Posted on Færðu inn athugasemd

Eruð þið sammála þessu?

Lýsingarorðið sammála kemur fyrir þegar í fornu máli þótt það sé ekki algengt – Ordbog over det norrøne prosasprog hefur aðeins fjögur dæmi um það. Það er athyglisvert að í þeim öllum er það í sambandinu sáttir og sammála – „Nú erum vér sáttir og sammála hvar sem vér finnumst á landi og á legi“ segir t.d. í Heiðarvíga sögu. Þetta samband var algengt fram undir miðja síðustu öld, og öfug röð, sammála og sáttir, kemur einnig fyrir en er mun sjaldgæfari. Bæði samböndin virðast vera á útleið úr málinu – aðeins níu dæmi eru um þau frá þessari öld á tímarit.is. Því kemur það nokkuð á óvart að 18 dæmi eru um samböndin í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar. En sammála tengist ekkert sérstaklega við sáttur í mínu máli.

Í Íslenskri orðabók er sammála skýrt 'samþykkur, á sama máli, samdóma, samhuga' og í Íslenskri nútímamálsorðabók 'sem er á sama máli, samþykkur'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er sammála einhverjum skýrt 'enig med en' og við erum sammála er 'vi er enige'. Þarna er merkingin 'samþykkur' sem sé ekki nefnd. Í An Icelandic-English Dictionary eftir Richard Cleasby og Guðbrand Vigfússon er skýringin 'agreeing', en skýring Fritzners á orðinu í fornmálsorðabók sinni, Ordbog over det Gamle Norske Sprog, er hins vegar 'som taler, kan tale sammen med andre'. Það á væntanlega að skilja svo að þeir sem eru sammála geti talast við, án þess að vera endilega sama sinnis – um þá merkingu er haft sambandið vera á einu máli.

Í nútímamáli held ég að sammála hafi í máli flestra þær merkingar sem lýst er í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók. En ekki fellur það öllum í geð. Árni Böðvarsson segir í bókinni Íslenskt málfar: „Menn eru stundum sammála, ég get verið sammála þér eða samþykkur tillögu þinni. Á nútíma íslensku eru menn ekki sammála tillögu, heldur flytjanda hennar.“ Guðni Kolbeinsson segir í Helgarpóstinum 1995: „„Ég er alveg hjartanlega sammála þessu hjá þér,“ heyrist iðulega. Já, of oft, því að þetta er beinlínis rangt. Við getum ekki verið sammála því sem einhver segir. Þá værum við á sama máli og málefnið — sem augljóslega er rökleysa. Reynum að vera sammála hvert öðru og þar með samþykk því sem sagt er.“

Hannes Hólmsteinn Gissurarson sagði í Andvara 1994: „Maður getur verið sammála öðrum manni um skoðun, hugmynd eða gagnrýni, en hann er ekki sammála skoðuninni, hugmyndinni eða gagnrýninni, heldur samþykkur henni.“ Í Morgunblaðinu 1996 segir: „Væri rétt að segja: Hann er sammála kenningu minni? Svar: Betra þætti að segja: Hann er mér sammála um kenningu mína, eða: Hann er kenningu minni samþykkur.“ Þarna er sagt að eingöngu sé hægt að vera sammála fólki, ekki sammála einhverju. Vissulega vísar sammála eingöngu til fólks í fornmálsdæmum, og í dæmum fram undir lok 19. aldar. En í eldri dæmum er fólk annaðhvort sammála án nokkurrar skýringar eða sammála um eitthvað – og stundum sammála í einhverju.

Það virðist ekki vera fyrr en eftir miðja 19. öld sem sammála fer að taka með sér nafnorð í þágufalli. Elsta dæmi sem ég hef rekist á um það er í Norðra 1858 þar sem segir: „Monrað, einhver hinn merkasti þingmaður Dana, kvaðst ekki geta orðið Lehrmann sammála.“ Í Víkverja 1873 segir: „Eg er sammála þeim manni sem ritað hefir greinina um kvennaskólann.“ Þágufallsorðið vísar í fyrstu alltaf til fólks, en það breyttist fljótlega – „Það munu því allir taka vel á móti „Norðurljósinu“, hvert heldur þeir eru sammála eða andstæðir þjóðmálaskoðunum Þingeyinga“ segir í Akureyrarpóstinum 1886. Í Lýð 1889 segir: „get ég þó ekki verið því sammála, að skólinn sé á heljarþröminni.“ Þar er merkingin 'samþykkur' greinilega komin til.

Allmörg dæmi um þá merkingu koma fyrir undir lok 19. aldar og fer fjölgandi þegar líður á 20. öld, og hún er vitaskuld mjög algeng í nútímamáli – enda gefin athugasemdalaust í orðabókum eins og áður segir. Mig rámar í að hafa heyrt amast við henni einhvern tíma fyrir löngu, annaðhvort í kennslu eða útvarpsþættinum Daglegt mál, en ég hef ekki orðið var við slíkar athugasemdir nýlega – þetta er t.d. ekki nefnt í Málfarsbankanum. Enda væri fráleitt að gera athugasemdir við notkun sammála í merkingunni 'samþykkur'. Eins og áður segir er sammála einhverjum ekkert síður nýjung en sammála einhverju og það virðist vera lítill aldursmunur á elstu dæmum um þetta tvennt – á annað hundrað ára hefð komin á hvort tveggja.

Posted on Færðu inn athugasemd

Mótvægisaðgerðir

Á mbl.is var í gær frétt með fyrirsögninni „Ekki gerð krafa um íslenskukunnáttu“. Þar var sagt frá drögum að nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra um „meðferð umsókna þriðjaríkisborgara um starfsleyfi og sérfræðileyfi“ sem nú eru í samráðsgátt. Í drögunum segir m.a.: „Íslenskukunnátta er ekki skilyrði fyrir starfsleyfi en vinnuveitandi heilbrigðisstarfsmanns skal ganga úr skugga um að heilbrigðisstarfsmaður búi yfir nauðsynlegri tungumálakunnáttu sem og þekkingu á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum sem talin er nauðsynleg til að geta starfað sem heilbrigðisstarfsmaður, einkum vegna öryggis og samskipta við sjúklinga.“ Í lögum er þó heimilt að gera kröfur um íslenskukunnáttu en ólíklegt að það ákvæði verði nýtt.

