Posted on

Hjólbörur

Nafnorðið hjólbörur er eitt þeirra orða sem yfirleitt eru aðeins notuð í fleirtölu, eins og t.d. buxur, skæri og ýmis fleiri. Fleirtöluna má í slíkum tilvikum stundum skýra með því að eitthvert grundvallareinkenni fyrirbæranna sem um ræðir er tvöfalt eða tvískipt – hjólbörur hafa tvo kjálka, buxur hafa tvær skálmar og skæri hafa tvo arma. Samt sem áður vísar orðið bara til eins stykkis, eins eintaks af fyrirbærinu í setningum eins og ég ek hjólbörum, ég er í buxum og ég klippi með skærum. Þess vegna væri í sjálfu sér ekkert undarlegt þótt farið væri að nota þessi orð í eintölu, enda liggur ljóst fyrir hver eintala þeirra ætti að vera væri hún notuð, og í dag var nefnt í „Málspjalli“ að eintalan hjólbara væri orðin nokkuð algeng, a.m.k. hjá yngra fólki.

Orðið hjólbörur er þó aðeins sýnt í fleirtölu í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, og í Málfarsbankanum er sagt: „Kvenkynsnafnorðið hjólbörur er fleirtöluorð.“ Í Íslenskri orðabók er myndin hjólbara þó uppflettiorð en vísað á hjólbörur. Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er eitt dæmi um eintöluna, úr þjóðsagnasafni Sigfúsar Sigfússonar frá fyrri hluta tuttugustu aldar. Fáein dæmi má svo finna á tímarit.is. Í Stjörnunni 1919 segir: „Þessi gjörð hefir þá smám saman þroskast stig eftir stig þangað til að hún varð að hjólböru.“ Í Heilbrigðisskýrslum 1956 segir: „vasar hafa ekki nægt fyrir vöruna, en orðið að grípa til hins þjóðlega flutningatækis, hjólbörunnar.“ Í DV 1979 segir: „Æi, þar fór illa fyrir lifandi hjólbörunni.“

Í Risamálheildinni er svo slæðingur af dæmum frá síðustu árum. Í Vísi 2013 segir: „Hjólbaran, skórinn og straujárnið voru öll á barmi þess hverfa úr spilinu fyrir fullt og allt.“ Í Vísi 2015 segir: „Hjólbaran er stelling sem reynir á báða aðila.“ Í Eyjar.net 2009 segir: „var hann með fulla hjólböru af peningum.“ Í Morgunblaðinu 2013 segir: „Enda keyrði ég hjólböruna mörg hundruð ferðir þetta sumar.“ Í Skessuhorni 2021 segir: „hann skóflar kurli í hjólböru.“ Það er eftirtektarvert að nefnifall eintölu, hjólbara(n), er mjög sjaldgæft bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni en aukaföllin mun algengari. E.t.v. stafar það af því að aukafallsmyndirnar eru allar með ö eins og fleirtalan hjólbörur og hljóma því ekki jafn framandi og nefnifallið.

En þrátt fyrir að notkun eintölunnar fari greinilega vaxandi er hún tæpast orðin útbreidd málvenja enn, og getur því ekki talist „rétt mál“ samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu. Í einu samhengi er orðið þó ævinlega haft í eintölu – það er í fyrri hluta samsettra orða. Við segjum hjólböruhjól, hjólböruhlass, hjólböruakstur, hjólbörudekk, o.s.frv. en ekki *hjólbar(n)ahjól, *hjólbar(n)ahlass, *hjólbar(n)aakstur, *hjólbar(n)adekk o.s.frv. Það er vel þekkt að þegar fyrri liður samsetningar er veikt kvenkynsorð stendur það oft í eignarfalli eintölu þótt fleirtala væri „rökrétt“, sbr. stjörnuskoðun, perutré, gráfíkjukaka, vöruhús o.s.frv., en það er mjög áhugavert að sama skuli gilda um orð eins og hjólbörur sem er annars yfirleitt ekki haft í eintölu.

Posted on

Óboðlegar þýðingar

Fyrir tæpum þrjátíu árum var ég einu sinni sem oftar að kenna nýnemum í íslensku í Háskóla Íslands og hafði m.a. lagt fyrir þau einhver verkefni til að kanna hvernig þau stæðu í ritun – sem var misjafnlega eins og við var að búast. En svo datt mér í hug að láta þau þýða stutta texta úr dönsku og ensku – ekki til að meta hversu góð þau væru í þessum málum, heldur til að skoða íslensku þýðinguna. Ég varð dálítið hissa þegar ég sá að ýmsir nemendur sem höfðu skrifað ágætan frjálsan texta skiluðu nú þýðingu fullri af ambögum og óíslenskulegu orðalagi. Ég dró þá ályktun að málkennd þeirra væri ekki nógu sterk til að standast utanaðkomandi áreiti – þau gátu skrifað góðan texta upp úr sér en þegar þau fóru að þýða flæktist frumtextinn fyrir þeim.

Mér dettur ekki í hug að þarna hafi ég verið að gera einhverja merka uppgötvun en mér fannst þetta athyglisvert á sínum tíma, og það rifjaðist upp fyrir mér í gær þegar umræða um þýðingar á Storytel fór í gang á „Málspjalli“. Þar kom fram að margar „íslenskar þýðingar“ þar væru unnar á þann hátt að fyrst væri gervigreindarlíkan látið „þýða“ textann en síðan færi mannlegur þýðandi yfir hann og lagfærði. Í umræðunum kom fram að þessar þýðingar væru oft gallaðar og orðafar óíslenskulegt. Nefnt var dæmið „Hún fann hönd hans á öxl hennar“ þar sem í allri eðlilegri íslensku væri sagt öxl sinni. Á ensku er hins vegar ekki notað eignarfornafn þarna, heldur persónufornafn, on her shoulder, og það er væntanlega ástæðan fyrir hennar á íslensku.

