Posted on Færðu inn athugasemd

Kynþáttamörkun

Hugtakið racial profiling er nýkomið inn í umræðuna hér á landi. Með því er átt við það þegar kynþáttur og/eða húðlitur er notaður til þess að skilgreina einstaklinga eða hópa fólks og mis­munun gagnvart þeim réttlætt á þeim forsendum. Slík flokkun fólks byggist oft á ómeðvitaðri hlutdrægni. Í löggæslu birtist þetta með þeim hætti að einstaklingur eða hópur fólks er grunaður um saknæmt athæfi vegna kynþáttar og/eða húðlitar frekar en sönnunargagna. Ýmsar þýðingar hafa komið fram á racial profiling, t.d. kynþáttamiðuð löggæsla, kynþátta­miðuð greining, kyn­þátta­blóri og sjálfsagt fleiri. Við teljum ekkert þessara orða heppilegt en mikilvægt að hafa gott íslenskt orð um þetta hugtak.

Enska orðið profiling merkir „the recording and analysis of a person's psychological and be­havi­oural characteristics, so as to assess or predict their capabilities in a certain sphere or to assist in identifying categories of people“ þ.e. „skráning og greining á sálrænum eiginleikum og hegðunarmynstri einstaklinga, í þeim tilgangi að meta eða spá fyrir um færni þeirra á til­teknu sviði eða hjálpa til við flokkun fólks“. Orðið er notað í ýmsum samböndum – ekki bara racial profiling heldur líka criminal profiling, gender profiling, age profiling o.fl. Þess vegna væri æskilegt að eiga íslenska samsvörun sem hægt væri að nota, með mismunandi forliðum, í öllum þessum samböndum.

Við leggjum til að orðið mörkun verði tekið upp sem þýðing á profiling. Sögnin marka merkir m.a. ‘merkja, auðkenna’, og með því að marka fólk eru því gefin eða ætluð ákveðin auðkenni og skipað í ákveðinn flokk. Verknaðarnafnorðið mörkun er svo myndað af marka. Við teljum að það nái merkingunni í profiling vel – það er verið að marka (e. profile) tiltekna einstaklinga eða hópa, skilgreina eiginleika og hegðun þeirra, gefa þeim tiltekið mark (e. profile). Hugtakið racial profiling má því þýða sem kynþáttamörkun. Á sama hátt má þýða criminal profiling sem afbrotamörkun, gender profiling sem kynjamörkun, age profiling sem aldursmörkun o.s. frv. Til að átta sig á hvernig orðið væri notað má vitna í nýlegar fréttir.

Í frétt á mbl.is 17. maí segir: „„Þetta er engu að síður mikið áfall fyr­ir dreng­inn,“ sagði Sig­ríður og bætti við að ekki hafi verið um kynþáttamiðaða lög­gæslu að ræða.“ Í Fréttablaðinu sama dag segir: „Arn­dís Anna spurði um kyn­þátta­miðaða lög­gæslu [e. Ra­cial profiling] innan bæði lög­­reglunnar og sér­sveitar.“ Í Kjarnanum sama dag segir: „Segir ekki um kynþáttamiðaða lög­gæslu að ræða.“ Auðvelt væri að skipta hér kynþáttamiðaða löggæslu út fyrir kynþáttamörk­un: „„Þetta er engu að síður mikið áfall fyr­ir dreng­inn,“ sagði Sig­ríður og bætti við að ekki hafi verið um kynþáttamörkun að ræða.“ „Arn­dís Anna spurði um kynþáttamörkun [e. Ra­cial profil­ing] innan bæði lög­reglunnar og sér­sveitar.“ „Segir ekki um kynþáttamörkun að ræða.“

Þótt umræða um racial profiling sé ný hér á landi má búast við að hún skjóti oftar upp kollinum á næstunni og eigi eftir að verða meira áberandi. Þess vegna teljum við mikilvægt að lipurt og lýsandi íslenskt orð um þetta hugtak komi fram sem fyrst og festist í sessi. Við teljum að orðið kynþáttamörkun henti vel í þessu skyni og hvetjum þau sem fjalla um þetta efni á opinberum vettvangi til að nota það orð – með enska hugtakið innan sviga í fyrstu ef þörf þykir. Vitanlega kann þetta orð að hljóma framandlega í fyrstu eins og ný orð gera venjulega, en komist það í einhverja notkun mun það án efa venjast fljótt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Íslensk málnefnd

