Hafmeyjustyttur og gosdrykkjakælar
Nýjasta hefti Ritsins er að hluta til helgað fræðigreinum um Evrópu. Mitt framlag til þeirrar umfjöllunar er greinin "Menningarlegir þjóðardýrlingar Evrópu. Samanburður á France Prešeren og Hans Christian Andersen". Hún byggir á rannsóknum sem ég vann í síðasta rannsóknarleyfi mínu í Kaupmannahöfn og Ljúblíana en á liðnu ári birti ég einnig tvær greinar á ensku um þetta sama efni, auk þess að taka þátt í málstofu um þjóðardýrlinga í Skopje og Ohrid í Makadóníu. Í niðurstöðum íslensku greinarinnar segir meðal annars: "Þegar hugað er að félagslegu hlutverki þjóðardýrlinga innan þjóðríkisins liggur beint við að bera það saman við þau örlög sem textar og listaverk þessara sömu manna hafa fengið í neyslusamfélagi nútímans. Líkt og Itamar Even-Zohar hefur bent á eru þessi verk sjaldnast skynjuð og skilin í heild sinni eða í sögulegu samhengi; þegar þau hafa orðið hluti af hinu svonefnda hefðarveldi (e. canon) er þeim gjarnan dreift til almennings í bútum. Styttan af hafmeyjunni og þjóðsöngur Slóveníu, þar sem aðeins eru sungin valin erindi úr ljóði Prešerens, eru dæmi um þetta en það mætti líka nefna að vasaútgáfur af hafmeyjunni eru afar vinsæll minjagripur í Danmörku. Með hliðstæðum hætti er stór ljósmynd af líkneski slóvenska skáldsins á Prešerenstorgi algeng skreyting á gosdrykkjakælum sem standa við hlið söluturna í Ljúblíana og víðar um Slóveníu."