Posted on

Óínáanlegur

Ég veit ekki hvað oft ég hef rekist á það í hópunum „Málvöndunarþátturinn“ og „Skemmtileg íslensk orð“ að hnýtt sé í lýsingarorðið óínáanlegur – það kallað „orðskrípi“ og því valin hin háðulegustu orð. Þótt þetta orð sé í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er það ekki að finna í helstu orðabókum en kemur reyndar fyrir á Nýyrðavef Árnastofnunar þar sem það er skýrt 'að ekki sé hægt að ná í viðkomandi'. Orðið er vissulega hvorki algengt né ýkja gamalt – dæmin um það á tímarit.is eru samtals aðeins sautján, það elsta í Þjóðviljanum 1991: „En ríkisskattstjóri var, þennan dag [...], á leið norður í land – bílsímalaus og óínáanlegur fyrr en seint um kvöldið.“ Í Risamálheildinni eru dæmin 67, um tveir þriðju af samfélagsmiðlum.

Orðið er vissulega nokkuð langt og það má halda því fram að sé margbrotið og ekki ýkja þjált – greinist í sex hluta: ó-í-ná-an-leg-ur. En því fer samt fjarri að það skeri sig úr. Ýmis orð í málinu eru alveg hliðstæð, svo sem óaðfinnanleg, óaðskiljanleg, óáreiðanleg, óásættanleg, ófrávíkjanleg, ófyrirsjáanleg, óumdeilanleg, óumflýjanleg, óviðráðanleg, óyfirstíganleg – hér er lýsingarorðsendingu sleppt því að flest þessara orða geta einnig verið atviksorð og enda þá á -a. Þessi tíu orð eru öll mjög algeng – um hvert þeirra eru a.m.k. tvö þúsund dæmi bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni, og öll eru þau frá nítjándu öld eða eldri nema óumdeilanleg (1933) og óásættanleg (1979). Margir tugir sjaldgæfari orða til viðbótar fylgja sama mynstri.

Öll þessi orð eru byggð upp á sama hátt –fyrst er neitunarforskeytið ó­-, síðan kemur forsetning, þá sagnstofn, síðan nátengdu viðskeytin -an- og -leg-, og að lokum ending lýsingarorðs eða atviksorðs. Forsetningin og sögnin mynda merkingarlega heild – finna að, víkja frá, ná í o.s.frv., og einnig hangir an-leg saman og merkir 'sem hægt er að'. Það er því ljóst að ástæðan fyrir andstöðu við óínáanlegur getur ekki verið gerð orðsins – það er yfirleitt ekki gerð athugasemd við önnur orð sem eru mynduð á sama hátt. Frá því er þó ein undantekning: Það er mjög oft amast við orðinu óásættanlegur eins og ég hef skrifað um. Það eina sem greinir það orð frá hinum, sem almenn sátt er um, er aldurinn – elsta dæmi um óásættanlegur er frá 1979.

Einhverjum kynni að detta í hug að það sem truflaði málnotendur við orðin óásættanlegur og óínáanlegur væri að þau byrja á tveimur breiðum sérhljóðum í röð. En sama gildir um hið algenga orð óáreiðanlegur, sem og orð eins og óáþreifanlegur o.fl. sem aldrei er amast við. Niðurstaðan er sem sé sú að eina hugsanlega ástæðan fyrir andstöðu við orðin óásættanlegur og óínáanlegur er ungur aldur þeirra – margir málnotendur sem hafa ekki alist upp með þau í málumhverfi sínu fúlsa við þeim þess vegna. Það er út af fyrir sig skiljanlegt að ný orð komi fólki spánskt fyrir sjónir, en þegar um er að ræða orð sem eru mynduð í samræmi við reglur málsins og eiga sér fjölmargar hliðstæður er engin ástæða til að amast við þeim, hvað þá að kalla þau „orðskrípi“.

Posted on

Gerum bækur sýnilegar á heimilum

Í fyrrahaust var ég að skipta um húsnæði og skoðaði af því tilefni fjölda fasteignaauglýsinga. Smátt og smátt áttaði ég mig á því að á myndunum sem fylgdu þessum auglýsingum sáust yfirleitt hvorki bókahillur né bækur. Þá rifjaðist upp fyrir mér að áður en teknar voru myndir af húsinu okkar fyrir sölu fengum við leiðbeiningar um hvernig ætti að undirbúa myndatökuna. Þar var talað um að fjarlægja ýmislegt sem þótti ekki gera húsið söluvænlegra – reyndar ekki bókahillur enda hefði það verið ógerningur, en mig grunar samt að það sé gert í einhverjum tilvikum. Sé svo gæti það bent til þess að bækur séu ekki mikils metnar og þyki hvorki prýði né bera vott um menningarheimili heldur séu fremur vitnisburður um óreiðu eða eitthvað slíkt.

