Rætur íslenskrar myndasagnaútgáfu
Á síðustu þremur áratugum hafa verið gerðar nokkrar atrennur að því að rekja sögu íslenskrar myndasagnaútgáfu. Er almennt talið að hún hefjist fyrir alvöru um og eftir 1960 með verkum eftir teiknara á borð við Halldór Pétursson, Gísla J. Ástþórsson, Ragnar Lár og Harald Guðbergsson. Forsagan er mislöng eftir því hver reifar efnið. Þau sem horfa lengst aftur í tímann vísa í ýmis miðaldaverk (t.d. Valþjófsstaðahurðina, Bayuxrefillinn og myndlýsingar í íslenskum handritum) en leggja um leið áherslu á að hér, líkt og víða erlendis, standi myndasagnahefð í prentmiðlum á öxlum pólitískra skopmynda. Nöfn frumkvöðlanna Muggs og Tryggva Magnússonar hafa fengið verðskuldaðan sess í þessari sögu en engin listakona hefur enn komist þar á blað. Markmiðið með þessum skrifum er að safna saman fyrirliggjandi þekkingu um efnið og bæta einhverju nýju við. Athyglin beinist að fyrri hluta 20. aldar þegar frumsamdar og þýddar skopmyndir og myndasögur byrja að birtast á prenti hér á landi.
Áður en lengra er haldið er gagnlegt að útskýra hvað átt er við með hugtakinu myndasaga. Ítarlegasta umfjöllunin sem birst hefur um hana sem listmiðil á íslensku er bók Úlfhildar Dagsdóttur, Myndasagan: Hetjur, skrýmsl og skattborgarar frá árinu 2014. Þar eru kynntar helstu skilgreiningar erlendra fræðimanna á þessu fyrirbæri og bent á að uppi eru ólík sjónarmið um hvort stök mynd eða tengdar "þöglar" myndaraðir (án texta) geti talist til myndasagna. Sjálf segir Úlfhildur einfaldlega: "Myndasaga er saga í myndum" (s. 14). Ég tel þetta skýra og skilmerkilega skilgreiningu en miða mína umfjöllun við myndasögur sem miðla atburðarás í tveimur eða fleiri tengdum myndum, með eða án texta. Unnt er að gera tvíþættan greinarmun á myndsögutextanum eftir því hvort hann sé A) frásögn sögumanns eða B) samtal persóna og eins hvort hann birtist 1) utan við myndflötinn eða 2) sem hluti viðkomandi myndar (til dæmis í talblöðrum). Samkvæmt þessari skiptingu mætti skilgreina meginhluta textans í Tinnabókunum, svo dæmi sé tekið, sem B2. Hins vegar fellur texti flestra þeirra þýddu myndasagna sem birtust í dagblöðum hér á landi á þriðja og fjórða áratugnum undir A1 eða A2.
Á mörkum skopmynda og myndasagna
Grein Ólafs Engilbertssonar "Upphaf íslenskrar myndsagnagerðar" (1992) braut að mínu viti blað í umfjöllun um þetta efni en þar er bent á að Muggur (Guðmundur Thorsteinsson) hafi verið einna fyrstur Íslendinga til að reyna fyrir sér við gerð myndasagna. Er vísað í fimm mynda röð hans "Tre yndige piger" (1923). Hún er með dönskum texta sögumanns sem birtist neðan við hverja mynd (A1). Ólafur nefnir einnig að Bayuxrefillinn, sem Björn Th. Björnsson taldi samofinn íslenskri menningarsögu, og skopteikningar Sólons Íslandus (Sölva Helgasonar) frá síðari hluta 19. aldar vísi fram á veginn í þessu efni.
Nokkru áður en Ólafur birti grein sína mátti í helgarblaði Tímans lesa áhugaverð úttekt á sögu íslenskra skopmynda undir fyrirsögninni "Jörundur hundadagakonungur va forveri Sigmunds á vettvangi skopteikninga" (1988). Þar er rifjað upp að danski ævintýramaðurinn Jörgen Jörgensen, sem skipaði sjálfan sig verndara Íslands árið 1809, hafi verið "sá fyrsti sem við vitum til að hafi teiknað skopmyndir út af íslensku efni". Er birt með greininni teikning sem ranglega var talið að Jörundar hefði gert af sjálfum sér. Þekktustu myndina sem hér um ræðir er Jörgen hins vegar hafa talinn hafa teiknað eftir dansleik í Klúbbnum í Reykjavík umrætt sumar. Samkvæmt henni vildi svo illa til að ein daman flækti hárkolluna sína í ljóskrónu í miðjum dansi, með fremur óheppilegum afleiðingum. Annars er í blaðagreininni lögð áhersla á að elstu prentuðu íslensku skopmyndirnar hafi farið að birtast í blöðum og á póstkortum á öðrum áratug tuttugustu aldar. Er nefndur til sögu myndskerinn Ríkarður Jónsson en bætt við: "Langoftast eru þessi kort þó ómerkt og listamennirnir ókunnir, en nafnleynd hafa skopmyndateiknarar gjarna notað sér."
