim málum ber vott um metnaðarleysi og virðingarleysi gagnvart íslenskunni – og gagnvart landslögum. En þetta snýst í raun ekki síst um íbúana og réttindi þeirra.

Posted on Færðu inn athugasemd

„Vörn fyrir veiru“

Meðan heimsfaraldur covid-19 gekk yfir á árunum 2020-2021 urðu til ýmis ný orð eins og kóviti, úrvinnslusóttkví, nándarmörk og mörg fleiri. Önnur orð sem höfðu verið lengi í málinu gengu í endurnýjun lífdaga – sum nánast óþekkt, eins og smitgát, smitrakning og fjarlægðarmörk, en önnur þekktari eins og orðið sóttkví sem var valið orð ársins 2020, bólusetning sem var valið orð ársins 2021, og mörg fleiri. Eitt síðarnefndu orðanna er veira. Elsta dæmi um orðið er í Orðabók Björns Halldórssonar frá 18. öld þar sem það er haft í merkingunni 'feyra, fúaskemmd' en að öðru leyti var það óþekkt í málinu þangað til Vilmundur Jónsson landlæknir stakk upp á því upp úr miðri 20. öld að taka það upp í staðinn fyrir tökuorðið vírus sem notað hafði verið í málinu um skeið.

Um þessa tillögu segir Vilmundur í greininni „Vörn fyrir veiru“: „Eftir nokkra íhugun komst ég að þeirri niðurstöðu, að helzt væri reynandi að smíða heitið með því að líkja frjálslega eftir hljómnum í hinu erlenda heiti, en sú orðmyndunaraðferð hefur fyrr og síðar gefið góða raun. Nægir að minna á forn orð eins og djákni, prestur, biskup og kirkja, sem öll eru þannig smíðuð, og slíkt hið sama tiltölulega ný orð eins og berklar, bíll, tékki og jeppi. […] [É]g hafnaði sem óíslenzkulegu hinu latneska sérhljóði í stofnatkvæði orðsins virus […]. Þótti mér nú sem valið stæði á milli orðanna væra og veira. Svo mjög sem ég hefði kosið hið fyrrnefnda orð vegna miklu nánari hljóðlíkingar, hafnaði ég því þó vegna lifandi sjúkdómsmerkingar þess, sem ég óttaðist, að valdið gæti ruglingi.“

Í greininni segir Vilmundur frá því að hann hafi hitt Halldór Halldórsson prófessor sem vann þá að söfnun og útgáfu nýyrða á vegum orðabókarnefndar Háskólans. Halldór hafði áður tekið hugmyndinni um veiru vel en hafði nú snúist hugur og sagði, að sögn Vilmundar: „Við ætlum að kalla það víru.“ Í framhaldinu segir Vilmundur: „Jafnharðan skildi ég, að hér mælti ekki maður af sjálfum sér, heldur sjálft páfavaldið í krafti stjórnskipaðrar nefndar, er fæst við að safna saman nýyrðum og gefa út í orðabókum á opinberan kostnað.“ Þarna snýst málið sem sé um ákveðið boðvald sem að mati Vilmundar er reynt að beita til að koma ákveðnu orði á framfæri. Hann bendir svo á að orðasmíð almennra málnotenda geti náð flugi án þess að boðvaldi sé beitt.

Í svari sínu til Vilmundar segir Halldór Halldórsson: „Landlæknirinn hefir það eftir málfræðingi sínum, að það sé tilgangslaust að ætla sér að breyta málinu. Ég get ekki skilið þessi orð á annan veg en þann, að ef einhver einstaklingur (t.d. landlæknir) eða einhver stofnun (t.d. orðabókarnefnd) tæki sér fyrir hendur að breyta einhverjum málsatriðum, t.d. orðum, þá væri sú tilraun dæmd til ósigurs. Þessi kenning er að vísu meira en hæpin, eins og hún er fram sett. Það mætti nefna mörg dæmi þess, að málsatriðum hefir verið breytt […].“ Halldór segir að ákveðið hafi verið „að taka upp í safnið orðið víra ásamt orðinu huldusýkill. Hins vegar hefði orðabókarnefnd ekki getað fallizt á að taka upp orðið veira.“ Hann rekur síðan ástæður nefndarinnar fyrir því að hafna veira en velja víra.

