Posted on Færðu inn athugasemd

Afskræming íslenskunnar?

Sakleysisleg frétt um að í Menntaskólanum við Sund hafi starfsfólksfundir nú komið í stað starfsmannafunda hefur vakið gífurlega athygli og er nú t.d. mest lesna fréttin á vef Fréttablaðsins auk þess sem ótal þræðir á samfélagsmiðlum hafa spunnist af henni – langflestir til að hneykslast á breytingunni og fordæma hana, þótt óvíða sé gengið svo langt að kalla hana „afskræmingu“ eins og viðmælandi Fréttablaðsins gerir. Í fréttinni er haft eftir mér að ég skilji ástæðu breytingarinnar og styðji hana, en bendi jafnframt á að það er ekki alveg einfalt að skipta starfsmaður út fyrir starfsfólk – þá vantar eintöluna. En ég kom ekki öllu að í stuttu símaviðtali og finnst því ástæða til að hnykkja á nokkrum atriðum sem ég nefndi og bæta öðrum við.

Orðið starfsfólk er vitanlega gott og gilt íslenskt orð sem hefur tíðkast í málinu a.m.k. frá byrjun 20. aldar. Samsetningin starfsfólksfundur er eðlileg og samræmist fullkomlega íslenskum orðmyndunarreglum. Það er vissulega rétt að orðið rennur ekki eins vel og starfsmannafundur vegna samhljóðaklasans sem myndast við samsetninguna – fyrri liðurinn endar á lks (þótt k fall oftast brott í eðlilegum framburði) og sá seinni hefst á f. Þar er kominn fjögurra samhljóða klasi og slíkir klasar eru oft stirðir. En því fer fjarri að þetta sé einsdæmi. Í orðum eins og lksfjöldi og lksflutningar eru m.a.s. fimm samhljóða klasar (lksfj og lksfl) sem við kippum okkur ekkert upp við. Þar að auki er starfsfólksfundur einu atkvæði styttra en starfsmannafundur.

Í hverju er þá „afskræmingin“ fólgin? Þarna er verið að setja nýtt en rétt myndað íslenskt orð í stað annars rétt myndaðs orðs sem hefð er fyrir. Það getur ómögulega verið „afskræming“ að bæta rétt mynduðu orði við málið. Ný orð auðga málið. Það er ekki eins og verið sé að þvinga fólk til að nota þetta nýja orð þótt það sé notað í opinberum gögnum skólans. Þetta snýst um að taka tillit til þeirra sem finnst orð sem enda á -maður ekki höfða til sín. Mörgum virðist finnast eðlilegt að gera lítið úr þeirri tilfinningu en hún er ekki tilbúningur. Það er ljóst að konur nota slík orð sjaldan um sjálfar sig ef annars er kostur – þær segja t.d. nánast aldrei ég er mikill X-maður, heldur ég er mikil X-kona eða ég er mikil X-manneskja eins og ég hef sýnt fram á.

Vissulega er alltaf snúið að skipta út orðum sem hefð er fyrir að nota og það tekur okkur tíma að venjast nýjum orðum. Þess vegna er mjög eðlilegt að skiptar skoðanir séu um breytingu af þessu tagi, en hér verður þó ekki annað sagt en viðbrögðin séu langt umfram það sem eðlilegt má telja. En eins og í umræðunni um orðið fiskari fyrr á árinu er augljóst að það er ekki nýjungin sjálf, í þessu tilviki orðið starfsfólksfundur, sem veldur mestum óróa, heldur ástæða hennar – tilhneiging og vilji til að draga úr karllægni málsins. Það kemur greinilega fram í meginhluta þeirra ótalmörgu athugasemda sem gerðar hafa verið við fréttina. Í því felst „afskræmingin“ að mati þeirra sem fordæma breytinguna. Ég er ósammála.

Posted on Færðu inn athugasemd

Aðlögun tökuorða – grúppa eða grúbba?

Elsta dæmi um orðið grúppa á tímarit.is og í Ritmálssafni Árnastofnunar er úr Framsókn 1898 þar sem lýst er heimsókn í Glyptotekið í Kaupmannahöfn: „Svo þegar lengra er gengið, verða fyrir manni margar líkneskjur eptir annan franskan listamann Bárrías að nafni, þar er t. a. m. ein grúppa (grúppa kallast það, ef að 3. 4. osv. frv. myndir standa saman á einni plötu) sem er tekin úr sögu Rómverja.“ Ýmislegt sýnir að þessi texti er þýðing og þarna er liggur augljóslega danska orðið gruppe að baki. En næsta dæmi er úr vesturíslenska blaðinu Heimskringlu 1933 þar sem stendur „þessir þorpakofar voru bygðir saman í “grúppum”“ og er væntanlega af enska orðinu group. Orðið grúppa í íslensku styðst því bæði við danskar og enskar samsvaranir.