Íslensk málnefnd var stofnuð árið 1964. Hlutverk hennar er samkvæmt lögum „að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli og gera tillögur til ráðherra um málstefnu, auk þess að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu“. Nefndina skipuðu upphaflega þrír og síðar fimm menn, allt háskólakennarar í íslensku eða akademískir starfsmenn rannsóknastofnana. Árið 1989 var nefndin stækkuð að mun í þeim tilgangi að fá inn fleiri sjónarmið, og í hana bætt fulltrúum ýmissa hagsmunaaðila. Vegna stærðar nefndarinnar þótti þá nauðsynlegt að hún kysi sér sérstaka fimm manna stjórn. Þetta skipulag stendur enn, þótt smávægilegar breytingar hafi verið gerðar á fjölda nefndarmanna og tilnefningaraðilum.

Í fullskipaðri málnefnd sitja nú 16 manns. Tíu þeirra eru fulltrúar félaga og stofnana sem vinna með íslenskt mál á einn eða annan hátt. Þetta eru Ríkisútvarpið, Þjóðleikhúsið, Samtök móðurmálskennara, Rit­höf­unda­samband Íslands, Blaðamannafélag Íslands, Íðorðafélagið (fyrir hönd orðanefnda), Banda­lag þýðenda og túlka, Staðlaráð Íslands, Upplýsing (félag bókasafns- og upplýsingafræðinga) og Hagþenkir. Að auki er fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfé­laga og fulltrúi skipaður úr hópi innflytjenda, tveir fulltrúar samstarfsnefndar háskólastigsins, og svo formaður og varaformaður skipaðir af ráðherra. 14 af 16 nefndarmönnum nú eru með einhverja háskólamenntun í íslensku.

Þetta skipulag endurspeglar úrelt viðhorf til tungumálsins og hverjum það komi við. Það má segja að næstum allir nefndarmenn séu fulltrúar „framleiðenda“ (eða „eigenda“) tungumálsins, fólks sem hefur atvinnu af því að vinna með íslenskt mál, en fulltrúa „neytenda“ málsins, almennra málnotenda, vanti nær algerlega í nefndina. Því verður að breyta. Það mætti hugsa sér að í henni væru t.d. fulltrúar samtaka atvinnurekenda og launafólks, Ör­yrkja­bandalagsins, Samtakanna ´78, Kvenréttindafélagsins, Íþróttasambands Íslands, Heimilis og skóla, Lands­sam­taka íslenskra stúdenta, Sambands íslenskra framhaldsskólanema og Samtaka Pól­verja á Ís­landi. Þar með væru komnir jafnmargir fulltrúar „neytenda“ og „framleiðenda“ í nefndina.

Nefndin væri þá orðin 25 manna. Slík nefnd er vitaskuld of stór til að hægt sé að gera ráð fyrir að hún fundi oft eða fundir hennar verði skil­virkir. Hins vegar byði þessi skipan upp á að nefndinni yrði skipt í undirnefndir þar sem fjöl­breytt sjónarmið fengju að njóta sín í hverri nefnd. Þetta gætu t.d. verið fimm nefndir sem hver væri skipuð fimm manns og fjölluðu um mismunandi viðfangsefni. Ein nefndin gæti fjallað um stöðu íslenskunnar og íslenskan málstaðal, önnur um skólamál og málefni ungs fólks, sú þriðja um málefni fjölmiðla og atvinnulífs, sú fjórða um mál og mannréttindi með sérstöku tilliti til viðkvæmra hópa eins og samkynhneigðra og fatlaðs fólks, og sú fimmta um íslensku sem annað mál og málefni innflytjenda.

Formenn nefndanna fimm gætu síðan myndað stjórn Íslenskrar málnefndar. Til greina kæmi að endurraða í undirnefndirnar á hverju ári eða annað hvert ár og mikil­vægt væri að raða í nefndirnar eftir þekkingu eða áhuga á viðfangsefni þeirra, en jafn­framt þyrfti að gæta þess að mismunandi sjónarmið fengju að njóta sín í öllum nefndum. Ég er sannfærður um að þessi nefndarskipun gæti höfðað betur til almennra málnotenda en sú sem nú er, að núverandi nefndarfólki ólöstuðu. Málnefndin á sextugsafmæli eftir tvö ár, 2024 – það væri góð afmælisgjöf til hennar og íslenskra málnotenda að ný lög um nefndina tækju gildi á afmælisárinu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Alla leið – yfir í ensku

