Posted on Færðu inn athugasemd

Henni var brunað upp á svið

Í frásögn af ferð söngkonunnar Bríetar til Vestmannaeyja rakst ég á setninguna „Henni var brunað af flugvellinum og beint upp á svið.“ Mér fannst þetta athyglisvert því að þetta er ekki venjuleg notkun sagnarinnar bruna. Sambandið henni var brunað lítur út eins og þolmynd af germyndinni (einhver) brunaði henni, þar sem henni er andlag í þágufalli. En bruna er venjulega áhrifslaus, tekur ekki með sér andlag – við segjum bíllinn brunar en yfirleitt ekki hún brunaði bílnum eða ég brunaði henni í bæinn. Einstöku slík dæmi eru þó til.

Í Víðförla 1982 segir „Hann tók bílinn og brunaði honum eftir borðinu“ og í DV 1985 segir „Hún tók því orðalaust í handföngin á stólnum og brunaði honum út á gang“. Á netinu má finna germyndardæmi eins og „mamman út á nærfötunum og með verkjapillurnar í hendinni og brunaði henni í laugina“, og þolmyndardæmi eins og „við fengum ofboðslega stuttan tíma með henni áður en henni var brunað upp á Vökudeild“, „Honum var brunað á aðgerðarborðið hið snarasta og reynt að laga vandamálið“ og „Bílnum var brunað út að Sögade þar sem hann beygði til hægri eða í austur“.

Það eru sem sé til bæði dæmi um að bruna bíl og bruna fólki, þ.e. 'bruna með fólk í bíl'. Þetta er hliðstætt við að bæði er hægt að tala um að aka bíl og aka fólki, keyra bíl og keyra fólk(i) – og líka fljúga flugvél og fljúga farþegum. Þarna er áhrifslausa sögnin bruna gerð að áhrifssögn. Slíkt er ekki einsdæmi. Sögnin streyma var t.d. áhrifslaus til skamms tíma – áin streymir, en það er enginn sem streymir ánni. En á síðustu árum hefur merking sagnarinnar víkkað út og hún fengið andlag – nú er talað um að streyma kvikmyndum, streyma fundum o.s.frv., án þess að gerðar séu athugasemdir við það.

Enn nærtækara er að taka dæmi af sögninni fljúga sem til skamms tíma var áhrifslaus og tók ekki með sér neitt andlag, aðeins frumlag. Fuglar flugu, og örvar flugu, en enginn flaug fuglum eða örvum eða neinu öðru. Það var ekki fyrr en eftir tilkomu flugvéla í byrjun 20. aldar að þörf skapaðist á að láta fljúga fá andlag. Elsta dæmi sem ég hef fundið um það er í Dagsbrún 1917: „Vélinni var flogið í 1500 til 2000 metra hæð.“ Þessa merkingu sagnarinnar er ekki að finna í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924. Nú dettur auðvitað engum í hug að nokkuð sé athugavert við að fljúga flugvélum þótt stundum séu reyndar gerðar athugasemdir við að fljúga farþegum.

Nýjungar eins og henni var brunað upp á svið og hann brunaði bílnum eftir borðinu eiga sér því skýr fordæmi í hegðun annarra sagna á svipuðu merkingarsviði og þróun sem hefur orðið í notkun annarra sagna. Ég ætla ekki að mæla sérstaklega með þessum nýjungum eða leggja til að fólk taki þær upp, og á svo sem ekki von á að þær breiðist út, en mér finnst þetta vera skemmtileg dæmi um skapandi málnotkun. Merking setninganna liggur í augum uppi og ég sé ekki að þessi víkkun á notkunarsviði sagnarinnar bruna spilli málinu á nokkurn hátt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Festar, Festis, eða Festi?

Eignarhaldsfélagið Festi hefur töluvert verið í fréttunum undanfarið í tengslum við starfslok forstjóra þess. Í þessum fréttum hefur komið fram töluverð ringulreið á beygingu nafnsins – ýmist er talað um forstjóra Festi, forstjóra Festar eða forstjóra Festis. Enginn vafi er á því að nefnifallið er Festi – en hvernig getur eignarfall nafnorða sem enda á -i verið? Þetta gæti vissulega verið karlkynsorð, eins og neisti, og beygst þá Festi – Festa – Festa – Festa. Ég hef samt hvergi séð þá beygingu notaða og óhætt að afskrifa þann möguleika að hér sé um karlkynsorð að ræða.