Nú veit ég ekkert um reynslu eða kunnáttu þeirra sem lagfæra gervigreindartexta hjá Storytel en miðað við þau kjör sem mér skilst að þeim bjóðist finnst mér ekki líklegt að margir færir og þjálfaðir þýðendur fáist til verksins heldur er hræddur um að fólkið sem vinnur við þetta sé kannski á svipuðum stað og nemendur mínir sem ég sagði frá í upphafi. Ég óttast sem sé að þau búi ekki yfir nægilega sterkri og þjálfaðri málkennd og málkunnáttu til að vera fær um að taka eftir og átta sig á óíslenskulegu orðalagi og leiðrétta það. Til þess þarf nefnilega töluvert meira en að geta skrifað skammlausan texta frá eigin brjósti. Og það þarf líka umhugsun og yfirlegu sem varla er hægt að gera ráð fyrir hjá fólki sem vinnur á lágum launum og undir tímapressu.

Ég legg áherslu á að ég hef ekkert á móti gervigreindarþýðingum út af fyrir sig enda rak ég í aldarfjórðung áróður fyrir uppbyggingu íslenskrar máltækni – ekki síst í þeim tilgangi að gera vélrænar þýðingar mögulegar. Slíkar þýðingar eru frábær hjálpartæki þar sem þær eiga við, einkum við þýðingar ýmiss konar nytjatexta, og það er alveg hugsanlegt að í framtíðinni geti þær líka nýst eitthvað við þýðingu bókmenntatexta í höndunum á æfðum og færum þýðendum, þótt ég hafi efasemdir um það. En þýðingar af því tagi sem Storytel býður upp á virðast ekki bara vera svikin vara og móðgun við notendur heldur einnig tilræði við vandaðar þýðingar og færa þýðendur – og síðast en ekki síst við íslenskuna. Við eigum ekki að láta bjóða okkur þetta.

Posted on

Gleðilega rest

Í umræðu um gleðileg jól og gleðilega hátíð í dag bar sambandið gleðilega rest á góma en það tíðkaðist talsvert áður fyrr, a.m.k. á fyrri hluta síðustu aldar. Í þættinum „Orðabókin“ í Morgunblaðinu 1989 vitnar Jón Aðalsteinn Jónsson í Halldór Halldórsson prófessor sem „segist segja við menn milli jóla og nýárs: Gleðilega rest, og tekur fram, að honum sé þetta tamt frá barnsaldri, en hann er fæddur og uppalinn á Ísafirði“. Halldór var fæddur 1911 og þetta rímar við það að elsta dæmið um gleðilega rest á tímarit.is er í Vestra 1910 en það blað var gefið út á Ísafirði. Í Vísi 1921 segir: „Gleðilega „rest“ segja Reykvíkingar þegar liðin er aðal jólahelgin. Þetta er smekklaus ambaga sem er að ryðja sér til rúms úti um landið og þarf að útrýma.“

Í Morgunblaðinu 1945 segir: „Hvar sem menn hittast kveða við árnaðaróskirnar: „Gleðileg jól“ og „gleðileg hátíð“. Það er sjálfsagt. En svo lenda menn í vandræðum með að orða árnaðaróskirnar þegar komið er fram á annan jóladag og þá grípa menn að láni setningu frá gömlu sambandsþjóðinni og segja „Gleðileg Rest“. – Sumir kunna ekki við dönskuna. Þeir segja sem vafalaust er rjett; við erum sjálfstætt fólk og þurfum ekki að fá neitt að láni hjá neinum. Við getum borið fram okkar árnaðaróskir á eigin tungu. Þeir segja því „gleðilegan afgang“, sem gerir alveg sama gagn og hitt. Fáum dettur í hug að halda áfram að segja bara gleðileg jól, þó að það sje gamall og góður siður, að halda jól þar til á þrettándanum.“

Þetta var þó á undanhaldi um miðja öldina. Í Morgunblaðinu 1948 segir: „Fyrir hádegi í gær hafði jeg ekki hitt einn einasta mann, sem bauð „gleðilega rest“. – Þessi gamli, leiði ósiður er gjörsamlega að hverfa úr málinu – og mátti enda missa sig.“ Í Þjóðviljanum 1950 segir: „Aldrei skal ég aftur segja gleðilega rest. Það er nefnilega komin upp sterk hreyfing á móti gleðilegri rest.“ Í Vísi 1956 segir: „Einu sinni sögðu menn oft gleðilega „rest“, þegar þeir hittust á götu eftir jólin og þótti það góður siður. Nú er þessi siður að leggjast niður, og verður satt að segja ekki eftir séð.“ Í Vísi 1960 segir: „Sem betur fer er nú að hverfa úr málinu sú leiða dönskusletta, sem lengi var hér tízku, að segja: „Gleðilega rest“, þegar menn hittust eftir hátíðisdagana.“

Í þættinum „Orðabókin“ í Morgunblaðinu 2003 sagði Jón Aðalsteinn Jónsson að orðalagið gleðilega rest myndi „trúlega vera horfið“. Það er þó ofmælt, en augljóslega hefur dregið verulega úr tíðni þess – í Risamálheildinni eru aðeins um 25 dæmi um sambandið. Eins og fram kom hér á undan er orðið rest komið úr dönsku og sést fyrst í íslensku kringum aldamótin 1700. Þótt orðið falli í sjálfu sér ágætlega að málinu og rími við orð eins og lest og pest (sem bæði eru reyndar tökuorð, en eldri) var það ætterni þess sem olli því að barist var gegn sambandinu gleðilega rest, eins og fram kemur í tilvitnunum hér að framan, og það hefur hlotið sömu örlög og fjölmargar aðrar „dönskuslettur“ í íslensku. Kannski er engin eftirsjá að því – eða hvað?

