Lesendur Svövu leggja höfuðið í bleyti
Smásaga Svövu Jakobsdóttur, ,,Saga handa börnum”, var meðal lesefnis á námskeiðinu Íslenskar bókmenntir síðari alda sem ég kenndi nemendum á þriðja ári í Íslensku sem annað mál á þessu vori. Við undirbúning kennslunnar rakst ég á athyglisverða umræðu um söguna á lesendasíðu dagblaðsins Vísis frá kvennaárinu 1975 en þar var meðal annars deilt um heilaleysi aðalpersónu sögunnar og meint fattleysi lesenda hennar. Einn málshefjenda sagði af þessu tilefni: "Mér þótti sagan ljót — ég vil segja viðbjóður. Ég held þó, að ég sé ekki það sljó(r), að ég skilji ekki til fullnustu, hvert verið er að fara.“ Hægt er að fræðast nánar um þessi skoðanaskipti í nýjum pistli á Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs.