Posted on Færðu inn athugasemd

Nauðsyn nýrra viðmiða

Reiðareksmönnum“ eins og mér er iðulega borið það á brýn að telja allt sem fólk segir eða skrifar jafngott og jafngilt. En það er fjarri sanni, og ég fellst fúslega á að það sé gott og gagnlegt – og nauðsynlegt – að hafa einhver viðmið um vandaða, formlega íslensku. Ég held hins vegar að það sé mjög brýnt að breyta þeim viðmiðum sem hafa gilt undanfarna öld og færa í átt til þess máls sem almenningur talar og skrifar – ekki endilega í öllum atriðum, og ekki endilega alla leið. Þetta þarf helst að gerast án þess að fórnað sé hinu órofa samhengi í íslensku ritmáli sem svo oft er vegsamað – með réttu.

Vandinn er bara sá að við höfum hvorki tæki né vettvang til slíkra breytinga. Það hefur enginn lengur þá stöðu sem Björn Guðfinnsson, Halldór Halldórsson, Árni Böðvarsson, Gísli Jónsson og Baldur Jónsson (allt karlmenn, auðvitað) höfðu á síðustu öld. Ég held að það vilji heldur enginn hafa slíka stöðu – eða vilji að einhver einn hafi þá stöðu yfirleitt. Ef einhver ætti að beita sér fyrir endurskoðun viðmiðanna væri það kannski helst Íslensk málnefnd sem hefur m.a. það hlutverk „að veita stjórn­völdum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli“. Samkvæmt þingsályktun sem samþykkt var vorið 2019 ber Íslenskri málnefnd að hafa forystu um endurskoðun íslenskrar málstefnu sem á að ljúka fyrir árslok 2020.

En almenn stefna er eitt, útfærsla hennar annað, og jafnvel þótt einhver hefði boðvald eða kennivald til að endurskoða viðmiðin væri það ýmsum vandkvæðum bundið. Þau eru nefnilega hvergi skráð nema að hluta til – þau felast mestanpart í einhverri tilfinningu sem erfitt er að negla niður, og fæst varla nema með lestri texta þar sem honum er fylgt. Ég vona samt að endurskoðuð málstefna felist ekki bara í almennum orðum sem við gerum öll tekið undir, heldur verði einnig hugað að því að endurskoða viðmið um vandað og viðurkennt íslenskt mál. Fyrsta skrefið er að vekja umræðu og greina stöðuna.

Posted on Færðu inn athugasemd

Tilbrigði og stéttaskipting

Tilbrigði í máli hafa verið heldur illa séð á Íslandi síðan á 19. öld. Þar sem mismunandi málvenjur hafa verið uppi hefur verið lögð áhersla á að hampa einni þeirra sem réttri en segja hinar „rangt mál“. Þetta gildir á flestum sviðum málsins – í beygingum, fallstjórn, orðaröð, setningagerð og merkingu orða. Dæmin eru svo mörg og svo vel þekkt að óþarfi er að tilgreina þau hér. Eina svið málsins sem hefur sloppið að mestu við þessa samræmingaráráttu er framburður. Vissulega lagði Björn Guðfinnsson fram tillögur að samræmingu framburðar um miðja síðustu öld en þeim var ekki hrundið í framkvæmd, þótt ómögulegt sé að segja hvað hefði orðið ef Birni hefði enst aldur til að fylgja þeim eftir.

Þótt óneitanlega hafi tíðkast að gera grín að ýmsum framburðartilbrigðum hafa þau sjaldnast verið talin beinlínis röng. Sennilega stafar þetta af því að tilbrigðin tengdust flest tilteknum landsvæðum og fólk greip til varna fyrir sitt hérað. Þau fáu tilbrigði sem hafa leyfst á öðrum sviðum, svo sem í beygingu og merkingu, hafa flest verið af þessu tagi – tiltekin beyging eða merking orðs tengist ákveðnu landsvæði og er þess vegna frekar umborin. Einu framburðartilbrigði, „flámælinu“ svokallaða, var þó reynt að útrýma skipulega – með ýmsum aðferðum sem sumar hverjar þættu ekki við hæfi nú. En það var einmitt ekki bundið einu tilteknu landsvæði heldur kom upp á nokkrum stöðum á landinu – og sum þeirra landsvæða voru ekki hátt skrifuð meðal þeirra sem réðu mestu í menntun og menningarlífi.