Posted on

Gleðileg jól! eða ætti að segja gleðilega hátíð?

Það er yfirleitt varasamt að taka erlenda umræðu um tiltekið orð og yfirfæra hana á íslenskt orð sem talið er samsvarandi. Þótt orðin merki nokkurn veginn það sama getur aldur þeirra og uppruni verið mismunandi, sem og tengsl við önnur orð, hugrenningatengsl sem orðin vekja, og margt fleira. Ég benti t.d. á það fyrir nokkru að þótt sagt sé að hugtakið þjóðarmorð hafi verið búið til 1944 er þar vísað til enska orðsins genocide – íslenska orðið þjóðarmorð er miklu eldra. Annað dæmi er orðið drusla sem hefur undanfarin 10-15 ár verið notað sem þýðing á enska orðinu slut í merkingunni 'lauslát kona', en margt í grein um orðið og notkun þess á mbl.is átti ekki við íslenska orðið – greinin var augljóslega þýdd og verið að tala um orðið slut.

Undanfarin 15-20 ár hafa hægrisinnuð öfl í Bandaríkjunum haldið því fram að þar væri í gangi það sem þau kalla „War on Christmas“ sem felist í því að draga sem mest úr notkun orðsins Christmas vegna tengingar þess við kristna trú. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur undanfarið nefnt það sem eitt dæmi um hvernig stefna hans sé í sókn að jólakveðjan Merry Christmas sé nú aftur notuð í staðinn fyrir Happy Holidays sem hafi tröllriðið öllu undanfarið – „We brought back Merry Christmas““ segir hann. Eins og stundum vill verða hjá Trump er ýmislegt málum blandið í sambandi við þetta og breytingin kannski ekki eins mikil og hann vill meina, en látum það liggja milli hluta – bandarísk orðanotkun er ekki viðfangsefni þessa hóps.

Ég nefni þetta samt ekki hér að ástæðulausu. Því hefur nefnilega nýlega verið haldið fram að svipuð þróun sé í gangi á Íslandi – fólk sé farið að forðast að segja Gleðileg jól en segi þess í stað Gleðilega hátíð. Rithöfundurinn Stefán Máni skrifaði nýlega á X: „„Gleðilega hátíð“ er úrkynjað og meðvirkt pc newspeak. Það er gleðileg jól“. Eftir að þessu hafði verið mótmælt harðlega og bent á dæmi sem sýna að Gleðilega hátíð hefur verið notað í meira en öld til að óska gleðilegra jóla sagði hann: „Gleðilega hátíð er gömul kveðja, notuð áður fyrr til að óska fólki gleðilegra jóla. Í dag aftur á móti er kveðjan mest notuð af fólki sem vill ekki móðga trúlausa/ekki kristna eða hefur eitthvað á móti kristni eða gamaldags jólum.“

Elsta dæmi sem ég finn um sambandið gleðileg hátíð er í Heimskringlu 1889: „útgefendurnir óska öllum lesendum „Hkr.“ gleðilegrar hátíðar.“ Þetta blað kom út 26. desember, og á sömu síðu er grein með fyrirsögninni „Gleðileg jól.“, þannig að augljóst er að hátíð vísar þarna til jólanna. Alla tíð síðan hefur gleðileg hátíð verið algeng jólaósk þótt gleðileg jól sé margfalt algengara, og ekkert sem bendir til þess að síðarnefnda kveðjan sé á undanhaldi. Það má líka halda því fram að fólk líti oft á jól og áramót sem eina samhangandi hátíð þannig að gleðilega hátíð getur náð yfir hvort tveggja enda oft vísað til hvors tveggja með sambandinu yfir hátíðarnar – og svo lýkur jólunum að gömlu tali ekki fyrr en á þrettándanum, 6. janúar.

Í umræðu um áðurnefnda færslu Stefáns Mána sagði Andri Snær Magnason: „Þetta er innflutt tuð.“ Það er hárrétt, og gott dæmi um hversu varasamt það er að flytja umræðu um einstök orð milli málsamfélaga. Þótt enska orðið Christmas og íslenska orðið jól séu vissulega yfirleitt talin merkja það sama er uppruni þeirra og orðsifjar gerólíkt, og þar með hugrenningatengsl. Enska orðið tengist augljóslega Jesú Kristi og kristinni trú, en slík tenging er ekki innbyggð í orðið jól – það orð var upphaflega notað um heiðið miðsvetrarblót en færðist síðan yfir á fæðingarhátíð Krists sem var haldin um svipað leyti. Þótt það kunni að vera viðkvæmt að mati einhverra að nota Christmas í ensku er því engin ástæða til að yfirfæra þá viðkvæmni á íslenska orðið jól.

Posted on

Frostbit

Nafnorðið frostbit var eitt sinn til umræðu í „Málspjalli“ og einnig í öðrum málfarshópum á Facebook. Sumum finnst augljóst að orðið sé tekið hrátt úr ensku vegna þess að þar er til orðið frostbite sem merkir 'kal' og þess vegna er stundum amast við því. Af uppruna þess fer þó tvennum sögum, og auk þess hefur komið fram í umræðum í áðurnefndum hópum að fólk er ekki á einu máli um hvað orðið merki – hvort það hafi sömu merkingu og kal sem er skýrt 'sár á húð (t.d. á fingrum) af völdum frosts' í Íslenskri nútímamálsorðabók, eða hvort það hafi vægari merkingu og vísi ekki beinlínis til skemmda á húð heldur til þess þegar húðin verður rauð eða blá af kulda og með fylgir jafnvel sársauki eða tilfinningaleysi.

