Posted on

Valda

Sögnin valda er oft til umræðu í málfarsþáttum, enda er hún ekki einföld í beygingu. Við segjum ég veld í nútíð en í þátíð ég olli, og í lýsingarhætti þátíðar ég hef valdið. Við það bætist að viðtengingarháttur þátíðar er (þótt ég) ylli. Það er engin furða að einhver tilbrigði komi upp í sögn sem hefur svo fjölbreyttar myndir, enda hefur það alla tíð verið svo. Í varðveittum fornum textum koma fyrir 45 mismunandi ritmyndir sem tilheyra þessari sögn, samkvæmt gagnasafni fornmálsorðabókarinnar í Kaupmannahöfn – tölurnar sýna tíðni hverrar myndar:

vallda (11); uolldi (5); valdit (4); ollat (4); valldit (3); valda (3); volldi (3); vollde (3); ollath (3); valldannde (2); ollad (2); olli (2); ollu (2); uallda (2); vallde (2); uelldr (1); volþo (1); volle (1); valldanndde (1); valldim (1); uelldur (1); volld (1); Veldrat (1); uolli (1); volli (1); uolle (1); wollde (1); ỏlli (1); Illi (1); volldv (1); ylldi (1); volldit (1); valldi (1); volldu (1); volldet (1); Valld (1); vylldí (1); valldí (1); volðe (1); volldde (1); olluðu (1); velldr (1); olle (1); vollda (1); velldur (1)

Athugið þó að á þessum tíma var stafsetning ekki samræmd þannig að sama beygingarmyndin getur legið að baki fleiri en einni stafsetningarmynd – væntanlega stendur valdit og valldit fyrir sömu myndina sem í nútímamáli yrði rituð valdið. Sömuleiðis stendur ollat, ollath og ollad fyrir sömu myndina sem í nútímamáli yrði rituð ollað. Fyrrnefnda beygingarmyndin, sem nú er talin rétt, kemur fyrir samtals sjö sinnum í fornum textum samkvæmt þessu, en sú síðarnefnda, sem er talin röng, kemur fyrir samtals níu sinnum.

Myndin ollað hefur haldist gegnum alla málsöguna og var sennilega algengari en valdið fram á 19. öld – hún er t.d. oftast notuð í Fjölni, riti Jónasar Hallgrímssonar, Konráðs Gíslasonar og félaga, þótt myndinni valdið bregði þar einnig fyrir. En eftir miðja 19. öld hefur sennilega verið farið að boða að ollað, svo og ollið sem einnig kemur fyrir, væri röng beyging því að þá fer að draga í sundur með myndunum í tíðni, þótt ollað haldist algeng á fyrsta þriðjungi 20. aldar. Á síðustu árum er sú mynd mjög sjaldgæf á tímarit.is en búast má við að hún sé algengari í talmáli.

Umræða um það hvort ollað/ollið sé rétt eða rangt mál er ófrjó og skilar engu. Í staðinn má íhuga hvers vegna þessi tilbrigði koma upp. Sögnin hefur vitanlega mjög sérstaka beygingu og í slíkum tilvikum er eðlilegt að börn á máltökuskeiði sæki fyrirmyndir í önnur og þekktari orð. Í þessu tilviki gæti t.d. verið um að ræða áhrif frá lýsingarhættinum orðið, af verða. Áhrif frá verða, þ.e. þátíð fleirtölu urðu, gætu líka skýrt myndina ullu sem kemur fyrir í stað ollu. Einnig eru þarna hugsanlega áhrif frá sögninni vella sem er ullu í þátíð fleirtölu og ollið í lýsingarhætti þátíðar.

En fleira er áhugavert við beygingu þessarar sagnar. Hún hefur tvær merkingar: 'orsaka eitthvað' og 'ráða við eitthvað'. En þátíðin olli er bara notuð í fyrrnefndu merkingunni – í síðarnefndu merkingunni hefur sögnin enga þátíð. A.m.k. finnst mér útilokað að segja *Hann olli ekki þessu verkefni. Annar möguleiki væri að fá lánaða þátíð samhljóða sagnar, valda (sem einkum er notuð í skák) og segja *Hann valdaði ekki þessu verkefni – en það finnst mér ekki heldur ganga.

Hvers vegna getur þátíðin olli ekki merkt 'réð ekki við'? Hvers vegna hefur sögnin valda enga þátíð í annarri merkingunni? Þetta er ein af þessum skrítnu sérviskum tungumálsins sem gera það svo áhugavert viðfangsefni.

Posted on

Rétt mál – málstaðall

Á fyrri árum mínum í kennslu fékk ég stundum, einkum frá eldri nemendum, spurningar á við „Er nú búið að leyfa þetta?“, yfirleitt bornar fram með hneykslun í röddinni. Ég man svo sem ekki glöggt um hvað verið var að spyrja, en ég man hins vegar eftir því hverju ég svaraði því að það var alltaf það sama: að ég vissi ekki hver ætti að leyfa það sem spurt var um – nú eða banna það, ef því væri að skipta. Margir virtust halda að til væri – eða ætti að vera – eitthvert yfirvald, kannski Íslensk málnefnd, sem gæti leyft og bannað tiltekið málfar eftir smekk og geðþótta.