Þegar erlend orð eru tekin inn í íslensku þarf yfirleitt að laga þau eitthvað að málinu, einkum í framburði og stafsetningu. Áður fyrr komu langflest tökuorð í gegnum ritmálið og því eðlilegt að það hafi verið ráðandi í aðlöguninni. Til að fella gruppe að íslensku þurfti einungis að breyta stofnsérhljóðinu u í ú og endasérhljóðinu e í a. En tvíritað -pp- í íslensku er borið fram með svokölluðum aðblæstri, eiginlega h-hljóði á undan lokhljóðinu [kruhpa], eins og skrifað væri grúhpa. Í dönsku er hins vegar enginn aðblástur – þar er framburðurinn [gʁubə] þar sem stutt b kemur á eftir stuttu ú. Sú atkvæðagerð er ekki til í íslensku og stutta sérhljóðið veldur því að við skynjum yfirleitt langt bb í slíkum tilvikum – eins og borið væri fram grúbba.

Nýlega var sagt hér í færslu „nú skrifa allir „grúbba““. Þetta er reyndar mjög ofmælt en vissulega er það rétt að þarna tíðkast tvenns konar ritháttur. Eins og skýrt er hér að framan er grúppa það sem búast mætti við út frá rituðu máli og er viðurkenndur ritháttur, en út frá framburði liggur grúbba beinast við. Risamálheildin bendir til þess að sá ritháttur sé nær eingöngu bundinn við óformlegt málsnið þótt grúppa sé líka aðalmyndin þar. Nú á tímum heyrum við mjög mikið af erlendum málum, bæði á ferðalögum, í fjölmiðlum og á netinu, og því má búast við að framburður sé mun þungvægari í aðlögun og meðferð tökuorða en áður. Vissulega heyrum við aðallega ensku en ekki dönsku, en þar er framburðurinn líka án aðblásturs, [ɡruːp].

Annað svipað en þó svolítið frábrugðið dæmi má taka af orðinu túpa í merkingunni 'hólkur úr plasti eða málmi fyrir kremkennt efni' sem er tökuorð úr dönsku, tube. Elstu dæmi um orðið í þeirri merkingu eru frá því 1911. Í Norðra stendur „Skócreame í túpum á svarta, brúna og gula skó“ en í Gjallahorni stendur „Filscreme í túbum á svarta, brúna og gula skó“. Þarna er orðið sem sé ýmist ritað með p eða btúpa eða túba. Rithátturinn túba samsvarar dönskum rithætti, og raunar dönskum framburði líka. Hins vegar er hann í ósamræmi við íslenskar ritvenjur þar sem b er yfirleitt ekki haft milli sérhljóða heldur p. Þar við bætist að í norðlenskum (harðmælis)framburði er aldrei borið fram ófráblásið b í slíkri stöðu heldur fráblásið p.

Þótt túpa viðurkenndur ritháttur orðsins í samræmi við íslenska rithefð hefur rithátturinn túba einnig verið algengur alla tíð (og er viðurkenndur sem heiti á hljóðfæri). Í sunnlenskum framburði stendur p milli sérhljóða fyrir ófráblásið hljóð, eins og í tapa, þannig að þetta olli engum vandkvæðum þar. En til að fella orðið túba að norðlensku hljóðkerfi voru farnar tvær mismunandi leiðir. Annars vegar var lokhljóðið gert fráblásið, p, [tʰuːpʰa] og þannig náðist venjulegt samræmi milli ritunar og framburðar. En hin leiðin var að lengja lokhljóðið b og bera orðið fram [tʰupːa] túbba, því að langt bb milli sérhljóða fellur að norðlensku hljóðkerfi þótt stutt b geri það ekki. Fáein slík dæmi má finna á tímarit.is, flest úr norðlenska blaðinu Degi.

Posted on Færðu inn athugasemd

Aukinheldur

Í gær vakti Guðmundur Andri Thorsson máls á því hér að atviksorðið aukinheldur sem Halldór Laxness notaði iðulega í merkingunni 'hvað þá' og er gefið upp í þeirri merkingu einni í Íslenskri orðabók er núna oftast notað í merkingunni 'auk þess' og sú merking ein er gefin upp í Íslenskri nútímamálsorðabók. Elsta dæmið um þetta samband er í bréfi frá 1569: „En eg gaf og gef þar sodan svar upp a um fyrr greinda iord at auckin helldur mun eg skial hafa fyrir heni at eg hef alldri heyrt þess gettit at hun nockun tima hafi komit i eign mins faudurs.“ Þarna er er merkingin sennilega 'hvað þá' – þetta virðist merkja eitthvað í átt við 'ég hef aldrei heyrt þess getið að jörðin hafi komist í eigu föður míns, hvað þá að ég hafi skjal fyrir henni'.

Sama merking kemur fram í ævisögu Eiríks á Brúnum frá seinustu áratugum 19. aldar: „það er ekkert látið gjöra úti við, hvorki sumar né vetur, ekki svo mikið sem að mjólka kýr, bændur og prestar gjöra það sjálfir, biskupinn aukin heldur aðrir.“ Sama máli gegnir um elsta dæmi á tímarit.is, í Fjallkonunni 1907: „Hér eru sóknirnar svo stórar og vegalengdirnar svo miklar, ár og aðrar torfærur svo margar að það er alveg ógjörningur frá fjölda af bæjum í skammdegi og harðviðrum vetrartímans fyrir fullorðið fólk, aukin heldur fyrir börn að sækja kirkja nema svo sem einu sinni á vetri eða tvisvar.“ Í Íslenzkri setningafræði Jakobs Jóh. Smára frá 1920 segir: „kaðallinn var ekki faðmur á lengd, aukinheldur meira (=hvað þá meira)“.