Elsta dæmi um frostbit er í Heimskringlu 1891: „Og við taugatognun, mari, bruna, frostbiti o. s. frv. á hún engan sinn líka.“ Heimskringla var auðvitað gefin út í Winnipeg og því líklegt að þarna sé um ensk áhrif að ræða, og öll elstu dæmin eru úr vesturheimsblöðum. Þrjú dæmi eru úr blöðum gefnum út á Íslandi fram til 1950, en tvö þeirra eru í textum þýddum úr ensku og eitt frá manni sem hafði dvalið langdvölum í enskumælandi löndum. En frá því um 1950 og fram yfir 1990 eru margir tugir dæma um orðið á tímarit.is, nær öll úr krossgátum þar sem það er skýring á kal – sem er hentugt orð í krossgátum vegna þess að það er stutt og samsett úr algengum bókstöfum. Eftir 1990 hverfa krossgátur að mestu úr blöðunum og dæmum fækkar.

Þó má finna slangur af dæmum um orðið og ekki alltaf auðvelt að ráða í merkinguna. Í DV 1988 segir: „Er það gert vegna mikillar hættu á kali og frostbiti fyrir skíðamenn.“ Þarna virðist gert ráð fyrir að kal og frostbit sé ekki það sama. En eftir aldamótin virðist frostbit oft notað í sömu merkingu og kal. Það er t.d. augljóst í Fréttablaðinu 2001 þar sem segir: „15 ára gamall Serpi, sem missti fimm fingur vegna frostbits í fyrra, er yngsti maður sem klifið hefur hæsta tind í heimi.“ Varla er þó átt við kal í dæmum eins og „Frostbit í kinnar og útivist er kannski aðdráttarafl út af fyrir sig?“ í Akureyri 2012, eða „Kuldakrem ver húðina fyrir frostbiti“ í Morgunblaðinu 2016, eða „Ég sé frostbitið fólk bisa við að hlýða Víði“ í Fréttablaðinu 2020.

Nafnorðið frostbit er ekki að finna í helstu orðabókum en öðru máli gegnir um lýsingarorðið frostbitinn sem er skýrt 'rauður eða blár (í andliti eða á höndum) af völdum frosts' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Það orð er líka eldra en nafnorðið og ekki að sjá að það megi rekja til ensku – kemur fyrst fyrir í kvæði eftir Matthías Jochumsson í Þjóðólfi 1874: „Sá nákaldi veturinn, Norðurlandsbygð / hefir nætt um þín frostbitnu sár.“ Alls eru um 250 dæmi um orðið á tímarit.is – allnokkur hluti úr vesturíslensku blöðunum, hugsanlega fyrir áhrif frá frostbitten sem merkir 'kalinn'. Sambandið frostið bítur er líka vel þekkt. Í Skeggja 1919 segir: „Frostið bítur heljuhart.“ Í 19. júní 1920 segir: „Bjóðist geisli, er blæs hann kalt / og bíti frost og hríðar.“

Nafnorðið frostbit er rétt myndað íslenskt orð og enda þótt það kunni að vera myndað með hliðsjón af frostbite í ensku á það sér líka skýrar rammíslenskar hliðstæður í lýsingarorðinu frostbitinn og sambandið frostið bítur. Út frá þeim samböndum væri eðlilegt að það merkti ‚rauð eða blá húð af völdum frosts‘ eða eitthvað slíkt, fremur en ‚sár á húð af völdum frosts‘ eins og kal, og það virðist oftast vera raunin, t.d. í nýlegum dæmum í Risamálheildinni. En þá er líka rétt að hafa í huga að í daglegu máli er kal a.m.k. stundum notað í vægari merkingu en orðabókarmerkingunni sem tilgreind er hér að framan. Mér finnst sem sé ekkert að því að tala um frostbit en vitanlega mikilvægt að muna eftir orðinu kal og nota það þar sem við á.

Posted on

Mannanafnarugl

Í framhaldi af umræðu í „Málspjalli“ um nafnið Ranimosk sér Morgunblaðið ástæðu til að spyrja formann mannanafnanefndar út í úrskurði og verklagsreglur nefndarinnar. Svörin sýna glöggt út í hvaða fen nefndin er komin en þótt ég telji að hún sé oft á villigötum í úrskurðum sínum er henni nokkur vorkunn – það er útilokað að framfylgja gildandi lögum en taka um leið eðlilegt tillit til þeirra þjóðfélagsbreytinga og hugarfarsbreytinga sem hafa orðið á undanförnum þrjátíu árum. Þess vegna er brýnt að endurskoða lögin og undarlegt að núverandi dómsmálaráðherra skuli ekki vera með áform um það í þingmálaskrá sinni, í ljósi þess að flokkur hennar, Viðreisn, lagði mikla áherslu á það fyrir fáum árum að lögunum yrði breytt.

Í viðtalinu er sagt að samkvæmt verklagsreglum mannanafnanefndar séu erlend tökunöfn „tekin upp á mannanafnaskrá svo lengi sem þau eru skrifuð á sama hátt og í landinu sem þau eru frá“. „Eins og með nafnið Charles, ef einhver vill heita það á Íslandi væri hægt með vísan til þessarar reglu að fá það samþykkt með rithættinum Charles en ekki Tjarles.“ Nafnið Charles er reyndar þegar á skrá þannig að á þetta reynir ekki, en í verklagsreglunum segir einnig: „Heimilt er að laga tökunafnið að almennum íslenskum ritreglum.“ Samkvæmt þessu ætti rithátturinn Tjarles að vera heimill því að hann samræmist óneitanlega almennum íslenskum ritreglum betur en Charles – ýmis orð byrja á tja-, svo sem tjara, tjald o.fl. Hins vegar væri Tsjarles óheimilt.

