Herra Þráinn (Mr. Wanna B.)
Þriðja og síðasta hefti tímaritraðarinnar 1005 kemur út sunnudaginn 10. maí næstkomandi. 1005 samanstendur af sjö sjálfstæðum verkum að þessu sinni en þau eru: Eftirherman eftir Thomas Bernhard í þýðingu Óskars Árna Óskarssonar, Fæðingarborgin í útgáfu Oddnýjar Eirar Ævarsdóttur, Blindur hestur eftir Eirík Guðmundsson, Jarðvist eftir Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur, Fundur útvarpsráðs 14. mars 1984 og mótandi áhrif hans á kynverund drengsins og fleiri sögur eftir Ragnar Helga Ólafsson, Tvöfalt gler eftir Halldóru Thoroddsen og Herra Þráinn eftir þann sem þetta ritar. Líkt og sum fyrri verk mín rásar bókin sú á alvörulausum mörkum fræða og skáldskapar. Lesandinn slæst í för með herra Þránni sem ver dýrmætum tíma í að hlusta á Þórhall miðil í útvarpinu, skoða Marlboro-auglýsingar í erlendum tímaritum og horfa á ljósmynd af Sophiu Loren og Jayne Mansfield inni á klósetti, milli þess sem hann svitnar í spinning í World Class. Sá sem hefur séð sjálfsupptekinn nútímann með augum herra Þráins mun í versta falli rakna úr áralöngu roti og í besta falli yppta öxlum. Útgáfuhóf 1005 verður 10.05 í Mengi, Óðinsgötu 2, frá kl. 16-18. Allir velkomnir.