Það er athyglisvert að Jakobi finnst ástæða til að skýra aukinheldur sem bendir til þess að það hafi ekki verið algengt og merkingin á reiki – hún virðist önnur í Fram 1917: „Þarna misskilur höf. víst orðin kleif og gjögur. Hann lætur þau bæði þýða lægð eða slakka í landinu, en hvorttveggja er einmitt upphækkað land. Orðið »gjögur,« lætur höf. aukin heldur þýða »gjá.«.“ Hér verður ekki betur séð en þetta merki 'auk þess'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 stendur við orðið aukin: „adv. i Forb. aukin heldur (pop.) = auk heldur.“ Skammstöfunin pop. merkir 'populær', þ.e. óformlegt mál. Það er ekki fyrr en upp úr 1940 sem farið er að nota orðið eitthvað í riti, hugsanlega fyrir áhrif frá Halldóri Laxness sem notaði það fyrst í Heimsljósi.

Orðið var þó frekar sjaldgæft fram um 1980 en tók þá mikinn kipp og hefur verið mjög algengt síðustu 30 ár – 20 sinnum algengara á tímarit.is áratuginn 2000-2009 en áratuginn 1970-1979. Þetta virðist þó vera fyrst og fremst ritmálsorð – samkvæmt Risamálheildinni er það margfalt sjaldgæfara á samfélagsmiðlum sem endurspegla óformlegt mál. Framan af var það yfirleitt skrifað í tvennu lagi í samræmi við uppruna en það er e.t.v. líka fyrir áhrif frá Halldóri Laxness sem orðið er oftast skrifað í einu lagi eftir 1940 þótt nokkuð sé einnig um það alveg fram undir þetta að skrifað sé aukin heldur. Báðar merkingarnar eru líka algengar framan af en eftir því sem líður á öldina nær merkingin 'auk þess' yfirhöndinni og er nær einhöfð síðustu áratugina.

Posted on Færðu inn athugasemd

Menningarnám – eða eitthvað annað?

Orðið menningarnám skýtur sífellt oftar upp kollinum og hefur verið áberandi undanfarið í umræðu um uppsetningu Íslensku óperunnar á Madame Butterfly. Þar er þetta notað yfir cultural appropriation sem „merkir þegar við tökum eitthvað að láni úr menningu annarra og hugsum ekki út í eða yfirfærum hvaða gildi það hefur í þeirri menningu“. Elsta dæmi sem ég hef fundið um orðið í þessari merkingu er í grein Kristjáns Kristjánssonar í Morgunblaðinu 1997 þar sem segir m.a.: „Menningarnám („cultural appropriation“) er orðið yfir þetta; og „nám“ vísar þá til hernáms, ekki lærdóms!“ En eins og bent var á hér í gær er hægt að skilja orðið á fleiri en einn veg og það hefur einnig verið notað í öðrum merkingum.

Orðið menningarnám er nefnilega að finna í tveimur íðorðasöfnum í Íðorðabankanum og í báðum tilvikum þýðing á acculturation sem er allt annað en cultural appropriation. Í þessum söfnum er það skilgreint 'aðlögun að nýju menningar-umhorfi' eða 'aðlögun barns að menningarháttum samfélagsins'. Sú er greinilega merking orðsins í Uppeldi og menntun 2000: „Um leið og barnið verður þátttakandi í málsamfélagi fær það einnig aðgang að menningu viðkomandi tungumáls. […] Þegar barnið eldist og fer í skóla fer það eftir menningu skólans hvernig barninu gengur. Sé menning heimilisins og ráðandi menning innan skólans sú sama eða svipuð, heldur menningarnám og máltaka barnsins yfirleitt áfram án erfiðleika eða árekstra.“

En orðið hefur einnig verið notað í enn annarri merkingu. Í Mosfellingi 2008 segir að í nýjum framhaldsskóla í Mosfellsbæ verði lögð „Áhersla á heilsu-, íþrótta- og menningarnám auk umhverfis- og orkufræða“ og í Morgunblaðinu 2015 segir: „Ég fór að læra viðskiptafræði og þaðan í þverfaglegt tungu- mála-, viðskiptafræði- og menningarnám í Danmörku.“ Í þessum tilvikum er augljóslega verið að lýsa þeirri tegund skólanáms sem um er að ræða – hvorki aðlögun barna að samfélagi né yfirtöku menningar. Það eru sem sé til dæmi um orðið í þremur mismunandi merkingum en að undanförnu hefur fyrstnefnda merkingin (cultural appropriation) þó verið yfirgnæfandi eins og marka má bæði af tímarit.is og Risamálheildinni.

Nú er auðvitað algengt að orð í almennu máli séu notuð í fleiri en einni merkingu og veldur sjaldan vandræðum. En í þessu tilviki er um að ræða íðorð notuð yfir nákvæmlega skilgreind hugtök, og íðorð lúta dálítið öðrum reglum en orð í almennu máli – þurfa m.a. að vera ótvíræð. Þess vegna er óheppilegt að menningarnám skuli notað í þessum mismunandi merkingum. Erfitt er að sjá í hvaða merkingu orðið hafi fyrst verið notað en tilvist þess í tveimur íðorðasöfnum bendir þó til þess að sú merking sem þau hafa þar (acculturation) sé elst. Svo má líka velta fyrir sér hversu heppilegt það sé að nota menningarnám yfir cultural appropriation í ljósi þess að „námið“ er yfirleitt án samþykkis eða í óþökk „eigenda“ viðkomandi menningar.