Fólk sem ræður yfir tungumálinu ræður yfir þjóðfélaginu og andstaðan við tilbrigði er í grunninn pólitík. Hún beinist gegn máli þeirra sem eiga undir högg að sækja, þeirra sem eru ekki í valdastöðum í þjóðfélaginu. Þess vegna eru landshlutabundin tilbrigði viðurkennd og jafnvel hampað – þau eiga sér þingmenn. En málbrigði sem einkum eru bundin við ungt fólk og fólk sem er lítið menntað, af erlendum uppruna, eða stendur af einhverjum sökum höllum fæti í þjóðfélaginu eiga sér enga þingmenn. Þess vegna eru þau fordæmd og voru iðulega – þótt það sjáist sem betur fer sjaldan í seinni tíð – tengd við leti, seinfærni í námi, greindarskort, og höfuðborgarsvæðið.

Með þessu er ég hvorki að segja að öll málvöndun sé af hinu illa né að fólk sem amast við tilbrigðum í máli sé meðvitað að reyna að halda öðrum niðri. Því fer fjarri. Þvert á móti er ég sannfærður um að flestum sem gera athugasemdir við málfar og beita sér gegn málbreytingum gengur gott eitt til og vilja fyrst og fremst vernda og varðveita íslenskuna. En andstaða við tilbrigði í máli er ekki rétta aðferðin til þess. Sú andstaða fletur og geldir málið, auk þess sem hún ýtir undir málfarslega mismunun og stéttaskiptingu. Í rannsóknum undanfarinna áratuga hafa komið fram skýrar vísbendingar um tengsl ákveðinna fordæmdra málbrigða hjá börnum við menntun og þjóðfélagsstöðu foreldra. Við þurfum að vinna gegn því í stað þess að ýta undir það.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hertari aðgerðir

Á þessum tímum þegar sífellt er verið að grípa til einhverra aðgerða í baráttunni við kórónuveiruna heyrir maður oft talað um hertari aðgerðir – í miðstigi. Það má halda því fram að miðstigið sé þarna óþarft vegna þess að það felist í grunnmerkingu orðsins – nóg sé að segja hertar aðgerðir. Sá munur er á merkingu lýsingarorðsins harður og lýsingarorðsins (eða lýsingarháttarins) hertur að hið fyrrnefnda felur ekki í sér breytingu á ástandi en hið síðarnefnda gerir það.

Hér spilar líka inn í að þegar sífellt er verið að herða aðgerðir finnst fólki það kannski kalla enn frekar á miðstigið – um daginn var gripið til hertra aðgerða, og nú á að grípa til enn hertari aðgerða. Það má líka halda því fram að þetta geti að einhverju leyti farið eftir því við hvað er miðað – ef miðað er við eðlilegt ástand má segja að aðgerðirnar séu hertari en þær sem síðast var gripið til, en ef miðað er við núverandi ástand eru þær bara hertar frá því.

En samt: Það er varla hægt að segja að það sé rangt að tala um hertari aðgerðir en miðstigið er þarna óþarft – merkingin skilar sér alveg í frumstiginu. Það er samt sem áður ekkert undarlegt að fólk noti miðstig þarna – við erum vön því að nota miðstig einmitt til að tákna aukningu á því sem í orðinu felst, eins þarna er um að ræða, og hyllumst því til að bæta miðstigsendingunni við þótt hún sé strangt tekið óþörf.

Á vissan hátt má segja að þetta sé hliðstætt því þegar talað er um hæstlaunuðustu störfin eða fólkið – þar er efsta stigið komið fram í fyrri hluta orðsins, en af því að við erum vön að tákna það með endingu aftast í orðinu finnst okkur hún þurfa að koma líka.

