Posted on Færðu inn athugasemd

Ristavél

Um fátt í tungumálinu skapast hatrammari deilur en um orðin brauðrist og ristavél. Síðast þegar þau orð bar á góma í Málvöndunarþættinum á Facebook voru skrifaðar hvorki fleiri né færri en 265 athugasemdir við færsluna, og hægt er að finna fjölmarga umræðuþræði um þetta mál á netinu. Mörgum sem nota brauðrist finnst ristavél ljótt og kjánalegt orð, sem tilheyri barnamáli og talmáli en eigi ekkert erindi inn í formlegt mál fullorðins fólks. Þeim sem nota ristavél finnst það orð aftur á móti fullkomlega eðlilegt.

Oft er það notað sem rök gegn ristavél að í tækinu sé engin vél í merkingunni 'tæki, oft samsett úr mörgum hlutum, olíu- eða rafknúið, til að vinna ákveðið verk' (mótor). En vitanlega innihalda heiti á fjölmörgum tækjum þennan orðhluta án þess að í þeim sé nokkur vél í þessari merkingu. Sem dæmi má nefna eldavél, myndavél, ritvél, rakvél, kaffivél, múgavél; leitarvél, bókunarvél, þýðingarvél; o.s.frv. Vissulega eru oft einhvers konar „vélar“ í sumum þessara tækja núorðið, s.s. rakvélum og ritvélum, en þannig var það ekki þegar orðin voru búin til.

Orðið ristavél er hliðstætt eldavél, myndavél, saumavél og fleiri orðum þar sem líta má svo á að fyrri hlutinn sé nafnháttur sagnar. Vissulega kemur oft einnig til greina að fyrri liðurinn sé eignarfall fleirtölu, en sá möguleiki er ekki alltaf fyrir hendi, t.d. í hakkavél. Eðlilegt er að líta svo á að þessi orð séu mynduð á sama hátt – hakkavél er 'tæki (vél) til að hakka með', ristavél er 'tæki til að rista með'. Það getur vel verið að orðið sé upprunnið í máli barna en börn eru býsna glúrin í orðmyndun og það er varla hægt að nota orðmyndunarleg rök til að hafna ristavél.

Einnig er til afbrigðið ristabrauðsvél sem er mun sjaldgæfara en ristavél, aðeins eitt dæmi í Risamálheildinni, þótt elsta dæmi um orðið á tímarit.is sé jafngamalt. Ef til vill hefur þessi mynd einkum verið notuð á Austurlandi, a.m.k. ef draga má einhverjar ályktanir af gamansögu í Degi 1985 þar sem segir frá Akureyringi sem réð sig á austfirskan netabát og þótti heldur fákunnandi um verklag og orðfæri á sjó. Einu sinni ætlaði hann að rista sér brauðsneið en fann ekki þartilgert tæki og spurði „Strákar, hvar er brauðristin? Þá gall við mikill hlátur og einn segir á milli hláturshviðanna: Hann kallar ristabrauðsvélina brauðrist“.

En hvaða orð eigum við þá að nota um þetta fyrirbæri? Við getum litið bæði til aldurs og uppruna. Elsta dæmi um brauðrist á tímarit.is er frá 1915. Þetta er tökuorð úr dönsku – þar heitir fyrirbærið brødrist eða brødrister, þótt enska tökuorðið toaster sé reyndar oft notað í staðinn. Aftur á móti er elsta dæmið um ristavél á tímarit.is frá 1983, og ekkert bendir til annars en orðið sé íslensk smíð. Aldurinn mælir því með brauðrist, en ef við viljum taka íslenskar nýmyndanir fram yfir tökuorð ættum við frekar að velja ristavél. Myndin ristabrauðsvél er of sjaldgæf til að koma til álita.

Mér dettur samt ekki í hug að leggja til að brauðrist sé hafnað – orðið hefur auðvitað fyrir löngu unnið sér hefð í málinu og ég nota það alltaf sjálfur. Ef ristavél væri að koma upp núna myndi ég sennilega leggjast gegn orðinu með þeim rökum að fyrirbærið sem það ætti að tákna hefði þegar íslenskt heiti. En í ljósi þess að orðið kom upp fyrir meira en aldarþriðjungi, er útbreitt, er íslensk nýmyndun og brýtur engar orðmyndunarreglur er engin ástæða til að hafna því – það er ekkert að því að sama fyrirbærið eigi sér fleiri en eitt heiti.