Í verklagsreglum mannanafnanefndar stendur að ritháttur teljist hefðbundinn „sé hann gjaldgengur í veitimáli“ en bætt við: „Þó er áskilið að nöfn skulu rituð með bókstöfum íslenska nútímastafrófsins eða bókstöfunum c, q, w og z.“ Ef þetta er skilið bókstaflega, sem og orð formannsins um að tökunöfn sem „eru skrifuð á sama hátt og í landinu sem þau eru frá“ séu leyfð, táknar það að nöfn úr málum sem ekki nota latneska stafrófið verði ekki leyfð. Hugsanlega er ákvæðið um að heimilt sé „að laga tökunafnið að almennum íslenskum ritreglum“ túlkað þannig að leyfilegt sé að umrita nöfn úr tungumálum sem rituð eru með öðru stafrófi en því latneska – að öðrum kosti er þarna um að ræða augljóst misrétti milli tungumála.

Í viðtalinu segir: „Breytingar voru gerðar árið 2021 og var þá slakað á kröfunum sem gerðar eru til nýrra nafna á skrá.“ Þarna er ekki vísað til breytinga á lögunum sjálfum heldur breytinga á þeim verklagsreglum sem mannanafnanefnd setur sér sjálf. Umræddar breytingar voru ótvírætt til bóta, en hins vegar er umdeilanlegt hvaða svigrúm nefndin hefur í þessu efni. Formaðurinn telur „að reglur mannanafnanefndar séu skýrar“ og ákvæði um að nafn megi ekki vera nafnbera til ama sé „eina ákvæðið sem mat er á“. En það er ekki rétt. Það er mjög matskennt hvort nafn brýtur í bága við íslenskt málkerfi, og mannanafnanefnd hefur komið sér upp ýmsum vinnureglum við mat á því, sumum hverjum umdeilanlegum og jafnvel afar hæpnum.

En það er ekki nóg með að nefndin hafi breytt verklagsreglum sínum hvað varðar hefð og rithátt. Túlkun hennar á því hvort nafn geti tekið eignarfallsendingu virðist líka hafa breyst án þess að það komi nokkurs staðar fram í reglum. Í úrskurði frá 2018 segir: „Ekki er hefð fyrir því í íslensku að eignarfallsendingunni -ar sé bætt við stofn sem endar á -e.“ En í nýlegum úrskurði segir: „Eiginnafnið Harne (kvk.) tekur íslenska eignarfallsendingu, Harnear, og uppfyllir að öðru leyti ákvæði 5. gr. laga um mannanöfn.“ Engar skýringar er að finna á þessari breyttu túlkun. Það er vitaskuld óheppilegt og varla í anda góðrar stjórnsýslu þegar nefndin breytir túlkun sinni án þess að breytingin sé tilkynnt, hvað þá skýrð eða rökstudd.

Posted on

Að taka sturtu

Í „Málspjalli“ var spurt í dag hvort það ógnaði íslenskunni að taka sturtu. Þetta orðalag er nýlegt í málinu – elsta dæmi sem ég finn um það er í DV 2004: „Vaknaði fyrir alvöru, tók sturtu.“ Það hefur oft verið gagnrýnt. Í Morgunblaðinu 2018 sagði Helgi Snær Sigurðsson: „æ oftar verður maður var við að fólk gerir ekki greinarmun á ensku orðalagi og íslensku. Fólk „tekur“ sturtu, svo dæmi sé tekið.“ Í Víkurfréttum 2020 sagði Inga Birna Ragnarsdóttir: „Lendi oft í að leiðrétta ellefu ára stjúpson minn sem notar enska setningaruppbyggingu. Til dæmis: […] „ég ætla að taka sturtu“ í staðinn fyrir „ég ætla að fara í sturtu“.“ Rúm fimmtíu dæmi eru um þetta orðalag í Risamálheildinni, öll af samfélagsmiðlum, en í mörgum þeirra er verið að gagnrýna það.

En þótt taka sturtu sé ekki gamalt í málinu, og trúlega komið úr ensku, má finna eldri dæmi um orðalagið taka steypibað en orðið steypibað er samheiti við sturta og þótti betra mál – í orðalista með fyrirsögninni „Vandið málið! Varist mállýti!“ í Hlín 1942 er línan „Sturta = steypibað.“ Í Heilbrigðisskýrslum 1931 segir: „Enginn fær að fara í laugina án þess að taka steypibað að loknu sundi.“ Í Bræðrabandinu 1945 segir: „Allir urðu að taka steypibað einu sinni í viku.“ Í Heilsuvernd 1956 segir: „Það er alltaf nóg að taka steypibað.“ Í Vísi 1959 segir: „Þá var hann spurður hvernig hann hefði tekið steypibað og haldið sér þurrum fyrir því.“ Í Vikunni 1967 segir: „Kerlaug er ágæt í 7-8 mánuði, en síðasta mánuðinn er öruggara að taka steypibað.“

Mun eldri dæmi má þó finna um sambandið taka bað. Elsta dæmi um það á tímarit.is er í Almanaki Ólafs S. Thorgeirssonar 1899: „Hinum […] var leyft að fara tafarlaust, eptir að hafa tekið bað.“ Almanakið var að vísu gefið út í Winnipeg þannig að þarna gæti verið um ensk áhrif að ræða, en skömmu síðar fer þetta að sjást í blöðum á Íslandi. Í Þjóðólfi 1909 segir: „Því næst dró hún stórt baðker yfir hlemminn […] og tók að afklæða sig, eins og hún ætlaði að taka bað.“ Í Syrpu 1915 segir: „Hún tók bað og fékk nýjan klæðnað frá hvirfli til ilja.“ Í Íslendingi 1920 segir: „Eru tveir klefar í hvorri; fara baðgestir úr fötum og klæða sig í öðrum, en taka bað í hinum.“ Í Vísi 1929 segir: „Fólki skal bent á, að best er að taka bað kl. 10-12 árdegis.“

