Félagslegt hlutverk þjóðardýrlinga
"Relics and Rituals: The Canonization of Cultural "Saints" from a Social Perspective," er titill á grein sem ég hef nýverið birt í slóvenska tímaritinu Primerjalna književnost (Samanburðarbókmenntir). Í greininni fjalla ég um félagslegt hlutverk þjóðardýrlinga í ljósi á helgifestu þriggja 19. aldar skálda; slóvenska ljóðskáldsins France Prešeren, danska ævintýraskáldsins Hans Christian Andersen og loks Jónasar Hallgrímssonar. Samanburður á arfleifð þeirra þriggja leiðir meðal annars í ljós and Andersen hefur athyglisverða sérstöðu gagnvart þeim Prešeren og Jónasi sem markast meðal annars af því að Danir háðu ekki sjálfstæðisbaráttu á 19. og 20. öld, ólíkt Slóvenum og Íslendingum. Dagana 1-.3. september næstkomandi kynni ég þær rannsóknir sem hér um ræðir á ráðstefnunni Literary Dislocations sem evrópsk samtök samanburðarbókmenntafræðinga standa fyrir í borgunum Skopje og Ohrid í Makedóníu, en á ráðstefnunni verður sérstök málstofa helguð evrópskum þjóðardýrlingum.