Undanfarin laugardagskvöld hef ég horft á þættina „Alla leið“ í Ríkssjónvarpinu. Þetta hafa yfirleitt verið fjörugir og skemmtilegir þættir, en á þeim er einn stór galli: Það er slett óheyrilega mikilli ensku í þeim. Þar eiga bæði stjórnandi og gestir hlut að máli. Vitanlega væri fráleitt að gera kröfu um formlegt mál í léttum skemmtiþætti eins og þessum og ég geri ekki athugasemdir við ensk orð sem hafa verið notuð lengi og eru meira og minna komin inn í málið – orð eins og fíla og fílingur, agressífur, læf o.s.frv.

En öðru máli gegnir þegar heilu frasarnir eru teknir beint úr ensku án þess að nokkur nauðsyn sé á því. Í þættinum í gær var einu lagi t.d. lýst með því að það væri middle of the road, annað var painted by numbers, og það þriðja potential winner – og ýmis hliðstæð dæmi mætti nefna úr fyrri þáttum. Það er ekki nokkur vandi að orða allar þessar lýsingar á íslensku. Ég heyrði meira að segja ekki betur en orðið singer væri notað nokkrum sinnum í stað söngvari – vona að mér hafi misheyrst. Ég tek hér upp bút úr bók minni Alls konar íslenska – texta sem reyndar var upphaflega skrifaður í tilefni af söngvakeppni Sjónvarpsins fyrir nokkrum árum.

„Í þáttum um sérhæfð efni sem hafa afmarkaðan markhóp er kannski ekkert óeðlilegt að sletta stundum og nota erlend orð sem búast má við að áheyrendur þekki, enda er þá oft um að ræða orð sem ekki eiga sér íslenskar samsvaranir. En öðru máli gegnir um dagskrárliði þar sem vitað er að áhorfendur eru mjög margir, á öllum aldri og úr öllum þjóðfélagshópum – ekki síst ýmsa afþreyingar- og skemmtiþætti. Þar er í raun engin afsökun fyrir að nota slettur sem þar að auki eru iðulega alveg óþarfar. Vegna stöðu sinnar og hlutverks ber Ríkisútvarpið vitaskuld alveg sérstaka ábyrgð í þessu sambandi.

Notkun á slettum við slíkar aðstæður er óvirðing við íslenskuna – en líka við hlustendur. Það skilja nefnilega ekki allir Íslendingar ensku þótt svo sé oft látið í veðri vaka. Með því að sletta ensku ótæpilega í þáttum sem eru ætlaðir allri þjóðinni er stuðlað að málfarslegri stéttaskiptingu. Skiptingu í fólk sem er „hipp og kúl“ svo að notuð sé enskusletta, unga fólkið sem skilur enskusletturnar og hlær á réttum stöðum og svo öll hin – eldra fólk og aðra hópa sem af ýmsum ástæðum hafa ekki tileinkað sér tískuslettur samtímans. Við eigum á hættu að þetta fólk fyllist minnimáttarkennd eða skömm yfir því að skilja ekki flotta fólkið.“

Mér finnst þetta sem sagt ekki boðlegt. Við eigum kröfu á því að það sé töluð íslenska í sjónvarpi okkar allra.

Posted on Færðu inn athugasemd

Tungumál og vald

Af ýmsum ástæðum hef ég undanfarið verið dálítið upptekinn af því að velta fyrir mér tungumálinu sem valdatæki. Á þetta er sjaldan minnst í íslenskri málfarsumræðu en ef umræða undanfarinna áratuga er skoðuð er samt augljóst hvernig tungumálið hefur verið notað til að halda fólki niðri og gera lítið úr því – fólki sem átti undir högg að sækja í þjóðfélaginu. Ég hef enga ástæðu til að ætla að þetta hafi alltaf verið meðvitað. Þvert á móti – ég held að á bak við umvandanir og leiðréttingar liggi oftast einlægur áhugi á því að vernda og varðveita íslenskuna. En þetta hefur samt alltaf þau áhrif að spilla möguleikum þeirra sem standa höllum fæti til að nota tungumálið til að berjast fyrir bættri stöðu sinni.

