Posted on

Meinlausar málbreytingar

Það er í eðli tungumála að breytast – það er óhjákvæmileg afleiðing af hlutverki þeirra og flutningi milli kynslóða. Okkur finnst samt flestum að íslenskan eigi að vera eins og hún var – eða eins og okkur var kennt að hún ætti að vera – þegar við vorum að alast upp. Við getum að vísu sætt okkur við að það þurfi ný orð fyrir nýjungar af ýmsu tagi, þótt okkur finnist þau oft óþjál og framandi í fyrstu, en að öðru leyti viljum við að málið haldist óbreytt – framburður, beygingar, setningagerð, merking orða og orðasambanda og annað sé eins og við erum vön. Ef út af því bregður finnst okkur iðulega að um rangt mál sé að ræða sem nauðsyn sé að leiðrétta. Mér sýnist að algengustu umkvörtunarefnum af þessu tagi megi skipta í tíu flokka.

(1) Röng fallmynd notuð (byggingu í stað byggingar, einkanir í stað einkunnir, trúnna í stað trúna); (2) rangt fall notað (mér langar í stað mig langar, spá í þessu í stað spá í þetta); (3) eintöluorð notað í fleirtölu (verð, orðrómar, fælnir); (4) rangt orð notað (ristavél í stað brauðrist, fólk í stað maður, opna hurð í stað opna dyr); (5) orð eða orðasamband notað í rangri merkingu (erlendis, notast við, ávarpa málið); (6) orð eða orðasamband ofnotað (taka samtalið, heldur betur); (7) óþarft orð notað (hán, leghafi); (8) eftiröpun erlends orðs eða orðasambands notuð (aðvörun, snjóstormur, renna út á tíma); (9) óaðlagað erlent orð notað (ókei, sorrí, næs); (10) röng setningagerð notuð (það var barið hana, öll eru velkomin, ég vona að hann kemur).

Ég hef skrifað um öll þau dæmi sem hér eru nefnd, og fjölmörg önnur úr flestum þessum flokkum. En ég er orðinn sjötugur og alinn upp í sveit þannig að sú íslenska sem ég tileinkaði mér endurspeglar málið eins og það var um miðja tuttugustu öld, og þótt ég hafi tekið upp sumar þeirra nýjunga sem nefndar eru hér að framan samræmast þær í fæstum tilvikum mínu upphaflega máli. En þótt ég kunni misjafnlega vel við þessar breytingar sé ég enga ástæðu til að amast sérstaklega við þeim, hvað þá að hafa áhyggjur af þeim eða áhrifum þeirra á tungumálið og framtíð þess, enda er engin þeirra líkleg til að valda breytingu á grunnstoðum málkerfisins eða torvelda svo að heitið geti skilning komandi kynslóða á málfari fyrri tíma.

Vissulega er samt ýmislegt þarna sem rétt er að gefa gætur. Það væri t.d. mikil eftirsjá að viðtengingarhættinum þótt breytingar á notkun hans þurfi ekki endilega að tákna að hann sé að hverfa. Það er líka rétt að gjalda varhug við mikilli aukningu á eftiröpun enskra sambanda eins og renna út á tíma – ekki vegna þess að slík sambönd séu óæskileg í sjálfu sér, heldur vegna þess að hugsunarlaus upptaka þeirra getur bent til þekkingarskorts á íslenskri málhefð. Mikil fjölgun á óaðlöguðum erlendum orðum gæti líka til lengri tíma haft áhrif á hljóðskipunarreglur málsins og veikt beygingakerfið. En engin ástæða er til að hafa áhyggjur af breytingum á föllum og fallmyndum, fleirtölu orða sem áður voru talin eintöluorð, eða breyttri merkingu stöku orða.

Íslenskunni stafar engin ógn af því að breytast. Hún hefur alltaf verið að breytast, er að breytast, og mun halda áfram að breytast hvort sem okkur líkar betur eða verr og hversu mikið sem við berjumst gegn tilteknum breytingum – og hún þarf sífellt að vera að breytast til að þjóna samfélaginu á hverjum tíma. Það er hins vegar fullkomlega eðlilegt og mannlegt að ýmsar breytingar fari í taugarnar á okkur vegna þess að við viljum hafa málið eins og við erum vön. En við megum alls ekki láta pirring okkar bitna á þeim sem nota málið öðruvísi en við, heldur verðum að sýna máli annarra – líka þeirra sem eru að læra íslensku – virðingu og tillitssemi. Aðalatriðið er að íslenska sé nothæf á öllum sviðum og notuð ef þess er nokkur kostur.

Posted on

„Málvilla“ getur hætt að vera „villa“

Ég var í gær að skrifa um það hversu erfitt er að þvo málvillustimpilinn af tilbrigðum sem hafa einu sinni fengið hann á sig – í sumum tilvikum algerlega að ósekju alla tíð, eins og sambandið forða slysi. Í öðrum tilvikum hefur stimpillinn vissulega átt rétt á sér í upphafi vegna þess að tilbrigðið sem um er að ræða var frávik frá málhefð á þeim tíma. En ef það hefur samt sem áður breiðst út og er nú orðið málvenja og eðlilegt mál fjölda fólks, jafnvel verulegs hluta málnotenda, þá er vitanlega engin skynsemi í því að halda áfram að líta á það sem „frávik“ eða „málvillu“. Málið hefur alltaf verið að breytast, er enn að breytast, og mun halda áfram að breytast, alveg sama hvað við berjumst gegn breytingum og berjum hausnum við steininn.

