Posted on Færðu inn athugasemd

Að detta í eða á gólfið

Ekki löngu eftir að Háskólatorg, ein bygginga Háskóla Íslands, var tekið í notkun síðla árs 2007 var hringt til mín frá rektorsskrifstofu og spurt hvort ætti að segja í Háskólatorgi eða á Háskólatorgi. Ég sagði að þar væri úr vöndu að ráða. Grunnmerking forsetningarinnar í er 'inn(i) í' og þess vegna notum við hana venjulega um hús – í Þjóðleikhúsinu. Grunnmerking á er aftur á móti 'ofan á' eða 'utan á' og þess vegna notum við hana venjulega um torg – á Lækjartorgi. En hvernig á að fara með fyrirbæri sem er hús en heitir torg? Ég man ekki fyrir víst hvað við ritari rektors sammæltumst um en held þó að það hafi verið á Háskólatorgi – a.m.k. sýnist mér að það hafi fljótlega fest í sessi og sé venjulega notað þótt hinu bregði fyrir.

Ástæðan fyrir því að ég nefni þetta hér er færsla Sverris Páls í gær, þar sem hann sagði: „Ég hef tekið eftir því í fréttum að fólk er nær endalaust að falla í jörðina. Nú dettur fólk ekki lengur á gólfið, á gangstéttina, á grasið eða á götuna.“ Út frá þessu fór ég að hugsa um forsetningarnar sem notaðar eru með sögnunum detta og falla. Eins og þarna er nefnt er hægt að tala um að detta eða falla á gólfið / gangstéttina / götuna / jörðina, en það er líka hægt að detta / falla í gólfið / götuna / jörðina – en tæplega *í gangstéttina. Báðar forsetningarnar eru algengar með þessum orðum og eiga sér yfirleitt margra áratuga sögu með þeim – nema sambandið falla / detta í jörðina sem virðist vera fremur nýlegt en er orðið mjög algengt eins og Sverrir Páll taldi.

Það þarf í sjálfu sér ekki að koma á óvart að forsetningin í sæki á. Þetta er næstalgengasta orðmynd málsins, á eftir , og hefur verið að sækja í sig veðrið undanfarna áratugi (og raunar allt frá fornu máli). Spurningin er hins vegar hvort einhver merkingarmunur sé á í og á í þessum samböndum. Mér sýnist að svo geti stundum verið og held að sá munur felist í því að með í sé athygli beint að sögninni en með á fremur að nafnorðinu. Þannig finnst mér mun eðlilegra að segja bollinn datt í gólfið og brotnaði en á gólfið – þar má segja að ástæðan fyrir því að bollinn brotnaði sé að hann datt, aukaatriði hvar hann lenti. Aftur á móti er eðlilegt að segja ég datt á hart steingólf og rotaðist en ekki í hart steingólf – þar er lendingarstaðurinn aðalatriðið.

Ég er sem sé ekki sammála mati Sverris Páls, „að falla í jörðina finnst mér að fara talsvert dýpra en á yfirborð hennar“. Þessi skilningur væri vissulega rökréttur miðað við að grunnmerking í sé 'inn(i) í' eins og áður segir, en hins vegar er merkingin miklu fjölbreyttari en svo, eins og er með flestar forsetningar. En ef þetta væri eini skilningurinn ætti sama að gilda um falla / detta í gólfið og falla / detta í götuna en hvort tveggja hefur verið algengt í málinu undanfarin 80-90 ár. Aftur á móti er aldrei sagt *falla / detta í gangstéttina eins og áður segir, og ekki heldur *falla / detta í veginn, þótt búast mætti við að um gangstéttina og veginn gilti hið og um götuna. Það er mjög oft tilviljun háð hvaða forsetningar eru notaðar með tilteknum nafnorðum.

Þetta er auðvitað vel þekkt í tengslum við staðanöfn þar sem ýmist er notað í eða á með nöfnum sem hafa sama seinni hluta og búast mætti við að tækju sömu forsetningu – við segjum í Reykjavík en á Húsavík, í Hafnarfirði en á Stöðvarfirði, í Borgarnesi en á Akranesi, í Vatnsdal en á Kaldadal, í Grafarósi en á Blönduósi, í Kópavogi en á Djúpavogi, í Holtsmúla en á Fellsmúla, o.s.frv. Að einhverju leyti er þetta landshlutabundið en það er vitanlega engin skýring – þetta eru málvenjur sem ekki eiga sér neinar röklegar skýringar nema í einstöku tilvikum. En einmitt þess vegna geta þessar málvenjur breyst, og tilfinning fólks fyrir því hvaða forsetning eigi við með tilteknum orðum getur verið mismunandi. Það er ekkert óeðlilegt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Höldum kúlinu!

Lýsingarorðið kúl er flettiorð í Íslenskri nútímamálsorðabók og sagt merkja 'svalur, flottur' en tekið fram að það sé „óformlegt, ekki fullviðurkennt mál“. Þarna er vitanlega um að ræða enska lýsingarorðið cool sem hefur verið notað sem tökuorð í íslensku áratugum saman. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Vísi 1978: „Myndin hefst á því að hinn sæti og „kúl“ Thorndyke, sem þjáist af lofthræðslu (ekta Hitchcock) tekur við rekstri „Geðveikrahælis fyrir mjög, mjög truflaða“.“ Þarna er orðið innan gæsalappa eins og til afsökunar. Annað dæmi er í Foringjanum 1979: „Þarna sjáið þið hvað ég er kúl hetja.“ En vegna þess að óformlegt mál komst sjaldan á prent á þessum tíma er ekki ótrúlegt að orðið sé talsvert eldra í málinu. Dæmum fjölgar svo smátt og smátt eftir 1980.

Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er gert ráð fyrir að orðið taki engum formbreytingum, hafi myndina kúl í öllum kynjum og föllum eintölu og fleirtölu, og stigbreytist ekki. Það eru þó ýmis dæmi um að orðið fái þær beygingarendingar sem við væri að búast af íslensku orði. Nefnifallið kúll í karlkyni eintölu er þó varla til nema í fáeinum vafasömum dæmum á samfélagsmiðlum en hvorugkyninu kúlt bregður fyrir: „Ætli þetta eigi ekki bara að vera kúlt?“ í DV 2004. Dæmi eru um fleirtölu í karlkyni og kvenkyni: „Berklasjúklingar væru einatt listfengir og dularfullir, berklar væru kúlir“ í sögu eftir Stefán Snævarr 2017, og „Jesss við erum mjöööög flottar og kúlar“ á Bland.is 2007. Veik beyging er einnig til: „Nú er það Jón Múli, sá kúli gæi“ í Helgarpóstinum 1981.

Þessi dæmi eru þó frekar fá og ekki víst að þau séu alltaf meint í fullri alvöru. Hins vegar er nokkuð um að orðið stigbreytist. Í Morgunblaðinu 1999 segir: „það er greinilega talið miklu „kúlara“ að sveiflast á milli akreina eins og svigskíðakappi á Ólympíuleikum.“ Í Veru 2001 segir: „Hörkuskvísan Jennifer Lopez kom sá og sigraði í Anacondu (1997) og var síðan enn kúlli ef eitthvað var í Out of Sight (1998).“ Í Fréttablaðinu 2011 segir: „Er kannski kúlara að æfa með KR?“ Í DV 2000 segir: „Þetta er kúlasti klúbbur Akureyrar.“ Í Veru 2000 segi: „í stuttu máli fékk ég þær upplýsingar að þessi sænska Nina Björk væri ,,kúlasti nútímafeministinn“ í Skandinavíu.“ Þó stigbreytist kúl iðulega með meira og mest eins og Katrín Axelsdóttir hefur bent á.

En ekki þykir öllum kúl fara vel í íslensku. Í grein í Fréttablaðinu 2006 skrifaði Njörður P. Njarðvík: „„Sá sem glatar kúlinu er einskis virði“, segir í fyrirsögn í Fréttablaðinu 27. okt. Í greininni er þetta orðskrípi haft eftir viðmælanda, en blaðamaðurinn lyftir því upp í fyrirsögn til að auka vægi þessi – öðrum til eftirbreytni eða hvað? Í ensku merkir lo. cool m.a. svalur, kuldalegur, óuppnæmur, ófyrirleitinn. Hér er skýrt dæmi um málfarslega ábyrgð blaðamanna – eða öllu heldur skort. Svona gera menn ekki […].“ Í dæminu sem þarna er vísað til er kúl hins vegar ekki lýsingarorð heldur nafnorð í hvorugkyni eins og sjá má bæði á setningarstöðu þess og greininum. Þannig er orðið iðulega notað, ekki síst í samböndum eins og missa kúlið, halda kúlinu o.fl.

Elstu dæmi sem ég finn um kúl sem nafnorð er í djassskrifum Vernharðs Linnet í Helgarpóstinum 1981: „Það var ekkert skrýtið þótt Ornette ætti erfitt uppdráttar í eyjadjasssamfélaginu þar sem kúlið og boppið voru nýmæli“ og „Skilin milli boppsins og kúlsins eru ekki alltaf mikil“. En nafnorðið kúl í merkingunni 'töffheit' fer að sjást að ráði upp úr 1990: „En svo í reglunum er gefið upp „kúlið“, sem er hversu töff þú ert; ef þú ert með hátt kúl þá ertu eins og Schwarzenegger“ segir í Pressunni 1993, og árið 1994 kom út safnplata með titlinum „Algjört kúl“. Í Morgunblaðinu 1997 segir: „Nei, ég veit bara að amma hefur aldrei misst kúlið“ og í Fjölni sama ár segir: „Hörður hélt kúlinu og bað formanninn að bíða augnablik.“ Í DV 2004 segir: „Leiðin frá hallæri til kúls var ekki í boði ríkisins.“

Nafnorðið kúl fellur ágætlega að málinu – rímar t.d. við púl. Það hefur hins vegar ekki komist í orðabækur þrátt fyrir að vera töluvert algengt. Á annað þúsund dæmi eru um það í Risamálheildinni, meirihlutinn úr óformlegu málsniði samfélagsmiðla en samt nokkur hundruð úr hefðbundnum fjölmiðlum. Aftur á móti eru dæmin um lýsingarorðið kúl hátt í 34 þúsund, þar af rúm 92% af samfélagsmiðlum. Nafnorðið virðist því eiga greiðari leið inn í formlegt málsnið en lýsingarorðið enda beygist það alltaf eftir almennum reglum málsins ólíkt lýsingarorðinu og fellur því í raun betur að málinu. Þrátt fyrir enskan uppruna orðsins sé ég enga ástæðu til að amast við því í íslensku, sérstaklega ekki nafnorðinu, en óneitanlega væri skemmtilegra ef lýsingarorðið beygðist meira.