Í álitsgerð nefndar um málvöndun og framburðarkennslu í grunnskólum sem menntamálaráðherra skipaði og skilaði áliti 1986 var sett fram skilgreining á réttu máli og röngu: „rétt mál er það sem er í samræmi við málvenju, rangt er það sem brýtur í bága við málvenju“. En jafnframt er bent á að þrátt fyrir þetta geti verið ástæða til að gera upp á milli málvenja, og það sé „í samræmi við meginstefnuna í málvernd að reyna að sporna gegn nýjum málsiðum með því að benda á að þeir séu ekki í samræmi við gildandi málvenjur“. Ég er fullkomlega sáttur við að nota málvenjuna til að dæma um rétt og rangt, og sé raunar ekki annað hugsanlegt viðmið.

En þrátt fyrir þetta viðmið liggur í loftinu óopinber staðall um það hvað megi segja, eða a.m.k. skrifa. Samkvæmt honum á ekki að skrifa mér langar heldur mig langar, ekki við hvorn annan heldur hvor við annan, ekki hjá sitthvorri heldur sinn hjá hvorri, ekki ef hann sé heima heldur ef hann er heima, ekki eins og mamma sín heldur eins og mamma hennar, ekki vegna lagningu heldur vegna lagningar, ekki það var hrint mér heldur mér var hrint, ekki rétta upp hendi heldur rétta upp hönd, ekki ég er ekki að skilja þetta heldur ég skil þetta ekki, ekki báðir tónleikarnir heldur – ja, hvað? Hvorir tveggja tónleikarnir? Hvorirtveggju tónleikarnir? Hver segir það eiginlega?

Það er enginn vafi á því að fyrra afbrigðið í hverri tvennd, það sem á ekki að skrifa, er málvenja margra – í sumum tilvikum örugglega meirihluta þjóðarinnar. Þess vegna er þetta allt saman rétt mál, samkvæmt þeirri skilgreiningu sem áður var vitnað til. En þrátt fyrir að um sé að ræða útbreiddar málbreytingar, í sumum tilvikum áratuga eða jafnvel aldar gamlar, er samt ekki „búið að leyfa þetta“, í þeim skilningi að það sé komið inn í hinn óopinbera staðal, og ég býst við að margir í þessum hópi telji þetta hinar örgustu málvillur.

Ég er samt sem áður þeirrar skoðunar að við eigum að taka áðurnefndar málbreytingar í sátt. Þær eru engin málspjöll – hrófla ekki við grundvelli málkerfisins og torvelda ekki skilning. Í stað þess að verja kröftum okkar í baráttu gegn þeim eigum við að einbeita okkur að því sem raunverulega skiptir máli fyrir framtíð íslenskunnar – að tryggja að hún sé nothæf, og notuð, á öllum sviðum. En ég veit auðvitað að mörgum finnst það undansláttur, uppgjöf og tilræði við íslenskuna að viðurkenna þessar breytingar. Og það er eðlilegt – skilgreining margra á réttu máli er nefnilega þessi: „Rétt mál er það sem mér var kennt að væri rétt mál.“

Posted on

Íslenskur málstaðall

Það sem stundum er kallað „íslenskur málstaðall“ – viðmið okkar um viðeigandi málsnið og rétt mál – varð til á 19. öld þótt ræturnar séu vissulega í fornmáli. Sjálfsagt má segja að Rasmus Kristján Rask, Sveinbjörn Egilsson og Fjölnismenn hafi lagt drög að staðlinum en hann mótaðist svo ekki síst í Lærða skólanum eftir miðja öldina, einkum hjá Halldóri Kr. Friðrikssyni sem var aðalíslenskukennari skólans í hálfa öld. Björn Guðfinnsson lagði svo lokahönd á staðalinn með málfræði sinni sem flestir Íslendingar lærðu frá því um 1940 og langt fram eftir öldinni – sumir jafnvel fram á þessa öld.

Þessi staðall miðast því við það sem þótti vandað ritmál fyrir 80-100 árum. En það þarf ekki að fara nema aldarþriðjung aftur í tímann til að komast í þjóðfélag sem var gerólíkt því sem nú er. Þá var bara ein útvarpsstöð á Íslandi og bara ein sjónvarpsstöð – en fimm dagblöð. Í öllum þessum miðlum sá fólk og heyrði einungis vandað mál sem samræmdist staðlinum. Talað mál í útvarpi og sjónvarpi var nær allt undirbúið og að verulegu leyti með ritmálssniði. Blöðin voru vandlega prófarkalesin. Almennir málnotendur komust í raun varla í kynni við ritaða íslensku annarra almennra málnotenda nema í einkabréfum.

Er hægt eða skynsamlegt að ætlast til að sama málsnið þjóni nútímanum og þessari veröld sem var? Nú er þetta nefnilega allt breytt eins og allir vita. Nú er í landinu fjöldi útvarps- og sjónvarpsstöðva þar sem hver sem er getur látið dæluna ganga endalaust, án nokkurs handrits eða yfirlestrar. Dagblöðum hefur fækkað og prófarkalestri þeirra hrakað, auk þess sem netmiðlar hafa að verulegu leyti komið í stað prentaðra blaða og eru enn minna yfirlesnir. Við þetta bætast samfélagsmiðlar en algerlega óyfirlesnir textar þeirra eru helsta lesefni margra. Nú getur hver sem er skrifað – eftirlitslaust – texta sem allur heimurinn hefur aðgang að.

Það er í sjálfu sér frábært. Það er stórkostlegt að það skulu ekki lengur vera forréttindi fárra útvalinna að skrifa fyrir lýðinn. Það er augljóslega stórt skref í lýðræðisátt og á án efa eftir að hafa meiri áhrif á ýmsum sviðum þjóðfélagsins en við gerum okkur grein fyrir. En þetta hefur vitanlega mikil áhrif á málstaðalinn og hugmyndir fólks um það hvernig íslenskt ritmál sé. Þegar talsverður hluti af því máli sem fólk heyrir og sér fylgir ekki staðlinum, þá er ekki von að ungt fólk tileinki sér hann sjálfkrafa og áreynslulaust.

