Dularfulla fánastangamálið
Að morgni 16. nóvember 1907, þegar menn hugðust draga upp blá-hvíta fána í tilefni af aldarafmæli Jónasar Hallgrímssonar, komust þeir að því að búið var að skera á bönd fjölmargra fánastanga í miðbæ Reykjavíkur. Í fyrirlestrinum "Dularfulla fánastangamálið. Átökin í kringum aldarminningu Jónasar Hallgrímssonar", sem ég flyt á síðara Hugvísindaþingi 26. mars, verður þessi dularfulli „glæpur“ tekinn til rannsóknar og tengdur afhjúpun á styttu Jónasar síðar þennan sama dag, sem og flokkadráttum í íslenskum stjórnmálum á fyrstu árum heimastjórnarinnar. Fyrirlesturinn er hluti af málstofu um Menningarsagnfræði í stofu 52 í kjallara Aðalbyggingar Háskóla Íslands sem hefst kl. 15.00.