Nú þykist ég vita að sumar myndir úr nýjum íbúðum séu ekki ljósmyndir heldur teiknaðar með hjálp gervigreindar, en auðvitað væri einfalt að gefa gervigreindinni fyrirmæli um að teikna bókahillur með bókum þó ekki væri nema á einn veggstubb. Það er dapurlegt ef bækur hafa það orð á sér að ekki sé heppilegt að flagga þeim á myndum vegna þess að þær dragi úr söluvænleik íbúða. En hinn möguleikinn er samt enn áhyggjusamlegri því að hann er sá að þessi bókafæð á myndunum sé ekki uppstillt heldur lýsi raunverulegu ástandi – á mörgum heimilum séu einfaldlega ekki til neinar bækur. Það er alvarlegt mál, vegna þess að ýmsar rannsóknir sýna marktæk tengsl milli fjölda bóka á heimili og lestraráhuga og lestrargetu barna á heimilinu.

Ég fór að hugsa um þetta aftur vegna frétta um átak til að efla bókakost danskra grunnskóla. Haft er eftir stjórnanda Dönsku lestrarmiðstöðvarinnar (Nationalt videncenter for læsning) að „bækur geti aukið einbeitingu og hvatt börn til að lesa meira“ og „Mörg börn vilji frekar lesa hefðbundnar bækur vegna þess að þær veita þeim tækifæri til að vera í algjöru næði“. Það er gífurlega mikilvægt fyrir íslenskuna að efla áhuga barna og unglinga á bóklestri til að auka orðaforða, efla málskilning og styrkja málkennd. Þess vegna þurfum við átak í að gera bókum hærra undir höfði, bæði í skólum og á heimilum – fjölga bókum, hætta að fela þær á myndum, og gera það metnaðarmál að eiga og lesa bækur. Það ætti að skila sér í auknum bóklestri barna.

Posted on

Sæl kæru Málspjallarar

Í dag var spurt í „Málspjalli“ hvort það væri eðlilegt að byrja tölvupóst á „Sæl kæru foreldrar“. Fyrirspyrjanda fannst að þarna yrði að vera sælir vegna þess að foreldrar væru karlkynsorð. Spurningin virðist að vísu hafa verið tekin út en mér finnst samt eðlilegt að svara henni vegna þess að fleiri höfðu augljóslega áhuga og skoðanir á málinu. Það er auðvitað rétt að fleirtalan foreldrar er karlkyns þótt eintalan foreldri sé hvorugkyns en hins vegar hafa foreldrar til skamms tíma verið sitt af hvoru kyni og þess vegna er löng hefð fyrir því að vísa til þeirra með hvorugkyninu þau þótt oft hafi verið amast við því. En ef lýsingarorð stendur hliðstætt með orðinu verður það að vera í karlkyni – þau eru góðir foreldrar, alls ekki *góð foreldrar.

Þetta þýðir samt ekki endilega að lýsingarorðið sæll verði að vera í karlkyni í áðurnefndu ávarpi. Þótt lýsingarorðið standi með foreldrar er það í sterkri beygingu og ekki hliðstætt á sama hátt og lýsingarorðið kæru sem stendur næst foreldrar og er í veikri beygingu. Tvö lýsingarorð sem standa hliðstætt með sama nafnorðinu verða annaðhvort að vera bæði í sterkri beygingu eða bæði í veikri beygingu – við getum sagt bæði gamall þreyttur maður og gamli þreytti maður en hvorki *gamall þreytti maður né *gamli þreyttur maður. Þegar af þeirri ástæðu er ljóst að sæl í framangreindu ávarpi er ekki hliðstætt nafnorðinu foreldrar á sama hátt og kæru – það er lykilatriði að sæl er þarna eins konar ávarpsliður en ekki hliðstætt lýsingarorð.

Ávarpsliðir af þessu tagi þurfa nefnilega ekki að samræmast nafnorðinu sem á eftir kemur í kyni þótt þeir geti gert það, heldur geta miðast við kyn persónunnar sem þeir vísa til. Þetta sést vel með orðinu skáld – það er eðlilegt að segja sæll kæra skáld ef karlmaður er ávarpaður en sæl kæra skáld ef um konu er að ræða. Kannski er líka hægt að segja sælt kæra skáld óháð kyni skáldsins en mér finnst það skrítið. Það er líka eðlilegt að segja sæll hetjan mín við karlmann þótt hetja sé kvenkynsorð, og vertu sæl engillinn minn við konu þótt engill sé karlkynsorð. Ávarp eins og sæl kæru foreldrar – og einnig sæl kæru hlustendur sem nefnt var í umræðu – eru algerlega hliðstæð og í góðu lagi, en auðvitað er líka hægt að segja sælir kæru foreldrar.

Posted on

RÚV grefur undan íslenskunni og sjálfu sér

Ríkissjónvarpið birtir nú kvöld eftir kvöld auglýsingu frá Sýn sem hefst á orðunum „Here it is – the Premier League is back!“. Allt tal í auglýsingunni er á ensku – eina íslenskan í henni eru fáein orð á textaspjaldi í lokin. Þessi auglýsing samræmist augljóslega ekki sjöttu grein laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005, þar sem segir m.a.: „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.“ Auglýsingin er líka skýlaust brot á grein 7.5 í málstefnu Ríkisútvarpsins þar sem segir: „Auglýsingar skulu almennt vera á íslensku en heimilt er að erlendir söngtextar séu hluti auglýsingar. Ef sérstök ástæða er til að hafa erlent tal í auglýsingum skal fylgja þýðing.“ Þetta er svo skýrt sem verða má.