Fyrir þá sem vilja kynna sér umrædda póstkortaútgáfu er gagnasafnið Sarpur sérstök gullnáma. Meðal elstu skopmyndakorta þar er "Ráðherrann í "Hjálendunni"/Ráðherrann á "Herragarðinum"" frá 1909. Um er að ræða tvær tengdar myndir, ásamt tveimur skopvísum neðanmáls, sem miðla einfaldri frásögn (A1). Annars vegar er varpað ljósi á hvernig Björn Jónsson Íslandsráðherra er fullur af rembingi ("með reigðan háls") í samskiptum við landa sína heima við en flaðrar auðmjúkur ("með hjartað í rumpinum") upp um dönsku hátigninni úti í Danmörku (lafinu á kjóljakka ráðherrans er líkt við "hundsrófu"). Myndirnar báðar eru merktar "SS apríl 1909". Er hér kannski komin fyrsta útgefna íslenska myndasagan og fyrsti íslenski myndasagnahöfundurinn? Það er álitamál því í raun er um að ræða "aðlögun" á danskri myndsögu sem birtist upphaflega 18. apríl 1909 í skopmyndablaðinu Klods Hans og var endurbirt í Eimreiðinni í maí, ásamt fleiri dönskum skopmyndum.
Þess má geta að umrædd póstkortaútgáfa með skopmyndum varð tilefni áhugaverðar greinar í Reykjavíkurblaðinu Ingólfi árið 1910 þar sem lýst er eftir íslensku skopblaði með teikningum og gamanvísum; "mundi það veita oss marga ánægjustund og líklega bæta oss töluvert þegar öllu er á botninn hvolft", sagði þar meðal annars. Að minnsta kosti tvær skammlífar tilraunir höfðu þá þegar verið gerðar til að gefa út slíkt efni á prenti. Árið 1900 birtust tvö hefti af skopblaðinu Gaman og alvara og árið 1908 birtist eitt hefti af skopblaðinu Æringja. Teikningar léku reyndar ekki stórt hlutverk í þessum miðlum en hér er um að ræða forvera skopmyndablaðanna Mána og Spegilsins sem brátt verður vikið að.
Um síðustu aldamót var frumsýnd í sjónvarpinu heimildamynd eftir Halldór Carlsson sem nefndist Íslenska myndasagan (1999). Nokkru síðar skrifaði Inga María Brynjólfsdóttir BA ritgerð um íslenskar myndasögur og á grunni hennar birti hún grein sem einnig nefndist "Íslenska myndasagan" (2005). Bæði nefna þau Halldór Valþjófsstaðahurðina sem fjarlægan forvera íslensku myndasögunnar en leggja höfuðáherslu á að Muggur sé eiginlegur frumkvöðull á þessu sviði. Hann var fæddur 1891 og stundaði nám í myndlist í Danmörku á öðrum áratug 20. aldar. Halldór fullyrðir að "myndaseríur" Muggs sem byggja á þjóðsögum og barnabók hans Dimmalimm sýni "að hann hafði næmt auga fyrir hreyfingu í myndum". Að auki nefna þau bæði "Tre yndige piger", sem Ólafur Engilbertsson hafði vakið athygli á. Í bók sinni Myndasagan (2014) tekur Úlfhildur Dagsdóttir í svipaðan streng. Hún minnir á að Valþjófsstaðahurðin og myndlýsingar í miðaldahandritinum segi með sínum hætti "dulitlar sögur" (s. 27) en í hennar huga er Muggur, þegar nær dregur í tíma, "einn af brautryðjendum íslensku myndasögunnar" (s. 180). Nefnir hún þjóðsagnamyndir listamannsins en beinir líka athygli að "myndlýstum barnabókum hans, Dimmalimm (1921) og Tíu litlir negrastrákar (1922)" (s. 180).