Posted on Færðu inn athugasemd

Ásættanlegt og óásættanlegt

Fáum orðum hefur verið hallmælt jafnoft og jafnmikið í málfarsþáttum undanfarna áratugi og lýsingarorðunum ásættanlegt og óásættanlegt. Málfarsbankinn segir: „Betra er að segja að eitthvað sé viðunandi eða hægt sé að fallast á það en að það sé „ásættanlegt“ og orðin hafa verið kölluð „leiðindaorð“, „orðaleppar“ og „orðskrípi“, og sögð „hvimleið tískuorð“ sem séu að útrýma ágætum orðum eins og (ó)viðunandi og þolanlegt. Árni Böðvarsson amaðist við orðunum í bókinni Íslenskt málfar, sömuleiðis Ari Páll Kristinsson í bókinni Handbók um málfar í talmiðlum, og Gísli Jónsson hnýtti í þau í á annan tug skipta í þáttum sínum sínum í Morgunblaðinu frá 1991-2001. Þá er ótalinn sægur athugasemda á samfélagsmiðlum.

Mér sýnist að fyrst hafi verið amast við þessum orðum í þætti Garra í Tímanum 1988 þar sem sagði: „En það var orðið „óásættanlegur“ sem Garri hnaut um. Líklega er þó ekki beinlínis hægt að segja að þetta sé málvilla […], en óskaplega er þetta þó ambögulega að orði komist.“ Víkverji segir í Morgunblaðinu 1990: „Á síðustu misserum hafa þessir menn komið sér upp nýju orði. Nú er allt ýmist ásættanlegt eða ekki ásættanlegt!“ Í Þjóðviljanum sama ár segir Árni Bergmann: „Við freistumst til að telja suma misskiptingu guðs gjafa „ásættanlega“ eins og það heitir“, og Í DV 1991 segir: „Falskur fiðluleikur er, svo notað sé tungutak landsfeðranna, ekki ásættanlegur nú til dags.“ Orðalagið í tveimur seinustu dæmunum sýnir að orðið er þarna nýtilkomið.

Elsta dæmi sem ég finn um ásættanlegt er í Vísi 1976: „Bann við notkun afkastamikils veiðarfæris eins og flotvörpu er einnig andstætt öllum vilja til framfara en hlýtur þó að vera ásættanlegra“. Frá 1977 og 1978 eru nokkur dæmi, öll úr Verkalýðsblaðinu, en um 1980 kemst orðið í töluverða notkun og verður mjög algengt eftir 1990. Andheitið óásættanlegt fylgir sama mynstri en kemur aðeins á eftir – elsta dæmi um það er í Morgunblaðinu 1979: „Fjölgun fulltrúa ríkisstjórnar í sjóðsstjórninni er óásættanleg fyrir sjávarútveginn.“ Örfá dæmi eru um orðið fram um 1990 en eftir það fjölgar dæmunum ört, einkum eftir miðjan tíunda áratuginn. Þetta rímar vel við að farið er að gera athugasemdir við orðin undir 1990 eins og áður segir.

Gísli Jónsson taldiásættanlegt væri „líklega þýðing á ensku acceptable“. En þótt ásættanlegt samsvari acceptable nokkurn veginn að merkingu til er það ekki næg ástæða til að kalla það „þýðingu“ og ég sé engin rök fyrir því að halda slíku fram – það endurspeglar ekki enska orðið að formi. Enda kæmi þá fleira til greina en acceptable – í Þjóðviljanum 1990 segir t.d.: „Niðurstaðan er sú að áhættan vegna Áburðarverksmiðjunnar er ásættanleg („tolerable risk“) fyrir íbúðarbyggðina eins og hún er í dag.“ Orðin ásættanlegt og óásættanlegt eru rétt mynduð íslensk orð, hliðstæð við t.d. áreiðanlegt og óáreiðanlegt eða viðráðanlegt og óviðráðanlegt sem allt eru gamalgróin orð sem engum kemur til hugar að amast við.

Í þættinum Íslenskt mál í Morgunblaðinu 2002 sagðist Karl Emil Gunnarsson ekki heldur amast við orðunum „á fagurfræðilegum forsendum“ heldur þætti sér slæmt „hversu herská orðin ásættanlegur og óásættanlegur eru og hafa nánast lagt undir sig merkingarsvið þar sem mörg eldri orð, sum þjálli og öll fallegri [...], hafa lengi deilt í sátt og samlyndi. Þar hefur viðunandi orðið einna harðast úti og andheiti þess, óviðunandi.“ Og Njörður P. Njarðvík sagði í Morgunblaðinu 1994: „Nú tala menn sífellt um „ásættanlega niðurstöðu“ eða jafnvel um „ásættanlega lendingu“ þegar deilu er lokið eða málalyktir hafa fengist. Það er langt síðan ég hef heyrt eða séð orðið viðunandi í þvílíku samhengi (og hefur það þó talist algengt orð).“

En þetta er misskilningur eða skynvilla – því fer fjarri að ásættanlegt og óásættanlegt hafi útrýmt viðunandi og óviðunandi. Í Risamálheildinni sem hefur einkum að geyma texta frá síðustu 20 árum eru 25.441 dæmi um ásættanlegt og 18.435 um óásættanlegt en 32.899 dæmi um viðunandi og 20.022 um óviðunandi. Síðarnefndu orðin hafa því enn vinninginn, þótt vissulega megi sjá á tímarit.is að þau fyrrnefndu hafa sótt á. En ásættanlegt og óásættanlegt eru rétt mynduð orð sem eiga sér skýrar hliðstæður í málinu, eru ekki þýðing eða eftiröpun enskra orða, og eru ekki að útrýma samheitum sínum. Þau eru viðbót við orðaforðann og auðga þannig málið. Þrátt fyrir það getur fólki vitanlega fundist þau ljót, og um það þýðir ekki að deila.

