Kapphlaupið milli Bjarna og Jónasar
"Bjarni eða Jónas? Kanónísering þjóðskálds á 19. öld," er titillinn á erindi sem ég flyt á Jónasarvöku í Þjóðmenningarhúsinu 16. nóvember kl. 17.15. Hugmyndin er kanna þann núning sem var á milli aðdáenda Bjarna Thorarensen og Jónasar Hallgrímssonar á árabilinu 1880-1900 um það hvor ætti frekar skilið að bera lárviðarsveig þjóðskáldsins. Bogi Melsteð hélt minningu Bjarna mjög á lofti og gerði honum hátt undir höfði í Sýnisbók íslenskra bókmennta á 19. öld sem út kom 1891. Bogi sat ennfremur í nefnd um gerð minnisvarða um skáldið en fjársöfnun vegna hans virðist ekki hafa gengið sem skyldi. Svo fór að Jónas skaut Bjarna ref fyrir rass, meðal annars fyrir atbeina manna eins og Hannesar Hafstein. Því er það að Dagur íslenskrar tungu er 16. nóvember, fæðingardagur Jónsar, en ekki 30. desember, fæðingardagur Bjarna.