Það er áhyggjuefni og raunar óskiljanlegt að svona augljóst brot á lögum og málstefnu skuli komast í gegn hjá auglýsingadeild Ríkisútvarpsins og ég vonast til að það séu mistök en ekki „einbeittur brotavilji“ sem liggi þar að baki. Ég hef skrifað útvarpsstjóra um þetta og treysti því að nú, þegar bent hefur verið á þessi mistök, verði þau leiðrétt hið snarasta og auglýsingin ekki birt oftar í þessari mynd – það ætti að vera lítið mál að setja íslenskan texta við hana þannig að hún samræmist lögum og málstefnu Ríkisútvarpsins. Verði hún birt áfram óbreytt er ljóst að málstefnan er marklaust plagg, og þá er líka full ástæða til að tilkynna málið til Neytendastofu sem sér um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu samkvæmt áðurnefndum lögum.

Þótt einhverjum kunni að virðast það sparðatíningur að fetta fingur út í eina auglýsingu á ensku, og birting umræddrar auglýsingar sé vonandi mistök eins og áður segir, er það í sjálfu sér grafalvarlegt að slík mistök skuli gerð og er lýsandi dæmi um það hversu sljó við erum orðin gagnvart enskunni í umhverfinu. En þarna hangir meira á spýtunni. Samkvæmt fyrstu grein laga um Ríkisútvarpið nr. 23/2013 er eitt meginhlutverk þess að „leggja rækt við íslenska tungu“, og til þessa hlutverks er oft vísað til þess að rökstyðja og réttlæta tilvist ríkisrekins fjölmiðils. Með því að birta auglýsingu á ensku í augljósri andstöðu við bæði lög og eigin málstefnu er Ríkisútvarpið því ekki eingöngu að grafa undan íslenskunni, heldur einnig undan eigin tilvist.

Posted on

Uppkoma og útbreiðsla málbreytinga

Í gær var spurt í „Málspjalli“ um ástæðu þess að myndin þæginlegt, með n, í stað þægilegt virtist vera að „festa sig í sessi í ritmáli hjá yngri kynslóðinni“. Ég hef áður skrifað um þessa breytingu og haldið því fram að um sé að ræða áhrif frá nafnorðinu þægindi og ætla ekki að endurtaka þau skrif það hér. En í spurningunni og umræðu um hana komu fram tvö atriði varðandi uppkomu og útbreiðslu málbreytinga sem ástæða er til að staldra við. Annars vegar er það orðalag spurningarinnar þar sem sérstaklega er vísað til ritmáls og yngri kynslóðarinnar. Nýjungar í máli eru yfirleitt meira áberandi hjá yngra fólki en eldra svo að vísun til yngri kynslóðarinnar þarf ekki að koma á óvart, en aðalatriðið er að vísað er sérstaklega til ritmáls.

Það er eðlilegt – við höfum engar heimildir um talmál yngri kynslóðarinnar (og svo sem ekki þeirrar eldri heldur) sem hægt væri að byggja fullyrðingar af þessu tagi á. Þar fyrir utan er framburðarmunur á þægilegt og þæginlegt sáralítill og örugglega oft sagt þæginlegt án þess að við tökum eftir því – þessi litli munur er reyndar forsenda fyrir því að myndir með n komi upp. Tilfinning fólks fyrir því að eitthvað sé að breytast í þessu byggist því á ritmálinu, og hvar sjáum við helst ritmál yngri kynslóðarinnar? Það er á samfélagsmiðlum, og þar eru myndir með n vissulega mjög algengar – af tæplega 6.600 dæmum um lýsingarorðið þæginlegur og atviksorðið þæginlega í Risamálheildinni eru allar nema um 300 af samfélagsmiðlum.

Til samanburðar má nefna að dæmi um n-lausu myndirnar þægilegur og þægilega á samfélagsmiðlum eru 59 þúsund þannig að þótt  nýju myndirnar séu vissulega algengar þar eru þær ekki nema um tíundi hluti af heildinni. En það sem skiptir máli í þessu er að athuga að samfélagsmiðlar eru tiltölulega nýtt form ritmáls, ekki nema 20-25 ára gamlir, og fyrir daga þeirra sáum við sjaldan ritaðan texta frá almenningi – sérstaklega ekki frá ungu fólki. Þótt við tökum miklu meira eftir einhverju málfarstilbrigði nú en áður þarf það ekki endilega að sýna að það sé að breiðast út. Það getur hafa verið algengt lengi – við vissum bara ekki af því vegna þess að við sáum sjaldan eða aldrei texta af því tagi þar sem það er líklegt til að koma fram.