Í fjörutíu ár hefur legið fyrir almennt viðurkennd skilgreining á „réttu“ máli og „röngu“ sem sett var fram í álitsgerð nefndar um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum 1986 – „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju“. Skilgreiningin er orðuð svo á Vísindavefnum: „Rétt íslenskt mál er málnotkun sem samræmist (einhverri) íslenskri málvenju en rangt íslenskt mál samrýmist engri íslenskri málvenju.“ Það er ljóst að fjöldi þeirra tilbrigða sem venja er að kalla „málvillur“ hljóta að teljast „rétt mál“ samkvæmt þessari skilgreiningu, svo sem hin svokallaða „þágufallssýki“ sem sannanlega er málvenja talsverðs hluta málnotenda. En það er samt enn barist gegn henni og hún talin röng.

Það sem liggur á bak við tregðu kennslubóka, kennara og málsamfélagsins til að breyta viðhorfi til útbreiddra tilbrigða í máli og hætta að telja þau „villur“ er ekki síst sú tvíhyggja sem okkur hefur verið innrætt, meðvitað og ómeðvitað – að öll tilbrigði í máli séu annaðhvort „rétt“ eða „röng“, og í hverju tilviki sé aðeins eitt „rétt“ en öll hin „röng“. Okkur finnst að ef við breytum viðhorfi til einstaks tilbrigðis, förum að telja eitthvað „rétt“ sem áður hafði verið talið „rangt“, þá leiði það jafnframt til þess að það sem hafði verið talið „rétt“ verði núna „rangt“. En auðvitað er það ekki þannig – það tilbrigði sem áður var talið „rétt“ heldur áfram að vera það svo lengi sem það er eitthvað notað. Það hafa alltaf verið tilbrigði í málinu og málið þolir það alveg.

Auk þessa finnst mörgum að ef hætt er að berjast gegn tilteknu tilbrigði sem hefur verið talið „rangt“ sé með því verið að segja að starf kennara og foreldra við að kenna börnum „rétta“ tilbrigðið og leiðrétta þau þegar þau notuðu það „ranga“ hafi verið tilgangslaust, unnið fyrir gýg – þarna sé í raun verið að henda blautri tusku í andlit þeirra sem hafi lagt líf og sál í þessa baráttu fyrir réttu og vönduðu máli. Mér finnst stundum að þegar kemur að tilvikum af þessu tagi liggi á bak við andstöðu gegn breytingum hugmynd sem mætti orða svo: Þetta er rangt af því að það hefur verið kennt svo lengi að það sé rangt. Þess vegna sé ekki hægt að bakka – það sé undanhald, eftirgjöf eða uppgjöf, viðurkenning á því að við höfum verið á rangri leið.

Við þurfum að breyta þessu hugarfari og átta okkur á – og viðurkenna – að það er engin minnkun að því að skipta um skoðun og breyta um viðhorf til einstakra tilbrigða í máli. Málið breytist hvort sem okkur líkar betur eða verr, og þekking á því breytist líka og eykst. Það er þess vegna fullkomlega eðlilegt að það breytist hvaða tilbrigði í málinu eru talin „rétt“. Það er hins vegar fullkomlega óeðlilegt að halda dauðahaldi í allar reglur sem okkur voru innrættar, oft fyrir mörgum áratugum, um það hvað sé „rétt“ og hvað „rangt“ – ef þessar reglur eru í andstöðu við nútíma þekkingu eða málið eins og það er notað í dag. Með því að neita að horfast í augu við breytingar – og viðurkenna þær – gerum við málinu margfalt meiri skaða en gagn.

Posted on

Brennimerkt orðalag

Stundum gerist það að eðlilegt og hefðbundið íslenskt orðalag sem er í fullu samræmi við málhefð fær að ósekju á sig þann stimpil að vera „rangt mál“ – oftast vegna misskilnings eða vanþekkingar. En þegar orð eða orðalag hefur fengið á sig þennan stimpil er hægara sagt en gert að þvo hann af, og dugir ekki þótt sýnt sé með skýrum rökum að hann eigi ekki rétt á sér – eftir sem áður er hamrað á því að þetta sé rangt. Því er eiginlega nær að tala um brennimark en stimpil. Eitt skýrasta dæmið um þetta er sambandið forða slysi sem barist hefur verið gegn undanfarin sjötíu ár a.m.k., þrátt fyrir að Helgi Hálfdanarson hafi sýnt fram á það með skýrum rökum fyrir meira en fimmtíu árum að þetta samband er fullkomlega eðlilegt og rétt mál.