Posted on Færðu inn athugasemd

hnjá(a)

Nýlega rakst ég á setninguna „hún hnjár boltann í þverslána“ í knattspyrnulýsingu á vefmiðli. Ég hnaut um orðið hnjár sem ég man ekki eftir að hafa séð áður – en er augljóslega sögn miðað við setningafræðilega stöðu, og vel skiljanleg af samhenginu. Nafnháttur sagnarinnar er væntanlega hnjá – sagnir sem hafa á í stofni hafa yfirleitt enga sérstaka nafnháttarendingu, sbr. spá, , , sjá o.fl. En ef nafnhátturinn er hnjá mætti reyndar búast við því að nútíðin væri einhvern veginn öðruvísi en hnjár – t.d. *hnjáir, sbr. spáir, eða *hnjær, sbr. fær og nær, eða *hnér, sbr. sér. Ég finn samt engin dæmi um þær orðmyndir – og þetta tiltekna dæmi, og annað um myndina hnjáði, eru raunar einu dæmin sem ég finn um myndir sem virðast leiddar af nafnhættinum hnjá.

Hins vegar fann ég fáein dæmi á netinu um myndirnar hnjáar og hnjáaði sem ættu að vera af nafnhættinum hnjáa. Báðir nafnhættir, hnjá og hnjáa, gætu vel staðist. Endingarleysi nafnhátta með á í stofni má skýra með hljóðfræðilegum aðstæðum í málinu fyrir mörgum öldum. En þær hljóðfræðilegu aðstæður eru ekki lengur fyrir hendi og þess vegna er ekkert óeðlilegt að nýjar sagnir sem koma inn í málið og hafa á í stofni bæti við sig nafnháttarendingunni -a eins og allar aðrar nýjar sagnir. Nafnhátturinn hnjá væri því myndaður með hliðsjón af sögnum sem fyrir eru í málinu, en nafnhátturinn hnjáa út frá þeim reglum sem gilda í nútímamáli. Hvort tveggja er í góðu lagi.

Myndin hnjá- kemur aðeins fyrir í þágufalli og eignarfalli fleirtölu af orðinu hnéhnjám og hnjáa. Í öllum föllum eintölu er notuð myndin hné og vegna þess að aðeins annað hnéð er notað til að hnjá(a) hefði e.t.v. mátt búast við því að sú stofnmynd væri notuð í orðmynduninni. Það hefur reyndar verið gert – á netinu má finna nafnháttinn hnéa og myndir eins og hnéar og hnéaði. Einnig má finna dæmi um myndirnar hnéum og hnéa í þágufalli og eignarfalli fleirtölu af hné. Þessar myndir falla mun síður að málkerfinu – röðin éa er hvergi til nema í þágufalli og eignarfalli orðsins hlé (hléum og hléa). Þess vegna eru myndirnar hnjá og hnjáa heppilegri en hnéa.

Þótt sögnin hnjá(a) hafi komið mér spánskt fyrir sjónir sé ég í fljótu bragði ekki annað en hún sé gagnleg viðbót við orðaforða málsins og geti alveg samræmst reglum þess. Hvernig ætti annars að orða það þegar leikmaður notar hnéð til að breyta stefnu boltans – eða rekur hnéð í annan leikmann? Er ekki bara fínt að hafa sérstaka sögn til að tjá þá merkingu frekar en nota einhverja langloku?

Posted on Færðu inn athugasemd

Bæði skærin

Á mínu heimili, eins og líklega flestum öðrum, eru til skæri. Ekki bara ein skæri, heldur önnur líka, og af því að skæri er fleirtöluorð eru það tvenn skæri, ekki *tvö skæri. Allt í lagi með það – ég ræð vel við það. Nú vildi svo til um daginn að önnur skærin týndust, og skömmu síðar hin einnig. Það var orðið neyðarástand á heimilinu eins og fólk getur ímyndað sér þannig að ég fór að leita að skærunum og fann þau að lokum þar sem þau höfðu lent til hliðar við skúffu í eldhúsinu.

