Category: „Málvillur“

Að sigra leikinn

Í Málfarsbankanum segir: „Talað er um að sigra andstæðing og sigra í leik en ekki „sigra leik“. Hins vegar er talað um að vinna leik.“ Ástæðan fyrir því að það er tekið sérstaklega fram að ekki eigi að tala um að sigra leik er auðvitað sú að það tíðkast í málinu – annars væri ástæðulaust að vara við því. Okkur hefur samt verið kennt hvernig þetta eigi að vera – eða reynt að kenna, þótt deila megi um árangurinn. En þótt þarna sé mælt með því að segja sigra í leik virðist sambandið sigra í einhverjuleik / keppni / baráttu / orustu / kosningum o.s.frv. – ekki vera ýkja gamalt.

Ég finn engin dæmi um þessi sambönd í fornu máli, og raunar er elsta dæmið sem ég hef rekist á í Nýjum félagsritum 1872, þar sem segir: „en það er einnig ánægjulegt að vita, að Íslendíngar eru farnir að vinna sigur á stundum, og að heyra, hversu heppilega tókst að sigra í þessari orustu.“ Elsta dæmi um sigra í kosningum er frá 1901, það elsta um sigra í leik frá 1927, og um sigra í keppni frá 1934. Elstu dæmi um að sigra taki andlag í þessari merkingu eru ekki mikið yngri. Það elsta um sigra kosningar er frá 1919, um sigra keppni frá 1945, og sigra leik frá 1946.

Þegar leitað er að þessum samböndum á tímarit.is kemur í ljóst að talsvert er um sigra X þótt dæmin um sigra í X séu vissulega margfalt fleiri. Þannig er hlutfallið milli sigra leikinn og sigra í leiknum u.þ.b. 1:8, milli sigra keppnina og sigra í keppninni rúmlega 1:7, og milli sigra kosningarnar og sigra í kosningunum 1:16. Alls eru um 600 dæmi um sigra með þessum þremur andlögum. Það er athyglisvert vegna þess að textar á tímarit.is eru yfirleitt prófarkalesnir, og þar eð þessi sambönd hafa verið talin rangt mál hefði mátt búast við að þeim hefði verið breytt.

Allt önnur mynd blasir við þegar þessi sambönd eru skoðuð í Risamálheildinni, sem hefur að geyma 1,64 milljarða orða úr fjölbreyttum textum, flestum frá síðustu áratugum. Þar eru 786 dæmi um sigra leikinn en 247 um sigra í leiknum, 500 um sigra keppnina en 697 um sigra í keppninni, og 119 um sigra kosningarnar en 467 um sigra í kosningunum. Samtals eru því nánast nákvæmlega jafnmörg dæmi um þessi sambönd með andlagi (1405) og með forsetningarlið (1411). Munurinn á kosningum og hinum tveimur andlögunum er athyglisverður og sýnir að notkun sigra með andlagi er langalgengust í íþróttamáli.

Þótt ekki sé viðurkennt að tala um að sigra leik tekur sögnin sigra andlag þegar rætt er um að sigra andstæðing og er nánast samheiti við sögnina vinna, sem tekur andlag hvort sem rætt er um að vinna andstæðing eða vinna leik eins og fram kemur í tilvitnuninni í Málfarsbankann hér að framan. Vegna þessara líkinda sagnanna er auðvitað ekkert undarlegt að fólk hafi tilhneigingu til að yfirfæra hegðun vinna á sigra og nota andlag með sigra í þessum samböndum. En er einhver ástæða til að amast við því?

Eins og áður segir koma sambönd eins og sigra í X ekki fyrir í fornu máli og eru í raun litlu eldri en sigra X og sá aldursmunur dugir varla til að útskúfa þeim síðarnefndu – það var ekki komin löng hefð á sigra í X þegar sigra X kom upp. Það er líka ljóst af dæmafjöldanum af tímarit.is og sérstaklega úr Risamálheildinni að notkun sambandanna sigra X er mjög útbreidd. Rétt er að hafa í huga að hlutfall dæma um afbrigði sem talin eru röng er nánast örugglega mun lægra í prentuðum textum en í daglegu máli.

Það er sem sé enginn vafi á því að sigra leikinn er málvenja verulegs hluta málnotenda. Miðað við hina viðurkenndu skilgreiningu á réttu máli og röngu, „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju“, er þetta án nokkurs vafa rétt mál. Mér er ómögulegt að sjá rökin fyrir því að bæði vinna andstæðinginn og vinna leikinn sé gott og gilt, en aðeins sigra andstæðinginn, ekki sigra leikinn.

Einu rökin sem hægt væri að færa fram gegn sigra leikinn eru þau sem ég hef stundum vísað til: „Þetta er rangt af því að það hefur verið kennt svo lengi að það sé rangt.“ Ég sé samt ekki að það sé í þágu málræktar að berja hausnum við steininn með þetta og held því fram að sigra leikinn sé ótvírætt rétt íslenska.

 

Göngum yfir brúnna

­Iðulega eru gerðar athugasemdir við breyttan framburð orð­mynda eins og ána, brúna, frúna, klóna, kúna, slána, spána, tána, þrána (þolfall eintölu með greini af á/ær, brú, frú, kló, kýr, slá, spá, , þrá), skóna (þolfall fleirtölu með greini af skór) og fleiri orðmynda með n á eftir á, ó eða ú. Þessar orðmyndir eru oft bornar fram með stuttu sér­hljóði í stað langs, eins og n-ið væri tvíritað – sagt fara yfir ánna, hlusta á spánna, missa trúnna, fara í skónna o.s.frv. Stundum er því haldið fram að þetta sé nýleg brey­­ting en svo er ekki.

