Posted on

Skrekkstungan

Í gærkvöldi var sýnd í sjónvarpinu úrslitakeppni Skrekks, hæfileikakeppni grunnskólanna í Reykjavík. Ég horfði á hana heima en undanfarin þrjú ár hef ég horft á hana í Borgarleikhúsinu vegna þess að ég hef verið í dómnefnd um „Skrekkstunguna“, viðurkenningu sem veitt er fyrir frjóa og skapandi notkun íslensku. Ég afþakkaði boð um að vera áfram í dómnefndinni í ár en óneitanlega öfundaði ég dómnefndarfólk svolítið. Þessi viðurkenning var tekin upp fyrir þremur árum vegna þess að aðstandendum keppninnar fannst íslenska vera á undanhaldi og vildu reyna að snúa þeirri þróun við. Það hefur sannarlega tekist – notkun íslensku í atriðunum hefur aukist ár frá ári og á þessu ári skilst mér að íslenska hafi verið í öllum atriðunum tuttugu og fimm.

Auk þess að vinna Skrekk fékk Fellaskóli Skrekkstunguna fyrir atriðið „Þrýstingsbylgja“. Þetta er sérlega ánægjulegt í ljósi þess að Fellaskóli er þekktur fyrir hátt hlutfall nemenda af erlendum uppruna. Í umsögn dómnefndar sagði: „Atriðið sem fær Skrekkstunguna árið 2025 nýtir íslensku á skapandi hátt í söng, tali og einræðu. Atriðið er á vönduðu og fallegu máli, ljóðrænt og seiðandi en líka skýrt og aðgengilegt. Málsnið hvers hluta er viðeigandi fyrir efni hans, tungumálið er óþvingað og slípað og hvert orð þjónar atriðinu. Flytjendur nota tungumálið í eigin þágu og er titillinn þar engin undantekning.“ Við þurfum að treysta krökkunum fyrir íslenskunni í stað þess að vera sífellt að gagnrýna málnotkun þeirra og tala þau niður.

Posted on

Mistök, atvik – eða einfaldlega brot á reglum

Svarbréf embættis ríkislögreglustjóra til DMR vegna viðskipta við Intra ráðgjöf slf.“ er á margan hátt áhugavert út frá sjónarhóli orðræðugreiningar – það er fullt af klisjum og hæpinni orðanotkun. Í upphafi þess segir t.d.: „Embættið harmar þau mistök sem urðu í viðskiptum við félagið og hefur dregið af þeim mikilvægan lærdóm.“ Það er nokkuð vægt að nota orðið mistök yfir skýr brot á reglum. Til skýringar segir: „Ekki var farið í útboð eða verðfyrirspurnir vegna breytinga á stjórnskipulagi embættisins enda ekki áform um að fara í samstarf til lengri tíma.“ En það er ekki hægt að nota tímalengd samstarfsins sem skýringu á því að ekki var „farið í útboð eða verðfyrirspurnir“ – það sem máli skiptir er ekki tíminn, heldur kostnaðurinn.

Orðið mistök er víðar notað til að gera lítið úr augljósum brotum á lögum og reglum. „Í ljósi þess hvert umfang og eðli samstarfsins varð voru það mistök að bjóða verkefnin ekki út eða skoða ráðningu sérstaks starfsmanns til að sinna þessum verkefnum“ og „Ljóst er að læra þarf af þessum mistökum [...].“ Einnig segir: „Að meginstefnu eru innkaup hjá embættinu gerð í gegnum útboð eða verðfyrirspurnir þar sem byggt er á umfangi hvers verkefnis.“ Þarna er látið líta svo út sem það sé einhver sérstök stefna hjá embættinu að gera innkaup „í gegnum útboð eða verðfyrirspurnir“ þegar fyrir liggur að um þetta gilda ákveðnar reglur. Embættið þarf því ekki – og á ekki – að hafa sérstaka stefnu í þeim málum – það á bara að fara að reglum.

Það er þekkt aðferð til að leiða athygli frá því sem gagnrýnt er að setja það í samhengi sem lætur það líta út fyrir að vera léttvægt. Þetta kemur skýrt fram þegar fjallað er um greiðslur til Intra. „Heildarviðskipti frá árinu 2020 til og með júní 2025 eru 130.499.463 m.kr. án vsk. en til samanburðar má nefna að heildarútgjöld embættisins á árunum 2020 til 2024 námu 32.571.887.406 ma.kr.“ og „Þau verkefni sem fjölmiðlar hafa lagt áherslu á og snúa að vali á húsbúnaði og húsnæðisbreytingum á árunum 2020 til 2025 nema 1,28% af heildarviðskiptum embættisins við félagið.“ Þarna er samanburður og lág prósenta notað til að fá fólki til að finnast þær upphæðir sem um er að ræða bara smotterí sem skipti ekki máli í heildarsamhenginu.

Í niðurlagi svarbréfsins segir: „Embætti ríkislögreglustjóra harmar þau mistök sem gerð voru í viðskiptum við félagið Intra ráðgjöf slf., og dregur lærdóm af þeim.“ Hér er enn klifað á orðinu mistök yfir skýr brot á reglum, en auk þess bætt við klisjunni dregur lærdóm af. Sérkennilegasta orðanotkunin kemur þó í lokin: „Embættið tekur undir þau sjónarmið að atvikið hafi rýrt traust til embættisins og mikilvægt sé vinna að endurheimt þess.“ Orðið atvik merkir 'eitthvað sem gerist, atburður' og er auðvitað algerlega út úr kú þarna. Með notkun þess virðist gefið í skyn að það sem hefur verið gagnrýnt hafi bara gerst si svona án þess að um nokkrar meðvitaðar ákvarðanir hafi verið að ræða (hvað þá „einbeittan brotavilja“). Það er býsna slappt.