Ég fór sigri hrósandi til konunnar minnar til að segja frá þessu afreki mínu – en þá varð ég kjaftstopp og vissi ekkert hvað ég ætti að segja. „Ég fann bæði skærin!“ Nei, það gengur ekki – það má ekki nota bæði með fleirtöluorðum. „Ég fann hvortveggja skærin!“ Nei, fjandakornið – það get ég ekki með nokkru móti sagt, þótt ég viti að það er „rétta“ aðferðin til að segja þetta. „Ég fann fyrst önnur skærin, og svo hin!“ Já, en það er bara ekki rétt lýsing á staðreyndum því að skærin fundust samtímis.

Svo að ég lét bara verkin tala og otaði skærunum framan í frúna til að sýna hvað ég hefði verið fundvís. En það er samt eiginlega engin lausn. Það gengur auðvitað ekki að hafa enga leið til að segja jafn einfaldan hlut og að tvenn skæri hafi fundist. Hvernig á að fara að þessu? Getur einhver sagt hvortveggja skærin? Truflar bæði skærin venjulegt fólk?

Posted on Færðu inn athugasemd

Gaman að því

Um daginn skrifaði ég um orðin svoleiðis, svona og þannig og benti á að þótt þau hafi til skamms tíma verið flokkuð sem atviksorð standa þau mjög oft í setningafræðilegri stöðu lýsingarorðs (eða fornafns). En þetta er ekkert einsdæmi. Orðið gaman er flokkað sem nafnorð í öllum orðabókum, og hagar sér auðvitað oftast eins og venjuleg nafnorð gera. Við segjum ég hafði gaman af þessu eins og ég hafði skemmtun af þessu; lesa sér til gamans eins og lesa sér til skemmtunar; gamanið fór að grána eins og skemmtunin fór að súrna; ég sagði þetta í gamni eins og ég sagði þetta í gríni; o.s.frv. En stundum hagar gaman sér öðruvísi en búast má við af nafnorði.

Á eftir það er … getur komið hvort heldur er nafnorð eða lýsingarorð – við getum sagt það er leikur að lesa og það er gaman að lesa, en líka það er skemmtilegt að lesa. Hér er leikur ótvírætt nafnorð en skemmtilegt ótvírætt lýsingarorð. En ef við látum áhersluorð fylgja kemur í ljós að það er hægt að láta atviksorð standa með gaman, rétt eins og með skemmtilegt – en alls ekki með leikur. Við getum sagt það er mjög gaman að lesa og það er mjög skemmtilegt að lesa, en alls ekki *það er mjög leikur að lesa – það er alveg út í hött. Og sama gildir um önnur atviksorð – það er hægt að segja ákaflega gaman, rosalega gaman, ógeðslega gaman o.s.frv.

Atviksorð standa sem ákvæðisorð með lýsingarorðum en yfirleitt ekki með nafnorðum, og því er að sjá sem gaman hagi sér eins og lýsingarorð í setningum á við það er gaman að lesa. Þá er spurningin: Eigum við að segja að gaman sé alltaf nafnorð en hagi sér stundum eins og lýsingarorð – eða eigum við að segja að gaman sé að upplagi nafnorð en geti líka verið lýsingarorð við ákveðnar aðstæður? Það er ekkert einsdæmi að sama orðið sé talið til mismunandi orðflokka eftir setningafræðilegri stöðu. Forsetningar eru greindar sem atviksorð ef þær missa fallorð sitt, lýsingarháttur þátíðar er sagnmynd en verður oft að lýsingarorði, og fleiri dæmi mætti nefna.

Það er auðvitað ljóst að gaman væri mjög ódæmigert lýsingarorð – það hvorki stigbreytist né beygist í kynjum. Við segjum ekki *gamön (eða *gömun) í kvenkyni og *gamant í hvorugkyni, og ekki heldur *gamnari í miðstigi og *gamnastur í efsta stigi. En þetta væri samt ekki einsdæmi um lýsingarorð. Sama gildir um svoleiðis, svona og þannig ef þau eru greind sem lýsingarorð við vissar aðstæður – en líka um ótvíræð lýsingarorð eins og þau sem enda á sérhljóði, oftast -a (andvaka, samferða o.s.frv.) en líka -i (hugsi, þurfi, og lýsingarhætti nútíðar eins og æpandi).