Í þessu samhengi má benda á að fyrir löngu er hætt að tala um landnámsbyggðir Ísraelsmanna á Vesturbakkanum og í staðinn talað um landtökubyggðir. Hliðstætt því mætti hugsa sér að tala um menningartöku en menningarrán er líka lipurt og lýsandi orð. Jafnvel mætti hugsa sér menningarhrifs (hrifs er gamalt orð þótt það sé sjaldgæft í seinni tíð) – öll þessi orð komu fram í umræðu hér í gær. Ég hef vissulega margsinnis lýst þeirri skoðun að almennt sé óheppilegt að hrófla við orðum sem hafa unnið sér hefð í málinu enda þótt okkur finnist þau ekki alls kostar heppileg. En menningarnám er ekki gamalt í málinu og hefur lítið verið notað þangað til mjög nýlega, þannig að spurningin er hvort það sé orðið of fast – tíminn verður að skera úr um það.

Posted on Færðu inn athugasemd

Ekkert er fjarri sanni

Í gær birtist á vefmiðli fyrirsögnin „Ekkert er fjarri sanni í þeim efnum“ (sem var reyndar bein tilvitnun í Facebook-færslu þar sem fjarri hefur nú verið breytt í fjær). Orðið fjarri er frumstig atviksorðs sem stigbreytist – miðstigið er fjær og efsta stig fjærst. En það er ekki algengt að frumstig endi á -ri – einu atviksorðin sem gera það eru fjarri og nærri (og samsetningar af þeim). Aftur á móti er -ri dæmigerð ending miðstigs eins og bet-ri, stær-ri, falleg-ri o.s.frv. Þar er að vísu um lýsingarorð að ræða en ekki atviksorð en milli þeirra orðflokka er náinn skyldleiki, og ástæðan fyrir því að ekkert er fjarri sanni er notað þar sem búast mætti við ekkert er fjær sanni er væntanlega sú að málnotendur skynja fjarri sem miðstig.

Á tímarit.is eru 88 dæmi um orðarununa ekkert er fjarri, það elsta frá 1907. Í mörgum þeirra kemur samanburðarliður eða samanburðarsetning tengd með en á eftir, eins og í Siglfirðingi 1937, „Ekkert er fjarri Bjarna Benediktssyni en einræði og fasismaháttur“, eða í Tímanum 1959, „Ekkert er fjarri Framsóknarmönnum en að fylgja slíku fordæmi Sjálfstæðismanna“, eða í DV 1988, „Ekkert er fjarri honum en að fara í hnapphelduna á unga aldri“. Í slíkum tilvikum er augljóst að fjarri er notað eins og það væri miðstig því að samanburðartengingin en krefst miðstigs, og vegna þess að en kemur þarna á eftir er ekki hægt að skilja setningarnar á annan hátt en þarna sé notuð „röng“ beygingarmynd atviksorðsins án þess að það breyti merkingu.

En öðru máli gegnir um þau 37 dæmi af þessum 88 þar sem ekkert er fjarri sanni eða ekkert er fjarri sannleikanum er notað án þess að en fari á eftir. Ef þessi dæmi eru skilin bókstaflega, þannig að fjarri sé frumstig, ættu þau að merkja 'ekkert er langt frá sannleikanum' eða 'ekkert er ótrúlegt'. En það gera þau auðvitað ekki, enda væri slíkt eiginlega merkingarleysa. Þegar dæmin eru skoðuð sést að fjarri er þar líka notað í miðstigsmerkingu, t.d. í Morgunblaðinu 1956: „Í fyrirsögninni segir, að „íhaldið“ hafi misst fundinn úr höndum sér. […] Ekkert er fjarri sanni.“ Sama gildir um dæmi úr Þjóðviljanum 1975: „Auðvitað er það líkt og að snúa faðirvorinu uppá andskotann að kalla auðvaldsstefnuna húmanisma. Ekkert er fjarri sanni.“

Ég sé ekki betur en hvert einasta af þessum 37 dæmum um ekkert er fjarri sanni / sannleikanum hafi merkinguna 'ekkert er fjær sanni' en ekki 'ekkert er ótrúlegt' eins og væri í samræmi við orðanna hljóðan. Sama gildir um öll 25 dæmin um þessi sambönd í Risamálheildinni. Það þýðir auðvitað að samböndin merkja 'ekkert er fjær sanni' – hafa þá merkingu í huga málnotenda, alveg sama þótt því megi halda fram að hún sé ekki „rökrétt“. Merking fastra orðasambanda er nefnilega ekki alltaf sú sem búast mætti við út frá merkingu orðanna sem mynda þau. Annað þekkt dæmi um það er sambandið ekki ósjaldan sem undantekningarlítið merkir 'alloft' en ekki 'sjaldan'. Það veldur engum misskilningi þótt sagt sé ekkert er fjarri sanni.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að leggja af stað eða leggja á stað

Ég er alinn upp við að nota forsetninguna á í samböndum sem merkja 'hefja ferð' eins og leggja á stað, fara á stað, halda á stað, komast á stað o.fl. Einhvern tíma hef ég lært að það sé „réttara“ að nota forsetninguna af í þessum samböndum og skrifa þess vegna alltaf leggja af stað, fara af stað, halda af stað, komast af stað, o.s.frv. en held að ég noti samt venjulega á í töluðu máli. Bæði sambönd með á og af eru gömul og koma fyrir í fornsögum – dæmi með á að vísu aðeins í 17. aldar handritum en finna má dæmi um af frá 14. öld. Samböndin með á hafa þó alltaf verið mun sjaldgæfari – 10-20 sinnum færri dæmi um þau á tímarit.is. Það er athyglisvert að hlutfall á var margfalt hærra í vesturíslensku blöðunum – málstaðallinn náði ekki til þeirra.

