Sameiningartákn þjóðarinnar

Jón Karl Helgason, 17/09/2010

Í tengslum við Vísindavöku, sem haldin er föstudaginn 24. september, býður RANNÍS almenningi í Vísindakaffi dagana á undan á Súfistanum, Laugavegi 18, frá kl. 20.00-21.30. Fimmtudaginn 23. september mun ég fjalla þar um efnið "Hver eru sameiningartákn íslensku þjóðarinnar? Frá Njáli Þorgeirssyni til Helga Hóseassonar." Mig langar til að fá gesti til að velta fyrir sér með hvaða hætti ýmsar persónur úr íslenskri sögu og bókmenntum hafa til lengri eða skemmri tíma orðið fulltrúar þjóðarinnar allrar eða tiltekinna hópa innan hennar. Meðal þess sem ber á góma eru styttur og minnismerki í Reykjavík, rithöfundasöfn á landsbyggðinni, götuheiti og íslenskir peningaseðlar. Þess má geta að rannsóknarverkefnið Cultural Saints of the European Nation States verður kynnt á Vísindavökunni í Hafnarhúsinu daginn eftir frá kl. 17.00-22.00.