Annað atriði sem vert er að skoða kom fram í skýringum þátttakenda í umræðum á breytingunni. Þar var sagt að þetta væri „Líklega vegna þess að þau eru ekki leiðrétt“ og „Þetta er önnur kynslóð, annar kennslumáti og enginn sem leiðréttir“. Órökstuddar fullyrðingar af þessu tagi eru algengar í málfarsumræðu en engar rannsóknir liggja fyrir sem styðja að það sé rétt að börn séu ekki lengur leiðrétt. Þótt óumbeðnar leiðréttingar á málfari fullorðins fólks eigi ekki að tíðkast veit ég ekki til að amast hafi verið við því að foreldrar leiðbeini börnum sínum á máltökuskeiði um málfar, rétt eins og um annað í uppeldinu – a.m.k. hef ég ekki gert það. En hitt er annað mál að rannsóknir benda til þess að beinar leiðréttingar á máli hafi sáralítil áhrif.

Þær rannsóknir eru vissulega erlendar en þótt við höfum engar íslenskar rannsóknir á þessu er ekkert sem bendir til og engar líkur á að annað gildi hér. Enda þurfum við svo sem engar rannsóknir til að sýna fram á gagnsleysi leiðréttinga – við þurfum ekki annað en skoða þróun málbreytinga eins og svonefndrar „þágufallssýki“ eða „þágufallshneigðar“ síðustu 80-100 árin. Það er ekki eins og fólk sem segir mér langar og mér vantar hafi ekki verið leiðrétt – á heimilum, í skólum, í fjölmiðlum og annars staðar. Það hefur verið barist gegn þessari breytingu með hörku allan þennan tíma – með þeim árangri einum að hún heldur áfram að breiðast út eins og fjöldi rannsókna sýnir. Sama mætti segja um ýmsar aðrar þekktar „málvillur“.

Það er sem sé tvennt að athuga í þessu. Annars vegar getur oft verið að við ofmetum hraða og útbreiðslu málbreytinga einfaldlega vegna þess að við höfum annars konar heimildir og gögn en áður – það getur oft verið að breytingar hafi verið lengi í gangi í talmáli þótt við höfum ekki tekið eftir þeim, en þegar farið er að skrifa talmálið eins og á síðustu áratugum æpa þær á okkur. Hins vegar er engin sönnun fyrir því að dregið hafi úr leiðréttingum, en þótt svo hefði verið er það ekki ástæða málbreytinga. Leiðréttingar á máli barna skila litlu – það sem skiptir máli er að halda málinu að þeim, lesa fyrir þau og hvetja þau til lestrar og vera þeim góðar fyrirmyndir. Börn sem aldrei sjá foreldra sína lesa bók eru ekki líkleg til að hafa áhuga á að gera það sjálf.

Posted on

Að pendla

Í hópnum „Skemmtileg íslensk orð“ var verið að spyrja um íslensk orð sem samsvöruðu ensku sögninni commute og nafnorðinu commuter sem höfð eru um það að ferðast reglulega milli staða, einkum heimilis og vinnustaðar. Á dönsku eru sögnin pendle og nafnorðið pendler höfð um þetta en þau eru skyld nafnorðinu pendúll sem hefur verið notað í íslensku síðan á nítjándu öld og er löngu viðurkennt tökuorð, komið úr dönsku. Það liggur beint við að nota dönsku orðin og laga þau að íslensku – sögnin pendla er raunar þegar komin í töluverða notkun, nafnorðið gæti verið pendill, og um athöfnina má nota annaðhvort kvenkynsorðið pendling eða pendlun. Þessi orð falla ágætlega að málinu – mun betur en pendúll – og ekkert þeirra er nýtt.

Það eru til dæmi um sögnina pendla frá því fyrir miðja tuttugustu öld. Í Lesbók Morgunblaðsins 1946 segir: „Vegna þess að jökulárnar „pendla“ tiltölulega hægt yfir sandana ná stór svæði að gróa upp.“ Í skákþætti í Þjóðviljanum 1946 segir: „Þetta er hægt með því að pendla kóngi hvíts.“ Í grein um lestrarkennslu í Menntamálum 1966 segir: „Þessar aðferðir hafa pendlað á milli pólanna, ef svo má segja.“ En fyrsta dæmi sem ég finn um að sögnin sé notuð um reglulegar ferðir í og úr vinnu er á Bland.is 2004: „hann pendlar yfir 3 svar í viku.“ Í Morgunblaðinu 2005 segir: „Gulli „pendlaði“ bara í vinnuna þaðan.“ Í 24 stundum 2008 segir: „Allir sem ég þekki sem pendla svona á milli Íslands og umheimsins nota hverja stund til að vinna.“

Orðið pendill er einnig til í málinu og er flettiorð í Íslenskri orðabók, í sömu merkingu og pendúll – í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls segir „Afbrigði af pendúll“. Merkingin er þó önnur í elstu dæmum um orðið í auglýsingum frá þriðja áratugnum, t.d. í Jólagjöfinni 1921 þar sem segir: „Ljósakrónur, Borðlampar, Pendlar, Kuplar og Lampettur.“ Samhengið sýnir að orðið er þarna notað um ljós, væntanlega lampa sem hangir í snúru neðan úr loftinu, enda rímar það við merkingu orðsins pendel í dönsku. Nokkuð ljóst er að eintölumyndin pendill liggur þarna að baki fleirtölunni pendlar. En elsta dæmi um orðið í merkingunni 'pendúll' er í Rétti 1935: „Alþýðuflokksforingjarnir sveifluðust í þessari baráttu fram og aftur eins og pendill.“