Posted on Færðu inn athugasemd

Fjármálaáætlun frá sjónarhóli íslenskunnar

Undanfarna daga hafa sérfræðingar og hagsmunaaðilar á ýmsum sviðum verið uppteknir við að greina fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og segja álit sitt á henni frá mismunandi sjónarhornum. Ég vildi ekki láta mitt eftir liggja og ákvað því að skoða áætlunina frá sjónarhóli þess málefnis sem ég ber helst fyrir brjósti – sem er íslensk tunga. Í haust var stofnuð sérstök ráðherranefnd um íslenska tungu samkvæmt tillögu forsætisráðherra, skipuð fimm ráðherrum, og er henni „ætlað að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast“ og „vinna markvisst að stefnumótun stjórnvalda og aðgerða í þágu tungumálsins“. Það hefði mátt ætla að þessa starfs sæi stað í fjármálaáætluninni.

En svo er ekki. Undir liðnum „Menning, listir, íþrótta- og æskulýðsmál“ segir: „Gert er ráð fyrir að útgjaldarammi málefnasviðsins lækki um 2.634 m.kr. frá fjárlögum 2023 til ársins 2028. […] Á tímabilinu falla niður ýmis […] tímabundin framlög, samanlagt um 820 m.kr., m.a. vegna kvikmyndasjóðs, máltækniverkefnis […].“ Þetta rímar ekki við það að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir: „Þá verður áfram unnið að því að styrkja stöðu íslenskunnar í stafrænum heimi með áherslu á máltækni.“ Það er gífurlega mikilvægt að því góða starfi sem hófst með máltækniáætlun stjórnvalda verði haldið áfram. Mikilvægi kvikmyndagerðar fyrir íslenskuna er líka óumdeilt og lækkun fjárveitinga til kvikmyndasjóðs því mjög óheppileg.

Í áætluninni segir: „Þróun og framtíð íslenskrar tungu á tímum örrar alþjóðavæðingar og tæknibyltinga er mikilvæg til að styrkja stöðu þjóðtungunnar. Tillaga til þingsályktunar um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi er í vinnslu og fjallar um mikilvægi íslenskrar tungu og nauðsyn þess að tryggja að tungumálið verði áfram notað á öllum sviðum íslensks samfélags.“ Því ber að fagna, en um leið verður að vekja athygli á að samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar frá því í janúar var áætlað að „Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026“ frá ráðherranefnd um íslenska tungu yrði lögð fram 27. mars. Sú tillaga hefur ekki enn komið fram og er væntanlega sú sem nú er sögð „í vinnslu“.

Ein stærsta áskorunin fyrir íslenskuna á næstu árum er mikil fjölgun fólks með annað móðurmál en íslensku eins og fram kemur í áætluninni: „Árið 2022 voru um 10 þúsund erlendir ríkisborgarar sem fluttu til landsins umfram brottflutta. Útlit er fyrir að þessi þróun haldi áfram og að fjöldinn verði ekki minni í ár.“ Auk þeirra sem hingað koma í atvinnuleit hefur flóttafólki og fólki sem hefur verið veitt alþjóðleg vernd fjölgað mikið: „Þá er einnig óvissa um efnahagsleg áhrif af fjölgun flóttafólks og þau geta verið ólík til skemmri og lengri tíma. Til lengri tíma ráðast þau ekki síst af því hvernig fólkinu gengur að aðlagast íslensku samfélagi, vinnumarkaði og skólakerfi og hvernig tekst að tryggja aðgengi að íslenskukennslu.“

Þetta er hárrétt, og þess vegna hefði mátt búast við því að í áætluninni væri að finna einhverjar áætlanir um stórátak í íslenskukennslu. En því er ekki að heilsa. Vissulega er vikið að mikilvægi íslenskukennslu á nokkrum stöðum, t.d. í kafla um leik- og grunnskóla: „Sú mikla áskorun menntakerfisins sem felst í auknum fjölda þessara nemenda [þ.e. af erlendum uppruna] og barna í leit að alþjóðlegri vernd kallar á […] styrkingu kennslu í íslensku sem öðru tungumáli.“ Í kafla um framhaldsfræðslu segir: „Aðgengi að íslenskunámi og samfélagsfræðslu þarf að vera auðvelt og verið er að þróa stuðningskerfi við starfstengt íslenskunám á vinnustað. Einnig hefur samstarfshópur hafið störf um úrbætur í íslenskukennslu […].“ Einhver fleiri dæmi mætti nefna.

Þetta er gott og blessað en þetta eru aðeins óskir og áform – ekki aðgerðir og hvað þá fjármagn. Í viðauka fjármálaáætlunar er fjallað um stöðu og horfur á einstökum málefnasviðum í mörgum köflum sem öllum er skipt í undirkafla á sama hátt. Meðal undirkafla eru „Helstu áskoranir“, „Tækifæri til umbóta“ og „Áhættuþættir“. Það vekur sérstaka athygli að þörf fyrir íslenskukennslu er sjaldnast nefnd í köflum um helstu áskoranir – ekki í „10.05 Útlendingamál“, ekki í „14.1 Ferðaþjónusta“, og ekki í „29.7 Málefni innflytjenda og flóttafólks“. Tækifæri sem íslenskukennsla skapar eru ekki heldur nefnd í köflum um tækifæri til umbóta, og áhættan af því að hér verði til samfélög fólks sem ekki talar íslensku er ekki nefnd í köflum um áhættu.

