Posted on Færðu inn athugasemd

Evrópska meginlandið

Í hádegisfréttum útvarpsins var sagt að von væri á hitabylgju á vesturhluta evrópska meginlandsins. Þetta er auðvitað íslenska og fráleitt væri að kalla þetta rangt mál. En þetta er ekki hefðbundið íslenskt orðalag. Venja er að tala um meginland Evrópu en ekki evrópska meginlandið. Á tímarit.is eru hátt í 15 þúsund dæmi um fyrrnefnda orðalagið, þau elstu frá miðri 19. öld, en aðeins 42 dæmi um það síðarnefnda.

Á ensku er talað um the European continent og trúlegt að það sé (ómeðvituð) fyrirmynd þess að tala um evrópska meginlandið. Ensk áhrif á íslensku koma ekki síst fram á þennan hátt og fólk tekur oft ekki eftir þessu vegna þess að orðin eru íslensk og ekki brotið gegn neinum reglum eða hefðum í beygingum eða setningagerð. Það er bara ekki venja að orða þetta svona á íslensku.

Það væri vissulega ekkert stórslys þótt þetta orðalag ryddi sér til rúms. En almennt séð finnst mér æskilegt að virða íslenska málhefð um þau atriði sem hún nær til. Þarna höfum við orðalag sem löng hefð er fyrir og eðlilegt að nota það áfram.

Posted on Færðu inn athugasemd

Mikilvægi yfirlestrar

Mér hefur sýnst að margir þeirra hnökra sem fólk kvartar undan í málfari annarra, t.d. í Málvöndunarþættinum á Facebook, séu í raun ekki málfarslegs eðlis, heldur stafi af fljótfærni og/eða hroðvirkni – fólk les ekki yfir þann texta sem það sendir frá sér. Í persónulegum samskiptum fólks er þetta auðvitað einkamál þeirra sem eiga í hlut, en þegar um er að ræða fjölmiðlafólk og aðra sem hafa atvinnu af tungumálinu getum við lesendur ætlast til þess að fólk vandi sig.

Í því samhengi má rifja upp söguna af vandvirkni Konráðs Gíslasonar (1808-1891) sem var einn af Fjölnismönnum og síðar lengi prófessor í Kaupmannahöfn. Hann þótti ákaflega nákvæmur, svo að ekki sé sagt smámunasamur. Orðabækur hans og útgáfur drógust sífellt á langinn, hann var alltaf að skrifa styrkveitendum sínum og launagreiðendum og óska eftir meira fé, og tilgreina nýjar lokadagsetningar sem aldrei stóðust. Þessi seinvirkni verður skiljanleg ef maður les lýsingu á vinnubrögðum hans í Séð og lifað, ævisögu Indriða Einarssonar systursonar hans:

„Ég kom til hans, þegar hann var að lesa prófarkirnar af Njálu. Hann fékk þrjár prófarkir af hverri örk. Lesmálið sjálft, sem var með stórum, skýrum stíl, las hann þrisvar í hverri próförk. Athugasemdirnar, sem voru með smáum stíl, las hann 10 sinnum í hverri próförk og gerði kross við fyrir hvern lestur. Hann las með þessu móti níu prófarkir á lesmálinu í Njálu, en 30 á athugasemdunum.“

Minna má nú gagn gera, og ég ætlast ekki til að nútímafólk feti í fótspor Konráðs að þessu leyti. En samt – yfirlestur er mikilvægur!

Posted on Færðu inn athugasemd

Höfuðlykill

Nýlega var ég að horfa á þátt um Lewis lögregluforingja í Oxford á DR1. Þegar ég horfi á þætti á ensku í danska sjónvarpinu les ég alltaf danska textann til að halda mér við í dönsku – af því líka að mér finnst danska skemmtilegt tungumál. Þarna hafði verið framið morð á hóteli og til að komast inn í tiltekið hótelherbergi þurftu þeir Lewis og Hathaway aðstoðarmaður hans að fá afnot af lykli sem gekk að öllum skrám – „hovednøgle“ stóð í danska textanum.