Dæmi má líka finna um að nafnorðið pendling sé notað um það að ferðast á þennan hátt – „Íslendingar eru rétt að fatta pendling sístemið“ segir á Bland.is 2006. Reyndar eru eldri dæmi um orðið í eilítið annarri en náskyldri merkingu: „Þessar tiltölulega reglulegu „pendlingar“ jökulvatnanna hafa sína þýðingu“ segir í Lesbók Morgunblaðsins 1946. Verknaðarheiti af sögnum sem enda á -aði í þátíð eru reyndar oftast mynduð með -un og pendlun kæmi til greina. Sögnin pendla hefur verið töluvert notuð í íslensku undanfarna tvo áratugi – í Risamálheildinni eru á annað hundrað dæmi um hana. Nafnorðin pendill og pendling eða pendlun virðast hins vegar lítið sem ekkert ekki hafa verið notuð, en sjálfsagt er að nota þau ef þörf þykir.

Posted on

Það er ekki til neitt sem heitir „eintöluorð“

Ein lífseigasta mýtan í íslenskri málfarsumræðu er sú að til sé hópur orða sem kallaður er „eintöluorð“. Það orð er reyndar ekki að finna í helstu orðabókum, hvoki í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók, og ekki heldur í Íslensk-danskri orðabók Sigfúsar Blöndals frá 1920-1924. Orðið hefur þó lengi verið þekkt í merkingunni 'orð sem er aðeins notað eða til í eintölu' – elsta dæmi um þá merkingu er í Ísafold 1908: „Hljómleikar er fleirtölnorð (án eint.); en hljómleikur, eintöluorð (án flt.), merkir alt annað (= musik).“ Flest orð sem flokkuð hafa verið sem eintöluorð eru safnheiti sem er 'orð sem haft er um magn af e-u sem ekki er alltaf hægt að telja, t.d. sandur, sykur og fólk' (áður voru þetta stundum kölluð „heildstæð orð“).

Því hefur verið haldið fram að sum orð séu „í eðli sínu eintöluorð“ – en hvað gæti það merkt? Yfirleitt er enginn vandi að búa til fleirtölu þessara orða samkvæmt almennum reglum beygingakerfisins, enda er hægt að nota mörg þeirra öðruvísi en sem safnheiti og þá þykir fleirtala þeirra góð og gild. Sem safnheiti merkir orðið sandur t.d. 'fínmulin bergmylsna með mismunandi kornastærð', en það getur einnig merkt 'landsvæði þar sem fínmulin bergmylsna er ráðandi í landslagi' og þá getur það fengið fleirtölu – „Þar eru sandar og sljettir melar“ segir í Þjóðólfi 1852. Annað dæmi er gull sem er safnheiti í grundvallarmerkingu sinni, en hefur lengi einnig haft merkinguna 'leikföng' (sem sennilega er að mestu horfin) og fær þá fleirtölu.

Ótal önnur dæmi sýna að orð sem hafa verið flokkuð sem eintöluorð geta auðveldlega fengið fleirtölu – ef not eru fyrir hana. Merking safnheita er einfaldlega þess eðlis að fleirtala af þeim er óþörf og því „ekki til“ í einhverjum skilningi – en ef merkingin hliðrast til og orðin fara að vísa til einhvers teljanlegs, annaðhvort í stað safnheitismerkingarinnar eða til hliðar við hana, verður yfirleitt til fleirtala þeirra. Gott dæmi um þetta er orðið keppni. Lengi var amast við fleirtölu þess, keppnir, en í Málfarsbankanum segir: „Fleirtalan keppnir á aðeins við þegar talað er um kappleiki eða mót en ekki þegar orðið merkir: kapp.“ Meðan orðið merkti aðeins 'kapp' var fleirtalan óþörf en um leið og það fór að merkja 'kappleik', 'mót' kom þörfin upp.

Uppkoma fleirtölumynda af slíkum orðum er því í raun ekki breyting á beygingu heldur skýr vísbending um að merking orðanna sé að breytast – og það er sú breyting sem kallar á fleirtöluna. Auðvitað getur fólk amast við því að merking orða breytist eða hliðrist til, en um slíkar breytingar eru ótal dæmi sem sum eru viðurkennd en önnur ekki. Ég hef skrifað í „Málspjalli“ um fjölda orða þar sem deilt er um hvort fleirtala eigi rétt á sér – svo sem orðin fíkn, flug, fólk, fræðsla, fælni, hræðsla, húsnæði, keppni, látbragð, lið, mar, málning, málstaður, orðrómur, ótti, smit, verð, þjónusta. Það er oft óljóst hvers vegna amast er við fleirtölu þessara orða – stundum virðist það byggt á skilningsleysi eða misskilningi á því hvað er á ferðum.