Orðið víra virðist eitthvað hafa verið notað fram yfir 1960 en er nú alveg horfið úr málinu, hvort sem grein Vilmundar drap það eða ekki. Boðvald orðabókarnefndar dugði ekki – orðið veira vann fullnaðarsigur. Ástæðan fyrir því að ég rek þetta hér eru þessi áhugaverðu skoðanaskipti um það hvort og þá hvernig hægt sé að breyta málinu – og hverjum sé gefið vald til þess. Vilmundur taldi ótækt – og vonlaust – að beita boðvaldi til þess en Halldór sá ekkert því til fyrirstöðu, þótt hann segði að vísu að það væri „miklu fyrirferðarmeiri þáttur í almennri þróun málsins, að það breytist en því sé breytt.“ En Vilmundur segir: „„Vitlaust mynduð“ orð eru ekki til önnur en þau, sem ekki er unnt að koma í munn þeim, sem þau eiga að mæla, né inn um eyru þeim, sem þau eiga að skilja.“

Posted on Færðu inn athugasemd

Er auðveldara að tala um tilfinningar á ensku en íslensku?

Í gær fór ég í langt viðtal hjá Gunnari Smára Egilssyni á Samstöðinni þar sem við ræddum um íslensku frá ýmsum hliðum – kynhlutlaust mál, íslensku sem annað mál, íslenskukennslu innflytjenda, íslensku í ferðaþjónustunni, íslenska málstefnu, íslenskan málstaðal, stöðu íslensku hjá unglingum, framtíðarhorfur íslenskunnar og fleira. Allt eru þetta efni sem ég hef margsinnis skrifað um og endurtek ekki hér, en eitt atriði kom þó upp sem ég hef ekki hugsað um áður. Það hefur oft verið nefnt að íslensk börn og unglingar tali stundum saman á ensku. Það hefur oftast verið talið að þetta gerist helst þegar börnin og unglingarnir eru að setja sig í sérstakar stellingar og tengt við leiki, ekki síst tölvuleiki. En kannski hangir fleira á spýtunni.

Gunnar Smári nefndi að hann hefði orðið var við að þegar unglingar þyrftu að segja eitthvað mikilvægt – eitthvað sem væri ígrundað, sem tengdist tilfinningum þeirra – skiptu þau iðulega yfir í ensku. Þegar ég fer að hugsa um það finnst mér það ekkert ótrúlegt. Kannski höfum við nefnilega vanrækt að kenna unglingunum að tala um sín hjartans mál á íslensku. Kannski höfum við vanrækt það vegna þess að við kunnum það ekki sjálf. Til skamms tíma voru ýmis mál sem tengjast tilfinningum hreinlega ekki rædd á Íslandi. Þau eru hins vegar iðulega rædd í erlendum bíómyndum eða öðru efni sem unglingarnir horfa á og þess vegna finnst þeim eðlilegt og þægilegt að grípa til enskunnar – þar finna þau fyrirmyndir sem þau geta notað.

Í nýlegum rannsóknum hefur komið fram að framhaldsskólanemar tengja íslensku gjarna við skyldu, leiðréttingar, orðflokkagreiningu o.þ.h. en enska tengist aftur á móti fremur afþreyingu, ferðalögum og skemmtun í huga þeirra. Kannski hefur afstaða samfélagsins og skólakerfisins til íslenskunnar því þau áhrif á unglinga að þeim finnst hún fjarlæg og vandmeðfarin – þeim finnst þau ekki eiga hlut í henni og eiga þess vegna erfitt með að nota hana til að ræða um eitthvað sem stendur þeim sjálfum nærri. En svo getur líka verið að ástæðan sé þveröfug – að unglingarnir noti ensku til að hleypa öðrum ekki of nálægt sér. Er sagt I love you frekar en ég elska þig vegna þess að það tjái tilfinninguna betur, eða vegna þess að það sé ábyrgðarlausara?

Hver sem ástæðan er finnst mér það mjög athyglisvert ef unglingar tala oft um tilfinningar og önnur viðkvæm mál á ensku. Forsendan fyrir því að íslenskan eigi sér framtíð er að unga kynslóðin noti hana á öllum sviðum samfélagsins, ekki síst í umræðu af þessu tagi. Ef unglingum finnst þau ekki geta notað íslenskuna til náinna og alvarlegra samræðna um viðkvæm persónuleg mál bendir það til þess að þau kunni ekki nægilega vel á hana eða tengi sig ekki nægilega við hana, og þá er hætt við að þau missi trú á málinu til annarra nota líka. Auðvitað veit ég ekki hvort það ástand sem Gunnar Smári lýsti er algengt, en mér finnst þetta allavega umhugsunarefni. Þjálfum börnin okkar í að tala um tilfinningar sínar – á íslensku.