Þá rifjaðist upp fyrir mér að í fyrsta skipti sem ég komst í kynni við svoleiðis fyrirbæri var á heimavist MA fyrir tæpri hálfri öld. Þar var á þeim tíma tilnefndur hringjari úr hópi vistarbúa sem hafði það hlutverk að ganga um alla vistina snemma morguns með stóra bjöllu og hringja henni sem ákafast til að allir vistarbúar vöknuðu nú örugglega. Hringjaranum var treyst fyrir lykli sem gekk að öllum herbergjum og þess voru einhver dæmi að hann opnaði herbergi hljóðlega, læddist inn og hringdi bjöllunni rétt við höfuð steinsofandi vistarbúa sem hrökk að sjálfsögðu upp með andfælum.

Þetta var nú útúrdúr, en aðalatriðið er það að þetta þarfaþing, lykillinn, var kallað höfuðlykill – orð sem ég sé núna að er sniðið að danska orðinu yfir þetta fyrirbæri. En ef maður flettir höfuðlykill upp á Málið.is kemur það ekki fram í þessari merkingu, heldur eingöngu í íðorðasafninu „Íslensk plöntuheiti“ sem íslenskun á primula capitata. Í Íslenskri orðabók á Snöru er orðið alls ekki að finna, og ég man ekki eftir að hafa heyrt það eða séð í þessari merkingu lengi (í þeim fáu tilvikum sem orðið er notað í seinni tíð er það oftast í merkingunni 'aðallykill' frekar en 'allsherjarlykill').

Posted on Færðu inn athugasemd

Óboðleg umræða

Oft hefur mér ofboðið umræðan í Málvöndunarþættinum á Facebook – hneykslunin, hrokinn, umvöndunin, yfirlætið, orðfærið, dónaskapurinn, meinfýsnin, illgirnin – en aldrei sem nú. Tilefnið var viðtal við menntamálaráðherra í fréttum Stöðvar 2 í gær þar sem hún sagði „skólanir“ – án „r“. Þetta er reyndar ekkert einsdæmi – þótt lítið hafi verið skrifað um þennan framburð hefur lengi verið vitað að hann er til og hefur helst verið tengdur við Suðurland, einkum Árnessýslu.

Þetta er sem sé engin nýjung og engar líkur á að menntamálaráðherra hafi tekið þennan framburð upp hjá sjálfri sér. En það er vissulega rétt að fáir virðast þekkja þennan framburð og því ekkert undarlegt að fólk taki eftir honum og spyrjist fyrir um hann. Það er ekki heldur neitt undarlegt að fólk sem ekki þekkir framburðinn telji hann rangan. Við erum ansi föst í því að íslenskan sé og eigi að vera eins og við ólumst upp við hana – eða eins og okkur var kennt að hún ætti að vera.

En það sem gekk fram af mér að þessu sinni var orðfærið í umræðunni. Þar komu meðal annars fyrir eftirfarandi setningar og setningabrot:

  • „ekki boðlegt af menntamálaráðherra landsins“
  • „linmælgi“
  • „skrítið að heyra þetta latmæli“
  • „hefur ekki þótt til fyrirmyndar“
  • „mjög sorglegt að menntamálaráðherra skuli ekki tala betri íslensku“
  • „snilld að hafa menntamálaráðherra sem er ekki talandi á eigin tungu“
  • „kann ekki að bera fram réttilega“
  • „svona mannvitsbrekkur eru við stjórnvölinn í menntamálum þjóðarinnar“
  • „lágmarks krafa til menntamálaráðherra að […] hún […] sé þokkalega talandi á íslenska tungu“
  • „bull og getuleysi“
  • „talkennarar og skólar […] hafa lausnir við svona málhelti“
  • „frammistaða nefnds menntamálaráðherra […] öfugþróun en ekki þróun“
  • „ambögur og málhelti“
  • „ekkert til sóma“
  • „ofreyni sig við að reyna að vanda sig“
  • „mögulegt að tunguhaft valdi þessum framburði hjá ráðherranum“
  • „menntamálaráðherra þjóðarinnar er ótalandi á eigin tungu“
  • „afleitt að vera svona linmælt“
  • „klúðra svona feitt“
  • „linmælið er ekkert nýtt vandamál“
  • „ráðherramállýska“
  • „of ung til að valda embættinu“
  • „stressast svona og gengur í barndóm þegar hún talar“
  • „þennan sérstæða menntamálaráðherraframburð“
  • „hræðilegt að heyra“

Mér finnst yfirgengilegt að fólk skuli viðhafa svona tal um tilgreinda manneskju – jafnvel þótt menntamálaráðherra sé opinber persóna og þurfi vitanlega að þola gagnrýni. En þetta á ekkert skylt við málefnalega gagnrýni. Þetta er dónaskapur og persónuníð sem ekki á að líðast í opinberri umræðu. Og þetta á ekki heldur neitt skylt við málvöndun. Dettur virkilega einhverjum í hug að umræða af þessu tagi sé íslenskri tungu til framdráttar?