Við gætum e.t.v. reynt að segja að vegna þess að mjög getur staðið með gaman í það er gaman að lesa sé eðlilegt að greina gaman sem lýsingarorð þar, sem og í öðrum setningum þar sem hægt er að setja skemmtilegt (eða eitthvert annað lýsingarorð) í staðinn. En vandinn er sá að það dugir ekki. Það er nefnilega líka hægt að hafa mjög með gaman í setningum þar sem alls ekki er hægt að setja lýsingarorð í staðinn, eins og ég hef mjög gaman af lestri. Það er útilokað að segja *ég hef mjög skemmtilegt af lestri – hins vegar er hægt að setja nafnorð í staðinn og segja ég hef skemmtun af lestri – en ekki *mjög skemmtun, heldur mikla skemmtun.

Ekki nóg með það. Þótt vissulega sé stundum hægt að setja gaman í stað lýsingarorðs eins og sýnt er hér að framan er það einungis við sérstakar kringumstæður. Við getum sagt þetta er mjög skemmtilegt og þetta er mjög gaman, en bara barnið / blaðið er mjög skemmtilegt, alls ekki *barnið/ blaðið er mjög gaman. Það virðist eingöngu vera hægt að nota gaman í slíkum setningum þegar frumlagið er þess eðlis að sagnfyllingin þarf ekki að samræmast því – en hér er fyrir löngu komið út í alltof flókin og tæknileg atriði fyrir þennan vettvang. Ég hallast samt að því að eðlilegt sé að segja að gaman sé alltaf nafnorð en afbrigðilegt að því leyti að það geti tekið með sér atviksorð sem ákvæðisorð – án þess að það geri það að lýsingarorði.

Ég á ekki von á að mörgum endist þolinmæði til að lesa þessa langloku, og það er í góðu lagi. En tilgangurinn er ekki að leysa neitt vandamál eða svara spurningum, heldur vekja athygli á sérviskulegri hegðun þessa algenga og hversdagslega orðs, gaman. Það leynir á sér.

Posted on Færðu inn athugasemd

Frelsi og ábyrgð

Þótt ég fjalli hér oft um málbreytingar af ýmsu tagi án þess að fordæma þær eða kalla þær „rangt mál“ legg ég áherslu á að markmið mitt er alls ekki að ýta undir breytingar eða hvetja til þeirra. Þvert á móti – ég tel af ýmsum ástæðum æskilegt að íslenskan breytist sem minnst, umfram það sem nauðsynlegt er til að koma til móts við margvíslegar nýjungar bæði í efnisheiminum og hugmyndaheimi okkar þannig að hún þjóni samfélaginu og samtímanum sem best.

Á hinn bóginn tel ég ástæðulaust og í mörgum tilvikum til bölvunar, bæði fyrir málnotendur og málið sjálft, að berjast gegn tilbrigðum sem eiga sér jafnvel áratuga eða alda sögu og eru útbreidd meðal málnotenda. Þau eru til og verða ekki barin niður – þrátt fyrir langa og ákafa baráttu í mörgum tilvikum. Ég vil auka skilning á þessum tilbrigðum, reyna að átta mig á og útskýra fyrir öðrum hvernig og hvers vegna þau koma upp, í þeirri von að fólk verði umburðarlyndara gagnvart þeim.

En þótt ég vitni oft í Málfarsbankann og sé iðulega á öndverðum meiði við hann um málfarsatriði finnst mér fullkomlega eðlilegt og nauðsynlegt að slíkur upplýsingabanki sé til, og þar sé gerð grein fyrir því hvað hefur verið talið rétt og viðurkennt mál. Ég er að vísu ekki alltaf sáttur við framsetningu ábendinga í bankanum, en meðan sú skoðun er ríkjandi eða a.m.k. útbreidd að ýmis þekkt tilbrigði eigi ekki heima í formlegu máli þurfa málnotendur að hafa aðgang að upplýsingum um það.

Þegar ég hef verið að útskýra eitthvert tilbrigði sem venja hefur verið að telja „rangt“, og benda á að e.t.v. sé þetta í góðu lagi, hef ég stundum fengið viðbrögð á við „Já, það getur verið, en ég ætla nú ekki að fara að breyta mínu máli“. Auðvitað hvarflar ekki að mér að ætlast til eða gera ráð fyrir að fólk breyti máli sínu eða málkennd. Ég ætlast heldur ekki til að fólk hætti að láta tiltekin atriði í málfari annarra fara í taugarnar á sér – við getum oft lítið að því gert.