Þetta orðalag hefur tíðkast a.m.k. síðan á nítjándu öld – elsta dæmi sem ég finn um það er í Stefni 1899: „með því mætti forða slysum.“ Eldri dæmi má finna með öðrum andlögum en slys. Í Tímanum 1872 segir: „forðað þeirri eyðilegging, sem ann­ars hefði ber­lega legið fyrir höndum“. Í Ísafold 1876 er talað um „að leita láns úr landssjóði til að forða hallæri hjer í sjávarsveit­unum“. Í Norðanfara 1877 segir: „farið er að skjóta saman stórfje til að forða meiri mannfelli“. Í Fróða 1882 seg­ir: „sendu þangað matvæli á 10 hestum til að forða hung­urs­neyð í bráð“. Í Þjóðólfi 1883 segir: „svo mál­leysu sé forðað“. Í Ísafold 1888 segir: „þar varð forðað miklu óhappi“. Í Ísafold 1891 segir: „Hjer hafa hollar hend­ur að hlúð og forðað grandi“.

Fram yfir miðja tuttugustu öld var margoft talað um að forða slysi án þess að nokkrum þætti það athugavert að því er séð verði. En í „Móðurmálsþætti“ Vísis 1956 sagði Eiríkur Hreinn Finnbogason: „Sögnin að forða er oft ranglega notuð í merkingunni að koma í veg fyrir, afstýra. Oft er sagt og ritað: Hann forðaði slysi, lögregan forðaði vandræðum. […] Öll þessi dæmi eru röng. Forða merkir að bjarga. Forða slysi merkir því að bjarga slysi, vandræðum að bjarga vandræðum. En hvorki slysum né vandræðum. er forðað (bjargað), heldur er þeim afstýrt, komið í veg fyrir þau.“ Á næstu áratugum og fram undir þetta má finna fjölda dæma í blöðum og tímaritum um að amast hafi verið við orðalaginu, sem er talið óæskilegt í Málfarsbankanum.

En svolítið öðruvísi dæmi eru líka til. Í Þjóðólfi 1856 segir: „til að forða þeim kúgun þeirri, sem hér er kvartað yfir“. Í Þjóðólfi 1873 segir: „að forða Reykvíkingum öllu grandi, öllum vansa“. Í Kristilegu smáriti handa Íslendingum 1865 segir: „Vak þú yfir mér í dag, og forða mér öllu illu“. Í Baldri 1868 segir: „geta þó fengið björg til að forða sjer hungri“. Í Þjóðólfi 1869 segir: „til að forða þeim eyðingu“. Í Þjóðólfi 1873 segir: „biðja stjórnina að forða sér hungrsdauða“. Eldri dæmi eru líka til: „skipar oss því að flýja fyrir henni og forða oss hennar nánd“ segir í Fimmtíu heilögum hugvekjum frá 1630. „Forða hríðum / forða mér við hríðum“ segir í „Áradalsóði“ eftir Jón Guðmundsson lærða frá svipuðum tíma – og fleiri dæmi mætti nefna.

Í þessum dæmum tekur forða sem sé með sér tvö þágufallsandlög, forða einhverjum einhverju, eins og t.d. lofa og úthlutahún lofaði mér öllu fögru, hann úthlutaði þeim verkefnum. Það er alkunna að þessar sagnir geta sleppt fyrra andlaginu en haldið því seinna eftir – hún lofaði öllu fögru, hann úthlutaði verkefnum. Uppruna dæma eins og forða mannfelli / hungursneyð /óhappi / grandi / slysi o.s.frv. má greina á sama hátt – þ.e. á bak við þau liggur forða (þjóðinni) mannfelli / hungursneyð, forða (sér) óhappi / grandi / slysi o.s.frv. Í dæmum eins og forða slysi, forða tjóni, forða óhappi er þágufallsandlagið upprunnið sem seinna andlag sagnarinnar, en andlagið í forða sér, forða lífi sínu, forða barninu o.s.frv. sem það fyrra.

Þótt lofa og úthluta taki tvö þágufallsandlög eru merkingarleg vensl þeirra við sögnina því ólík. Annað þeirra vísar til persónu, þiggjanda loforðs eða úthlutunar, hitt vísar til þess hlutar eða verknaðar sem er lofað eða úthlutað. Svipað er með forða eins og Helgi Hálfdanarson benti á í Morgunblaðinu 1974: „Glöggt dæmi um þetta er orðalagið að forða slysi og ofsóknin á hendur því. Áratugum saman hefur þessi ágæti talsháttur verið hundeltur með þeim freka útúrsnúningi, að hann hljóti að merkja forða slysinu frá einhverju. Engum getur þó dulizt, að merkingin er sú, að einhverju, sem ekki er nefnt, er forðað frá slysi. […] [M]unu vandfundin boðleg rök gegn þessari notkun sagnarinnar að forða, enda var hún algeng til skamms tíma.“

En samt var haldið áfram að amast við forða slysi. Í þættinum Íslenskt mál í Morgunblaðinu 2004 segir Jón G. Friðjónsson: „Í nútímamáli ber oft við að sögnin sé látin merkja ‘koma í veg fyrir e-ð, afstýra e-u, hindra e-ð’. […] Slík notkun mun einungis vera kunn úr nútímamáli og getur ekki talist til fyrirmyndar.“ Í sama þætti í Morgunblaðinu 2006 segir Jón: „Í pistlum þessum hefur áður verið á það bent að sögnin forða er alloft notuð með sérkennilegum hætti. […] [G]uð forði okkur frá því að þetta nýmæli nái að festa rætur.“ Í Fréttablaðinu 2007 segir Njörður P. Njarðvík: „Ég hélt að allir væru hættir þeirri vitleysu að „forða slysum“ […]. Hvert á að forða slysum? Frá hverju á að forða slysum? Sjá ekki allir hvað þetta er vitlaust?“

