Category: „Málvillur“

Ristavél

Um fátt í tungumálinu skapast hatrammari deilur en um orðin brauðrist og ristavél. Síðast þegar þau orð bar á góma í Málvöndunarþættinum á Facebook voru skrifaðar hvorki fleiri né færri en 265 athugasemdir við færsluna, og hægt er að finna fjölmarga umræðuþræði um þetta mál á netinu. Mörgum sem nota brauðrist finnst ristavél ljótt og kjánalegt orð, sem tilheyri barnamáli og talmáli en eigi ekkert erindi inn í formlegt mál fullorðins fólks. Þeim sem nota ristavél finnst það orð aftur á móti fullkomlega eðlilegt.

Oft er það notað sem rök gegn ristavél að í tækinu sé engin vél í merkingunni 'tæki, oft samsett úr mörgum hlutum, olíu- eða rafknúið, til að vinna ákveðið verk' (mótor). En vitanlega innihalda heiti á fjölmörgum tækjum þennan orðhluta án þess að í þeim sé nokkur vél í þessari merkingu. Sem dæmi má nefna eldavél, myndavél, ritvél, rakvél, kaffivél, múgavél; leitarvél, bókunarvél, þýðingarvél; o.s.frv. Vissulega eru oft einhvers konar „vélar“ í sumum þessara tækja núorðið, s.s. rakvélum og ritvélum, en þannig var það ekki þegar orðin voru búin til.

Orðið ristavél er hliðstætt eldavél, myndavél, saumavél og fleiri orðum þar sem líta má svo á að fyrri hlutinn sé nafnháttur sagnar. Vissulega kemur oft einnig til greina að fyrri liðurinn sé eignarfall fleirtölu, en sá möguleiki er ekki alltaf fyrir hendi, t.d. í hakkavél. Eðlilegt er að líta svo á að þessi orð séu mynduð á sama hátt – hakkavél er 'tæki (vél) til að hakka með', ristavél er 'tæki til að rista með'. Það getur vel verið að orðið sé upprunnið í máli barna en börn eru býsna glúrin í orðmyndun og það er varla hægt að nota orðmyndunarleg rök til að hafna ristavél.

Einnig er til afbrigðið ristabrauðsvél sem er mun sjaldgæfara en ristavél, aðeins eitt dæmi í Risamálheildinni, þótt elsta dæmi um orðið á tímarit.is sé jafngamalt. Ef til vill hefur þessi mynd einkum verið notuð á Austurlandi, a.m.k. ef draga má einhverjar ályktanir af gamansögu í Degi 1985 þar sem segir frá Akureyringi sem réð sig á austfirskan netabát og þótti heldur fákunnandi um verklag og orðfæri á sjó. Einu sinni ætlaði hann að rista sér brauðsneið en fann ekki þartilgert tæki og spurði „Strákar, hvar er brauðristin? Þá gall við mikill hlátur og einn segir á milli hláturshviðanna: Hann kallar ristabrauðsvélina brauðrist“.

En hvaða orð eigum við þá að nota um þetta fyrirbæri? Við getum litið bæði til aldurs og uppruna. Elsta dæmi um brauðrist á tímarit.is er frá 1915. Þetta er tökuorð úr dönsku – þar heitir fyrirbærið brødrist eða brødrister, þótt enska tökuorðið toaster sé reyndar oft notað í staðinn. Aftur á móti er elsta dæmið um ristavél á tímarit.is frá 1983, og ekkert bendir til annars en orðið sé íslensk smíð. Aldurinn mælir því með brauðrist, en ef við viljum taka íslenskar nýmyndanir fram yfir tökuorð ættum við frekar að velja ristavél. Myndin ristabrauðsvél er of sjaldgæf til að koma til álita.

Mér dettur samt ekki í hug að leggja til að brauðrist sé hafnað – orðið hefur auðvitað fyrir löngu unnið sér hefð í málinu og ég nota það alltaf sjálfur. Ef ristavél væri að koma upp núna myndi ég sennilega leggjast gegn orðinu með þeim rökum að fyrirbærið sem það ætti að tákna hefði þegar íslenskt heiti. En í ljósi þess að orðið kom upp fyrir meira en aldarþriðjungi, er útbreitt, er íslensk nýmyndun og brýtur engar orðmyndunarreglur er engin ástæða til að hafna því – það er ekkert að því að sama fyrirbærið eigi sér fleiri en eitt heiti.

Var mér boðið eða ég boðinn?

Oft er rætt um fallnotkun í þolmyndarsetningum með sögninni bjóða – hvort eigi að segja t.d. mér var boðið í mat eða ég var boðin(n) í mat. Gísli Jónsson tók þetta nokkrum sinnum fyrir í þáttum sínum um íslenskt mál í Morgunblaðinu og lagði áherslu á að það ætti að segja mér var boðið í mat. Ekki kæmi til greina að segja ég var boðinn í mat „því þá hefði boðið kannski verið þegið og væri ég þá ekki lengur til frásagnar um eitt eða neitt.“ En málið er ekki alveg svona einfalt.