Ég vonast hins vegar til að hætt verði að flokka fólk eða dæma eftir málfari, að fólk átti sig á og viðurkenni að lifandi mál er fullt af tilbrigðum af ýmsu tagi, og það er í góðu lagi – og raunar bráðnauðsynlegt til að málið lifi áfram, höfði til málnotenda og þjóni þörfum þeirra. Við þurfum að veita öllum málnotendum hlutdeild í íslenskunni, leyfa þeim að finna að þetta er þeirra mál, sem þeim er frjálst að nota á þann hátt sem þeim finnst eðlilegt.

En jafnframt þurfum við að gera þeim ljóst að frelsinu fylgir ábyrgð, og þeirra er ábyrgðin á að skila málinu áfram.

Posted on Færðu inn athugasemd

Síga upp

Í Málfarsbankanum segir: „Ekki er hægt að tala um að eitthvað „sígi upp á við“, t.d. vextir. Sögnin síga á annaðhvort við hreyfingu niður á við eða áfram.“ Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru gefnar tvær merkingar sagnarinnar: 'mjakast niður, fara hægt og hægt niður' og 'hafa hæga framvindu'. Samkvæmt þessu ætti hvorki að vera hægt að nota sögnina um hreyfingu upp á við né aftur á bak. Um hvort tveggja eru þó ýmis gömul dæmi.

Í grein um Feneyjar í Þjóðólfi 1890 er því lýst „þegar hinir daggvotu turnar, kúlur og turnspírur hægt og hægt koma í ljós fram úr morgunmóðunni, eins og menn sæju þau síga upp úr djúpi sævarins“. Í blaðinu Austra birtist árið 1900 kvæði eftir Matthías Jochumsson, „Ferð upp í Fljótsdalshérað, 1900“. Þar segir: „Þokunni þegar svo brá / að þyrlaðist austur og vestur, / sum bak við fellin, en sum / seig upp í loptið og hvarf.“ Í Morgunblaðinu 1936 segir: „Þá hefur neyzla sjávarafurða einnig sigið upp á við.“ Í Fréttablaðinu 2006 segir: „Úrvalsvísitalan hefur sigið upp á við eftir mikla niðursveiflu um miðjan október.“

Í Nýja dagblaðinu 1937 segir: „Hann seig aftur á bak, tók síðasta andvarpið og kollsteyptist niður fyrir.“ Í Fróða 1912 segir: „loks fóru þeir að síga aftur úr, þangað til þeir voru orðnir ein 50-60 fet á eftir.“ Í Íslandi 1927 segir: „þeir, sem farið hafa mentabrautina eru alt af meira og meira að síga aftur úr á stjórnmálabrautinni“. Í DV 1994 segir: „33 varpa öndinni léttar þegar Drangey sígur aftur á bak og naumlega er komist hjá slysi.“ Eins og þessi dæmi sýna hefur sögnin síga sannanlega verið notuð um hreyfingu bæði upp á við og aftur á bak, þótt dæmin séu vissulega ekki ýkja mörg. Athyglisverðast er dæmið frá séra Matthíasi.

Þegar að er gáð er það reyndar dálítið sérkennilegt ef hægt er að nota síga um hreyfingu niður og áfram, en ekki um hreyfingu upp og til baka. Einhvern veginn fyndist manni eðlilegt að niður og til baka ætti saman, og svo upp og áfram. Ég ímynda mér að þessi sérkennilega pörun geti valdið því að málnotendur hafi tilhneigingu til að líta fram hjá allri stefnumerkingu í sögninni en horfi eingöngu á það að hún vísar ævinlega til hægrar hreyfingar – og noti hana um hæga hreyfingu í hvaða átt sem er. Þannig get ég a.m.k. notað hana – mér finnst ekkert óeðlilegt að segja að gengi eða vextir sígi upp á við.