Nýjustu dæmin af þessu tagi sem ég hef séð eru í dálknum „Málið“ í Morgunblaðinu bæði 2018 og 2019. Líklega hefur þessi barátta haft einhver áhrif – a.m.k. hefur dæmum um forða slysi á tímarit.is farið fækkandi á síðustu áratugum. Útskýring Helga Hálfdanarsonar á því að ekkert sé athugavert við að tala um að forða slysi virðist því ekki hafa haft nein áhrif – sem er sérlega áhugavert. Helgi var nefnilega iðinn við að benda á ýmis tilbrigði í máli sem hann taldi röng, og yfirleitt var tekið mark á honum um það – margt af því sem hann upphófst með (og er sumt býsna vafasamt) hefur t.d. ratað inn í Málfarsbankann. En þarna var hann að reyna að endurreisa sambandið forða slysi – en það gekk ekki. Sambandið var brennimerkt – og er það enn.

Posted on

Hvenær er hús tveggja hæða?

Við vitum öll að áhrifamikil öfl í þjóðfélaginu – stjórnvöld, fjölmiðlar, stórfyrirtæki og valdamiklir einstaklingar – leitast sífellt við að hafa áhrif á skoðanir okkar og gerðir og beita til þess tungumálinu. Það er auðvitað hluti af lýðræðislegri umræðu og ekkert við það að athuga sé það gert á heiðarlegan hátt. En öðru máli gegnir þegar tungumálinu er misbeitt og reynt að telja okkur trú um að íslensk orð sem við öll þekkjum, og vitum hvað merkja, merki í raun eitthvað allt annað. Þetta er því miður alltof algengt en eitt grófasta dæmi um þetta sem ég hef séð nýlega er að finna í yfirlýsingunni „Um uppbyggingu við Skaftafell – skýringar og samhengi“  sem bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar birti á vef sveitarfélagsins.

Yfirlýsingin er birt vegna gagnrýni sem hefur komið fram á byggingu gistihúsa í grennd við Skaftafell, ekki síst að húsin sem áttu að vera á einni hæð eiga nú að vera tveggja hæða. Bæjarstjórinn fullyrðir í Vísi að gagnrýnin eigi ekki rétt á sér: „Það sem skiptir máli er að uppbyggingin samræmist samþykktu skipulagi og settum skilmálum“ segir hann. Það kann vel að vera og ég geri ekki athugasemdir við það, heldur við orð bæjarstjórans í áðurnefndri yfirlýsingu – „húsin eru ekki tveggja hæða í hefðbundnum skilningi“. Í yfirlýsingunni kemur þó fram að milligólf séu í húsunum: „Hvort í húsum séu milligólf eða ekki hefur lítil sem engin áhrif á það hvernig byggðin birtist í landslaginu“ – sem má í sjálfu sér vel vera rétt.

En frá sjónarmiði íslenskunnar snýst málið ekki um það, heldur um þá fullyrðingu bæjarstjórans um eðli húsanna að þau séu „ekki tveggja hæða í hefðbundnum skilningi“. Á myndum má glöggt sjá að gluggarnir á þremur hliðum húsanna eru á tveimur hæðum, auk þess sem húsin eru með svölum. Hús með milligólfi, gluggum á þremur hliðum yfir öðrum gluggum og svölum að auki eru vitanlega tveggja hæða í öllum skilningi og það er augljós og vísvitandi rangfærsla að reyna að halda öðru fram. Ekki bara það – það er dónaskapur og móðgun við málnotendur að reyna að telja þeim trú um að íslensk orð merki eitthvað annað en þau merkja í málvitund almennings. Slíka misnotkun íslenskunnar verður að fordæma harðlega.

Posted on

Að láta lífið

Í grein um Michael Jackson í DV í gær rakst ég á setninguna „Eftir að hann lét lífið árið 2009 hafa þessar ásakanir aftur farið á mikið flug“. Ég staldraði við orðalagið lét lífið vegna þess að ég veit ekki betur en Jackson hafi dáið úr hjartaáfalli vegna ofneyslu lyfja, og það samræmist ekki þeirri merkingu sem ég legg í sambandið láta lífið sem í Íslenskri nútímamálsorðabók er skýrt 'deyja (af slysi eða af völdum árásar)'. Það er svigagreinin sem þarna skiptir höfuðmáli – sambandið láta lífið er – eða var – ekki samheiti við sögnina deyja heldur vísaði til dauða af tilteknum orsökum. Vissulega má halda því fram að ofneyslan sem olli dauða Michael Jacksons hafi verið slys í einhverjum skilningi en merkingarvíkkun sambandsins er samt ekki einsdæmi.

Reyndar má finna gömul dæmi þar sem sambandi láta lífið er notað um dauðdaga sem ekki orsakast af slysum eða árásum í venjulegum skilningi. Í Heimskringlu 1893 segir t.d.: „Ef eigi er bót á ráðin þegar í stað, hljóta margir að láta lífið af hungri.“ Í Lögbergi 1894 segir: „Canada missir góða borgara sína svo hundruðum skiptir þannig, að þeir láta lífið af því að drekka óhreint vatn.“ En vissulega má flokka hungursneyð og eitrun undir einhvers konar slysfarir. Það er reyndar athyglisvert að frá því fyrir 1890 og alveg fram á fjórða áratug tuttugustu aldar er þetta samband margfalt meira notað í vesturíslensku blöðunum en í blöðum gefnum út á Íslandi, af hverju sem það kann að stafa. En þar er langoftast um að ræða dauðsföll í slysum eða ófriði.