Posted on

Brottfararstöð – eða fangelsi?

Fyrir hálfu öðru ári skrifaði ég um sambandið lokað búsetuúrræði sem kom fyrst fyrir í frumvarpi um breytingar á útlendingalögum sem þáverandi dómsmálaráðherra lagði fram vorið 2022. Ég benti á að þetta félli illa að merkingu orðsins úrræði og samsetningarinnar búsetuúrræði sem hefur unnið sér nokkra hefð í merkingunni 'heimili fyrir fólk í viðkvæmri stöðu'. Þarna væri hins vegar gert ráð fyrir að fólk sætti frelsisskerðingu og því væri ekki um neins konar „heimili“ að ræða. Haustið 2024 hugðist nýr dómsmálaráðherra leggja málið fram að nýju og þá hét sama fyrirbæri lokað brottfararúrræði, sem hugsanlega má segja að sé nær því en búsetuúrræði að lýsa því um hvað er að ræða, en þó vantar enn í orðið það grundvallaratriði að brottförin er ekki sjálfviljug.

Í fyrra skiptið náði frumvarpið ekki fram að ganga og í það seinna var það aldrei lagt fram vegna stjórnarskipta. En núverandi dómsmálaráðherra klappar sama stein og hefur nú lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda „Frumvarp um brottfararstöð“ – orðhlutinn -úrræði er sem sé horfinn úr heitinu sem er vissulega til bóta. Eftir stendur að  talað er um brottför en ekki brottvísun, og þar að auki hefur lýsingarorðið lokaður verið fellt brott. Skilgreiningin á brottfararstöð er „Staður þar sem útlendingur sætir frelsisskerðingu samkvæmt lögum um útlendinga vegna ákvörðunar um að hann skuli yfirgefa landið“ en orðið sjálft er hlutlaust og meinlaust – hvorugur orðhlutinn gefur nokkrar vísbendingar um að um sé að ræða nauðungarvistun til undirbúnings þvingaðri brottvísun.

Íslenska orðið yfir það þegar fólk er sent úr landi gegn vilja sínum er vitanlega ekki brottför, heldur brottvísun eða brottrekstur, og íslenska orðið yfir það þegar fólki er haldið einhvers staðar gegn vilja sínum er vitanlega ekki stöð, heldur fangelsi eða hugsanlega varðhald. Ég nefndi í fyrri pistli að til greina kæmi að tala um lokaðar brottvísunarbúðir vegna þess að í búðum er fólk oft ekki sjálfviljugt, svo sem í einangrunarbúðum, fangabúðum, flóttamannabúðum, herbúðum o.fl. Í frumvarpsdrögunum er líka notað orðið vistmaður og skilgreint „Einstaklingur sem er vistaður á brottfararstöð“ – en þótt vissulega sé stundum talað um nauðungarvistun er þetta í andstöðu við venjulega merkingu orðsins vistmaður, ‚sá eða sú sem býr á stofnun‘. Rétta orðið er auðvitað fangi.

Af einhverjum ástæðum er þó feluleiknum ekki haldið áfram til enda – orðalag frumvarpsdraganna er sem sé nykrað. Það er nefnilega alls staðar talað um fangaverði en ekki t.d. gæslumenn og þar kemur því hið rétta eðli fyrirbærisins upp á yfirborðið – þar sem eru fangaverðir hljóta að vera fangar. Ég legg áherslu á að þetta snýst ekkert um það hvort umrætt lagafrumvarp eða fyrirhuguð stofnun eigi rétt á sér. Ég er eingöngu að gera athugasemdir við málnotkunina sem virðist miðast að því að milda ásýnd tillögunnar og slá þannig ryki í augu málnotenda. Vandræðagangurinn með nýtt og nýtt heiti á áformaða stofnun sýnir þetta glöggt. Það rýrir traust almennings á stjórnvöldum ef þau hafa ekki kjark til að segja það sem þau meina og nota þau orð sem hefð er fyrir í málinu.

Posted on

Íslendingar, heimamenn og innfæddir

Ég hef stundum sagt að ekkert sé mikilvægara að kenna í skólum landsins en orðræðugreiningu. Á tímum falsfrétta og skautunar verður sífellt mikilvægara fyrir almenna málnotendur að geta greint staðhæfingar sem settar eru fram í umræðunni og áttað sig á því hvernig orð eru notuð – og oft misnotuð. Í nýju myndskeiði ber varaformaður Miðflokksins sig upp undan því að málflutningur hans hafi verið tengdur við rasisma – sem honum finnst alveg fráleitt. Auðvitað vill enginn láta kalla sig rasista að ósekju en lítum aðeins á hvað varaformaðurinn sagði í grein í Viðskiptablaðinu. Þar stendur meðal annars: „Fæðingartíðnin er farin veg allrar veraldar, innflytjendum fjölgar margfalt hraðar en innfæddum og að óbreyttu lenda heimamenn í minnihluta eftir nokkra áratugi.“

Lykilatriðið í þessu er hvaða merking er lögð í orðin heimamenn og innfæddir. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er heimamaður skýrt 'innfæddur maður á einhverjum stað' og í Íslenskri orðabók sem 'innfæddur maður, maður sem býr á staðnum'. Orðið innfæddur er skýrt 'sem er fæddur í landinu, innlendur' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'innlendur' eða 'sem er fæddur í landinu (á staðnum)' í Íslenskri orðabók. En það er ekki hægt að skilja varaformanninn öðruvísi en að hjá honum vísi orðin aðeins til þeirra sem hafa fæðst á Íslandi og eru af íslenskum ættum. Innflytjendur virðast ekki geta talist til heimamanna samkvæmt orðum hans, jafnvel þótt þeir hafi búið á Íslandi áratugum saman – og jafnvel þótt þeir væru orðnir íslenskir ríkisborgarar.

