Posted on Færðu inn athugasemd

Íslensk málrækt

Til að efla íslensku og tryggja framtíð hennar er mikilvægt að

Posted on Færðu inn athugasemd

Konuforseti

Í Málvöndunarþættinum á Facebook og víðar hefur oftar en einu sinni skapast umræða um orðið konuforseti sem kemur fyrir í titli á nýrri barnabók um Vigdísi Finnbogadóttur. Margir hafa hneykslast á þessu orði og sagt að það sé barnamál – þetta heiti kvenforseti á íslensku. Það er auðvitað rétt að það er hefð fyrir orðinu kvenforseti þótt sú hefð sé raunar ekki ýkja gömul – elsta dæmið um orðið á tímarit.is er 60 ára gamalt og orðið komst ekki í almenna notkun fyrr en með kjöri Vigdísar 1980.

Bæði orðin, kvenforseti og konuforseti, eru jafnrétt íslenska, í þeim skilningi að þau lúta orðmyndunarreglum málsins. Samsett orð í íslensku eru einkum af tvennum toga – í sumum er fyrri liðurinn orðstofn, eins og kven-, en í öðrum er fyrri liðurinn eignarfall (eintölu eða fleirtölu), eins og konu-. Það eru til ýmsar fullkomlega viðurkenndar samsetningar með konu- sem fyrri lið – konudagur, konukvöld, konuríki, konubíll, konuleit, konuefni, konukind, Konukot o.fl.

En þótt báðar orðmyndunaraðferðirnar sem nefndar eru hér að ofan séu jafnréttar er almennt séð eðlilegt að halda sig við hefðina – ef komin er hefð á aðra aðferðina er oftast ástæðulaust að mynda orð sömu merkingar eftir hinni aðferðinni. En það er samt ekki rangt.

Það er líka rétt að athuga að fjölbreytni í málnotkun þykir yfirleitt af hinu góða. Það er ekkert að því að hafa fleiri en eitt orð yfir sama hugtak. Í slíkum tilvikum hafa orðin oft með sér einhverja verkaskiptingu – barn er formlegra en krakki, bifreið er formlegra en bíll, fákur er formlegra en hestur o.s.frv. Það táknar ekki að annað orðið um hvert þessara hugtaka sé eitthvað betra eða réttara en hitt – þau henta bara mismunandi aðstæðum, mismunandi málsniði.

Þannig er það einmitt í þessu tilviki. Höfundur umræddrar bókar hefur skýrt titilinn fullkomlega: „Bókin er um barn sem fer í heimsókn til Vigdísar í þeim tilgangi að skrifa um hana bók. Titill bókarinnar er titill barnsins.“

Eitt af því merkilegasta og stórkostlegasta við börn er hvað þau eru óhrædd við að nota málið. Ef þau kunna ekki orð um eitthvað sem þau vilja tala um búa þau til sitt eigið orð, í samræmi við þær reglur málsins sem þau hafa tileinkað sér. Konuforseti er orð af því tagi. Kvenforseti er sjaldgæft orð sem ekki er hægt að búast við að ung börn þekki, og myndin kven- er svo fjarlæg orðinu kona að það er ekki við því að búast að börn hafi orðmyndun með henni á valdi sínu. En þau eru ekki í neinum vanda með að búa til orðið konuforseti – gott og gilt orð í fullu samræmi við íslenskar orðmyndunarreglur.

En hér hangir meira á spýtunni. Börn hafa gaman af tungumálinu og hæfileikar þeirra til nýsköpunar í máli eru dýrmætir fyrir íslenskuna og framtíð hennar. Með því að hafna nýsköpun barnanna, með því að vera sífellt að segja að þeirra orð séu ekki til, erum við að brjóta niður áhuga þeirra á málinu og vinna gegn íslenskunni. Þess í stað eigum við að taka nýmyndunum barnanna vel og nota þær til að kveikja umræður um tungumálið – umræður sem börnin eru móttækileg fyrir.

Höfundur umræddrar bókar segir að orðið konuforseti í titlinum sé valið í samráði við Vigdísi sjálfa. Enginn getur sakað Vigdísi um að vilja ekki veg íslenskunnar sem mestan. En hún skilur að ólík orð henta mismunandi aðstæðum. Hún skilur að framtíð íslenskunnar veltur á því að börnin hafi áhuga á að nota hana, og þann áhuga má ekki drepa með því að berja niður frjóa málnotkun þeirra.

Posted on Færðu inn athugasemd

Málfræðikennsla

Um daginn hringdi í mig framhaldsskólanemi sem ég kannast við og var að spyrja mig út í orðflokkagreiningu. Hann var á leið í íslenskupróf og var óviss á ýmsum atriðum en hafði lært utan að nokkrar þumalfingursreglur um einkenni ákveðinna orðflokka og var að bera undir mig hvort einhverjar líkur væru á að þær kæmu honum í gegnum prófið.

Það var greinilegt að íslenska var ekki uppáhaldsnámsgrein hans – hann er í iðnnámi og gat ómögulega séð nokkurn tilgang í þessari greiningu. Ég gat ekki annað en tekið undir það. Mér finnst fráleitt að verja takmörkuðum kennslutíma í íslensku í tilgangslausa og steingelda greiningu af þessu tagi, og í vonlausa baráttu gegn áratuga gömlum málbreytingum sem gera málinu engan skaða. Þetta þýðir alls ekki að ég sé á móti allri málfræðikennslu – skárra væri það nú. Málfræðin er gagnleg til að átta sig á uppbyggingu tungumálsins og til að auðveldara sé að leiðbeina um ýmis atriði í meðferð þess.

