Uppi á stórum stalli Jón
Sunnudaginn 12. september næstkomandi verð ég meðal fyrirlesara á málþingi sem Rannsókna- og fræðasetur Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra stendur fyrir. Þingið ber yfirskriftina "Framtíð Jóns Sigurðssonar - Karlar á stalli og ímyndasköpun" og er efnt til þess í tilefni af væntanlegu stórafmæli Jóns forseta á næsta ári. Aðrir fyrirlesarar eru Sigurður Gylfi Magnússon, Páll Björnsson og Guðmundur Hálfdanarson. Ég hyggst fjalla um líkneski Jóns forseta sem stendur á Austurvelli gegnt Alþingishúsinu en upprunalega hugmyndin var að koma því fyrir framan við Safnahúsið við Hverfisgötu. Saga þess tengist einnig styttum af Bertel Thorvaldsen, Jónasi Hallgrímssyni, Kristjáni IX og Hannesi Hafstein sem settir voru á stall í höfuðstaðnum á árabilinu 1875 til 1931. Þess má geta að kynning á málþinginu á Skagaströnd á eyjunni.is hefur vakið töluverða athygli og umræður. Þingið fer fram í Bjarmanesi á Skagaströnd, það stendur frá kl. 13.00 til 16.00 og er öllum opið.