Sum þessara dæma um sambandið taka bað eru vissulega úr þýðingum og því hugsanlega undir áhrifum frá ensku orðalagi, en ýmis dæmi um sambandið má þó finna í textum frumsömdum á íslensku á tímarit.is, enda er hægt að finna mun eldri dæmi um þetta samband. Í Þorláks sögu helga segir: „Ormur breiðbælingur […] tók bað í Skálholti.“ Í Gísls þætti Illugasonar segir: „Eftir það tóku þeir bað.“ Í Þiðriks sögu af Bern segir: „Hann hefir tekið bað í þeim stað er nú er kallað Þiðreks bað.“ Einnig eru allmörg dæmi í fornu máli um sambandið taka laugar í sömu merkingu, t.d. „Flosi tók laugar og lið hans“ í Brennu-Njáls sögu, „Gakk nú þar til er Magnús konungur hefir tekið laugar“ í Morkinskinnu og „þá tók konungur þar laugar“ í Heimskringlu.

Við höfum því dæmi um fjögur hliðstæð orðasambönd – taka sturtu, taka steypibað, taka bað og taka laugar. Tvö þau síðastnefndu koma fyrir í fornu máli, taka steypibað er hátt í hundrað ára gamalt, en elstu dæmi um taka sturtu eru frá þessari öld. Vitanlega gæti það samband hafa orðið til út frá eldri samböndum en þó er miklu líklegra að notkun þess í nútímamáli megi rekja til enska sambandsins take a shower. Og þá er spurningin: Eigum við að láta sambandið gjalda (sennilegs) ensks ætternis síns og amast við því, eða eigum við að segja að það sé ekkert athugavert við það vegna þess að algerlega hliðstæð sambönd hafi tíðkast allt frá fornu máli? Ég hef tilhneigingu til að láta sambandið njóta vafans og segja að það sé góð og gild íslenska.

Posted on

Verkstjórn

Elsta dæmi um nafnorðið verkstjórn á tímarit.is og í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er í Ármanni á Alþingi 1829: „verkstjórnin géck mér eptir því betur og betur sem eg var lengur við hana.“ Þarna hefur orðið augljóslega merkinguna 'það að stjórna verki' eins og það er skýrt bæði í Íslenskri nútímamálsorðabók og Íslenskri orðabók og það var nánast eina merking orðsins þar til fyrir ári þótt einhver dæmi séu um merkinguna 'hópur sem stjórnar verki', svo sem í Sveitarstjórnarmálum 1967: „Annar vinnuhópurinn fékk tækifæri til þess að velja fulltrúa úr sínum hópi til þess að ræða við verkstjórnina um tilgang breytinganna.“ En á vetrarsólstöðum fyrir réttu ári bætti orðið við sig merkingu sem hefur verið mikið notuð síðan.

Þegar Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra kom út af ríkisráðsfundi þar sem myndun nýrrar ríkisstjórnar var staðfest sagði hún: „Þetta er verkstjórn en ekki setustjórn.“ Þarna á orðið verkstjórn sem andstæða við setustjórn augljóslega að vísa til þess að stjórnin stefni að því að vera vinnusöm – „Við ætlum að láta verkin tala“ sagði Inga Sæland á blaðamannafundi þennan sama dag og í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi í febrúar sagði Ragnar Þór Ingólfsson: „Við ætlum að koma þessu í verk enda erum við verkstjórn.“ Ég veit ekki hvort Kristrún varð fyrst til að nota orðið í þessari merkingu en það er ekki ólíklegt. Hvað sem því líður er ljóst að þessi merking orðsins náði strax fótfestu í fjölmiðlum og einkum á Alþingi.

Í þingræðum undanfarið ár eru rúm hundrað dæmi um orðið verkstjórn, nær öll í hinni nýju merkingu þótt einstöku dæmi séu um þá eldri: „Þetta er verkstjórnin í þessari svokölluðu verkríkisstjórn“ sagði Sigríður Á. Andersen nýlega. Orðið er notað jafnt af stjórnarliðum og stjórnarandstæðingum þótt fylkingar greini vissulega á um hvort það sé réttnefni á ríkisstjórninni. En hvergi kemur fram gagnrýni á að orðinu hafi verið gefin ný merking. Sú merking er í sjálfu sér gagnsæ og alveg eðlileg – orðið stjórn hefur mjög oft merkinguna ‚ríkisstjórn‘, og notkun orðhlutans verk- samræmist merkingu hans í orðinu verkmaður sem er skýrt 'duglegur maður, sá sem kemur miklu í verk' í Íslenskri nútímamálsorðabók.

Það er auðvitað alsiða að gefa ríkisstjórnum óopinber heiti og þau hafa verið með ýmsu móti. Stjórnir hafa verið kenndar við samsetningu sína (helmingaskiptastjórnin, stjórn hinna vinnandi stétta), stefnu (vinstri stjórnin), staðinn þar sem þær voru kynntar (Viðeyjarstjórnin, Þingvallastjórnin), athafnir og áform (nýsköpunarstjórnin, viðreisnarstjórnin) og stundum við forsætisráðherrann (Stefanía, kóka-kóla stjórnin). Núverandi ríkisstjórn var í upphafi stundum kölluð sólstöðustjórnin og heitið valkyrjustjórnin sást jafnvel áður en hún var mynduð. En munurinn á orðinu verkstjórn um stjórnina og flestum eða öllum orðum um aðrar ríkisstjórnir er sá að verkstjórn er ekki hugsað sem sérnafn heldur sem lýsing á eðli stjórnarinnar.