Elsta dæmið sem ég hef fundið á tímarit.is og bendir til þessa framburðar er úr Vikunni 1930: „Sérstaklega eru það búðarlokur og aðrir uppskafningar, sem móttæki­leg­ast­ir eru fyrir trúnna á íhaldið“ og í Verkamanninum 1939 segir „Heill hópur kvenna tók trúnna hjá Jesús.“ Slæð­ing­ur af dæmum er frá fimmta áratugnum; í Morgunblaðinu 1944 stendur „var ekki hægt að ferja mjólk yfir ánna í gær“, í Þjóðviljanum 1947 segir „En þótt menn hafi yfir­leitt verið ánægðir með útvarps­dag­skránna 1. maí“, og í Morg­un­blaðinu 1948 „Við brúnna tók á móti honum fyrsti stýrimaður“. Eftir þetta fer dæmum smátt og smátt fjölgandi og sam­bæri­legar myndir af fleiri orðum koma fram.

Myndirnar á tímarit.is verða samt aldrei mjög margar, enda eru flest­ir textar þar væntanlega prófarkalesnir. Í ljósi þess hversu mörg dæmi hafa þó sloppið gegnum sí­una má ætla að sá fram­burður sem þessi ritháttur ber vott um sé a.m.k. hátt í hundrað ára gamall og hafi lengi verið nokkuð út­breidd­ur. Fjöldi dæma á netinu um flestar áður­nefndra ritmynda bendir líka til verulegrar útbreiðslu fram­burðarins. Þessi framburður hefur líka lengi verið til um­ræðu í málfarsþáttum, t.d. nokkrum sinnum hjá Gísla Jóns­syni í Morgunblaðinu, og það er því ljóst að hann hef­ur verið vel þekktur um áratuga skeið.

Þótt ég geti ekki fullyrt neitt um hvað valdi þessari breyt­ingu má nefna tvennt sem gæti skipt máli. Annars veg­ar eru áhrif frá þágufallinu – í kvenkynsorðunum er þar allt­af stutt sérhljóð (ánni, brúnni, frúnni, klónni, kúnni, slánni, spánni, tánni, þránni). Þótt ólíklegra sé mætti einn­ig hugsa sér áhrif frá eignarfalli fleirtölu, en þol­falls­mynd­irnar falla saman við það í framburði ef sér­hljóðið stytt­ist. Í þolfallsmyndinni skónna er ekki um að ræða áhrif frá þágufallinu skónum, því að þar er langt sérhljóð, en hugsanlega frá eignarfalli fleirtölu skónna.

Hitt atriðið er hljóðfræðilegs eðlis. Það er þekkt í mál­sög­unni að samhljóð í endingu lengdist á eftir sérhljóðunum á, ó og ú. Venjuleg hvorugkynsending lýsingarorða er -t, eins og í stór-t, væn-t, gul-t, tóm-t; en t-ið tvöfaldast (og verð­ur aðblásið) í há-tt, mjó-tt, trú-tt. Einnig hefur -r lengst við svipaðar aðstæður í beygingu lýsingarorða; við fáum há-rri en ekki hári, mjó-rri en ekki mjóri, trú-rri en ekki trúri. Þetta eru að vísu ævafornar breytingar en þó er freistandi að spyrja hvort framburðarbreytingu þeirra orða sem hér um ræðir megi hugsanlega rekja til hlið­stæðra áhrifa þessara sömu hljóða.

Það má vissulega hafa það á móti þessari breytingu að hún rjúfi tengslin milli lauss og við­skeytts greinis. Í þeim lausa er langt sérhljóð og eitt n í þol­falli eintölu kvenkyns og þolfalli fleirtölu karlkyns – mynd­in er hina í báðum tilvikum. En þótt viðskeyttur greinir sé vissulega kominn af lausum greini sögulega séð eru beygingar­leg­ir og setn­inga­fræðilegir eiginleikar þessara tveggja teg­unda greinis ólíkir á ýmsan hátt, og ekkert sem kallar á að framburð­urinn sé sá sami. Þessi framburðarbreyting kallar ekki á breyt­ingu á stafsetningu, og eftir sem áður er hægt að vísa til lausa greinisins um fjölda n-a sem skuli skrifa í þeim viðskeytta.

Mörgum finnst umræddar myndir ljótar – sem er nokkuð sérkennilegt í ljósi þess að allt eru þetta framburðar­mynd­ir sem eru viðurkenndar í málinu, bara sem aðrar beyg­ing­­ar­­myndir en hér er um að ræða. En flest kunnum við best við málið eins og við lærðum það – eða eins og við lærðum að það ætti að vera – og ömumst þess vegna við breytingum sem okkur finnst óþarfar. Það er fullkomlega eðlileg tilfinning, en í ljósi þess að þessi framburður á sér aldarlanga sögu, er mjög út­breidd­ur, er hliðstæður breyt­ing­um sem áður hafa orðið í málinu og eru fullkomlega viður­kenndar, og veldur eng­um ruglingi, þá tel ég hann engin málspjöll.

Smit

Fyrr í sumar var haft samband við mig frá fjölmiðli nokkrum þar sem hafði orðið ágreiningur á ritstjórninni um meðferð orðsins smit sem hefur heyrst æði oft undanfarið ár. Prófarkalesarar höfðu leiðrétt setninguna „Fjöldi smita er kominn yfir hundrað“ og sagt að hana yrði að umorða, vegna þess að smit væri ekki til í fleirtölu. Það er vissulega rétt að samkvæmt orðabókum er þetta eintöluorð, og Beygingarlýsing íslensks nútímamáls gaf til skamms tíma enga fleirtölubeygingu, þótt hún sé komin inn núna. Á tímarit.is má þó finna dæmi um fleirtölu orðsins frá síðustu áratugum, en þau eru örfá.

Hér er samt ekki allt sem sýnist. Í orðabókum er merking orðsins sögð vera 'það þegar sjúkdómur (sýklar) berst frá einum einstaklingi til annars'. En í fréttum síðustu mánaða er mjög algengt að sagt sé að smitum hafi fjölgað, tvö smit hafi greinst í gær o.s.frv. Þarna hefur orðið greinilega fengið nýja merkingu, vissulega mjög skylda hinni upprunalegu. En í stað þess að það vísi til ferlisins, eins og orðabókarskilgreiningarnar gera, vísar það nú til útkomunnar úr ferlinu. Þar með verður ekkert óeðlilegt að nota það í fleirtölu og tala um mörg smit.