Það væri erfitt og óraunhæft að setja sig upp á móti þessu, þó ekki væri nema vegna þess að í skýringum kemur fram að breytingin „verður til samræmis við það sem gildir um umsækjendur frá ríkjum innan EES og Sviss og kemur því einnig til með að auka jafnræði milli erlendra umsækjenda“. Þar fyrir utan er Ísland orðið fjölmenningarlegt samfélag, okkur sárvantar fólk með sérþekkingu og kunnáttu á ýmsum sviðum, og það er óraunhæft að gera ráð fyrir því að fólk sem hingað kemur byrji á því að læra íslensku áður en það tekur til starfa á sérsviði sínu. Ég hef áður nefnt að það samrýmist tæpast lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls að ráða fólk í störf hjá ríkinu án íslenskukunnáttu, og brýnt að breyta þeim lögum.

Vitanlega er þetta samt enn einn vitnisburður um veikta stöðu íslenskunnar sem mikilvægt er að stjórnvöld bregðist við. En viðbrögðin mega hvorki vera uppgjöf né útlendingaandúð. Á undanförnum árum hafa stjórnvöld iðulega gripið til mótvægisaðgerða gegn ýmsum utanaðkomandi vandamálum og hremmingum sem landið, þjóðin eða einstakir hópar hafa lent í – mótvægisaðgerða vegna áhrifa covid-19, vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, vegna verðbólgu o.s.frv. En einnig er stundum gripið til mótvægisaðgerða vegna aðgerða stjórnvalda sem valda skaða á ákveðnum sviðum en eru samt taldar borga sig þegar á heildina er litið. Gott dæmi um það eru mótvægisaðgerðir vegna umhverfisáhrifa Kárahnjúkavirkjunar.

Íslenskan glímir nú við mikinn utanaðkomandi þrýsting sem stafar ekki síst af mikilli fjölgun fólks með annað móðurmál en íslensku. Þessi fjölgun er æskileg og nauðsynleg í sjálfu sér en veldur íslenskunni vanda og setur stöðu hennar sem aðalsamskiptamál í landinu og burðarás þjóðfélagsins í hættu. En í stað þess að reyna að létta af hinum utanaðkomandi þrýstingi þurfum við að styrkja íslenskuna svo að hún standist hann og beita til þess ýmsum mótvægisaðgerðum. Máltækniáætlun stjórnvalda er af þeim toga, en nú er mikilvægast að stórauka og bæta framboð á kennslu, kennsluefni og kennurum í íslensku sem öðru máli. Einnig þarf að styrkja íslenska fjölmiðla og bókaútgáfu, auka framleiðslu á íslensku afþreyingar- og fræðsluefni, o.fl.

Mótvægisaðgerðir eru dýrar. Mótvægisaðgerðir vegna covid-19 kostuðu um 450 milljarða en það er ekki raunhæfur samanburður. Mótvægisaðgerðir vegna Kárahnjúkavirkjunar kostuðu um 1,7 milljarða á núverandi verðlagi, auk þess sem Landsvirkjun áætlaði að verja árlega 300 milljónum á núverandi verðlagi til „mótvægisaðgerða við Hálslón og vöktunarrannsókna“. Framlag ríkisins til mótvægisaðgerða vegna þrýstings á íslenskuna verður að vera töluvert meira en það. Einhverjum kann að finnast það mikið fé, og það er alveg rétt, en þá verður að hafa í huga hvað er í húfi. Fjármálaáætlun vakti vissulega ekki mikla bjartsýni, en nú bíðum við eftir aðgerðaáætlun ráðherranefndar sem átti að leggja fram 27. mars en ekki er komin fram.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að veita mikið/miklu fé

Oft eru gerðar athugasemdir við notkun sagnarinnar veita. Í bókinni Íslenskt málfar segir Árni Böðvarsson að hún hafi „tvær aðalmerkingar í nútímamáli sem koma fram í samböndunum veita vatni á land og veita fjárstuðning. Í hlutrænu merkingunni, um vatnið, er alltaf notað þágufall (tækisfall), en að réttu lagi þolfall í þeirri fjárhagslegu. Því er vondur stíll að tala um að „veita peningum til e-s, veita fjármunum til Kontraskæruliða“ í stað veita peninga, fjármuni.“ Málfarsbankinn er á sama máli – en notkun þágufalls með veita í sambandinu veita fé er ekki ný af nálinni. Það er þó ekki auðvelt að finna upphaf hennar vegna þess að er eins í þolfalli og þágufalli og því er aðeins hægt að skera úr um fallið að lýsingarorð fylgi.