Við þetta bætist að íslenskan – daglegt mál – hefur vitaskuld breyst talsvert undanfarna öld. En vegna þess að staðallinn hefur ekki breyst hefur fjarlægðin þarna á milli aukist. Það þýðir aftur að málnotendur þurfa að leggja meira á sig og fá meiri kennslu og lesa meira af formlegu máli til að tileinka sér staðalmálið. En raunin er sú að þessu er þveröfugt farið. Íslenskukennsla hefur síst aukist, og rannsóknir sýna að ungt fólk les sífellt minna af bókum, þar sem staðlinum er helst fylgt.

Þetta getur ekki endað nema á einn veg: Það myndast gjá milli máls almennings og staðalsins. Þeir nemendur sem búa við ákjósanlegar aðstæður, t.d. lesa mikið og eiga langskólagengna eða aldraða foreldra – eða eru nördar – munu geta tileinkað sér staðalmálið til hlítar enn um sinn, en hætt er við að meginhlutinn geri það ekki. Hvað gerum við þá? Eigum við að halda fast í óbreyttan staðal eða breyta honum? Hverjar ættu þær breytingar að vera? Hvernig væri hægt að standa að þeim?

Posted on

Hurðir og hurðar

Fleirtölumyndina hurðar í stað hurðir af nafnorðinu hurð heyrði ég fyrst fyrir rúmum 30 árum þegar ég stóð í húsnæðiskaupum og skoðaði fjölmargar íbúðir. Við slíkar aðstæður ber ýmsa innviði íbúða á góma og ég tók eftir því hjá fleiri en einum og fleiri en tveimur sem ég talaði við að þeir töluðu um hurðar. Þessi beyging virðist ekki vera gömul – aðeins örfá dæmi á tímarit.is eru eldri en þetta. Beygingin virðist hins vegar hafa breiðst talsvert út síðan um aldamót ef marka má dæmafjölda á tímarit.is.

Það er fjarri því að vera einsdæmi að nafnorð hafi fleiri en eina fleirtölubeygingu eða breyti um fleirtöluendingu. Svo að við höldum okkur við sterk kvenkynsorð má nefna lest og síld, en bæði lestir og lestar eru algengar fleirtölumyndir, sem og síldir og síldar. Orðið grein í merkingunni 'námsgrein' hafði iðulega fleirtöluna greinir langt fram eftir síðustu öld – í merkingunni 'trjágrein' var fleirtalan hins vegar greinar og nú hefur orðið undantekningalítið þá fleirtölu í báðum merkingum. Orðið hlíð var í fleirtölu hlíðir í fornu máli en nú alltaf hlíðar. Orðin rún, gjöf, nös voru í fornu máli oft eða oftast rúnar, gjafar, nasar, en nú alltaf rúnir, gjafir, nasir. Svo mætti lengi telja.

Börn á máltökuskeiði sem standa frammi fyrir því risavaxna verkefni að tileinka sér tungumál leita að mynstrum í málinu sem þau heyra í kringum sig. Þau greina – ómeðvitað – stofngerð orðanna; hvaða stofnsérhljóð þau hafi, hvort og hvaða samhljóðaklasar komi fyrir í þeim, o.fl. Á grundvelli þessarar greiningar búa þau sér til reglur, m.a. um það hvaða fleirtöluendingu sterk kvenkynsorð fá. Í fyrstu fela þessar reglur í sér alhæfingar sem iðulega reynast rangar, en með vaxandi málkunnáttu leiðrétta börnin reglurnar þannig að þær færast smátt og smátt nær þeim reglum sem fullorðnir málnotendur beita.

Í rannsókn á fleirtölumyndun barna sem var gerð upp úr 1980 kom í ljós að töluverður hluti fjögurra og sex ára barna sögðu að fleirtalan af hurð væri hurðar. Líklegt er að íslensk börn, mörg hver a.m.k., byrji á að alhæfa -ar-fleirtölu í sterkum kvenkynsorðum og noti þá fleirtölu á ýmis orð þar sem hún á ekki heima. Smátt og smátt átta þau sig á því að þessi regla er of víð og endurbæta hana og þá fækkar þeim orðum sem fá ranglega -ar-fleirtölu í máli þeirra. En e.t.v. verða sum eftir og halda -ar-fleirtölunni þegar máltökuskeiði lýkur þótt fullorðnir málnotendur noti -ir­-fleirtölu, hugsanlega vegna þess að orð með svipaða stofngerð hafi venjulega -ar-fleirtölu. Ekki er ólíklegt er að hurð sé eitt af þessum orðum.

Það er skiljanlegt að fólk sem hefur alist upp við fleirtöluna hurðir – eins og væntanlega meginhluti landsmanna – kippist við þegar það heyrir hurðar og finnist þetta brjóta gegn málkennd sinni. En hver sem skýringin kann að vera á þessari breytingu er ljóst að hún á sér fjölmargar hliðstæður og gerir málinu nákvæmlega engan skaða. Mörg sterk kvenkynsorð höfðu tvímyndir þegar í fornu máli, og mörg hafa breytt um beygingarflokk þannig að upprunalega fleirtalan er nú alveg horfin og yrði væntanlega talin röng. Aðalatriðið er að orðið heldur áfram að beygjast, og breytingin torveldar ekki skilning á eldri textum á nokkurn hátt. Mér finnst hún bara dæmi um skemmtilega fjölbreytni málsins.