Posted on

Hafnaður, náður og lagður

Í Málvöndunarþættinum á Facebook var nýlega vakin athygli á setningunni „Mín hræðsla við höfnun hvarf fyrir yfir 9 árum þegar ég var hafnaður af stelpu.“ Þetta minnti mig á þýðingu á heiti kvikmyndarinnar Gotcha! sem var sýnd í Reykjavík fyrir hálfum fjórða áratug. Íslenski titillinn var „Náður“ og hljómaði undarlega í mínum eyrum og greinilega margra fleiri. Þjóðviljinn sagði í umfjöllun um þessa mynd 1985: „þessi lýsingarháttur er allajafna ekki til af sögninni að ná, en vesturbæingur á blaðinu upplýsir að þetta hafi verið notað í „fallinni spýtu“ og svipuðum leikjum þar í sveit að fornu“.


Þessi lýsingarháttur var samt ekki nýr á þessum tíma þótt ég þekkti hann ekki. Í Þjóðviljanum 1902 segir: „Sökudólgur var ónáður, er síðast fréttist“. En lýsingarhátturinn náður hefur líklega verið algengastur í leikjum eins og áður er vikið að. Í lýsingu á fangaleik í Lögbergi 1916 segir: „Ekki þarf annað en geta snert þann sem maður eltir og sagt „náður“, þá verður hann að stöðvast“. Þetta er tekið fyrir í málvöndunargrein í Vísi 1936: „Eg bæti hér við, út götumáli barnanna: „Þú ert náður.“ Slíkt orðskrípi hefi eg aldrei heyrt til sveita, hvorki fyrr né síðar. Þar er sagt: Það er búið að ná þér (þér hefir verið náð o.s.frv.).“

Það er samt hægt að finna enn eldri dæmi af þessu tagi. Árið 1852 var gefið út kver sem heitir Íslenzk ævintýri sem var eins konar undanfari þjóðsagna Jóns Árnasonar. Á titilsíðu stendur „Söfnuð af M[agnúsi] Grímssyni og J[óni] Árnasyni“. Sögnin safna stjórnar þágufalli eins og þær sem áður voru nefndar og því hefði maður búist hér við Safnað af M. Grímssyni og J. Árnasyni. En þarna er lýsingarhátturinn sem sé í fleirtölu og samræmist Íslenzk ævintýri, um miðja 19. öld – og það ekki hjá neinum bögubósum.


Ég hef áður rökstutt að í dæmum eins og Ég var boðinn í mat, Dyrnar voru lokaðar o.s.frv. sé ekki um þolmynd að ræða – setningarnar lýsi ástandi, ekki verknaði, öfugt við Mér var boðið í mat, Dyrunum var lokað. Ég held að það megi líta eins á nefnifallið með náður. Þú ert náður er ekki þolmynd, vísar ekki til verknaðarins að ná einhverjum, heldur til þess að nú er hann kominn í tiltekið ástand – er náður. Fólk getur auðvitað haft mismunandi skoðanir á þessum dæmum en þau eiga sér skýrar fyrirmyndir í notkun annarra sagna.

Þetta minnti mig líka á umdeilda fyrirsögn á frétt á RÚV í hitteðfyrra: „Illa lagðir bílar töfðu slökkvilið í útkalli“. Margir bentu á að sögnin leggja stjórnar þágufalli í þessari merkingu og því gengi nefnifall á frumlaginu ekki. En það er útilokað að segja *Illa lögðum bílum töfðu slökkvilið í útkalli. Við leit á netinu finnast nokkur hliðstæð dæmi frá síðustu árum, og til er hópur á Facebook sem heitir Illa lagðir bílar. Kannski er sögnin leggja að bætast í hóp áðurnefndra sagna þannig að illa lagðir bílar vísi til ástands eða stöðu bílanna en sé ekki þolmynd. Þeirri greiningu fylgja þó ákveðin vandkvæði sem ekki er hægt að fara út í hér.

Auk dæmisins sem nefnt var í upphafi má finna nokkur dæmi á netinu sem benda til þess að hafna sé líka að bætast í þennan hóp. Mér fannst einna athyglisverðust skrá á vef Samgöngustofu um „höfnuð einkamerki“. En það sem er sérkennilegast við áðurnefnt dæmi er að því fylgir af-liður sem er venjulega talinn einkennismerki þolmyndar; hafnaður af stelpu. Hér er því um þolmynd að ræða og setningin lýsir verknaði, ekki ástandi. Annað svipað dæmi fann ég í Morgunblaðinu 2014: „Og svo var indæl stúlka að tala um afturgöngur á dögunum og tók sem dæmi Miklabæjar-Sólveigu sem var höfnuð af presti“ skrifar hneykslaður lesandi.

Í slíkum setningum er nefnifallið nýjung að því er ég best fæ séð, og á sér ekki fordæmi hjá öðrum sögnum. En hvað er að gerast þarna? Ég veit það ekki – og þótt ég gæti spunnið eitthvað um það yrði það of flókið fyrir þennan vettvang. Ég vildi bara vekja athygli á þessum dæmum.

Posted on

Var mér boðið eða ég boðinn?