Einstöku dæmi af svipuðu tagi koma fyrir alla tuttugustu öldina, en um og eftir síðustu aldamót virðist dæmum þar sem láta lífið er notað án þess að um slys eða ófrið sé að ræða fara smátt og smátt fjölgandi. Í Í Víkurfréttum 2000 segir: „Margir einstaklingar hafa þegar látið lífið vegna E-töflunnar.“ Í DV 2001 segir: „Um 80 manns í Evrópu hafa látið lífið af nýju afbrigði Creutzfeldt-Jakobs-veikinnar.“ Í Fréttablaðinu 2013 segir: „lesbíur séu 60 prósentum líklegri en gagnkynhneigðar konur til að láta lífið úr krabbameini.“ Í Bændablaðinu 2021 segir: „Þá var talið að um 700.000 manns létu lífið á ári vegna sýklalyfjaónæmis.“ Í Fréttablaðinu 2021 segir: „Milljónir voru án rafmagns og vatns og tugir létu lífið í kuldakastinu.“

Sambandið láta lífið var líka iðulega notað um dauðsföll af völdum kórónuveirunnar. Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Veiran á upptök sín að rekja til Wuhan í Kína en töluverður fjöldi hefur látið lífið vegna hennar.“ Í Fréttablaðinu sama ár segir: „Á fjórða hundrað hafa nú látið lífið af völdum kórónaveirunnar.“ Í Morgunblaðinu 2021 segir: „Alls voru 3.711 manns um borð en þar af smituðust 712 og 14 létu lífið.“ Einnig virðist sambandið oft vera notað þegar fólk fyrirfer sér. Í Monitor 2011 segir: „Það var sorglegt þegar hönnuðurinn Alexander McQueen lét lífið í febrúar.“ Í Tímariti hjúkrunarfræðinga 2024 segir: „Víða um heim eru starfrækt samtök til forvarnar og stuðnings við eftirlifendur þeirra sem láta lífið í sjálfsvígi.“

Ljóst er að notkun sambandsins láta lífið um dauðsföll af völdum sjúkdóma, einkum farsótta, lyfjaneyslu og sjálfsvíga hefur aukist verulega á síðustu árum. Merking þess hefur því greinilega víkkað – ekkert af þessu fellur undir áðurnefnda orðabókarskilgreiningu, 'af slysi eða af völdum árásar'. En það táknar ekki að sambandið sé orðið algert samheiti við deyja. Mér sýnist að það sé sameiginlegt langflestum dæmum um sambandið að um er að ræða ótímabæran dauða. Einstöku dæmi má vissulega finna sem ekki falla undir það, s.s. „Afi lét lífið 92 ára að aldri“ í Morgunblaðinu 2011, en það er undantekning. Skilgreiningin gæti því verið 'deyja ótímabærum dauða (af völdum slyss, árásar, ófriðar, loftslags, farsóttar, lyfjaneyslu, sjálfsvígs o.fl.)'.

Posted on

Hvers vegna eru jólin stundum rauð?

Í Facebook-hópnum „Skemmtileg íslensk orð“ var spurt hvers vegna andstæðan við hvít jól – sem er auðskilið – væri rauð jól en ekki auð jól. Í Íslenskri orðabók er ein merking lýsingarorðsins rauður sögð 'snjólaus, auður' með dæmunum rauð jörð og rauð jól. „Með rauð jól er því átt við snjólausa auða jörð um jól“ segir á Vísindavefnum í svari við spurningunni „Af hverju er snjólausum jólum lýst sem „rauðum jólum“ en ekki svörtum?“ En þetta svarar samt ekki þeirri spurningu hvers vegna lýsingarorðið rauður getur haft þessa merkingu – og eingöngu með þessum tilteknu nafnorðum (og að því er virðist einnig með nafnorðinu vetur í hendingunni „Veturinn rauður, vorið blítt“ úr kvæði frá átjándu öld, en það er skylt).

Á Vísindavefnum er bent á að til er orðatiltæki sem „felur í sér þá trú manna að væri jörð auð um jól yrði snjór um páska og öfugt“. Elsta dæmið um það er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 1864: „Ef jól eru rauð, verða hvítir páskar, en rauðir, ef jól eru hvít“. Þar kemur einnig fram að svipað orðasamband er til í dönsku – en grøn jul bringer snehvid påske og hvid jul giver en grøn påske. Þessi sambönd eru svo lík að milli þeirra hljóta að vera einhver tengsl og þá er mun líklegra að íslenska orðasambandið hafi verið búið til með hliðsjón af því danska en öfugt. Munurinn er sá að í dönsku er talað um græn jól eða páska en í íslensku um rauð – „grænn merkir þarna 'snjólaus, auður' eins og rauður í íslensku“ segir á Vísindavefnum.

Það er auðskilið hvers vegna grænt er notað í dönsku – það er litur grassins. En hvers vegna verða íslensku jólin rauð? Það væri auðvitað fráleitt að tala um græn jól á Íslandi – þótt gras sem grær á ræktuðum túnum nútímans geti verið býsna grænleitt um jólaleytið var það ekki þannig áður fyrr. Þegar danska orðatiltækið var yfirfært á íslensku þurfti því að finna eitthvert annað lýsingarorð í stað þess að hafa jólin græn. Ef verið er að nota litarorð á annað borð liggur beint við að tala um rauð jól vegna þess að það slær oft rauðleitri slikju á sölnað gras eða sinu í vetrarsólinni. En auðvitað kann líka vel að vera að þetta hafi ekki verið upphafið, heldur hafi verið talað um rauð jól og rauða jörð löngu áður en áðurnefnt orðatiltæki kom inn í málið.

Ég held sem sé að það sé í raun misskilningur að lýsingarorðin rauður í íslensku og grøn í dönsku merki 'snjólaus, auður' í þessum samböndum, heldur hafi þau upphaflega sína eiginlegu litarmerkingu í þeim en merkingin 'snjólaus, auður' er í raun forsenda þess að liturinn komi fram. Í dönsku er þetta augljóst, en í íslensku kannski ekki eins, vegna þess að í nútímanum er sölnað gras ekki áberandi í umhverfi okkar flestra. En það hlýtur að vera einhver skýring á því að rauður virðist merkja 'snjólaus, auður' með orðinu jörð, og svo jól þar sem það vísar til jarðarinnar, og ég sé ekki aðra en þessa. Það er aldrei talað um t.d. rauð fjöll, rauða kletta eða rauðar götur sem búast mætti við ef rauður merkti í raun 'snjólaus, auður'.

Posted on

Láttu vaða!

Út frá sambandinu láta vaða á súðum sem ég var að skrifa um í gær fór ég að skoða sambandið láta vaða sem er skýrt 'láta verða af því, framkvæma (það)' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Þetta samband er hvorki að finna í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 né Íslenskri orðabók sem getur bent til þess að það sé ekki gamalt þótt vitaskuld komist ekki allt í orðabækur – en ég finn ekki heldur nein gömul dæmi um sambandið í þessari merkingu í textum. Í eldri dæmum er augljóslega vísað til tungumálsins, ýmist í samböndum eins og láta <þetta> vaða sem er gefið  í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrt '(þora að) segja það', eða láta allt vaða sem er gefið í Íslenskri orðabók og skýrt 'segja hvað sem vera skal, hvað eina sem kemur í hugann'.

Í bréfi frá 1852 birtu í Akranesi 1956 segir: „Ég læt allt vaða í einu, því naumur er tími.“ Í Speglinum 1937 segir: „párið þið nú, strákar, meðan andinn er yfir mér og ég læt vaða.“ Í Lögbergi 1953 segir: „Dregur Gestur að svo búnu hverja myndina annarri háðulegri af þeim félögum og lætur allt vaða, hversu svívirðilegt sem það er.“ Í Mánudagsblaðinu 1956 segir: „Sá sem er ófeiminn og lætur allt vaða, stendur án efa betur að vígi en sá, sem er feiminn, hikandi og fullur af vanmáttarkennd.“ Í Alþýðublaðinu 1958 segir: „Hitt smíðar glópa, að láta allt vaða, sem í hugann kemur.“ Í Morgunblaðinu 1985 segir: „Þú minnir fólk á að viðra skoðanir sínar og skrifa þér eða hringja [og því] sest ég nú niður mitt í sláturtíðinni og læt vaða.“

Í þessum dæmum virðist merkingin vera býsna nálægt merkingunni í sambandinu láta vaða á súðum sem er skýrt 'tala mikið og láta allt flakka' í Íslenskri nútímamálsorðabók og trúlegt að um sé að ræða styttingu á því sambandi. En á seinni árum hefur merkingin víkkað. Í Vikunni 1962 segir: „ég galaði í hann á móti og sagði honum að láta vaða.“ Í Austurlandi 1964 segir: „Loka bara augunum og láta vaða“. Í íþróttafrétt í DV 1975 segir: „ég lét vaða en framhjá.“ Í auglýsingu í Morgunblaðinu 1981 segir: „Sjóarinn eldhressi – með leppinn – lætur vaða.“ Í DV 1982 segir: „Þá fyrst fór að skyggja þegar stúdentar sem kenna sig við umbætur létu vaða.“ Í þýðingu á myndasögu í Morgunblaðinu 1985 segir „Ég læt vaða!“ (þýðing á „Here I go!“).

Dæmum um þessa merkingu á tímarit.is fer svo ört fjölgandi á síðasta áratug tuttugustu aldar og einkum eftir aldamót – eru hátt í níu hundruð í Risamálheildinni. Það er nokkuð ljóst að merkingarbreytingin stafar af því að í stað þess að skilja setningar eins og ég læt vaða sem 'ég hika ekki við að segja það mig langar til' hafa málnotendur farið að skilja þær almennari skilningi sem 'ég hika ekki við að framkvæma það sem mig langar til'. Sú víkkun er í sjálfu sér mjög skiljanleg og eðlileg. Þróunin virðist sem sé vera láta vaða á súðum > láta <þetta, allt> vaða > láta vaða. Þetta er skemmtilegt dæmi um hvernig málið er alltaf að breytast – ný orð og orðasambönd verða til, oft án þess að við veitum því athygli. Þannig helst málið lifandi.

