Íslenskt listalíf í stásstofum
Á 16. og 17. öld skapaðist sú hefð meðal betri borgara á Ítalíu og í Frakklandi að efna til menningarviðburða í heimahúsum. Starfsemi af þessu tagi, sem jafnan var kennd við vettvang sinn, stássstofuna (fr. salon), breiddist hratt út um alla Evrópu og víðar á næstu áratugum. Við Kristín Bragadóttir og Sveinn Yngvi Egilsson stöndum fyrir málstofu á Hugvísindaþingi þar sem verður hugað að íslenskum heimilum í Reykjavík og á Eyrarbakka á 19. og 20. öld sem þjónuðu líku hlutverki og hin evrópska stásstofa. Athyglin beinist meðal annars að Húsinu á Eyrarbakka og Brekkubæ, og Aðalstræti 6 í Reykjavík. Málstofan verður í stofu 309 í Árnagarði föstudaginn 7. mars kl. 15.15-16.45. Fyrirlestur minn, sem nefnist "Lýðræðisleg þekkingarrými. Frá Ármanni á Alþingi til Unuhúss", ætti að hefjast kl. 16.15.