Doktorsvörn Ólafs Rastrick
Í gærdag varði Ólafur Rastrick doktorsritgerð sína við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Við Rósa Magnúsdóttir sagnfræðingur vorum andmælendur við vörnina. Andmæli okkar munu væntanlega birtast opinberlega á þessu ári en í niðurlagi minnar ræðu sagði ég meðal annars: "Doktorsritgerð Ólafs Rastrick, Íslensk menning og samfélagslegt vald 1910‒1930, er fagnaðarefni í íslenskum fræðum. Enda þótt Ólafi takist ekki að skýra fyllilega þá andstöðu gegn módernismanum sem gætti í listumræðu hér á landi lengi fram eftir tuttugustu öld þá varpar hann forvitnilegu ljósi á það efni. Höfuðgildi ritgerðarinnar felst hins vegar eins og að var stefnt í því að sýna fram á hvernig menningin, í mjög víðtækum skilningi, öðlast mikilvægt samfélagslegt hlutverk hér á landi á umræddu tímabili og verður í raun að veraldlegum trúarbrögðum þess fullvalda og síðar sjáflstæða þjóðríkis hér var að mótast." Ég vil nota þetta tækifæri og óska Ólafi til hamingju með merkan áfanga.