Annað svipað dæmi er orðið þjónusta sem til skamms tíma var oftast haft í eintölu en nú sést oft í fleirtölu. Fleirtalan þjónustur er þó til þegar í fornu máli – „Hann skipaði mönnum í þjónustur“ stendur í Heimskringlu. Í Norðra 1910 segir að eitt af hlutverkum ráðherra Íslands sé „að setja menn í hinar ýmsu þjónustur er varða ábyrgð fyrir almenningi“. Í hagskýrslum hefur liðinn „ýmsar þjónustur“ verið að finna í meira en 40 ár. Svo eru það auðvitað guðsþjónustur sem lengi verið notaðar í fleirtölu.

Nú býður fjöldi fyrirtækja ýmsar þjónustur. Í Málfarsbankanum segir: „Ekki er mælt með því að tala um þjónustu í fleirtölu (nema í þeirri fornu merkingu: þjónustustúlka). Í stað þess að segja „margar þjónustur“ er t.a.m. hægt að nota: margs konar þjónusta, ýmis þjónusta.“ En þetta gengur ekki alltaf. Merking orðsins hefur nefnilega víkkað dálítið þannig að í stað almennrar merkingar er það látið vísa til tiltekinnar skilgreindrar þjónustu sem veitt er (og seld sérstaklega) – símaþjónusta, vefþjónusta, póstþjónusta o.s.frv. Þá er eðlilegt að auglýsa ýmsar þjónustur í boðiýmiss konar þjónusta í boði er miklu óljósara og fleirtalan þjónustur liggur beint við enda á hún sér langa hefð.

Málið snýst sem sé ekki um það hvort fleirtölumyndirnar smit og þjónustur séu til – það eru þær augljóslega, og málfræðilega er ekkert við þær að athuga. Þær fela hins vegar í sér merkingarvíkkun orðanna sem um er að ræða. Það er svo smekksatriði hvort fólk fellir sig við þessa merkingarvíkkun og því verður hver að svara fyrir sig. En það má benda á að fjölmörg hliðstæð dæmi eru til í málinu – sum almennt viðurkennd, önnur ekki. Og sum slík tilvik sem áður var amast við þykja núna góð og gild.

Til skamms tíma börðust umvandarar t.d. harkalega gegn fleirtölunni keppnir og sögðu að keppni væri aðeins til í eintölu og merkti 'kapp' – eins og orðið gerir t.d. í setningunni það var alltaf mikil keppni á milli systkinanna. En við þessa óhlutstæðu merkingu hefur bæst merkingin 'kappleikur', eins og t.d. í systkinin háðu margar keppnir. Þessi merkingarvíkkun er a.m.k. 90 ára gömul. Nú hef ég ekki séð amast við fleirtölunni keppnir í 15-20 ár og dreg þá ályktun af því að flestir séu búnir að taka hana í sátt – Málfarsbankinn segir „Fleirtalan keppnir á aðeins við þegar talað er um kappleiki eða mót en ekki þegar orðið merkir: kapp“. Önnur svipuð dæmi eru sultur og krydd. Það kemur í ljós hvernig fer með smit og þjónustur.

Annars skrifaði Höskuldur Þráinsson prófessor einu sinni ágæta smágrein um þetta efni og er rétt að vísa á hana hér.

Til Selfossar

Ég hef iðulega séð gerðar athugasemdir við að talað sé um að fara til Selfossar eins og stundum heyrist. Það er engin furða – orðið foss hefur fram undir þetta verið endingarlaust í eignarfalli, (til) foss, og sama gildir um samsetningar af því, þar á meðal (til) Selfoss. Okkur finnst eðlilegt og sjálfsagt að orð beygist á þann hátt sem við höfum vanist, og kippumst því við þegar við heyrum brugðið út af hefðbundinni beygingu. Það er vissulega æskilegt að viðhalda málhefð um beygingu orða en þó er rétt að hafa í huga að þessi breyting er fjarri því að vera einsdæmi.

Beyging fjölmargra orða hefur breyst frá fornu máli til nútímans, án þess að það hafi raskað málkerfinu eða valdið alvarlegu rofi á málhefð. Aðalatriðið er að orðin hætti ekki að beygjast, þótt þau færist milli beygingaflokka. Því er ekki til að dreifa í þessu tilviki – -ar er dæmigerð eignarfallsending sterkra karlkynsorða þótt -s sé enn algengari. En þessi breyting er reyndar áhugaverðari en margar aðrar. Orðið foss er nefnilega nokkuð sérstakt vegna þess að það er endingarlaust í eignarfalli eins og áður segir. Þetta er vissulega ekki einsdæmi en meginreglan er þó að nafnorð hafi sérstaka eignarfallsendingu.

Í karlkynsorðum eru það bara orð sem enda á löngu (tvöföldu) ss eins og foss, sess, rass o.fl., svo og orð sem enda á samhljóði + s eins og dans, háls, þurs, snafs o.fl. sem eru án endingar í eignarfalli eintölu. Þetta endingarleysi á sér langa sögu og má skýra með ævagamalli hljóðþróun. En það getur leitt til þess að sumum málnotendum finnist vanta þarna einhverja endingu – fái það á tilfinninguna að orðin séu ekki beygð, og hyllist þess vegna til þess að bæta eignarfallsendingu við þau, þótt ekki sé hefð fyrir henni.

Þetta er það sem gerist þegar fólk segir til Selfossar í stað til Selfoss – og svipuðu máli gildir um önnur staðanöfn sem enda á -s, t.d. Ölfus og Akranes. Þau bæta vissulega við sig -s í eignarfalli í rituðu máli, Ölfuss og Akraness. En í framburði er sjaldnast lengdarmunur á einföldu og tvöföldu samhljóði í áherslulausu atkvæði eins og þarna. Ölfuss er því venjulega borið fram nákvæmlega eins og Ölfus, og Akraness er venjulega borið fram nákvæmlega eins og Akranes. Þess vegna finnst málnotendum – sumum hverjum a.m.k. – vanta eignarfallsendingu á þessi orð líka, og myndirnar til Akranesar og til Ölfusar heyrast oft.

Það er vissulega hægt að hafna þessari beygingu á þeirri forsendu að engin hefð sé fyrir henni. En það er líka hægt að taka henni fagnandi vegna þess að hún sýnir að málnotendur hafa sterka tilfinningu fyrir því að eignarfall eigi að fá endingu, og setja þess vegna endingu þar sem þeim finnst hana vanta. Breyting af þessu tagi sýnir því styrk beygingarkerfisins – meðan breytingar af þessu tagi koma upp er kerfinu óhætt, og það er meginatriðið. Ef eignarfall umræddra orða hefði verið Selfossar, Akranesar og Ölfusar en væri að breytast í Selfoss, Akranes(s) og Ölfus(s) væri hins vegar fremur ástæða til að hafa áhyggjur af kerfinu.

Ef ég ætti barn á máltökuskeiði sem segði til Selfossar / Akranesar /Ölfusar myndi ég leiðrétta það (sem sennilega kæmi fyrir lítið). Ef ég væri prófarkalesari og rækist á þessar myndir myndi ég breyta þeim í Selfoss / Akraness / Ölfuss í samræmi við hefð. Ef ég væri kennari myndi ég gera athugasemdir við þessar myndir í ritgerðum nemenda og reyna að skýra þær út eins og gert er hér að framan, en ég myndi aldrei gefa rangt fyrir þær á prófi – og dytti raunar aldrei í hug að prófa í þeim. En ef ég væri almennur málnotandi sem hefði vanist á að segja til Selfossar / Akranesar / Ölfusar myndi ég líklega bara halda því áfram.

Að og af

Forsetningarnar og af eru oft notaðar í sömu sam­bönd­um þótt önnur þyki venjulega „réttari“ en hin. Í Málfars­bank­an­um er löng upptalning á samböndum þar sem talið er rétt að nota , og önnur samsvarandi fyrir af. Þessi dæma­fjöldi sýnir glöggt að tilfinning málnotenda fyrir því hvora for­setn­inguna „eigi“ að nota er iðulega á reiki. Þótt ég sé í flest­um tilvikum vanur að nota þá forsetningu sem er talin „rétt“ átta ég mig ekki á því hvort ég er alltaf alinn upp við þá notkun eða hef tileinkað mér hana í skóla.

Framburðarmunur og af er sáralítill og oft enginn í eðli­legu tali. Önghljóðin ð og f (v) eru venjulega frekar veik í enda orða — sérstaklega áherslulítilla orða eins og for­setn­inga. Það er því mjög algengt að báðar for­setn­ing­arn­ar verði bara sérhljóðið a í framburði og þess vegna tök­um við örugglega sjaldnast eftir því þótt sagt sé þar sem við ættum von á af og öfugt. En í rituðu máli kemur mun­urinn vitanlega fram. Þegar framburðar­mun­ur­inn er svona lítill verður að reiða sig á merkingu til að velja milli for­setn­inganna — eða hreinlega læra í hvaða sam­böndum hvor á að vera.

Grunnmerking er ʻí áttina tilʼ en grunnmerking af er ʻfrá, burtʼ samkvæmt Íslenskri orðsifjabók. Þar sem þessi grunn­merk­ing er skýr verður þess ekki vart að forsetningunum sé blandað saman — það er aldrei sagt *ég gekk í átt af húsinu eða *ég tók bókina að honum svo að ég viti. En þegar ekki ligg­ur í aug­um uppi að önnur hvor þessi grunnmerking eigi við má búast við víxl­um, þannig að af sé notað þar sem hefð er fyrir , og öfugt. Þarna er mál­tilfinning fólks oft mismunandi. Sumum finnst t.d. augljóst að það sé leitað að einhverju vegna þess að við leitina sé verið að reyna að komast ʻí áttina tilʼ þess sem leitað er. En fjöldi dæma um leita af sýnir að því fer fjarri að allir málnotendur skynji þessa merkingu í í þessu sam­bandi.

Ef dæmum Málfarsbankans er flett upp á tímarit.is sést að víxlin má í mörgum tilvikum rekja aftur til 19. aldar. Í sumum til­vik­um er „ranga“ notkunin eldri og/eða algeng­ari en sú „rétta“. Þannig eru hátt í helmingi fleiri dæmi um ríkur af en hið „rétta“ ríkur að, og elsta dæmið um af er þremur ára­tugum eldra en elsta dæmið um . Heldur fleiri dæmi eru um auðugur af en hið „rétta“ auðugur að, og einnig heldur fleiri dæmi um snauður af en hið „rétta“ snauður að. Ýmis fleiri dæmi mætti nefna.

Eitt af því sem ýtir undir þessi víxl er það að stundum „á“ að nota mismunandi forsetningu með sama nafnorði eftir því hver sögnin er. Þannig er talið „rétt“ að segja hafa ánægju af, hafa gagn af, hafa gaman af o.fl., en hins vegar „á“ að segja það er ánægja að þessu, það er gagn að þessu, það er gaman að þessu o.s.frv. Svipað er með forsetningu með nafnorðinu tilefni — það „á“ að segja að gefnu tilefni, en hins vegar af þessu tilefni, kunnur að góðu en hins vegar kunnur af verkum sínum, frægur að endemum en frægur af hernaði sínum, o.fl. Það er svo sem ekkert undarlegt að mál­notendur blandi þessu saman, enda merkingarmunur ekki alltaf skýr. „Á alllöngum kenn­ara­ferli mínum tókst mér fremur illa að færa nemendum heim sanninn um það að orðasambandið að yfirlögðu ráði vís­aði (augljóslega) til tíma en í orða­sam­band­inu af ásettu ráði fælist háttarmerking en ég kann þó ekki betri skýringu“ segir Jón G. Friðjónsson.