Sögnin bjóða stýrir þolfalli í samböndum eins og Ég bauð bílinn til sölu, og iðulega tekur hún bæði þágufalls- og þolfallsandlag – Ég bauð henni matinn. Þegar setningum með þolfallsandlagi er snúið í þolmynd verður andlagið að nefnifallsfrumlagi – Bíllinn var boðinn til sölu. Það mætti því í fljótu bragði ætla að Ég var boðinn í mat væri þolmynd af (Einhver) bauð mig í mat – þar sem ég væri maturinn. Það er sú merking sem Gísli vísar til – þótt ég sé reyndar nokkuð viss um að enginn hefur notað sambandið í þeirri merkingu.

Sögnin stýrir hins vegar þágufalli í þeirri merkingu sem hér er um að ræða – Einhver bauð mér í mat. Þegar setningum með sögnum sem stýra þágufalli er snúið í þolmynd helst þágufallið þótt það færist í frumlagssæti; við segjum Mér var hjálpað en ekki *Ég var hjálpaður. Mér var boðið í mat er því sú þolmynd sem við mætti búast af (Einhver) bauð mér í mat. En í sumum tilvikum fær lýsingarhátturinn setningarlegt hlutverk lýsingarorðs og þá helst þágufallið ekki, enda er þá ekki um þolmynd að ræða. Ég var boðinn í mat er þess háttar setning.

Munurinn sést t.d. vel með sögninni loka sem einnig stjórnar þágufalli. Við getum sagt bæði Dyrunum var lokað og Dyrnar voru lokaðar. Í fyrra dæminu er um þolmynd að ræða – sú setning lýsir verknaði. Í seinna dæminu hefur lokaðar stöðu lýsingarorðs og þar er ekki verið að lýsa verknaði heldur ástandi. Við getum sagt Dyrunum var lokað á nefið á mér en ekki *Dyrnar voru lokaðar á nefið á mér vegna þess að þetta er verknaður. Hins vegar segjum við Dyrnar voru lokaðar allan daginn en ekki *Dyrunum var lokað allan daginn, því að þar er um ástand að ræða. Að vísu væri hægt að segja dyrunum var lokað aftur og aftur allan daginn en þá er vísað til (endurtekinnar) athafnar.

Hliðstætt er þetta með boðinn. Mér var boðið í mat er þolmynd og segir frá verknaði, en Ég var boðinn í mat er ekki þolmynd, heldur er boðinn þar lýsingarorð sem segir frá ástandi; merkir eiginlega 'það stendur þannig á hjá mér að ég er boðinn í mat'. Þetta sést greinilega á því að við getum sagt Áðan var mér boðið í mat um næstu helgi en tæpast *Áðan var ég boðinn í mat um næstu helgi. Atviksorðið áðan sýnir að vísað er til verknaðar en ekki ástands. Eina leiðin til að seinni setningin gæti staðist væri sú að matarboðið hefði verið afturkallað í millitíðinni.

Það er engin nýlunda að lýsingarhátturinn boðinn fái stöðu lýsingarorðs. Í Bárðar sögu Snæfellsáss segir „Sá þurs var þangað boðinn er Kolbjörn hét“ og í Harðar sögu og Hólmverja segir „Kollur frá Lundi var boðinn til brúðkaupsins einnhver virðingamestur“. Nefnifallið kemur sem sé fyrir þegar í fornu máli. Ég sé ekki á hvaða forsendum ætti að fordæma það.

Opnunartími

Orðið opnunartími er þyrnir í augum margra málvöndunarmanna. Málfarsbankinn segir: „Betra er að tala um afgreiðslutíma, þjónustutíma eða opið frá/milli en „opnunartíma“. Orðið er ekki nýtt – elsta dæmi um það á tímarit.is er tæplega hundrað ára. Dæmum fjölgar hægt framan af en alger sprenging varð í notkun orðsins á níunda áratug síðustu aldar þegar mikil umræða hófst um opnunartíma verslana. Ástæðan fyrir því að amast er við orðinu er sú að sagt er að opnun merki 'verknaðinn að opna' og þess vegna hljóti opnunartími að merkja 'tími sem það tekur að opna' – sem geti ekki verið langur. Árið 1988 skrifaði Árni Böðvarsson grein í Morgunblaðið um það sem kann kallaði „rugling“ í notkun orðsins, og sagði m.a.: „Fleiri og fleiri glepjast til að kalla opnunartíma allan tímann sem opið er, það er allan afgreiðslutímann þangað til lokað er.“

Iðulega er bent á önnur orð sem hægt sé og rétt að nota í staðinn – einkum afgreiðslutími, en einnig þjónustutími o.fl. En stundum er hvorki verið að afgreiða nokkuð né veita nokkra þjónustu á þeim stöðum sem um er að ræða, t.d. í biðskýlum o.v. Þar að auki getur afgreiðslutími haft aðra merkingu, þ.e. 'tíminn sem það tekur að afgreiða vöru'. Besta tillagan sem ég hef séð er opnutími en það orð hefur ekki breiðst mikið út. Einnig hefur verið bent á að hægt sé að nota lýsingarorðið opinn – segja skrifstofan er opin frá 9-4 í staðinn fyrir opnunartími frá 9-4. Vissulega – en er það eitthvað rökréttara? Það er ljóst að opinn merkir ekki það sama í dyrnar eru opnar og skrifstofan er opin, enda getum við sagt skrifstofan er opin þótt dyrnar séu ekki opnar – það er engin mótsögn í því.