Þetta gæti líka verið hvorugkynsorð, eins og nesti, og þá ætti beygingin að vera Festi – Festi – Festi – Festis. Hvorugkynsorðið festi er vissulega til, og skýrt í Íslenskri orðabók sem 'e-ð sem festir e-n, er óbreytanlegt'. En mörgum finnst liggja beinast við að um sé að ræða kvenkynsorðið festi, eins og í hálsfesti, og þá ætti eignarfallið að vera Festar. En á heimasíðu fyrirtækisins virðist eignarfallið yfirleitt vera haft án endingar, Festi – talað er um hlutverk Festi, hluthafa Festi, ársskýrslu Festi, stjórn Festi, forstjóra Festi o.s.frv. Getur það staðist? Geta íslensk orð sem enda á -i í nefnifalli verið óbreytt í eignarfalli?

Reyndar. Kvenkynsorð sem enda á -i fá ýmist –ar-endingu í eignarfalli, eins og festi í merkingunni 'hálsfesti', eða eru eins í öllum föllum eintölu, eins og gleði, reiði og ýmis fleiri orð. Orðið heimilisfesti er til bæði í hvorugkyni og kvenkyni. Í hvorugkyni endar það á -s í eignarfalli eins og við er að búast, en hvað með kvenkynsmyndina? Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er hún sögð vera heimilisfestar en ég held að það sé ekki rétt – samkvæmt minni máltilfinningu er hún heimilisfesti og þannig er hún í nær öllum dæmum á tímarit.is til heimilisfesti, vegna heimilisfesti, ekki til heimilisfestar, vegna heimilisfestar.

Niðurstaðan er því sú að eðlilegt sé að líta á heitið Festi sem kvenkynsorð sem sé eins í öllum föllum eintölu, og tala því um forstjóra Festi. Það rímar við meðferð orðsins á heimasíðu fyrirtækisins, eins og áður segir, þótt ég skuli ekki fullyrða að sama gildi um allar fréttir sem fyrirtækið sendir frá sér. En ég mæli sem sé með því að eignarfallið Festi sé notað.

Posted on Færðu inn athugasemd

Ætlun sendenda og upplifun viðtakenda

Í umræðum um kynjað og kynhlutlaust málfar er iðulega bent á að hefðbundin málnotkun, þar sem karlkyn fornafna og lýsingarorða er notað í almennri merkingu, sé málhefð sem eigi sér langa sögu og karlkyn vísi í þessari hlutlausu merkingu til allra kynja en ekki sérstaklega til karlmanna. Þetta er hárrétt. En í framhaldinu er oft fullyrt að þessi notkun karlkyns sé ekki útilokandi á nokkurn hátt og þess vegna sé misskilningur, misráðið og með öllu óþarft að reyna að breyta málnotkun hvað þetta varðar og nota hvorugkyn í stað karlkyns.

En þarna er litið fram hjá því að málnotkun felur í sér boðskipti, og þátttakendur í þeim eru bæði þau sem senda boðin – mælendur eða höfundar ritaðs texta, og viðtakendur boðanna – áheyrendur eða lesendur. Þótt sendendur ætli sér ekki að útiloka nein með málnotkun sinni kunna viðtakendur að upplifa útilokun. Þess vegna er ekki nóg að segja bara að karlkyn sé hlutlaust kyn í máli sendenda boðanna ef viðtakendurnir upplifa það sem útilokandi. Upplifun viðtakenda boðanna er alveg jafngild og ætlun sendendanna.

Þarna geta vissulega skapast árekstrar milli mismunandi viðhorfa, en meginatriðið er að fólk sýni ólíkum sjónarmiðum skilning og virðingu. Það er ekki líklegt til að leiða til frjórrar umræðu og gagnkvæms skilnings ef einungis er horft á málin frá öðru sjónarhorninu – annaðhvort sendenda eða viðtakenda. Það er engin ástæða til að gera þeim sem nota karlkynið í hlutlausri merkingu upp einhverja ætlun til útilokunar, en þau sem nota karlkynið þannig þurfa hins vegar að átta sig á – og virða – þá upplifun ýmissa að um útilokun sé að ræða.