Oft er rætt um fallnotkun í þolmyndarsetningum með sögninni bjóða – hvort eigi að segja t.d. mér var boðið í mat eða ég var boðin(n) í mat. Gísli Jónsson tók þetta nokkrum sinnum fyrir í þáttum sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu og lagði áherslu á að það ætti að segja mér var boðið í mat. Ekki kæmi til greina að segja ég var boðinn í mat „því þá hefði boðið kannski verið þegið og væri ég þá ekki lengur til frásagnar um eitt eða neitt.“ En málið er ekki alveg svona einfalt.

Sögnin bjóða stýrir þolfalli í samböndum eins og Ég bauð bílinn til sölu, og iðulega tekur hún bæði þágufalls- og þolfallsandlag – Ég bauð henni matinn. Þegar setningum með þolfallsandlagi er snúið í þolmynd verður andlagið að nefnifallsfrumlagi – Bíllinn var boðinn til sölu. Það mætti því í fljótu bragði ætla að Ég var boðinn í mat væri þolmynd af (Einhver) bauð mig í mat – þar sem ég væri maturinn. Það er sú merking sem Gísli vísar til – þótt ég sé reyndar nokkuð viss um að enginn hefur notað sambandið í þeirri merkingu.

Sögnin stýrir hins vegar þágufalli í þeirri merkingu sem hér er um að ræða – Einhver bauð mér í mat. Þegar setningum með sögnum sem stýra þágufalli er snúið í þolmynd helst þágufallið þótt það færist í frumlagssæti; við segjum Mér var hjálpað en ekki *Ég var hjálpaður. Mér var boðið í mat er því sú þolmynd sem við mætti búast af (Einhver) bauð mér í mat. En í sumum tilvikum fær lýsingarhátturinn setningarlegt hlutverk lýsingarorðs og þá helst þágufallið ekki, enda er þá ekki um þolmynd að ræða. Ég var boðinn í mat er þess háttar setning.

Munurinn sést t.d. vel með sögninni loka sem einnig stjórnar þágufalli. Við getum sagt bæði Dyrunum var lokað og Dyrnar voru lokaðar. Í fyrra dæminu er um þolmynd að ræða – sú setning lýsir verknaði. Í seinna dæminu hefur lokaðar stöðu lýsingarorðs og þar er ekki verið að lýsa verknaði heldur ástandi. Við getum sagt Dyrunum var lokað á nefið á mér en ekki *Dyrnar voru lokaðar á nefið á mér vegna þess að þetta er verknaður. Hins vegar segjum við Dyrnar voru lokaðar allan daginn en ekki *Dyrunum var lokað allan daginn, því að þar er um ástand að ræða. Að vísu væri hægt að segja dyrunum var lokað aftur og aftur allan daginn en þá er vísað til (endurtekinnar) athafnar.

Hliðstætt er þetta með boðinn. Mér var boðið í mat er þolmynd og segir frá verknaði, en Ég var boðinn í mat er ekki þolmynd, heldur er boðinn þar lýsingarorð sem segir frá ástandi; merkir eiginlega 'það stendur þannig á hjá mér að ég er boðinn í mat'. Þetta sést greinilega á því að við getum sagt Áðan var mér boðið í mat um næstu helgi en tæpast *Áðan var ég boðinn í mat um næstu helgi. Atviksorðið áðan sýnir að vísað er til verknaðar en ekki ástands. Eina leiðin til að seinni setningin gæti staðist væri sú að matarboðið hefði verið afturkallað í millitíðinni.

Það er engin nýlunda að lýsingarhátturinn boðinn fái stöðu lýsingarorðs. Í Bárðar sögu Snæfellsáss segir „Sá þurs var þangað boðinn er Kolbjörn hét“ og í Harðar sögu og Hólmverja segir „Kollur frá Lundi var boðinn til brúðkaupsins einnhver virðingamestur“. Nefnifallið kemur sem sé fyrir þegar í fornu máli. Ég sé ekki á hvaða forsendum ætti að fordæma það.

Posted on

Enskuslettur og „málvillur“

Í gær var í Málvöndunarþættinum á Facebook vakin athygli á fyrirsögn á vef RÚV: „Varð „emotional“ í þjóðsöngnum“. Þetta er tilvitnun í viðtal við Dagnýju Brynjarsdóttur landsliðskonu. Sá sem setti þetta inn sagði að sér fyndist í lagi að sletta af og til en það væri óþarfi að taka slíkt upp í fyrirsögn. Ég er sammála, og þetta er gott dæmi um það sem ég hef áður nefnt hér – að málsnið í fjölmiðlum hefur gerbreyst á undanförnum áratugum og er nú iðulega mun talmálslegra en áður. Það er ekki endilega alltaf til bóta.