Posted on Færðu inn athugasemd

Móðurmál okkar getur ekki verið rangt

Í mínum fórum er afmæliskort sem Sverrir ömmubróðir minn sendi systur sinni á 15 ára afmæli hennar 1. júní 1921. Það er reyndar ljóst af rithöndinni að Sverrir skrifar þetta ekki sjálfur (hann var þarna tæpra 13 ára) heldur móðir þeirra systkina.


Takið eftir því að þarna stendur „frá Sverrir bróðir“ en ekki „Sverri bróður"eins og nú er kennt. Það kemur ekki á óvart – þetta var almennt mál á þessum tíma og flest eða allt fullorðið fólk sem ég ólst upp með talaði þannig. Því fór þó fjarri að það fólk væri einhverjir málsóðar. Valgerður langamma mín, sem skrifaði á kortið, var einstaklega ritfær og vel máli farin ef dæma má af þeim fáu bréfum hennar sem hafa varðveist.

Þetta fólk talaði ekki rangt mál. Það var alið upp við þessa beygingu. Hún var eðlilegt mál þess. Það er gersamlega fráleitt að kalla þessa beygingu ranga í máli þeirra sem hafa alist upp við hana. Og sama gildir um önnur tilbrigði í máli. Sú íslenska sem við ölumst upp við er okkar mál og aðrir eru ekki þess umkomnir að segja okkur að það sé rangt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Fjörug umræða um hljóðmyndun

Fyrir tæpum hálfum mánuði var sett inn áhugaverð fyrirspurn í hópinn Skemmtileg íslensk orð á Facebook þar sem forvitnast var um hvoru megin loftstraumurinn kæmi hjá fólki við myndun [l]-hljóðsins í orði eins og fjall. [l] er hliðarhljóð sem er myndað þannig að tungan lokar fyrir loftstrauminn við tannbergið (aftan við framtennurnar að ofan) en loftinu er hleypt út meðfram hlið tungunnar. Talið er algengast að loftstraumurinn fari hægra megin (sjá ör á mynd), en þó fer hann vinstra megin hjá sumum og jafnvel er til að hann fari báðum megin, einkum í órödduðu [l]-hljóði (eins og t.d. í piltur). Þetta hefur þó aldrei verið rannsakað í íslensku.


Þegar ég sá hversu mikil viðbrögð þessi fyrirspurn fékk þótt hún ætti svo sem ekki beinlínis heima í þessum hópi datt mér í hug að setja þar inn aðra hliðstæða – hvernig fólk myndaði [s]-hljóðið í orði eins og lesa. Það er nefnilega hægt að mynda það á tvo vegu – annaðhvort með tungubroddinn upp við tannbergið bak við framtennur að ofan (sjá mynd vinstra megin) eða sveigðan niður bak við framtennur að neðan (sjá mynd hægra megin). Hlutföllin milli aðferðanna hafa ekki verið rannsökuð en óformlegar athuganir benda til þess að u.þ.b. 3/5 málnotenda noti fyrrnefndu aðferðina.


Alls komu 236 andsvör við fyrri fyrirspurninni en 162 við þeirri seinni. Það er alls ekki einfalt að átta sig á eigin hljóðmyndun og því er í raun stórmerkilegt að fá svo mörg svör við fyrirspurnum um slík efni – og það á vettvangi sem er ætlaður fyrir umræður um orð en ekki hljóðfræði. En þetta sýnir hvað fólk er áhugasamt um tungumálið og til í að velta því fyrir sér og taka þátt í umræðum um það.