Posted on Færðu inn athugasemd

Kynjahalli í vélþýðingum

Nýlega var mikið skrifað um ágæta grein sem Agnes Sólmundsdóttir, Dagbjört Guðmundsdóttir, Lilja Björk Stefánsdóttir og Anton Karl Ingason birtu í Ritinu í lok síðasta árs. Þar er sagt frá kynjahalla í þýðingum Google Translate, sem kemur fram á þann hátt að ensk lýsingarorð sem ekki beygjast í kynjum eru ýmist þýdd með karlkyns- eða kvenkynsformi á íslensku þegar ekki er hægt að ráða kynið af samhengi. Það virðist þó ekki vera tilviljanakennt hvort kynið er notað, heldur fer eftir því hvert lýsingarorðið er – sum lýsingarorð virðast vera karllæg en önnur kvenlæg. Þannig er t.d. I am clever þýtt sem Ég er snjall en I am stupid sem Ég er heimsk.

Það er auðvelt að lesa karlrembu og kvenfyrirlitningu úr þessu, en ástæðan fyrir þessu er sú að þýðingaforrit eins og Google Translate nota mállíkön sem byggjast á raunverulegum textum. Að baki þessum líkönum liggur gífurlegt textamagn og líkönin endurspegla málnotkun í þessum textum. Ef tiltekin lýsingarorð eru fremur notuð í kvenkyni í þýðingunum stafar það ekki af því að forritarar hjá Google séu karlrembur og hafi ákveðið að hafa það þannig, heldur af því að þannig eru textarnir sem mállíkönin grundvallast á. Í fljótu bragði gæti það virst eðlilegt – og raunar það eina rétta – að láta þýðingarnar endurspegla raunverulega málnotkun.

En þegar að er gáð er þetta kannski ekki æskilegt. Ef kynjahalli er í málinu, eins og mállíkönin virðast sýna, þá stuðlar notkun þeirra í þýðingum að því að viðhalda honum. Er það æskilegt? Kannski viljum við reyna að rétta þennan kynjahalla af með því að hræra eitthvað í mállíkönunum þannig að meira jafnvægi sé í þýðingunum og þær endurspegli ekki þann halla sem er í raunverulegum textum. En þá erum við komin út á hálan ís. Ef farið er að fikta í líkönunum á annað borð er þeirri hættu boðið heim að ýmsu öðru sé breytt í þeim, t.d. varðandi orðfæri og málnotkun um viðkvæma hópa o.fl. Einnig getur það leitt til þess að þýðingarnar hljómi ekki nógu eðlilega, vegna þess að þær stingi í stúf við venjulega málnotkun.

Þetta er sem sagt ekki einfalt mál og ég hef ekkert svar við því hvað eigi að gera í slíkum tilvikum. Hins vegar skiptir máli að við séum meðvituð um það að með síaukinni notkun gervigreindar verða tölvur sífellt virkari málnotendur, og að sama skapi fjölgar siðferðilegum álitamálum sem koma upp í sambandi við málnotkun þeirra. Það þýðir auðvitað ekki að við eigum að hætta að nota gervigreind í máltækni – hún skapar gífurlega möguleika sem gagnast okkur öllum á margvíslegan hátt. Það sem skiptir máli í þessu eins og í svo mörgu er gagnrýnin hugsun.

Posted on Færðu inn athugasemd

Illa ættuð orð

Það er alþekkt í íslenskri málfarsumræðu að orð séu látin gjalda uppruna síns. Orð sem falla vel að málinu eru iðulega úthrópuð á þeim forsendum að þau séu komin úr öðru tungumáli. Áður var það aðallega danska, en nú finnur fólk hliðstæður í ensku. Stundum er orðum reyndar gert rangt til að þessu leyti. Fyrir mörgum áratugum heyrði ég söguna um menntaskólakennarann sem hamaðist gegn orðinu handklæði og vildi ekki sjá það í ritgerðum nemenda, enda væri það augljóslega hrá danska – håndklæde. Það slumaði þó í honum þegar honum var bent á að orðið kæmi fyrir í Njálu – „Flosi hugði að handklæðinu og var það raufar einar og numið til annars endans“.

Íslenska og danska eru auðvitað náskyld mál, komin af sömu rót, og engin furða að fjöldi íslenskra orða eigi sér hliðstæðu í dönsku. Íslenska og enska eru líka skyld mál þótt fjarlægðin þar á milli sé talsvert meiri, og íslensk orð sem líkjast enskum orðum þurfa því ekki að vera komin úr ensku heldur geta þau átt sér óslitna sögu í báðum málunum, allt frá sameiginlegri formóður þeirra. Þannig er um jafnalgengt orð og salt sem er skrifað eins í báðum málum þótt framburður sé ekki alveg sá sami. Annað algengt orð sem er eins í báðum málum er egg en það er upphaflega tökuorð í ensku úr norrænu. Orð geta nefnilega líka farið í þá átt þótt það sé vissulega sjaldgæfara, en annað þekkt dæmi er geyser.

En svo eru auðvitað fjölmörg orð og orðasambönd komin úr ensku eða gerð að enskri fyrirmynd. Eitt þessara orða er snjóstormur. Það er lítill vafi á því að fyrirmyndin er enska orðið snowstorm – elstu dæmi um orðið eru úr íslensku blöðunum í Vesturheimi og í fyrsta dæminu er það m.a.s. snjóstorm, án endingar, í nefnifalli, en lagaði sig mjög fljótt að beygingakerfinu. Því er oft haldið fram að þetta orð sé „hrá enska“ en það er auðvitað fráleitt. Þetta er rétt myndað orð úr tveimur íslenskum orðstofnum, notað í íslensku máli, og getur þar af leiðandi ekki verið annað en íslenska. Svo getur fólk haldið því fram að orðið sé rangt notað og betra sé að nota önnur orð, en það er bara annað mál. Orðið er íslenskt eftir sem áður.

Annað dæmi er orðið byrðing sem farið er að nota um það sem heitir boarding á ensku – þegar farþegar ganga um borð í flugvél. Auðvitað er enginn vafi á því að þetta er myndað með hliðsjón af boarding. En er eitthvað að því? Það er talað um að ganga um borð, -ing er eðlilegt verknaðarviðskeyti í íslensku, og það veldur i-hljóðvarpi, borð- > byrð-, í stofninum sem það tengist. Orðhlutarnir eru íslenskir og orðmyndunin íslensk. Samt hef ég séð talað um þetta sem „hráa þýðingu“ eða „eftiröpun“ úr ensku. Í þessu tilviki er þó ekki um það að ræða að verið sé að ýta neinu íslensku orði til hliðar vegna þess að orð um þessa athöfn var ekki til áður svo að ég viti.

Við berjum okkur iðulega á brjóst yfir því „að orð er á Íslandi til um allt sem er hugsað á jörðu“. Það er samt ofmælt – okkur vantar stundum orð og þess vegna eigum við að taka vel á móti nýjum orðum sem falla að málinu en ekki útskúfa þeim vegna uppruna síns eða vegna þess að þau eigi sér erlendar fyrirmyndir. En jafnvel þótt fyrir séu í málinu orð sömu eða svipaðrar merkingar og nýju orðin getur erlend hliðstæða aldrei verið gild ástæða fyrir höfnun. Orð úr íslensku hráefni, mynduð samkvæmt íslenskum orðmyndunarreglum, eru og verða ekkert annað en íslenska.

Posted on Færðu inn athugasemd

Tökum nýjum orðum fagnandi

Iðulega heyrum við eða sjáum íslensk orð sem við könnumst ekki við. Þessi orð geta verið af ýmsum toga. Stundum er um að ræða orð sem hafa verið lengi í málinu en eru þó sjaldgæf, stundum eru orðin staðbundin eða einkum notuð í ákveðnum aldurs- eða þjóðfélagshópi, og stundum eru þau ný í málinu. Ástæður fyrir nýmyndun orða geta líka verið ýmsar. Stundum vantar hreinlega orð yfir tiltekin fyrirbæri eða athafnir, stundum þekkir fólk ekki þau orð sem eru til og býr þess vegna til ný, og stundum þykir fólki þau orð sem eru til vera óheppileg eða óviðeigandi af einhverjum ástæðum og nauðsynlegt að koma með orð í þeirra stað.