Eitt af því sem flækir þessa sögu er að fæst verka Muggs komu út á prenti meðan hann lifði. Þó svo að Dimmalimm hafi sannarlega verið sköpuð 1921 birtist hún ekki á bók fyrr en 1942. Ýmsar þjóðsagnamyndir sínar sýndi hann opinberlega á þriðja áratugnum en þær birtust, það ég best veit, ekki ásamt viðkomandi textum fyrr en um og eftir 1950. Svipaða sögu er að segja af "Tre yndige piger". Negrastrákarnir, eins og sú bók hét upphaflega, er eina verk hans sem komst í almenna dreifingu á þriðja áratugnum, en um er að ræða aðlögun fordómafullarar bandarískrar myndabókar sem komið hafði út víða um lönd á undangengnum áratugum. Því er því hæpið að fjalla um hana sem frumsamda íslenska myndasögu, þótt vissulega marki hún tímamót í útgáfu þýddra myndabóka hér landi. Um leið er athyglisvert að enginn þeirra sem tengt hafa Mugg við íslenska myndasagnahefð beina athyglinni að markverðum myndlýsingum sem hann gerði við Þulur (1916) móðursystur sinnar, Theódóru Thoroddsen. Þar má þó sjá myndaraðir sem miðla þeirri sögu sem rakin er í viðkomandi texta (A1). Dæmi má taka af opnunni þar sem "Tunglið, tunglið, taktu mig" birtist. Á spássíu við hlið hendinganna eru fjórar tengdar myndir sem endurspegla frásögn þulunnar.
Flestir þeirra sem fjalla um sögu íslensku myndasögunnar sniðganga þýtt efni en það er þó ekki algilt. Nýlega birtist á vefsíðunni "Hrakfarir og heimskupör", sem "Sveppagreifinn" heldur úti, grein undir titilinum "Forverarnir" (2022). Þar er rakin saga þýddra myndasagna sem komu út í bókarformi á Íslandi á tímabilinu 1927 til 1971. Bent er á að fyrsta bókin af þessu tagi sé Halli hraukur (1927) eftir danska skopteiknarann Carl Rögind. Umrætt efni birtist reyndar upphaflega í Æskunni ári fyrr undir titilinum "Halli hrúka" (1926). Um útgáfusögu verksins hefur Sveppagreifinn þetta að segja:
"Í Æskunni birtust að jafnaði tvær myndaraðir með tveimur myndum hvor þar sem drengurinn Halli hrúka varð fyrir aðkasti jafnaldra sinna vegna vaxtarlags síns. Einn slíkur brandari eða saga birtist í hverju tölublaði og alltaf hafði Halli hrúka betur gegn hrekkjusvínunum að myndunum fjórum loknum. Eftir sextán slíkar sögur eða brandara lauk aðkomu Halla í barnablaðinu Æskunni og fyrir jólin 1927 kom út í bókarformi samansafn þeirra brandara hjá bókaverslun Sigurjóns Jónssonar."
Vert er að geta þess að "Halli hrúka" var ekki fyrsta þýdda myndasagan sem lesendur Æskunnar kynntust. Merkur forveri hennar er stök saga, "Óheppilegt stökk: Gamanmynd í fjórum sýningum" (1914). Höfundar er ekki getið en líklega er um að ræða þýðingu á evrópsku efni. Í sögunni er brugðið er fjórum tengdum myndum af seinheppnum ferðalangi sem leitar leiða til að koma sjálfum sér og koffortinu sínu yfir læk. Textinn, sem birtist neðan við hverja mynd, er eintal persónunnar við sjálfa sig (A2).
Áður en skilið er við þetta tímabil má minna á að árið 1917 hóf göngu sína fyrsta skopmyndablaðið Máni. Út komu fimm tölublöð á tímabilinu 13. janúar til 19. maí. Ritstjóri var Sigurður Arngrímsson, kennari og verslunarmaður. Hann skrifaði væntanlega flesta texta sem birtust í blaðinu en ekki er ljóst hvort hann eða einhver utanaðkomandi listamaður annaðist teikninguna. Myndirnar sem þarna birtast eru á köflum listrænar og áhugaverðar. Er vert að nefna sérstaklega tvær stakar skopmyndir í þriðja tölublaði þar sem texti er hluti teikningarinnar. Þá vekur athygli þriggja mynda röð í öðru tölublaði þar sem sögð er saga af "Bjarna Björns" á söngskemmtun í Bárunni. Er birtur með tveimur myndanna texti þar sem Bjarni tjáir hug sinn (A2). Líta má á þessar myndir, rétt eins og skopmyndir SS af Birni ráðherra 1909, þýddu myndasöguna í Æskunni 1914 og myndlýsingar Muggs í Þulum 1916, sem upptakt þeirra verka sem Tryggvi Magnússon birti á þriðja áratugnum og nú verður vikið að.