Jón G. Friðjónsson hefur bent á að þolfallið er eldra og upprunalegra í þessari merkingu og sambönd með því koma til á seinni hluta 19. aldar, en ótvíræð dæmi um þágufallið eru þó litlu yngri. Í Vestra 1907 segir: „Útsala þessi gæti orðið til þess að veita miklu fje inn í landið.“ Í Morgunblaðinu 1919 segir: „Þessi ráðstöfun Bandaríkjanna mun mjög bæta úr atvinnuleysinu, sem nú er hið megnasta í Danmörku, og þannig veita miklu fé inn í landið.“ Í Lögréttu 1921 segir: „En aðrir lögðu áherslu á það, að þessi atvinnuvegur hefði veitt miklu fje inn í landið.“ Í Tímanum 1923 segir: „Hinar stóru íþróttasýningar mundu veita miklu fé í þennan sjóð.“ Í Alþýðublaðinu 1924 segir: „Á næstu árum þarf að veita miklu fé til landbúnaðarins.“

Í nútímamáli er bæði þolfall og þágufall algengt í þessum samböndum en erfitt er að átta sig á hlutfallslegri tíðni fallanna vegna þess að þau falla saman í orðinu eins og áður segir. Um ástæður þess að þágufall er iðulega notað í stað þolfalls segir Málfarsbankinn: „Þegar sagt er að miklum fjármunum hafi verið veitt til verkefnis (í stað: miklir fjármunir hafa verið veittir til verkefnisins) er e.t.v. um að ræða áhrif frá sagnorðinu verja (miklum fjármunum hefur verið varið til verkefnisins) en aðrir líta á þetta sem myndmál þar sem líkingin sé sótt til áveitu.“ Mér finnst engin ástæða til að tala um þetta sem „myndmál“ – þarna er einfaldlega um það að ræða að sögnin er notuð í „hlutrænu“ merkingunni, svo að notað sé orðalag Árna Böðvarssonar.

Það má styðja ýmsum rökum. „Þegar sögnin stýrir þolfalli merkir hún afhenda, láta í tésegir Málfarsbankinn, en „[þ]egar sögnin stýrir þágufalli merkir hún frekar dreifa“. Í elstu dæmunum um þágufallið er talað um að veita miklu fé inn í landið eins og fram kom hér á undan. Þar er enginn ákveðinn viðtakandi og því ekki verið að afhenda neinum neitt eða láta einhverjum eitthvað í té, heldur er beinlínis verið að dreifa fé eða láta það renna til landsins. Þarna er því ekki um myndmál eða líkingu að ræða, heldur er veita notuð í bókstaflegri merkingu. Þetta yfirfærist svo á önnur tilvik þar sem verið er að veita fé/fjármunum í tiltekin verkefni eða til tiltekinna verkefna eða viðtakenda – þar er merkingin 'dreifa, láta renna' mjög eðlileg.

Þetta má líka sjá á því að þágufallið er bundið við fjárveitingar í venjulegum skilningi – aldrei er talað um að *veita styrkjum, *veita láni eða slíkt. Ástæðan er væntanlega sú að þar er ákveðinn viðtakandi og merkingin 'afhenda, láta í té' liggur beint við. Þegar veita tekur tvö andlög er eða fjármunir aldrei í þágufalli – ekki er sagt *veita félaginu fjármunum þótt sagnir geti tekið tvö þágufallsandlög, svo sem lofa félaginu fjármunum. Þarna gegnir sama máli – þegar viðtakandi er tilgreindur í fyrra andlaginu liggur merkingin 'afhenda, láta í té' beint við. Niðurstaðan er sú að bæði veita miklu fé og veita mikið fé sé fullkomlega eðlilegt og rétt mál – á þessu tvennu er nokkur merkingarmunur en báðar merkingarnar sér eiga langa hefð.

Posted on Færðu inn athugasemd

Þarsíðast

Orðið þarsíðast í merkingunni 'næstsíðast' er hátt í fimmtíu ára gamalt í málinu a.m.k. – elsta dæmi sem ég hef séð um það er í Dagblaðinu 1977: „Hingað kom hann um þarsíðustu helgi.“ Frá níunda áratugnum eru nokkur dæmi um orðið en þeim fjölgar svo verulega upp úr 1990 og sérstaklega eftir 2000. Á tímarit.is eru rúm 1500 dæmi um orðið og í Risamálheildinni eru um 1200 dæmi. Þótt orðið sé vissulega hlutfallslega algengara í óformlegu málsniði en formlegu kemur það fyrir í öllum textategundum – er mjög algengt í ræðum á Alþingi og meira að segja komið inn í dóma og lög. Orðið er langoftast lýsingarorð en kemur einnig fyrir sem atviksorð – „Við fengum silfur síðast þegar við fórum og brons þarsíðast“ segir í Fréttablaðinu 2008.

Í þætti Gísla Jónssonar um íslenskt mál í Morgunblaðinu var árið 1999 birt tilgáta Björns Ingólfssonar um tilurð orðsins: „Einhver málfátæklingur kom óvenju illa niður eftir „gleðina“ sem haldin var helgina fyrir síðustu helgi. Frá þessu ætlaði hann að segja vinnufélaga sínum á byggingarkrananum eða í síldarbræðslunni og mundi ekki hvernig hann átti að orða það. Hann rámaði þó í að helgin eftir næstu helgi heitir þarnæsta helgi. Þar með rann upp ljós. Þetta hlaut þá að hafa verið þarsíðasta helgi þegar teitin mislukkaðist. Þar með var orðið þarsíðastur komið í umferð og hver át upp eftir öðrum. Ég heyri þetta allt í kringum mig […]. Mér virðist jafnvel rígfullorðið fólk vera búið að gleyma því sem það ólst upp við; að tala um næstsíðast.“

Ólíklegt er að tildrög að myndun orðsins hafi verið með nákvæmlega þeim hætti sem þarna er lýst en grundvallarhugmyndin er væntanlega rétt – orðið þarsíðast hefur örugglega orðið til fyrir áhrif frá þarnæst. Það er svo sem ekki órökrétt að álykta að fyrst þarnæst merkir 'það sem kemur á eftir því næsta' hljóti 'það sem kemur á undan því síðasta' að vera þarsíðast. En löng hefð er fyrir orðinu næstsíðast um þessa merkingu og því eðlilegt að þarsíðast strjúki mörgum öfugt. Í bréfi á bloggsíðu Eiðs Guðnasonar árið 2011 sagði að í „þarsíðustu viku“ væri „beinlínis klúðurslegt orðalag“ og í öðru bréfi á sömu síðu árið 2013 sagði: „Orðskrípið ,,þarsíðast“ hefur einhvern veginn komizt inn í kollinn á ungu fréttafólki og sést nú æ oftar.“