Mér finnst mikilvægt að halda í merkingarmuninn milli og af, sem vísað er til hér að framan. En þar sem grunn­merk­ingin er óskýr eða alls ekki fyrir hendi finnst mér satt að segja ekki skipta miklu máli hvor forsetningin er notuð. Ef fólk hefur vanist notk­un annarrar forsetningarinnar þótt hin sé talin „rétt“ sé ég enga ástæðu til að breyta því. Ég er t.d. vanur að tala um að gera mikið af einhverju og töluvert fleiri dæmi eru um það á tímarit.is en gera mikið sem er talið „rétt“. En „þessi villa er rótgróin“ segir Gísli Jóns­son — ég held bara mínu striki.

Ekki segja ráddi heldur réði ... eða hvað?

Eins og alkunna er gera börn á máltökuskeiði ýmsar villur sem margar hverjar stafa af því að þau alhæfa reglur sem þau eru búin að tileinka sér en átta sig ekki á takmörkunum reglnanna eða undantekningum frá þeim. Ein algengasta villan af þessu tagi er að beygja allar sagnir veikt – segja bítaði eða bítti í stað beit, hlaupti eða hlaupaði í stað hljóp, standaði í stað stóð, drekkti í stað drakk, látti í stað lét – og svo er það ráddi. Í alþekktum söngtexta um það sem er bannað segir að ekki megi „tína blómin sem eru út í beði og ekki segja ráddi heldur réði“.

Það myndi augljóslega spilla bæði rími og hrynjandi ef þarna væri réð en ekki réði, en það er samt það sem „á“ að segja samkvæmt íslenskum málstaðli eins og hann birtist t.d. í Málfarsbankanum þar sem segir: „Farið er að nota þátíðarmyndirnar „réði“, „réðir“, „réði“ í eintölu. Það er óheppileg þróun vegna þess að þær falla saman við viðtengingarhátt þátíðar. Hún réð hann í vinnu. Margir voru á móti því að hún réði hann.“ Það var líka hamrað á þessu í ábendingunum Gætum tungunnar sem voru gefnar út í kveri 1984 og birtust einnig í blöðum.

Það er svolítið sérkennilegt að segja „Farið er að nota“ – með því er gefið í skyn að þetta sé nýbreytni frá síðustu árum. En raunin er sú að þetta er margra alda gamalt. Elsta dæmi um réði á tímarit.is er frá 1833 en elsta dæmi um réð frá 1859, og réði hefur lengst af síðan verið mun algengara. Það er líka ofmælt að það sé „óheppileg þróun“ að nota þátíðina réði vegna þess að þá falli framsöguháttur og viðtengingarháttur saman. Það er nefnilega það sem gerist í öllum sögnum sem enda á -aði í þátíð – sem eru meginþorri sagna í málinu. Við segjum ég kallaði og þótt ég kallaði, ég talaði og þótt ég talaði o.s.frv.

Ég held að óhætt sé að segja að þátíðin réð sé mörgum framandi – a.m.k. í töluðu máli, þótt ýmsum hafi væntanlega lærst að nota hana í riti. Það má benda á að í Málvöndunarþættinum á Facebook sýnist mér að aldrei hafi verið gerð athugasemd við notkun réði í stað réð. Í þeim hópi er fólk þó vant að láta frá sér heyra ef það verður var við eitthvað sem það telur rangt. Þar eð allir hljóta að hafa heyrt þátíðina réði notaða ótal sinnum dreg ég þá ályktun að fólk átti sig ekki á því að hún er talin röng – annars myndi heyrast hljóð úr horni.

Hitt er annað mál að ekki er alltaf gott að vita hvort verið er að nota réð eða réði. Þannig er réð(i) t.d. oft notað með neitun – ég réð(i) ekki við þetta. Þá fellur i-ið brott á undan sérhljóði samkvæmt almennum reglum, þannig að þótt fólk sé raunverulega að nota myndina réði kemur hún út sem réð. Í þessu sambandi er athyglisvert að bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni eru dæmin um réði 70% af samanlagðri tíðni réð við og réði við. Hins vegar eru dæmin um réði ekki nema 55% af samanlagðri tíðni réð ekki við og réði ekki við. Samhengið hefur greinilega áhrif á hvor myndin er notuð.

Sjálfur lærði ég einhvern tíma að það „ætti“ að nota réð en ekki réði og geri það stundum í rituðu máli. Það er þó í algerri andstöðu við málkennd mína – hann réð þessu ekki og ég réð ekki við þetta orkar á mig sem rangt mál. Þetta er eitt af þeim dæmum þar sem málstaðallinn er í ósamræmi við málkennd og málnotkun verulegs hluta málnotenda. Mér finnst fráleitt að kalla þátíðina réði ranga og myndi ekki gera athugasemd við hana í ritgerðum nemenda ef ég væri enn að kenna. Í þessu tilviki sýnist mér einboðið að viðurkenna orðinn hlut og sættast við réði – en sjálfsagt að gera athugasemd við ráddi.

Að kynna einhvern fyrir einhverju

Iðulega eru gerðar athugasemdir við notkun sagnarinnar kynna og bent á að dauðir hlutir séu kynntir fyrir fólki en ekki öfugt. Áður gat þolfallsandlagið í samböndum eins og kynna einhvern fyrir einhverjum aðeins vísað til fólks eins og sést í skýringu sambandsins í Íslenskri orðabók: 'upplýsa e-n um nafn e-s að honum viðstöddum með það í huga að kynni takist'. En nýlega er farið að nota þetta orðalag líka um hugmyndir og dauða hluti – kynna tillöguna fyrir Sveini, kynna samkvæmisdans fyrir henni o.s.frv. Elstu dæmi sem ég hef fundið um þetta eru um þrjátíu ára gömul.