Posted on Færðu inn athugasemd

Endurmenntun fyrir öll

Um daginn varð nokkur umræða á netinu um setningu í auglýsingu frá Endurmenntun Háskóla Íslands: „Endurmenntun er fyrir öll.“ Mörgum fannst þetta mjög óeðlilegt og vildu heldur hafa Endurmenntun er fyrir alla – nota karlkyn óákveðna fornafnsins en ekki hvorugkyn. Það er ekki óeðlilegt – karlkynið hefur alla tíð verið notað á þennan hátt í íslensku, í tilvísun til óskilgreinds hóps án tillits til kyns þeirra sem í hópnum eru. Við erum flest eða öll alin upp við þessa notkun karlkynsins og umrædd setning brýtur því gegn máltilfinningu margra, væntanlega mikils hluta málhafa. Það er mjög skiljanlegt og ég geri enga athugasemd við það – máltilfinningin er eitthvað sem við eigum fyrir okkur sjálf og eigum að gjalda varhug við afskiptum af henni.

Það er hins vegar ástæða til að gera athugasemdir við þau rök sem oft sjást fyrir því að þarna eigi að vera karlkyn. Oft er nefnilega spurt „öll hver?“ og gefið í skyn, eða sagt berum orðum, að þarna verði að vera eitthvert ósagt karlkynsorð undirliggjandi – það þurfi að vera hægt að hugsa sér eitthvert nafnorð sem geti komið á eftir óákveðna fornafninu. Oftast er orðið maður þá nefnt – það sé hægt að segja fyrir alla menn. En eins og ég hef áður skrifað um er það misskilningur að óákveðin fornöfn þurfi alltaf að styðjast við nafnorð, sögð eða ósögð. Þau geta staðið sjálfstæð, gera það oft, og dæmi eru um að amast sé við nafnorði með þeim: „Hvorugkyn eintölu eitthvað stendur sjálfstætt en eitthvert stendur með nafnorði“ segir Málfarsbankinn.

Látum samt svo vera að það þurfi að vera hægt að hugsa sér nafnorð sem geti staðið með fornafninu. Þá er samt ljóst að í dæminu frá Endurmenntun getur það varla verið maður því að Endurmenntun fyrir alla menn hljómar mjög óeðlilega. Það skánar ef lýsingarorði er bætt inn – Endurmenntun fyrir alla áhugasama menn – en er samt undarlegt. Það má reyna önnur nafnorð en mér hefur ekki tekist að finna neitt sem eigi vel við. Látum samt svo að þetta gangi, en gerum þá tilraun með hvorugkynið. Þar er vissulega erfitt að finna orð sem gæti átt við öll, en hins vegar er hægt að nota eintölu, segja Endurmenntun fyrir allt áhugasamt fólk Endurmenntun fyrir allt fólk, án lýsingarorðsins, hljómar óeðlilega eins og Endurmenntun fyrir alla menn.

En ef ósagt karlkynsorð er notað sem réttlæting fyrir því að nota karlkyn í Endurmenntun fyrir alla þá væri eins hægt að nota hugsanlega en ósagða hvorugkynsorðið fólk sem réttlætingu fyrir því að segja t.d. Endurmenntun fyrir allt áhugasamt. Auðvitað er ég ekki að leggja til að slíkar setningar verði viðurkenndar. Ég er bara að benda á að það er ástæðulaust að hugsa sér ósagt karlkynsorð í fyrir alla. Það þarf ekki önnur rök fyrir karlkyninu en þau að þannig sé íslenskan og hafi alltaf verið, og frávik frá því séu í andstöðu við málkennd alls þorra fólks. Það eru gild og þungvæg rök sem engin ástæða er til að gera lítið úr eða líta fram hjá. En það breytir því ekki að önnur rök geta verið fyrir breytingu – rök sem sumum kunna að þykja vega þyngra.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að klessa á

Í dag var hér spurt um notkun sagnarinnar klessa í sambandi við árekstra. Þessi sögn og samhljóða nafnorð hafa lengi verið notuð um það að skemma bíla við akstur. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sambandið keyra bílinn í klessu skýrt 'eyðileggja bílinn í árekstri' en sögnin klessa er m.a. skýrð 'keyra (bíl) þannig að sýnileg skemmd hljótist af'. Í Íslenskri orðabók er sögnin skýrð á svipaðan hátt en bætt við annarri merkingu – 'ónýta bíl við árekstur, klessukeyra'. Þessi skýring er merkt „gam.“ sem merkir „gamallegt mál eða gamaldags, þó ekki horfið úr nútímamáli“. Samkvæmt þessu mætti ætla að sögnin hafi áður vísað til eyðileggingar en vísi nú til skemmda. Erfitt er þó að átta sig á merkingunni í einstökum dæmum.

