Tieck, Fjölnir og fjölkerfakenning Even-Zohars
"Der Blonde Eckbert in an Alien Polysystem. The Reception of Tieck’s «skröksaga» in 19th-Century Iceland", er titill á grein sem ég birti í greinasafninu Textual Production and Status Contests in Rising and Unstable Societies sem út er komið í ritstjórn Massimiliano Bampi og Marina Buzzoni hjá Ca' Foscari-háskólanum í Feneyjum. Greinin fjallar um viðtökur á ævintýri eftir þýska skáldið Tieck sem birtist í íslenska tímaritinu Fjölni árið 1837. Eins og aðrir höfundar sem eiga greinar í safninu styðst ég við fjölkerfakenningu ísraelska fræðimannsins Itamars Even-Zohar en hann á einmitt fyrstu grein bókarinnar sem fjallar um íslenskar miðaldabókmenntir og hlutverk þeirra í íslensku miðaldasamfélagi. Bókin er hluti af ritröðinni Filologie medievali e moderni og er aðgengileg á netinu.