Vitanlega er þarsíðast ekkert frekar „orðskrípi“ en þarnæst – orðmyndunin er alveg hliðstæð. Það sem angrar fólk er annars vegar að þetta er tiltölulega nýlegt orð – þótt það sé að verða hálfrar aldar gamalt – og hins vegar að það kemur í stað annars orðs sem rík hefð er fyrir í málinu, næstsíðast. Því fer samt fjarri að þarsíðast sé að útrýma næstsíðast – síðarnefnda orðið er 3,5 sinnum algengara í 21. aldar textum í Risamálheildinni. En þrátt fyrir aldur, tíðni og útbreiðslu er þarsíðast er ekki að finna í helstu orðabókum, Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók, hvorki sem lýsingarorð né atviksorð – og ekki heldur í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Mér finnst mál til komið að viðurkenna þarsíðast og taka það í orðabækur.

En það er ekki þannig að þarsíðast geti alltaf komið í stað næstsíðast. Talað er um þarsíðustu helgi, þarsíðustu viku, þarsíðasta fund o.s.frv. Hins vegar er tæplega sagt *hann var þarsíðastur í hlaupinu eða *við hittumst þarsíðasta dag hvers mánaðar – þar verður að segja hann var næstsíðastur í hlaupinu og við hittumst næstsíðasta dag hvers mánaðar. Ástæðan er sú að merking orðsins þar er afstæð, og sama gildir um samsetningar af því – miðast við þann punkt í tíma eða rúmi sem mælandinn er staddur á. En í hann var næstsíðastur í hlaupinu og við hittumst næstsíðasta dag hvers mánaðar er merkingin ekki afstæð og því á þarsíðast ekki við. Þarna er því kominn upp nýr greinarmunur sem auðgar málið – er það ekki skemmtilegt?

Posted on Færðu inn athugasemd

Það á eftir að gera þetta

Í Málfarsbankanum segir: „Rétt er að segja ég á eftir að gera þetta og það er eftir að gera þetta (ekki „það á eftir að gera þetta“) – og einnig: „Notað er sagnorðið eiga þegar einhver á eftir að gera eitthvað. Þú átt eftir að gera þetta. Sögnin vera er höfð í ópersónulegri notkun: Það er eftir að gera þetta.“ Þarna er sem sé gert ráð fyrir að sögnina eiga megi aðeins nota með tilgreindum geranda. Aftur á móti virðist ekkert þykja athugavert við setningar sem í fljótu bragði virðast hliðstæðar, eins og það á eftir að rigna eða það á eftir að verða gaman í kvöld. En munurinn er sá að þau sambönd geta ekki tekið geranda og í þeim er ekki hægt að nota sögnina vera – útilokað að segja *það er eftir að rigna eða *það er eftir að verða gaman í kvöld.

En vegna þess hve samböndin (ég) á eftir að gera þetta og (það) á eftir að rigna eru lík er ekkert undarlegt að þeim slái saman á þann hátt sem varað er við í Málfarsbankanum. Elsta örugga dæmi sem ég finn um það er í Vísi 1936: „Hann giskaði á, að það væri viss eiturtegund, en það á eftir að rannsaka hana nánara.“ Næsta örugga dæmi er ekki fyrr en í Vikunni 1955: „Ég veit að það á eftir að fægja þær og að þær eru ekki stórar.“ Í Tímanum 1960 segir: „Þá eru eggin tilbúin á markaðinn, nema hvað það á eftir að innpakka þeim í sellofanpappír.“ Í Vikunni 1960 segir: „Það á eftir að setja og brjóta um, og flugvélin leggur upp frá Kastrup á slaginu 9!“ Upp úr 1960 fjölgar dæmum um þessa notkun svo ört og hún er mjög algeng síðustu áratugina.

Árið 1981 birti Gísli Jónsson í þætti sínum í Morgunblaðinu bréf frá manni sem vildi greina milli (það er) eftir að gera þetta og (ég á) eftir að gera þetta á þann hátt sem Málfarsbankinn mælir með. En Gísli var á báðum áttum og sagði: „Nú verð ég að játa, að mér þykir það, sem bréfritari segir um er og á, orka tvímælis. Skilsmunur þessa fyrir mér er ekki skýr. Ég hneigist til að verja hvort tveggja: Það á eftir að gera þetta og það er eftir að gera þetta. Í hinu fyrra dæmi táknar það einhvern ópersónulegan kraft sem á verkið ógert. En í síðara tilvikinu er verk ógert, eftir er að gera það.“ Í svari við öðru bréfi 1985 sagði hann svo: „Mjög erfitt er að halda í sundur orðasamböndunum er eftir og á eftir […] en sjálfsagt er að reyna, svo sem bréfritari vill.“

Engin þungvæg rök verða séð fyrir því að amast við það á eftir að gera þetta. Vissulega er það nýjung miðað við það er eftir að gera þetta en hefur þó verið algengt í sextíu ár og því löngu komin hefð á það. Þótt Málfarsbankinn segi að sögnin vera sé höfð í ópersónulegri notkun en ekki eiga má benda á að sögnin eiga er notuð í ýmsum ópersónulegum samböndum eins og það á að dansa, það á að gefa börnum brauð, það á að rigna á morgun, í merkingunni 'það stendur til, það ber, það lítur út fyrir'. Þessi notkun þykir ekki athugaverð svo að ég viti og þess vegna sé ég engar forsendur fyrir því að gera upp á milli dæma eins og það á að gera þetta og það á eftir að gera þetta. Hvort tveggja er gott og gilt – og það er eftir að gera þetta vitaskuld líka.

Posted on Færðu inn athugasemd

Er þjóðin að breytast úr mönnum í fólk?