Í áðurnefndu myndskeiði orðaði varaformaðurinn sömu fullyrðingu dálítið öðruvísi og sagði: „Íslendingar eru eftir nokkra áratugi að óbreyttu að lenda í minnihluta í eigin landi.“ Þarna eru tvö orð sem skipta máli – Íslendingar og eigin. Síðarnefnda orðið er skýrt 'sem tilheyrir einhverjum' í orðabókum en hins vegar getur fólk auðvitað deilt um hvað felist í því að vera Íslendingur – í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt 'maður frá Íslandi' og í Íslenskri orðabók 'maður á/frá Íslandi'. En það er alveg ljóst að varaformaðurinn telur innflytjendur – og afkomendur þeirra – ekki til Íslendinga. Hann virðist sem sé ekki gera ráð fyrir því að hægt sé að verða Íslendingur og komast í þann hóp sem eigi landið, þrátt fyrir að hafa búið lengi á Íslandi og jafnvel fæðst hér.

Eina leiðin til að fá það út að „innflytjendum“ fjölgi margfalt hraðar en „innfæddum“ og „heimamenn“ – þ.e. „Íslendingar“ – geti „eftir nokkra áratugi“ lent „í minnihluta í eigin landi“ er nefnilega að telja aðra og þriðju kynslóð innflytjenda, börn og barnabörn, ekki til heimamanna, ekki til innfæddra, ekki til Íslendinga – jafnvel þótt það sé fólk sem er fætt og uppalið á Íslandi, hafi aldrei átt heima annars staðar, og tali flest reiprennandi íslensku. En skilningur varaformannsins á orðunum heimamaður, innfæddur og Íslendingur – og ótti hans við að þau sem hann telur skipa þann hóp lendi í minnihluta í „eigin landi“ – byggist hvorki á búsetu né á fæðingarlandi, heldur eingöngu á uppruna – á genunum. Það er skilgreiningin á rasisma.

Posted on

Að lítast vel á jákvæðar blikur á lofti

Orðið blika er skýrt 'stór skýjabreiða, skýjabakki' í Íslenskri nútímamálsorðabók og sambandið það eru blikur á lofti er þar skýrt 'það er ófriður í aðsigi'. Í hópnum „Skemmtileg íslensk orð“ var hins vegar nefnt að fréttamaður Sýnar hefði notað orðalagið „jákvæðar blikur á lofti“ sem málshefjanda fannst sérkennilegt í ljósi merkingar sambandsins. En þetta er þó ekki einsdæmi. Í Degi 1995 segir: „Svokölluð seiðavísitala þorsks mælist sú hæsta frá 1986 sem er jákvæð blika á lofti.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „jafnvel þótt við munum sjá jákvæðar blikur á lofti munum við ekki sjá sambærilegar markaðsaðstæður myndast.“ Í Víkurfréttum 2014 segir: „Mér finnst jákvæðar blikur vera á lofti.“ Allnokkur fleiri dæmi má finna frá seinustu árum.

Dæmi má finna um fleiri jákvæð lýsingarorð með þessu sambandi. Í Skessuhorni 2007 segir: „En það eru góðar blikur á lofti.“ Í Morgunblaðinu 2012 segir: „Ástandið er samt eitthvað að skána og það eru góðar blikur á lofti.“ Á vef Ríkisútvarpsins 2014 segir: „við sjáum að fjárfesting er að aukast, svo já, það eru góðar blikur á lofti.“ Á mbl.is 2015 segir: „Magnús sagði góðar blikur á lofti.“ Í Morgunblaðinu 2013 segir: „Það eru skemmtilegar blikur á lofti.“ Í NT 1984 segir: „Það eru ýmsar bjartar blikur á lofti.“ Í Bæjarins besta 1991 segir: „Eftir mikla lægð undanfarinna ára eru nú bjartari blikur á lofti.“ Ef sambandið blikur á lofti merkir að horfur séu uggvænlegar ætti vissulega ekki að vera hægt að nota jákvæð lýsingarorð með því.

