Bandaríska bylgjan og Weird Comics árið 1940
"Bandaríska bylgjan" er yfirskrift málstofu sem ég tek þátt í á Hugvísindaþingi föstudaginn 9. mars frá klukkan 13.30-16.00. Þar munum við Ásta Kristín Benediktsdóttir, Ástráður Eysteinsson, Haukur Yngvarsson, Magnús Sigurðsson, Kristín Svava Tómasdóttir ræða um bandaríska list og menningu í íslensku samhengi. Horft verður á landnám bandarískra bókmennta og kynningu á bandarískri nútímalist á Íslandi, rýnt verður í hasarblöð og teiknimyndasögur og bandarískir hermenn skoðaðir í hómóerótísku ljósi. Eins verður horft vestur um haf þar sem íslensk miðaldarit verða hluti bandarískrar dægurmenningar. Fyrirlestur minn nefnist "Norrænar goðsögur og amerísk hasarblöð á árum síðari heimsstyrjaldar" en höfuðviðfangsefnið verður röð myndasagna eftir Wright Lincoln (sem er líklega dulnefni) um Þór (Thor) í tímaritinu Weird Comics árið 1940. Útgefandi var fyrirtækið Fox Feature Syndicate en meðal annarra sem þar störfuðu voru Jack Kirby og Joe Simon. Báðir áttu þeir eftir að skapa myndasögu um þrumuguðinn norræna, ekki síst Jack Kirby.