En orðum sem fólk þekkir ekki er oft illa tekið – sögð óþörf, ljót, klúðursleg, jafnvel orðskrípi. Ef orð sömu merkingar eru fyrir í málinu amast fólk oft við orðum sem það telur ný vegna ótta um að þau útrými þeim gömlu. Það er þó yfirleitt ástæðulaus ótti. Það þarf mikið til að útrýma úr málinu orði sem á sér langa hefð og fólk þekkir. Það er t.d. ekkert útlit fyrir að snjóstormur sé að útrýma orðum eins og bylur, hríð o.s.frv., eins og oft er haldið fram, eða vera á tánum/tásunum/táslunum sé að útrýma orðinu berfættur.

Fólk talar oft um að tiltekin orð séu óþörf af því að orð sömu merkingar séu fyrir í málinu. En þótt svo kunni að vera er ekki þar með sagt að alltaf sé hægt að skipta gamla orðinu út fyrir það nýja. Þótt orðin hafi strangt tekið sömu merkingu geta þau tilheyrt mismunandi málsniði – annað t.d. verið formlegra en hitt. Gott dæmi eru orðin bíll og bifreið. Þau merkja vissulega það sama, en því fer fjarri að alltaf sé hægt að setja annað í stað hins. Svipað mætti segja um hestur og fákur, vegabréf og passi, og ótal önnur dæmi mætti taka.

En í þessari umræðu kemur fram undarlegur tvískinnungur, því að þótt iðulega sé amast við orðum sem fólk kannast ekki við og þau sögð óþörf er orðauðgi íslenskunnar líka vegsömuð og það talið henni til gildis að hafa t.d. fjölmörg orð yfir snjó. Mörg þessara orða merkja nokkurn veginn það sama, en þau gefa kost á ýmsum blæbrigðum sem okkur þykir æskileg. Það tekur vissulega alltaf tíma að venjast nýjum orðum en það er yfirleitt engin ástæða til að amast við þeim og reyna að hrekja þau úr málinu. Oftast auðga þau málið ef þau komast í notkun.

Posted on Færðu inn athugasemd

Stjórnsýslufúsk

Lina Hallberg, sem nýlega lauk BA-prófi í íslensku sem öðru máli og skrifaði mjög fróðlega BA-ritgerð um íslensku sem annað mál, hefur verið að leita upplýsinga um áform stjórnvalda í kennslu íslensku sem annars máls. Hún sendi fyrirspurn til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins og vitnaði í framhaldsnámskrá frá 2010 sem lítið virðist hafa verið gert með og spurði m.a.: „Getið þið bent mér á skóla sem býður upp á námskeið samkvæmt framhaldsnámskránni eða sagt mér hvort það sé á dagskrá hjá ykkur að bæta stöðu kennslu ÍSAT nemenda?“

Svarið sem hún fékk var stutt og laggott, afrit af pósti ráðuneytisins til mennta- og barnamálaráðuneytisins: „Félagsmálaráðuneytið framsendir hér með meðfylgjandi erindi til afgreiðslu hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu.“ Samt hafði Lina fengið þær upplýsingar frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, bæði í símtali og tölvupósti, að kennsla íslensku sem annars máls heyrði undir það ráðuneyti, að undanskilinni kennslu íslensku sem annars máls í framhaldsskólum sem heyrir undir mennta- og barnamálaráðuneytið. En það á ekki við í þessu tilviki.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið virðist því þvo hendur sínar af ábyrgð á kennslu íslensku sem annars máls, þrátt fyrir að hafa staðfest að það verkefni sé á könnu ráðuneytisins. Þetta er auðvitað forkastanlegt, en því miður dæmigert fyrir íslenska stjórnsýslu. Það er alltof algengt að hver vísi á annan og enginn telji sig eiga að svara fyrirspurnum, hvað þá leysa mál. En þetta er sérstaklega dapurlegt í ljósi margítrekaðra yfirlýsinga stjórnvalda um gildi íslenskunnar og mikilvægi þess að auðvelda fólki sem hingað kemur að læra málið.