Fyrir nokkrum árum kynnti ég mér svolítið það sem heitir forensic linguistics á ensku og hefur verið þýtt sem réttarmálvísindi – fræðin um notkun tungumálsins í sakamálum og fyrir dómstólum. Það er mjög áhugavert svið sem ekki hefur verið áberandi hér á landi en ætti sannarlega skilið meiri athygli. Í einni bók sem ég las um þetta efni var meðal annars fjallað um aðstöðumun almennra málnotenda og þjálfaðra lögmanna fyrir dómi. Lögmennirnir eru þjálfaðir í að beita tungumálinu á ákveðinn hátt og það gefur þeim málfarslega yfirburðastöðu í samskiptum við fólk sem hefur ekki þessa þjálfun. Auðvitað er í raun óhjákvæmilegt að fólk sem hefur menntun og reynslu á ákveðnu sviði standi betur að vígi á því sviði en allur almenningur.

En þetta rifjaði upp fyrir mér að einu sinni las ég uppskrift af yfirheyrslum þar sem lögmaður var að yfirheyra vitni í dómsmáli. Vitnið var af alþýðustétt, hafði ekki mikla formlega menntun eða æfingu í að lesa og skrifa formlegt mál. Lögmaðurinn var mjög fær og hafði áratuga reynslu á sínu sviði. Það var augljóst hvernig hann vafði vitninu um fingur sér og gat nánast fengið það fram sem hann vildi með mælskubrögðum og flókinni málbeitingu. Ég gat ekki betur séð en vitnið hefði staðfest eitt og annað sem það ætlaði sér örugglega ekki að staðfesta, einfaldlega vegna þess að lögmaðurinn hagaði orðum sínum á ákveðinn veg þannig að vitnið áttaði sig ekki á því hvað hann var að fara og gekk þannig í gildru. Málfarsgildru.

Það má auðvitað segja að lögmaðurinn hafi bara verið að vinna vinnuna sína, í þágu þess sem hann var fulltrúi fyrir – gera það sem hann var góður í. En það ætti samt að gera þá siðferðiskröfu til fólks sem hefur gott vald á málinu að það misnoti þetta vald ekki gagnvart þeim sem minna mega sín.

Posted on Færðu inn athugasemd

Skítamix og skítaredding

Um daginn var ég spurður hvort ég kynni ráð til að leysa ákveðið atriði í umbroti skjals í Word. Ég sagðist halda að kerfið byði ekki upp á neina leið til að leysa málið, en það væri hins vegar alltaf til einhver skítaredding. Í framhaldi af því fór ég að hugsa um þetta orð sem ég þekki vel og nota stundum. Það merkir eitthvað í átt við 'lausn sem ekki lýtur viðurkenndum reglum eða vinnubrögðum en gripið er til, oft til bráðabirgða, vegna þess að ekki er völ á öðru við tilteknar aðstæður'. Skylt þessu er orðið skítamix sem kemur fyrir í frásögn Fréttablaðsins 2010 af tilurð drykkjarins Mix:

„Það ku hafa verið bakarinn Björgvin Júníusson sem bjó þennan drykk til fyrstur manna með aðstoð vinnufélaga sinna. Fyrir ein jólin átti að vanda að leggja í appelsínugosdrykkinn Valash, en sá drykkur var að uppistöðu appelsínuþykkni en lítill hluti var úr ananasþykkni. Fyrir mistök barst efnagerðinni hráefni í drykkinn í öfugum hlutföllum, mest af ananasþykkni en lítið af appelsínuþykkni. Björgvin náði að blanda drykkjarhæfan mjöð úr þykkninu og kallaði til vinnufélaga sína til að smakka „skítamixið“ eins og hann kallaði útkomuna. Mönnum féll drykkurinn ágætlega en töldu ófært að kalla hann Skítamix svo niðurstaðan var einfaldlega Mix.“

Á ensku er talað um shit mix sem er eins konar ógeðsdrykkur búinn til með því að blanda saman ýmsum víntegundum. Ekki er ótrúlegt að upphafsmaður drykkjarins Mix hafi haft þetta í huga, en í íslensku hefur merking orðsins orðið miklu víðari. Það getur merkt svipað og skítaredding, en þó er skítamix líklega frekar notað um einhverjar áþreifanlegar lausnir (smíði, viðgerð, blöndun efna o.þ.h.). En skítamix er líka notað um t.d. eitthvert vafasamt athæfi sem er á mörkum hins löglega – eitthvað sem skítalykt er af. Af þessu hefur líka verið mynduð sögnin skítamixa.