En er endilega víst að opnun merki bara 'verknaðinn að opna'? Vissulega er það rétt að viðskeytið -un merkir venjulega verknað – könnun merkir 'það að kanna', litun merkir 'það að lita', verslun merkir 'það að versla', o.s.frv. En mörg þessara orða geta líka merkt einhvers konar afurð verknaðarins, stað þar sem hann fer fram, o.fl. Þannig merkir verslun ekki bara 'það að versla' heldur líka 'fyrirtæki eða staður þar sem verslað er'. Á sama hátt merkir opnun ekki bara 'það að opna', heldur 'ástandið að vera opið'. Í Heimskringlu 1912 er t.d. fjallað um „risavaxnar framfarir hér, sem stafa af mörgu: opnun Panama skurðarins, sem hefir stórkostleg áhrif á alla ströndina“. Hér merkir opnun ekki bara atburðinn þegar skurðurinn var opnaður, heldur líka það ástand hans að vera opinn.

Hvað sem þessu líður, og hvaða merkingu sem við viljum leggja í orðið opnun, dylst engum hvað orðið opnunartími merkir – ekki heldur þeim sem amast við því. Fyrst við getum komið okkur saman um að skrifstofan er opin merki 'afgreiðsla er veitt á skrifstofunni' (óháð því hvort dyrnar eru opnar eða lokaðar) ættum við eins að geta komið okkur saman um að opnunartími skrifstofunnar merki 'sá tími sem afgreiðsla er veitt á skrifstofunni'. Orð merkja nefnilega ekki alltaf það sem þau „ættu að“ merkja frá einhverju röklegu sjónarmiði. Orð merkja það sem við komum okkur saman um að þau merki. Enginn misskilur orðið opnunartími.

Verslunin opnar

Meðferð sagnanna opna og loka er algengt aðfinnsluefni í málvöndunarumræðu. Oft er amast við því að talað sé um að opna og loka hurðum í stað dyrum, en einnig hafa verið gerðar athugasemdir við notkun sagnanna í setningum eins og Verslunin opnar klukkan níu, Verslunin lokar, o.s.frv. Sagt er að þessi notkun sé ekki rökrétt vegna þess að þarna séu dauðir hlutir gerðir að gerendum – verslunin hvorki opni nokkuð né loki því, heldur opni einhver verslunina og loki henni – hún sé opnuð og henni lokað.

Dugir það til að fordæma þetta orðalag? Þarna má segja að verslunin sé persónugerð, en það er vitaskuld algengt í ljóðum og þykir ekki athugavert. Vissulega er slík persónugerving minna notuð í óbundnu máli en er þó algeng þar líka. Það er t.d. mjög algengt (og stundum raunar hnýtt í það) að tala um að bílar aki þótt vitanlega sé einhver sem ekur þeim. Eins er mjög algengt að tala um að Ísland (eða eitthvert annað land) geri þetta eða hitt þegar það eru auðvitað landsmenn sem gera þetta. Er eitthvað verra að persónugera verslanir?

En reyndar þarf ekki að líta svo á að um persónugervingu sé að ræða. Það eru nefnilega fleiri sagnir sem haga sér á sama hátt án þess að nokkur geri athugasemd við það. Við segjum Hún stækkaði íbúðina, Hann minnkaði drykkjuna, Þau fjölguðu mannkyninu – en einnig Íbúðin stækkaði, Drykkjan minnkaði, Börnunum fjölgaði. Þarna er andlag gert að frumlagi án þess að það verði við það að geranda – og án þess að nokkuð sé við þetta að athuga. Er einhver munur á t.d. Hún stækkaði íbúðina – Íbúðin stækkaði og svo Hún opnaði búðina – Búðin opnaði?

Ég get ekki séð að neinn munur sé á þessu frá röklegu sjónarmiði – þessi notkun opna og loka á sér skýrar hliðstæður í málinu. Hins vegar væri vissulega hægt að hafa það á móti henni að um nýjung sé að ræða í notkun þessara sagna – þær hafi ekki hagað sér svona áður fyrr og ástæðulaust sé að breyta því, hvað sem fyrirmyndum líður. Það má auðvitað deila um hvað sé nýjung – elsta dæmi sem ég hef fundið um fordæmingu þessarar notkunar er frá 1938, þannig að gera má ráð fyrir að hún hafi verið orðin nokkuð útbreidd þá og sé a.m.k. 80-100 ára gömul.

En ýmislegt er áhugavert í þessu sambandi. Sögnin opna stýrir þolfalli, en þegar andlagið er gert að frumlagi fær það nefnifall – Búðin opnar en ekki *Búðina opnar. Þetta er það sem við er að búast – þolfallsandlög fá nefnifall þegar þau eru færð í frumlagssæti, bæði í þolmynd (Búðin verður opnuð) og með sögnum eins og stækka og minnka (Íbúðin stækkaði). En þágufallsandlag helst hins vegar þótt það sé sett í frumlagssæti – Bílum var fjölgað, Bílum fjölgaði. Hvernig er farið með loka sem tekur þágufallsandlag?