Listbrögð myndasögunnar ná fótfestu
Sama ár og "Halli hrúka" fór að birtast í Æskunni stofnuðu Páll Skúlason, Sigurður Guðmundsson og Tryggvi Magnússon útgáfu skopmyndablaðsins Spegilsins. Það kom fyrstu misserin út á tveggja mánaða fresti en á öðru útgáfuári var það mánaðarrit og á þriðja útgáfuári kom það út hálfsmánaðarlega. Tryggvi, sem fæddist árið 1900, var teiknari blaðsins en hann hafði stundað nám í myndlist í Kaupmannhöfn, New York og Dresden á árunum 1919-1923. Eftir heimkomuna birti hann stöku teikningar í blöðum og tímaritum, m.a. Æskunni, Lesbók Morgunblaðsins og Stúdentablaðinu. Elsta verk hans sem kalla mætti myndasögu er "Ökuhraði bifreiða" (1925). Um er að ræða tvær tengdar myndir sem prentaðar voru í Lesbókinni og draga með skoplegum hætti fram muninn á ákvæðum lögreglusamþykktar um hámarkshraða farartækja og hinn lífshættulega veruleika hraðaksturs. Undir hvorri mynd fyrir sig má lesa útskýring sögumanns (A1) en myndunum fylgdi líka lengri texti um efnið. Myndasagan þótti svo góð að Ísafold endurbirti hana tveimur dögum síðar.
Framlag Tryggva til Spegilsins átti sinn þátt í miklum og langvarandi vinsældum útgáfunnar (blaðið kom út nokkuð óslitið til 1972). Í hverju tölublaði birti Tryggvi stakar skopmyndir af nafntoguðum mönnum og konum sem til umfjöllunar voru í greinum eða gamanvísum en hann setti líka sinn svip á forsíður, umbrot og jafnvel auglýsingar. Kápa þriðja tölublaðs fyrsta árgangs 1926 var að þremur fjórðu lögð undir einskonar myndasögu, með fjórum römmum, þar sem rakinn er brokkgengur ferill stjórnmálaforingjans Jónasar Jónssonar (A1). Í sama tölublaði er líka skopmyndin "Landskjörið" (1926), í tveimur römmum, sem geymir vísun í áðurnefndar skopmyndir af Birni Jónssyni ráðherra frá 1909. Tryggvi vísaði aftur til þessarar myndar í Speglinum þremur árum síðar.
Í allmörgum tölublöðum Spegilsins þessi fyrstu útgáfuár er áhugaverðar myndir eftir Tryggva sem flokkast geta til myndasagna. Á einni, sem er samsett úr tveimur römmum, er sýnt hvernig lögreglan hefur brugðist við sjúklingaskorti í Reykjavík. Alllangur texti er til hliðar við myndina (A1). Á annarri mynd, sem er reyndar bara einn rammi, er lýst fundi í félagi ungra Íhaldsmanna. Fundarmenn eru kornabörn en samtali þeirra um landsins gagn og nauðsynjar er komið á framfæri í talblöðrum.
Fleiri dæmi eru um að Tryggvi hafi nýtt talblöðrur í myndum til að koma texta á framfæri og eru á köflum athyglisverður þáttur myndbyggingarinnar. Ástæða er til að staldra sérstaklega við forsíðumynd 12. tölublaðs 1927 en hún er samsett úr tveimur tengdum römmum; talblöðrur eru nýttar til að draga dár að tvöföldu siðgæði ráðamanna gagnvart áfengisbanninu (B2). Hér gengur Tryggvi í fyrsta sinn, það ég best veit, "alla leið" í að nýta listabrögð sígildu myndasögunnar í tjáningu sinni.