Bæði skítamix og skítaredding eru óformleg orð eins og ýmis önnur með þennan fyrripart – koma sjaldan fyrir á prenti og finnast ekki í neinum orðabókum (skítamix er þó í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls). Alls eru 58 dæmi um skítamix og skítamixa á tímarit.is, það elsta frá 1995, og 87 dæmi í Risamálheildinni, það elsta frá 2010. Um skítaredding eru 25 dæmi um það á tímarit.is, það elsta frá 2005, og 69 í Risamálheildinni, það elsta frá 2004. Þetta eru því ekki gömul orð í málinu, a.m.k. ekki í ritmáli, en í ljósi þess hversu óformlegt þau eru kemur nokkuð á óvart að fleiri dæmi eru um þau úr umræðum á Alþingi en úr nokkurri annarri heimild.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að skipta um skoðun

Ég var í Kiljunni í kvöld sem var gaman, en það var eitt sem ég fór að hugsa um eftir á. Egill byrjaði á að segja að það væri eiginlega merkilegt að lesa að ég hefði einhvern tíma verið málhreinsunarmaður, svona miðað við afstöðu mína nú. Svipað kom upp á þegar ég var í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1 á föstudaginn var, þar sem verið var að ræða málþing um kynhlutlaust mál. Þar nefndi ég – reyndar ekki í viðtalinu sjálfu, heldur í samtali við þáttastjórnendur eftir á – að ég hefði algerlega skipt um skoðun í þeim efnum, og það þótti stjórnendunum merkilegt.

Það sem mér fannst hins vegar merkilegt var að það skyldi þykja merkilegt að ég hefði skipt um skoðun. Hvað er svona merkilegt við það? Mér finnst það fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt og geri það iðulega, ef ég sannfærist um að fyrri skoðun mín sé röng eða hafi byggst á misskilningi eða léttvægum rökum. En það er oft eins og það þyki ekki gott að skipta um skoðun – það sé túlkað sem vingulsháttur og reiðarek. Þetta rímar auðvitað við það að það þykir ekki eðlilegt á Íslandi að viðurkenna mistök eða að maður hafi ekki sagt satt. Það er veikleikamerki.

Einn megintilgangur minn með bókinni er einmitt sá að reyna að efla gagnrýna hugsun um íslenskuna. Við erum vön að láta segja okkur hvað sé rétt og hvað sé rangt án þess að fyrir því séu færð mikil rök – þetta bara er svona. Það er ekki til þess fallið að ýta undir áhuga á tungumálinu, heldur elur á misskilningi um málið og eðli þess. Við viljum ekki að nemendur læri námsefnið eins og páfagaukar, heldur skoði það með gagnrýnum huga og leitist við að skilja það. Nema þegar kemur að íslenskunni – þá er ýmislegt sem er „af því bara“. Þannig á það ekki að vera.

Málnotendur eiga rétt á að fá skýringu á því sem verið er að boða, og taka sjálfstæða afstöðu til þess. Kannski verða skýringarnar til þess að einhverjir þeirra skipti um skoðun, en það er ekki meginatriðið, heldur það hvort tekst að fá fólk til að hugsa um málið.

Posted on Færðu inn athugasemd

Merkir einhver sama og someone?

Nýlega sá ég í þýddri grein á vefmiðli setninguna „Mamma, pabbi, ég er í sambandi með einhverjum“. Mér fannst þetta dálítið sérkennilegt og óíslenskulegt en grunaði hvað lægi að baki og sá grunur staðfestist þegar ég skoðaði enska frumtextann – þar stóð „I’ve been seeing someone.“ Vissulega samsvarar enska orðið someone mjög oft íslenska orðinu einhver sem merkir 'ótilgreind persóna' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók, og þessi orð eru þýdd hvort með öðru í orðabókum milli íslensku og ensku. En skýringin 'ótilgreind persóna' er samt ófullnægjandi. Einhver er nefnilega ekki bara ótilgreindur gagnvart viðmælanda, heldur líka óskilgreindur gagnvart mælanda, í þeim skilningi að mælandi veit ekki deili á honum.