Posted on

Túmatar, apútek – og kommónistar

Af nokkrum gömlum tökuorðum sem hafa komið í málið úr dönsku eru til tvímyndir sem hafa ýmist einhljóðið ú eða tvíhljóðið ó. Þekktast þeirra er líklega tómatur / túmatur. Það er vissulega langoftast með ó en á tímarit.is eru þó nokkuð á annað hundrað dæmi um myndir með ú og í Risamálheildinni eru rúmlega 250 dæmi um slíkar myndir. Töluverður hluti síðarnefndu dæmanna sýnir reyndar ekki virka notkun myndanna heldur er verið að gera grín að þeim, furða sig á þeim eða hafna þeim, en það sýnir samt sem áður að þær eru talsvert þekktar í nútímamáli. Orðið er upphaflega komið úr tungumálinu nahuatl sem Toltekar og Astekar í Mexíkó töluðu, og var þar tomatl, eins og Erla Erlendsdóttir rekur í grein í Orði og tungu 2005.

Í dönsku varð ritmyndin tomat og í þeirri mynd barst orðið til Íslands undir lok nítjándu aldar. Í Ísafold 1890 segir: „Alls konar þurkaðar súpujurtir mjög ódýrar (Tomater, Persille, Porrelög, Grönkaal, Rödkaal, Hvidkaal, Gulerödder og Julienne).“ Í Andvara 1894 segir: „Mikið er og komið undir því, að uppskeran á „tomat“-ávextinum heppnist vel.“ Í Kvennablaðinu 1897 segir: „„Tomaterne“ eru skornar í bita“ – eins og Erla Erlendsdóttir bendir á í áðurnefndri grein er orðið þarna í kvenkyni. En fljótlega fékk það íslenska ritmynd – í Þjóðólfi 1894 segir: „Í verzlun H.Th.A. Thomsens fæst […] fisk- og tómat-sósa.“ Í Nýrri danskri orðabók með íslenzkum þýðingum eftir Jónas Jónasson frá 1896 er danska orðið tomat þýtt tómat.

Myndin tómat getur formsins vegna annaðhvort verið endingarlaust sterkt karlkynsorð eða hvorugkynsorð og oft er útilokað að skera úr því hvort er. Þó má snemma finna ótvíræðar karlkynsmyndir – í Fanney 1906 segir: „Einn borðaði t.d. að eins eitt epli, annar einn tómat […] o.s.frv.“ og í sömu grein kemur fram fleirtölumyndin tómatar. En ótvíræðar hvorugkynsmyndir má einnig finna – í Frey 1911 segir: „á tómötin komu græn ber.“ Karlkyn með nefnifallsendingunni -ur sést fyrst 1936. Veika myndin tómati kemur fram um svipað leyti – í Nýja dagblaðinu 1934 segir: „þar sem bíður þeirra tómati og gráðaostur.“ Orðið er einnig til sem veikt kvenkynsorð – í Tímanum 1925 segir: „Ekki veit eg, hvaðan nafnið tómata er komið.“

Elsta dæmi um ritmynd með ú er í Íslendingi 1919: „Sardínur í olíu og túmat.“ Ótvíræð karlkynsmynd sést fyrst í Vísi 1928: „Nýkomið: Túmatar og kartöflur.“ Veika karlkynsmyndin túmati kemur fyrst fram í Vikunni 1961: „hún sagði, að hann væri rjóður og kringluleitur eins og túmati.“ Þar sem hægt er að greina kynið ótvírætt á annað borð virðist alltaf vera um karlkyn að ræða. En ástæðan fyrir tvímyndunum er væntanlega árekstur ritháttar og framburðar. Sennilegt er að rithátturinn tómat(ur) hafi verið valinn vegna líkinda við danskan rithátt, en í dönsku er orðið borið fram [toˈmæˀd], með einhljóði, ekki tvíhljóði eins og íslensku ó, og þótt danska hljóðið sé ekki nákvæmlega eins og íslenskt ú hljómar það svipað í íslenskum eyrum.

Annað dæmi þar sem ég held að hliðstæðar tvímyndir hafi þekkst þótt ég finni litlar heimildir um það er apótek / apútek. Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er þó eitt dæmi um apútek, úr Vefarinn með tólfkóngaviti frá 1854: „Jeg er ekki óhrædd um það, að apúteks meðölin fari að rata hingað eptirleiðis.“ Önnur dæmi hef ég ekki fundið nema á vefnum fastinn.is þar sem segir m.a.: „Frábær staðsetning þar sem örstutt er í Hagkaup, Vínbúðina, apútek og fleira.“ Þetta er ekki innsláttarvilla því að það sést víðar á sama vef. Sérhljóðið er þarna í áhersluleysi milli tveggja áhersluatkvæða og sennilega sjaldnast borið fram sem skýrt ó heldur einhvers konar óráðið kringt uppmælt hálfnálægt sérhljóð, [ʊ], sem getur verið skynjað ýmist sem ú eða ó.