Eftir sem áður er hreyfing niður á við þó í einhverjum skilningi innbyggð í sögnina – ef hún er notuð ein og sér, án nokkurrar áttatáknunar, vísar hún ævinlega til hægrar hreyfingar niður á við. Gengið hefur sigið getur ekki merkt 'gengið hefur hækkað hægt', og gengissig er ævinlega niður á við. Að þessu leyti má kannski líkja sögninni við líka (við) – ef hún er notuð ein og sér, mér líkar (við) þetta, merkir hún 'mér líkar þetta vel', en svo er hægt að bæta við atviksorði til að ná fram öfugri merkingu, mér líkar þetta illa, mér líkar illa við þetta. Þarna er jákvæð merking innbyggð í sögnina en hægt að neita henni.

Posted on Færðu inn athugasemd

Húðlitað

Í gær var í Fréttablaðinu fyrirsögnin „Húðlitað vinsælt núna“. Þetta fór fyrir brjóstið á mörgum sem eðlilegt er. Vitanlega gæti húðlitað vísað til hvaða hörundslitar sem væri, eins og það er t.d. skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók: 'með lit sem líkist mannshörundi, ljósu eða dökku eftir atvikum'. En það var ekki merkingin þarna, því að í fréttinni stóð: „Um þessar mundir eru húð- og beislitaðir kjólar vinsælir“. Þar er augljóslega vísað til þess hörundslitar sem er algengastur á Íslandi.

Orðið húðlitaður er ekki mjög gamalt í málinu – elsta dæmið á tímarit.is er frá 1961. Á þeim tíma var merking þess ótvíræð – þá höfðu næstum allir Íslendingar þennan sama hörundslit. En það kemur á óvart að notkun orðsins hefur aukist mjög mikið síðan um aldamót ef marka má tímarit.is – einmitt á sömu árum og fólki með annan hörundslit hefur fjölgað mjög á landinu. (Færri dæmi á öðrum áratug aldarinnar en þeim fyrsta skýrist væntanlega aðallega af því að minna efni er komið inn frá síðustu árum.)

Það er eðlilegt að fólki með annan húðlit sárni að sjá þetta orð notað en vitanlega liggur enginn illur hugur þar að baki, heldur hugsunarleysi. Það getur komið fyrir okkur öll að nota tungumálið á þann hátt að það særi viðmælendur eða lesendur – nota fordómafullt eða útilokandi orðalag sem við höfum alist upp við en er ekki lengur gjaldgengt. Þótt húðlitaður væri ekkert óeðlilegt orð í mínu ungdæmi fyrir 50-60 árum er það í sama flokki og negri, kynvillingur, vangefinn og önnur slík – það er óboðlegt. Frelsi okkar til að nota tungumálið að vild nær ekki til þess að nota það til að meiða annað fólk.

Posted on Færðu inn athugasemd

Settust!

Þegar ég fluttist til Sauðárkróks framan úr sveit haustið 1967 tók ég fljótt eftir því að krakkar þar sögðu settust í stað sestu sem ég var vanur – veit ekki hvað fullorðna fólkið gerði. Þetta hljómaði undarlega fyrst í stað en ég vandist því fljótt þótt ég tæki það ekki upp. En ég var lítið á Króknum eftir 16 ára aldur og heyrði þessa orðmynd eða aðrar hliðstæðar ekki næstu áratugina. Svo liðu 45 ár. Sumarið 2013 sá ég auglýsingu um tónlistarhátíðina Gæruna á sjoppuvegg á Króknum. Þar stóð „Fylgdust með okkur á Facebook“. Það var sem sé greinilegt að þessi boðháttarmyndun var enn notuð á Króknum, og eftirgrennslan bendir til að myndir af þessu tagi séu helst notaðar á Norðurlandi.