Ef dyrabjöllunni er hringt og ég fer til dyra, og úti stendur maður sem ég þekki ekki, get ég sagt við konuna mína það er einhver að spyrja eftir þér. Ég sé vissulega manninn og gæti lýst honum en hann er samt óskilgreindur gagnvart mér. Konan mín gæti hins vegar vitað deili á honum en fær ekki upplýsingar um það hver hann sé – af því að ég get ekki gefið henni þær – þannig að hann er ótilgreindur gagnvart henni. Ef ég þekki manninn hins vegar get ég ekki sagt það er einhver að spyrja eftir þér. Eðlilegast er að nefna nafnið en ef ég vil af einhverjum ástæðum ekki gera það get ég sagt það er maður að spyrja eftir þér, það er verið að spyrja eftir þér eða eitthvað slíkt. En ég get ekki notað einhver.

En þetta er öðruvísi í ensku. Þar nægir að sá sem um er rætt sé ótilgreindur gagnvart viðmælanda – hann þarf ekki að vera óskilgreindur gagnvart mælanda, þótt hann geti verið það. Mælandi getur sem sé vitað um hvern er að ræða. Konan sem nefnd var hér í upphafi vissi vitanlega – skyldi maður ætla – hvern hún hafði verið að hitta þótt foreldrarnir vissu það ekki. Í ensku er hægt að nota someone við slíkar aðstæður – en ekki í íslensku. Í enskri orðabók segir um someone: 'used to refer to a single person when you do not know who they are or when it is not important who they are'. Það er seinni hlutinn sem hér skiptir máli og sýnir að mælandinn getur vitað deili á þeim sem um er að ræða þótt hann nefni það ekki.

Þetta dæmi sýnir vel hvernig fíngerður merkingarmunur, sem ekki kemur endilega fram í orðabókum, getur verið milli orða í tveimur tungumálum sem í fljótu bragði virðast merkja það sama. Sá merkingarmunur sem hér hefur verið lýst milli einhver og someone skiptir sjaldnast máli og þess vegna hætt við að hann fari fram hjá okkur. Þetta sýnir líka hvað það er mikilvægt að þýða texta ekki í hugsunarleysi og einblína á einstök orð – það verður að skoða textann í heild og greina merkingu hans. En jafnframt sýnir þetta hversu snúin vélræn þýðing getur verið (án þess að ég sé að segja að um hana sé að ræða í þessu tilviki) – sú merkingargreining sem þarna er nauðsynleg er hreint ekki einföld fyrir tölvur.

Posted on Færðu inn athugasemd

Í hámæli

Orðið hámæli er skýrt 'e-ð sem er umtalað, á allra vörum án þess að vera eiginlega opinbert' í Íslenskri nútímamálsorðabók, en hámark er aftur á móti 'hæsta stig sem e-ð getur eða hefur náð'. Oftast sker samhengið ótvírætt úr um það hvort orðið eigi við en þó eru þess dæmi að hvort tveggja kæmi til greina. Í Helgarpóstinum 1987 segir t.d.: „Maður skyldi ætla að versiunareigendum væri ami að sífelldum straumi fólks að kaupa sér miða, til dæmis á laugardagseftirmiðdögum þegar lottóvíman er í hámæli.“ Þarna er vissulega hugsanlegt að átt sé við að mikið sé rætt um lottóvímuna á laugardagseftirmiðdögum, en samt virðist miklu líklegra að merkingin sé sú að lottóvíman sé í hámarki. Ýmis fleiri hliðstæð dæmi mætti nefna.

Stundum er þó ótvírætt að merkingin í hámæli er 'hámark'. Í Morgunblaðinu 2005 segir: „Það þarf ekki að vera svo flókið að útbúa hollan og góðan mat úr grænmeti; ekki síst á þessum árstíma þegar uppskera grænmetis er í hámæli.“ Í Morgunblaðinu 2010 segir: „birgðir útvegsins aukast alla jafna á þessum tíma árs þegar vetrarvertíð er í hámæli.“ Í Fréttablaðinu 2010 segir „að mikill munur sé á veitingum í brúðkaupsveislum og árshátíðum sem eru í hámæli um þessar mundir“. Í Fréttablaðinu 2012 segir: „Nú þegar sumarið er í hámæli.“ Í Fréttablaðinu 2012 segir: „svona mitt á milli Laugavegar og Kringlu, þar sem jólaverslun landans er í hámæli, stendur hópur fólks og bíður eftir matarpoka.“ Í Fréttablaðinu 2021 segir: „kannski varla við öðru að búast þegar kosningabaráttan er í hámæli.“