Þegar báðir nafnliðirnir sem fylgja kynna vísa til fólks skiptir ekki öllu máli hvor þeirra stendur í þolfalli og hvor stendur í þágufalli, annaðhvort sem andlag eða í forsetningarlið. Hún kynnti Svein fyrir Páli merkir nokkurn veginn það sama og hún kynnti Pál fyrir Sveini – útkoman er í bæði skiptin sú að þessir tveir menn kynnast. Ef einhvers konar virðingarmunur er á mönnunum sem um er að ræða er vissulega venja að hafa þann sem er neðar í virðingarstiganum í þolfalli – hún kynnti mig fyrir forsetanum þykir eðlilegra en hún kynnti forsetann fyrir mér. En við áðurnefnda breytingu fer röð liðanna að skipta máli – þótt Sveinn kynnist tillögunni er varla hægt að segja að tillagan kynnist Sveini, eða Sveinn og tillagan kynnist.

Það skiptir hins vegar máli í þessu sambandi að andlag í þolfalli táknar mjög oft einhvers konar þolanda, þann sem verður fyrir einhverjum áhrifum af þeim verknaði sem sögnin lýsir. Í setningum eins og hún sendi þessa bók til mín eða hún keypti þessa bók má segja að andlagið þessa bók verði fyrir ákveðnum áhrifum – breyti um staðsetningu eða eiganda. Vissulega er þetta ekki algilt en þó svo algengt að ekki er ólíklegt að málnotendur hafi tilfinningu fyrir því að eðlilegt hlutverk þolfallsandlags sé að vera einhvers konar þolandi.

En í hún kynnti þessa nýjung fyrir mér eða hún kynnti mér þessa nýjung verður þolfallsandlagið þessa nýjung ekki fyrir neinum áhrifum frá sögninni – áhrifin koma fram hjá þeim sem kynnist nýjunginni, mér, hvort sem sú persóna er tjáð í forsetningarlið eða sem andlag. Þess vegna má segja að hún kynnti mig fyrir þessari nýjung sé í betra samræmi við venjuleg mynstur málsins. Við getum gert ráð fyrir að það hafi einhver áhrif á mig að komast í kynni við þessa nýjung, og því er „eðlilegt“ að sá sem verður fyrir áhrifum komi strax á eftir sögn.

Ég held því að dæmi eins og hún kynnti mig fyrir þessari nýjung megi skýra með því að málnotendum finnist eðlilegt að þolfallsandlag sé einhvers konar þolandi og hafi þess vegna tilhneigingu til að hafa persónuna í þolfalli næst á eftir sögninni. Það auðveldi svo eða ýti undir þessa tilhneigingu að málnotendur eru vanir því að röð liðanna skipti litlu máli þegar báðir vísa til persóna. Hugsanlega spila áhrif frá ensku þarna inn í líka, en þar er þetta reyndar einnig sitt á hvað.

Ég er ekki að mæla með þessari breytingu eða hvetja til þess að fólk láti hana afskiptalausa – það verður hver að eiga við sig. Hins vegar er hún meinlaus að því leyti að hún veldur engum misskilningi. Þótt okkur kunni að finnast hún kynnti mig fyrir þessari nýjung órökrétt og/eða rangt erum við ekki í neinum vanda með að skilja hvað við er átt. Það er eitt megineinkenni tilbrigða í málinu – þau valda yfirleitt ekki misskilningi. Þess vegna geta þau lifað hlið við hlið í málinu, jafnvel langtímum saman.

Pabbi sinn

Í Málfarsbankanum er varað við orðalaginu eins og pabbi sinn: : „Hún er alveg eins og pabbi hennar (ekki: „hún er alveg eins og pabbi sinn“).“ Það liggur samt fyrir að fjöldi fólks notar þetta orðalag – annars væri ekki amast svona oft við því. Elsta dæmi sem ég hef rekist á er frá 1966 – „annar sagðist verða bóndi eins og pabbi sinn“. Dæmum á tímarit.is fer þó ekki fjölgandi fyrr en eftir 1990 og aðallega eftir aldamót. Það er ljóst að eins og pabbi sinn hefur verið að breiðast út undanfarna áratugi og er nú líklega mál talsverðs hluta þjóðarinnar.

Ekki verður enskum áhrifum kennt um þessa breytingu en hún er út af fyrir sig vel skiljanleg. Merkingarlega er þetta mjög svipað líkur pabba sínum þar sem enginn ágreiningur er um að nota skuli afturbeygingu – ef sagt er Siggi er líkur pabba hans er vísað til pabba einhvers annars en Sigga. Hinn setningafræðilegi munur er sá að í líkur pabba sínum er afturbeygða eignarfornafnið sínum hluti andlagsins, en í eins og pabbi sinn er sinn hluti samanburðarliðar.

Ástæðan fyrir því að ekki er (eða var) hægt að segja hann er eins og pabbi sinn er sú að afturbeyging getur yfirleitt ekki vísað yfir atvikstengingu, til frumlags aðalsetningarinnar – við getum ekki sagt *hann fór þegar pabbi sinn kom eða *hann fer ef pabbi sinn kemur eða *hann fór af því að pabbi sinn kom, heldur verðum að nota persónufornafnið hans. En öfugt við þessar tengingar getur atvikstengingin eins og ekki einvörðungu tengt heilar aukasetningar við það sem á undan kemur, t.d. Prófið var þungt eins og ég átti von á (samanburðarsetning feitletruð), heldur líka orðasambönd án sagnar (samanburðarliði), t.d. Prófið var þungt eins og í fyrra (samanburðarliður feitletraður).

Ég held að sú breyting sem hefur verið í gangi undanfarna áratugi stafi af breyttri skynjun málnotenda á samanburðarliðum. Þeir hafi áður verið skynjaðir sem (ófullkomnar) setningar með sögnina „ósagða“, ef svo má segja – Siggi er eins og pabbi hans (er) – en margir skynji þá nú sem setningarliði í staðinn, án sagnar. Þar með hafi þeir svipaða stöðu og forsetningarliðir og því geti afturbeygingin vísað yfir tenginguna eins og, til frumlagsins, á sama hátt og hún vísar yfir forsetningar – við segjum Siggi kom með pabba sínum en ekki pabba hans nema um sé að ræða pabba einhvers annars en Sigga.