En þá er ekki heldur við því að búast að neikvæð lýsingarorð séu notuð með sambandinu vegna þess að neikvæða merkingin er innbyggð í það. Dæmi um neikvæð lýsingarorð eru þó fjölmörg. Í Neista 1979 segir: „Neikvæðar blikur innan sveinafélaganna.“ Í Frjálsri verslun 2004 segir: „Vondar blikur eru þó vissulega á lofti í gengismálum.“ Í Þjóðviljanum 1953 segir: „En getum við ekki sagt að illar blikur séu í lofti?“ Í Morgunblaðinu 1953 segir: „En skömmu síðar sáust nýjar uggvænlegar blikur á lofti.“ Í Heima er bezt 1987 segir: „Óheillavænlegar blikur eru á lofti í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Gylfi segir að niðurstaða fundarins hafi verið sú að ógnvænlegar blikur væru á lofti.“

Þessi dæmi um lýsingarorð með sambandinu blikur á lofti, hvort sem þau eru jákvæð eða neikvæð, sýna að í máli sumra hefur merking sambandsins breyst. Í stað þess að það sé skilið sem 'vondur fyrirboði' er það einfaldlega skilið sem 'fyrirboði' – þ.e. sem hlutlaust en ekki neikvætt. Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt að merkingin hnikist til í ljósi þess að orðið blika í merkingunni 'skýjabakki, óveðursský' er frekar sjaldgæft eitt og sér. Fyrir utan sambandið blikur á lofti kemur það aðallega fyrir í sambandinu lítast ekki á blikuna sem merkir 'þykja útlitið slæmt'. En það samband virðist líka vera að þróast í átt að hlutlausri merkingu eins og sést á því að ýmis dæmi eru um jákvæð atviksorð eins og vel og ágætlega með sambandinu.

Í Vísi 1980 segir: „Þeir voru að leggja upp í langferð um landið á tveimur Land Rover-bílum og leist vel á blikuna.“ Í Alþýðublaðinu 1987 segir: „hér er góður hugur og mönnum lýst vel á blikuna.“ Í Degi 1999 segir: „Ál-5 hefur látið gera frumgreiningu með arðsemi í huga og líst vel á blikuna.“ Í DV 2004 segir: „Við unnum síðan fjögur ný lög í fyrra og okkur leist mjög vel á blikuna.“ Í Fréttablaðinu 2007 segir: „Þessi plata stefnir í brjálað teknó og mér líst mjög vel á blikuna.“ Á mbl.is 2015 segir: „Mér leist ágætlega á blikuna fyrstu fjórar mínútur leiksins.“ Í þessum dæmum er orðið blika augljóslega ekki skilið sem 'óveðursský' eða 'vont útlit' heldur einfaldlega sem 'horfur, útlit' án þess að nokkur neikvæðni fylgi með.

Þótt blikur á lofti og lítast ekki á blikuna séu föst orðasambönd er hefðbundin merking þeirra í fullu samræmi við merkingu orðsins blika – við getum sem sé skilið samböndin út frá orðunum sem þau eru samsett úr en þurfum ekki að læra merkingu þeirra sérstaklega. En vegna þess hversu sjaldgæft orð blika er, utan þessara sambanda, hefur neikvæð merking sambandanna ekki stuðning af því orði sem getur leitt til þess að hún dofni í huga málnotenda og þeir fari að líta á samböndin sem hlutlaus þar sem merkingin sé einfaldlega 'fyrirboði, horfur, útlit' – sem geti þá tekið með sér bæði jákvæð og neikvæð ákvæðisorð. Ég er ekkert að mæla með þessari breytingu – en mér finnst þetta skemmtilegt dæmi um hvernig merking sambanda getur breyst.

Posted on

Notum orðabækur!

Ég fæ iðulega spurningar um ýmis málfarsleg atriði, bæði í „Málspjalli“ og í einkaskilaboðum eða tölvupósti. Þessar spurningar eru mjög fjölbreyttar og miserfitt að svara þeim. Nýlega fékk ég spurningu sem var í sjálfu sér mjög einfalt að svara en olli mér samt nokkrum áhyggjum. Ég var spurður hvort mætti ekki halda því fram að tiltekið orð hefði tiltekna merkingu. Þetta er orð sem vissulega er ekki algengt í nútímamáli en ég hefði þó haldið að fólk ætti að þekkja það. Fyrirspyrjandi sagðist hafa verið að leita að merkingu orðsins og þá hefði komið upp bæði að orðið hefði merkingu A – sem fyrirspyrjandi taldi að orðið merkti – og merkingu B. Þessar merkingar eru vissulega skyldar en þó bæði mikilvægt og auðvelt að halda þeim aðgreindum.

Ég sagði að allar orðabækur sem ég hefði skoðað, bæði fyrir fornmál og nútímamál, væru á einu máli um að merking orðsins væri B – og sama gilti um Vísindavefinn. Hvergi væri minnst á að merkingin hefði verið eða gæti verið A. Ef fyrirspyrjandi hefði einhvers staðar séð orðið notað í þeirri merkingu væri því um misskilning að ræða. Ég fékk miklar þakkir fyrir að leiðrétta misskilninginn – en jafnframt útskýringu á málinu. Hún var sem sé sú að fyrirspyrjandi hafði spurt Chat GPT hvort orðið gæti haft merkingu A og fengið svarið: „Já – það er alveg hægt að færa rök fyrir því að [orðið sem spurt var um] geti vísað til [A], þó merkingin hafi verið breytileg í gegnum aldirnar.“ En fyrirspyrjandi bætti þó við: „En þorðum ekki að taka fullt mark á því.“

Ég varð eiginlega dálítið sleginn yfir þessu. Aðgengi að íslenskum orðabókum hefur aldrei verið jafngott – Íslensk nútímamálsorðabók, Íslensk orðsifjabók og ýmsar aðrar orðabækur eru opnar og ókeypis í gegnum Málið á vef Árnastofnunar, samheitaorðabók er opin og ókeypis á vef Miðeindar, Íslensk orðabók, Íslensk samheitaorðabók og fleiri orðabækur eru aðgengilegar gegn gjaldi á Snöru, og fleira mætti telja. Þetta eru gögn sem eru unnin af fagfólki og þeim má treysta. Samt sem áður dettur fólki fyrst í hug að spyrja Chat GPT sem vitað er að býr ekki yfir nægilegum gögnum til að svara spurningum um íslenskt mál á áreiðanlegan hátt. Ég er nokkuð viss um að þetta er ekki einsdæmi heldur sé algengt og muni aukast. Það er uggvænleg þróun.