Í „Móðurmálsþætti“ Vísis 1956 var t.d. sagt rangt að nota orðið segulstál í fleirtölu vegna þess að það væri „efni og því í eðli sínu eintöluorð eins og önnur efnisheiti“, en bætt við: „Öðru máli gegnir þegar orðið stál verður hlutstætt, fer að tákna hluti svo sem vopn, heystabba, þá er það til í báðum tölum.“ Reyndar merkir segulstál ekki fyrst og fremst efni, heldur 'járnstykki sem er mjög segulmagnað' og fær þá eðlilega fleirtölu. En óskiljanlegt er hvers vegna orð eins og stál og gull mega verða hlutstæð og fá fleirtölu en ekki orðið verð þar sem enn er verið að amast við fleirtölunni þótt hún komi fyrir í fornu máli í merkingunni 'upphæð'– Árni Böðvarsson segir t.d. í Íslensku málfari: „Eðli þess er eintala, þótt formið banni ekki fleirtölumynd.“

Þetta er auðvitað mjög sérkennilegt orðalag, og ekki síður orðalag Málfarsbankans þar sem mælt er gegn því að tala um góð verð og lág verð en bætt við: „þó virðist ekki alltaf hægt að komast hjá því að nota verð í fleirtölu. Til að mynda í setningunni: öll verð eru án virðisaukaskatts.“ Það er auðvitað það sem málið snýst um – þar vísar orðið til tiltekinnar upphæðar og því er fleirtalan eðlileg. En af hverju er talað um það eins og afsakandi að það sé  „ekki alltaf hægt að komast hjá því að nota verð í fleirtölu“? Það er eins og skorti kjark til að segja hreint út að fleirtalan sé eðlileg þegar merking orðsins kalli á hana. Fólk virðist hafa bitið það í sig að tiltekin orð megi ekki vera í fleirtölu – það sé andstætt „eðli“ þeirra.

Tilfellið er að öll nafnorð geta staðið í fleirtölu ef merking og notkun þeirra krefst þess og því engin rök fyrir þeirri staðhæfingu að „eðli“ sumra orða sé eintala – það er ekki til neinn hópur orða sem eðlilegt er að kalla „eintöluorð“. Hins vegar mætti tala um „eintölumerkingu“ vegna þess að það er merkingin sem veldur því oft að fleirtölu er ekki þörf eins og Höskuldur Þráinsson benti á í greininni „Ekki til í fleirtölu“ í Íslensku máli 1983. En af einhverjum ástæðum virðast fáar nýjungar í máli fara meira í taugarnar á fólki en þegar farið er að nota fleirtölu orða sem áður hafa oftast eða eingöngu verið höfð í eintölu. Vitanlega getur fólk amast við því að merking orða hnikist til frá því sem verið hefur en þá á að beina spjótum að því, ekki að beygingunni.

Posted on

Ég er gagntekinn, altekinn, heltekinn . . .

„Ég er gagntekinn, altekinn, heltekinn, tekinn í framan“ sungu Stuðmenn eftirminnilega í myndinni Með allt á hreinu fyrir meira en fjörutíu árum. Í innleggi í „Málspjalli“ í gær voru tvö þessara orða til umræðu – innleggshöfundur sagðist geta verið altekin „af góðri hugmynd eða tilfinningu t.d. gleði eða þakklæti“ en alls ekki geta verið heltekin „af gleði eða fögnuði“. Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru bæði orðin skýrð með því þriðja úr þessum hópi, 'gagntekinn', sem aftur er skýrt 'uppfullur af e-u'. Samkvæmt þessu eru orðin þrjú samheiti í nútímamáli. Í Íslenskri orðabók er lýsingarorðið eða lýsingarhátturinn heltekinn ekki uppflettiorð heldur fellt undir sögnina heltaka, en fyrsta skýring hennar er 'deyða, drepa' og önnur 'gagntaka'.

Fyrri hluti orðsins er væntanlega nafnorðið hel, 'hið kalda ríki sem menn fara til eftir dauðann' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. Upphafleg merking sagnarinnar heltaka er því örugglega 'færa í ríki dauðra‘'og sú merking kemur glöggt fram í elstu dæmum. Í Ritum þess íslendska Lærdómslistafélags frá 1786 segir um tún: „ver þau frosti og hörkum, sem annars heltekur þau.“ Í Þjóðólfi 1871 segir: „fanst hann þá brátt heltekinn [...] og reyndist örendur.“ Í Heilbrigðistíðindum 1872 segir: „allmargir drykkjumenn fara á endanum úr krampa, er þannig heltekur allan líkamann, að lífið slokknar út af allt í einu.“ Í Lýð 1890 segir: „22. des. andaðist Bogi P. Pétursson [...] úr skæðri lungnabólgu, er heltók hann af vosi eptir læknisferðir.“

Þetta samræmist vitanlega skýringum sagnarinnar heltaka í Íslenskri orðabók – þau sem eru heltekin eru 'merkt dauðanum', en jafnframt er eðlilegt að líta svo á að þau séu gagntekin af því sem um er að ræða – kulda, krampa, vosi o.s.frv. – í þeim skilningi að það yfirtaki þau. Smátt og smátt hefur merking sagnarinnar heltaka (og lýsingarorðsins heltekinn) síðan þróast þannig að dauðamerkingin dofnar eða hverfur en merkingin 'gagntekinn' verður aðalatriðið eins og skýringar orðanna í Íslenskri nútímamálsorðabók sýna. Það þýðir samt ekki að heltekinn og gagntekinn séu alger samheiti og tilfinning áðurnefnds innleggshöfundar fyrir merkingarmun þeirra sé úr lausu lofti gripin. Þvert á móti – málnotendur gera almennt skýran mun á orðunum.

