Lárviðarskáld. Valið milli Bjarna og Jónasar

Jón Karl Helgason, 13/03/2012

"Lárviðarskáld. Valið milli Bjarna Thorarensen og Jónasar Hallgrímssonar" er titill á nýrri grein sem ég birti í fyrsta hefti Tímarits Máls og menningar 2012. Í inngangi vek ég athygli á því að fram eftir nítjándu öld voru þeir Bjarni og Jónas gjarnan nefndir í sömu andrá sem bestu skáld þjóðarinnar. Síðan segir: "Í ljósi þessa mats er forvitnilegt að velta fyrir sér hvenær, hvernig og hvers vegna Jónas skýtur Bjarna ref fyrir rass sem þjóðskáld. Nú er svo komið að afmælisdegi Jónasar, 16. nóvember, er minnst árlega sem Dags íslenskrar tungu og fæðingarstaður hans, Hraun í Öxnadal, er friðlýstur fólkvangur. Hvorki afmælisdagur Bjarna né fæðingarstaður hans, Brautarholt á Kjalarnesi, njóta slíkrar blessunar af hálfu opinberra aðila. Ekki er til einföld skýring á því af hverju þróunin hefur orðið með þessum hætti en hér verður hugað að nokkrum vísbendingum um núning og meting milli stuðningsmanna þeirra tveggja á ofanverðri nítjándu öld um hvor ætti fremur skilið að bera lárviðarkrans. Athyglisvert er að í báðum hópum koma nánir ættingjar skáldanna tveggja við sögu." Og svo hefst greinin ...