Það er mikilvægt að hafa í huga að í hvorugu tilvikinu er til einhver „rétt“ eða „viðurkennd“ leið við hljóðmyndunina. Fólki hefur aldrei verið sagt að það eigi að láta loftstrauminn koma hægra megin í [l] eða hafa tunguna uppi við tannbergið í [s]. Þess vegna er hægt að ræða þetta frjálst án þess að fólk sé fast í einhverjum boðum eða fordómum. Það er miklu skemmtilegra að ræða hvernig tungumálið er en hvernig það ætti að vera.

Posted on Færðu inn athugasemd

Hugbúnaður á íslensku

Eftir að einkatölvuvæðingin hófst upp úr 1980 voru nokkur frumstæð ritvinnslukerfi notuð fyrstu árin. Þau voru flest eða öll á íslensku – það þótti sjálfsagt og eðlilegt á þeim tíma. Árið 1986 tók ég þátt í að þýða ritvinnslukerfið WordPerfect (útgáfu 4.1). Það var mun fullkomnara en önnur kerfi sem þá voru í boði og náði um tíma yfirburðastöðu á markaðnum, ekki síst í krafti þess að vera á íslensku. Stýrikerfi Macintosh-tölva var líka á íslensku á þessum tíma og lengi eftir það.

Upp úr 1990 kom svo Windows-stýrikerfið og hugbúnaður tengdur því – Word, Excel o.fl. Þessi kerfi voru ekki þýdd framan af og á fáum árum virtist fólk gleyma því að hugbúnaður hefði haft íslenskt viðmót – eða gæti verið á íslensku yfirleitt. Windows var reyndar þýtt undir aldamótin fyrir atbeina Björns Bjarnasonar þáverandi menntamálaráðherra en sú þýðing þótti misheppnuð – fólk sætti sig ekki við ýmsa orðanotkun í henni og auk þess var hún gölluð tæknilega þannig að tölvur sem hún var sett upp á voru alltaf að frjósa.

Þótt nýrri gerð Windows væri þýdd fáum árum síðar, og væri laus við þessa hnökra, var komið óorð á Windows á íslensku þannig að þýðingin fékk litla útbreiðslu, a.m.k. lengi framan af. Ég þekki fjölmargt áhugafólk um íslensku sem enn notar Word og önnur Windows-forrit á ensku. Sjálfur skipti ég yfir í íslensku þýðinguna fyrir mörgum árum og það hefur aldrei valdið nokkrum minnstu vandkvæðum. Vissulega þarf maður að venjast orðum og orðanotkun í byrjun, en það tekur skamman tíma. Og fyrir börnum sem nota þýðinguna frá upphafi tölvunotkunar er þetta fullkomlega eðlilegt.

Nú er ýmis hugbúnaður sem almenningur notar fáanlegur með íslensku viðmóti. Stundum hafa framleiðendur eða umboðsmenn búnaðarins látið þýða hann en í öðrum tilvikum, eins og með Facebook, eru það sjálfboðaliðar úr hópi notenda sem sjá um þýðinguna. Vitanlega eru þessar þýðingar misjafnar og auðvelt að láta ýmislegt pirra sig í þeim. En þetta er íslenska. Ekki enska. Það skiptir máli – eða ætti a.m.k. að skipta máli fyrir áhugafólk um velferð íslenskunnar.

Ef þið eruð með enskt viðmót á Facebook, Word, Google, Chrome, Firefox o.s.frv. hvet ég ykkur þess vegna eindregið til að skipta yfir í það íslenska. Með því móti leggið þið miklu meira af mörkum til íslensks máls og málvöndunar en með nöldri yfir „þágufallssýki“, röngum beygingum, „fréttabörnum“ o.s.frv. Framtíð íslenskunnar veltur ekki á því hvort börnin okkar segja mig langar eða mér langar, heldur á því hvort þau geta notað íslensku á öllum sviðum – og vilja gera það.

Posted on Færðu inn athugasemd

Misnotkun á íslenskunni

Íslenska er opinbert mál á Íslandi og fólk á að geta notað hana alls staðar, við allar aðstæður. Það er mikilvægt að auðvelda fólki sem býr og starfar hér en á ekki íslensku að móðurmáli að læra málið, og hvetja það til að nota íslensku þótt það hafi hana ekki fullkomlega á valdi sínu. En það nær vitanlega engri átt að skortur á íslenskukunnáttu bitni á fólki í samskiptum við stjórnvöld. Það er misnotkun á íslenskunni – sem hún á ekki skilið.