Íslenskunám er þó nefnt í kafla um framhaldsfræðslu og í töflu í þeim kafla eru sett þau markmið að „fjöldi skráninga á íslenskunámskeið viðurkenndra fræðsluaðila“ fari úr 8.400 árið 2022 upp í 15.000 2028, og „hlutfall ánægðra og mjög ánægðra á þessum námskeiðum“ fari úr 40% í 70% á sama tíma. Ekkert kemur samt fram um það hvernig eigi að ná þessum markmiðum – a.m.k. á ekki að auka fjárveitingar til málaflokksins svo að heitið geti. Í heildina má segja að frá sjónarhóli íslenskrar tungu sé fjármálaáætlunin dapurleg lesning og veki litlar vonir um að íslenskan komist úr þeirri varnarstöðu sem hún er í. Við þurfum að gera miklu betur og það kostar mikið fé – eru stjórnvöld kannski ekki tilbúin að horfast í augu við það?

Posted on Færðu inn athugasemd

Gjöf fyrir þig eða gjöf handa þér?

Að margra mati er merkingarmunur á því hvort sagt er þetta er gjöf fyrir þig eða þetta er gjöf handa þér. Í kverinu Gætum tungunnar segir: „Auglýst var: Þessi vara er sérstaklega framleidd fyrir þig. Réttara væri: ... framleidd handa þér. (Ath.: ... framleidd fyrir þig ætti fremur að merkja: ... til þess að þú þurfir ekki að framleiða hana sjálf(ur).)“ Í bókinni Íslenskt málfar segir Árni Böðvarsson: „Þetta er framleitt fyrir þig er rétt orðalag í merkingunni 'Þetta er framleitt fyrir þig svo að þú þurfir ekki að gera það sjálfur.' Hins vegar er það ekki íslenskulegt í merkingunni 'til þess að þú notir það'. Þá væri rétt að segja: „Þetta er framleitt handa þér“.“ En í máli mjög margra er þó enginn merkingarmunur á fyrir og handa í þessum samböndum.

Vissulega geta sambönd með fyrir haft þá merkingu sem ein er talin rétt í Gætum tungunnar og Íslensku málfari. Þannig er t.d. í Ísafold 1911: „Góð gjöf fyrir foreldra að gefa bömum sínum, er barnablaðið 'Æskan'“. Í Vísi 1937 segir: „Í fyrra fóru skátar um bæinn og söfnuðu fatnaði og allskonar gjöfum fyrir Vetrarhjálpina.“ Í þessum dæmum eru foreldrar og Vetrarhjálpin ekki þiggjendur gjafanna, heldur er þetta í þeirra þágu. En ég man að ég kom af fjöllum þegar ég las í Gætum tungunnar að rangt væri að nota fyrir með þiggjanda – ég held að ég hafi alltaf notað fyrir og handa jöfnum höndum, án verulegs merkingarmunar. Og ég er ekki einn um það, þótt vissulega þyki ýmsum eðlilegt að gera mun á fyrir og handa í umræddum samböndum.

Enginn vafi er þó á því að eldra er að nota forsetninguna handa í slíkum dæmum. „Nú var safnað töluverðum gjöfum handa fólkinu“ segir í Fjölni 1836; „Amtmenn og sýslumenn skulu með tilstyrk merkra manna gángast fyrir að safna gjöfum handa þeim er liðið hafa tjón af kláðafaraldrinum“ segir í Þjóðólfi 1857; og allmörg sambærileg dæmi eru frá 19. öld. Elsta dæmi sem ég hef fundið um fyrir í hliðstæðri merkingu er í titli rits sem kom út 1884 og heitir „Kvöldvaka í sveit eða jóla og nýárs-gjöf fyrir fólkið“. Í Eimreiðinni 1896 segir: „Auk þessa hefur fjelagið mjög opt haft jólatrje með gjöfum fyrir börn fátæklinga“ og í Lögréttu 1907 segir: „Góð, hentug og mátulega dýr tækifærisgjöf fyrir unga og fullorðna.“

Annars eru fá dæmi um fyrir í þessari merkingu í íslenskum blöðum fram um 1920. Hins vegar er fjöldi dæma í vesturíslensku blöðunum, Lögbergi, Heimskringlu og fleiri, og liggur beint við að álykta að þar sé um að ræða áhrif frá ensku forsetningunni for sem er notuð í sambærilegum dæmum. En um 1920 fer dæmum um fyrir fjölgandi í íslenskum blöðum. „Smekklegustu og nýtustu jólagjafirnar fyrir unga og gamla“ segir í Vísi 1920, „Spegiltöskur eru hin fallegasta gjöf fyrir ungar fermingarstúlkur; fást nú fallegar, vandaðar og ódýrar“ segir í Vísi 1923, „Saga Oddastaðar er góð jólagjöf fyrir þá, sem fremur unna þjóðlegum fræðum og sögulegum rannsóknum, en tilbúnum (misjöfnum) skáldskap“ segir í Morgunblaðinu 1932.