Fyrir rúmu ári birtist í Fréttablaðinu grein sem hét „Íslenska þjóðin að breytast úr mönnum í fólk“. Þar var vísað til þess að á seinustu árum ber nokkuð á því að samsetningar sem enda á -fólk eru notaðar þar sem (meiri) hefð er fyrir orðum sem enda á -menn. Í upphafi greinarinnar sagði: „„Nær öllu Sjálfstæðisfólki líst vel á ríkisstjórnina“. Þannig var fyrirsögn forsíðufréttar Fréttablaðsins 15. desember síðastliðinn. Fyrir nokkrum árum hefði fyrirsögnin án efa verið: „Nær öllum Sjálfstæðismönnum líst vel á ríkisstjórnina“.“ Það hefur verið amast við því að orð eins og lögreglufólk, björgunarfólk, hestafólk og stuðningsfólk séu notuð í stað samsetninga með -maður, og ótal sinnum hefur verið kvartað undan þessu í Málvöndunarþættinum.

Í Fréttablaðsgreininni er haft eftir Sóleyju Tómasdóttur „að ef manni sé skipt út fyrir fólk virðist sem útkoman verði misþjál. „Íþróttafólk“ þyki núorðið gott og gilt orð en önnur orð eins og þingfólk eða lögfólk eigi lengra í land. Skýringin gæti verið að sum þessara orða eigi sér karlsögulegri rætur en önnur. Eftir því sem konur verði meira áberandi í íþróttum sé auðveldara að tala um íþróttafólk. Erfiðara sé enn að tala um „lögfólk“, sennilega vegna þess að ímynd stéttarinnar sé enn ansi karllæg í hugum fólks.“ Í framhaldi af þessu fannst mér áhugavert að skoða 100 algengustu orðmyndir í Risamálheildinni sem enda á -menn og athuga hvort samsvarandi orð sem enda á -fólk fyndust á tímarit.is – og hversu gömul þau væru í málinu.

Ég sleppti sérnöfnum eins og Bandaríkjamenn, Norðmenn, Eyjamenn, Skagamenn, Valsmenn o.fl. Niðurstaðan var sú að 93 af þessum 100 orðum eiga sér samsvaranir með -fólk – sumar hverjar vissulega sjaldgæfar. Níu orð koma fyrir í eitt til tíu skipti en 26 koma fyrir oftar en þúsund sinnum, þar af 12 oftar en tíu þúsund sinnum. Orðin sem aldrei koma fyrir eru *forfólk, *lögfólk, *markfólk, *stjórnarþingfólk, *sýslufólk, *varnarfólk og *vígafólk. Þetta er skiljanlegt – samsvarandi samsetningar með -maður eru sjaldnast notaðar um (kynjablandaða) hópa heldur um einstaklinga (formaður, lögmaður, markmaður, sýslumaður, varnarmaður). Hins vegar verður að líta á það sem tilviljun að orðin *stjórnarþingfólk og *vígafólk koma ekki fyrir.

Þegar einstök dæmi eru skoðuð er greinilegt að ef vitað er að hópurinn sem um ræðir er blandaður er rík tilhneiging til að nota samsetningu með -fólk frekar en -menn. Gott dæmi um það er orðið skákfólk sem kemur í fyrsta sinn fyrir í fyrirsögn í Vísi 1964: „Tekið á móti frægu skákfólki á Reykjavíkurflugvelli: Gosið við Eyjar var það sem hreif hugi skákfólksins mest.“ Þarna voru fjórir erlendir skákmeistarar að koma til landsins til að taka þátt í fyrsta Reykjavíkurskákmótinu og í þeirra hópi var ein kona, heimsmeistarinn Nona Gaprindashvili. Á þessum tíma var mjög óvenjulegt að konur tækju þátt í sterkum skákmótum og þeim sem skrifuðu fréttina hefur greinilega fundist óeðlilegt að tala um blandaðan hóp sem skákmenn.

Áður hefur verið bent á að margar samsetningar með fólk eru gamlar – í Heimskringlu Snorra Sturlusonar koma fyrir orðin bónda­fólk, byggðarfólk, býjar­fólk, bæjar­fólk, fátækisfólk, fjölkynng­is­fólk, hern­aðarfólk, ill­þýð­is­fólk, inn­an­landsfólk, landsfólk, mannfólk og þingfólk. Elstu dæmi á tímarit.is um rúmlega fimmtung orðanna í þessu safni eru frá nítjándu öld, og um helmingur er meira en níutíu ára gamall. Aðeins tvö orð, bæði mjög sjaldgæf (slökkviliðsfólk og bandafólk) eru frá þessari öld – og þrjú til viðbótar frá því eftir að Kvennalistinn kom fram. Það er því ekki hægt að halda því fram að samsetningar með -fólk séu einhver ný uppfinning femínista þótt vissulega hafi notkun margra þessara orða aukist á síðustu árum.

Orðið fólk er auðvitað rammíslenskt og hefur verið notað sem seinni liður samsettra orða allt frá fornu máli. Þessi orð eru yfirleitt lipur þótt vitanlega hljómi nýjar samsetningar af þessu tagi oft undarlega og þeim þurfi að venjast eins og öðrum nýjum orðum. Það er fráleitt að halda því fram að einhver málspjöll eða „gelding“ tungumálsins felist í því að nota samsetningar með -fólk í stað -menn þegar vísað er til hópa, þótt óneitanlega sé óheppilegt að ekki skuli hægt að nota samsetningar með -fólk í stað -maður í vísun til einstaklinga. En meginatriðið er að öllum er vitanlega frjálst að halda áfram að nota samsetningar með -menn, en engin ástæða er til að amast við því að þau sem kjósa fremur að nota – og búa til – samsetningar með -fólk geri það.