Posted on

Fornmál sem fyrirmynd

Hvað er „rétt mál“ og hvað er „rangt mál“? Við hvað á að miða þegar tilbrigði eru í málinu? Oft er vísað til þess að eitt sé réttara en annað vegna þess að það sé eldra – mig langar sé eldra en mér langar, ég vil eldra en ég vill, o.s.frv. Við skulum nú hugsa okkur að við kæmum okkur saman um það að telja það réttast sem væri elst, og miða þá við elstu varðveitta texta á íslensku, en hirða ekki um forsögu málsins.

Það eru samt ekki nein málfræðileg rök fyrir því að velja 12. eða 13. aldar íslensku sem viðmið, frekar en eitthvert eldra eða yngra málstig. Málið hefur alltaf verið að breytast, að vísu misjafnlega hratt; en það var engin sérstök kyrrstaða í því um 1200 – raunar síður en svo, því að á þessum tíma voru miklar breytingar á sérhljóðakerfinu að ganga yfir.Það eru því ytri aðstæður sem valda því að mál þessa tíma er notað sem viðmið – á því eru helstu fornbókmenntir okkar skrifaðar.

En af ýmsum ástæðum er alls ekki auðvelt að dæma mál „rétt“ og „rangt“ eftir þessu viðmiði. Þekking okkar á fornmálinu er ekki ótakmörkuð. Þótt við eigum töluvert af rituðum textum frá 13. öld eru þeir frekar einhæfir; mestanpart frásagnarbókmenntir af ýmsu tagi, en einnig nokkuð af lagatextum og skjölum. Þótt eitthvert orð, einhver beygingarmynd eða einhver setningagerð komi ekki fyrir í varðveittum textum getum við ekki fullyrt að það hafi ekki tíðkast í forníslensku. Það gæti sem best verið tilviljun að það hefði ekki komist á bækur – eða þær bækur sem það komst á hafi allar glatast.

Eitt af því sem gerir erfitt að miða eingöngu við fornmálið er það að við vitum sáralítið um fornt talmál. Í nútímaíslensku er munur talmáls og ritmáls töluverður, og líklega meiri en við gerum okkur grein fyrir í fljótu bragði. Það má telja víst að einhver munur hafi einnig verið á talmáli og ritmáli til forna. En hvort hann var meiri eða minni en nú, og í hverju hann var fólginn, getum við lítið sagt um. Og það er í mörgum tilvikum í meira lagi hæpið að „leiðrétta“ nútíma talmál eftir fornu ritmáli.

Þar að auki birta hinir fornu textar ekki eitthvert einlitt og dauðhreinsað mál; þar er að finna alls konar ósamræmi og ýmislegt sem nú yrði eflaust kallað „málvillur“. Í því sambandi er forvitnilegt að líta á eitt elsta varðveitta íslenska handritið, hina svokölluðu Íslensku hómilíubók frá því um 1200. Um þetta rit hefur Jón Helgason prófessor sagt: „óvíða flóa lindir íslenzks máls tærari en þar, og er sá íslenzkur rithöfundur sem ekki hefur þaullesið hana, litlu betur undir starf sitt búinn en sá prestur sem enn á ólesna fjallræðuna.“ Nú vill svo til að í þessu riti stendur iðulega ekki mig langar og okkur langar, heldur ég langa, við löngum; sögnin er sem sé höfð persónuleg, og tekur frumlag í nefnifalli.

Ef við miðum eingöngu við hvað sé elst í íslensku mætti þess vegna halda því fram að mig langar sé engu réttara en mér langar, því að ég langa sé notað í þessu forna og merka handriti. Engan hef ég samt heyrt halda því fram, enda væri það út í hött; því að hvorttveggja er að í öðrum handritum fornum er sögnin oftast ópersónuleg, og hún hefur oftast verið höfð með þolfalli á síðari öldum. En þetta dæmi sýnir okkur að ekki er umsvifalaust hægt að miða eingöngu við það elsta.

Posted on

Sína

Sögnin sína (stundum rituð seena eða seen-a) er nýtt tökuorð úr ensku. Hún er notuð þegar einhver hefur séð (seen) skilaboð á samfélagsmiðli (t.d. Facebook eða Snapchat) en ekki brugðist við á þann hátt sem sendandi hefði kosið. Að sína einhvern getur þá falið í sér móðgun eða lítilsvirðingu við sendandann, ef ég skil þetta rétt (er enginn sérfræðingur á þessu sviði).

Það má auðvitað segja að þetta sé bara hrá enska sem ekki eigi að hleypa inn í málið – (reyna að) berja þetta niður hjá notendum. En það eru ekki endilega skynsamleg viðbrögð. Miklu nær væri að taka þessu jákvætt. Það er nefnilega hægt að nota svona dæmi til að kenna nemendum heilmargt um tungumálið.

Til dæmis um orðmyndun. Þrátt fyrir að uppruninn sé enskur lýsingarháttur erum við ekki í neinum vandræðum með að búa til úr honum sögn og beygja hana eins og hún væri íslenskrar ættar – Hann sínar mig alltaf, Hún sínaði mig, Þú hefur oft sínað mig (vona að ég sé að nota þetta rétt). Uppruninn er vissulega enskur, en sögnin fellur algerlega að íslensku hljóðkerfi.

Hljóðfræðilega fellur þessi sögn saman við aðra sem fyrir er í málinu en skrifuð öðruvísi, þ.e. sýna, en beygingin er önnur – nýja sögnin er sínaði í þátíð og sínað í lýsingarhætti þátíðar þótt sú sem fyrir er sé sýndi og sýnt. Þar að auki stjórnar nýja sögnin bara þolfalli (sína mig) en sú gamla þágufalli og þolfalli (sýna mér eitthvað) – þágufalli á persónunni.