Það er engin ástæða til að kippa sér upp við að fólk sletti og víki frá málstaðli á ýmsan hátt í viðtali, en þegar frétt er skrifuð upp úr viðtalinu er eðlilegt að breyta málsniðinu, endursegja orð viðmælanda og færa í búning sem hæfir rituðu máli, eins og Kristín M. Jóhannsdóttir benti á í athugasemdum. Á mbl.is var reyndar haft eftir Dagnýju „tilfinningarnar gerðu vart við sig“ – innan gæsalappa, hvort sem hún hefur notað annað orðalag þar eða blaðamaður breytt þessu.

En þessi fyrirsögn segir kannski heilmikið um viðhorf okkar til mismunandi frávika frá málstaðlinum. Það þykir sem sagt í lagi að hafa enskuslettu eftir viðmælanda – vissulega innan gæsalappa – og nota í fréttafyrirsögn. En ef Dagný hefði sagt – sem hún gerði ekki – „Mér langaði mikið til að skora“ eða „Ég vill þakka áhorfendum fyrir góða hvatningu“, að ekki sé talað um „Það var tekið mig út af í seinni hálfleik“, þá hefði það tæpast verið haft orðrétt eftir í fréttinni og alveg örugglega ekki sett í fyrirsögn.

Er þetta ekki umhugsunarefni? Það má hafa ensku í fyrirsögn fréttar, en menn forðast alíslensk tilbrigði í máli eins og heitan eldinn – þrátt fyrir að íslenskunni stafi alveg örugglega margfalt meiri hætta af ensku en af hefðbundnum tilbrigðum – sem oft eru nefnd „málvillur“ – eins og þeim sem ég vísaði til hér að framan. Mér finnst þetta bera vott um að við metum stöðuna ekki rétt – eyðum tíma og orku í að berjast við vindmyllur.

Posted on

Læra frá

Í sjónvarpsfréttum í gær heyrði ég ungan viðmælanda segja „Ég hef virkilega lært frá þessu“. Þetta hef ég ekki heyrt áður en gúgl skilar mér nokkrum dæmum um þetta frá síðustu árum. Í íslenskri málhefð er forsetningin af vitanlega notuð með læra – við lærum af einhverju, ekki frá því. Það virðist nokkuð ljóst að hér sé um að ræða áhrif frá ensku, learn from.

Það eru dæmi af þessu tagi sem mér finnst mikilvægast að taka eftir og vekja athygli á. Auðvitað eru þetta engin stórkostleg málspjöll, út af fyrir sig. Við tölum um að verða fyrir áhrifum af og verða fyrir áhrifum frá, og þá er stutt yfir í læra frá. En svona dæmi sýna hins vegar hvernig enskan læðist inn í íslenskuna án þess að við tökum eftir því.

Viðbrögðin við því eiga ekki að vera stríð gegn enskunni, eða nöldur yfir einstökum atriðum, heldur styrking íslenskunnar – áhersla á að fólk, ekki síst börn og unglingar, lesi sem mest á íslensku og noti hana á öllum sviðum.

Posted on

Opnunartími

Orðið opnunartími er þyrnir í augum margra málvöndunarmanna. Málfarsbankinn segir: „Betra er að tala um afgreiðslutíma, þjónustutíma eða opið frá/milli en „opnunartíma“. Orðið er ekki nýtt – elsta dæmi um það á tímarit.is er tæplega hundrað ára. Dæmum fjölgar hægt framan af en alger sprenging varð í notkun orðsins á níunda áratug síðustu aldar þegar mikil umræða hófst um opnunartíma verslana. Ástæðan fyrir því að amast er við orðinu er sú að sagt er að opnun merki 'verknaðinn að opna' og þess vegna hljóti opnunartími að merkja 'tími sem það tekur að opna' – sem geti ekki verið langur. Árið 1988 skrifaði Árni Böðvarsson grein í Morgunblaðið um það sem kann kallaði „rugling“ í notkun orðsins, og sagði m.a.: „Fleiri og fleiri glepjast til að kalla opnunartíma allan tímann sem opið er, það er allan afgreiðslutímann þangað til lokað er.“

Iðulega er bent á önnur orð sem hægt sé og rétt að nota í staðinn – einkum afgreiðslutími, en einnig þjónustutími o.fl. En stundum er hvorki verið að afgreiða nokkuð né veita nokkra þjónustu á þeim stöðum sem um er að ræða, t.d. í biðskýlum o.v. Þar að auki getur afgreiðslutími haft aðra merkingu, þ.e. 'tíminn sem það tekur að afgreiða vöru'. Besta tillagan sem ég hef séð er opnutími en það orð hefur ekki breiðst mikið út. Einnig hefur verið bent á að hægt sé að nota lýsingarorðið opinn – segja skrifstofan er opin frá 9-4 í staðinn fyrir opnunartími frá 9-4. Vissulega – en er það eitthvað rökréttara? Það er ljóst að opinn merkir ekki það sama í dyrnar eru opnar og skrifstofan er opin, enda getum við sagt skrifstofan er opin þótt dyrnar séu ekki opnar – það er engin mótsögn í því.