Posted on Færðu inn athugasemd

Staðbundinn framburður örnefna

Hér hefur stöku sinnum verið minnst á forsetningar með staðanöfnum sem geta verið misjafnar eftir landshlutum. Stundum notar heimafólk tiltekna forsetningu en fólk annars staðar á landinu þekkir ekki málvenjuna og notar því iðulega aðra forsetningu. Nýlega var hér rætt um Neskaupstað í þessu sambandi. Þar er málvenja heimafólks að segja í Neskaupstað en hjá öðrum er á Neskaupstað hins vegar algengt. Í slíkum tilvikum er sjálfsagt að kynna sér málvenju heimafólks ef þess er kostur og virða hana. En forsetningar eru ekki það eina í meðferð örnefna sem getur verið mismunandi milli heimafólks og annarra. Það er líka algengt að örnefni séu borin fram á ólíkan hátt eftir því hvort fólk þekkir þau frá blautu barnsbeini eða ekki.

Eitt slíkt dæmi er Slútnes í Mývatni – sem er reyndar eyja en ekki nes. Í máli staðkunnugra er þetta borið fram með aðblæstri, [stluhtnɛs], eins og skrifað væri Slúttnes – og sá ritháttur sést reyndar stundum. En í munni þeirra sem ekki þekkja til er þetta líklega oftast [stluːtnɛs], með löngu ú, eins og í sögninni slúta. Fyrri hluti nafnsins er talinn vera nafnorðið slútur sem er eldra heiti á gulvíði. Annað dæmi er svo Stafnes á Reykjanesskaga. Það mun yfirleitt vera borið fram með b, [stapnɛs], í máli heimafólks, eins og skrifað væri Stabnes og er rithátturinn Stafnnes til marks um það. En annað fólk ber þetta líklega oftast fram með v, [stavnɛs]. Sagt er að nesið sé kennt við boða sem nefnist Stafur en reyndar heitir nesið Starnes í eldri heimildum.

Í þessum örnefnum eru tvær íslenskar hljóðkerfisreglur að verki – aðblástursregla í Slútnes og lokhljóðunarregla í Stafnes. Þar sem tn (og tl) standa saman í ósamsettum orðum kemur jafnan fram aðblástur, þ.e. h er skotið inn á undan hljóðasambandinu, í orðum eins og vatn, vetni, slitna o.s.frv. Þetta gerist hins vegar ekki ef orðhlutaskil eru milli t og n, í orðum eins og rót-naga, skít-nóg, smit-næmur, flat-nefur o.s.frv. – og ekki í Slút-nes nema í máli staðkunnugra. Svipað er með fn – önghljóðið f (v) breytist jafnan í lokhljóðið b á undan n (og l) í ósamsettum orðum, eins og nafn, nefna, stafn o.s.frv. En þetta gerist ekki ef orðhlutaskil eru milli f og n, í orðum eins og hrif-næmur, of-nýttur, of-næmi, af-not – og ekki í Staf-nes nema í máli staðkunnugra.

Örnefni sem ekki eru í nærumhverfi okkar lærum við oftast eftir máltökuskeið og iðulega af bók. Þá reynum við yfirleitt að greina orðin í frumeindir sínar til að skilja þau og áttum okkur á því að Slútnes er samsett úr slút- og -nes, og Stafnes er samsett úr staf-og -nes. Þess vegna beitum við ekki aðblástursreglu eða lokhljóðunarreglu í þeim, eins og við myndum gera í ósamsettum orðum. En fyrir þeim sem alast upp við þessi örnefni frá blautu barnsbeini hafa hlutar þeirra enga merkingu – orðin eru bara heiti á tilteknum stöðum. Þau eru þess vegna skynjuð sem ein heild, ekki sem samsett orð, og þar af leiðandi er hljóðkerfisreglum beitt á þau eins og þau væru ósamsett. Þetta er skýringin á þeim framburðarmun sem þarna kemur upp.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að leita af

Í fornu máli var sögnin leita langoftast notuð með eignarfallsandlagi – leita einhvers. „Ganga þeir nú til húss og leita Gísla og finna hann eigi“ segir í Gísla sögu. Örfá dæmi eru þó um leita að – „Og skulu þessir þangað fara að leita að Gísla og taka hann ef hann væri þar kominn“ segir einnig í Gísla sögu. En auk þess er sambandið leita eftir nokkuð notað – „Eyjólfur heitir enn að leita eftir Gísla og skiljast þeir að því“ segir enn í Gísla sögu. Öll þessi sambönd eru mjög algeng í nútímamáli en leita eftir er þó nær eingöngu notað í merkingunni 'æskja, óska' eða 'sækja um' – „Fyrirtækið er nú þegar með íslenska hluthafa og hyggst leita eftir skráningu á Verðbréfaþing“ segir í Morgunblaðinu 2000. En nýlega hefur leita af bæst við, ýmsum til ama.

Elstu dæmi sem ég finn á prenti um leita af eru frá því í lok níunda áratugarins. „Illa brunnið lík tveggja ára drengs fannst undir stéli vélarinnar eftir að örvilna móðir hans hafði leitað af honum í nokkrar klukkustundir“ segir í Tímanum 1988; „Gísli sagðist ekkert hafa orðið var við bátana og þyrluna sem voru að leita af honum“ segir í DV 1990; „Hann fann það sem hann leitaði af“ í Víkurfréttum 1992. Vel má þó vera að þetta samband hafi komið upp mun fyrr þótt það hafi ekki komist á prent – óformlegra mál fór að sjást meira á prenti en áður eftir 1980 og sennilega hefur einnig dregið úr prófarkalestri. En hvað sem um það er virðist þetta hafa breiðst nokkuð ört út eftir 1990, og þó sérstaklega eftir aldamótin, og einkum í óformlegu máli.