Ólafur Engilbertsson, Inga María Brynjólfsdóttir og Úlfhildur Dagsdóttir fjalla öll um Tryggva í sögulegri umfjöllun um íslensku myndasöguna en taka þó ekki svo djúpt í árinni að kalla hann beinlínis myndasagnahöfund eða vísa tiltekinna verka hans í því sambandi. Halldór Carlsson birtir hins vegar í heimildamynd sinni fjóra ramma úr "Kattafarganinu" (1930), sex ramma myndasögu sem Tryggvi teiknaði og sá raunar fyrir sér sem seríu. Halldór minnir líka á þetta verk í grein sinni "Íslenskar myndasögur í dagblöðum og tímaritinum" (1999) sem hann skrifaði í tengslum við samnefnda sýningu í Norræna húsinu. "Kattafarganið" er líka nefnt til sögu í færslu á Wikipediu sem er helguð íslenskum myndasögum. Sagan er að mestu "þögul" en hefst þó á stuttum inngangi þar sem er útskýrt að lögreglan keppi að því að farga öllum köttum í Reykjavík. Boðað framhald þessarar sögu afmarkaðist við frásögn í tveimur myndarömmum í næsta tölublaði Spegilsins og stakar skopmyndir í næstu tölublöðum þar á eftir.
Finna má fleiri "þöglar myndasögur" eftir Tryggva í Speglinum frá þessum árum. En þar birtist líka áhugaverð myndaröð þar sem sex samstæðar myndir fléttast saman tal persóna sem birt er neðan við (A2). Um er að ræða auglýsingu frá Ölgerð Egils Skallagrímssonar sem Tryggvi hefur tekið að sér að hana. Höfuðpersónan er steinheppinn drengur sem brýtur rúðu og reynir að milda reiði föður síns með því að kaupa handa honum Egils öl. Taka mætti fleiri dæmi af verkum Tryggva í Speglinum um þetta leyti sem staðfesta að hann, líkt og Muggur, var snemma á ferli sínum handgenginn myndasagnaforminu. Báðir hafa þeir vafalítið kynnst því meðan þeir voru stunduðu nám erlendis en það hefur líklega einnig haft sitt að segja að þýddar myndasögur voru farnar að birtast í íslenskum blöðum þegar á öðrum áratugnum og nutu stigvaxandi vinsælda.
Um líkt leyti og Halli hrúka kom út hjá Æskunni hóf Morgunblaðið að birta framhaldsöguna "Ljósálfurinn litli" (1927) en hún er líklega betur þekkt sem Dísa ljósálfur). Fyrsta sagan var rakin í 112 myndum en textinn, sem birtist neðan við, hafði bæði að geyma frásögn sögumanns og samtöl persóna (A1-2). Í áðurnefndri yfirlitsgrein Sveppagreifans komu þessi og fleiri sambærilegar sögur, m.a. um Alfinn álfakóng og Dverginn rauðgrana, út bæði í blöðum og á bókarformi undir lok þriðja áratugarinns. Íslensk myndasagnaútgáfa var þarna að komast sæmileg á legg, í raun þrjátíu árum áður en frumsamdar íslenskar sögur fóru að birtast af nokkrum krafti í blöðum og tímaritum. Í millitíðinni markaði fyrsta íslenska listakonan áhugaverð spor á þessum vettvangi. Þetta var Nína Tryggvadóttir sem, ásamt skáldinu Steini Steinarr, sendi frá sér myndabókina Tindátanna (1943) í miðri síðri heimsstyrjöld. Viðfangefnið var eldfimur pólitískur veruleik stríðsátakanna og sverja sumar myndanna sig í ætt bandarískra myndasagna og teiknimynda.
Að lokum
Hér að framan var látið að því liggja að dönsk skopmynd af Birni Jónssyni ráðherra sem birtist í íslensku dagblaði og íslensk "aðlögun" hennar á póstkorti smarki upphaf myndasagnaútgáfunnar hér á landi árið 1909. En kannski nær þessi saga lengra aftur, að minnsta kosti aftur til ársins 1888. Þá birtist eftirfrandi frásögn í Fjalkonunni:
"Alkunnugt skopblað (,,Puck“), sem kemr út í New York, færði fyrir skömmu nokkrar myndir, til að sýna hina hlægilegu hræðslu karlmanna um það, að þeir verði misskildir, er þeir koma þangað sem heimasætur eru. Þar er sýnt herbergi, þar sem hjón sitja með gjafvaxta dóttur, enn inn kemr ungr maðr og taka þau kveðju hans mjög vonarlega. Með honum eru tveir fylgdarmenn. Ungi maðrinn er mjög spjátrungslegr með gleraugu og skegg á efri vör, og hefir skjöld á brjóstinu, sem grafið er á: „This is merely a social call, and does not mean matrimony" (þetta er að eins venjuleg heimsókn, enn ekki til kvonmála). Annar fylgdarmaðrinn er lögfræðingr og hvíslar að unga manninum, hvað hann skuli segja; hinn er hraðritari, út búinn með vasabók og stýl, og á að skrifa nákvæmlega hvert orð sem talað er. Dálítill grimmr hvolpr geltir allt af að gestunum."