Þriðja orðið þar sem hliðstæð víxl koma fram er kommúnisti / kommónisti, en þar eru það myndir með ú sem eru yfirgnæfandi. Elsta dæmi um orðið er í bréfi frá 1849: „sumir eru kommúnistar, þeir heimta jöfn réttindi, jafna nautn.“ Þegar leitað er að dæmum um myndir með ó á tímarit.is finnast hátt á annað hundrað dæmi en flest þeirra reynast vera ljóslestrarvillur. Einstöku dæmi með ó má þó finna. Í Þjóðviljanum 1980 segir: „Hér áður var fullt af þorski í Grindavík en engir kommónistar.“ Í Degi 1981 segir: „Þetta eru einkum kommónistar og framsóknarmenn.“ Í Skessuhorni 2007 segir: „Það frétti peysu- lopa- lið / og lagsmenn kommónista.“ Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Svo er oft með kommónista, verkalýðsrekendur og lýðsleikjur.“

Í Risamálheildinni eru þrjátíu dæmi með ó, langflest nýleg af samfélagsmiðlum sem sýnir að eitthvert líf er í þessum myndum. Athyglisvert dæmi er úr endurminningum Ragnars Stefánssonar, Það skelfur, frá 2013: „Á þessum árum þótti kommónisti sterkara skammaryrði en kommúnisti.“ Þetta bendir til þess að myndir með ó hafi verið talsvert meira notaðar en ritaðar heimildir sýna, enda sáust talmálsmyndir sjaldan í ritmáli fyrir daga samfélagsmiðla. Þarna gildir sama og um apótek / apútek að sérhljóðið sem um ræðir er í áhersluleysi milli tveggja áhersluatkvæða og sennilega oftast borið fram sem einhvers  konar millihljóð sem getur verið skynjað ýmist sem ú eða ó – og líka sem o, kommonisti, sem fáein dæmi eru um.

Posted on

Meinlausar málbreytingar

Það er í eðli tungumála að breytast – það er óhjákvæmileg afleiðing af hlutverki þeirra og flutningi milli kynslóða. Okkur finnst samt flestum að íslenskan eigi að vera eins og hún var – eða eins og okkur var kennt að hún ætti að vera – þegar við vorum að alast upp. Við getum að vísu sætt okkur við að það þurfi ný orð fyrir nýjungar af ýmsu tagi, þótt okkur finnist þau oft óþjál og framandi í fyrstu, en að öðru leyti viljum við að málið haldist óbreytt – framburður, beygingar, setningagerð, merking orða og orðasambanda og annað sé eins og við erum vön. Ef út af því bregður finnst okkur iðulega að um rangt mál sé að ræða sem nauðsyn sé að leiðrétta. Mér sýnist að algengustu umkvörtunarefnum af þessu tagi megi skipta í tíu flokka.

(1) Röng fallmynd notuð (byggingu í stað byggingar, einkanir í stað einkunnir, trúnna í stað trúna); (2) rangt fall notað (mér langar í stað mig langar, spá í þessu í stað spá í þetta); (3) eintöluorð notað í fleirtölu (verð, orðrómar, fælnir); (4) rangt orð notað (ristavél í stað brauðrist, fólk í stað maður, opna hurð í stað opna dyr); (5) orð eða orðasamband notað í rangri merkingu (erlendis, notast við, ávarpa málið); (6) orð eða orðasamband ofnotað (taka samtalið, heldur betur); (7) óþarft orð notað (hán, leghafi); (8) eftiröpun erlends orðs eða orðasambands notuð (aðvörun, snjóstormur, renna út á tíma); (9) óaðlagað erlent orð notað (ókei, sorrí, næs); (10) röng setningagerð notuð (það var barið hana, öll eru velkomin, ég vona að hann kemur).

Ég hef skrifað um öll þau dæmi sem hér eru nefnd, og fjölmörg önnur úr flestum þessum flokkum. En ég er orðinn sjötugur og alinn upp í sveit þannig að sú íslenska sem ég tileinkaði mér endurspeglar málið eins og það var um miðja tuttugustu öld, og þótt ég hafi tekið upp sumar þeirra nýjunga sem nefndar eru hér að framan samræmast þær í fæstum tilvikum mínu upphaflega máli. En þótt ég kunni misjafnlega vel við þessar breytingar sé ég enga ástæðu til að amast sérstaklega við þeim, hvað þá að hafa áhyggjur af þeim eða áhrifum þeirra á tungumálið og framtíð þess, enda er engin þeirra líkleg til að valda breytingu á grunnstoðum málkerfisins eða torvelda svo að heitið geti skilning komandi kynslóða á málfari fyrri tíma.

Vissulega er samt ýmislegt þarna sem rétt er að gefa gætur. Það væri t.d. mikil eftirsjá að viðtengingarhættinum þótt breytingar á notkun hans þurfi ekki endilega að tákna að hann sé að hverfa. Það er líka rétt að gjalda varhug við mikilli aukningu á eftiröpun enskra sambanda eins og renna út á tíma – ekki vegna þess að slík sambönd séu óæskileg í sjálfu sér, heldur vegna þess að hugsunarlaus upptaka þeirra getur bent til þekkingarskorts á íslenskri málhefð. Mikil fjölgun á óaðlöguðum erlendum orðum gæti líka til lengri tíma haft áhrif á hljóðskipunarreglur málsins og veikt beygingakerfið. En engin ástæða er til að hafa áhyggjur af breytingum á föllum og fallmyndum, fleirtölu orða sem áður voru talin eintöluorð, eða breyttri merkingu stöku orða.

Íslenskunni stafar engin ógn af því að breytast. Hún hefur alltaf verið að breytast, er að breytast, og mun halda áfram að breytast hvort sem okkur líkar betur eða verr og hversu mikið sem við berjumst gegn tilteknum breytingum – og hún þarf sífellt að vera að breytast til að þjóna samfélaginu á hverjum tíma. Það er hins vegar fullkomlega eðlilegt og mannlegt að ýmsar breytingar fari í taugarnar á okkur vegna þess að við viljum hafa málið eins og við erum vön. En við megum alls ekki láta pirring okkar bitna á þeim sem nota málið öðruvísi en við, heldur verðum að sýna máli annarra – líka þeirra sem eru að læra íslensku – virðingu og tillitssemi. Aðalatriðið er að íslenska sé nothæf á öllum sviðum og notuð ef þess er nokkur kostur.