Posted on Færðu inn athugasemd

Germynd er fyrir gerendur

Einu sinni varð nokkur umræða á Facebook um frásagnir fjölmiðla af ofbeldisverki sem var framið í fyrrakvöld þegar karlmaður hrinti konu fram af svölum. Ýmsir gagnrýndu að í fyrstu fyrirsögnum fjölmiðla hefði verið sagt „Kona féll fram af svölum“ þegar fram kæmi í fréttum að henni hefði verið hrint. Aðrir bentu á að í fréttunum kæmi fram að þótt vitni hefðu sagt að konunni hefði verið hrint hefði það ekki fengist staðfest hjá lögreglu fyrir birtingu fréttarinnar og því hefðu fyrirsagnirnar aðeins sagt það sem vitað var með vissu. Á vef Ríkisútvarpsins, þar sem fyrirsögnin var upphaflega „Kona féll af svölum í Breiðholti“ seint um kvöld, var fyrirsögninni breytt snemma næsta morgun í „Konu hrint fram af svölum í Breiðholti“.

Eftirfarandi athugasemd hafði þá verið bætt við fréttina: „Frétt uppfærð klukkan 06:30. Í fyrri útgáfu kom fram að konan hefði fallið fram af svölum. Inngangi fréttarinnar og fyrirsögn hefur verið breytt til samræmis við upplýsingar frá lögreglu.“ Vísir skrifaði líka frétt um málið snemma morguns með fyrirsögninni „Konu hrint fram af svölum í Breiðholti“ en á mbl.is var fyrirsögnin um morguninn „Alvarlega slösuð eftir fall“ þrátt fyrir að í fréttinni væri fullyrt að konunni hefði verið hrint. Þetta minnti mig á fyrirlestur um ofbeldi gegn konum sem ég sá á netinu fyrir nokkrum árum og skrifaði færslu um á Facebook – Halla Sverrisdóttir þýddi erindið svo og það birtist á Knúz.

Þar var talað um hvernig við getum – meðvitað eða ómeðvitað – haft áhrif á þau hughrif sem kvikna hjá lesendum eða áheyrendum með mismunandi beitingu tungumálsins.  Af orðalaginu Kona féll fram af svölum er eðlilegast að draga þá ályktun að um slys hafi verið að ræða, þótt ég skilji þau rök blaðamanna að meðan ekki hafi fengist staðfesting á ofbeldisverki sé rétt að fara varlega í staðhæfingum. En þegar staðfest hefur verið að um ofbeldisverk var að ræða hafa fjölmiðlarnir fyrirsagnirnar samt í þolmynd, ekki germynd – þær beinast enn að þolandanum, ekki gerandanum. Þær hefðu getað verið Karlmaður hrinti konu fram af svölum eða Karlmaður framdi ofbeldisverk eða eitthvað slíkt.

En þannig voru þær ekki – og þannig eru fyrirsagnir og fréttir sjaldnast. Gerandinn, sá sem er valdur að hinum fréttnæma atburði, er í skugganum – en þolandinn, sem olli ekki atburðinum en var staddur á röngum stað á röngum tíma, fær alla athyglina. Mér dettur ekki í hug að blaðamenn séu vitandi vits að hlífa gerandanum í þessu dæmi eða öðrum svipuðum. En þarna er ákveðin hefð sem við þurfum að vinna gegn – hefð sem er mótuð af rótgrónum viðhorfum og viðheldur þeim. Látum ekki tungumálið ganga í lið með gerendum – notum germynd þar sem við á, ekki þolmynd. Muninum verður ekki betur lýst en með broti úr Ljósi heimsins eftir Halldór Laxness:

„Hvað er að þér, Jósep? spurði hann að lokum.
Gamli maðurinn svaraði upp úr grátinum, og var enn ekki farinn að hafa rænu á að verka af sér forina:
Ég var barinn, sagði hann. Mér var hrint.
Ýngra barn mundi hafa sagt um hina krakkana: Þau börðu mig, þau hrintu mér – og nefnt nöfn. Eftir að hafa verið mishepnað skáld, búið fjörutíu ár á koti og mist sjö börn í jörðina og sjóinn, sagði hann aðeins: ég var barinn; mér var hrint. Hann ásakaði ekki neinn. Það afl sem stjórnaði lífi hans var ópersónulegt.“

Posted on

Að eiga samtal og taka samtalið

Ég hef stundum séð amast við meintri ofnotkun sambandsins eiga samtal þar sem ýmsum finnst einfaldara og eðlilegra að segja tala við eða tala saman, ræða við eða ræða saman, o.fl. Þess hefur verið getið til að þetta sé komið úr ensku, have a conversation, og það hljómar ekki ólíklega. Það myndi þá samræmast því sem oft er haldið fram, að vísu með litlum rökum, að íslenska sé „sagnamál“ en enska „nafnorðamál“. Það er vissulega rétt að tíðni sambandsins hefur aukist verulega á síðustu fimmtán árum eða svo og þar kunna ensk áhrif að skipta máli. En uppruna sambandsins er tæpast hægt að rekja til ensku, því að það hefur tíðkast í íslensku a.m.k. síðan í lok nítjándu aldar og var nokkuð algengt alla tuttugustu öldina.