Stofn boðháttar er venjulega eins og nafnháttur sagna að frádreginni nafnháttarendingunni -a (eða -ja, ef nafnhátturinn endar þannig); í sögnum sem enda á -aði í þátíð eins og kalla er -a hluti stofns en ekki nafnháttarending. Boðháttur setja er því set, boðháttur fylgja er fylg, boðháttur gera er ger, og boðháttur kalla er kalla. En stofninn er sjaldan eða aldrei notaður einn sér nema í formlegu máli. Þess í stað er bætt við hann -ðu, eins og í gerðu, -du, eins og í fylgdu, eða -tu, eins og í settu. Þetta -ðu/-du/-tu er komið úr annarrar persónu fornafninu þú, og það er gerð (hljóðafar) sagnstofnsins sem ræður því hvert afbrigðið er notað en ástæðulaust að fara út í það hér enda reglurnar ekki alveg einfaldar.

Sagnirnar gera, fylgja og setja eru í miðmynd gerast, fylgjast og setjast. Miðmyndarendingin –st sem bætist við nafnháttinn var áður -sk og er orðin til úr afturbeygða fornafninu sig sem áður var sik. Það er ástæðulaust að rekja þá þróun hér. En þetta þýðir að í boðháttarmyndum eins og gerstu, fylgstu og sestu bætast við stofninn tvær endingar sem báðar eru í raun eins konar leifar sjálfstæðra orða. Samsetning orðanna er því ger+st+tu, fylg+st+tu, set+st+tu. Þarna „ættu að“ koma saman tvö t en slík sambönd eru óhugsandi í íslensku hljóðkerfi og styttast ævinlega. Útkoman er því gerstu, fylgstu, sestu (ekki *gersttu, *fylgsttu, *sesttu).

Í myndum eins og gerðust, fylgdust, settust er endingunum tveimur, miðmyndarendingunni og annarrar persónufornafninu, er bætt við stofninn í öfugri röð við það sem venja er. Í stað ger+st+tu, fylg+st+tu, set+st+tu er röðin ger+ðu+st, fylg+du+st, set+tu+stgerðust, fylgdust, settust. Hvers vegna þessi víxl verða er svo annað mál. Ein ástæða gæti verið sú að miðmyndarendingin er venjulega aftast í orðum, á eftir öðrum endingum – við segjum þetta gerðist (ger+ði+st, ekki *gerstði, ger+st+ði), þau fórust (fór+u+st, ekki *fór+st+u). E.t.v. finnst málnotendum að miðmyndarendingin sé ekki á réttum stað í gerstu, fylgstu og sestu.

Vissulega er boðháttarendingin, leifar annarrar persónufornafnsins, venjulega líka aftast. En ekki geta tvær endingar verið aftast – önnur verður að víkja. Það gæti haft hér áhrif að í venjulegu boðháttarmyndunum gerstu, fylgstu og sestu er ekkert eftir af annarrar persónu fornafninu nema -ut-ið fellur brott vegna þess að það fer á eftir öðru t. Hugsanlega veldur þessi skerðing því að málnotendum finnst boðháttarendingin ekki nógu áberandi og finna leið til að leyfa henni að njóta sín – með því að færa hana fram fyrir miðmyndarendinguna og segja gerðust, fylgdust og settust.

En ekki eru öll kurl komin til grafar. Ég hef heyrt af því að einnig séu til boðháttarmyndir eins og settustu. Þar lítur út fyrir að annarrar persónufornafninu sé bætt tvisvar við stofninn – set+tu+st+tu. Ég kann ekki að skýra þetta. Annað sem er vert að nefna eru myndir eins og við hittustum/sáustum í stað hittumst/sáumst o.s.frv. sem áður voru algengar og heyrast oft enn. Þetta eru vissulega ekki boðháttarmyndir, en í þeim verða líka víxl á endingum – í stað hitt+um+st kemur hitt+u+st+um (látum liggja á milli hluta af hverju u kemur þarna tvisvar fram).

Tilgangurinn með þessum pistli er ekki að gera ítarlega úttekt á þessum sérstöku boðháttarmyndum eða skýra þær til fulls, enda er þetta ekki fræðilegur vettvangur. Mig langaði bara til að vekja athygli á þessu og benda enn einu sinni á að það eru ekki endilega rétt viðbrögð að afgreiða frávik frá „réttu“ máli einfaldlega sem „villur“ – skynsamlegra og skemmtilegra er að velta þessum frávikum fyrir sér og skoða hvað þau geta sagt okkur um tungumálið og notendur þess.