Teiknimyndasaga byggð á Vafþrúðnismálum
Hvað mælti Óðinn? er titill á teiknimyndasögu sem við Bjarni Hinriksson höfum unnið að síðasta aldarfjórðunginn. Sagan er nú komin út undir merkjum Gisp! en Froskur útgáfa annast dreifinguna. Verkið er frjálsleg endursköpun á eddukvæðinu Vafþrúðnismálum, einu elsta og vanmetnasta snilldarverki íslenskrar bókmenntasögu. Kvæðið lýsir háskalegri fróðleikskeppni Óðins og jötunsins Vafþrúðnis en birtir um leið heimsmynd heiðinna manna með eftirminnilegum hætti. Samkvæmt Vafþrúðni var jörðin upphaflega smíðuð úr skrokki jötunsins Ýmis en hann spáir jafnframt fyrir um endalok Óðins og fleiri guða í Ragnarökum. Kvæðið er túlkað í litríkum teikningum Bjarna en jafnframt ort upp á nútímamáli af okkur Jóni Halli Stefánssyni. Við efnum til útgáfufagnaðar á Kaffi Laugalæk/Gallerí Laugalæk föstudaginn 21. október kl. 17.00.