Þetta má nota til að benda nemendum á þann sköpunarmátt sem býr í málinu, og þá málkunnáttu sem þau búa yfir. Þetta má líka nota til að tala um samhljómun, stafsetningu, tilbrigði í beygingum og beygingarflokka, föll og fallstjórn, og ýmislegt fleira. Og svo má auðvitað nota þetta til að ræða um nýyrði og tökuorð – hvernig íslensk orð geti verið eða megi vera, hvaða skilyrði erlend orð þurfi að uppfylla til að eðlilegt sé að taka þau upp í íslensku, o.s.frv.

Með því að taka svona á málunum, í stað þess að láta hreintungumanninn í okkur ráða, held ég að við getum vakið áhuga nemenda á móðurmálinu og margbreytileika þess, í stað þess að drepa hann niður.

Posted on

Breytingar á frumlagsfalli

Eins og flestir vita hefur lengi verið barist hatrammlega gegn hinni svokölluðu „þágufallssýki“ og hún talin hin verstu málspjöll. Þessi „sýki“ felst í því að notað er þágufall á frumlag nokkurra sagna sem áður tóku með sér þolfalls- eða nefnifallsfrumlag. Þetta eru einkum sagnirnar langa, vanta og hlakka, en einnig dreyma, kvíða og nokkrar fleiri – sumar sjaldgæfar. Einnig bregður fyrir svonefndri nefnifallshneigð þar sem notað er nefnifall í stað þolfalls sem áður var – t.d. sagt Báturinn rak á land í stað Bátinn rak á land og Ég dreymdi í stað Mig dreymdi.

En það er engin ný bóla að sagnir breyti um frumlagsfall. Sögnin vænta, sem nú hefur alltaf nefnifallsfrumlag, tók til skamms tíma iðulega með sér þolfall – Mig væntir. Sama máli gegnir um vona – á tímarit.is eru dæmin um Mig vonar eldri en dæmi um Ég vona. Jónas Hallgrímsson skrifar Mig vonar í Fjölni, og Konráð Gíslason skrifar Mig væntir í sama riti. Hvorugur þeirra hefur þótt sérstakur bögubósi í meðferð móðurmálsins – eftir Sigurði Nordal prófessor er haft: „Það sem Jónas Hallgrímsson hefur skrifað og Konráð samþykkt, það kalla ég íslensku.“

Fleiri dæmi má nefna. Á 19. öld tóku sagnirnar fækka og fjölga yfirleitt nefnifallsfrumlag. Dæmi um það má sjá í Fjölni 1839, þar sem segir „fólkið hafi ekki gjetað aukist, síðan það fór að fækka á 14. öld“ og „hjáleigur eru lagðar í eiði, til þess að ríma um heimajarðir, so að heimabændur fjölga“. Þessar sagnir taka nú ævinlega þágufallsfrumlag – við segjum fólkinu fækkar, bændum fjölgar. Samt dettur engum í hug að kalla það „þágufallssýki“.

Þarna eru fjórar sagnir – fjölga, fækka, vona og vænta – þar sem frumlagsfall hefur verið á reiki. Tvær þær fyrrnefndu taka nú þágufall í stað nefnifalls áður, en tvær þær síðarnefndu taka nú ævinlega nefnifall í stað þolfallsins sem þær tóku iðulega með sér áður. Þetta eru algengar sagnir, rétt eins og þær sem tengdar eru við „þágufallssýki“. Samt dettur engum í hug að halda því fram að breytingar á frumlagsfalli þessara sagna hafi spillt málinu á einhvern hátt. Af hverju ætti „þágufallssýkin“ þá að gera það?

Posted on

Okkar íslenska og hinna

Okkur hættir til að halda sú íslenska sem við erum sjálf alin upp við, hvert og eitt, sé betri og réttari en sú sem fólk af öðru landshorni eða á öðrum aldri talar, og okkur hættir til að telja að annað en það sem við þekkjum sjálf eða erum vönust sé rangt.

Fyrir allmörgum árum átti ég tal við aldraðan mann fyrir norðan, og barst tal okkar að málfari manna. Viðmælandi minn tók að býsnast yfir því hvað mál unglinga í Reykjavík væri orðið spillt; t.d. segðu þeir nú mér langar, mér vantar og annað eftir því. Ekki mótmælti ég því, en spurði á móti hvort honum fyndist þá í lagi að tala um að hitta læknirinn. Hann varð hvumsa við, en sagðist ekki vita betur en það væri fullkomlega eðlilegt og rétt mál. Ég sagði honum þá að það mætti ekki á milli sjá hvor villan þætti verri í setningunni Mér langar að hitta læknirinn. Hann þagnaði um stund, en kvað svo upp úr með það að seinni villan væri miklu minni, því að hún væri norðlenska.

Posted on

Breytingar frá fornu máli

Því er oft haldið fram að íslenska hafi breyst mjög lítið frá tíma elstu varðveittra texta til dagsins í dag. Þegar við lesum útgáfur íslenskra fornbókmennta verður ekki betur séð en þessi skoðun eigi við rök að styðjast; auðvitað er alltaf eitthvað um orð sem við skiljum ekki, en í grundvallaratriðum má samt segja að við getum lesið venjulega forna sögutexta. Þegar komið er út í lagamál og þvíumlíkt getur róðurinn að vísu farið að þyngjast. En hér er tvennt sem blekkir, og lætur okkur halda að munurinn sé minni en hann raunverulega er.