Í raun er þetta þýðing eða aðlögun á skopmynd eftir Frederick Burr Opper. Má kannski segja að rætur myndasagnaútgáfu í prentmiðlum hér á landi teygi sig allt aftur til þessarar (ósýnilegu) myndar?
Nokkrir frumkvöðlar í myndlýsingu og myndasagnagerð og verk þeirra
- Björn Björnsson (1886-1939): Vísnakver Fornólfs (1923)
- Gunnlaugur H. Sveinsson (1913-1969): Káti Láki (1948)
- Halldór Pétursson (1916-1977): Njálsbrenna (1959)
- Hans og ?: Eiríkur víðförli (1959)
- Þröstur Magnússon (f. 1943): Sagan af Vellýgna Bjarna (1963)
- Haraldur Guðbergsson (1930-2013): Ása Þór (1964)
- Ragnar Lár (1935-2007): Gunnlaugs saga (1964)
- Kjartan Guðjónsson (1921-2010): Haralds saga harðráða (1964)
- Haraldur Guðbergsson (1930-2013): Sæmundur fróði (1965)
- Haraldur Guðbergsson (1930-2013): Ófælni drengurinn (1965)
- Haraldur Guðbergsson (1930-2013): Gylfaginning (1966)
- Ragnar Lár og Gunnar Gunnarsson: Valdimar víkingur (1967) í sjónvarpi
- Ragnar Lár (1935-2007): Finnboga saga ramma (1972)
- René Terney: Úr Njálssögu (1971)
- Haraldur Guðbergsson (1930-2013): Baldusdraumur (1980)
- Haraldur Guðbergsson (1930-2013): Þrymskviða (1980)
- Kristján J. Guðnason: Ferðin til Vínlands (1984)
- Halldór Pétursson (1916-1977) og Kristján J. Guðnason: Grettis saga (1992)
- Búi Kristjánsson (f. 1961): Laxdæla (1993)
- Haraldur Einarsson (f. 1924): Auðunn vestfirski (1995)
- Búi Kristjánsson (f. 1961) og Jón Karl Helgason (f. 1965): Úlfur og örn (1996)
- Ingólfur Björgvinsson (f. 1964) og Embla Ýr Bárudóttir (f. 1973): Blóðregn (2003)
- Ingólfur Björgvinsson (f. 1964) og Embla Ýr Bárudóttir (f. 1973): Brennan (2004)
- Ingólfur Björgvinsson (f. 1964) og Embla Ýr Bárudóttir (f. 1973): Vetrarvíg (2005)
- Ingólfur Björgvinsson (f. 1964) og Embla Ýr Bárudóttir (f. 1973): Hetjan (2007)
- Bjarni Hinriksson (f. 1963) og Jón Karl Helgason (f. 1965): Hvað mælti Óðinn! (2016)
- Þórhallur Arnórsson ofl.. Vargöld I-II (2016-2019)
Njálsbrenna Halldórs Péturssonar
- 1. hluti: 8. febrúar 1959.
- 2. hluti: 15. febrúar 1959
- 3. hluti: 22. febrúar 1959.
- 4. hluti: 1. mars 1959.
- 5. hluti: 8. mars 1959.
- 6. hluti: 15. mars 1959.
- 7. hluti: 22. mars 1959.
- 8. hluti: 26. mars 1959.
- 9. hluti: 5. apríl 1959.
- 10. hluti: 12. apríl 1959.
- 11. hluti: 19. apríl 1959.
- 12. hluti: 26. apríl 1959.
- 13. hluti: 3. maí 1959.
- 14. hluti: 10. maí 1959.
- 15. hluti 17. maí 1959 (ekki á timarit.is)
- 16. hluti: 24. maí 1959.