EN – og það er stórt EN – til að hún nýtist á þann hátt þarf að vera á einhverju að byggja. Það þarf að vera búið að þjálfa nemendur í að lesa margs konar texta og fjalla um hann frá ýmsum hliðum. Það þarf að vera búið að vekja áhuga nemenda á málinu og fjölbreytileik þess. Þá getur málfræðikennslan verið gagnleg – og jafnvel skemmtileg ef rétt er á haldið. Greiningarvinna án grundvallar er hins vegar bara til bölvunar.

Af tveimur ástæðum. Annars vegar vegna þess að hún tekur tíma frá mikilvægari hlutum – lestri margvíslegra texta, þjálfun í orðaforða og lesskilningi, ritun, munnlegri tjáningu o.þ.h. Hins vegar vegna þess að hún gerir nemendur fráhverfa íslensku sem námsgrein og elur á neikvæðum viðhorfum þeirra til málsins. Nú veit ég auðvitað að kennsla í grunn- og framhaldsskólum er með ýmsu móti og dettur ekki í hug að fullyrða að áherslur í kennslunni séu alls staðar á greiningu og rétt mál. En samræmdu prófin gera a.m.k. sitt til að viðhalda þessu. Ef við ætlum að bæta árangur okkar í PISA verður að breyta þessu.

Posted on Færðu inn athugasemd

PISA

Ég hjómaði yfir PISA-skýrsluna og fór á fund um hana á Menntavísindasviði  Það er auðvitað alvarlegt mál að útkoma íslenskra unglinga á lesskilningsprófi fari versnandi en það er athyglisvert að lesskilningurinn er sér á báti í þessu – útkoman í stærðfræði- og náttúrufræðilæsi er svipuð og síðast (en ekki góð). Þetta vekur þá spurningu hvort útkoman í lesskilningsprófinu endurspegli fyrst og fremst veikari stöðu íslenskunnar í málsamfélaginu á síðustu árum en áður – sem ýmsar vísbendingar eru um.

Það hefur margsinnis verið bent á það hvernig samfélags- og tæknibreytingar hafa þrengt að íslenskunni undanfarinn áratug – t.d. í grein minni í Skírni 2016, grein okkar Sigríðar Sigurjónsdóttur í Netlu í fyrra, og í ótal erindum sem við höfum haldið undanfarin ár í tengslum við rannsóknarverkefnið Greining á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis. Þróunin ætti því ekki að koma á óvart.

Þetta kallar á önnur viðbrögð en ef um tæknileg atriði varðandi læsi er að ræða.  Læsisátakið sem hefur verið í gangi er gott og gilt en það er samt hætt við að það skili litlu ef ekki er um leið hugað að því að styrkja stöðu íslenskunnar í samfélaginu, ekki síst meðal barna og unglinga. Til þess þarf margvíslegar aðgerðir og það er mikilvægt að ráðast að rótum vandans. Máltækniátak er í gangi, en það þarf líka að stórauka útgáfu á góðu lestrarefni fyrir börn og unglinga, framleiðslu á íslensku sjónvarps- og margmiðlunarefni, tölvuleikjagerð á íslensku, o.fl.

Til að byggja upp traust málkerfi barna á máltökuskeiði skiptir öllu máli að tala sem mest við börnin, lesa fyrir þau og lesa með þeim, og láta þau lesa sjálf þegar þau hafa aldur til. En þetta dugir ekki til þegar kemur að því að þjálfa lesskilning, eins og hann er mældur t.d. í PISA-prófum. Til að öðlast góðan lesskilning þurfa börnin að læra annars konar orðaforða en fæst með venjulegum yndislestri, og ná valdi á fjölbreyttari og flóknari setningagerðum en notaðar eru í samtölum og afþreyingarefni.

Þennan orðaforða og þessar setningagerðir þarf að kenna sérstaklega, með því að láta börn og unglinga lesa viðeigandi texta. Ef við viljum bæta lesskilning ungs fólks held ég að það sé forgangsverkefni að efla rannsóknir á íslenskum orðaforða og setningagerð – setja fram rökstudd viðmið um það hvaða orðaforða og hvaða setningagerðir hver aldurshópur þarf að hafa á valdi sínu, og útbúa síðan viðeigandi kennsluefni fyrir hvern aldurshóp.

Við höfum núna miklar upplýsingar um orðaforða í mismunandi textategundum. Risamálheildin sem komið hefur verið upp hjá Árnastofnun hefur að geyma á annan milljarð orða úr fjölbreyttum textum – fréttum, lagatextum, dómum, þingræðum, fræðsluefni, bloggi o.fl. Þarna eru komnar forsendur til að útbúa skrá um orð sem mikilvægt er að börn og unglingar tileinki sér, og nýta þá skrá til að velja eða semja texta sem hægt er að láta þau lesa.

Það skiptir öllu máli að átta sig á að ábyrgðin á því að bæta úr verður ekki lögð á skólakerfið eitt og sér – þetta er ekki síður verkefni foreldra og annarra uppalenda, og samfélagsins í heild. Það er mjög mikilvægt að auka íslenskukennslu í skólum og endurskoða námsefni eins og mennta- og menningarmálaráðherra vill gera, en það dugir skammt ef grundvöllurinn, sem er lagður á máltökuskeiði á fyrstu árum barnsins, er of veikur. Samtal foreldra og barna, og lestur fyrir börn og með börnum, er frumforsendan.

Ef þessi grundvöllur er sterkur getur skólakerfið byggt ofan á hann. En þá skiptir máli að kennslutíminn sé nýttur vel – ekki í ófrjóa greiningarvinnu eða vonlausa baráttu við langt gengnar málbreytingar, heldur í lestur hvers kyns texta, eflingu orðaforða og þjálfun í ritun og munnlegri tjáningu.