Eitt er það að hljóðkerfi málsins hefur breyst mjög verulega. Bæði standa einstakir stafir nú í mörgum tilvikum fyrir annað hljóðgildi en að fornu; þá táknaði á t.d. langt a, é táknaði langt e o.s.frv.; og eins hefur hljóðgildi ákveðinna tákna breyst í ákveðnum samböndum. Þannig táknar stafurinn f nú sama hljóð og b ef hann stendur á undan l og n, í orðum eins og hefla og nafn, en að fornu táknaði hann sama hljóð og v í þessum samböndum, eins og hann gerir enn á undan r, ð og sérhljóðum, í orðum eins og hafrar, lifði og hafa.

Þessar breytingar á hljóðkerfinu, og fjölmargar aðrar, koma ekki fram í stafsetningunni – íslensk stafsetning endurspeglar í raun hljóðkerfi 13. aldar frekar en hljóðkerfi nútímamáls. Þess vegna gerum við okkur ekki grein fyrir breytingunum þegar við lesum útgáfur fornra texta, en þær myndu þó nægja til þess, að við gætum tæplega eða ekki skilið forníslensku ef við heyrðum hana talaða, né heldur myndu fornmenn skilja okkur.

Annað atriði sem skiptir ekki minna máli er það að hugmyndir flestra um fornmálið eru ekki komnar beint úr handritum, heldur úr útgáfum sem ýmist nota svonefnda „samræmda stafsetningu forna“ eða nútímastafsetningu. Og þessar útgáfur eru frábrugðnar handritunum sjálfum í veigamiklum atriðum. Í fyrsta lagi var ekki til að fornu neitt sem kallast má „samræmd stafsetning“ í nútímaskilningi. Ritháttur er með ýmsu móti og það krefst oft töluverðrar útsjónarsemi og þekkingar að komast í gegnum útgáfur þar sem texta handritanna er fylgt staf fyrir staf.

Í öðru lagi „leiðrétta“ útgefendur iðulega málfar handritanna. Í formála útgáfu Hins íslenska fornritafélags á Egils sögu Skallagrímssonar segir útgefandi t.d. að fyrir utan það að samræma stafsetningu hafi hann leiðrétt „bersýnilegar pennavillur og smáúrfellingar nauðsynlegra orða“. En þarna er iðulega leiðrétt eftir reglum nútímamáls frekar en reglum fornmáls. Það verður t.d. ekki betur séð en það hafi verið fullkomlega eðlilegt í fornu máli – a.m.k. ritmáli, en um talmálið vitum við auðvitað ekki – að sleppa persónufornöfnum eins og ég, hann og hún, víða þar sem okkur finnst þau nauðsynleg.

Í slíkum tilvikum skjóta útgefendur fornöfnunum oft inn, þótt þau séu ekki í handriti. En vegna þess að slíkar setningar eru algengar í fornum textum virðist hæpið að álykta að alltaf sé um að ræða pennaglöp eða brot á reglu – líklegra er að reglur fornmáls hafi einfaldlega verið aðrar en reglur nútímamáls að þessu leyti. Ef svo er, verða þessar breytingar útgefenda auðvitað til þess að hinn raunverulegi munur fornmáls og nútímamáls minnkar í augum okkar.

Þar við bætist að hinar „bersýnilegu pennavillur“ sem áður voru nefndar felast oft í því sem nú væri kallað „málvillur“, t.d. „rangri“ fallbeygingu. Í Reykjabók, einu helsta og elsta handrit Njálu, frá því um 1300 eða litlu síðar, er t.d. að finna orðmyndina föðurs, með s í endann, sem nú er talin röng – en í útgáfum er þessu yfirleitt breytt athugasemdalaust í föður. Það er ljóst að slíkar breytingar, þótt smávægilegar virðist og jafnvel sjálfsagðar í fljótu bragði, hafa mikil áhrif í þá átt að láta okkur halda að fornmálið hafi verið miklu „betra“ eða „hreinna“ mál en það var í raun og veru.

Þetta er ekki sagt til að gera lítið úr gildi fornmálsins á einhvern hátt eða rýra álit okkar á því. Ég er bara að benda á að á öllum tímum hafa verið margs konar tilbrigði í málinu. Flestar nýjungar hafa væntanlega verið álitnar einhvers konar „villur“ þegar þær komu upp, og sumar þeirra hafa horfið aftur úr málinu, en aðrar hafa náð yfirhöndinni og teljast nú eðlilegt og rétt mál.

Posted on

Hán

Í tilefni Hinsegin daga finnst mér ástæða til að setja hér inn pistil um þriðju persónu fornafnið hán. Ég er talsmaður þess að það fái þegnrétt í málinu og sé notað í vísun til þeirra sem hvorki vilja skilgreina sig sem karlkyns né kvenkyns. Auðvitað verður engum skylt að nota það en þetta snýst um virðingu og tillitssemi gagnvart þeim sem er þetta hjartans mál.

Ég ætla ekki að fara í gegnum rökin sem hafa verið færð fyrir því að taka þetta fornafn upp, heldur renna yfir helstu rök sem hafa verið færð – eða hægt væri að hugsa sér að færa – gegn upptöku þess, og bregðast við þeim.

