Wagner og víkingametal
"From Wagner to Viking Metal" er titill á fyrirlestri sem ég flyt við Humboldt-Universität í Berlín miðvikudaginn 22. apríl næstkomandi. Þar hyggst ég ræða um endurtekin þemu í textagerð valdra víkinga-metal hljómsveita (þar á meðal einnar frá Mexíkó) og tengja þau útbreiddum hugmyndum í dægurmenningu 20. aldar um Valhöll sem paradís heiðinna manna. Einnig hyggst ég rekja þræði frá tónlist hljómsveitanna aftur til endurvinnslu Wagners á arfleifð eddukvæða. Fyrirlesturinn, sem hefst kl. 18.00, er hluti af fyrirlestrarröðinni Das Alte im Neuen. Aktualisierungen der altnordischen Literatur in der Gegenwartskultur sem Nordeuropa-Institut við skólann skipuleggur nú á vordögum.