- 17. hluti: 31. maí 1959.
- 18. hluti 20. nóvember 1959.
- 19. hluti 25. nóvember 1959.
- 20. hluti: 2. desember 1959.
- 21. hluti: 9. desember 1959.
- 22. hluti óvíst
- 23. hluti: 31. desember 1959.
- 24. hluti: 7. janúar 1960.
- 25. hluti: 14. janúar 1960.
- 26. hluti: 21. janúar 1960.
- 27. hluti: 28. janúar 1960.
- 28. hluti: 4. febrúar 1960.
- 29. hluti: 11. febrúar 1960.
- 30. hluti: 17. febrúar 1960.
Æsir og ásatrú
- 1. hluti: 2. mars 1960. Almennar kynningar.
- 2. hluti: 9. mars 1960:
- 3. hluti: 16. mars 1960.
- 4. hluti: 23. mars 1960.
- 5. hluti 30. mars 1960. Ferð Þórs til Útgarðaloka hefst.
- 6. hluti: 6. apríl 1960.
- Messufall 13. apríl
- 7. hluti 21. apríl 1960.
- Messufall 27. apríl.
- 8. hluti 4. maí 1960. ein mynd
- 9. hluti 11. maí 1960. ein mynd
- 10. hluti 18. maí 1960.
- 11. hluti 25. maí 1960. ein mynd
- 12. hluti 13. október 1960.
- 13. hluti 20. október 1960.
- 14. hluti 27. október 1960.
- 15. hluti 3. nóvember 1960. ein mynd
- 16. hluti 10. nóvmeber 1960.
- 17. hluti 17. nóvember 1960. Ferð Þórs til Útgarðaloka lýkur.
- 18. hluti 24. nóvember 1960. Ný saga, Þrymskviða, hefst.
- 19. hluti 1. desember 1960.
- Messufall
- 20. hluti 17. desember 1960.
- 21. hluti 24. desember 1960.
- 22. hluti 24. desember 1960. Þrymskviðu lýkur
Grettissaga Halldórs Péturssonar
- 1. hluti 16. mars 1960.
- 2. hluti 23. mars 1960.
- 3. hluti 30. mars 1960.
- 4. hluti 6. apríl 1960.
- 5. hluti 13. apríl 1960.
- 6. hluti 21. apríl 1960.
- 7. hluti 27. apríl 1960.
- 8. hluti 4. maí 1960.
- 9. hluti 11. maí 1960.
- 10. hluti 18. maí 1960.
- 11. hluti 25. maí 1960.
- 12. hluti 13. október 1960.
- 13. hluti 20. október 1960.
- 14. hluti 27. október 1960.
- 15. hluti 3. nóvember 1960.
- 16. hluti 10. nóvember 1960.
- 17. hluti 17. nóvember 1960. (mjög mikil fljótaskrift?)
- 18. hluti 25. nóvember 1960.
- 19. hluti 1. desember 1960.
- Messufall
- 20. hluti 17. desember 1960.
- 21. hluti 24. desember 1960.
- 22. hluti 29. desember 1960.
- 23. hluti 6. janúar 1961.
- 24. hluti 13. janáur 1961. Hér hefst framhaldssaga í blaðinu Síðasti móhíkaninn.
- 25. hluti 19. janúar 1961.
- 26. hluti 26. janúar 1961.
- 27. hluti 3. febrúar 1961.
- 28. hluti 10. febrúar 1961.
- 29. hluti 17. febrúar 1961.
- 30. hluti 24. febrúar 1961.
- 31. hluti 3. mars 1961.
- 32. hluti 11. mars 1961.
- 33. hluti 17. mars 1961.
- 34. hluti 24. mars 1961.
- 35. hluti 30. mars 1961.
- 36. hluti 8. apríl 1961.
- 37. hluti 15. apríl 1961.
- 38. hluti 20. apríl 1961.
- 39. hluti 28. apríl 1961.
- 40. hluti 5. maí 1961.
- 41. hluti 14. maí 1961.
- 42. hluti 19. maí 1961.
- 43. hluti 27. maí 1961.
- 44. hluti 5. nóvember 1961.
- 45. hluti 12. nóvember 1961.
- 46. hluti 19. nóvember 1961.
- 47. hluti 26. nóvember 1961.
- 48. hluti 3. desember 1961.
- 49. hluti 10. desember 1961.
- Messufall
- 50. hluti 24. desember 1961.