Elsta dæmi sem ég finn um nafnorðið klessa í þessari merkingu er í Þjóðviljanum 1945: „Það er þá ekki hundrað í hættunni, þó hann keyri í klessu.“ Í Vikunni 1946 segir í myndatexta: „Bíllinn sá arna ók á staur og fór í klessu.“ Í sögninni klessa virðist þessi merking aðeins yngri. Í Vísi 1950 segir: „Það er þó skárra, að þrengja svolítið að fótgangandi fólki á stéttunum, en eiga á hættu, að einhver klaufi „klessi“ bílinn, meðan maður víkur sér frá.“ Þarna er klessa innan gæsalappa sem bendir til þess að þarna sé um að ræða nýjung sem ekki sé fyllilega viðurkennd. Einnig er til sögnin klessukeyra sem áður var nefnd. Elsta dæmi um hana er í Þjóðviljanum 1960: „Verst er, ef frúin er ekki góður ökumaður og álpast til að klessukeyra bílinn.“

Nafnorðið klessa er skýrt 'lítil, klísturkennd þúst' í Íslenskri nútímamálsorðabók en 'sletta' eða 'ólöguleg hrúga' í Íslenskri orðabók, og notkunardæmi við síðarnefndu merkinguna er bíllinn fór í klessu við áreksturinn. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að orðið klessa sé notað um bíl sem aflagast verulega og eyðileggst, og hliðstæð merking sagnarinnar klessa er svo líklega leidd af þessari notkun nafnorðins frekar en af öðrum merkingum sagnarinnar. Slík afleiðsla rímar líka við það að þessi merking virðist vera eitthvað yngri í sögninni en í nafnorðinu eins og áður segir. Lýsingarorðið klesstur er einnig notað í þessari merkingu: „Fordbifreiðin var mikið klesst hægra megin að framan“ segir í Morgunblaðinu 1960. En svo bættist við sambandið klessa á.

Elsta dæmi sem ég finn um það er í Morgunblaðinu 1972: „En munurinn er bara sá, að þegar þessi stóru börn, sem kallast ökumenn „klessa“ á, þá eru þeir ekki eins borubrattir og þegar þeir ösla vegina á 100.“ Þarna er klessa innan gæsalappa sem bendir til þess að þetta sé nýjung. Í spurningaleik í Vikunni 1981 er spurningin: „Þegar talað er um að „klessa á“ er í nútímamáli átt við:“ og svarmöguleikarnir eru „Árekstur“, „Kökuboð“ og „Faðmlög“. Þarna er augljóslega ekki gert ráð fyrir því að sambandið sé á allra vörum. En tíðnin jókst upp úr þessu, einkum eftir aldamót, og í Risamálheildinni eru um 2500 dæmi um það. Oftast er það notað um bíla, en einnig um fólk – „Stína tók ekki eftir pabba sínum og hún klessti á hann“ segir í DV 1988.

Það er nokkuð ljóst að sambandið klessa á er orðið til fyrir áhrif frá öðrum samböndum svipaðrar merkingar – aka á, keyra á og rekast á. Sambandið er merkt „óforml.“ í Íslenskri orðabók og hugnast ekki öllum. Þannig segir í DV 1987: „Nú er ég málverndunarmaður í mér og sl. mánudag var í blaðinu talað um að bílar klessi á vegg einn í Eyjum. Það er hægt tala um að klessa málningu á vegg en bílar aka á og við það fara þeir í klessu. Þetta er hvimleitt orðatiltæki og vildi ég einungis benda á að þetta hefði mátt fara betur.“ Þetta er auðvitað smekksatriði en því fer fjarri að sambandið klessa á sé að útrýma öðrum samböndum sömu merkingar. Það hefur fyrir löngu unnið sér hefð – auðgar íslenskuna og hlýtur að teljast rétt mál.

