Framgangur, rannsóknarleyfi, doktorsvörn
Í vikunni var mér tilkynnt að ég hefði fengið framgang í starfi úr stöðu dósents í stöðu prófessors við Háskóla Íslands. Á vorönn 2013 verð ég í rannsóknarleyfi og hyggst ég verja hluta þess við rannsóknir í Cambridge í Bretlandi. Höfuðviðfangsefni mitt eru viðtökur og endurritun íslenskra miðaldabókmennta en fyrr á árinu skrifaði ég undir samning við breska útgáfufyrirtækið Reaktion Books um ritun bókar um það efni. Vinnutitill verksins er Afterlife of Eddas and Sagas og er áætlað útgáfuár 2015. Einnig vonast ég til að geta varið hluta tímans í Slóveníu og unnið þar með Marijan Dović að sameiginlegu verkefni sem ber titilinn Cultural Saints of European Nation States. Loks má geta að 10. desember næstkomandi verð ég einn þriggja andmælenda við doktorsvörn Kim Simonsen við Hróaskelduháskóla en doktorsritgerð hans fjallar m.a. um tilurð og þróun færeyskrar þjóðarímyndar. Ps. Nú er hægt að nálgast upptöku af doktorsvörn Kim Simonsen á heimasíðu Hróaskelduháskólans.