Meistaranemar vinna efni fyrir Hugrás og Sirkústjaldið
"Loksins, loksins: Vinnustofa í menningarblaðamennsku" nefnist námskeið sem við Brynja Þorgeirsdóttir kennum á meistarastigi í Íslensku á þessu hausti. Þeir 25 nemendur sem skráðir eru í námskeiðið skila vikulega af sér einum texta (menningarfrétt, gagnrýni, viðtali, pistli) sem snertir menningarlíf samtímans. Nemendur lesa yfir efni hverjir hjá öðrum, þá les ég næstu gerð textana og loks ritstýrir Brynja því efni sem nemendur hafa hug á að birta á Hugrás. Sumt efni úr námskeiðinu hefur birst á menningarvefnum Sirkústjaldinu sem nemendur innan Íslensku- menningardeildar ritstýra sjálfir. Á síðustu vikum hafa hátt í 20 textar hópsins birst á Hugrás, þar á meðal fjölbreytt kvikmyndagagnrýni um myndir sem sýndar voru á RIFF. Þá hafa fjórir textar birst á Sirkústjaldinu, nú síðast pistill eftir Sigríði Nönnu Gunnarsdóttur, sem er meðal ritstjóra vefsins.