En ef orðarunan á eftir eins og inniheldur sögn er sá möguleiki að skynja þetta sem setningarlið í stað setningar ekki fyrir hendi – og þá ætti afturbeyging líka að vera útilokuð. Ég er alinn upp fyrir daga þessarar breytingar og hún er ekki mitt mál (enn), og þess vegna get ég ekki fullyrt hvað er tækt og hvað ótækt hjá þeim sem hafa þessa breytingu í máli sínu. En ég held samt að fólk sem segir hann er eins og pabbi sinn myndi síður segja hann er alveg eins og pabbi sinn var fyrir 30 árum. Í seinna dæminu kemur sögn (var) á eftir eins og og þar er því ótvírætt um setningu að ræða en ekki bara setningarlið.

Reyndar er oft mælt með notkun afturbeygingar í öðrum setningagerðum þar sem bæði afturbeygt fornafn og persónufornafn kæmi til greina. Í kverinu Gætum tungunnar er sagt að heyrst hafi „Bílstjórinn sagði, að honum hefði tekist að aka þessa leið“ en rétt væri „... að sér hefði tekist ... (nema bílstjórinn sé að tala um annan en sig)“. Höfundur kversins, Helgi Hálfdanarson, sagði um þetta: „Í þessu sambandi er afturbeygða fornafnið nákvæmara en hitt; þar tæki það af öll tvímæli, en persónufornafnið ekki.“ Með sömu rökum hlyti Siggi er eins og pabbi sinn að teljast réttara en Siggi er eins og pabbi hans því að í seinna tilvikinu gæti verið átt við pabba einhvers annars eins og áður segir en afturbeygingin tæki af öll tvímæli.

Með þessu er ég bara að reyna að skýra þessa breytingu, en ekki réttlæta hana eða mæla með henni. Hins vegar er þetta orðalag löngu hætt að fara í taugarnar á mér og mér er eiginlega farið að finnast það eðlilegt og það gæti jafnvel hrokkið út úr mér einhver daginn.

Gæfa – eða gjörvuleiki

Fallnotkun með orðasambandinu bera gæfu til hefur verið að breytast undanfarið. Í fornu máli er frumlag þess alltaf í nefnifalli – „þótti mönnum Þorgils mikla gæfu hafa til borið, að stilla slíka ofstopamenn“ segir í Grettis sögu eftir að Þorgils á Reykhólum hafði hýst þá fóstbræður Þormóð Kolbrúnarskáld og Þorgeir Hávarsson ásamt Gretti sterka heilan vetur. „Þótti honum hinn mesti skaði eftir Sighvat bróður sinn, sem var, þó að þeir bæru ekki gæfu til samþykkis stundum sín á milli“ segir í Sturlungu um viðbrögð Snorra Sturlusonar við fréttum af Örlygsstaðabardaga.

Elsta dæmi um aukafall með bera gæfu til sem ég hef rekist á er í Stormi 1929: „ef þinginu ber gæfa til þess að samþykkja það“. Annað dæmi má taka úr Vísi 1939: „þeir sem valdir eru að þessum ófarnaði halda áfram í sinni forherðingu þar til þjóðina ber gæfu til að stöðva þá að fullu“. Fáein dæmi eru um aukafall með þessu sambandi á tímarit.is framan af, einkum eftir 1940, en eftir 1980 fer þeim ört fjölgandi. Í Risamálheildinni sem hefur einkum að geyma texta frá allra síðustu árum eru allmörg dæmi um aukafall með þessu sambandi.

Í dæminu úr Vísi 1939 er notað þolfall sem kemur ekki alveg á óvart – þegar aukafall kemur í stað nefnifalls á frumlagi sagna er það fyrst þolfall ekki síður en þágufall. Mig hlakkar og mig kvíðir var eitt sinn algengara en mér hlakkar og mér kvíðir. Í Málfarsbankanum er líka notað þolfall þar sem varað er við ópersónulegri notkun orðasambandsins: „Orðasambandið bera gæfu til er notað persónulega, ekki ópersónulega. Hún bar ekki gæfu til að sjá þennan fræga stað. Ekki: „Hana bar gæfu til að sjá þennan fræga stað“.“

En ef aukafall er notað með þessu sambandi á annað borð virðist það þó langoftast vera þágufall. Að vísu er oft ekki hægt að skera úr um fallið, því að sambandið virðist af einhverjum ástæðum vera langalgengast í fyrstu persónu fleirtölu og þar eru þolfall og þágufall persónufornafnsins eins – í okkur ber gæfa til er ómögulegt að segja hvort um þolfall eða þágufall er að ræða nema nafnorð fylgi með, eins og í „okkur bekkjarfélögunum bar gæfu til“.

Það er merkilegt við sambandið að það er ekki bara frumlagsfallið sem breytist úr nefnifalli í þágufall – fall andlagsins breytist iðulega líka, úr þolfalli í nefnifall. Í stað ég bar gæfu til kemur mér bar gæfa til eins og sést í dæminu úr Stormi. Þetta er að vísu ekki algilt því að stundum heldur andlagið þolfallinu, en hitt virðist þó mun algengara. Þetta er ekki einsdæmi. Sambandið bresta kjark tók áður með sér frumlag í þolfalli, mig brast kjark, en tekur nú iðulega þágufall. En þá ber svo við að andlagið fær oftast nefnifall – mér brast kjarkur. Hér er ekki vettvangur til að ræða skýringar á þessu.

En hvers vegna kemur upp tilhneiging til að nota aukafall með þessu sambandi? Væntanlega er það vegna þess að frumlag sagnarinnar er ekki gerandi – hefur ekkert vald á því sem sögnin segir. Málnotendur hafa tilhneigingu til að tengja nefnifall við geranda en þágufall við þann sem verður fyrir einhverju, skynjar eitthvað eða upplifir eitthvað sem hann hefur ekki vald á. Þannig er þetta með þær sagnir sem eru dæmigerðar fyrir „þágufallssýkina“ svokölluðu, s.s. langa, vanta, hlakka til, kvíða, dreyma o.fl. Sambandið bera gæfu til er af sama sauðahúsi.