Mér sýnist að þágufallið verði oftast að nefnifalli þegar það er fært í frumlagssæti loka – sagt er Verslunin lokar frekar en Versluninni lokar. Þetta er óvanalegt en þó ekki einsdæmi. Þótt þágufallið haldi sér nú með fjölga og fækka höfðu þessar sagnir nefnifall í frumlagssæti til skamms tíma, á 19. öld og fram á þá 20. Í Fjölni 1844 segir t.d. „Við þetta fjölguðu hófsemdarvinir að vísu talsvert“ og „vínsölumenn og drykkjumenn fækkuðu dag frá degi“. Í andlagssæti þessara sagna var þó þágufall á þessum tíma rétt eins og nú.

Það er þó ekki einhlítt að þágufallið verði að nefnifalli með loka. Á tímarit.is eru t.d. bæði dæmi um kjörstaðir loka og kjörstöðum lokar; hins vegar eingöngu dæmi um verslunin lokar, ekki versluninni lokar. En það er athyglisvert að í mörgum dæmum um verslunin lokar er um að ræða að verið er að leggja verslun af – loka henni endanlega. Það eru því vísbendingar um að málnotendur fari með sögnina á mismunandi hátt eftir því hvort um er að ræða tímabundna eða varanlega lokun.

Þetta er dæmi um hvað maður getur rekist á forvitnilega hluti með því að skoða hvað liggur að baki málbreytingum í stað þess að afgreiða þær umsvifalaust sem „málvillur“ og láta þar við sitja.

Valda

Sögnin valda er oft til umræðu í málfarsþáttum, enda er hún ekki einföld í beygingu. Við segjum ég veld í nútíð en í þátíð ég olli, og í lýsingarhætti þátíðar ég hef valdið. Við það bætist að viðtengingarháttur þátíðar er (þótt ég) ylli. Það er engin furða að einhver tilbrigði komi upp í sögn sem hefur svo fjölbreyttar myndir, enda hefur það alla tíð verið svo. Í varðveittum fornum textum koma fyrir 45 mismunandi ritmyndir sem tilheyra þessari sögn, samkvæmt gagnasafni fornmálsorðabókarinnar í Kaupmannahöfn – tölurnar sýna tíðni hverrar myndar:

vallda (11); uolldi (5); valdit (4); ollat (4); valldit (3); valda (3); volldi (3); vollde (3); ollath (3); valldannde (2); ollad (2); olli (2); ollu (2); uallda (2); vallde (2); uelldr (1); volþo (1); volle (1); valldanndde (1); valldim (1); uelldur (1); volld (1); Veldrat (1); uolli (1); volli (1); uolle (1); wollde (1); ỏlli (1); Illi (1); volldv (1); ylldi (1); volldit (1); valldi (1); volldu (1); volldet (1); Valld (1); vylldí (1); valldí (1); volðe (1); volldde (1); olluðu (1); velldr (1); olle (1); vollda (1); velldur (1)

Athugið þó að á þessum tíma var stafsetning ekki samræmd þannig að sama beygingarmyndin getur legið að baki fleiri en einni stafsetningarmynd – væntanlega stendur valdit og valldit fyrir sömu myndina sem í nútímamáli yrði rituð valdið. Sömuleiðis stendur ollat, ollath og ollad fyrir sömu myndina sem í nútímamáli yrði rituð ollað. Fyrrnefnda beygingarmyndin, sem nú er talin rétt, kemur fyrir samtals sjö sinnum í fornum textum samkvæmt þessu, en sú síðarnefnda, sem er talin röng, kemur fyrir samtals níu sinnum.

Myndin ollað hefur haldist gegnum alla málsöguna og var sennilega algengari en valdið fram á 19. öld – hún er t.d. oftast notuð í Fjölni, riti Jónasar Hallgrímssonar, Konráðs Gíslasonar og félaga, þótt myndinni valdið bregði þar einnig fyrir. En eftir miðja 19. öld hefur sennilega verið farið að boða að ollað, svo og ollið sem einnig kemur fyrir, væri röng beyging því að þá fer að draga í sundur með myndunum í tíðni, þótt ollað haldist algeng á fyrsta þriðjungi 20. aldar. Á síðustu árum er sú mynd mjög sjaldgæf á tímarit.is en búast má við að hún sé algengari í talmáli.

Umræða um það hvort ollað/ollið sé rétt eða rangt mál er ófrjó og skilar engu. Í staðinn má íhuga hvers vegna þessi tilbrigði koma upp. Sögnin hefur vitanlega mjög sérstaka beygingu og í slíkum tilvikum er eðlilegt að börn á máltökuskeiði sæki fyrirmyndir í önnur og þekktari orð. Í þessu tilviki gæti t.d. verið um að ræða áhrif frá lýsingarhættinum orðið, af verða. Áhrif frá verða, þ.e. þátíð fleirtölu urðu, gætu líka skýrt myndina ullu sem kemur fyrir í stað ollu. Einnig eru þarna hugsanlega áhrif frá sögninni vella sem er ullu í þátíð fleirtölu og ollið í lýsingarhætti þátíðar.