Í Skírni 1892 segir: „Maður […] talar latínu við hann, nema að ferðamaðurinn sé ekki fær um að eiga samtal á dauðu máli.“ Í Landsyfirréttardómum og hæstaréttardómum í íslenskum málum 1895 segir: „en er þeir haustið 1891 áttu samtal um þetta.“ Í Þjóðólfi 1899 segir: „Hún kom, svo þau áttu samtal í tjaldinu.“ Í Austra 1899 segir: „Eg heyrði hér um daginn nokkra bændur eiga samtal um friðarboðskap keisarans.“ Í Sameiningunni 1903 segir: „Ef sagt hefði verið fyrir fám árum, að maðr einn hefði átt samtal við annan mann.“ Í Ísafold 1905 segir: „Við og við verður átt samtal við börnin um ýmislegt á göngu um nágrennið.“ Í Reykjavík 1908 segir: „Eg kæri mig ekkert um að eiga samtal undir fjögur augu við þennan ræðumann.“

Það eru ýmis dæmi um það á seinustu árum að notkun tiltekins orðs eða orðasambands sem lengi hefur verið í málinu aukist vegna enskra áhrifa og þetta kann vel að vera eitt af þeim. En annað samband þessu skylt, sem einnig hefur verið amast við en er mun yngra, er taka samtal(). Elsta dæmi sem ég finn um það er í DV 2002: „blaðamenn DV höfðu með skrifum sínum nauðbeygt hann til að taka samtalið við Davíð.“ Næsta dæmi á tímarit.is sést ekki fyrr en í Kjarnanum 2013: „flokkurinn hefur aldrei verið hræddur við að taka samtalið um alþjóðasamstarf fyrr en nú.“ Upp úr þessu fer dæmum um sambandið fjölgandi og það hefur breiðst gífurlega út á síðustu 5-10 árum – alls eru hátt í 900 dæmi um það í Risamálheildinni.

Það er ekkert ótrúlegt að farið hafi verið að nota taka samtal() undir einhvers konar sameiginlegum áhrifum frá eiga samtal og have a conversation, en tæpast er hægt að kenna enskum áhrifum um þá sprengingu sem hefur orðið í notkun sambandsins undanfarið. Það hefur af einhverjum ástæðum orðið klisja í þjóðfélagsumræðunni, ekki síst meðal stjórnmálafólks – í Risamálheildinni eru alls rúm hundrað dæmi um það úr ræðum á Alþingi, sem er mjög hátt hlutfall miðað við hlut þessara ræðna af heildinni. Öfugt við flestar önnur málfarsnýmæli er aðeins lítið brot af dæmunum, innan við hundrað, úr samfélagsmiðlum. Þótt sambandið taka samtal() megi teljast fullgild íslenska út af fyrir sig verður varla annað sagt en það sé ofnotað.

Posted on

Mig þvarr kjark – eða mér þvarr kjarkur

Ég var spurður hvaða frumlagsfall ætti að nota með sögninni þverra – á að nota nefnifall og segja kjarkurinn þvarr eða þolfall og segja kjarkinn þvarr? Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin aðeins sýnd með nefnifallsfrumlagi en í Málfarsbankanum segir: „Sögnin þverra getur verið notuð ópersónulega og stendur þá með henni frumlag í þolfalli. Mig þverr kraft. Yfirleitt er þó sögnin notuð persónulega. Kraftarnir þurru. Kraftarnir hafa þorrið.“ Þarna er því nefnifall ef sögnin er áhrifslaus (án andlags) en þolfallsfrumlag með andlagi. Í Íslenskri orðabók og Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls eru þessar tvær setningagerðir nefndar, en einnig sú þriðja – dagsbirtuna þvarr þar sem frumlagið er í þolfalli þrátt fyrir að sögnin sé án andlags.

Málfarsbankanum og Íslenskri orðabók ber saman um að sé sögnin áhrifssögn standi bæði frumlag og andlag í þolfalli – mig þverr kraft, manninn þvarr kjark. En í Íslenskri orðabók er gert ráð fyrir að andlagið geti líka verið í nefnifalli – manninn þvarr kjarkur. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls eru sömu setningagerðir nefndar, og auk þess dæmi um þágufallsfrumlag. Þar eru nefnd dæmin gestina þvarr mátt og henni þvarr allur máttur þar sem þolfallsandlag fylgir þolfallsfrumlagi en nefnifallsandlag fylgir þágufallsfrumlagi. Það er þekkt mynstur hjá sögnum þar sem frumlagið hvarflar milli þolfalls og þágufalls – þannig er t.d. venjulega sagt mig brast kjark en hins vegar mér brast kjarkur, en yfirleitt ekki mig brast kjarkur.

Þótt hvorki orðabækur né Málfarsbankinn nefni að þverra geti tekið þágufallsfrumlag virðist það lengi hafa verið algengt – ég sé reyndar ekki betur en að a.m.k. síðan á nítjándu öld hafi þágufallsfrumlag verið margfalt algengara en þolfallsfrumlag og sé enn, og því fylgi nær alltaf nefnifallsandlag. Í Iðunni 1884 segir: „Þegar hinni dökku sveit þvarr rómur.“ Í Reykjavík 1904 segir: „Svo fór líka, að Valtýskunni óx heldur fylgi, en heimastjórnarflokknum þvarr það að sama skapi.“ Í Verði ljós 1904 segir: „honum þvarr allur máttur.“ Í Ísafold 1908 segir: „þeim þvarr þrek og þrautseigja.“ Í Ísafold 1910 segir: „Með ellinni þvarr honum heilsa og þróttur.“ Næstum öll dæmi um þverra með andlagi í Risamálheildinni virðast hafa þágufallsfrumlag.

