skíða, skauta, funda
Fjölmargar íslenskar sagnir eru leiddar af nafnorðum án nokkurs viðskeytis — nafnháttarendingunni -a bara bætt við nafnorðsrótina. Margar þessara sagna eru gamlar, en nýjar eru sífellt að bætast við — og fá misjafnar viðtökur. Meðal þeirra sem hafa breiðst út á síðustu áratugum eru skauta í merkingunni ʻrenna sér á skautumʼ, skíða í merkingunni ʻrenna sér / ganga á skíðumʼ og funda í merkingunni ʻhalda fundʼ. Sögnin skíða virðist vera rúmlega 50 ára gömul í málinu — í sumum elstu dæmunum um hana á tímarit.is er hún höfð innan gæsalappa sem sýnir að hún hefur verið ný og jafnvel þótt ástæða til að afsaka notkun hennar. Sögnin funda er eitthvað eldri, líklega rúmlega 60 ára gömul. Sögnin skauta er aftur á móti gömul í málinu í merkingunni ʻbera skautʼ en í merkingunni ʻrenna sér á skautumʼ er hún sennilega á svipuðum aldri og hinar tvær.
Þessar sagnir koma í stað orðasambanda með nafnorði eins og merkingarskýringarnar sýna. Margir málvöndunarmenn hafa einmitt lagt áherslu á að íslenska sé sagnamál — noti sagnir í stað sambanda með nafnorðum eins og gert sé í ensku sem sé nafnorðamál. Nú hef ég reyndar aldrei séð nein rök fyrir því að íslenska og enska séu ólík tungumál hvað þetta varðar — engar tölur sem bendi til þess að hlutfallsleg tíðni sagna í texta sé hærri í íslensku en ensku. Þessi staðhæfing virðist eingöngu byggjast á tilfinningu og er aðeins studd með einstöku dæmum, oftast þeim sömu — ég veit ekki hversu oft ég hef séð nefnt að í stað þess að gera eða framkvæma rannsókn eða könnun eigi að tala um að rannsaka eða kanna.
Út frá þessu mætti ætla að sögnum eins og funda, skíða og skauta yrði tekið fagnandi. En því er aldeilis ekki að heilsa. Árni Böðvarsson sagði að funda væri „ofnotað orð“ sem sumum fyndist mega fara „alveg burtu úr málinu“,og í þætti Gísla Jónssonar um íslenskt mál í Morgunblaðinu var margoft amast við þessum sögnum — þær sagðar vera „lágkúrulegar“, „snautlegar“, „barnalegar“, „ómynd“, „fátæktarlegar“, „flatneskja“, „barnamálslegar“, „bjálfamál“, „lágkúrusögn“, „flatsagnir“, bera vott um „málfátækt“ og vera vinsælar „af þeim sem minnstan hafa málsmetnað og daufasta tilfinningu“. Og Gísli er sannarlega ekki einn um að hafa haft ímugust á þessum sögnum.
Það er vissulega rétt að orðmyndun af þessu tagi er mjög algeng í máli barna, ekki síst í leikjum — sagnir eins og kubba, leira, perla og margar fleiri eru alþekktar, og þegar ég var strákur var ég oft að leika mér með þjöl og þjala. En þetta er samt vitanlega fullgild orðmyndun sem á sér fjölda hliðstæðna í máli fullorðinna og mér er hulin ráðgáta hvað er svona vont við umræddar sagnir. Þannig virðist funda alveg sambærileg við þinga sem talað er um með velþóknun, og skíða og skauta virðast hliðstæðar við hjóla. Nánast um leið og nafnorðið sími var tekið upp kom sögnin síma fram og var mjög mikið notuð lengi, þótt hún sé nú nánast horfin úr málinu. Svo mætti lengi telja.
Þessar sagnir hafa skýra og augljósa merkingu og eru mun liprari en orðasamböndin sem þær leysa af hólmi. Myndun sagna af nafnorðum á þennan hátt á sér langa hefð og ótal fordæmi í málinu. Ég get ekki séð neitt sem skýrir andstöðu við þessar sagnir annað en að þær eru nýlegar — og það tekur tíma að venjast nýjungum í máli. Reyndar hef ég ekki séð amast við áðurnefndum sögnum nú í nokkurn tíma, sem gæti bent til þess að þær hafi verið teknar í sátt. En í staðinn er fólk farið að hnýta í aðrar nýjar sagnir sem eru myndaðar á þennan hátt.
Slík orðmyndun er nefnilega mjög frjó í málinu — sem dæmi má nefna sagnirnar hurða (ʻskemma bíl með því að reka hurð á öðrum bíl í hannʼ), lykla (ʻrispa lakk á bíl með lykliʼ), tjóna (ʻskemma bíl, lenda í tjóniʼ) og tanka (ʻsetja eldsneyti á bíl, fylla á tankinnʼ). Þessar sagnir, a.m.k. hurða og lykla, eru reyndar ekki jafn gagnsæjar og þær sem áður voru nefndar. Gísli Jónsson kallaði tjóna „flatneskjusögn“ og sagði „ekki þörf á svo kauðalegu nýyrði“ sem tjónaður. Stundum er amast við þessum sögnum á þeim forsendum að þær séu myndaðar með hliðsjón af enskum sögnum, en hráefnið er íslenskt og orðmyndunin líka þótt fyrirmyndin kunni að vera erlend, og „ekki er minna um það vert að þau eru ekki búin til af fínni orðanefnd heldur hafa þau sprottið upp úti á meðal almennings“ segir Anna Sigríður Þráinsdóttir.