Merkingarmunur orðanna heltekinn og gagntekinn virðist felast í því að hið fyrrnefnda vísar til einhvers sem er sjúklegt eða fer yfir venjuleg mörk – verður þráhyggja. Það er hægt að vera heltekinn af ást eins og í Stuðmannalaginu  – það eru um 80 dæmi um það samband á tímarit.is, og um 20 í Risamálheildinni. En þótt ástin sé í sjálfu sér góð og jákvæð getur hún samt verið eitruð og óheilbrigð, og það eru engin dæmi um heltekinn af hamingju, heltekinn af ánægju eða heltekinn af sælu, og aðeins eitt um heltekinn af gleði. Það er hægt að nota orðin jöfnum höndum í neikvæðu samhengi, með orðum eins og reiði, hatur, illska o.s.frv., en tengingin við hel er enn til staðar í huga málnotenda – við höfum tilfinningu fyrir því að heltekinn sé ekki jákvætt.

Posted on

Er ambaga að tala um mörg lið?

Fyrir rúmum sjötíu árum, haustið 1954, flutti Sveinbjörn Sigurjónsson magister útvarpserindi sem nefndist „Íslenzk tunga í önnum dagsins“. Þetta erindi „fjallar um efni, sem öllum Íslendingum er hugstætt, en um leið gamalt og nýtt vandamál“ segir í Alþýðublaðinu þar sem erindið var prentað, enda segir blaðið að það hafi vakið „mikla athygli“ og blaðið hafi fengið „margar áskoranir um að koma því á framfæri við lesendur sína“. Eitt af því sem tekið er fyrir í erindinu eru „ambögur“, meðal þeirra hið sígilda viðfangsefni „eintöluorð“ svokölluð – orð sem sumum finnst að aðeins eigi að nota í eintölu en málnotendur hafa oft ríka tilhneigingu til að nota í fleirtölu. Um þetta tekur Sveinbjörn þrjú áhugaverð dæmi og segir:

„Stundum eru ambögur endurteknar svo oft, að úr verður málfarsbreyting, sem vonlítið er að berjast gegn. Vil ég í því sambandi minnast á 3 orð, sem algeng eru í frásögnum og tilkynningum íþróttamanna. Það eru orðin lið, keppni og árangur. Þessi orð eru í eðli sínu eintöluorð, en heildstæð eins og t.d. orðið fólk. Svo hefur þetta verið frá upphafi vega og þannig voru þau enn, er orðabók Sigfúsar Blöndals kom út 1923. En fyrir svo sem 2-3 áratugum tóku íþróttamenn [...] upp á því fyrir einhverja handvömm að nota umrædd orð í fleirtölu. Þetta er nú orðið svo algengt, að úr orðalista dagsins hef ég 3 dæmi, hvert úr sínu blaði, um orðið lið í ft.: Liðin, sem tóku þátt í keppninni – bæði liðin – hins vegar erfiðuðu leikmenn beggja liða.“

Sveinbjörn heldur áfram: „Hversu mjög sem orðalag þetta særir máltilfinningu okkar, sem komin erum yfir miðjan aldur, og hvernig sem skólarnir reyna að berjast gegn því, virðist það hafa náð slíkri festu í rituðu máli síðari ára, að orðabókarhöfundar næstu kynslóðar neyðist til að viðurkenna fleirtölu umræddra orða.“ Þarna reyndist hann sannspár – og þó ekki að öllu leyti. Fleirtölubeyging orðanna lið og keppni er gefin athugasemdalaust í Íslenskri orðabók, sem og í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls þar sem árangur er hins vegar aðeins í eintölu. Þó eru hátt í tvö þúsund dæmi um fleirtölumyndir orðsins á tímarit.is, það elsta frá 1901, og í síðustu útgáfu Íslenskrar orðabókar er fleirtalan árangrar reyndar gefin, en þó innan sviga.

Þótt Sveinbjörn sé andvígur málbreytingum er hann raunsær að vissu marki – viðurkennir að séu „ambögur“ endurteknar nógu oft verði úr því málbreyting „sem vonlítið er að berjast gegn“. Þannig verða málbreytingar einmitt – hefjast sem frávik frá hefðbundnu máli en ef þær ná festu í málinu verður niðurstaðan á endanum „rétt mál“ – málbreytingar sem verður að viðurkenna, enda þótt þessar nýjungar særi máltilfinningu þeirra sem komin eru yfir miðjan aldur. Svona hefur þetta alltaf gengið – eldri kynslóðin er sífellt að amast við nýjungum í máli yngri kynslóða en gleymir, eða áttar sig ekki á, að hún var sjálf einu sinni yngri kynslóðin sem tók upp ýmsar nýjungar sem kynslóð foreldra hennar kallaði „ambögur“ og særði máltilfinningu hennar.