En er endilega víst að opnun merki bara 'verknaðinn að opna'? Vissulega er það rétt að viðskeytið -un merkir venjulega verknað – könnun merkir 'það að kanna', litun merkir 'það að lita', verslun merkir 'það að versla', o.s.frv. En mörg þessara orða geta líka merkt einhvers konar afurð verknaðarins, stað þar sem hann fer fram, o.fl. Þannig merkir verslun ekki bara 'það að versla' heldur líka 'fyrirtæki eða staður þar sem verslað er'. Á sama hátt merkir opnun ekki bara 'það að opna', heldur 'ástandið að vera opið'. Í Heimskringlu 1912 er t.d. fjallað um „risavaxnar framfarir hér, sem stafa af mörgu: opnun Panama skurðarins, sem hefir stórkostleg áhrif á alla ströndina“. Hér merkir opnun ekki bara atburðinn þegar skurðurinn var opnaður, heldur líka það ástand hans að vera opinn.

Hvað sem þessu líður, og hvaða merkingu sem við viljum leggja í orðið opnun, dylst engum hvað orðið opnunartími merkir – ekki heldur þeim sem amast við því. Fyrst við getum komið okkur saman um að skrifstofan er opin merki 'afgreiðsla er veitt á skrifstofunni' (óháð því hvort dyrnar eru opnar eða lokaðar) ættum við eins að geta komið okkur saman um að opnunartími skrifstofunnar merki 'sá tími sem afgreiðsla er veitt á skrifstofunni'. Orð merkja nefnilega ekki alltaf það sem þau „ættu að“ merkja frá einhverju röklegu sjónarmiði. Orð merkja það sem við komum okkur saman um að þau merki. Enginn misskilur orðið opnunartími.

Posted on

Verslunin opnar

Meðferð sagnanna opna og loka er algengt aðfinnsluefni í málvöndunarumræðu. Oft er amast við því að talað sé um að opna og loka hurðum í stað dyrum, en einnig hafa verið gerðar athugasemdir við notkun sagnanna í setningum eins og Verslunin opnar klukkan níu, Verslunin lokar, o.s.frv. Sagt er að þessi notkun sé ekki rökrétt vegna þess að þarna séu dauðir hlutir gerðir að gerendum – verslunin hvorki opni nokkuð né loki því, heldur opni einhver verslunina og loki henni – hún sé opnuð og henni lokað.

Dugir það til að fordæma þetta orðalag? Þarna má segja að verslunin sé persónugerð, en það er vitaskuld algengt í ljóðum og þykir ekki athugavert. Vissulega er slík persónugerving minna notuð í óbundnu máli en er þó algeng þar líka. Það er t.d. mjög algengt (og stundum raunar hnýtt í það) að tala um að bílar aki þótt vitanlega sé einhver sem ekur þeim. Eins er mjög algengt að tala um að Ísland (eða eitthvert annað land) geri þetta eða hitt þegar það eru auðvitað landsmenn sem gera þetta. Er eitthvað verra að persónugera verslanir?

En reyndar þarf ekki að líta svo á að um persónugervingu sé að ræða. Það eru nefnilega fleiri sagnir sem haga sér á sama hátt án þess að nokkur geri athugasemd við það. Við segjum Hún stækkaði íbúðina, Hann minnkaði drykkjuna, Þau fjölguðu mannkyninu – en einnig Íbúðin stækkaði, Drykkjan minnkaði, Börnunum fjölgaði. Þarna er andlag gert að frumlagi án þess að það verði við það að geranda – og án þess að nokkuð sé við þetta að athuga. Er einhver munur á t.d. Hún stækkaði íbúðina – Íbúðin stækkaði og svo Hún opnaði búðina – Búðin opnaði?

Ég get ekki séð að neinn munur sé á þessu frá röklegu sjónarmiði – þessi notkun opna og loka á sér skýrar hliðstæður í málinu. Hins vegar væri vissulega hægt að hafa það á móti henni að um nýjung sé að ræða í notkun þessara sagna – þær hafi ekki hagað sér svona áður fyrr og ástæðulaust sé að breyta því, hvað sem fyrirmyndum líður. Það má auðvitað deila um hvað sé nýjung – elsta dæmi sem ég hef fundið um fordæmingu þessarar notkunar er frá 1938, þannig að gera má ráð fyrir að hún hafi verið orðin nokkuð útbreidd þá og sé a.m.k. 80-100 ára gömul.