Posted on Færðu inn athugasemd

Byltitækni, byltinýjung – breytitækni, breytinýjung

Í morgun fékk ég fyrirspurn um það hvort til væri einhver viðurkennd íslensk þýðing á því sem kallast disruptive technology á ensku. Ég varð að viðurkenna að ég væri ekki alveg með það á hreinu hvað átt væri við með þessu og þurfti því að kynna mér málið. Í ljós kom að þetta er hugtak sem kom fram í grein árið 1995 og vísar til tilkomu nýrrar tækni sem er gerólík því sem áður var og gerbreytir markaðnum og/eða lífsháttum fólks. („Disruptive technology is an innovation that significantly alters the way that consumers, industries, or businesses operate.“) Annað samband sem notað er um þetta á ensku er disruptive innovation. Sem dæmi um þetta má t.d. nefna hjólið, ljósaperan, netið og farsíminn.

Þegar framfarir verða án þess að um byltingu í aðferðum eða tækni sé að ræða er talað um sustaining innovation eða sustaining technology. Það er t.d. þegar ný kynslóð af snjallsímum kemur fram, þegar ný útfærsla af tiltekinni bílategund er sett á markað, o.s.frv. („Sustaining innovation occurs when a company creates better-performing products to sell for higher profits to its best customers.“) Vissulega getur oft verið álitamál í hvorn flokkinn tiltekin nýjung falli og ekki ólíklegt að framleiðendur hafi tilhneigingu til að telja sínar nýjungar disruptive. En stundum geta þrep sem virðast vera liður í sömu þróun tilheyrt ólíkum flokkum – þannig er breytingin úr 3G í 4G talin hafa verið sustaining, en breytingin úr 4G í 5G disruptive.

Ég legg til að disruptive technology verði kallað byltitækni á íslensku, og disruptive innovation þá byltinýjung. Fyrri hlutinn bylti- tengir orðin augljóslega við byltingu sem er merkingarlega eðlilegt vegna þess að umrædd tækninýjung veldur gerbyltingu. Þessi orðhluti er sjaldgæfur í samsetningum en kemur þó fyrir í orðunum byltiafl (í jarðfræði) og byltiflokkar (í upplýsingafræði). Þarna er rótin bylt- en -i- er tengihljóð. Aftur á móti mætti nota breytitækni um sustaining technology og breytinýjung þá um sustaining innovation. Að vísu er venja að þýða sustainable sem sjálfbær á íslensku en það finnst mér ekki eiga við hér. Samsetningin er hliðstæð við hin orðin, en fyrri hlutinn breyti- er algengur í samsetningum.

Posted on Færðu inn athugasemd

Athugasemd sem skilar (vonandi) árangri

Í gær skruppum við til Akureyrar, aðallega til að fara á Listasafnið og sjá hina stórkostlegu sýningu Ragnars Kjartanssonar, „Visitors“, sem við sáum fyrr í sumar en fannst ástæða til að sjá aftur – það er mannbætandi. Í leiðinni litum við inn á nokkrar aðrar ágætar sýningar í safninu. Þetta var sem sé mjög ánægjuleg heimsókn, þangað til á leiðinni út þegar mér varð litið á matseðil uppi á vegg í afgreiðslunni. Hann er nefnilega eingöngu á ensku. Nú þykist ég vita að margir útlendingar komi á safnið en ég á bágt með að trúa öðru en Íslendingar séu líka fjölmennir í hópi gesta. Þess vegna er alveg óboðlegt og raunar óskiljanlegt að hafa matseðilinn eingöngu á ensku, sérstaklega í afgreiðslu opinberrar stofnunar.

Það er sjálfsagt að geta þess að prentaðir matseðlar sem liggja frammi eru bæði á íslensku og ensku, og enn fremur verður að nefna að kaffihúsið er einkarekið en ekki á vegum Listasafnsins sjálfs. En það gildir einu í þessu samhengi – enski matseðillinn er áberandi í afgreiðslunni sem vitanlega er andlit safnsins. Ég skrifaði þess vegna safnstjóranum um þetta í morgun og bað hann að beita sér fyrir því að þessu yrði breytt. Hann svaraði umsvifalaust og sagði „ég skal biðja þau um að kippa þessu í liðinn“. Þetta eru lofsverð vinnubrögð og enn eitt dæmi um að það skilar árangri að gera athugasemdir við óþarfa og óæskilega enskunotkun. Nú bið ég Akureyringa og aðra safngesti að fylgjast með því hvort þessu verður ekki breytt á næstunni.