Niðurstaða Linu Hallberg í áðurnefndri BA-ritgerð var: „Það má með sanni segja að íslenska ríkið hafi hingað til því miður ekki staðið sig vel á þessu sviði og sýni mikið áhugaleysi í innflytjendamálum.“ Þetta dæmi sýnir vandann í hnotskurn – enginn telur sig bera ábyrgð. Við hljótum að geta gert betur.

Posted on Færðu inn athugasemd

Málfar ökuprófa

Í athyglisverðri umfjöllun í Stundinni heldur reyndur ökukennari því fram að málfar ökuprófa „villi um fyrir venjulegu fólki. Texti sé uppskrúfaður og úr takti við almenna málnotkun“. Hann segir: „Ég kom einhvern tíma að máli við þá sem stjórnuðu ökunámsdeildinni hjá Samgöngustofu og benti á þetta. Ég stakk upp á að það yrði fenginn rýnihópur fólks á prófaldri til að lesa yfir prófin og gera athugasemdir. Hvað heldurðu að þeir geri, þessi gáfnaljós? Þeir vísuðu málinu til Íslenskrar málstöðvar og að sjálfsögðu fengu þeir út að það var alveg hundrað prósent rétt íslenska.“

En texti getur verið mjög torskilinn venjulegu fólki þótt hann sé „hundrað prósent rétt íslenska“, og þetta minnti mig á bréf sem ég sendi Samgöngustofu fyrir þremur árum:

„Ég heyrði í gær viðtal við starfsmann Samgöngustofu þar sem kom fram að fallprósenta á skriflegu ökuprófi hefði farið hækkandi á síðustu árum, þótt ekkert benti til að prófin hefðu þyngst. Þetta rifjaði upp fyrir mér að fleiri en einn hafa nefnt það við mig nýlega að málfarið á spurningum í skriflega prófinu sé mjög fjarri daglegu máli og valdi oft vandkvæðum fyrir þá sem ekki eru þeim mun sterkari í íslensku. Athugasemdir við færslu mína um þetta efni á Facebook sýna að ég er ekki einn um þá skoðun að málfar spurninga á ökuprófi sé óeðlilega tyrfið og spurningarnar ekki til þess fallnar að draga fram raunverulega kunnáttu próftaka í námsefninu.

Nú hefur verið mikil umræða um að lesskilningi unglinga fari hrakandi. Spurningin er hvort hækkuð fallprósenta á að einhverju leyti rætur að rekja til versnandi lesskilnings. Það er vitaskuld áhyggjuefni ef lesskilningi fer hrakandi en það ætti ekki að leiða til þess að fleiri falli á ökuprófi. Það hlýtur að vera meginatriði að fá fram raunverulega kunnáttu fólks. Sú kunnátta fæst örugglega frekar fram með spurningum sem eru á einföldu og auðskiljanlegu máli en með torskildum spurningum sem próftakar læra svörin við utanbókar – án þess að skilja endilega hvað í þeim felst.

Faðir sem hafði verið að aðstoða seinfæra dóttur sína við undirbúning ökuprófsins talaði sérstaklega um það við mig hvernig orðalag spurninga hefði þvælst fyrir dóttur hans og valdið því að hún fékk rangt fyrir spurningar um atriði sem hún kunni í raun og veru. Flóknar eða þvælnar spurningar með tvíræðu orðalagi vefjast óhjákvæmilega meira fyrir fólki sem á undir högg að sækja af ýmsum ástæðum – er t.d. seinfært eða lesblint - án þess að slakari frammistaða þessa fólks á skriflegu ökuprófi þurfi að segja nokkuð um ökuhæfni þess og raunverulega kunnáttu í námsefninu.

Þar að auki er hætt við að spurningar af þessu tagi vefjist sérstaklega fyrir fólki sem ekki hefur íslensku að móðurmáli. Innflytjendum hefur fjölgað mjög mikið á undanförnum árum og trúlegt er að þeim innflytjendum sem þreyta ökupróf hafi einnig fjölgað verulega. Mikilvægt er að kanna hvort hærra hlutfall innflytjenda eigi þátt í hærri fallprósentu á ökuprófi, eða hvort fallprósenta í hópi innflytjenda sé hærri en hjá þeim sem eiga íslensku að móðurmáli. Sé svo bendir það til þess að ökuprófin mismuni innflytjendum á ómálefnalegan hátt og það er vitaskuld alvarlegt.“

