Að endingu eftir Julian Barnes
Út er komin hjá Bjarti þýðing mín á skáldsögunni Að endingu (The Sense of an Ending) eftir breska rithöfundinn Julian Barnes. Sögumaður verksins er Tony Webster sem á að baki farsælan starfsferil og hjónaband sem rann hljóðlega út í sandinn. Hann er sáttur við fortíð sína án þess að leiða oft hugann að henni - allt þar til honum berst bréf frá lögmanni sem neyðir hann til að horfast í augu við sjálfan sig og tvo æskuvini, einn lífs, annan liðinn. Julian Barnes er í hópi snjöllustu núlifandi rithöfunda Bretlands en á liðnu ári hlaut hann hin eftirsóttu Booker-verðlaun fyrir þessa áleitnu og hnitmiðuðu sögu.