Ég átta mig ekki á því hvar eða hvenær ég lærði að af væri „rétta“ forsetningin í þessum samböndum og finn það ekki í kennslubókum. Í Íslenskri orðabók er bæði á stað og af stað gefið athugasemdalaust, en á þó innan sviga. En einstöku athugasemdir um að af sé hið rétta má þó finna á tímarit.is. Í Eimreiðinni 1941 segir Þorsteinn Stefánsson t.d.: „Fara á stað (t. d. í ferðalag), á að vera: Fara af stað. (Hér er átt við, að farið sé af eða frá einhverjum stað, en ekki verið að tiltaka, að farið sé til neins eða á neinn stað).“ Í Morgunblaðinu 1973 segir Sigurður Haukur Guðjónsson: „Ég veit, að víða er sagt „að leggja á stað“ í merkingunni að hefja för, en jafnrangt er það engu að síður og má ekki vera í bókum, sem börn læra málið af.“

Í bréfi sem Gísli Jónsson birti í þætti sínum í Morgunblaðinu 2001 segir: „Nákvæmnismaður sagði mér að ég mætti ekki tala um að fara á stað eða leggja á stað þegar um væri að ræða ferð til einhvers óákveðins staðar, t.d. ætti ekki að taka svo til orða að e–r hafi farið á stað til leitar, þá ætti tvímælalaust að segja að hann hefði farið af stað. Af er allt annað en á, sagði maðurinn og er það að vísu rétt. Ég er hins vegar vanur því, ég held frá barnæsku, að nota þessar forsetningar – af – og – á – jöfnum höndum um upphaf ferðar, á líklega öllu frekar […].“ En Gísli vildi ekki fordæma á og sagði: „Ég held af stað og á stað hvort tveggja jafnrétthátt.“ Og Málfarsbankinn segir: „Bæði þekkist að fara/leggja af stað og fara/leggja á stað“.

Ástæðurnar fyrir því að amast var við á eru væntanlega annars vegar að af hafi verið talið eldra, eins og heimildir benda vissulega til, og hins vegar að af hafi verið talið „rökréttara“ eins og fram kemur í tilvitnunum hér á undan. Það má vissulega til sanns vegar færa ef litið er til grunnmerkingar þessara forsetninga – af er notuð 'um stefnu eða hreyfingu frá e-m stað/í áttina frá e-u' en á er notuð 'um hreyfingu til staðar (með þf.) […]'. Málið er hins vegar ekki alltaf rökrétt og samböndin með á hafa fyrir löngu unnið sér hefð eins og Málfarsbankinn viðurkennir. Samkvæmt tímarit.is verða þau þó sífellt sjaldgæfari í formlegu máli en þau eru hins vegar tiltölulega algeng í óformlegu máli ef marka má samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar.

Posted on Færðu inn athugasemd

Gott viðtal um íslenskukunnáttu

Það er margt gott í viðtali Vísis í dag við Adriönu Karolinu Pétursdóttur formann Mannauðs, og ég get tekið undir flest af því sem þar kemur fram um íslenskukunnáttu og íslenskukennslu, svo sem þetta: „Adriana talar sjálf fyrir því að íslenskukennsla sé aðgengileg öllum sem koma hingað til að vinna og búa, helst á vinnutíma ef vinnutími er þannig að hægt er að skipuleggja slík námskeið“. Hún segir: „Ég vil sjá kennsluna á vinnutíma eða með sambærilegum hætti eftir því hver hefðbundinn vinnutími starfsfólks er. En það á ekki bara að ætlast til þess af atvinnulífinu að standa undir þessu. Stjórnvöld mega líka skoða hvernig þau geta komið að þessum málum. Því það hlýst svo margt gott af því að hjálpa fólki við að læra tungumálið.“

En þrátt fyrir þetta bendir Adriana á að það sé „mikilvægt að alhæfa ekki um of um nauðsyn íslenskunnar. Það er staðreynd að ekki öll störf krefjast þess að við kunnum íslensku. Oft þarf þess hreinlega ekki eða að það hreinlega telst ekki mikilvægt atriði í samanburð við hæfni eða menntun.“ Það er alveg rétt að íslenskukunnátta er ekki nauðsynleg forsenda þess að sinna ýmsum störfum fullkomlega, og í slíkum tilvikum er ástæðulaust og ómálefnalegt að krefjast hennar eða mismuna umsækjendum á grundvelli kunnáttu í málinu. En það má samt ekki gleyma því að þótt ekki reyni á íslenskukunnáttu í starfi fólks getur hún eftir sem áður verið mikilvæg til að fólkið geti tekið fullan þátt í samfélaginu og fest rætur í því.