Grunnmerking er 'í áttina til' en grunnmerking af er 'frá, burt' samkvæmt Íslenskri orðsifjabók. Þar sem þessi grunnmerking er skýr verður þess ekki vart að forsetningunum sé blandað saman – það er aldrei sagt *ég gekk í átt af húsinu eða *ég tók bókina að honum svo að ég viti. En þegar ekki liggur í augum uppi að önnur hvor þessi grunnmerking eigi við má búast við víxlum. Þarna er máltilfinning fólks oft mismunandi. Sumum finnst t.d. augljóst að það sé leitað að einhverju vegna þess að við leitina sé verið að reyna að komast 'í áttina til' þess sem leitað er. En hinn mikli og sívaxandi fjöldi dæma um leita af sýnir að því fer fjarri að allir málnotendur skynji merkinguna 'í áttina til' í í þessu sambandi. Hvernig stendur á því?

Um það verður ekkert fullyrt en aðeins hægt að velta vöngum. Það má halda því fram að dæmigerðar leitir nútímans séu frábrugðnar leitum fyrri tíma. Áður hafi einkum verið leitað í raunheiminum – leitað að fólki, leitað að fé, leitað að stöðum, leitað að hlutum. Þegar leitað var að vinnu þurfti að fara á tiltekna staði. Við slíka leit er eðlilegt að fólk skynji merkinguna 'í áttina til' í sambandinu leita að. En leitir nútímans eru ekki síður í bókum og á seinustu árum á netinu, og þar liggur merkingin 'í áttina til' ekki eins í augum uppi. Í þessu sambandi er vert að vekja athygli á því að dæmum um sambandið leita af fjölgaði mjög um svipað leyti og notkun leitarvéla á netinu breiddist út. Það er freistandi að ætla að þar á milli séu einhver tengsl.

Mér finnst mikilvægt að halda í merkingarmuninn milli og af, sem vísað er til hér að framan. En það er fjöldi sambanda í málinu, bæði með og af, þar sem engin leið er að sjá tengsl við þessar grunnmerkingar og í slíkum tilvikum finnst mér satt að segja ekki skipta öllu máli hvor forsetningin er notuð. Það eru fjölmörg dæmi um að víxl í slíkum samböndum megi rekja a.m.k. aftur til 19. aldar og í sumum tilvikum er „ranga“ notkunin eldri og/eða algengari en sú sem er talin „rétt“. En þótt hægt sé að leiða líkur að því að tengsl við grunnmerkinguna 'í áttina til' hafi dofnað með sögninni leita er æskilegt að virða málhefð og halda sig við leita að. Það er samt engin ástæða til að fordæma leita af og engar forsendur fyrir því að telja það rangt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hvað kostar að tala íslensku?

Eftir erindi um stöðu og framtíðarhorfur íslenskunnar sem ég flutti í Rótarýklúbbi nokkrum fyrr í vetur sagði einn fundargesta að þótt hann væri vissulega hlynntur íslenskunni þætti honum vafasamt að hún ætti framtíð fyrir sér og spurði hvort það hefði verið reiknað út hvað hún kostaði – og hversu mikið hægt væri að spara með því að skipta yfir í ensku. Ég gat frætt hann um að það hefði einmitt verið reiknað út – vissulega ekki nýlega, og vissulega yrði að hafa marga fyrirvara á slíkum útreikningum. En Benedikt Jóhannesson stærðfræðingur, fyrrverandi alþingismaður og fjármálaráðherra, skrifaði grein sem heitir „Hvað kostar að tala íslensku?“ og birti í bókinni Greinar af sama meiði helgaðar Indriða Gíslasyni sjötugum árið 1998.

Benedikt skoðaði bæði hvaða útgjöld myndu sparast ef skipt væri yfir í ensku, og einnig hvaða tækifærum við glötum með því að nota íslensku. Sparnaðurinn kæmi einkum fram í kennslu og þýðingum, en tækifæri glatast einkum á sviði lista, ferðamennsku og innflutnings á nemendum og sjúklingum. „Tekjuauki alls ef enska yrði tekin upp í stað íslensku“ yrði samkvæmt útreikningum Benedikts rúmir 17 milljarðar á ári, sem framreiknað eru um 55 milljarðar á verðlagi 2023. Hér verður að leggja áherslu á að þjóðfélagið hefur auðvitað gerbreyst á þessum aldarfjórðungi og forsendur útreikninganna því að mörgu leyti úreltar. Þessi framreikningur er því aðeins settur hér fram til gamans – eins og reyndar útreikningar Benedikts í upphafi.

Öllu gamni fylgir samt nokkur alvara og á þessum tímum þegar tilhneiging er til að meta allt til fjár þurfum við að taka spurningar um kostnað við íslenskuna alvarlega – og hafa svör við þeim. Það er enginn vafi á því að út frá hreinum efnahagslegum forsendum er auðvelt að reikna sig upp í mikinn sparnað við að skipta yfir í ensku, hvort sem það væru 10 milljarðar, 50 eða 100. En hvað myndi tapast? Benedikt velti því líka fyrir sér og sagði: „Almenningur gæti ekki lesið íslenskar bókmenntir á frummálinu. Margir telja eflaust að þar með hyrfi menningararfleifð þjóðarinnar og fljótlega á eftir færi sjálfstæði. Þar á eftir minnkaði frumkvæði og aflahvöt sem fylgir því að vera sérstök þjóð í frjálsu landi, og hagnaðurinn af því að skipta hyrfi fljótt.“

En Benedikt hélt áfram: „Ekki skal gert lítið úr þessari hættu. Á móti má spyrja að hve miklu leyti þessi arfleifð sé þegar horfin. […] Erlend áhrif á öllum sviðum hafa gerbreytt stöðu allra landsmanna. […] Í þessari grein er skrifað um þann árangur sem næðist, ef þjóðin tæki þá meðvituðu ákvörðun að hætta að tala íslensku […]. En hvað ef það gerist án þess að nokkur ætli sér það?“ Feitletrunin er mín vegna þess að mér finnst ástæða til að leggja sérstaka áherslu á þetta. Ég er sannfærður um að það er ekki almennur vilji fyrir því meðal Íslendinga að skipta yfir í ensku. En þá verðum við líka að vera tilbúin til að greiða þann kostnað sem fylgir því að tala sérstakt tungumál. Því miður finnst mér oft skorta töluvert á almennan skilning á því.