En ýmislegt er áhugavert í þessu sambandi. Sögnin opna stýrir þolfalli, en þegar andlagið er gert að frumlagi fær það nefnifall – Búðin opnar en ekki *Búðina opnar. Þetta er það sem við er að búast – þolfallsandlög fá nefnifall þegar þau eru færð í frumlagssæti, bæði í þolmynd (Búðin verður opnuð) og með sögnum eins og stækka og minnka (Íbúðin stækkaði). En þágufallsandlag helst hins vegar þótt það sé sett í frumlagssæti – Bílum var fjölgað, Bílum fjölgaði. Hvernig er farið með loka sem tekur þágufallsandlag?

Mér sýnist að þágufallið verði oftast að nefnifalli þegar það er fært í frumlagssæti loka – sagt er Verslunin lokar frekar en Versluninni lokar. Þetta er óvanalegt en þó ekki einsdæmi. Þótt þágufallið haldi sér nú með fjölga og fækka höfðu þessar sagnir nefnifall í frumlagssæti til skamms tíma, á 19. öld og fram á þá 20. Í Fjölni 1844 segir t.d. „Við þetta fjölguðu hófsemdarvinir að vísu talsvert“ og „vínsölumenn og drykkjumenn fækkuðu dag frá degi“. Í andlagssæti þessara sagna var þó þágufall á þessum tíma rétt eins og nú.

Það er þó ekki einhlítt að þágufallið verði að nefnifalli með loka. Á tímarit.is eru t.d. bæði dæmi um kjörstaðir loka og kjörstöðum lokar; hins vegar eingöngu dæmi um verslunin lokar, ekki versluninni lokar. En það er athyglisvert að í mörgum dæmum um verslunin lokar er um að ræða að verið er að leggja verslun af – loka henni endanlega. Það eru því vísbendingar um að málnotendur fari með sögnina á mismunandi hátt eftir því hvort um er að ræða tímabundna eða varanlega lokun.

Þetta er dæmi um hvað maður getur rekist á forvitnilega hluti með því að skoða hvað liggur að baki málbreytingum í stað þess að afgreiða þær umsvifalaust sem „málvillur“ og láta þar við sitja.

Posted on

Valda

Sögnin valda er oft til umræðu í málfarsþáttum, enda er hún ekki einföld í beygingu. Við segjum ég veld í nútíð en í þátíð ég olli, og í lýsingarhætti þátíðar ég hef valdið. Við það bætist að viðtengingarháttur þátíðar er (þótt ég) ylli. Það er engin furða að einhver tilbrigði komi upp í sögn sem hefur svo fjölbreyttar myndir, enda hefur það alla tíð verið svo. Í varðveittum fornum textum koma fyrir 45 mismunandi ritmyndir sem tilheyra þessari sögn, samkvæmt gagnasafni fornmálsorðabókarinnar í Kaupmannahöfn – tölurnar sýna tíðni hverrar myndar:

vallda (11); uolldi (5); valdit (4); ollat (4); valldit (3); valda (3); volldi (3); vollde (3); ollath (3); valldannde (2); ollad (2); olli (2); ollu (2); uallda (2); vallde (2); uelldr (1); volþo (1); volle (1); valldanndde (1); valldim (1); uelldur (1); volld (1); Veldrat (1); uolli (1); volli (1); uolle (1); wollde (1); ỏlli (1); Illi (1); volldv (1); ylldi (1); volldit (1); valldi (1); volldu (1); volldet (1); Valld (1); vylldí (1); valldí (1); volðe (1); volldde (1); olluðu (1); velldr (1); olle (1); vollda (1); velldur (1)

Athugið þó að á þessum tíma var stafsetning ekki samræmd þannig að sama beygingarmyndin getur legið að baki fleiri en einni stafsetningarmynd – væntanlega stendur valdit og valldit fyrir sömu myndina sem í nútímamáli yrði rituð valdið. Sömuleiðis stendur ollat, ollath og ollad fyrir sömu myndina sem í nútímamáli yrði rituð ollað. Fyrrnefnda beygingarmyndin, sem nú er talin rétt, kemur fyrir samtals sjö sinnum í fornum textum samkvæmt þessu, en sú síðarnefnda, sem er talin röng, kemur fyrir samtals níu sinnum.

Myndin ollað hefur haldist gegnum alla málsöguna og var sennilega algengari en valdið fram á 19. öld – hún er t.d. oftast notuð í Fjölni, riti Jónasar Hallgrímssonar, Konráðs Gíslasonar og félaga, þótt myndinni valdið bregði þar einnig fyrir. En eftir miðja 19. öld hefur sennilega verið farið að boða að ollað, svo og ollið sem einnig kemur fyrir, væri röng beyging því að þá fer að draga í sundur með myndunum í tíðni, þótt ollað haldist algeng á fyrsta þriðjungi 20. aldar. Á síðustu árum er sú mynd mjög sjaldgæf á tímarit.is en búast má við að hún sé algengari í talmáli.