En Adriana bætir við: „Á samfélagsmiðlunum ætlaði hins vegar allt um koll að keyra fyrir stuttu þegar Áslaug Arna ráðherra auglýsti starf án þess að fara fram á íslenskukunnáttuna. Fæstir pældu í því til hvers þyrfti að kunna íslensku í þessu starfi.“ Það er vissulega rétt að oft eru gerðar kröfur um íslenskukunnáttu án þess að fyrir því séu málefnaleg rök. En varðandi þetta tiltekna dæmi tek ég fram að ég skoðaði einmitt starfslýsinguna og gat ekki betur séð en íslenskukunnátta væri nauðsynleg til að gegna starfinu. Mér sýndist líka að íslenskukunnátta væri beinlínis lagaleg forsenda fyrir ráðningu í störf hjá ríkinu, en vissulega er ástæða til að taka það til endurskoðunar í ljósi mikillar fjölgunar nýbúa með fjölbreytta menntun og reynslu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Málumhverfi leikskólabarna

Í gær birtist á Vísi grein eftir reyndan deildarstjóra í leikskóla þar sem hún lýsti miklum áhyggjum af málumhverfi barna í leikskólum. Á leikskóla sem hún vísaði til er fjöldi ófaglærðs starfsfólks sem að meirihluta á annað tungumál en íslensku að móðurmáli og margt hefur litla kunnáttu í íslensku. Þetta starfsfólk á a.m.k. átta mismunandi móðurmál og þar af leiðir að enska verður helsta samskiptamál þess sín á milli. Þetta er í sjálfu sér eðlilegt – Ísland er orðið fjölmenningarsamfélag, leikskólabörn eru af ýmsum þjóðernum, og mikilvægt að starfsfólkið sé það líka. Það skaðar ekki máltöku barnanna þótt þau heyri önnur tungumál en íslensku í umhverfi sínu, eða þótt þau heyri íslensku talaða af fólki sem hefur ekki fullkomið vald á henni.

EN – og þarna er stórt og mikilvægt EN – það er samt grundvallaratriði að íslenskan í málumhverfi barnanna sé nægileg til að þau geti byggt upp málkerfi sitt, öðlast trausta málkunnáttu og beitt málinu af öryggi. Það er vitað að til þess að byggja upp móðurmálsfærni þurfa börn að heyra ákveðið lágmark af málinu í umhverfi sínu, ekki síst í samtölum, þótt ekki sé hægt að negla það lágmark nákvæmlega niður. En þegar haft er í huga að mörg börn eru í leikskóla stóran hluta vökutíma síns á virkum dögum má vera ljóst að það er bráðnauðsynlegt að veruleg íslenska sé í málumhverfi þeirra í leikskólanum. Ef stór hluti starfsfólks leikskóla talar litla sem enga íslensku er hætta á að börnin fái ekki nægilega íslensku í málumhverfi sínu.

Til að vinna á móti þessu er því gífurlega mikilvægt að foreldrar nýti þann tíma sem þau hafa með börnum sínum sem best til málörvunar – einkum til að tala við börnin, en einnig til að lesa fyrir þau og með þeim. Það ætti að geta dugað börnum íslenskra foreldra, en aðaláhyggjuefnið í þessu eru börn nýbúa þar sem heimilismálið er annað en íslenska. Þau börn verða að reiða sig á leikskólann til að fá þjálfun í íslensku, en ef málumhverfið þar er að talsverðu leyti á öðrum málum er hætt við að þau séu ekki búin að ná fullu valdi á íslensku þegar þau koma í grunnskólann og verði alltaf á eftir. Og það er líka hætta á að þau fái ekki nægilega örvun í heimilismálinu og öðlist í raun ekki móðurmálsfærni í neinu tungumáli. Það er mjög alvarlegt.

Þetta snýst nefnilega ekki bara um íslenskuna og framtíð hennar þótt hún sé mikilvæg. Þetta snýst fyrst og fremst um börnin og velferð þeirra – hvernig máluppeldið leggur grunn að framtíð þeirra. Rannsóknir benda til þess að móðurmálsfærni í einhverju tungumáli sé forsenda þess að ná góðu valdi á öðrum tungumálum. En ekki bara það, heldur hafa líka verið færð rök að því að góður málþroski stuðli að og eigi þátt í margvíslegri annarri hæfni, svo sem félagsfærni, stærðfræðigreind, og skipulags- og verkgreind. Þess vegna skiptir öllu máli að tryggja að börnin öðlist móðurmálsfærni í íslensku (eða einhverju öðru tungumáli) á máltökuskeiði. Að öðrum kosti eigum við á hættu að möguleikar þeirra á ýmsum sviðum í framtíðinni séu skertir.

Ég hef oft heyrt frá útlendingum að besta aðferðin til að læra íslensku sé að fá sér vinnu í leikskóla og læra málið í fjölbreyttum samskiptum við samstarfsfólkið og börnin. Það er án efa rétt – en ef meirihluti starfsfólksins er erlendur og enska aðalsamskiptamálið er hætt við að lítið verði úr íslenskunámi og enskunám komi í staðinn. En þetta er mjög viðkvæmt og vandmeðfarið mál og ég hef orðið var við að erlendu leikskólastarfsfólki finnst stundum að sér vegið í þessari umræðu. Það er skiljanleg tilfinning og við megum ekki með nokkru móti láta umhyggju fyrir íslenskunni og leikskólabörnum snúast upp í útlendingaandúð sem alltaf er hætta á. Það er ekki erlenda starfsfólkið sem er vandamálið – það eru kjörin og skortur á íslenskukennslu.

