Ritið: Bókmenntir og lög
Ritið. Tímarit Hugvísindastofnunnar 18/1 (2018).
Við Lára Magnúsardóttir og Rannveig Sverrisdóttir ritstýrðum saman þemahefti Ritsins árið 2018 þar sem viðfangsefnið voru lög og bókmenntir. Í heftinu eru sex þemagreinar, þar af fjórar frumsamdar og tvær þýðingar.
Gunnar Karlsson sagnfræðingur fjallar um lög, siðareglur og bókmenntatexta frá fyrstu öldum Íslandsbyggðar, Lára Magnúsardóttir sagnfræðingur túlkar afmarkaða kafla í Árna sögu biskups í ljósi þeirra afdrifaríku pólitísku breytinga sem urðu hér á landi á síðari hluta þrettándu aldar. Einar Kári Jóhannsson bókmenntafræðingur greinir skáldsögurnar Kötu eftir Steinar Braga og Gott fólk eftir Val Grettisson í ljósi hugmynda fræðimanna um söguleg tengsl hefnda og réttarfars og Guðrún Baldvinsdóttir og Sólveig Ásta Sigurðardóttir bókmenntafræðingar skrifa um það hvernig opinberar umræður um skáldsöguna Konan við 1000° eftir Hallgrím Helgason og sjálfsævisöguna Útlagann eftir Jón Gnarr tengdust lögum um tjáningarfrelsi og friðhelgi einkalífs.
Þá er birt íslensk þýðing á nýlegri grein eftir bandaríska lögfræðinginn og sagnfræðinginn William Miller þar sem greint er hvernig lykilpersónur úr Egils sögu, Njáls sögu og Sturlu sögu beita ógnandi framkomu og hótunum í samskiptum sín á milli. Hin þýdda greinin er eftir tvo danska fræðimenn, bókmenntafræðinginn Karen-Margrethe Simonsen og lögfræðinginn Ditlev Tamm. Þau fjalla um söguna Præsten i Vejlbye (Vaðlaklerk) eftir danska nítjándu aldar skáldið Steen Steensen Blicher en hún byggði á þekktu sakamáli frá fyrri hluta sautjándu aldar.