En fleira er áhugavert við beygingu þessarar sagnar. Hún hefur tvær merkingar: 'orsaka eitthvað' og 'ráða við eitthvað'. En þátíðin olli er bara notuð í fyrrnefndu merkingunni – í síðarnefndu merkingunni hefur sögnin enga þátíð. A.m.k. finnst mér útilokað að segja *Hann olli ekki þessu verkefni. Annar möguleiki væri að fá lánaða þátíð samhljóða sagnar, valda (sem einkum er notuð í skák) og segja *Hann valdaði ekki þessu verkefni – en það finnst mér ekki heldur ganga.

Hvers vegna getur þátíðin olli ekki merkt 'réð ekki við'? Hvers vegna hefur sögnin valda enga þátíð í annarri merkingunni? Þetta er ein af þessum skrítnu sérviskum tungumálsins sem gera það svo áhugavert viðfangsefni.

Hurðir og hurðar

Fleirtölumyndina hurðar í stað hurðir af nafnorðinu hurð heyrði ég fyrst fyrir rúmum 30 árum þegar ég stóð í húsnæðiskaupum og skoðaði fjölmargar íbúðir. Við slíkar aðstæður ber ýmsa innviði íbúða á góma og ég tók eftir því hjá fleiri en einum og fleiri en tveimur sem ég talaði við að þeir töluðu um hurðar. Þessi beyging virðist ekki vera gömul – aðeins örfá dæmi á tímarit.is eru eldri en þetta. Beygingin virðist hins vegar hafa breiðst talsvert út síðan um aldamót ef marka má dæmafjölda á tímarit.is.

Það er fjarri því að vera einsdæmi að nafnorð hafi fleiri en eina fleirtölubeygingu eða breyti um fleirtöluendingu. Svo að við höldum okkur við sterk kvenkynsorð má nefna lest og síld, en bæði lestir og lestar eru algengar fleirtölumyndir, sem og síldir og síldar. Orðið grein í merkingunni 'námsgrein' hafði iðulega fleirtöluna greinir langt fram eftir síðustu öld – í merkingunni 'trjágrein' var fleirtalan hins vegar greinar og nú hefur orðið undantekningalítið þá fleirtölu í báðum merkingum. Orðið hlíð var í fleirtölu hlíðir í fornu máli en nú alltaf hlíðar. Orðin rún, gjöf, nös voru í fornu máli oft eða oftast rúnar, gjafar, nasar, en nú alltaf rúnir, gjafir, nasir. Svo mætti lengi telja.

Börn á máltökuskeiði sem standa frammi fyrir því risavaxna verkefni að tileinka sér tungumál leita að mynstrum í málinu sem þau heyra í kringum sig. Þau greina – ómeðvitað – stofngerð orðanna; hvaða stofnsérhljóð þau hafi, hvort og hvaða samhljóðaklasar komi fyrir í þeim, o.fl. Á grundvelli þessarar greiningar búa þau sér til reglur, m.a. um það hvaða fleirtöluendingu sterk kvenkynsorð fá. Í fyrstu fela þessar reglur í sér alhæfingar sem iðulega reynast rangar, en með vaxandi málkunnáttu leiðrétta börnin reglurnar þannig að þær færast smátt og smátt nær þeim reglum sem fullorðnir málnotendur beita.

Í rannsókn á fleirtölumyndun barna sem var gerð upp úr 1980 kom í ljós að töluverður hluti fjögurra og sex ára barna sögðu að fleirtalan af hurð væri hurðar. Líklegt er að íslensk börn, mörg hver a.m.k., byrji á að alhæfa -ar-fleirtölu í sterkum kvenkynsorðum og noti þá fleirtölu á ýmis orð þar sem hún á ekki heima. Smátt og smátt átta þau sig á því að þessi regla er of víð og endurbæta hana og þá fækkar þeim orðum sem fá ranglega -ar-fleirtölu í máli þeirra. En e.t.v. verða sum eftir og halda -ar-fleirtölunni þegar máltökuskeiði lýkur þótt fullorðnir málnotendur noti -ir­-fleirtölu, hugsanlega vegna þess að orð með svipaða stofngerð hafi venjulega -ar-fleirtölu. Ekki er ólíklegt er að hurð sé eitt af þessum orðum.

Það er skiljanlegt að fólk sem hefur alist upp við fleirtöluna hurðir – eins og væntanlega meginhluti landsmanna – kippist við þegar það heyrir hurðar og finnist þetta brjóta gegn málkennd sinni. En hver sem skýringin kann að vera á þessari breytingu er ljóst að hún á sér fjölmargar hliðstæður og gerir málinu nákvæmlega engan skaða. Mörg sterk kvenkynsorð höfðu tvímyndir þegar í fornu máli, og mörg hafa breytt um beygingarflokk þannig að upprunalega fleirtalan er nú alveg horfin og yrði væntanlega talin röng. Aðalatriðið er að orðið heldur áfram að beygjast, og breytingin torveldar ekki skilning á eldri textum á nokkurn hátt. Mér finnst hún bara dæmi um skemmtilega fjölbreytni málsins.

Erlendis

Meðal þess sem oftast eru gerðar athugasemdir við í málfarsþáttum er notkun atviksorðsins erlendis. Það hefur lengi verið kennt að það geti einungis táknað kyrrstöðu, dvöl á stað, en ekki hreyfingu, ferð til staðar. Í Málfarsbankanum segir: „Atviksorðið erlendis merkir: í útlöndum. Það er því eðlilegt að segja dveljast erlendis en aftur á móti ekki „erlendis frá“ og „fara erlendis“. Gísli Jónsson amaðist líka margsinnis við þessu í íslenskuþáttum sínum í Morgunblaðinu. En á hverju byggist þessi regla?