Ég veit ekki hvort eða hversu dæmigerð sú staða er sem lýst var í áðurnefndri grein í Vísi en legg áherslu á að það er mjög æskilegt að í leikskólum starfi fólk með annað móðurmál en íslensku. Það þarf hins vegar að gæta þess vel að hlutfall þess starfsfólks sem ekki er íslenskumælandi verði ekki svo hátt að enskan verði aðalsamskiptamálið en íslenskan verði hornreka. Þar með eru kostir fleirtyngds umhverfis horfnir, bæði fyrir starfsfólkið og börnin. Það verður að vera sameiginlegt átak að tryggja gott málumhverfi leikskólabarna, bæði með því að bæta kjör starfsfólks og draga úr starfsmannaveltu, og með því að stórauka og bæta kennslu íslensku sem annars máls. Fátt skiptir meira máli fyrir framtíðina en máluppeldi barna okkar.

Posted on Færðu inn athugasemd

Lestir á leið í öfuga átt

Í frétt Ríkisútvarpsins í gær af hræðilegu lestarslysi í Grikklandi var sagt „Lestirnar voru á leið í öfuga átt“. Þetta hefur farið öfugt ofan í marga hlustendur og er svo sem ekkert undarlegt – þetta er sannarlega ekki hefðbundið orðalag og fram kom hjá ýmsum að þarna hefði átt að tala um gagnstæða átt eða segja að lestirnar hefðu komið úr gagnstæðum áttum. En þýðir það að orðalag fréttarinnar sé beinlínis rangt? Lýsingarorðið öfugur merkir vissulega oftast 'ekki réttur, sem snýr vitlaust' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. En eins og fram kemur í Íslenskri orðabók getur það líka merkt 'gagnstæður, andstæður', og í Íslensk-danskri orðabók er m.a. gefin merkingin 'omvendt' og dæmið þetta er öfugt við það, sem er hjá okkur.

Þetta merkir ekki að það sem um er rætt sé rangt, og það eru ýmis dæmi um að öfug átt merki 'gagnstæð átt'. Í Vísi 1938 segir: „Póstlestin milli Jóhannesarborgar og Bulawayo ók með feiknahraða á vöruflutningalest, er kom úr öfugri átt.“ Í Alþýðublaðinu 1965 segir: „Thomsen ók einkabifreið sinni á vörubifreið, sem kom úr öfugri átt.“ Í Morgunblaðinu 1987 segir: „Ökumaður vélhjóls, sem var að koma frá Akureyri, lenti í árekstri við fólksbíl, sem kom úr öfugri átt.“ Í DV 1989 segir: „Bilið milli ríkra og fátækra hefur stækkað, lífsskilyrði í norðri og suðri Bretlandseyja hafa þróast í öfugar áttir.“ Í þessum dæmum merkir öfug átt augljóslega ekki 'röng átt', heldur er í öllum tilvikum hægt að setja gagnstæður í stað öfugur.

Þótt algengast sé að tala um gagnstæðar áttir í fleirtölu í dæmum af þessu tagi er eintalan líka stundum notuð. Þannig segir í Alþýðublaðinu 1938: „Orsök slyssins er talin sú, að rangt merki hafi verið gefið, með þeirri afleiðingu, að lestirnar, sem fóru í gagnstæða átt, mættust á einspora braut.“ Í Degi 1989 segir: „Tveir bílar óku í gagnstæða átt eftir Aðalgötu en er þeir mættust sveigði annar fyrir hinn og skullu þeir saman af miklum krafti.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Betur fór en á horfðist þegar tveir bílar sem óku í gagnstæða átt skullu saman við Hraun í Öxnadal.“ Í Morgunblaðinu 1989 má m.a.s. finna dæmi sem er alveg hliðstætt því sem nefnt var í upphafi: „Talið er að lestirnar hafí verið á leið í gagnstæða átt þegar þær rákust saman.“

Þótt öfugur þurfi ekki að vera andstæða við 'réttur' verður það að vera andstæða við eitthvað og ef sú andstæða er ekki nefnd berum orðum má oft ráða hana af samhenginu – eða við gefum okkur að um sé að ræða andstæðu við eitthvert norm. En sama máli gegnir um gagnstæður – það er ekki hægt að vera bara gagnstæður, það þarf að vera gagnstæður við eitthvað. Við erum ekki í vandræðum með að átta okkur á því að lestir sem eru á leið í gagnstæða átt eru á leið í gagnstæða átt hvor við aðra, hvor á móti annarri – og á sama hátt eru lestir sem eru á leið í öfuga átt á leið í öfuga átt hvor við aðra. Það verður ekki annað séð en slíkt orðalag geti alveg staðist og sé röklegt, en vissulega er ekki hefð fyrir því í málinu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Misgóð nýyrði

Á síðustu öld var smíðaður aragrúi nýyrða sem mörg hver hafa verið gefin út í sérstökum nýyrðasöfnum. Elst slíkra safna er líklega „Orð úr viðskiftamáli“ sem Orðanefnd Verkfræðingafjelagsins birti í Lesbók Morgunblaðsins 1926. Fæst þessara orða komust í almenna notkun og okkur finnst mörg þeirra brosleg og getum skemmt okkur konunglega yfir þeim. En öllu gamni fylgir nokkur alvara og nauðsynlegt að hafa í huga að vitanlega voru þessi nýyrði smíðuð og sett fram í fullri alvöru, og á bak við þau liggur einlægur áhugi á því að auðga íslenskan orðaforða og „hreinsa“ málið af erlendum orðum í samræmi við þá þjóðernishyggju sem reis hæst í sjálfstæðisbaráttunni á seinni hluta 19. aldar og byrjun þeirrar 20.