Hve mörg ykkar vissu til dæmis að það hefði verið talin „ambaga“ að tala um bæði liðin og mörg lið – og hverjum dettur í hug að það séu einhver málspjöll að því? Ég er orðinn sjötugur og hef lagt mig eftir að lesa skrif um málfar og málvöndun en aldrei rekist á það áður að amast sé við þessari fleirtölu. Hins vegar hef ég ótal sinnum séð og heyrt amast við því að talað sé um keppnir en ég efast um að fólk sem er fætt á síðustu fjörutíu árum kannist við það. Svona breytist málið – við ergjum okkur yfir breytingum sem við verðum vitni að en þær breytingar sem við höfum ekki hugmynd um að hafi orðið eru margfalt fleiri og trufla okkur ekkert. Íslenskan hefur lifað þær af – og mun líka lifa af þær sem nú eru í gangi. Það er annað sem ógnar málinu nú.

Posted on Færðu inn athugasemd

Breytt notkun og beyging orðsins fólk

Í gær var einu sinni sem oftar til umræðu í „Málspjalli“ hvaða kynhlutlaust orð væri hægt að nota um mannveru. Mörgum finnst þetta ekkert vandamál og segja að orðið maður þjóni þessu hlutverki ágætlega en öðrum hugnast betur að nota orðið manneskja. Það er þó talsverð andstaða við báða kosti og ólíklegt að um þá skapist almenn sátt – og sama gildir um aðrar tillögur að orðum, eins og man og menni. Það vill samt svo heppilega til að við höfum orð sem hentar fullkomlega þegar rætt er um hóp – það er orðið fólk. Það er hvorugkynsorð sem tengist ekki á neinn hátt einu kyni frekar en öðru. En það hefur einn stóran galla: Það er safnheiti en ekki teljanlegt – við getum talað um starfsfólk en ekki *tíu starfsfólk eða *eitt starfsfólk.

Eða hvað? Það virðist vera orðið nokkuð um að orðið fólk sé notað sem teljanlegt orð og talað um eitt fólk, sum fólk, nokkur fólk, mörg fólk, öll fólk o.s.frv. – um allt þetta er slæðingur af dæmum úr samfélagsmiðlum í Risamálheildinni. Það samræmist því sem fram kom í umræðu um þetta í „Málspjalli“ þar sem bæði var sagt „Eitt fólk, mörg fólk. Eða þannig hef ég heyrt ungmenni nota þetta“ og „Miðað við það sem ég heyri hjá ungu fólki finnst mér stefna í það að einmitt „fólk“ sé að festast í sessi sem eintöluorð“. Enn sem komið er virðist þessi notkun orðsins bundin við ungt fólk og óformlegt málsnið og þótt hún virðist fara vaxandi er ekki ljóst hversu langt þróunin er komin eða hvort og þá hvenær hún muni ná til formlegs máls.

Þessi breyting er í raun tvíþætt. Annars vegar hættir fólk að vera safnheiti og eintala þess hættir þá að vísa til hóps en fer þess í stað að vísa til einstaklings. Hin breytingin er eðlileg afleiðing þeirrar fyrri: Þegar eintalan hættir að vísa til hóps þarf að þróa aðra aðferð til að þjóna þeim tilgangi, og það er gert með því að gefa orðinu fleirtölu. Eins og í öðrum hvorugkynsorðum (nema þeim sem hafa a í stofni) hljóta nefnifall og þolfall fleirtölu að verða eins og samsvarandi föll eintölunnar. Munurinn kemur aðeins fram í þágufalli og eignarfalli fleirtölu sem verða fólkum og fólka, sem og í myndum með greini – fólkin, fólkunum, fólkanna. Um þessar myndir, nema fólkunum, má finna dæmi í Risamálheildinni þótt þau séu vissulega ekki mörg.

Þessi breyting væri svo sem ekki meiri en hefur orðið á notkun og beygingu ýmissa orða í málinu og ekki verður séð að hún torveldi skilning – setningu eins og tuttugu starfsfólk vinna hjá fyrirtækinu er varla hægt að skilja nema á einn veg. Það má líka benda á að orðið fólk er einmitt notað á þennan hátt í færeysku og hefur þar bæði eintölu og fleirtölu, en stundum er sagt að færeyska sé íslenska framtíðarinnar í þeim skilningi að ýmis málþróun þar muni koma fram í íslensku þótt síðar verði. Væru það stórkostleg málspjöll ef þessi breyting á notkun og beygingu orðsins fólk breiddist út og næði til formlegs máls? Um það verður hvert að dæma fyrir sig – en þið skuluð ekki ímynda ykkur að unga fólkið spyrji okkur gamlingjana um leyfi.