Þrátt fyrir að ég telji mig nota fyrir og handa nokkurn veginn jöfnum höndum finnst mér geta verið blæbrigðamunur á þeim eftir því hvort verið er að lýsa hugmynd eða orðnum hlut. Þannig finnst mér eðlilegt að segja þetta væri upplögð gjöf fyrir mömmu þegar gjöfin hefur ekki verið keypt en aftur á móti myndi ég kannski fremur segja ég keypti gjöf handa mömmu. En ég veit ekki hvort ég er einn um þessa tilfinningu. Hvað sem því líður er ljóst að notkun fyrir í sömu merkingu og handa í ýmsum samböndum er mjög algeng í málinu og á sér a.m.k. hundrað ára óslitna sögu, og því kemur ekki annað til greina en telja þessa notkun rétt mál. En vitanlega er sjálfsagt að þau sem gera áðurnefndan mun á fyrir og handa haldi því áfram.

Posted on Færðu inn athugasemd

Ungbörn og ungabörn

Inn í umræðu sem varð hér í dag um orðið hvítvoðungur fléttaðist deila um orðið ungabarn sem sumum þykir rangt og telja að einungis myndin ungbarn sé rétt. Málfarsbankinn segir vissulega „Frekar skyldi segja ungbarn en „ungabarn““, og í grein á Vísindavefnum segir Guðrún Kvaran: „Báðir rithættirnir, ungbarn og ungabarn, teljast réttir en frekar er mælt með rithættinum ungbarn.“ En bæði Íslensk orðabók og Íslensk nútímamálsorðabók hafa myndina ungabarn sem flettiorð án nokkurra athugasemda, og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er myndin ungabarn líka gefin og merkt „Af.“ sem merkir að orðið tíðkist á Austurlandi. Vel má vera að þessi mynd hafi í upphafi verið algengari þar en annars staðar, en hún er ekki staðbundin nú.

Orðmyndin ungabarn á sér a.m.k. 140 ára sögu í málinu. Í Iðunni 1884 segir: „hefði ekki Ingibjörg komið þjótandi með ungabarnið í fanginu.“ Lengi framan af eru þó aðeins örfá dæmi á tímarit.is úr blöðum gefnum út á Íslandi en langflest úr vesturíslensku blöðunum. Sé það rétt í Íslensk-danskri orðabók að orðið hafi upphaflega einkum tíðkast á Austurlandi gæti þetta endurspeglað það að hlutfall Austfirðinga í hópi vesturfara var mjög hátt. Það er ekki fyrr en upp úr 1950 sem farið er að nota orðið að ráði í íslenskum blöðum og tíðnin eykst verulega eftir 1970. Myndin ungbarn hefur þó alltaf verið margfalt algengari en heldur hefur dregið saman með orðunum á síðustu áratugum. Vitaskuld er ungabarn rétt íslenska, ekkert síður en ungbarn.

Því er oft haldið fram að ungabarn hljóti að merkja 'barn unga'. Það byggist á þeim misskilningi að orðið sé eignarfallssamsetning og fyrri liður þess sé nafnorðið ungi í eignarfalli (eintölu eða fleirtölu). Formsins vegna gæti þetta vissulega verið eignarfallssamsetning en merkingarlega er það útilokað – ungar eiga ekki börn og það er þeim auðvitað ljóst sem lesa merkinguna 'barn unga' út úr orðinu. Það er vitanlega hreinn útúrsnúningur og ekki málefnalegur. Þarna er a-ið ekki eignarfallsending heldur tengihljóð eða tengistafur (bandstafur), eins og í ruslafata, dótakassi og fjölmörgum öðrum orðum. Slík orðmyndun er fullgild í íslensku þótt hún sé ekki eins algeng og eignarfallssamsetning.

Það hefur verið bent á að í fleirsamsettum orðum er myndin ungbarn einhöfð en ungabarn þekkist ekki – við tölum um ungbarnaföt, ungbarnamat, ungbarnasund o.s.frv. en ekki *ungabarnaföt, *ungabarnamat, *ungabarnasund o.s.frv. Ástæðan fyrir þessu – og fyrir uppkomu myndarinnar ungabarn – er sennilega tilhneiging málsins til víxlhrynjandi, þ.e. til að láta áhersluatkvæði og áherslulaus atkvæði skiptast á. Í orðinu ungbarn standa saman tvær rætur, tvö áhersluatkvæði, og það er frekar stirt. Með því að skjóta inn tengihljóðinu a og fá myndina ungabarn fáum við víxlhrynjandi (áhersluatkvæðið ung – áherslulausa atkvæðið a – áhersluatkvæðið barn). Í fleirsamsettum orðum fæst víxlhrynjandi fram án slíks innskots.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að lenda stökk(i)

Það er vel þekkt að ýmsar málfarsnýjungar eiga rætur í íþróttamáli og ein slík vakti athygli mína í gær þegar ég sá setningagerð sem ég kannaðist ekki við í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins – „Lenti erfiðasta stökki sögunnar“. Þessi setningagerð var svo endurtekin inni í fréttinni þar sem sagði: „Hinn 18 ára gamli Bandaríkjamaður Ilia Malinin skráði sig á spjöld sögunnar er hann lenti fyrstur allra fjórföldum „Axel“ á alþjóðlegu móti.“ Í fréttinni kemur fram að þessi skautasnillingur hafi tekið einstaklega erfitt stökk sem nefnt er „Axel“ og lent á réttan hátt (á öðrum fæti) eftir stökkið. Það sem ég kannaðist ekki við var að sögnin lenda væri notuð á þennan hátt, þ.e. með andlagi (stökki) í þessari merkingu. Þarna hefði ég sennilega talað um að takast eða heppnast stökkið.