Í fornu máli var orðið notað bæði um dvöl og hreyfingu eins og dæmi forníslensku orðabókarinnar sýna glöggt. Flest af elstu dæmum Ritmálssafns Orðabókar Háskólans um orðið, frá 18. og 19. öld, sýna líka sambandið fara erlendis. Á tímarit.is má finna á þriðja þúsund dæma um fara erlendis og á þriðja tug þúsunda dæma um erlendis frá, allt frá því snemma á 19. öld til þessa dags.  Ekki minni maður en Jónas Hallgrímsson skrifar í minningargrein um Tómas Sæmundsson í Fjölni: „Enn er herra Steingrímur varð að fara erlendis vetrarlángt að taka biskupsvígslu í Danmörku, kom hann Tómasi í Bessastaða-skóla.“

Ég veit ekki hvenær eða hvers vegna farið var að amast við því að nota erlendis í hreyfingarmerkingu. Elsta dæmi sem ég finn um það í fljótu bragði er í Alþýðublaðinu 1976, þar sem Guðni Kolbeinsson skrifar: „Orðið erlendis er staðaratviksorð sem felur í sér dvöl en ekki hreyfingu. Því telst rangt að tala um að fara erlendis eða senda einhvern erlendis. Hægt er að dveljast erlendis, fara utan eða til útlanda, og á sama hátt senda einhvern utan eða til útlanda.“ Ég þykist samt viss um að andstaðan við þessa notkun erlendis eigi sér miklu lengri sögu. En á hverju byggist hún?

Ég hef séð það tilfært sem rök gegn hreyfingarmerkingu erlendis að atviksorð sem enda á -is tákni venjulega dvöl á stað en ekki hreyfingu til staðar. Það kann að vera algengast en er þó ekki algilt – við segjum t.d. falla útbyrðis og ganga afsíðis þar sem augljóslega er um hreyfingu að ræða. Ég hef líka séð því haldið fram að eitt og sama -is-orðið geti ekki merkt bæði dvöl á stað og hreyfingu til staðar. Það er ekki heldur rétt – við getum talað um sjóinn umhverfis Ísland þar sem um kyrrstöðu er að ræða en einnig siglingu umhverfis Ísland þar sem um hreyfingu er að ræða. Sama máli gegnir um hið gamla en sjaldgæfa orð umkringis.

Rökin fyrir því að erlendis merki ekki 'til útlanda' er því ekki hægt að sækja til málsögunnar – orðið hefur getað haft þessa merkingu allar götur síðan á 13. öld. Rökin geta ekki heldur byggst á málvenju – það er augljóst að orðið merkir 'til útlanda' í máli mikils fjölda fólks eins og sést á dæmum á tímarit.is, og ekki síður af því hversu oft eru gerðar athugasemdir við að fólk noti orðið í þessari merkingu. Og rökin er ekki heldur hægt að sækja til orðmyndunarinnar – fordæmi eru fyrir því að -is-orð merki bæði dvöl og hreyfingu.

Notkun erlendis í merkingunni 'til útlanda' getur ekki heldur valdið misskilningi því að sögnin sem atviksorðið stendur með sker alltaf úr um það hvort um dvalar- eða hreyfingarmerkingu sé að ræða. Ég sé ekki betur en einu rökin gegn því að nota orðið í hreyfingarmerkingunni séu þau að það hefur verið kennt undanfarna áratugi að það sé rangt. En eru það nægileg rök?

Opna og loka hurð eða dyrum

Því er oft haldið fram að það sé „órökrétt“ – og þar af leiðandi rangt –að tala um að opna hurðina og loka hurðinni vegna þess að hurðin sé ekki op, heldur fleki sem er notaður til að loka dyrum. Í Málfarsbankanum er sagt „eðlilegt að tala um að opna og loka dyrunum sem maður fer inn um (eins og talað er um að opna og loka gati eða opi). Síður skyldi segja: „opna hurðina, loka hurðinni“. Það er þó ljóst að þegar í fornu máli var talað um að opna, loka og lúka upp/aftur hurðum.

Í Eyrbyggju segir „Hurðin var opin en heimakona ein var í dyrunum“, í Sturlungu segir „Hann skyldi geyma að hurðir væru opnar ef þeir Þorvarður kæmu þar um nóttina“, í Laxdælu segir „hér hafa hurðir verið loknar eftir þessum manni“ og „Þeir lúka aftur hurðina og taka vopn sín“ og svo mætti lengi telja. Mikill fjöldi dæma um opna/loka hurð er líka á tímarit.is, frá 19. öld og allar götur síðan. Einnig má nefna dæmi úr bókmenntum – „Opnar Öngull hurð“ kvað Hannes Pétursson í kvæðinu „Í Grettisbúri“.