Á listanum „Orð úr viðskiftamáli“ eru meira en sex hundruð nýyrði. Mér sýnist í fljótu bragði að ekki öllu fleiri en tuttugu af þeim séu í almennri notkun nú, hundrað árum síðar – og í mörgum tilvikum er erlenda orðið líka notað. Sennilega hafa flest orðanna aldrei komist í notkun en sum voru eitthvað notuð um tíma en eru nú að mestu horfin, svo sem glóaldin í stað appelsína, bjúgaldin í stað banani, rauðaldin í stað tómatur, eiraldin í stað apríkósa og granaldin í stað ananas. Önnur eru horfin vegna þess að fyrirbærið sem þau vísa til er ekki lengur hluti af þekkingarheimi almennings, svo sem langstóll í stað chaise longue (legubekkur með baki eða upphækkun við höfðalag) og valkol í stað anthrakit (sérstök úrvalstegund kola).

En í meirihluta tilvika er bæði fyrirbærið og erlenda orðið vel þekkt í samtímanum en íslenska nýyrðið gleymt og grafið og fyrir því eru örugglegar mismunandi ástæður. Ein er auðvitað sú að ný orð verka yfirleitt framandi á fólk. Það tekur tíma að venjast þeim og haft er eftir Halldóri Halldórssyni prófessor, sem smíðaði mörg nýyrði sem sum komust í notkun en önnur ekki, að það þurfi að segja nýtt orð sextíu sinnum til að venjast því. En sum orðanna eru ekki bara framandi heldur verka líka á okkur sem hlægileg eða hallærisleg. Þar er þó rétt að hafa í huga að smekkur fólks breytist á skemmri tíma en hundrað árum og það er vel mögulegt að tilfinning fólks fyrir orðunum hafi verið önnur á þeim tíma sem þau komu fram en nú.

Aðalástæðan er þó líklega sú að orðin sem átti að skipta út voru komin inn í málið og höfðu unnið sér þar hefð, mörg hver a.m.k. Flest þeirra nýyrða sem þykja best heppnuð og eru alltaf notuð í almennu máli komu fram áður en nokkur erlend orð sömu merkingar höfðu náð fótfestu í málinu – orð eins og sími, tölva, þota, þyrla, snjallsími, spjaldtölva o.fl. Þegar orð hafa unnið sér hefð í málinu eiga ný orð sem eiga að koma í staðinn oftast erfitt uppdráttar. Góð dæmi um það eru ávaxtaorðin sem nefnd eru hér að framan – það eru í sjálfu sér ágæt orð en erlendu orðin voru orðin of föst í málinu til að þau væru lífvænleg. Almennt séð er hvorki líklegt til árangurs né íslenskunni til framdráttar að reyna að losna við orð sem hafa unnið sér hefð.

Þótt sú stefna að smíða íslensk nýyrði í stað erlendra tökuorða hafi yfirleitt verið nokkuð óumdeild hafa stundum komið fram efasemdir um hana. Bent hefur verið á að eitt af því sem torveldar útlendingum íslenskunám sé að í málinu eru ekki notuð ýmis alþjóðaorð, flest af grískum eða latneskum stofni, sem annars ferðast milli mála. Þótt þessi orð séu kannski ekki stór hluti orðaforðans er alltaf mjög uppörvandi fyrir málnema að heyra orð sem þau kannast við úr öðrum málum. Ég var t.d. í gær að hlusta á frétt þar sem talað var við pólskukennara í Háskóla Íslands, á pólsku. Ég kann ekkert í pólsku en ég skildi samt þegar talað var um „kulture“,  „polski film“, „polski musiki“ og „polski histori“ (skrifað eftir framburði).

Í íslensku er auðvitað aragrúi tökuorða og sjaldnast hægt að halda því fram að þau spilli málinu. Aðalatriðið er að þau falli að hljóðkerfi og beygingakerfi málsins – hafi ekki að geyma framandi hljóð eða hljóðasambönd og taki beygingum eins og þau orð sem fyrir eru. Flestöll tökuorð gera þetta, og þótt orð eins og snjallsími sé vissulega vel heppnað og almennt notað myndi smartfónn falla alveg jafnvel að málinu – andstaða við slíkt orð væri fremur byggð á þjóðernislegum en málfræðilegum forsendum. Okkur vantar alltaf ný og ný orð og það er sjálfsagt að halda áfram að smíða íslensk nýyrði þegar þess er kostur, en það er ekki síður nauðsynlegt að hika ekki við taka erlend orð inn í íslenskuna og laga þau að málkerfinu.