Á sínum tíma fékk ég málefnalegt svar frá Samgöngustofu þar sem sagði m.a.:

„Þeir próftakar sem eiga í erfiðleikum með lestur s.s. eru lesblindir eða illa læsir hafa kost á að taka sérpróf þar sem reynt er að koma til móts við vandann með ítarlegri skýringum, aðstoð við að skilning eða upplestri. Við þurfum að þjónusta mikinn meirihluta þjóðarinnar með mismikinn lesskilning. Við erum með próf á erlendum málum fyrir þá nýbúa sem ráða ekki eða illa við íslenska textann. Við höfum próf á ensku, taílensku, pólsku, spænsku og norðurlandamálunum. Á öðrum málum er notast við túlka.“

„Fræðileg próf verða að vera réttmæt og áreiðanleg eins og gildir um öll próf og því reynum við að fremsta megni að hafa framsetningu og orðalag á þessum prófum sem næst eðlilegu málfari. Mikil vinna er lögð í samningu nýrra prófatriða og koma þar að m.a. fulltrúar ökukennara og eftir forprófun og villugreiningu eru þær settar í notkun. Einnig höfum við sent prófspurningar til málfarsgreiningar í Háskóla Íslands þar sem áhersla var lögð á að meta málfar og skýrleika spurninga. Meira en 10 ár eru síðan það var gert og ef til vill kominn tími á að setja þau í slíka greiningu aftur.“

Það er gott og blessað ef fólk getur fengið að taka próf á móðurmáli sínu. En það hefur ekki mikið upp á sig ef námskrár og námsefni er eingöngu til á íslensku eins og fram kemur hjá ökukennaranum. Þarna sé ég ekki betur en verið sé að mismuna fólki gróflega. Ég endurtek það sem ég sagði í bréfi mínu til Samgöngustofu:

„Sem málfræðingi finnst mér mjög slæmt ef tungumálið er notað til þess – þótt óviljandi sé – að mismuna fólki á einhvern hátt. Það er ekki til þess fallið að skapa jákvætt viðhorf til málsins, en ýmsar rannsóknir sýna að jákvætt viðhorf málnotenda, sérstaklega ungs fólks, til tungumálsins er eitt af því sem skiptir mestu máli fyrir framtíð málsins. Þess vegna hvet ég Samgöngustofu til að kanna hvort ástæða sé til að endurskoða framsetningu og orðalag spurninga í skriflegu ökuprófi og færa nær daglegu máli, þannig að kunnátta í námsefninu fremur en íslenskukunnátta ráði frammistöðu próftaka.“

Posted on Færðu inn athugasemd

„Butter & salt bragð“

Nói Síríus auglýsir nú í ákafa nýja vöru, Bíó Kropp, sem sagt er „með geggjuðu butter & salt bragði“. Ég þykist vita að stjórnendum fyrirtækisins sé kunnugt um að butter heitir smjör á íslensku. Ef þeim finnst eitthvað óheppilegt eða ólystugt að tala um smjörbragð ætti kannski frekar að huga að því að breyta vörunni en láta íslenskuna víkja. Orðið salt er vissulega skrifað eins á íslensku og ensku en í sjónvarpsauglýsingum er það borið fram sem enskt orð, ekki íslenskt.

Mér er hulin ráðgáta hvers vegna þarna er notuð enska en ekki íslenska. Eina gilda ástæðan væri sú að þetta væri framleitt til útflutnings eða einkum ætlað að höfða til ferðafólks. Það er þó ótrúverð skýring í ljósi þess að íslenska orðið BÍÓ er hluti af heiti vörunnar. Allt bendir því til þess að enska sé þarna notuð vegna þess að stjórnendum fyrirtækisins þyki það smart og söluvænlegt og líklegt til að höfða betur til neytenda.

