Spjallað við Kjarnann um styttur bæjarins
"Engir falískir eirstöplar fyrir konur," er yfirskrift hljóðritaðs viðtals við mig sem birtist á Kjarnanum í þessari viku í viðtalsröðinni Þáttur um kúl hluti. Við Birgir Þór Harðarson hittumst á kaffihúsinu í Ráðhúsi Reykjavíkur og spjölluðum saman í tæpan hálftíma um stytturnar í Reykjavík, sögu þeirra og merkingu. Tilefnið var að einhverju leyti útgáfa bókar minnar Ódáinsakur: Helgifesta þjóðardýrlinga sem Sögufélagið gaf út fyrir rúmu ári síðan. Talið barst m.a. að styttunum af Jónasi Hallgrímssyni og Bertel Thorvaldsen en einnig að Vatnsbera Ásmundar Sveinssonar og Óþekkta embættismanninum eftir Magnús Tómasson.