Posted on

Að (láta) vaða á súðum

Í fyrirsögn á mbl.is í dag segir „Össur óð á súðum“. Sambandið láta vaða á súðum er vitanlega vel þekkt og skýrt 'tala mikið og láta allt flakka' í Íslenskri nútímamálsorðabók, og sú er merkingin augljóslega í umræddri frétt. En eins og orðabókardæmið sýnir er sambandið venjulega haft með sögninni láta. Orðið súð merkir hér 'ytra byrði skipshliðar' og í bókinni Mergur málsins segir Jón G. Friðjónsson: „Líkingin er dregin af mikilli siglingu þar sem ekki er skeytt um það þótt öldurnar skelli á byrðingnum, súðunum.“ Eins og Jón nefnir er eldri mynd sambandsins láta vaða með súðum en elsta dæmi um hana er úr bréfi frá 1831: „eg læt allt vaða með súðum.“ Aðeins átta dæmi eru um þessa mynd á tímarit.is og hún er löngu horfin úr málinu.

Elsta dæmi sem Jón nefnir um láta vaða á súðum er litlu yngra – úr frásögn frá því um miðja nítjándu öld sem birtist í Blöndu 1924-1927: „Jón tíkargjóla var sauðheimskur, búrmæltur og drafandi í máli, en varð það á, sem flestum heimskum að tala fljótt og láta munninn vaða á súðum, sem menn segja.“ Þarna tekur sögnin láta andlag, munninn, en oftast er andlagi sleppt og vaða á súðum kemur strax á eftir láta. Þannig segir t.d. í Ísafold 1890: „Eins er meira, miklu meira, varið í að forða efnatjóni fyrir almenning, heldur en að láta vaða á súðum og allt eiga sig afskiptalaust, þangað til í óefni er komið.“ Ef andlag fylgir er það oftast allt – í Tímariti Hins íslenzka bókmentafélags 1891 segir: „Hann lætur allt vaða á súðum, sem honum dettur í hug.“

Stundum er þó vaða á súðum notað án þess að láta fari á undan, og þá er vaða í framsöguhætti í stað nafnháttar en tekur þá yfirleitt ekki með sér geranda heldur iðulega óákveðna fornafnið allt. „Allt veður á súðum með söndunum“ segir í Alþýðublaðinu 1927. Í DV 1990 segir: „áður en varir hafa loforðin góðu gleymst og allt veður á súðum.“ Einnig er sambandið stundum notað án frumlags. Í Vinnan og verkalýðurinn 1954 segir: „Nú veður á súðum.“ Í Tímanum 1982 segir: „þar veður á súðum.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1968 segir: „Siglingin var góð og óð á súðum.“ Í stað geranda er stundum forsetningarliður með hjá. Í Skírni 1891 segir: „Svo veður allt á súðum hjá honum.“ Í Vísi 2016 segir: „Þá óð á súðum hjá seðlabankastjóranum.“

Elsta dæmi sem ég finn um mannlegan geranda með vaða á súðum er í Morgunblaðinu 1970: „Krúsjeff hafði vaðið á súðum.“ Í Dagblaðinu 1978 segir: „Hann óð á súðum.“ Í Þjóðviljanum 1985 segir: „Formaðurinn veður á súðum í atvinnurekendapólitík sinni.“ Í Alþýðublaðinu 1989 segir: „Össur Skarphéðinsson, doktor í fiskeldisfræði og fyrrum ritstjóri Þjóðviljans veður á súðum í viðtali við nýjasta tölublað af Þjóðlífi.“ Upp úr 1990 fjölgar dæmum af þessu tagi þótt enn sé langsamlega algengast að sögnin láta sé höfð með. Nýleg dæmi eru „Fámennur en hávær hópur óð á súðum vikum saman í fjölmiðlum“ í Vísi 2022 og „Þeir voru reknir úr Flokki fólksins eftir kvöldið alræmda á Klaustri, þar sem þingmenn óðu á súðum“ í Fréttablaðinu 2019.

Það er sem sé ljóst að notkun sambandsins hefur breyst – sögnin láta fylgir ekki alltaf með því núorðið og það fær oft geranda. Um leið má vitanlega segja að upphaflega líkingin við skip sem boðaföll ganga yfir dofni eða tapist. Á þetta var bent í dálknum „Málið“ í Morgunblaðinu 2019 og sagt: „Í grein einni var reitt hátt til höggs og höfundur sást ekki fyrir. Var þá sagt að hann hefði „vaðið á súðum“. Þannig getur enginn vaðið. Súð er byrðingur á skipi. Siglt er djarflega og ekki fengist um það þótt öldurnar skelli á súðinni. Maður lætur vaða á súðum.“ En þessi breytta notkun sambandsins er orðin meira en þrjátíu ára gömul og spurning hvort hún hefur unnið sér hefð eða hvort ástæða sé til að amast við henni. Því verða málnotendur að svara.