Í gær var hér bent á dæmi um að orðið hámæli væri notað í merkingunni 'hámark'. Ég hafði rekist á þetta áður en hélt að það væri nýtt, en þegar ég fór að skoða þetta kom í ljós eins að það eru allnokkur ár síðan þessi notkun fór að stinga sér niður. Í umræðunni var bent á að orðasambönd eins og í miklum mæli gætu stuðlað að því að hámæli væri notað í merkingunni 'hámark'. Í sambandinu í miklum mæli er mæli vissulega beygingarmynd af karlkynsorðinu mælir en ekki hvorugkynsorðinu mæli eins og í hámæli, en vegna þess að hámæli kemur aðeins fyrir í þolfalli eða þágufalli og *mikill mælir aldrei í nefnifalli falla orðmyndirnar alltaf saman og því er ekki óeðlilegt að málnotendur skynji þetta sem sama orðið – líti svo á að í hámæli merki 'í háum (= miklum) mæli' eða eitthvað slíkt.

En þótt þessi breyting sé þannig skiljanleg þýðir það ekki að hún sé æskileg. Orðið hámark þjónar sínum tilgangi ágætlega og engin þörf á að leysa það af hólmi. Ef farið er að nota orðið hámæli í sömu merkingu er hætta á misskilningi vegna þess að samhengið sker ekki alltaf úr um merkinguna eins og hér hefur komið fram. Það má halda því fram að málið verði fátækara ef merking þessara orða rennur saman. Þótt þessi tilhneiging til breytingar á merkingunni í hámæli sé ekki alveg ný af nálinni virðist hún ekki vera orðin mjög útbreidd enn og því ætti að vera möguleiki að snúa henni við. Leyfum hámæli að halda hefðbundinni merkingu.

Posted on Færðu inn athugasemd

2:1 fyrir Ísland eða Íslandi?

Forsetningin fyrir tekur ýmist með sér þolfall eða þágufall í dæmum eins og staðan er 2:1 fyrir Ísland/Íslandi. Þetta samband með þolfalli var a.m.k. komið til fyrir 1940, og þolfallið hefur verið yfirgnæfandi til skamms tíma. Elstu dæmi um þágufallið sem ég hef fundið við snögga leit eru frá 1981 en notkun þess virðist hafa aukist mjög á allra síðustu árum. Samkvæmt lauslegri athugun í Risamálheildinni gæti hlutfall þolfalls og þágufalls í textum frá síðustu 20 árum verið 3:1, en mjög misjafnt eftir miðlum. Hlutfall þágufallsins er mun hærra í textum sem ætla má að yngra fólk skrifi og því trúlegt að það eigi enn eftir að hækka á næstu árum.

Svo má spyrja hvort hægt sé að finna einhverja ástæðu fyrir þessum tilbrigðum. Forsetningin fyrir stjórnar frá fornu fari ýmist þolfalli eða þágufalli og ekki er alltaf auðvelt að finna merkingarlegar ástæður fyrir fallstjórninni hverju sinni. Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru tilgreind 12 merkingartilbrigði forsetningarinnar, sjö sem taka með sér þolfall og fimm sem taka með sér þágufall. Ekki er alveg ljóst undir hvert þeirra sambandið sem hér um ræðir gæti fallið – þolfallið e.t.v. helst undir það áttunda, 'með tilliti til, gagnvart'. Þágufallið á sér aftur á móti hliðstæðu í dæmum eins og ganga/fara vel/illa fyrir einhverjum, blása byrlega fyrir einhverjum, hlaupa á snærið fyrir einhverjum, syrta í álinn fyrir einhverjum.

Málfarsbankinn segir: „Það er talið betra mál að segja 2 – 0 fyrir mig en „2 – 0 fyrir mér“.“ Þetta er auðvitað smekksatriði og getur ekki byggst á öðru en því að eldri og ríkari hefð er fyrir þolfallinu, en bæði þolfallið og þágufallið ríma ágætlega við merkingartilbrigði forsetningarinnar fyrir. Sjálfum finnst mér hvort tveggja eðlilegt þótt ég myndi frekar nota þolfallið og segja 2:1 fyrir Ísland. Það er hins vegar ljóst að þágufallið er í sókn og orðið mjög útbreitt þannig að það er komin hefð á það líka. Vegna þess að það á sér hliðstæður í annarri notkun forsetningarinnar fyrir finnst mér engin ástæða til annars en viðurkenna það sem rétt og vandað mál.