Dæmi um þolfallsfrumlag eru vissulega til, en sárafá. Í Kirkjuritinu 1937 segir: „Hann þvarr hvergi stilling né hugprýði.“ Í Fréttablaðinu 2011 segir: „mig þvarr úthald til að fylgjast með Tíma nornarinnar síðasta vor.“ Í þessum dæmum sést ekki hvort andlagið er í nefnifalli eða þolfalli (orð eins og stilling voru áður endingarlaus í þolfalli). En ótvíræð dæmi má finna um hvort tveggja. Í Faxa 1973 segir: „Mig þvarr því mátt“ en í Vikunni 1988 segir: „mig þvarr allur máttur“. Tvö dæmi eru sérlega athyglisverð. Í þýddri frásögn í Úrvali 1956 segir: „En gæsin brauzt um og reyndi að losa sig, unz hana þvarr máttur að nýju“ en í sama texta í Æskunni 1960 er setningin: „En gæsin brauzt um og reyndi að losa sig, unz hana þvarr mátt að nýju“.

Þegar þverra er án andlags er frumlagið langoftast í nefnifalli eins og Málfarsbankinn segir, en dæmi um þolfallsfrumlag eins og nefnd eru í Íslenskri orðabók og Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls eru þó til. Í Vísi 1960 segir: „kraftana þvarr nú undarlega fljótt.“ Í Tímanum 1981 segir: „jafnvel frægir skákmenn geta átt von á breytingum til hins verra þegar aldurinn færist yfir eða kraftana þverr af einhverjum ástæðum.“ Í Morgunblaðinu 1992 segir: „Sá sem hana fremur, stingur sig í kviðinn með hnífi eða stuttu sverði og ristir upp á við þar til máttinn þverr.“ Í Skagfirðingabók 1994 segir: „Þar sem heilsu Stefáns hrakaði næstu árin, máttinn þvarr.“ Í Morgunblaðinu 2000 segir: „þegar þá þvarr fóru þeir félagar að hlæja af ásetningi.“

Ekki verður skilist við sögnina þverra án þess að nefna að áður fyrr beygðist hún iðulega veikt. Í athugasemd við hana í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir: „Allmörg dæmi um veika beygingu, þt. þverraði, eru í Ritmálssafni og á timarit.is, aðallega frá 19. öld, en þeim fer fækkandi með árunum.“ Slík dæmi má þó finna þegar í Guðbrandsbiblíu frá 1584: „viðsmjörið í krúsinni þverraði ekki.“ Nútíðarmyndir sagnarinnar voru einnig iðulega veikar – í Heima er bezt 1961 segir t.d.: „En sigurgleði fulltrúans þverrar brátt.“ Bæði sterk og veik beyging er gefin í Íslenskri orðabók og ekki gert upp á milli. Veika beygingin virðist hafa verið nokkuð algeng fram yfir miðja tuttugustu öld, en er nú líklega nær horfin – en reyndar er sögnin ekki algeng.

Spurningunni sem ég nefndi í upphafi svaraði ég – áður en ég hafði kannað málið vandlega: „Ég held að öruggara sé að hafa nefnifall þarna en það mætti alveg verja þolfallið líka.“ Málfarsbankinn gerir ráð fyrir nefnifalli eins og áður segir en ýmis dæmi eru um þolfall og varla hægt að líta alveg fram hjá þeim. Hins vegar er ljóst að dæmi Málfarsbankans um notkun þverra með andlagi þar sem bæði frumlag og andlag eru í þolfalli, mig þverr kraft, er ekki í samræmi við hefðbundna málnotkun – allt frá nítjándu öld hefur sögnin í yfirgnæfandi meirihluta tilvika verið höfð með þágufallsfrumlagi og nefnifallsandlagi, mér þverr kraftur. Engar forsendur eru fyrir öðru en telja þetta rétta – og eðlilegustu – notkun sagnarinnar.

Posted on

Vilhallur, óvilhallur – og vilhollur

Í grein í DV staldraði ég við setninguna „Bankahrunið batt enda á skammvinna setu Geirs H. Haarde á stóli forsætisráðherra, en ég hygg að sagan verði honum vilhöll“. Í mínu máli hefur lýsingarorðið vilhallur merkinguna 'hlutdrægur' eins og það er skýrt í Íslenskri orðabók, og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er það skýrt 'partisk'. Það er líka upphafleg merking orðsins eins og fram kemur í dæmum úr fornu máli. Í Eymundar þætti í Flateyjarbók segir t.d.: „grunar mig að liðsmenn yðrir muni vilhallt sagt hafa og eigi væri enn sannindi vituð þessa máls.“ En ég er nokkuð viss um að merkingin í umræddri tilvitnun átti ekki að vera sú að höfundur teldi að dómur sögunnar um Geir yrði hlutdrægur honum í vil.