Posted on

Hamborgar(a)hryggur

Það bregst sjaldan að fyrir jólin upphefjist umræða um orðið hamborgar(a)hryggur – yfirleitt þannig að hneykslast er á þeim sem segja hamborgarahryggur enda sé þetta ekkert skylt hamborgurum. Lítill vafi leikur á að orðið er komið af hamburgerryg í dönsku. „Fyrri liðurinn er sóttur til borgarheitisins Hamborgar í Norður-Þýskalandi og merkir því orðið bókstaflega 'hryggur frá Hamborg'“ segir á Vísindavefnum. Elsta dæmi um myndina hamborgarhryggur er í auglýsingu í Vísi 1932 en orðið verður ekki algengt fyrr en seint á fimmta áratugnum. Elsta dæmi um hamborgarahryggur er í auglýsingu í Vísi 1955 en myndin verður ekki algeng fyrr en undir 1980. Fyrrnefnda myndin er þó margfalt algengari bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni.

Á Vísindavefnum segir: „Fyrri hluti danska orðsins, 'hamburger-', er í rauninni tvíræður og gæti frá sjónarmiði málfræðinnar þýtt hvort sem er 'hamborgar-' eða 'hamborgara-'. Lítill vafi er þó á því að átt er við fyrri merkinguna og að réttara eða eðlilegra er að tala um 'hamborgarhrygg' á íslensku.“ Ég er ekki sannfærður um að þetta sé rétt. Önnur merkingin í danska orðinu hamburger er vissulega 'hamborgari' í merkingunni 'þunn buffsneið milli tveggja (kringlóttra) brauðsneiða, oft með osti, grænmeti o.þ.h.' eins og orðið er skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók en hin merkingin er 'person fra Hamburg'. Endingin -er í danska orðinu svarar til viðskeytisins -ari í íslenska orðinu Hamborgari en ekki til eignarfallsendingarinnar -ar í Hamborgar.

Ég held sem sé að í dönsku sé hamburgerryg ekki kenndur við borgina, Hamborg, heldur við íbúana, Hamborgara. Þess vegna væri í raun eðlilegra og í samræmi við upprunann að tala um hamborgarahrygg en ekki hamborgarhrygg. Hins vegar á síðarnefnda myndin sér auðvitað langa og ríka hefð í málinu og telst því vitanlega rétt. Auðvitað er það líka rétt að málnotendur tengja hamborgarahrygg oft ranglega við fæðutegundina hamborgara enda íbúaheitið Hamborgari sjaldséð í íslensku núorðið þótt það væri algengt áður fyrr. En ég sé ekki að þessi misskilningur ætti að valda nokkrum vandræðum – fólk veit að það eru ekki hamborgarar í hamborgarahrygg. Báðar myndir eru sem sé góðar og gildar og ástæðulaust að gera upp á milli.

Posted on

Magatilfinning

Spurður um það í viðtali við Ríkisútvarpið hvort Ísland ætti að taka þátt í Eurovision á næsta ári svaraði menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra: „Ja magatilfinningin segir nei en ég ætla ekki að hafa afskipti af dagskrárgerð Ríkisútvarpsins.“ Orðið magatilfinning er ekki að finna í neinum orðabókum en notkun þess hefur færst töluvert í vöxt að undanförnu. Það er augljóslega þýðing á gut feeling í ensku sem merkir 'tilfinning eða viðbragð byggt á eðlisávísun eða hugboði fremur en á ígrundun og rökum'. Reyndar þýðir gut oftast eiginlega fremur 'þarmar' en 'magi' þannig að þarmatilfinning væri e.t.v. eðlilegri þýðing. Dæmi um það orð finnast vissulega á netinu, en að því er virðist aðeins í vélþýddum textum og því ekki marktæk.

Elsta dæmi sem ég finn um orðið magatilfinning er í DV 1985, í grein sem er þýdd úr ensku: „Þessi fréttamaður […] er í raun að segja að þessi magatilfinning sjónvarpsáhorfenda útheimti nákvæmlega enga kunnáttu í tungumáli eða rökfræði.“ En í texta frumsömdum á íslensku sést orðið ekki fyrr en eftir aldamót, í Morgunblaðinu 2001: „Og þrátt fyrir að magatilfinningin segði mér að með því væri ég hugsanlega að sigla út á hálan ís þráaðist ég við.“ Í Morgunblaðinu 2005 segir: „Annars finnst mér margir fara eftir eigin innsæi og „magatilfinningunni“ eins og sagt er.“ Upp úr þessu fer orðið að sjást dálítið á samfélagsmiðlum en það er ekki fyrr en á síðustu tíu árum sem farið er að nota það eitthvað að ráði í vef- og prentmiðlum.

Notkun sambandsins gut feeling í þessari merkingu í ensku mun ekki vera ýkja gömul – sögð síðan um 1970 – en talið er að uppspretta hennar séu gamlar hugmyndir um að tilfinningalíf mannsins eigi heima í innyflunum, þar á meðal þörmunum. Þessar hugmyndir má rekja allt til Forngrikkja og því má segja að þær séu í raun sameign vestrænnar menningar en tengist ekki ensku sérstaklega. Það er þó ljóst að notkun orðsins magatilfinning í íslensku á seinustu árum er komin beint úr ensku en endurspeglar ekki hugmyndir sem hafi lifað í íslenskri menningu og málsamfélagi. Vissulega er gagnlegt að hafa orð yfir þá merkingu sem hér um ræðir og magatilfinning er auðvitað íslenska, en hvort það er heppilegt orð er smekksatriði.