Í ýmsum orðasamböndum sem þykja góð og gild mætti líka halda því fram að notkun orðanna hurð og dyr sé ekki „rökrétt“. Það er talað um að berja á dyr eða berja að dyrum enda þótt venjulega sé barið á hurðina, ekki dyrnar. Eins er talað um að drepa á dyr og knýja dyra – þótt í Grettis sögu segi Illugi reyndar „Knýr Hösmagi hurð bróðir“. Málfarsbankinn segir líka „Bæði er hægt að læsa hurð og læsa dyrum enda er lás á hvorutveggja“ – sem fer reyndar eftir því hvernig lás er skilgreindur.

Sagnirnar opna og loka fela vitanlega í sér hreyfingu eða breytingu á ástandi, og það er óneitanlega staða hurðarinnar sem breytist en ekki dyranna. Þess vegna er ekki augljóst að einhver rökleysa felist í því að nota hurð í þessum samböndum. En það er mjög athyglisvert að skoða muninn á loka og opna í þessu samhengi í tveimur gríðarstórum textasöfnum – tímarit.is og Risamálheildinni. Sé aðeins litið á ótvíræðar sagnmyndir kemur í ljós að hlutfall dæma um hurð með loka er 38-39%, en talsvert lægra með opna, eða kringum 26-27%.

Það er sem sé talsvert algengara hlutfallslega að tala um að loka hurð en opna hurð, og merkilegt að hlutföllin eru nánast þau sömu í báðum söfnunum þótt textarnir á tímarit.is spanni 200 ár en Risamálheildin taki aðallega til texta frá 21. öld. En munurinn á loka og opna er athyglisverður og ég hef á tilfinningunni að hann sé ekki tilviljun. Þegar þarf að loka er hurðin og hreyfing hennar meira í fókus en þegar þarf að opna beinist athyglin meira að dyrunum.

Þetta styrkist enn frekar þegar skoðuð eru dæmi með lýsingarorði, lokuð/opin hurð og lokaðar/opnar dyr. Það eru sárafá dæmi um hurð í slíkum samböndum – um eða innan við 4% af heildinni. Þar er um kyrrstöðu að ræða, verið að lýsa ástandi en ekki hreyfingu. Vegna þess að hreyfingin virðist vera forsenda þeirrar tilhneigingar að nota hurð fremur en dyr með loka og opna er eðlilegt að þeirrar tilhneigingar gæti lítið þegar hreyfingin er ekki til staðar.

Merkingarleg skil dyra og hurðar hafa því alltaf verið óskýr og orðin löngum getað komið hvort í annars stað í ýmsum samböndum. Það er því engin furða að upp komi dæmi eins og standa í hurðinni, ganga út um hurðina o.fl. Ég mæli samt ekki með slíkum dæmum og fyndist æskilegt að halda sig við að tala um dyr í þeim. Hins vegar finnst mér alveg einboðið að opna hurðina og loka hurðinni sé talið gott og gilt mál.

Kynskiptingar

Orðið fótur er vitanlega karlkynsorð og aldrei neitt annað – í eintölu. Fleirtalan, fætur, er hins vegar iðulega höfð í kvenkyni – fæturnar. Þetta er ekki nýtt – dæmi eru um kvenkynið a.m.k. frá 16. öld. Á tímarit.is má sjá að myndin fæturnar hefur verið algeng síðan seint á 19. öld þótt dæmum um hana hafi heldur fækkað á síðustu áratugum ef eitthvað er. Þar er líka fjöldi dæma um báðar fætur allt frá miðri 19. öld. Lengi hefur verið barist gegn þessari breytingu; „má óhætt fullyrða, að fyrr megi misþyrma málinu, en svo langt sé gengið“ segir í blaði frá 1939. En hvernig má skýra hana?

Endingin -ur í nefnifalli fleirtölu er langalgengust í kvenkyni – einkennir stærsta beygingarflokk kvenkynsorða, veiku beyginguna, t.d. saga – sögur, kona – konur, vika – vikur o.s.frv. Það er sennilegt að kvenkynið á fætur megi m.a. rekja til áhrifa þessara orða. Við það bætist að hljóðavíxlin ó-æ eru hliðstæð því sem er í kvenkynsorðum eins og bók – bækur, nótt – nætur, brók – brækur o.fl. Enn má nefna að oft er í sömu andrá minnst á hendur og fætur, og hönd er auðvitað kvenkynsorð. Það er því ýmislegt sem getur haft áhrif í þá átt að málnotendum finnist fætur vera kvenkyn.

En þótt orðið fótur sé oftast notað sem dæmi um karlkynsorð sem stundum verði kvenkyns í fleirtölu fer því fjarri að þetta sé eina orðið sem svo er háttað um. Sömu tilhneigingar gætir hjá ýmsum öðrum karlkynsorðum sem enda á -ur í nefnifalli fleirtölu – fingur, bændur, og svo orðum sem dregin eru af lýsingarhætti nútíðar; nemendur, eigendur o.fl. Á tímarit.is er hægt að finna allmörg dæmi um fingurnar, bændurnar, nemendurnar, eigendurnar o.s.frv. – allt frá 19. öld til þessa dags. Málnotendur virðast því tengja fleirtöluna -ur við kvenkyn eins og áður er nefnt, en við það bætist að þolfall fleirtölu í karlkynsorðum með -ur-fleirtölu er eins og nefnifallið, og það er einkenni kvenkynsorða, en þekkist ekki í öðrum karlkynsorðum en þessum.