Það er fyrirtækinu ekki til sóma að nota ensku í heiti á framleiðsluvörum sínum fullkomlega að ástæðulausu. Það gefur til kynna að íslenska þyki ekki nothæf þegar þarf að vekja athygli, t.d. setja nýja vöru á markað. Þetta grefur meira undan íslenskunni en við áttum okkur á í fljótu bragði vegna þess að það hefur áhrif á viðhorf almennings til málsins. Eftir að athygli var vakin á þessari auglýsingu sendi fyrirtækið frá sér yfirlýsingu. Það er þakkarvert. En í yfirlýsingunni kemur meginatriði málsins einmitt fram:

„Þegar þessi hug­mynd að Nóa kroppi kom upp, þá var horft meira til þess að tengja vör­una við þá stemmn­ingu sem hún á að skapa, sem er bíó, popp og auðvitað bragðið á vör­unni.“

Einmitt. Það er verið að búa til huggulega stemmningu og þá er notuð enska. Mér dettur ekki í hug að á bak við það sé einhver andúð á íslenskunni. Þetta er bara lýsandi fyrir þau ómeðvituðu viðhorf gagnvart íslensku og ensku sem eru alltof rík í okkur. Þessu þarf að breyta. En þetta mál sýnir að það skiptir máli að gera athugasemdir þegar okkur finnst íslenskan fara halloka fyrir ensku.

Posted on Færðu inn athugasemd

Óþol fyrir umburðarlyndi

Ég sé að Bakþankar Fréttablaðsins í dag fjalla að verulegu leyti um mig þótt ég sé ekki nefndur á nafn:

„Á dögunum þegar ég var á leið til vinnu var kynntur til sögunnar á RÚV íslenskufræðingur til að ræða um nýútkomna bók sína. Ég flýtti mér að skipta yfir á umfjöllun um heimaslátrun á annarri stöð í óþolinmæðiskasti.

Í starfi mínu hitti ég mikið af fólki sem er vart mælandi lengur á íslensku. Ensk orð og orðatiltæki eru því tamari en móðurmálið. Margir harma þetta en þessi íslenskufræðingur segir að um eðlilega þróun tungumálsins sé að ræða. Hin fræga þágufallssýki hljómar sem hunang í hans eyrum og ber vitni um aðlögunarhæfni málsins.

Það er til merkis um hækkandi aldur og geðvonsku að mér leiðist undanhald íslenskunnar. RÚV hefur algjörlega gefist upp gagnvart enskuslettum og beygingarvillum. Mér finnst það skrítið að íslenskufræðingur skuli reka flóttann og segja málvillur vera ásættanlega og eðlilega þróun.“

Það er athyglisvert að höfundur Bakþanka skipti yfir á aðra stöð um leið og farið var að tala um bók mína. Hann hafði sem sé engan áhuga á að hlusta á þau rök sem ég hafði fram að færa og gerir mér þess vegna upp skoðanir – og er svo sem ekki einn um það. Ég hef aldrei mælt því bót að nota ensk orð og orðatiltæki í íslensku – þvert á móti hef ég iðulega gert athugasemdir við enskunotkun, bæði á þessum vettvangi og annars staðar (m.a. í bókinni sem bakþankahöfundur vildi ekki heyra kynnta).

Vissulega má ýmislegt betur fara í umgengni fólks við tungumálið. Þannig hefur það alltaf verið. En sífellt tal um „undanhald“ íslenskunnar er ekki til annars fallið en skapa neikvætt viðhorf til málsins, sérstaklega meðal unglinga sem oftast eru skotmarkið í þessari umræðu. Haldið þið að það sé upplífgandi fyrir unglinga að sjá sífellt og heyra talað um að þau kunni ekki íslensku, mál þeirra sé uppfullt af enskuslettum og beygingarvillum, orðfærið fátæklegt o.s.frv.? Er þetta líklegt til að efla áhuga þeirra á málinu og fá þau til að þykja vænt um íslenskuna?

Bakþankahöfundur nefnir „hækkandi aldur og geðvonsku“ sem ástæðu fyrir óþoli sínu fyrir „undanhaldi“ íslenskunnar. En það er ekkert náttúrulögmál að óþol og skortur á umburðarlyndi fylgi hækkandi aldri. Við gamlingjarnir erum ekki eilíf og það er unga fólkið sem tekur við keflinu af okkur. Reynum að skilja það og málfar þess, hvetjum það til að nota málið sem mest – á þann hátt sem því er eðlilegt. Íslenska þess er kannski ekki eins og okkar íslenska, en hún er ekki heldur eins og íslenskan sem foreldrar okkar, afar og ömmur töluðu. Það er bara allt í lagi. Það er samt íslenska.