Posted on Færðu inn athugasemd

Alfarið

Um daginn var minnst á það hér í umræðum að atviksorðið alfarið hefði skyndilega orðið mikið tískuorð en sæist nú vart lengur – sem er reyndar ekki rétt. Þá rámaði mig í að það hefði eitthvað verið amast við þessu orði þegar ég var í skóla og sá á tímarit.is að notkun orðsins stórjókst einmitt um miðjan áttunda áratuginn, og þó sérstaklega eftir 1980. Eiríkur Brynjólfsson skrifaði í DV 1985: „Eins og mörg önnur fyrirbæri mannanna þá taka orð einhvers konar tískusveiflum. Þessi orð eru þá notuð mjög mikið í daglegu tali í nokkum tíma. Síðan verður ofnotkun þeirra til þess að merking þeirra slævist og önnur koma í staðinn. […] Enn má nefna orðið alfarið. Það er orðið að nokkurs konar stöðutákni þeirra sem telja sig hafa eitthvað til mála að leggja.“

Eiríkur lagði þó áherslu á að engin ástæða væri til að forðast þetta orð en hins vegar væri „auðvitað verra ef önnur orð falla í gleymsku vegna þessa“ enda hafi fjölbreytni í orðavali „verið talin prýði á góðu máli“. Í Morgunblaðinu 1987 segir Hjálmar Pétursson að þessi „málleysa“ sé nú „mjög í tísku“ og bætir við: „Að undanfömu hefur verið fjallað um þetta orð í íslenskuþáttum í útvarpi þannig að allir ættu að vita að þetta er ekki íslenska.“ Í bókinni Íslenskt málfar segir Árni Böðvarsson að alfarið sé „tískuorð“ og segir ástæðu til „að minna á samheiti eins og gjörsamlega, allsendis, alveg, fullkomlega, með öllu“. Eitthvað hefur dregið úr notkun alfarið en það er þó enn mjög algengt ef marka má tímarit.is og Risamálheildina.

Í fljótu bragði kann það að virðast undarlegt að alfarið merki 'alveg, algerlega' en tengist ekki sögninni fara eins og búast mætti við. Í fornu máli kemur fyrir lýsingarorðið alfari – „býr hann snemmendis ferð sína til skips og sagði þá öllu liði að hann mundi ríða í braut alfari“ segir í Njálu. Þetta orð beygist ekki frekar en önnur lýsingarorð sem enda á sérhljóði (andvaka, hugsi o.fl.). Það virðist síðan leiða af sér tvö orð – annars vegar atviksorðið alfarið og hins vegar lýsingarorðið alfarinn. Það fyrrnefnda er a.m.k. komið til á 16. öld – í Biskupa sögum segir: „og hafði þá farið alfarið með öllu úr Skálholti.“ Það síðarnefnda er komið til á 17. öld: „Reið bóndi alltjafnt fyrir, þar til hann kom á alfarinn veg“ segir í Munnmælasögum 17. aldar.

Þótt þarna sé talað um alfarinn veg hefur lýsingarorðið alfarinn venjulega verið notað um fólk alla tíð, í merkingunni 'farinn endanlega' eins og það hefur enn í dag – „Napóleon eldri […] ætlaði að sigla alfarinn til Ameríku frílanda“ segir í Íslenskum sagnablöðum 1816; „á fyrstu tveimur mánuðum yfirstandanda árs, flúðu eða fluttu alfarin frá Stórabretlandi […] 35,850 manns“ segir í Klausturpóstinum 1821. Hliðstæð merking er í atviksorðinu alfarið framan af – „eptir að Eyvindur kom alfarið til byggða“ segir í Íslendingi 1861; „Eptir það hafði hann farið og kvatt foreldra sína, áður hann færi til embættis síns alfarið“ segir í Norðlingi 1877; „Hinn 22. júlí fórum við alfarið úr surtarbrandsgilinu hjá Brjámslæk“ segir í Andvara 1887.

Í þessum dæmum gæti eins staðið beygt lýsingarorð – Eyvindur kom alfarinn, hann færi til embættis síns alfarinn, fórum við alfarnir úr surtarbrandsgilinu. Í öllum tilvikum gæti merkingin líka verið 'alveg, algerlega' en þó er alltaf um tengingu við fara að ræða þótt hún sé ekki eins augljós og væri ef orðið sambeygðist frumlaginu. En á seinni hluta 19. aldar fara að sjást dæmi án slíkrar tengingar – „vildi hann um fram alt losa sig alfarið við konu sína“ segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar, „úr því létti af harðindunum alfarið“ segir í Fjallkonunni 1898, „Með þessu móti væri alfarið komið í veg fyrir hrakning á öldruðu og uppgefnu fólki“ segir í Þjóðólfi 1905. Þarna hefur orðið slitnað frá upprunanum og merkir eingöngu 'alveg, algerlega'.

Þróunin úr lýsingarorðinu alfari yfir í atviksorðið alfarið, og úr merkingunni 'endanlega farinn' yfir í 'alveg, algerlega' er því mjög skiljanleg og eðlileg. Orðið hefur verið notað í síðarnefndu merkingunni í meira en hálfa aðra öld þannig að hún hefur löngu unnið sér hefð og er gefin athugasemdalaust í orðabókum, allt frá Íslensk-danskri orðabók 1920-1924. Óljóst er hvers vegna notkun þess margfaldaðist upp úr 1980 en óljósar sagnir eru um að einhverjir einstaklingar eða hópar hafi tekið það upp á sína arma – „Stjórmálamenn nota þetta orð oft og það er eins og menntamönnum sé það afar tamt“ sagði Hjálmar Pétursson í áður ívitnuðum pistli í Morgunblaðinu 1987. En auðvitað er engin ástæða til að láta það skyggja á samheiti sín.