Vissulega má það virðast undarlegt að orð skipti um kyn eftir því í hvaða tölu þau standa. Þess eru þó dæmi að slíkt sé viðurkennt og þyki eðlilegt mál. Þekktasta dæmið er foreldri, sem er hvorugkynsorð í eintölu, en fleirtalan foreldrar er karlkyns. Ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma heyrt eintöluna notaða í mínu ungdæmi, þótt hún hafi vissulega verið til þegar í fornu máli og eitthvað notuð alla tíð samkvæmt tímarit.is (fram um miðja 20. öld reyndar langmest í vesturíslensku blöðunum). En með ýmsum þjóðfélagsbreytingum á seinni hluta 20. aldar jókst þörfin á að tala um annað foreldra án þess að tilgreina föður eða móður, og þá margfaldaðist notkun eintölunnar foreldri.

Annað dæmi er orðið fræði. Það er vissulega gefið upp sem tvö orð í orðabókum – annars vegar kvenkynsorðið fræði sem er sagt bara til í eintölu (málfræði, stærðfræði) og hins vegar hvorugkynsorðið fræði sem er sagt bara til í fleirtölu (íslensk fræði, kristin fræði). Merkingin er þó nánast sú sama, og ég sé því enga ástæðu til annars en líta á þetta sem eitt og sama orðið sem skipti um kyn eftir tölu. Er nokkuð að því að fætur geri það líka?

Eignarfall -ing-orða

Iðulega má sjá, jafnvel í vönduðu máli, dæmi eins og vegna lagningu, til byggingu, drottningunnar o.s.frv. í stað vegna lagningar, til byggingar, drottningarinnar. Því er oft haldið fram að þetta sé nýleg tilhneiging og það hélt ég til skamms tíma. En þetta má rekja meira en öld aftur í tímann, eins og sést ef leitað er að t.d. til byggingu og vegna byggingu á tímarit.is. Þar má finna hátt í þúsund dæmi um þessi sambönd, það elsta frá 1895 – og er þar þó um að ræða texta sem er að mestu leyti prófarkalesinn.

Ástæður þessarar breytingar eru sennilega fleiri en ein. Eitt er það að langflest kvenkynsorð hafa bara tvær mismunandi myndir í eintölu – annaðhvort eru nefnifall, þolfall og þágufall eins en eignarfall öðruvísi (sterk beyging, mynd – mynd – mynd – myndar) eða nefnifall er sér á báti en þolfall, þágufall og eignarfall eins (veik beyging, saga – sögu – sögu – sögu). (Nokkur kvenkynsorð sem enda á -i hafa sömu mynd í öllum föllum, svo sem gleði, en þau skipta ekki máli hér.)

Orð sem enda á -ing hafa hins vegar þrjár mismunandi myndir í eintölu (bygging – byggingu – byggingu – byggingar). Auk þeirra eru það einkum kvennanöfn sem hafa þrjár myndir, en sum þeirra hafa líka tilhneigingu til að laga eignarfallið að þolfalli og þágufalli (til Björgu í stað til Bjargar). Ef eignarfallið fær sömu mynd og þolfall og þágufall laga -ing-orðin sig að því almenna einkenni kvenkynsorða að hafa bara tvær mismunandi myndir í eintölu og því má segja að þannig falli þau betur að málkerfinu.

En fleira kemur til. Langflest orð sem hafa -u í þolfalli og þágufalli hafa það líka í eignarfalli (veika beygingin, saga, eins og nefnt er að framan). Með því að taka upp -u í eignarfalli laga -ing-orðin sig að því mynstri. Eignarfall er líka langsjaldgæfasta fallið og því viðkvæmt fyrir áhrifum frá öðrum beygingarmyndum. Þegar allt þetta leggst saman þarf ekki að undrast að -ing-orðin hafi tilhneigingu til að fá -u-endingu í eignarfalli í stað -ar.

Fyrir 30 árum eða svo heyrði ég í útvarpi tilkynningu frá Vegagerðinni um að tiltekinn vegur yrði lokaður „vegna lagningu klæðningar“. Þarna komu saman tvö -ing-orð sem bæði standa í eignarfalli, og bæði ættu því að fá -ar-endingu samkvæmt hefð – en annað þeirra fékk -u-endingu í staðinn. Þótt ég sé alinn upp við -ar-eignarfall og hafi enga tilhneigingu til að setja -u í staðinn finnst mér þetta hljóma mun betur en „rétta“ útgáfan, vegna lagningar klæðningar. Hins vegar gæti ég ómögulega haft -u á báðum stöðum, þ.e. vegna lagningu klæðningu, og ekki heldur víxlað endingum, vegna lagningar klæðningu.

Þótt auðvelt sé að skýra þessa tilhneigingu þýðir það ekki endilega að við eigum að láta hana hafa sinn gang – það verður hver að meta fyrir sig. En hún raskar grundvelli beygingakerfisins ekki að neinu leyti – orðin sem um er að ræða halda áfram að beygjast, bara örlítið öðruvísi en áður. Ekki er heldur um það að ræða að beygingarending sé að hverfa úr málinu því að -ar-ending í eignarfalli kvenkynsorða stendur styrkum fótum eftir sem áður. Mér finnst þetta satt að segja frekar meinlaus breyting.