Elsta dæmi sem ég fann um sambandið lenda stökk(i) er úr umræðu um fjallahjólreiðar á Hugi.is 2006: „það tekur hellvíti mikið á bakið og svo auðvitað höggin við að lenda stökk!“. En sambandið er aðallega notað í fimleikum og í listdansi á skautum í merkingunni 'lenda á réttan hátt eftir stökk'. Elsta dæmi sem ég fann um þá notkun var á Eyjunni 2007: „Kurt Browning frá Kanada var fyrstur allra til að lenda fjórföldu stökki í listdanskeppni á skautum.“ Í Fréttablaðinu 2014 segir: „þetta verður hörkukeppni og mun koma til með að ráðast af því hverjir lenda stökkunum sínum best.“ Í Vísi sama ár segir: „Auðvitað hefðum við viljað lenda fleiri stökkum.“ Á vef Ríkisútvarpsins 2015 segir: „Við þurfum að lenda 36 stökkum og negla þetta.“ Mörg fleiri dæmi eru frá síðustu árum.

Í dæmunum hér að framan er andlagið stökk í þágufalli nema í dæminu af Huga.is. Þágufallið er vissulega langalgengast en nokkur dæmi má þó finna um þolfallið. Í Fréttablaðinu 2021 segir: „Það ætlaði allt um koll að keyra innan liðsins eftir að hann lenti stökkið.“ Í sama blaði sama ár segir: „Það trylltist allt í keppnishöllinni þegar Kolbrún lenti stökkið.“ Í Vísi sama ár segir: „þar með varð hann fyrstur í heiminum til þess að framkvæma og lenda þetta stökk í keppni.“ Af þessu mætti e.t.v. draga þá ályktun að þolfallið væri í sókn en dæmin eru of fá til að unnt sé að fullyrða nokkuð um það. Hins vegar er rétt að benda á að í málfarsnýjungum er algengt að fallstjórn sagna flakki milli þolfalls og þágufalls, í dæmum eins og negla boltann/boltanum, rústa leikinn/leiknum o.fl.

Svo má velta fyrir sér hvort eitthvað sé við þessa nýjung að athuga. Það er auðvitað ekki nýjung að sögnin lenda taki andlag – það er talað um að lenda skipi þegar í fornu máli og nú er talað um að lenda flugvélum. Vissulega eru merkingarvensl sagnar og andlags önnur í sambandinu lenda stökk(i), en þá má benda á að sögnin er einnig oft notuð í yfirfærðri merkingu – lenda málinu sem merkir 'leiða málið til lykta, ljúka málinu á viðunandi hátt'. Það má halda því fram að lenda stökk(i) sé ekki ósvipað – merkingu sambandsins má orða sem 'enda stökkið á viðunandi hátt'. Þarna er verið að búa til nýtt orðasamband með skýra og afmarkaða merkingu sem blasir við út frá merkingu orðanna sem mynda sambandið. Ég sé ekki betur en þetta samband auðgi málið en spilli því ekki.

Posted on Færðu inn athugasemd

Tölum íslensku frekar en íslenska tungumálið

Eins og alkunna er sker íslenska sig frá flestum skyldum málum í því að hafa aðeins ákveðinn greini en engan óákveðinn. Ákveðinn greinir í íslensku er í stórum dráttum notaður á sama hátt og í t.d. dönsku og ensku, en þar sem þau mál nota óákveðinn greini hefur íslenska nafnorðin ein, án nokkurs fylgiorðs. Við segjum ég las bók í gær, í dönsku er sagt jeg læste en bog i går, og í ensku I read a book yesterday. Þar með er búið að kynna bókina til sögunnar og ef vísað er til hennar fljótlega aftur er hún orðin þekkt, ljóst er til hvers er verið að vísa, og þess vegna fær hún ákveðinn greini í öllum málunum, viðskeyttan í íslensku og dönsku en lausan í ensku – bókin var leiðinlegbogen var kedeligthe book was boring. Þetta vitið þið að sjálfsögðu.

Það er þó margvíslegur munur á notkun ákveðins greinis í íslensku og skyldum málum eins og fólk sem hefur lært íslensku sem annað mál hefur komist að – ég hef stundum heyrt að greinirinn sé eitt af því sem erfiðast er að ná fullum tökum á. Helsti munurinn felst í því að í íslensku er oft hægt að hafa orð án greinis í stöðu þar sem verður að nota ákveðinn greini í t.d. ensku og dönsku. Þetta á einkum við ef tilvísun orðs er ótvíræð, t.d. vegna þess að aðeins eitt kemur til greina. Þannig getum við sagt forsætisráðherra flutti ræðu á fundinum en í ensku er alls ekki hægt að segja a prime minister gave a speech at the meeting í sömu merkingu, heldur verður að segja the prime minister. Ef greinirinn er óákveðinn merkir það 'einhver ótiltekinn forsætisráðherra'.

Því er oft haldið fram að notkun ákveðins greinis hafi aukist í íslensku og það er sennilega rétt. Þegar það er skoðað er samt mikilvægt að bera saman sambærilega texta því að notkun greinis er töluvert stílbundin – hann er meira notaður í óformlegu málsniði en formlegu. Þetta má sjá ef við berum saman notkun ákveðins greinis með hversdagslega orðinu bíll og formlega orðinu bifreið. Á tímarit.is eru hátt í fjórum sinnum fleiri dæmi um bifreið mín án greinis en bifreiðin mín með greini. Aftur á móti eru meira en ellefu sinnum fleiri dæmi um bíllinn minn með greini en bíll minn án greinis. Það er því dæmigert að nota formlega orðið án greinis en það hversdagslega með greini. Í sambærilegum dæmum væri reyndar enginn greinir í dönsku eða ensku.