1. Það er ekki hægt að breyta málkerfinu. Íslenska hefur fjögur föll, tvær tölur og þrjú kyn. Það er alveg rétt að það væri meira en lítið vafasamt að ætla sér að breyta þessu. Það væri mjög mikið inngrip í málkerfið. En athugið að ekkert slíkt hefur verið lagt til. Það eina sem hefur verið gert er að bæta við nýju fornafni, hán. Með því er ekki verið að bæta við fjórða kyninu í íslensku, því að hán er hvorugkyn og hvorugkyn er fyrir í málinu. Það er bara verið að koma með nýtt orð sem leysir orð sem fyrir er af hólmi að hluta til. Í staðinn fyrir að hafa eitt orð, það, til að tákna þriðju persónu eintölu, höfum við nú tvö, það og hán.Þetta er meira að segja ekkert einsdæmi í málinu. Til skamms tíma höfðum við tvö fornöfn til að tákna aðra. persónu – venjulega fornafnið þú, í fleirtölu þið og svo þér bæði í eintölu og fleirtölu. Þessi fornöfn höfðu með sér verkaskiptingu, þannig að þú var notað við allar venjulegar aðstæður en þér við fólk sem maður þekkti ekki eða til að sýna virðingu. Svipað má segja um fyrstu persónuna – þar höfum við ég, í fleirtölu við, en fornafnið vér var notað í upphöfnu tali bæði fyrir eintöluna og fleirtöluna.

Ég hef heyrt því haldið fram að þótt ekki sé verið að bæta við kyni sé þarna verið að breyta málkerfinu með því að búa til nýja málfræðilega formdeild, nýja flokkun – í fólk, sem vísað er til með hán, og dýr og dauða hluti, sem vísað er til með það. En slík flokkun er þegar fyrir hendi í kerfinu, a.m.k. hjá þeim sem vilja binda orð eins og éta, löpp o.fl. við dýr en nota borða, fótur o.s.frv. um fólk.

2. Fornöfn eru lokaður orðflokkur. Í skólum er yfirleitt kennt að orðflokkarnir skiptist í opna og lokaða flokka. Opnir eru þá þeir flokkar sem geta bætt við sig nýjum orðum – aðallega nafnorð, en einnig lýsingarorð, sagnir, og að einhverju marki atviksorð. Samtengingar, forsetningar og fornöfn eru aftur á móti taldir lokaðir orðflokkar því að í þá bætist ekki ný orð. Það er líka talað um þetta sem mun á inntaksorðum og kerfisorðum. En ef fornöfn eru lokaður orðflokkur, hvernig er þá hægt að bæta við nýju fornafni?Hér er rétt að hafa í huga að orðflokkagreining er ekki klöppuð í stein og lokuðu orðflokkarnir eru ekki harðlokaðir. Orðið allur er t.d. greint sem lýsingarorð í eldri málfræðibókum en nú er það alltaf greint sem óákveðið fornafn og samkvæmt því hefur þar bæst orð í lokaðan orðflokk. Það hafa líka bæst við forsetningar og samtengingar frá fornu máli til nútímamáls.

Í öðru lagi má spyrja af hverju þessir tilteknu orðflokkar sem ég nefndi séu lokaðir. Það er augljóst af hverju nafnorð, lýsingarorð og sagnorð eru opnir flokkar – það hlýst af eðli þessara flokka. Það eru alltaf að koma ný fyrirbæri eða nýjar hugmyndir sem þurfa nöfn, það þarf að lýsa fyrirbærum á nýjan hátt, og það eru alltaf að koma til nýjar athafnir eða aðgerðir.

Um fornöfn, forsetningar og samtengingar gegnir öðru máli. Orð af þessum flokkum hafa fyrst og fremst hlutverk innan málsins, eru kerfisorð, eins og áður segir – lýsa ákveðnum venslum milli orða og setninga. Slík vensl breytast ekki svo glatt og þess vegna er sjaldan þörf fyrir ný orð af þessum flokkum. Það má sem sé halda því fram að ástæðan fyrir því að þessir flokkar eru taldir lokaðir sé ekki sú að þeir geti ekki tekið við nýjum orðum, heldur fremur sú að við þurfum svo sjaldan ný orð af því tagi sem þessir flokkar hafa að geyma. En ef við þurfum á þeim að halda, þá er alveg hægt að bæta þeim við.

3. Það vantar sérstaka fleirtölu fyrir hán. Ýmsum finnst undarlegt að sömu fleirtölumyndir séu notaðar fyrir hán og fyrir það, þ.e. þauþauþeimþeirra. En þessar myndir hafa ekki á sér þann neikvæða blæ sem það hefur þegar það er notað um fólk og þess vegna er engin ástæða til að skipta þeim út fyrir eitthvað annað. Auk þess má benda á að þágufalls- og eignarfallsmyndirnar eru sameiginlegar öllum kynjum og því væri mjög óeðlilegt að setja eitthvað annað þar. Það er ekki heldur einsdæmi að tvö fornöfn deili sömu fleirtölumyndum – persónufornöfnin hann og hún hafa sömu fleirtölu og ábendingarfornöfnin og sú.

4. Það vantar sérstakt ábendingarfornafn sem samsvarar hán. Ég hef heyrt því haldið fram að það sé ekki hægt að bæta við fornafni eins og hán nema það sé hluti af heildstæðu kerfi. Við höfum ábendingarfornöfnin og þessi sem samsvara hann, og þessi sem samsvara hún, og þetta sem samsvarar það. Það er reyndar líka notað sem ábendingarfornafn í sama hlutverki og og , og því ætti alveg að vera hægt að láta hán gegna tvöföldu hlutverki á sama hátt. Það er hins vegar varla hægt að nota þetta um fólk – það hefur álíka neikvæðan blæ og það, sbr. bókina Hann var kallaður þetta. Æskilegast væri að fá ábendingarfornafn sem væri sjálfsprottið í hópi notenda, en vöntun á slíku orði – enn sem komið er – er ekki gild forsenda til að hafna hán.