Það sem höfundur vill væntanlega koma á framfæri er að hann telur að Geir muni fá góðan dóm í sögunni. Skýring Íslenskrar nútímamálsorðabókar, 'hlynntur e-u, hallur undir e-ð', er nær þessari merkingu en hlutdrægur en þó tæpast nógu hlutlaus. Orðið virðist sem sé hafa breytt um merkingu á seinni árum, í máli sumra a.m.k., og merkja ekki lengur 'hlutdrægur' heldur 'hlynntur, vinveittur, hagstæður' eða eitthvað slíkt. Þessi breyting virðist hafa verið í gangi nokkuð lengi, jafnvel síðan á nítjándu öld, en erfitt er að skoða aldur hennar og útbreiðslu í textum því að oft geta báðar merkingar átt við. Þegar orðið er notað án þess að nafnorð eða fornafn í þágufalli fylgi með (vilhallur einhverjum) er þó ljóst að merkingin er 'hlutdrægur'.

Þannig segir t.d. í Iðunni 1887: „Jæja, þar sérðu, hvort það er við lambið að leika sér, við slægan mann og vilhallan dómara.“ Í Vísi 1939 segir: „Það eitt nægir heldur ekki, að blöðin sjálf séu vilhöll í fréttaflutningi sínum.“ Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Líklega hefur dómnefndin verið vilhöll, enda var vitað fyrir að hún vildi ekki Sigurð.“ En í Nýjum félagsritum 1846 segir: „Málalok í verzlunarmálinu voru svo góð og vilhöll landsmönnum, að þeir mega með öllum rétti fagna þeim.“ Hér merkir vilhöll eiginlega 'hagstæð' eða eitthvað slíkt. Í Skírni 1875 segir: „Frakkar leggja sig sem mest í líma við að gera Rússa sjer vilhalla.“ Hér merkir vilhalla væntanlega 'hliðholla' – hugsanlega líka 'hlutdræga' en það þarf þó ekki að vera.

Ekki er hægt að fjalla um orðið vilhallur nema skoða það líka með neitunarforskeyti, óvilhallur – sem er reyndar margfalt algengara orð. Það er skýrt 'óhlutdrægur' í Íslenskri orðabók og 'sem ekki lætur stjórnast af samúð eða fjandskap við annan aðila í deilu, óhlutdrægur' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Búast mætti við að merking þess orðs breyttist á svipaðan hátt, þannig að það færi að merkja 'óvinveittur, óhagstæður' eða eitthvað slíkt. En ekki fer mikið fyrir því þótt finna megi nýleg dæmi. Í Kjarnanum 2021 segir: Það má nefnilega segja að forgangsröðun stjórnvalda á Íslandi hafi verið fremur óvilhöll ungu fólki.“ Í ræðu á Alþingi 2012 segir: „Enginn getur haldið því fram að forseti ASÍ sé sérstaklega óvilhallur þessari ríkisstjórn.“

En eins og með vilhallur er ekki alltaf auðvelt að greina nákvæmlega hvaða merkingu þau sem nota óvilhallur leggja í orðið. Gott dæmi um það má finna í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2004 þar sem Jón G. Friðjónsson vitnar í setninguna „Þegar við bættist óvilhöll dómgæsla þá var á brattann að sækja“ í íþróttafrétt í Morgunblaðinu sama ár og segir: „Hér virðist lo. óvilhallur notað í merkingunni 'hlutdrægur', þ.e. í þveröfugri merkingu við það sem við eigum að venjast. Trúlega er það forskeytið ó- sem veldur þessu klúðri.“ Þetta kann að vera rétt, en ég held samt frekar að merkingin sé þarna 'óvinveitt, óhagstæð' – þótt vitanlega megi til sanns vegar færa að dómgæsla sem er óvinveitt eða óhagstæð sé um leið hlutdræg.

Við skoðun á dæmum um vilhallur rakst ég á annað mjög svipað orð – (ó)vilhollur. Elsta dæmi um það er í Nýjum félagsritum 1855: „þókti mér hann bera bezt skyn á, og vera vilhollastr máli voru og bókagjörð á næst undanförnum öldum.“ Augljóst virðist að þetta er afbrigði af vilhallur og hefur lifað lengi við hlið þess og gerir enn – alls eru rúm sjötíu dæmi um orðið á tímarit.is og um fimmtíu í Risamálheildinni. Það er væntanlega orðið til fyrir áhrif frá lýsingarorðinu hliðhollur og hefur oftast svipaða merkingu þótt merkingunni 'hlutdrægur' bregði einnig fyrir. Það má halda því fram að í þessari merkingu sé það ekki síður gagnsætt en vilhallur og í sjálfu sér ekkert því til fyrirstöðu að viðurkenna það sem gott og gilt orð frekar en misskilning.

En svo að aftur sé komið að orðinu vilhallur verður ekki betur séð en báðar merkingarnar, 'hlutdrægur' og 'hlynntur, vinveittur, hagstæður', séu algengar í nútímamáli en eins og áður segir er ekki alltaf auðvelt að greina þar á milli enda oft um huglægt mat að ræða – það sem sumum finnst augljós hlutdrægni getur öðrum fundist málefnalegur stuðningur við annan aðilann. Vegna þess hve mörkin eru óljós er uppkoma nýrri merkingarinnar mjög skiljanleg – orðið vilhallur má líka hugsa sér að merki 'hallast í vil' og ekkert sem segir að eitthvað sé óeðlilegt við það. Þótt merkingin 'hlutdrægur' sé eldri er hin merkingin svo gömul og útbreidd að engin leið er að kalla hana ranga. En þessi tvíræðni orðsins getur vissulega verið óheppileg.