Umræða um það hvort ollað/ollið sé rétt eða rangt mál er ófrjó og skilar engu. Í staðinn má íhuga hvers vegna þessi tilbrigði koma upp. Sögnin hefur vitanlega mjög sérstaka beygingu og í slíkum tilvikum er eðlilegt að börn á máltökuskeiði sæki fyrirmyndir í önnur og þekktari orð. Í þessu tilviki gæti t.d. verið um að ræða áhrif frá lýsingarhættinum orðið, af verða. Áhrif frá verða, þ.e. þátíð fleirtölu urðu, gætu líka skýrt myndina ullu sem kemur fyrir í stað ollu. Einnig eru þarna hugsanlega áhrif frá sögninni vella sem er ullu í þátíð fleirtölu og ollið í lýsingarhætti þátíðar.

En fleira er áhugavert við beygingu þessarar sagnar. Hún hefur tvær merkingar: 'orsaka eitthvað' og 'ráða við eitthvað'. En þátíðin olli er bara notuð í fyrrnefndu merkingunni – í síðarnefndu merkingunni hefur sögnin enga þátíð. A.m.k. finnst mér útilokað að segja *Hann olli ekki þessu verkefni. Annar möguleiki væri að fá lánaða þátíð samhljóða sagnar, valda (sem einkum er notuð í skák) og segja *Hann valdaði ekki þessu verkefni – en það finnst mér ekki heldur ganga.

Hvers vegna getur þátíðin olli ekki merkt 'réð ekki við'? Hvers vegna hefur sögnin valda enga þátíð í annarri merkingunni? Þetta er ein af þessum skrítnu sérviskum tungumálsins sem gera það svo áhugavert viðfangsefni.

Posted on

Rétt mál – málstaðall

Á fyrri árum mínum í kennslu fékk ég stundum, einkum frá eldri nemendum, spurningar á við „Er nú búið að leyfa þetta?“, yfirleitt bornar fram með hneykslun í röddinni. Ég man svo sem ekki glöggt um hvað verið var að spyrja, en ég man hins vegar eftir því hverju ég svaraði því að það var alltaf það sama: að ég vissi ekki hver ætti að leyfa það sem spurt var um – nú eða banna það, ef því væri að skipta. Margir virtust halda að til væri – eða ætti að vera – eitthvert yfirvald, kannski Íslensk málnefnd, sem gæti leyft og bannað tiltekið málfar eftir smekk og geðþótta.

Í álitsgerð nefndar um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum sem menntamálaráðherra skipaði og skilaði áliti 1986 var sett fram skilgreining á réttu máli og röngu: „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju“. En jafnframt er bent á að þrátt fyrir þetta geti verið ástæða til að gera upp á milli málvenja, og það sé „í samræmi við meginstefnuna í málvernd að reyna að sporna gegn nýjum málsiðum með því að benda á að þeir séu ekki í samræmi við gildandi málvenjur“. Ég er fullkomlega sáttur við að nota málvenjuna til að dæma um rétt og rangt, og sé raunar ekki annað hugsanlegt viðmið.

En þrátt fyrir þetta viðmið liggur í loftinu óopinber staðall um það hvað megi segja, eða a.m.k. skrifa. Samkvæmt honum á ekki að skrifa mér langar heldur mig langar, ekki við hvorn annan heldur hvor við annan, ekki hjá sitthvorri heldur sinn hjá hvorri, ekki ef hann sé heima heldur ef hann er heima, ekki eins og mamma sín heldur eins og mamma hennar, ekki vegna lagningu heldur vegna lagningar, ekki það var hrint mér heldur mér var hrint, ekki rétta upp hendi heldur rétta upp hönd, ekki ég er ekki að skilja þetta heldur ég skil þetta ekki, ekki báðir tónleikarnir heldur – ja, hvað? Hvorir tveggja tónleikarnir? Hvorirtveggju tónleikarnir? Hver segir það eiginlega?

Það er enginn vafi á því að fyrra afbrigðið í hverri tvennd, það sem á ekki að skrifa, er málvenja margra – í sumum tilvikum örugglega meirihluta þjóðarinnar. Þess vegna er þetta allt saman rétt mál, samkvæmt þeirri skilgreiningu sem áður var vitnað til. En þrátt fyrir að um sé að ræða útbreiddar málbreytingar, í sumum tilvikum áratuga eða jafnvel aldar gamlar, er samt ekki „búið að leyfa þetta“, í þeim skilningi að það sé komið inn í hinn óopinbera staðal, og ég býst við að margir í þessum hópi telji þetta hinar örgustu málvillur.