Í þessu sambandi er rétt að minna á að í tillögum Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá er svohljóðandi ákvæði: „Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna […] tungumáls […].“ Í skýringum við þetta segir: „Þessu ákvæði er ætlað að útiloka mismunun gagnvart fólki sem talar annað mál en íslensku eða aðra mállýsku en þá sem ráðandi er í samfélaginu hverju sinni.“

Því miður hafa þessar tillögur ekki verið samþykktar eins og kunnugt er, en samþykkt þeirra myndi útiloka þessa óhæfu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Göngum yfir brúnna

­Iðulega eru gerðar athugasemdir við breyttan framburð orð­mynda eins og ána, brúna, frúna, klóna, kúna, slána, spána, tána, þrána (þolfall eintölu með greini af á/ær, brú, frú, kló, kýr, slá, spá, , þrá), skóna (þolfall fleirtölu með greini af skór) og fleiri orðmynda með n á eftir á, ó eða ú. Þessar orðmyndir eru oft bornar fram með stuttu sér­hljóði í stað langs, eins og n-ið væri tvíritað – sagt fara yfir ánna, hlusta á spánna, missa trúnna, fara í skónna o.s.frv. Stundum er því haldið fram að þetta sé nýleg brey­­ting en svo er ekki.

Elsta dæmið sem ég hef fundið á tímarit.is og bendir til þessa framburðar er úr Vikunni 1930: „Sérstaklega eru það búðarlokur og aðrir uppskafningar, sem móttæki­leg­ast­ir eru fyrir trúnna á íhaldið“ og í Verkamanninum 1939 segir „Heill hópur kvenna tók trúnna hjá Jesús.“ Slæð­ing­ur af dæmum er frá fimmta áratugnum; í Morgunblaðinu 1944 stendur „var ekki hægt að ferja mjólk yfir ánna í gær“, í Þjóðviljanum 1947 segir „En þótt menn hafi yfir­leitt verið ánægðir með útvarpsdagskránna 1. maí“, og í Morg­un­blaðinu 1948 „Við brúnna tók á móti honum fyrsti stýrimaður“. Eftir þetta fer dæmum smátt og smátt fjölgandi og sam­bæri­legar myndir af fleiri orðum koma fram.

Myndirnar á tímarit.is verða samt aldrei mjög margar, enda eru flest­ir textar þar væntanlega prófarkalesnir. Í ljósi þess hversu mörg dæmi hafa þó sloppið gegnum sí­una má ætla að sá fram­burður sem þessi ritháttur ber vott um sé a.m.k. hátt í hundrað ára gamall og hafi lengi verið nokkuð útbreiddur. Fjöldi dæma á netinu um flestar áðurnefndra ritmynda bendir líka til verulegrar útbreiðslu fram­burðarins. Þessi framburður hefur líka lengi verið til um­ræðu í málfarsþáttum, t.d. nokkrum sinnum hjá Gísla Jóns­syni í Morgunblaðinu, og það er því ljóst að hann hef­ur verið vel þekktur um áratuga skeið.

Þótt ég geti ekki fullyrt neitt um hvað valdi þessari breyt­ingu má nefna tvennt sem gæti skipt máli. Annars veg­ar eru áhrif frá þágufallinu – í kvenkynsorðunum er þar allt­af stutt sérhljóð (ánni, brúnni, frúnni, klónni, kúnni, slánni, spánni, tánni, þránni). Þótt ólíklegra sé mætti einn­ig hugsa sér áhrif frá eignarfalli fleirtölu, en þolfallsmynd­irnar falla saman við það í framburði ef sér­hljóðið stytt­ist. Í þolfallsmyndinni skónna er ekki um að ræða áhrif frá þágufallinu skónum, því að þar er langt sérhljóð, en hugsanlega frá eignarfalli fleirtölu skónna.

