Hvernig á maður að skrifa menningarsögu?
Föstudaginn 30. janúar verð ég gestur á vikulegum hádegisfundi Sagnfræði- og heimspekideildar um söguleg efni. Þar hyggst ég ræða kafla um menningarsögu 20. aldar sem ég er að skrifa fyrir lokabindi Sögu Íslands en áætlað er að það komi út síðar á þessu ári. Í kaflanum, sem stefnir í að verða um 60-80 síður að lengd, langar mig annars vegar til að lýsa því hvernig menningarkerfið byggist upp frá einum áratug til annars og hins vegar hvernig nútíminn nær smám saman fótfestu innan ólíkra listgreina. Viðfangsefnið er í senn ákaflega víðfeðmt og spennandi en eftir því sem ég kemst nær því að ljúka verkefninu kvarnast úr trú minni á gildi þess. Fundurinn verður kl. 12-13 í Gimli, stofu 102.