Andmælaræður birtar í Sögu
Í nýju hefti Sögu, tímarits Sögufélagsins, birtust andmælaræður okkar Rósu Magnúsdóttur sem fluttar voru við doktorsvörn Ólafs Rastricks í febrúarmánuði síðastliðnum en hann varði þá doktorsritgerð í sagnfræði, Íslensk menning og samfélagslegt vald 1910‒1930. Í ræðu minni gagnrýndi ég Ólaf einkum fyrir ófullnægjandi umfjöllun um skrif Sigurðar Nordals en ég hrósaði honum meðal annars fyrir hve víðfeðma sýn hann hefði á viðfangsefnið. Ég segi í því sambandi: "Ekki er aðeins hugað að umræðum manna um viðurkenndar listgreinar á borð við myndlist, sígilda tónlist og fagurbókmenntir, heldur er einnig vikið að skrifum um listamannalaun, fatatísku, djasstónlist, kvikmyndir, áfengisnotkun og samkvæmisdansa, svo dæmi séu tekin, sem og þeim merkilegu tengslum sem eru milli skattlagningar á tiltekin svið menningar og framlaga til annarra sviða hennar. Þá er lofsvert hvernig Ólafur, í greiningu á opinberum afskiptum af menningarmálum, horfir „til ríkisins sem fjölbreytilegs og ósamstæðs safns stofnana, sjónarmiða og markmiða“ (bls. 140) og tekur þar að auki tillit til mikilvægs starfs frjálsra félagasamtaka á þessum vettvangi." Þess verður vonandi ekki langt að bíða að ritgerð Ólafs komi út á bók.