5. Beyging hán er nafnorðabeyging, ekki fornafnabeyging. Beyging hán er hánhánhániháns. Öll hvorugkynsorð, hvort sem er nafnorð, lýsingarorð eða fornöfn, eru eins í nefnifalli og þolfalli eintölu. –s er líka venjuleg eignarfallsending hvorugkynsorða. Það er einkum þágufallið sem hægt væri að deila um. Bent hefur verið á að flest fornöfn fái –u í þágufalli eintölu; alltöllu, sumtsumu, sjálftsjálfu, mittmínu, o.s.frv., og því félli hán betur inn í kerfið ef þágufallið væri hánu. Þetta má til sanns vegar færa, en á móti má benda á að hán er persónufornafn og almennar reglur ná ekki til þeirra nema að sáralitlu leyti. Eins og við vitum er þágufallið af það ekki *þaðu eða *þvíu eða neitt slíkt, heldur því sem ekki endar á –u. Það er nokkuð öruggt að málnotendur læra myndir persónufornafna hverja fyrir sig án þess að styðjast við almenna reglu.Þess vegna skiptir það í raun litlu máli fyrir börn á máltökuskeiði hvernig beygingin er – þótt málfræðingar geti bent á að –u sé eðlileg þágufallsending fornafna í hvorugkyni eru litlar líkur á að börn nýti sér það í máltökunni. Öðru máli gegnir hins vegar um fullorðna. Hér erum við í þeirri stöðu að vera að innleiða nýtt fornafn í mál fólks sem er komið af máltökuskeiði. Í slíkum tilvikum skiptir máli að hægt sé að hafa stuðning af einhverju öðru í kerfinu. Eitt af því sem málnotendur virðast helst nota til þess er rím – fólk leitar að einhverju sem rímar við hán og finnur þá lán, og beygir hán á sama hátt. Það er mun ólíklegra að fólk beri saman við önnur fornöfn.

6. Það er óljóst hvernig á að beygja lýsingarorð með hán. Það liggur fyrir að hán er hvorugkynsfornafn og tekur með sér lýsingarorð í hvorugkyni – hán er skemmtilegt/ lasið/ ungt/ glatt o.s.frv. Ýmsum finnst þetta undarlegt og halda að þau sem vilja láta vísa til sín með hán séu á móti því að nota hvorugkyn um fólk. En svo er ekki – þau hafa ekkert á móti hvorugkyninu út af fyrir sig. Andstaðan beinist eingöngu gegn því að nota fornöfnin það og þetta í vísun til fólks, vegna þess að í þeirri notkun felist lítilsvirðing.

7. hán er óheppilegt og ljótt orð. Þetta er auðvitað smekksatriði. Mér fannst hán ljótt fyrst, en ég hef vanist því. Flest nýyrði hljóma undarlega eða kjánalega í byrjun og það er haft eftir Halldóri Halldórssyni prófessor að maður þurfi að segja nýtt orð sextíu sinnum til að venjast því. hán er auðvitað myndað með hliðsjón af hann og hún – hefst á h, endar á n og svo er sérhljóð þar á milli. Það má vitanlega velta fyrir sér hvert sérhljóðið ætti að vera. Sænska fornafnið hen er vitaskuld fyrirmyndin þarna og það hefði komið til greina að taka það beint upp. Mér finnst hán samt íslenskulegra og það hefur þann kost að tengja hann og hún betur saman – á er nefnilega tvíhljóð þar sem fyrri hlutinn er a eins og í hann og seinni hlutinn ú eins og í hún.

8. Það á ekki að handstýra málinu. Þetta heyrir maður úr ýmsum áttum þótt mismunandi viðhorf liggi að baki. Mörg eru á móti handstýringu vegna þess að þau vilja ekki að málið breytist neitt, en önnur eru á móti vegna þess að þau vilja leyfa málinu að þróast og breytast án meðvitaðra afskipta málnotenda. Ég get haft samúð með báðum sjónarmiðum, en tilfellið er að málið er alltaf að breytast, og við erum alltaf að hafa afskipti af þeim breytingum.Sum virðast gera grundvallarmun á því að koma í veg fyrir breytingar á málinu og gera breytingar á því – líta svo á að barátta gegn þágufallssýki, svo að dæmi sé tekið, sé barátta gegn breytingu á málinu. En það er hæpið viðhorf. Breytingin er þegar orðin í málkerfi stórs hluta málnotenda. Ef við krefjumst þess að þau sem segja mér langar fari að segja mig langar í staðinn erum við í raun að gera kröfu um að þau breyti máli sínu – erum að handstýra málinu. Ég hef grun um að veruleg skörun sé milli þess hóps sem vill berjast með oddi og egg gegn þágufallssýki og þess hóps sem telur að ekki megi breyta málinu með því að innleiða nýtt persónufornafn. Mér finnst afstaða þess hóps órökrétt.

Vissulega er ekkert auðvelt að breyta málnotkun sinni þegar um er að ræða fyrirbæri sem eru jafn inngróin í málkerfi manns og persónufornöfn. Ég þarf alltaf að hugsa mig um þegar ég nota hán – en það þarf ég líka að gera þegar ég tala um ær og kýr. Þetta tekur tíma – en það þýðir ekki að það sé ógerlegt.

Að því sögðu get ég alveg tekið undir það að handstýring tungumálsins er almennt séð óæskileg. En það er ekki síður óæskilegt að hópur fólks upplifi sig utangarðs í móðurmáli sínu.