Ég er samt sem áður þeirrar skoðunar að við eigum að taka áðurnefndar málbreytingar í sátt. Þær eru engin málspjöll – hrófla ekki við grundvelli málkerfisins og torvelda ekki skilning. Í stað þess að verja kröftum okkar í baráttu gegn þeim eigum við að einbeita okkur að því sem raunverulega skiptir máli fyrir framtíð íslenskunnar – að tryggja að hún sé nothæf, og notuð, á öllum sviðum. En ég veit auðvitað að mörgum finnst það undansláttur, uppgjöf og tilræði við íslenskuna að viðurkenna þessar breytingar. Og það er eðlilegt – skilgreining margra á réttu máli er nefnilega þessi: „Rétt mál er það sem mér var kennt að væri rétt mál.“

Posted on

Íslenskur málstaðall

Það sem stundum er kallað „íslenskur málstaðall“ – viðmið okkar um viðeigandi málsnið og rétt mál – varð til á 19. öld þótt ræturnar séu vissulega í fornmáli. Sjálfsagt má segja að Rasmus Kristján Rask, Sveinbjörn Egilsson og Fjölnismenn hafi lagt drög að staðlinum en hann mótaðist svo ekki síst í Lærða skólanum eftir miðja öldina, einkum hjá Halldóri Kr. Friðrikssyni sem var aðalíslenskukennari skólans í hálfa öld. Björn Guðfinnsson lagði svo lokahönd á staðalinn með málfræði sinni sem flestir Íslendingar lærðu frá því um 1940 og langt fram eftir öldinni – sumir jafnvel fram á þessa öld.

Þessi staðall miðast því við það sem þótti vandað ritmál fyrir 80-100 árum. En það þarf ekki að fara nema aldarþriðjung aftur í tímann til að komast í þjóðfélag sem var gerólíkt því sem nú er. Þá var bara ein útvarpsstöð á Íslandi og bara ein sjónvarpsstöð – en fimm dagblöð. Í öllum þessum miðlum sá fólk og heyrði einungis vandað mál sem samræmdist staðlinum. Talað mál í útvarpi og sjónvarpi var nær allt undirbúið og að verulegu leyti með ritmálssniði. Blöðin voru vandlega prófarkalesin. Almennir málnotendur komust í raun varla í kynni við ritaða íslensku annarra almennra málnotenda nema í einkabréfum.

Er hægt eða skynsamlegt að ætlast til að sama málsnið þjóni nútímanum og þessari veröld sem var? Nú er þetta nefnilega allt breytt eins og allir vita. Nú er í landinu fjöldi útvarps- og sjónvarpsstöðva þar sem hver sem er getur látið dæluna ganga endalaust, án nokkurs handrits eða yfirlestrar. Dagblöðum hefur fækkað og prófarkalestri þeirra hrakað, auk þess sem netmiðlar hafa að verulegu leyti komið í stað prentaðra blaða og eru enn minna yfirlesnir. Við þetta bætast samfélagsmiðlar en algerlega óyfirlesnir textar þeirra eru helsta lesefni margra. Nú getur hver sem er skrifað – eftirlitslaust – texta sem allur heimurinn hefur aðgang að.

Það er í sjálfu sér frábært. Það er stórkostlegt að það skulu ekki lengur vera forréttindi fárra útvalinna að skrifa fyrir lýðinn. Það er augljóslega stórt skref í lýðræðisátt og á án efa eftir að hafa meiri áhrif á ýmsum sviðum þjóðfélagsins en við gerum okkur grein fyrir. En þetta hefur vitanlega mikil áhrif á málstaðalinn og hugmyndir fólks um það hvernig íslenskt ritmál sé. Þegar talsverður hluti af því máli sem fólk heyrir og sér fylgir ekki staðlinum, þá er ekki von að ungt fólk tileinki sér hann sjálfkrafa og áreynslulaust.

Við þetta bætist að íslenskan – daglegt mál – hefur vitaskuld breyst talsvert undanfarna öld. En vegna þess að staðallinn hefur ekki breyst hefur fjarlægðin þarna á milli aukist. Það þýðir aftur að málnotendur þurfa að leggja meira á sig og fá meiri kennslu og lesa meira af formlegu máli til að tileinka sér staðalmálið. En raunin er sú að þessu er þveröfugt farið. Íslenskukennsla hefur síst aukist, og rannsóknir sýna að ungt fólk les sífellt minna af bókum, þar sem staðlinum er helst fylgt.

Þetta getur ekki endað nema á einn veg: Það myndast gjá milli máls almennings og staðalsins. Þeir nemendur sem búa við ákjósanlegar aðstæður, t.d. lesa mikið og eiga langskólagengna eða aldraða foreldra – eða eru nördar – munu geta tileinkað sér staðalmálið til hlítar enn um sinn, en hætt er við að meginhlutinn geri það ekki. Hvað gerum við þá? Eigum við að halda fast í óbreyttan staðal eða breyta honum? Hverjar ættu þær breytingar að vera? Hvernig væri hægt að standa að þeim?