Einnig er mjög trúlegt að áhrif frá annarri ópersónulegri notkun sagnarinnar bera komi til, s.s. mér ber þetta, mér ber að gera þettamér ber skylda til að gera þetta, þeim ber saman um þetta o.fl. þar sem alltaf hefur verið notað þágufall. Í sambandinu bera skylda til bregður fyrir sams konar fallavíxlum og nefnd voru með bera gæfu til – í stað nefnifallsins á andlaginu kemur stöku sinnum aukafall, og þá verður þágufallið í frumlagssæti stundum að nefnifalli: „Ríkistjórnin ber skyldu til aðstoðar við uppbyggingu Iandsbyggðar“ segir t.d. í Degi 1999. Víxlin eru hliðstæð en munurinn er sá að með bera gæfu til er nefnifall–þágufall upprunalega mynstrið, en með bera skylda til er það þágufall–nefnifall.

Breyting á notkun sambandsins bera gæfu til er sem sé skiljanleg og ekki óvænt, og á sér ýmis fordæmi. Hvort fólk vill láta hana yfir sig ganga eða berjast gegn henni er annað mál. Mér finnst hún satt að segja frekar meinlaus.

Spáið í þessu

Í Málfarsbankanum segir: „Sagt er spá í eitthvað, ekki „spá í einhverju“. Veðurfræðingar spá í það sem koma skal.“ Þótt sögnin spá stjórni þágufalli ein og sér er nú ævin­lega notað þolfall í sambandinu spá í þegar sögnin hefur grunnmerkingu sína – spá í spil / bolla / korg / garnir o.s.frv. Áður fyrr var reyndar stundum notað þágu­fall í þessum samböndum – „þarftú þá aldrei að spá í spilum eða í kaffebollum eða í lófum“ segir í Þórðar sögu Geir­mundssonar eftir Benedikt Gröndal. Iðulega er vitnað í Megas því til staðfestingar að þarna eigi að vera þolfall og bent á að hann söng „Spáðu í mig“ en ekki „Spáðu í mér“. Það er auðvitað rétt, en reyndar svolítið skondið að uppreisnarmaður eins og Megas skuli borinn fyrir því hvað sé „rétt mál“.

Ég held að spá í taki oftast þolfall þegar það er notað í merkingunni 'hafa áhuga á einhverri manneskju' eins og það hefur væntanlega hjá Megasi – sagt er ég er að spá í hann / hana frekar en ég er að spá í honum / henni. En þegar sagt er „Ég er að spá í því hvort líf leynist á öðrum hnöttum“ eða „Við fórum að spá í hvaða ólykt þetta nú væri“ (svo að tekin séu dæmi af netinu) felst ekki í því neinn spádómur, heldur merkir spá í þarna 'velta fyrir sér, hugsa um'. Sú merking virðist vera tiltölulega nýleg – varla meira en fárra áratuga gömul. Erfitt er að negla nákvæmlega niður hvenær hún kemur upp en eins og títt er með málbreytingar má líklega rekja hana til dæma sem hægt er að túlka á tvo vegu.

Í Þjóðviljanum 1963 er sagt að það sé „ekki furða þótt menn séu farnir að spá í hugsanlega íslenzka þátttöku í Tokíó“ sem gæti merkt bæði 'spá hvaða Íslendingar gætu tekið þátt (í Ólympíuleikunum)' og 'velta fyrir sér íslenskri þátttöku'. Í Frjálsri þjóð 1964 er talað um nýjan atvinnuveg og minnst á athafnamann sem sé „þegar farinn að „spá“ í atvinnugreinina“ sem gæti merkt bæði 'spá fyrir um framtíð atvinnugreinarinnar' og eins 'velta fyrir sér að hasla sér völl í atvinnugreininni'. Ýmis hliðstæð dæmi má finna frá næstu árum eftir þetta en upp úr 1980 virðast ótvíræð dæmi um nýju merkinguna verða mjög algeng.

Það er athyglisvert að enginn hefur – svo að ég viti – amast við því að sambandið spá í hafi fengið merkingu sem það hafði ekki áður. Það er eingöngu fallið sem fólk hnýtir í. En hvers vegna fær sambandið oft þágufall í þessari nýju merkingu? Það er mjög trúlegt eins og oft er bent á að þágufallið sé tilkomið fyrir áhrif frá pæla í sem hefur sömu merkingu og tekur alltaf með sér þágufall. Bæði samböndin virðast koma upp á svipuðum tíma í þessari merkingu – tíðni pæla í eykst líka mjög upp úr 1980.

Það er þó mjög algengt að sagnir og forsetningar stjórni mismunandi föllum eftir merkingu. Við segjum bæði ég fór með hana í bæinn og ég fór með henni í bæinn en merkingin er ekki sú sama. Eins segjum við hann klóraði mig á bakinu og hann klóraði mér á bakinu í mismunandi merkingu. Þegar samband eins og spá í fær nýja merkingu dugir því ekki að vísa til þess að það hafi alltaf tekið með sér þolfall, því að það er ekkert sjálfgefið að sama fall sé notað þegar merkingin er önnur.

Forsetningin í stjórnar ýmist þolfalli eða þágufalli. Í sumum tilvikum fylgir notkunin ákveðnu kerfi – þegar um hreyfingu er að ræða stjórnar í þolfalli, en þágufalli þegar um kyrrstöðu er að ræða: Ég fór í bæinn en ég var í bænum. Iðulega er hins vegar hvorki hægt að tengja forsetninguna við hreyfingu né kyrrstöðu og þá virðist oft tilviljun háð hvort fallið hún tekur með sér. Ég hef aldrei séð því haldið fram að það sé andstætt merkingu forsetningarinnar að nota þágufall með pæla í, og þá ættu ekki heldur að vera neinar merkingarlegar ástæður gegn þágufalli með spá í.

Þegar sambandið spá í merkir 'velta fyrir sér, hugsa um' er sem sé ekkert athugavert við að nota þágufall með því. En það er ekki heldur neitt að því að nota þolfall eins og í öðrum merkingum sambandsins. Tungumálið þolir alveg tilbrigði.