En það er samt líklegt að notkun ákveðna greinisins hafi að einhverju leyti aukist fyrir ensk áhrif. Iðulega sést hann notaður þar sem ekki er hefð fyrir honum í íslensku en enska hefur hann. Það er t.d. algengt, einkum í þýðingum, að talað sé um íslenska máliðíslenska tungumálið eða íslensku tunguna, og nokkuð ljóst að the Icelandic language liggur þar á bak við. Í hefðbundnu máli væri ekki notaður greinir þarna, heldur talað um íslenskt mál og íslenska tungu – en tæplega íslenskt tungumál. Eðlilegast væri þó að nota einfaldlega heiti málsins og tala bara um íslensku í stað þess að nota íslenska sem lýsingarorð með nafnorði. Hitt getur svo sem ekki talist rangt, en ég mæli þó eindregið með því að við höldum okkur við málhefð.

Posted on Færðu inn athugasemd

Vítahringur íslenskunnar

Ég hef áður nefnt hér að nýnemar í íslensku við Háskóla Íslands voru færri í haust en nokkru sinni undanfarna hálfa öld og vel það – rétt á annan tuginn. Eins og fjármögnun háskólastigsins er háttað þýðir fækkun nemenda minnkaðar fjárveitingar sem leiða til þess að nýliðun í kennarahópnum verður lítil, námskeiðum fækkar og námsframboð verður fábreyttara – með öðrum orðum: Námið verður ekki eins áhugavert og þess vegna fækkar nemendum enn frekar. Þetta er vítahringur sem ekki er séð hvernig má komast úr og það er grafalvarlegt mál á sama tíma og íslenskan þarf á öllu sínu að halda. Við þurfum að efla íslenskukennslu á öllum stigum, og á bak við það þarf að vera öflugt háskólastarf, bæði kennsla og rannsóknir.

En því miður benda orð háskólaráðherrans á Sprengisandi í morgun ekki til þess að til standi að leggja meiri áherslu á íslenskuna innan Háskólans: „Ef við munum geta stjórnað betur í gegnum öðruvísi fjármögnun háskólanna. Að fjármagna betur nemendur í raunvísindum og STEM greinum, þar sem eru vísindi, verkfræði, tölvunarfræði og slíkar greinar. Sem og í heilbrigðisvísindum. Ef við getum stýrt fjármunum aukalega í þessar greinar þá gætum við verið að svara stórum hluta af kalli atvinnulífsins gagnvart háskólamenntuðum sérfræðingum.“ Ekkert bendir til þess að ætlunin sé að setja meira fé í háskólastigið þannig að „stýrt fjármunum aukalega“ merkir örugglega 'fært fjármuni frá óarðbærum greinum'.

Sannarlega þarf að efla þær greinar sem ráðherra nefndi. En færsla fjárveitinga til þeirra frá öðrum greinum mun leiða til þess að staða hug-, félags- og menntavísinda, þar á meðal íslenskunnar, versnar enn frá því sem nú er, þvert á fyrirheit í stjórnarsáttmála þar sem sagt er „mikilvægt að huga enn betur að íslenskukennslu“. Á sama tíma situr háskólaráðherrann í sérstakri ráðherranefnd um íslenska tungu sem á m.a. að „vinna markvisst að stefnumótun stjórnvalda og aðgerða í þágu tungumálsins“. Þarna fer ekki saman hljóð og mynd, eins og nú er sagt. Ef stjórnvöld vilja efla íslenskuna verða þau að sýna þann vilja í verki. Áframhaldandi veiking íslenskunnar í Háskóla Íslands er grafalvarleg og hana verður að stöðva.

Posted on Færðu inn athugasemd

Aðgerða er þörf!

Morgunblaðið birtir í dag viðtal við Linu Hallberg sem hefur verið óþreytandi að skrifa ýmsum ráðuneytum og opinberum stofnunum og krefja þau um svör við því hvað verið sé að gera og hvað standi til að gera í málefnum íslensku sem annars máls. „Vandinn er hversu erfitt það er að læra íslensku á Íslandi og þá er það ekki tungumálið sjálft sem er vandamálið“ segir Lina og leggur áherslu á að það er kerfið sem er vandamálið. Það er bráðnauðsynlegt að stjórnvöld átti sig á þessu og grípi til aðgerða nú þegar, og í því sambandi er rétt að vekja athygli á að samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar verður „Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026“ lögð fram á mánudaginn, 27. mars.

Í þessari tillögu á að birta „aðgerðir sem menningar- og viðskiptaráðherra, forsætisráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mennta- og barnamálaráðherra standa að og varða málefni íslenskrar tungu vítt og breitt í samfélaginu í þágu íslenskrar tungu (aðgerðaáætlun)“. Ég vona sannarlega að þessi tillaga verði samþykkt og skili sér m.a. í auknum og bættum stuðningi við kennslu íslensku sem annars máls. Að öðrum kosti eigum við á hættu „að hér komi til að með að búa stór hópur borgara sem ekki kann tungumálið.“ Það er alvarlegt mál sem verður að bregðast við hið fyrsta því að það er nefnilega hárrétt sem Lina segir: „Eft­ir tíu ár verður orðið of seint að grípa inn í.“