Hitt atriðið er hljóðfræðilegs eðlis. Það er þekkt í mál­sög­unni að samhljóð í endingu lengdist á eftir sérhljóðunum á, ó og ú. Venjuleg hvorugkynsending lýsingarorða er -t, eins og í stór-t, væn-t, gul-t, tóm-t; en t-ið tvöfaldast (og verð­ur aðblásið) í há-tt, mjó-tt, trú-tt. Einnig hefur -r lengst við svipaðar aðstæður í beygingu lýsingarorða; við fáum há-rri en ekki hári, mjó-rri en ekki mjóri, trú-rri en ekki trúri. Þetta eru að vísu ævafornar breytingar en þó er freistandi að spyrja hvort framburðarbreytingu þeirra orða sem hér um ræðir megi hugsanlega rekja til hliðstæðra áhrifa þessara sömu hljóða.

Það má vissulega hafa það á móti þessari breytingu að hún rjúfi tengslin milli lauss og við­skeytts greinis. Í þeim lausa er langt sérhljóð og eitt n í þol­falli eintölu kvenkyns og þolfalli fleirtölu karlkyns – mynd­in er hina í báðum tilvikum. En þótt viðskeyttur greinir sé vissulega kominn af lausum greini sögulega séð eru beygingar­leg­ir og setn­inga­fræðilegir eiginleikar þessara tveggja teg­unda greinis ólíkir á ýmsan hátt, og ekkert sem kallar á að framburðurinn sé sá sami. Þessi framburðarbreyting kallar ekki á breyt­ingu á stafsetningu, og eftir sem áður er hægt að vísa til lausa greinisins um fjölda n-a sem skuli skrifa í þeim viðskeytta.

Mörgum finnst umræddar myndir ljótar – sem er nokkuð sérkennilegt í ljósi þess að allt eru þetta framburðarmynd­ir sem eru viðurkenndar í málinu, bara sem aðrar beyg­ing­­ar­­myndir en hér er um að ræða. En flest kunnum við best við málið eins og við lærðum það – eða eins og við lærðum að það ætti að vera – og ömumst þess vegna við breytingum sem okkur finnst óþarfar. Það er fullkomlega eðlileg tilfinning, en í ljósi þess að þessi framburður á sér aldarlanga sögu, er mjög út­breidd­ur, er hliðstæður breyt­ing­um sem áður hafa orðið í málinu og eru fullkomlega viður­kenndar, og veldur eng­um ruglingi, þá tel ég hann engin málspjöll.

Posted on Færðu inn athugasemd

Appelsínugul viðvörun

Eitt vinsælasta tilefni nöldurs og tuðs í Málvöndunarþættinum á Facebook er lýsingarorðið appelsínugulur. Talað er um að þetta sé leiðindaorð, barnamál, tökuþýðing, fáránlegt orð, óþjált og asnalegt, o.s.frv. Í staðinn eigi að nota rauðgulur – það sé hið rétta heiti á þessum lit. Um þetta getur fólk skrifað aftur og aftur endalaust, undir merkjum málvöndunar.

Ég ólst upp við orðið rauðgulur, enda sáust appelsínur aldrei á mínu bernskuheimili nema á jólunum og á mörkunum að maður vissi hvernig þær væru á litinn. En orðið appelsínugulur er samt mun eldra – kemur fyrst fyrir svo að vitað sé árið 1916 og er því orðið meira en aldargamalt. Síðan á fjórða áratugnum hafa orðin tvö verið notuð hlið við hlið, rauðgulur þó mun algengara framan af. En frá því um 1980 hefur appelsínugulur verið mun algengara eins og tölur af tímarit.is sýna.


Vitanlega er appelsínugulur íslenskt orð. Það er ekki tökuorð og ekki heldur tökuþýðing þótt vissulega sé líkingin við lit appelsínu fengin erlendis frá (væntanlega úr dönsku frekar en ensku). Þetta er íslensk nýmyndun sem á sér hundrað ára hefð í málinu og margar kynslóðir hafa alist upp við. Að gera það brottrækt úr íslensku væri fullkomlega fráleitt.

Auðvitað getur fólk haft málefnalegar ástæður fyrir því að kjósa rauðgulur fremur en appelsínugulur, s.s. að fyrrnefnda orðið sé eldra. Það er líka þremur atkvæðum styttra og því þjálla í meðförum. Þar að auki finnst ýmsum það fallegra og ekkert við það að athuga. En að agnúast út í appelsínugulur á ekkert skylt við málvöndun.