Posted on Færðu inn athugasemd

Íðorð og almennt mál

Í Facebook-hópnum Málspjall spannst nýlega mikil umræða út frá fyrirspurn um orð yfir gerendur eineltis. Ég áttaði mig á því eftir á að fólk talaði þarna dálítið í kross. Það var stungið upp á að nota ýmis orð sem eru vel þekkt úr almennu máli – einkum hrekkjusvín en líka tuddi, ruddi, hrellir, ótukt og ýmis fleiri. Ég brást margsinnis við tillögum um þessi orð á þann veg að þau væru ekki nothæf í þeim tilgangi sem um var að ræða, og ég stend við það. En mikilvægt er að það komi skýrt fram að þetta eru allt saman ágæt orð sem sjálfsagt er að nota í daglegu tali þegar verið er að ræða um tiltekin mál. Þau eru bara ekki hentug sem íðorð, þ.e. fagorð í fræðilegri umræðu.

Það eru ekki nema um 40 ár síðan farið var að nota nafnorðið einelti sem íðorð, þótt það væri þekkt í sambandinu leggja í einelti. En það sem nú er flokkað undir einelti var kallað ýmsum nöfnum – stríðni, hrekkir, áreitni, ofbeldi o.fl. Þessi orð eru vitanlega enn góð og gild en eins og útbreiðsla orðsins einelti sýnir er hentugt að hafa eitt orð með afmarkaða skilgreinda merkingu til að ná yfir fjölbreytta hegðun – einelti er skilgreint í Lögfræðiorðasafni sem: „Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta.“

Orðin stríðni og hrekkur eru ekki í neinu íðorðasafni, og skilgreining orðanna áreitni og ofbeldi í íðorðasöfnum er langt frá því að ná yfir öll tilbrigði eineltis. Áðurnefnd orð sem stungið var upp á að nota um gerendur, tuddi, ruddi, hrellir, ótukt o.fl., eru ekki heldur í íðorðasöfnum enda er merking þeirra ýmist of óskilgreind eða of sértæk til að þau geti hentað sem íðorð. Það er nefnilega sá meginmunur á íðorðum og orðum í almennu máli að íðorðin verða að hafa afmarkaða og vel skilgreinda merkingu sem almenn sátt er um (þótt vissulega geti fólk stundum greint á um merkingu einstakra íðorða). Orð í almennu máli hafa hins vegar oft tiltölulega fljótandi merkingu og fólk getur lagt mismunandi merkingu í þau.

Þetta á ekki síst við um orð um óhlutstæð fyrirbæri eins og hegðun og tilfinningar, þótt jafnvel geti verið ótrúlega erfitt að skilgreina nákvæmlega merkingu orða um áþreifanlega hluti eins og vel kom fram í þekktri grein Höskuldar Þráinssonar um merkingu orðsins bolli. Stundum er reynt að taka orð úr almennu máli og gera þau að íðorðum með því að hnika skilgreiningu þeirra til. Þekkt dæmi er öreigi sem merkir 'eignalaus maður' en kommúnistar gáfu merkinguna 'sá sem á ekki framleiðslutæki'. Þetta er þó varasamt og tekst ekki alltaf vel því að hætta er á að orðin haldi gömlu merkingunni áfram í huga málnotenda.

Orðið einelti var vissulega til í almennu máli áður, en eingöngu í sambandinu leggja í einelti. Þess vegna þurfti ekki að hrófla neitt við merkingu þess þegar það var gert að íðorði. Það væri gagnlegt að hafa orð um gerendur eineltis sem svaraði nákvæmlega til orðsins. Það gerir orð eins og hrekkjusvín ekki, og það er tæpast orð sem unnt er að nota í fræðilegri umræðu. Vegna þess að mér virtist fyrirspurnin varða slíka notkun (sem kann að hafa verið misskilningur) stakk ég upp á orðinu eineltir en það er mér vitanlega að meinalausu ef fólki finnst það ekki heppilegt. Aðalatriðið er að hafa í huga að það er munur á orðum í almennu máli og íðorðum, en hvort tveggja á vitanlega fullan rétt á sér – þar sem við á.